29.11.2019 | 23:45
Íslenskt rapp í Færeyjum
Á morgun, annað kvöld (laugardaginn 30. nóvember), verður heldur betur fjör í Þórshöfn, höfuðborg Færeyja. Þá verður blásið til stórhátíðar á skemmtistaðnum Sirkusi. Hún hefst klukkan átta. Um er að ræða matar og menningar pop-up (pop-up event). Þar fer fremstur í flokki Erpur Eyvindarson. Hann rappar á íslensku undir listamannsnafninu Blaz Roca (sló fyrst í gegn er hann sigraði Músíktilraunir sem Rottweilerhundur). Jafnframt verður boðið upp á spennandi kóreskan götumat (street food).
Einnig bregða á leik plötusnúðurinn DJ Moonshine, svo og færeysku skemmtikraftarnir Marius DC og Yo Mamas.
Um síðustu helgi bauð Erpur upp á hliðstæðan pakka í Nuuk, höfuðborg Grænlands. Honum verða gerð góð skil í sjónvarpsþættinum Landanum á RÚV núna á sunnudaginn. Vonandi verður hátíðin í Færeyjum í Landanum um þar næstu helgi. Sirkus er nefnilega flottur skemmtistaður (er alveg eins og Sirkus sem var á Klapparstíg í Reykjavík sællar minningar). Þar er alltaf einstaklega góð stemmning sem Erpur á klárlega eftir að trompa.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann á samskipti við nágranna okkar. Á fyrri hluta aldarinnar gerði hann út rappsveitina Hæstu hendina með dönskum tónlistarmönnum (já, ég veit að hendin er röng fallbeyging, "slangur" úr pókerspili). Á dúndurgóðri plötu hljómsveitarinnar frá 2004 eru m.a. gestarapparar frá Færeyjum og Grænlandi.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2019 | 02:13
Hvers lenskir voru / eru Bítilarnir?
Einhverra hluta vegna er lífseig slúðursaga um að breski Bítillinn Ringo Starr sé af færeysku bergi brotinn. Þetta hefur aldrei verið staðfest. Þó hafa verið færð ágæt rök fyrir þessu. Samt án bitastæðrar innistæðu. Bestu rökin eru að margir Færeyingar líkjast Ringo (samt enginn eins og smíðakennari á Eiðum). Ég bæti við þeim rökum að margir Færeyingar spila á trommur og syngja.
Hérlendis er oftar talað um bresku Bítlana en ensku Bítlana. Sem er réttmætt. Bítlarnir voru / eru nefnilega meiri Bretar en Englendingar. Vissulega allir fæddir og uppaldir í ensku iðnaðar- og hafnaborginni Liverpool.
Oft hefur verið bent á hvað Bítlarnir voru samstíga á flestum sviðum. Þeir voru um margt eins og eineggja fjórburar. Þeir höfðu sama smekki fyrir flestu. Ekki aðeins í tónlist sem þeir framþróuðu gróflega. Líka varðandi smekk á kvikmyndum, mat, stjórnmálum og áhugaleysi á fótbolta (sem er stóra málið í Liverpool). Fyrst greiddu þeir hár niður enni. Svo síkkaði hárið og var skipt í miðju. Um svipað leyti hættu þeir að raka sig.
Allir Bítlarnir voru / eru af írskum ættum. Þar af voru Paul og John meiri Írar en Englendingar. Eftirnafn Pauls, McCartney, ber það með sér. Paul og John skiptu sér af ískum stjórnmálum í lögunum "Give Ireland Back to the Irish", "Sunday Bloody Sunday" og "Luck of the Irish". Á Írlandi og Englandi eru málefni Írlands og Englands verukega stórt dæmi. Paul og John fóru inn á meiriháttar sprengjusvæði mneð því að skipta sér af írska vandamálinu.
Um aldamótin spilaði ég á hljómleikum í Skotlandi. Hitti þar danskan náunga sem sækir allskonar ráðstefnur víða um heim. Hann sagði mér að Íslendingar og Írar eigi það sameiginlegt að segja sögur. Spjall við aðra snúist um spurningu og stutt svar. Írar og Íslendingar skiptast á sögum. Einkenni seinni ferils Bítla er írska söguhefðin.
Allir Bítlanrir nema Ringo áttu ættir að rekja til Weils. Allir Bítlarnir nema John voru af skoskum ættum. Paul hefur sterkar taugar til Skotlands. Hann hefur búið þar í hálfa öld og alið sín mörgu börn þar upp. Jafnframt hefur hann vitnað til skoskrar tónlistar, svo sem í laginu "Mull of Kintyre".
Tónlist | Breytt 27.11.2019 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.11.2019 | 00:01
Skammir
Ég var staddur í matvöruverslun. Þar var kona að skamma ungan dreng, á að giska fimm eða sex ára. Ég hlustaði ekki á skammirnar og veit ekki út á hvað þær gengu. Þó heyrði ég að konan lauk skömmunum með því að hreyta í drenginn: "Þú hlustar aldrei á mig!"
Hún gat ekki varist hlátri - fremur en viðstaddir - þegar strákurinn svaraði hátt, snjallt og reiðilega: "Stundum finnst mér nú eins og ég hlusti of mikið á þig!"
18.11.2019 | 00:01
Gangbraut, strætóskýli, kyrrstæðir bílar, sektir...
Margt er brogað hér í borg;
ég bévítans delana þekki.
Hagatorg er hringlaga torg
en hringtorg er það samt ekki!
Fyrir þá sem þekkja ekki til: Hagatorg er hringlaga torg fyrir framan Hótel Sögu. Bílar mega ekki stöðva þegar ekið er í kringum torgið. Sá sem stöðvar er umsvifalaust sektaður. Við torgið stendur veglegt strætóskýli. Vandamálið er að strætó má ekki stöðva við skýlið - að viðlagðri sekt. Sama á við um bíla sem þurfa að stöðva fyrir aftan ef strætó stoppar. Sjaldnast stoppar hann við skýlið. Þar híma viðskiptavinir bláir af kulda dögum saman og horfa upp á hvern strætóinn á fætur öðrum aka hjá án þess að stoppa.
Þvert yfir torgið liggur gangbraut. Bílstjórar mega ekki stöðva til að hleypa gangandi yfir. Stöðvun kostar fjársekt. Hinsvegar er refsilaust að keyra gangandi niður. Einhverjir embættismenn halda því þó fram að gangbrautin eigi réttinn. Hringtorgið sé nefnilega ekki hringtorg.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2019 | 00:33
Ólíkt hafast þeir að
Tónlist | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.11.2019 | 00:02
Danir óttast áhrif Pútins í Færeyjum
Danski forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, er nú í Færeyjum. Erindið er að vara Færeyinga við nánari kynnum af Pútin. Ástæðan er sú að danskir fjölmiðlar hafa sagt frá þreifingum um fríverslunarsamning á milli Færeyinga og Rússa. Rússar kaupa mikið af færeyskum sjávarafurðum.
Ótti danskra stjórnmálamanna við fríverslunarsamninginn snýr að því að þar með verði Pútin komninn inn í danska sambandsríkið. Hann sé lúmskur, slægur og kænn. Hætta sé á að Færeyingar verði háðir vaxandi útflutningi til Rússlands. Rússar gætu misnotað þá stöðu. Heppilegra væri að dönsku sambandsríkin þjappi sér betur saman og hafi nánara samráð um svona viðkvæm mál.
Þetta er snúið þar sem Danir eru í Evrópusambandinu en Færeyingar og Grænlendingar ekki.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.10.2019 | 07:27
Bráðskemmtileg bók
Út var að koma bókin "Hann hefur engu gleymt... nema textunum!" Undirtitillinn er "Gamansögur úr íslenska tónlistarheiminum". Höfundur er Guðjón Ingi Eiríksson. Undirtitillinn lýsir bókinni. Gamansögunum fylgja áhugaverðir fróðleiksmolar um tónlistarmenn og heilmikil sagnfræði.
Sögurnar eru fjölbreyttar og skemmtilegar. Spanna marga áratugi og ná til margra músíkstíla. Örfá dæmi:
"Hljómsveitin Upplyfting á sér langa sögu og merka og hafa margir velt því fyrir sér hvernig best væri að þýða nafn hennar, ef hún ákvæði nú að herja á útlönd. Hinir sömu hafa væntanlega allir komist að sömu niðurstöðunni, nefnilega... Viagra!
Karlakórinn Fóstbræður fór í söngferð til Algeirsborgar í Alsír fyrir margt löngu síðan. Þegar kórinn kom aftur heim varð Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, að orði: "Þá er Tyrkjaránsins hefnt!"
Nokkrum árum eftir að Megas hafði búið á Siglufirði, eins og fyrr greinir, hélt hann tónleika þar. Opnunarorð hans voru: "Mér er sagt að ég hafi einhvern tímann búið hérna."
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2019 | 07:32
Dularfullt í Ikea
Ég átti erindi í Ikea. Eða réttara sagt gerði ég mér upp erindi þangað. Ég átti leið um Hafnarfjörð og fékk þá snilldar hugmynd í kollinn að koma við í Ikea og kíkja á veitingastaðinn á annarri hæð. Ég tek fram og undirstrika að ég hef engin tengsl við Ikea. Kann hinsvegar vel við verð og vöruúrval fyrirtækisins.
Eftir að hafa keypt veitingar settist ég sæll og glaður niður við borð. Á næsta borði var diskur með ósnertum hangiskanka, meðlæti og óopnaðri Sprite-flösku. Enginn sat við borðið.
Fyrst datt mér í hug að eigandi máltíðarinnar væri að sækja sér bréfaþurrku eða eitthvað annað. En ekkert bólaði á honum. Ekki þær 20 mínútur sem ég dvaldi á staðnum. Þetta er skrýtið. Ég velti fyrir mér möguleikum: Hvort að viðkomandi hafi verið geimvera sem var geisluð upp áður en máltíðin var snædd. Eða hvort að minnisglöp (Alzheimer) hafi komið við sögu. Þriðji möguleikinn er að útlendur ferðamaður hafi keypt matinn. Tilgangurinn hafi ekki verið að borða hann heldur taka ljósmynd af honum til að pósta á Fésbók; sýna vinum og vandamönnum hvernig séríslensk máltíð lítur út. Hlutverk gosdrykksins hafi þá verið það eitt að sýna stærðarhlutföll. Eða hvað?
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
20.10.2019 | 05:42
Sökudólgurinn gripinn glóðvolgur
Í árdaga tölvunnar var sett upp tölvustofa í Háskóla Íslands. Tölvurnar voru frumstæðar og kostuðu skildinginn. Fljótlega kom upp sú staða að lyklaborðin biluðu. Þetta var eins og smitandi sýki. Takkar hættu að virka eða skiluðu annarri niðurstöðu en þeim var ætlað. Þetta var ekki eðlilegt. Grunur kviknaði um að skipulögð skemmdarverk væru unnin á tölvunum. Eftirlitsmyndavélum var komið fyrir í stofunni svo lítið bar á. Þær fundu sökudólginn. Hann reyndist vera ræstingakona; afskaplega samviskusöm og vandvirk með langan og farsælan feril.
Á hverju kvöldi skóladags þreif hún tölvustofuna hátt og lágt. Meðal annars úðaði hún yfir tölvurnar sótthreinsandi sápuúða sem hún þurrkaði jafnharðan af. Hún úðaði einnig vökvanum yfir lyklaborðin. Vandamálið er að enn í dag - nálægt 4 áratugum síðar - eru lyklaborð afskaplega viðkvæm fyrir vökva. Ég votta það.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 05:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.10.2019 | 19:47
Bráðskemmtilegt "Laugardagskvöld með Matta".
Ég var að hlusta á skemmtilegan útvarpsþátt, "Laugardagskvöld með Matta", á Rás 2. Gestur þáttarins var Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Skriðjökull. Hann kynnti fyrir hlustendum uppáhaldslögi sín. Þar rataði hver gullmolinn á fætur öðrum. Gaman var á að hlýða. Líka vegna þess að fróðleiksmolar flutu með.
Snemma í þættinum upplýsti Logi undanbragðalaust að hans uppáhald sé bítillinn Paul McCartney. "Minn maður," sagði hann. Ekki vissi hann af hverju. Hinsvegar þykir honum vænt um að dóttir hans hefur erft aðdáun á Paul. Svo spilaði Logi uppáhaldslag sitt með Paul. Það var "Come Together", opnulag plötunnar "Abbey Road".
Er lagi lauk gerði Matti athugasemd. Hann sagði: "Þetta er Lennon-legt lag en Paul á það, eða hvað?" Logi svaraði: "Ég veit það ekki. Ég hef aldrei kafað það djúpt í þetta."
Hið rétta er að lagið er samið og sungið af John. Höfundareinkenni Johns eru sterk. Bæði í söng og blúsaðri laglinu.
Í frekara spjalli um "Abbey Road" upplýsti Logi að John og Paul hafi átt óvenju fá lög á plötunni. Hún væri eiginlega plata George Harrisons. Hann eigi þessi fínu lög eins og "Here Comes the Sun" og "Strawberry Fields".
Hið rétta er að Lennon-McCartney eiga 14 af 17 lögum plötunnar. Ringo á 1 og George 2. Vissulega eru lög George virkilega góð og að mati mínu og Lennons bestu lög plötunnar. Logi nefndi réttilega "Here Comes the Sun" en hitt lag George á plötunni er "Something". Ekki "Strawberry Fields". Það er Lennon-lag sem kom einungis út á smáskífu en löngu síðar á geisladiski með "Sgt. Peppers...".
Tekið skal fram að með þessum pósti er ég ekki að reyna að gera lítið úr stjórnmálamanninum Loga Einarssyni. Stjórnmálamenn þurfa ekki að vera með sögu Bítlanna á hreinu. Sú hljómsveit starfaði stutt. Plötuupptökur hennar spönnuðu aðeins 6 ár, 1963-1969. Þeim mun merkilegra og skemmtilegra er að fólk sé að hlusta á Bítlana 2019. Hvað varð um allar hinar hljómsveitirnar sem tröllriðu markaðnum á sama tíma og Bítlarnir: Love, Iron Butterfly, Crazy World of Arthur Brown, Soft Machine, Them, Strawbs...?
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.10.2019 | 00:03
Hótel Jórvík
Á tíunda áratug síðustu aldar átti ég erindi til Þórshafnar á Langanesi. Var með skrautskriftarnámskeið þar. Gisti á Hótel Jórvík. Hótelstýran var hölt öldruð kona. Hún var hálf heyrnarlaus. Lá því hátt rómur. Auk mín dvöldu á hótelinu flugmaður og dúettinn Súkkat.
Ég kom mér fyrir í hótelinu síðdegis á föstudegi; hafði herbergisdyrnar opnar. Ég heyrði að hótelsíminn hringdi. Kerla svaraði. Viðmælandinn var auðheyranlega að bjóðast til að hjálpa til. Hótelstýran hrópaði í tólið: "Ég slepp létt frá kvöldmatnum. Ég er bara með nýja kalla sem komu í dag. Hinir fóru í morgun. Ég get þess vegna hitað upp afganginn af karríkjötinu frá því á mánudaginn og nýju kallarnir fatta ekki neitt!"
Um kvöldið var karríkjötsréttur í matinn.
Hótelstýran lét okkur vita að hún hefði bjór og vín til sölu. Við gestirnir pöntuðum eitthvað af veigum. Enginn var barinn. Konan sótti drykkina inn í hliðarherbergi. Hún bar þá ekki fram í umbúðum heldur í vatnsglösum.
Nokkrum árum síðar var forsíðufrétt í DV um að við húsleit í Hótel Jórvík hefði fundist töluvert magn af heimabrugguðum bjór og víni ásamt bruggtólum. Hótelstýran sagðist ekki selja áfengi. Hún væri að geyma þetta fyrir sjómann sem hún vissi ekki hvað hét.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.10.2019 | 23:29
Stórtíðindi af breskri plötusölu
Þær eru óvæntar sviptingarnar í plötusölu í Bretlsndi þessa dagana. Og þó. Einhverjir voru búnir að spá því að mögulega gæti þessi staða komið upp. Formlegt heiti breska plötusölulistans er Official Album Chart Top 100. Hann mælir plötusölu í öllu formi, hvort heldur sem er vinyl, geisladiskar, niðurhal eða streymi.
Þetta eru söluhæstu plöturnar í dag:
1. Abbey Road með Bítlunum
2. Wy Me Why Not með Liam Gallagher
3. Divinlely Uninspired To A Hellish Extent með Levis Capaldi
Aldrei áður hefur hálfrar aldar gömul plata snúið aftur á vinsældalistann og endurheimt 1. sætið. Þetta er met. Á sínum tíma var platan í 13 vikur á listanum.
Í 28. sæti er Bítlaplatan 1. Hún hefur verið á listanum í 230 vikur. Þar af hæst í 1. sæti.
Í 69. sæti er Bítlaplatan Sgt Peppers Lonely Hearts Club Band. Hún hefur verið á listanum í 274 vikur. Þar af hæst í 1. sæti.
Í 72. sæti er Bítlasafnplatan 1967-1970. Hún hefur verið í 41 viku á listanum. Þar af hæst í 4. sæti.
Í 94. sæti er Bítlaplatan Hvíta albúmið. Hún hefur verið í 37 vikur á listanum. Þar af hæst í 1. sæti.
Menning og listir | Breytt 5.10.2019 kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.9.2019 | 23:42
Bítlalögin sem unga fólkið hlustar á
Síðasta platan sem Bítlarnir hljóðrituðu var "Abbey Road". Hún kom út undir lok september 1969. Þess vegna er hún hálfrar aldar gömul. Meiriháttar plata. Hún hefur elst vel. Hún gæti hafa komið út í ár án þess að hljóma gamaldags.
Svo merkilegt sem það er þá hlustar ungt fólk í dag á Bítlana. Bæði börn og unglingar. Í minni fjölskyldu og í mínum vinahópi eru Bítlarnir í hávegum hjá fjölda barna og unglinga. Lokaritgerð frænku minnar í útskrift úr framhaldsskóla var um Bítlana. Mjög góð ritgerð. Fyrir nokkrum árum hitti ég 14 ára dóttur vinafólks mín. Hún var svo fróð um Bítlana að ég hafði ekki roð við henni um smáatriði tengd Bítlatónlist. Tel ég mig þó vera nokkuð fróðan um Bítlana.
Spilanir á músíkveitunni Spotify staðfesta að þetta sama má segja um börn og unglinga út um allan heim.
Þessi Bítlalög eru mest spiluð af börnum og unglingum upp að 18 ára aldri.
1. Here Comes The Sun
2. Let It Be
3. Hey Jude
4. Come together
5. Twist And Shout
Þessi lög eru mest spiluð af aldurshópnum 18 - 24 ára:
1. I Want To Hold Your Hand
2. Here Comes The Sun
3. Come Together
4. Penny Lane
5. You Never Give Me Your Money
Tónlist | Breytt 5.10.2019 kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.9.2019 | 23:59
Ný James Bond mynd tekin í Færeyjum
2. apríl 2020 verður sýnd ný kvikmynd um breska leyniþjónustumanninn James Bond, 007. Hún hefur fengið heitið No Time to Die. Hún verður 25. myndin um njósnarann. Jafnframt er þetta 5. myndin með Daniel Craig í hlutverki 007.
Tökur eru hafnar. Tökuliðið er mætt til Færeyja ásamt áhættuleikurum. Líklega á að gera út á fagurt en sumstaðar hrikalegt landslag eyjanna. Enn ein staðfestingin á því að Færeyjar og Færeyingar hafa stimplað sig inn á heimskortið.
22.9.2019 | 23:05
Plötuumsögn
- Titill: Punch
- Flytjandi: GG blús
- Einkunn: ****1/2 (af 5)
GG blús er dúett skipaður Guðmundunum Jónssyni og Gunnlaugssyni. Sá fyrrnefndi spilar á gítar og er einn lunknasti smellasmiður landsins; þekktastur fyrir störf sín með Sálinni, Pelican, Vestanáttinni, Nykri og Kikki. Hinn síðarnefndi er best kunnur fyrir trommuleik með Kentári, X-izt og Sixties. Báðir voru í Jötunuxum. Báðir eru ágætir söngvarar og raddir þeirra liggja vel saman.
Töluverða færni og útsjónasemi þarf til að gítar/trommur dúó hljómi sannfærandi; að hlustandinn sakni ekki drynjandi bassalínu. Hljómsveitum eins og White Stripes, Black Keys og dauðapönksveitinni Gyllinæð hefur tekist þetta. Líka GG blús - og það með glæsibrag!
GG blús spilar kraftmikinn og harðan rokk-blús. Platan er bærilega fjölbreytt. Sum laganna eru mýkt með rólegum kafla. Hluti af söng í sumum lögum er keyrður í gegnum "effekt" sem lætur hann hljóma í humátt að gjallarhorni. Sjö af tíu lögum plötunnar eru frumsamin. Öll af Guðmundi Jónssyni. Þar af þrjú samin með nafna hans. Í hinu KK-lega "Lost and Found" er Mike Pollock meðhöfundur nafnanna og gestasöngvari. Aðkomulögin eru "Money" eftir Roger Waters, "Cradle" eftir Rory Gallagher og "Spoonful" eftir Willie Dixon, best þekkt í flutningi Howlin´ Wolf.
Flutningur GG blús á "Money" er ólíkur frumútgáfunni með Pink Floyd. Framan af er ekki auðheyrt hvaða lag um ræðir. Sigurður Sigurðsson - iðulega kenndur við Kentár - skreytir lagið listavel með munnhörpublæstri. Hið sama gerir Jens Hansson með saxófónspili í "Spoonful". Blessunarlega er platan laus við hefðbundin rokk- og blúsgítarsóló, ef frá er talið progað titillag. Í því er sitthvað sem kallar Audioslave upp í hugann. Rétt eins og í "Touching the Void".
Yrkisefnið er töluvert blúsað. Sungið er um allskonar krísur og deilt á misskiptingu auðs og fégræðgi. Allt á ensku. Sýna má því umburðarlyndi vegna útlendu laganna.
Hljómur á plötunni er sérdeilis hreinn og góður. Eiginlega er allt við plötuna afskaplega vel heppnað. Það á einnig við um umslagshönnun Ólafar Erlu Einarsdóttur.
Skemmtileg og flott plata!
Tónlist | Breytt 23.9.2019 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2019 | 06:09
Glæsileg ljóðabók
Fyrir helgi gaf bókaútgáfan Skrudda út ljóðabókina Ástkæra landið. Höfundur er söngvarinn og söngvaskáldið Ólafur F. Magnússon. Einnig þekktur sem farsæll og frábær læknir, baráttumaður fyrir umhverfisvernd og verndun gamalla húsa, borgarfulltrúi og besti borgarstjóri Reykjavíkur.
Útgáfuhófið var í Eymundsson á Skólavörðustíg. Ég man ekki eftir jafn fjölmennu útgáfuhófi. Það var troðið út úr dyrum. Bókin seldist eins og heitar lummur.
Að því kom að Ólafur gerði hlé á áritun. Þá fékk hann Ómar Ragnarsson og Guðna Ágústsson til að ávarpa gesti. Allir fóru þeir á kostum. Reittu af sér brandara á færibandi. Gestir lágu í krampa af hlátri. Svo sungu Ólafur og Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir fallegt lag við undirleik gítarsnillingsins Vilhjálms Guðjónssonar.
Ólafur yrkir á kjarnyrtri íslensku í hefðbundnu formi stuðla, höfuðstafa og endaríms. Hann tjáir ást sína á fósturjörðinni og náttúrunni. Einnig yrkir hann um forfeðurna, fegurð og tign kvenna, kærleikann og bjartsýni. En líka um dimma dali sem hann hefur ratað í. Þá deilir hann á efnishyggju og rétttrúnað. Hér er sýnihorn:
Ástkæra landið
Ástkæra landið, elskaða þjóð,
ást mín til þín er hjartanu kær.
Ég einlægt vil fagna feðranna slóð
og færa til nútíðar söguna nær.
Áarnir traustir, sem tryggðu vorn hag,
við tignum þá, heiðrum og fullveldið dýrt.
Við mærum þá alla hvern einasta dag.
Enn ber að þakka, við kveðum það skýrt.
_____________________________________________________________
Uppfært 18.9.2019: Áskæra landið er í 1. sæti á sölulista Eymundsson.
Ljóð | Breytt 18.9.2019 kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
10.9.2019 | 07:22
Bítlalögin sem John Lennon hataði
". .
Bítillinn John Lennon var óvenju opinskár og hreinskiptinn. Hann sagði undanbragðalaust skoðun sína á öllu og öllum. Hann var gagnrýninn á sjálfan sig ekki síður en aðra. Ekki síst lög sín. Hann hafði óbeit á mörgum lögum Bítlanna - þó hann hafi sætt sig við að þau væru gefin út á sínum tíma vegna þrýstings frá útgefandanum, EMI. Bítlarnir voru samningsbundnir honum til að senda frá sér tvær plötur á ári og einhverjar smáskífur. Til að uppfylla samninginn leyfðu Bítlarnir lögum að fljóta með sem voru uppfyllingarefni - að þeirra mati.
Að sögn gítarleikarans George Harrison litu þeir Ringo og Paul alltaf á John sem leiðtoga hljómsveitarinnar - þrátt fyrir að stjórnsami og ofvirki bassaleikari Paul McCartney hafi að mörgu leyti stýrt Bítlunum síðustu árin eftir að umboðsmaðurinn Brian Epstein dó.
Paul sýndi George og trommuleikaranum Ringo ofríki þegar þar var komið sögu. En bar lotningarfulla virðingu fyrir John. Stofnaði ekki til ágreings við hann. Þeir skiptust á tillögum og ábendingum um sitthvað sem mátti betur fara. Báðir tóku því vel og fagnandi. Þeir voru fóstbræður.
Þó komu upp nokkur dæmi þar sem Paul mótmælti John. Fyrst var það þegar John dúkkaði upp með lagið "She said, she said" á plötunni Revolver. Paul þótti það vera óboðleg djöflasýra. John fagnaði því viðhorfi vegna þess að hann ætlaði laginu einmitt að túlka sýrutripp. Í stað þess að rífast um lagið stormaði Paul úr hljóverinu og lét ekki ná á sér við hljóðritun þess. Lagið var hljóðritað án hans. George spilaði bassalínuna í hans stað. Síðar tók Paul lagið í sátt og sagði það vera flott.
Í annað sinn lagðist Paul - ásamt George og Ringo - gegn furðulagi Johns "Revolution #9". En John fékk sínu fram. Lagið kom út á "Hvíta albúminu". Hann var sá sem réði. Samt þannig að hann umbar öll þau lög Pauls sem honum þóttu léleg.
Eftirtalin Bítlalög hafði John óbeit á. Fyrir aftan eru rökin fyrir því og tilvitnanir í hann.
1 It´s Only Love (á plötunni Help) - "Einn af söngvum mínum sem ég hata. Glataður texti."
2 Yes it Is (smáskífa 1965) - "Þarna reyndi ég að endurtaka leikinn með lagið This Boy. En mistókst.
3 Run For Your Life (á Rubber Soul). - "Uppfyllingarlag. Enn eitt sem mér líkaði aldrei. George hefur hinsvegar alltaf haldið upp á þetta lag."
4 And Your Bird Can Sing (á Revolver). - "Enn ein hörmung. Enn eitt uppfyllingarlagið."
5 When I m Sixty-Four (á Sgt. Peppers...) - "Afalag Pauls. Ég gæti aldrei hugsað mér að semja svona lag."
6 Glass Onion (á Hvíta albúminu) - "Þetta er ég að semja uppfyllingarlag"
7 Lovely Rita (á Sgt. Peppers...) - "Ég kæri mig ekki um að semja lag um fólk á þennan hátt."
8 I ll Get You (á 4ra laga smáskífu 1963) - "Við Paul sömdum þetta saman en lagið var ekki að gera sig."
9 Hey Bulldog (á smáskífu 1967) - "Góð hljómgæði á merkingarlausu lagi."
10 Good Morning, Good Morning (á Sgt. Peppers...) - "Einskonar bull en samt falleg orð. Uppfyllingarlag."
11 Hello, Goodbye - John var mjög ósáttur þegar EMI gaf þetta lag út á smáskífu. Honum þótti það ekki þess virði.
12 Lady Madonna (á smáskífu 1968) - "Gott píanóspil sem nær þó aldrei flugi."
13 Ob-La-Di Ob-La-Da (á Hvíta albúminu) - Paul vildi ólmur að þetta lag yrði gefið út á smáskífu. John tók það ekki í mál.
14 Maxwells Silver Hammer (á Abbey Road) - John leiddist þetta lag svo mikið að hann harðneitaði að taka þátt í hljóðritn þess. Engu að síður sagði hann það vera ágætt fyrir hljómsveitina að hafa svona léttmeti með í bland. Þannig næðu plöturnar til fleiri.
15 Martha My Dear (á Hvíta albúminu) - John leiddist þetta lag. Samt ekki meira en svo að hann spilar á bassa í því.
16 Rocky Racoon (á Hvíta albúminu) - "Vandræðalegt!"
17 Birtday (á Hvíta albúminu) - "Drasl!"
18 Cry Baby Cry (á Hvíta albúminu) - "Rusl!"
19 Sun King (á Abbey Road) - "Sorp!"
20 Mean Mr. Mustard (á Abbey Road) - "Óþverri sem ég samdi í Indlandsdvölinni."
21 Dig a Pony (á Let it be) - "Enn ein vitleysan. Ég var í orðaleik og þetta er bókstaflega rugl."
22 Let It Be (á Let it be) - "Þetta lag hefur ekkert með Bítlana að gera. Ég skil ekki hvað Paul var að pæla með þessu lagi."
Rétt er að taka fram að John skipti oft um skoðun á flestum hlutum. Líka á Bítlalögum. Til að mynda er til upptaka þar sem hann hrósar Let It Be sem glæsilegu lagi. Þetta fór dálítið eftir dagsforminu; hvernig lá á honum hverju sinni.
Tónlist | Breytt 11.9.2019 kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.9.2019 | 01:12
Kvikmyndaumsögn
- Titill: Héraðið
- Helstu leikarar: Sigurður Sigurjónsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Hannes Óli Ágústsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir...
- Handrit og leikstjórn: Grímur Hákonarson
- Einkunn: **** (af 5)
Þessi áhugaverða kvikmynd átti upphaflega að vera heimildamynd um Kaupfélag Skagfirðinga. Vegna hræðslu Skagfirðinga við að tjá sig um hið alltumlykjandi skagfirska efnahagssvæði reyndist ógjörningur að fá viðmælendur til að tjá sig fyrir framan myndavél. Þar fyrir utan eru margir Kaupfélagssinnar af hugsjón. Telja að ofríki Kaupfélagsins veiti mörgum vinnu og standi gegn því að peningar samfélagsins fari suður. Kaupfélag Skagfirðinga stendur svo sterkt að lágvöruverslanir á borð við Bónus, Krónuna og Nettó eiga ekki möguleika á að keppa við KS í Skagafirði Skagfirðingar vilja fremur versla í dýrustu búð landsins, Skagfirðingabúð Kaupfélagsins, en að peningur fyrir greiddar vörur fari úr héraðinu.
Ég er fæddur og uppalinn Skagfirðingur. Ég votta að margar senur myndarinnar eiga sér fyrirmynd í raunveruleikanum. Jafnvel flestar. Sumar samt í hliðstæðu. Í myndinni er stofnað mjólkursamlag til höfuðs Kaupfélaginu. Í raunveruleika stofnað pabbi minn og fleiri bændur sláturhús til höfuðs KS.
Kvikmyndin fer rólega af stað. Eftir fæðingu kálfs og dauðsfall vörubílstjóra gerist myndin dramaatísk. Hún er spennandi, áhrifarík og vekur til umhugsunar. Flott í flesta staði.
Arndís Hrönn er sannfærandi í hlutverki reiðu ekkjunnar. Ég man ekki eftir að hafa séð þessa leikkonu áður. Aðrir leikarar standa sig einnig með prýði. Ekki síst Sigurður Sigurjónsson. Hann túlkar Þórólf, nei ég meina Eyjólf kaupfélagsstjóra, af snilld.
Gaman er að sjá hvað fjós eru orðin vélvædd og sjálfvirk.
Ég mæli með því að fólk skreppi í bíó og kynnist skagfirska efnahagssvæðinu.
Kvikmyndir | Breytt 6.9.2019 kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.8.2019 | 09:04
Smásaga um gamlan mann
Jói Jóns er 97 ára. Hann er ern og sjálfbjarga. Býr einn í hrörlegu einbýlishúsi. Það er gamalt og kallar á stöðugt viðhald. Jói er meðvitaður um það. Honum þykir skemmtilegt að dytta að því. Hann hefur hvort sem er ekki margt annað fyrir stafni.
Að því kom að Jói þurfti að tjarga þakið til að verja það betur gegn vætu. Er langt var liðið á verk missti hann fótanna á bröttu þakinu. Sveif á hausinn. Við aðrar aðstæður hefði hann rúllað fram af þakinu og kvatt þennan heim á stéttinni fyrir neðan. Í þessu tilfelli límdist hann við blauta tjöruna. Svo rækilega að hann gat sig hvergi hrært. Hékk bara límdur á þakinu. Það var frekar tilbreytingalaust. Hann kallaði á hjálp. Röddin var veik og barst ekki langt utan hússins.
Kallinn kvartaði ekki undan veðrinu. Það var honum hagstætt. Nokkrum klukkutímum síðar áttu barnungir strákar leið framhjá húsinu. Þeim þótti einkennilegt að sjá mann límdan við húsþak. Komnir heim til sín sögðu þeir frá þessu sérkennilega þakskrauti. Mamma eins þeirra hringdi í lögguna. Löggan er þaulvön að bjarga köttum ofan úr trjám. Henni þótti ekki meira mál að bjarga ellilífeyrisþega ofan af húsþaki.
Kominn niður af þakinu tók Jói staðfasta ákvörðun um að fara aldrei aftur upp á þak. Hvorki á sínu húsi né öðrum.
Spaugilegt | Breytt 30.8.2019 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.8.2019 | 00:00
Einfaldur skilnaður - ekkert vesen
Hver kannast ekki við illvíga hjónaskilnaði? Svo illvíga að hjónin ráða sér lögfræðinga sem fara með málið til skiptastjóra. Matsmenn eru kallaðir til. Þeir telja teskeiðar, diska og glös. Tímakaupið er 30 þúsund kall. Heildarkostnaðurinn við skilnaðinn er svo hár að allar eigur eru seldar á brunaútsölu til að hægt sé að borga reikningana. Það sem eftir stendur er lítið eða ekkert handa hjónunum.
Miðaldra bóndi í Kambódíu valdi aðra leið er hjónabandið brast eftir tuttugu ár. Hann sagaði húsið í tvennt. Öðrum eigum skipti hann í fjóra hluta. Þau eiga nefnilega tvo syni. Þessu næst lét hann flytja sinn helming hússins heim til aldraðra foreldra sinna. Þar klambraði hann hálfhýsinu utan á hús þeirra.
Konan býr með sonunum í sínu hálfhýsi þar sem stóð.
Maðurinn átti frumkvæðið að skilnaðinum. Hann sakar konuna um að hugsa ekki nógu vel um sig. Hann hafi verið vanræktur eftir að hann fárveiktist andlega.
Spaugilegt | Breytt 28.8.2019 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)