22.8.2019 | 05:52
Spornað gegn matarsóun
Matarsóun er gríðarmikil á Íslandi - eins og víða um heim allan. Algengt er að fólk kaupi of mikið matarkyns fyrir heimilið. Maturinn rennur út á tíma og skemmist. Sama vandamál hrjáir matvöruverslanir. Svo eru það veitingastaðirnir. Einkum þeir sem bjóða upp á hlaðborð. Margir hrúga óhóflega á diskinn sinn og leifa helmingnum.
Í Hong Kong er veitingastaður sem býður upp á hlaðborð. Gestir eru hvattir til að taka lítið á diskinn sinn; fara þess í stað fleiri ferðir að hlaðborðinu. 1000 kr. aukagjald er sett á reikning þeirra sem klára ekki af disknum sínum. Þetta mættu íslensk veitingahús taka upp.
18.8.2019 | 05:22
Hvað ef John og Paul hefðu aldrei kynnst?
1956 var litla enska hafnarborgin Liverpool "slömm". Margir Englendingar neituðu að viðurkenna Liverpool sem hluta af Englandi. Þetta ár bankaði 14 ára gutti, Paul McCartney, hjá 16 ára bæjarvillingnum John Lennon. Bauð sig fram sem gítarleikara, söngvara og lagahöfund í hljómsveit Johns, The Querrymen. Þarna varð til öflugasta tvíeyki sögunnar. Frábært söngvapar, hugmyndaríkir flytjendur og djarfir tilraunakenndir útsetjarar sem toguðu og teygðu tónlist lengra og víðar en áður þekktist.
The Querrymen breyttust í The Beatles. Á íslensku alltaf kallaðir Bítlarnir. Bítlarnir frá Liverpool rúlluðu heimsbyggðinni upp eins og strimlagardínu. Allt í einu urðu Liverpool og England ráðandi forysta í dægurlagamarkaði heimsins.
Pabbi Johns, Freddie Lennon, var söngvari, söngvaskáld og banjoleikari. Mamma Johns var líka banjoleikari og píanóleikari. John ólst ekki upp hjá þeim en erfði frá þeim tónlistarhæfileika. Þegar plötufyrirtækið EMI gerði útgáfusamnning við Bítlana var það munnhörpuleikur Johns sem heillaði upptökustjórann, George Martin, umfram annað.
Pabbi Pauls lagði hart að honum að fara í markvisst tónlistarnám. Rökin voru: "Annars endar þú eins og ég; að spila sem láglaunamaður á pöbbum." En Paul valdi að læra sjálfur að spila á gítar og píanó.
Foreldrar George Harrison eru sagðir hafa verið góðir söngvarar. Mamma hans er skráð meðhöfundur "Piggies" á Hvíta albúminu.
Ringó Starr ólst upp á tónlistarheimili. Þar var allt fullt af hljóðfærum af öllu tagi. Hann hélt sig við trommur en getur gutlað á píanó og gítar.
Synir allra Bítlanna hafa haslað sér völl sem tónlistarmenn. Zak Starkey, sonur trommuleikarans Ringos, hefur vegnað vel sem trommuleikari The Who og Oasis. Eldri sonur Johns, Julian, kom bratt inn á markað 1984 með laufléttu alltof ofunnu reggí-lagi um pabba sinn, "Too Late for goodbyes". Þetta var á skjön við vinnubrögð Johns sem gengu út á hráleika. Síðan hefur hvorki gengið né rekið hjá Julian - fremur en hjá öðrum sonum Bítlanna að Zak undanskildum. Vegna frægðar Bítlanna hafa synir þeirra forskot á aðra í tónlistarheimi. Þrátt fyrir að þeir séu alveg frambærilegir tónlistarmenn þá vantar upp á að tónlist þeirra að heilli nógu marga til að skila lögum þeirra og plötum inn á vinsældalista.
Niðurstaðan er sú að ef John og Paul hefðu ekki kynnst þá hefðu þeir ekki náð árangri út fyrir Liverpool-slömmið. Lykillinn að yfirburðum þeirra á tónlistarsviðinu lá í samstarfi þeirra. Hvernig þeir mögnuðu upp hæfileika hvors annars.
John var spurður út í samanburð á Bítlunum og The Rolling Stones. Hann svarði eitthvað á þá leið að Rollingarnir væru betri tæknilega. Þeir væru skólaðir. Bítlarnir væru amatörar. Sjálflærðir leikmenn. En spjöruðu sig. Svo bætti hann við: Þegar heildarútgáfa á flutningi á Bítlalögum er borin saman við flutning annarra þá hallar ekki á Bítlana.
Tónlist | Breytt 2.10.2019 kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2019 | 00:08
Áhrifamáttur nafnsins
Flestum þykir vænt um nafn sitt. Það er stór hluti af persónuleikanum. Sérstaklega ef það hefur tilvísun í Biblíuna, norræna goðafræði, Íslendingasögurnar eða nána ættingja. Ég varð rígmontinn þegar afastrákur minn fékk nafnið Ýmir Jens.
Þekkt sölutrix er að nefna nafn viðskiptavinarins. Sölumaðurinn öðlast aukna viðskiptavild í hvert sinn er hann nefnir nafn viðskiptavinarins.
Góður vinur minn endursegir ætíð samtöl sín við hina og þessa. Hann bætir alltaf nafni sínu við frásögnina. Lætur eins og allir viðmælendur hans ávarpi hann með orðunum " Óttar minn, ..." (ekki rétt nafn). Sem engir gera.
Annar vinur minn talar alltaf um sig í 3ju persónu. Hann er góður sögumaður. Þegar hann segir frá samtölum við aðra þá nafngreinir hann sig. Segir: "Þá sagði Alfreð..." (rangt nafn).
Ég þekki opinberan embættismann. Sá talar aldrei um sig öðruvísi en með því að vísa í titil sinn: "Forstöðumaðurinn mælti með..." (rangur titill).
Þetta hefur eitthvað að gera við minnimáttarkennd; þörf til að upphefja sig.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2019 | 00:05
Spaugilegt
Um miðjan sjöunda ártuginn fór bandaríska hljómsveitin The Byrds með himinskautum á vinsældalistum með lagið "Turn, Turn, Turn". Líftími lagsins er langur. Það lifir enn í dag góðu lífi. Er sívinsælt (klassík). Fjöldi þekktra tónlistarmanna hafa krákað lagið. Allt frá Mary Hopkins og The Seekers til Dolly Parton og Judy Collins. Að auki hljómar lagið í mörgum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, Til að mynda í "Forrest Gump".
Flestir vita að texti lagsins er úr Biblíunni. Samt ekki allir. Á föstudaginn póstaði náungi laginu í músíkhópinn "Þrumur í þokunni" á Fésbók. Svaný Sif skrifaði "komment". Sagðist vera nýbúin að uppgötva þetta með textann. Hún var að horfa á trúarlegt myndband. Presturinn las upp textann úr Biblíunni. Svaný skildi hvorki upp né niður í því hvers vegna presturinn væri að þylja upp dægurlagatexta með The Byrds.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.8.2019 | 00:01
Lúxusvandamál Færeyinga
Skemmtilegt er að fylgjast með uppganginum í Færeyjum síðustu árin. Íbúum fjölgar árlega um 3%. Nú eru þeir að nálgast 52000. Sífellt fækkar þeim sem flytja frá eyjunum. Að sama skapi fjölgar þeim sem flytja aftur heim eftir búsetu erlendis.
Til viðbótar eru Færeyingar frjósamasta þjóð í Evrópu. Að meðaltali eignast færeyskar konur 2,5 börn. Íslenskar konur eignast aðeins 1,7 börn. Það dugir ekki til að viðhalda stofninum. Tíðni hjónaskilnaða í Færeyjum er sú lægsta í Evrópu.
Ferðamönnum hefur fjölgað mjög að undanförnu. Ríkissjóður fitnar sem aldrei fyrr. Tekjur hans uxu um rúm 20% í fyrra. Útsvarstekjur sveitarfélaga jukust um rúm 15%. Fyrir bragðið geta bæði ríki og sveitarfélög kastað sér í allskonar framkvæmdir. Fjöldi gangna eru í smíðum og enn fleiri fyrirhuguð. Göng til Suðureyjar verða lengstu neðansávargöng í heimi. Ekki er frágengið hvaðan þau liggja. Kannski verða þau 26 kílómetrar. Kannski styttri. En samt þau lengstu.
Sífellt fjölgar fögum og námsbrautum á háskólastigi. Æ færri þurfa að sækja framhaldsnám til útlanda.
Útlánsvextir eru 1,7%.
Uppsveiflan í Færeyjum veldur ýmsum lúxusvandamálum. Til að mynda skorti á heimilislæknum, leikskólaplássum og húsnæði. Hvort heldur sem er íbúðum til kaups eða leigu, svo og hótelherbergjum. Sem dæmi um skortinn þá er í byggingu blokk í Klakksvík. Í henni eru 30 íbúðir. 350 sóttu um að fá að kaupa. Skorturinn hefur þrýst upp húsnæðisverði og leigu.
Allt stendur þetta til bóta. Hús af öllu tagi eru á byggingarstigi: Skólahús, hótel, íbúðahús, iðnaðarhúsnæði, landspítala, leikskóla og svo framvegis. Þetta hefur leitt til skorts á vinnuafli í byggingaiðnaði. Það er sótt til Austurevrópu. Í fyrra var 525 Rúmenum veitt atvinnuleyfi í Færeyjum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
30.7.2019 | 00:01
Samband Johns og Pauls
John Lennon og Paul McCartney voru fóstbræður. Þeir kynntust á unglingsárum á sjötta áratugnum og urðu samloka. Vörðu öllum frítímum saman við að semja lög og hlusta á rokkmúsík. John gerði út hljómsveitina Querrymen. Hún er ennþá starfandi. Reyndar án Johns. John var stofnandi hljómsveitarinnar og forsprakki; söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur.
Paul segir að á þessum tíma hafi allir unglingar í Liverpool vitað af John. Hann var fyrirferðamikill ofurtöffari. Svalasti gaurinn í Liverpool, að sögn Pauls. Liverpool er hafnarbær. Íbúar á sjötta áratugnum kannski 200 eða 300 þúsund eða þar í grennd. John var kjaftfor og reif stólpakjaft við alla, slóst á börum eins og enginn væri morgundagurinn, þambaði sterk vín, reykti og svaf hjá stelpum. Hann var dáldið geggjaður. Eins og mamma hans.
Paul sá í hendi sér að frami sinn í Liverpool væri fólginn í því að vingast við John. Hann bankaði upp hjá John. Kynnti sig og spilaði fyrir hann nokkur lög til að sanna hæfileika í hljóðfæraleik og söng. Jafnframt sagðist Paul vera lagahöfundur.
John angaði eins og bruggverksmiðja þegar þeir hittust. Koníak gutlaði í honum. Eftir að Paul spilaði og söng fyrir John hugsaði hann eitthvað á þessa leið: Ég get auðveldlega orðið aðal rokkstjarnan í Liverpool. En með Paul mér við hlið get ég sigrað heiminn. Ég verð að gefa eftir forystuhlutverkið. Deila því með Paul. Við getum sigrað heiminn saman. Þetta varð niðurstaðan. Þetta var langsótt niðurstaða á þessum tíma. Varðandi heimsfrægð. Liverpool var útkjálki og þótti "slömm".
John var um margt afar erfiður í umgengni. Hann tók skapofsaköst. Hann var "bully"; árásagjarn til orðs og æðis. Hann lamdi fyrri konu sína. Hann lamdi Paul og fleiri í hljómsveitinni Querrymen.
Paul var og er mjög stjórnsamur og ofvirkur. Í Bítlunum sýndi hann George og Ringo ofríki. En forðaðist árekstra við John. Þegar John gekk fram af honum með gríðarlegri eiturlyfjaneyslu og flaut í sýrumóki við hljóðritun á laginu "She said, she said" 1966 þá ofbauð Paul. Hann stormaði út úr hljóðverinu, tók ekki þátt í hljóðritun lagsins og lét ekki ná á sér. George Harrison spilar bassalínu lagsins. Í bókinni góðu "Beatlesongs" er Paul ranglega skráður bassaleikarinn. Lagið hljómar í dag ósköp venjulegt. 1969 var þetta brengluð sýra.
Annað dæmi er lagið "Come together" á Abbey Road plötunni. Síðustu hljóðversplötu Bítlanna. Framan af ferli Bítlanna sungu Paul og John flest lög saman. Að mörgu leyti var það einkenni Bítlanna og gaf hljómsveitinni forskot á aðrar hljómsveitir. Undir lok ferils Bítlanna dró mjög úr dúettsöngnum. Meira varð um þríröddun þeirra Pauls, Johns og Georges. Líka sólósöngs þeirra hvers fyrir sig. Paul saknaði tvíröddunarinnar. Þeir John, Paul og George voru allir afar flinkir í að radda og sniðgengu iðulega viðurkennda tónfræði.
Er John kynnti til sögunnar "Come Together" bað Paul um að fá að radda lagið með honum. Paul sárnaði mjög er John svaraði: "Ég græja það sjálfur." Sem hann reyndar gerði ekki. Paul laumaðist í skjóli nætur til að radda með í laginu. John heyrði ekki þá útfærslu fyrr en platan kom út.
Tónlist | Breytt 29.8.2019 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2019 | 23:44
Smásaga um kærustupar
Unga kærustuparið gat ekki verið ástfangnara og hamingjusamara. Það var nýflutt inn í litla leiguíbúð. Sambúðin var ævintýri upp á hvern dag. Í innkaupaferð í matvöruverslun rákust þau á gamla skólasystur konunnar. Þær þekktust samt aldrei mikið. Skólasystirin fagnaði þó samfundinum eins og þær hafi alla tíð verið æskuvinkonur. Knúsaði konuna í bak og fyrir. Spurði frétta og sagði frá sjálfri sér. Hún flutti til Frakklands en var þarna stödd á Íslandi í örfáa daga. Vandamálið var að hún hafði ekki áttað sig á hvað gistimarkaðurinn á Íslandi er verðbólginn. Kostnaðurinn var að slátra fjárhag hennar.
"Er smuga að ég fái að gista hjá ykkur í örfáa daga?" spurði hún. "Þess vegna í svefnpoka á eldhúsgólfinu eða eitthvað? Það myndi gjörsamlega bjarga fjárhagnum."
Unga parið var tvístígandi. Konan spurði kærastann hvort hann myndi sætta sig við að hún gisti í stofusófanum í nokkra daga. Hann sagði að það muni ekki "bögga" sig. Eflaust yrði gaman fyrir þær dömurnar að rifja upp gamla skóladaga.
Nokkrum dögum síðar fékk kærastan slæmt kvef. Hún hóstaði heilu og hálfu næturnar. Kallinn missti svefn og varð eins og uppvakningur í vinnunni. Á þriðja degi sagði hann við kærustuna: "Ég get ekki verið svefnlaus í marga daga til viðbótar. Ég neyðist til að biðja þig um að sofa í stofunni þangað til kvefið er gengið yfir."
Hún hafði fullan skilning á því. Vandamálið var hinsvegar að stofusófinn var eiginlega of lítill fyrir skólasysturnar að deila honum. Um morguninn tilkynnir skólasystirin að hóstinn hafi haldið fyrir henni vöku. "Ég verð að fá að sofa í svefnherberginu," sagði hún. "Hjónarúmið er alveg nógu breitt til að deila því með kærastanum þínum án vandræða."
Þetta var samþykkt. Hóstinn varð þrálátur. Um síðir hjaðnaði hann. Kærastan vildi eðlilega endurheimta sitt pláss í hjónarúminu. Skólasystirin hafnaði því. Sagðist vera ólétt. Barnið væri getið í þessu rúmi. Foreldrarnir væru sammála um að ala það upp í sameiningu sem par.
Kærustunni var brugðið við að vera óvænt x-kærasta (fyrrverandi). Hún lét þó ekki á neinu bera. Sagði: "Ég styð það."
Skólasystirin varð hægt og bítandi stjórnsöm. Hún fór að gefa x-inu fyrirmæli: Það þurfi að strjúka af gólfunum; nú þurfi að þurrka af. X-ið sá um eldamennsku eins og áður. Um helgar fékk hún fyrirmæli um bakstur: Pönnukökur, vöfflur, ástarpunga og svo framvegis.
Ef gest bar að garði fékk hún fyrirmæli: "Skottastu út í búð eftir gosi og kökum."
Þegar barnið fæddist fékk hún nóg að gera: Bleyjuskipti, böðun, út að ganga með barnavagninn. Allan tímann vann hún sem kassadama í matvöruverslun. Fjármál heimilisins voru sameiginleg. Heimilisfaðirinn var með ágætar tekjur sem starfsmaður í álverinu í Straumsvik. Skólasystirin vann aldrei úti. Eiginlega ekki inni heldur ef frá er talið að hún var dugleg við að vakta sjónvarpið. Hún fékk einn daginn hugmynd um að heimilið vantaði meiri innkomu. Þá skráði hún x-ið í útburð á dagblöðum á morgnana. Benti á að það væri holl og góð hreyfing sem bónus ofan á launin. Sem er alveg rétt.
Lífstíll | Breytt 25.7.2019 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.7.2019 | 19:17
Af hverju túra Paul og Ringo ekki saman?
Paul McCartney og Ringo Starr eru einu eftirlifandi Bítlarnir. Þeir eru mjög góðir vinir. Á hljómleikum gera báðir út á gömlu Bítlalögin. Paul á það til að fá Ringo sem gest á hljómleika sína. Þá trommar kappinn í nokkrum Bítlalögum.
Af hverju túra þeir aldrei saman? Væri það ekki stórkostleg upplifun fyrir Bítlaaðdáendur? Jú, vissulega. Hængur er á. Illilega myndi halla á Ringo. Hann er frábær trommari, orðheppinn og bráðfyndinn. Hinsvegar hefur hann ekki úr mörgum frumsömdum lögum að moða. Því síður mörgum bitastæðum. Þar fyrir utan er hann ekki góður söngvari. Öfugt við Paul sem er einn besti og fjölhæfasti söngvari rokksögunnar. Þeir John Lennon voru ótrúlaga frábærir söngvarar - og Paul er ennþá. Paul hefur úr að velja frumsömdum lögum sem eru mörg hver bestu lög rokksögunnar. Á hljómleikum stekkur Paul á milli þess að spila á píanó, orgel, gítar, bassa og allskonar. Meira að segja ukulele. Frábær trommuleikur Ringos býður ekki upp á sömu fjölbreytni.
Bæði Paul og Ringo átta sig á því að tilraun til að endurskapa anga af Bítladæmi sé dæmt til að mistakast. Það var ekki einu sinni hægt á meðan George Harrison var á lífi. Eins og Geroge sagði: "Bítlarnir verða ekki aftur til á meðan John er dáinn." Ég set spurngamerki við "á meðan".
Tónlist | Breytt 21.7.2019 kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.7.2019 | 23:20
Blessun
Ég er alltaf kallaður Jens Guð. Þess vegna er ég í símaskránni skráður Jens Guð - að frumkvæði símaskráarinnar. Eða hvort að þetta heitir 1819 eða 1919 í dag? Í morgun hringdi í mig barnung stúlka. Kannski 5, 6 ára. Hún sagðist heita Emilía og eiga heima í Keflavík. Hún spurði hvort ég væri Jens Guð. Ég játaði því. Hún spurði hvort ég væri til í að blessa hana. Ég svaraði: "Alveg sjálfsagt. Strax eftir þetta símtal skal ég blessa þig." Hún þakkaði fyrir og þar með lauk símtalinu. Ég stóð við minn hluta samkomulagsins. Sendi henni að auki í huganum sálm með þýsku pönkdrottningunni Nínu Hagen. Hún er mér töluvert uppteknari af trúmálum.
Tónlist | Breytt 18.7.2019 kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.7.2019 | 12:07
Hressilegt rokk
Titill: För
Flytjandi: Nýríki Nonni
Einkunn: **** (af 5)
2016 spratt fram á sjónarsvið afar sprækt pönkrokkstríó, Nýríki Nonni. Liðsmenn voru og eru: Guðlaugur Hjaltason (gítar og söngur), Logi Már Einarsson (bassi) og Óskar Þorvaldsson (trommur). Það sem sker tríóið frá öðrum nýstofnuðum pönkböndum er að liðsmenn eru ekki unglingar að stíga sín fyrstu skref í hljómsveit heldur virðulegir miðaldra menn sem búa að góðri færni á hljóðfæri.
Á nýútkominni plötu tríósins, För, slæðist snyrtilegt hljómborð með. Ég veit ekki hver afgreiðir það. Gulli liggur undir grun.
Óvænt hefst plata pönktríósins á rólegu lagi, titillaginu För. Þau eru fleiri rólegu lögin á plötunni. Inn á milli eru svo hressilegu pönklögin. Gulli er höfundur laga og texta. Hann er fagmaður á báðum sviðum. Textarnir lúta að mestu undir hefðbundið form stuðla, hljóðstafa og ríms. Þeir eru ádeilutextar. Stinga á kýlum.
Fyrir minn smekk eru pönklögin skemmtilegust. Í heild er platan skemmtilega fjölbreitt. Já, og fyrst og síðast bráðskemmtileg.
Tónlist | Breytt 15.7.2019 kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2019 | 23:05
Fésbókarsíða færeyskrar hljómsveitar hökkuð - sennilega af Sea Shepherd
Í fyrravor hélt færeyska hljómsveitin Týr í hljómleikaferð um Bandaríkin og Kanada. Þá brá svo við að hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd fóru í harða herferð gegn Tý. Hvöttu fólk til að sniðganga hljómleikana. Jafnframt boðuðu þau mótmælastöðu fyrir utan hljómleikastaðina.
Er það ekki lágkúra að fjölmenn samtök ofsæki fjögurra manna rokkhljómsveit fyrir að vera færeysk?; komi frá 52 þúsund manna þjóð sem veiðir marsvín.
Herferð SS gegn hljómleikaferð Týs varð samtökunum til mikillar háðungar. Hljómleikarnir voru hvarvetna vel sóttir. Hvergi mættu fleiri en 10 í mótmælastöðu. Þeir einu sem mættu í mótmælastöðuna voru forsprakki SS, Paul Watson, og aðrir starfsmenn SS.
Nú er hljómsveitin Týr á ný í hljómleikaferð um Bandaríkin. Ekki heyrist múkk frá SS. Hinsvegar var Fésbókarsíða Týs hökkuð í spað. Hún gegnir eðlilega stóru hlutverki í hljómleikaferðinni. Hakkarinn eða hakkararnir náðu að yfirtaka síðuna. Honum/þeim tókst að henda öllum liðsmönnum Týs út af síðunni og blokka þá. Eftir margra daga vesen hefur stjórnendum Fésbókar tekist að koma Fésbókarsíðunni aftur í hendur liðsmanna Týs.
Tónlist | Breytt 12.7.2019 kl. 04:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.7.2019 | 21:23
Vinsælustu Bítlalögin í dag
Ég veit ekki hvað gerðist. Síðasta bloggfærsla mín hvarf. Ég var í miðju kafi að svara athugasemdum við hana og ýtti á "enter". Í stað þess að svar mitt birtist þá hvarf bloggfærslan. Hún var áfram inni á stjórnborði hjá mér. En þó að ég ýtti á "birta" þá birtist hún ekki. Samt kom upp texti um að hún væri birt.
Í færslunni var listi yfir mest spiluðu lög Bítlanna á Spotify. Hann er áhugaverður. Hann speglar að einhverju leyti hvaða Bítlalög höfða sterkast til yngra fólks í dag. Fólks sem meðtók ekki lög og plötur Bítlanna í rauntíma 1963 - 1969. Þess vegna endurbirti ég listann hér:
1. Here Comes the Sun
2. Hey Jude
3. Come Together
4. Let it Be
5. Twist and Shout
6. Help
7. Blackbird
8. While my Guitar Gentle Weeps
9. In My Life
10. Yesterday
Einhverra hluta vegna er Oh Darling ekki mikið spilað á Spotify. Samt flottur blús. Þessi úkraínska krúttbomba staðfestir hinsvegar að ungt fólk út um allan heim hlustar á Bítlalög. Það fylgir sögunni að hún hafi á þessum aldri ekki kunnað orð í ensku. Hún er 17 ára í dag og dútlar við að syngja leiðinleg júrivisjon-lög.
Tónlist | Breytt 9.7.2019 kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
3.7.2019 | 00:04
5 tíma svefn er ekki nægur
Sumt fólk á það til á góðri stundu að hreykja sér af því að það þurfi ekki nema fimm tíma nætursvefn. Þetta hefur verið rannsakað af New York háskóla í læknisfræði. Dr. Rebecca Robbins leiddi rannsóknina. Niðurstaðan er sú að hugmyndin um að fimm tíma svefn sé ekki aðeins bull heldur skaðleg.
Þetta stuttur nætursvefn eykur mjög líkur á fjölda lífshættulegra heilsubresta, svo sem hjartaáfalli, heilablóðfalli og almennt ótímabærum dauða. Fólki er ráðlagt frá því að horfa á sjónvarp fyrir háttatíma. Jafnframt er upplýst að neysla áfengra drykkja undir svefn rýri svefngæði. Frá þessu segir í The Journal Sleep Health en ekki hinu: Að heppilegast sé að stunda morgundrykkju samviskusamlega.
Rannsóknin byggir á yfir 8000 gögnum.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.6.2019 | 23:29
Ljósmyndir Lindu hjálpuðu Paul
"But I´m not the only one," söng John Lennon. Ég er ekki einn um að hafa áhuga á Bítlunum. Mest lesna grein á netsíðu breska dagblaðsins The Guardian í dag er spjall við Paul McCartney. Þar tjáir hann sig um ljósmyndir Lindu heitinnar eiginkonu sinnar.
Í léttum dúr segist Paul hafa slátrað farsælum ljósmyndaferli hennar. Áður en þau tóku saman var hún hátt skrifuð í ljósmyndaheimi. Hún hafði meðal annars unnið til eftirsóttra verðlauna. Fyrst kvenna átti hún forsíðumynd söluhæsta tónlistartímarits heims, bandaríska Rolling Stone. Myndin var af Eric Clapton. Eftir að þau Paul tóku saman breyttist ímynd hennar úr því að vera verðlaunaljósmyndari í að vera "kona Pauls".
Margar ljósmyndir Lindu hjálpa og heila Paul að gera upp við upplausn Bítlanna. Sem var honum afar erfið. Hann telur sig hafa fengið taugaáfall við þann atburð og aldrei náð að vinna sig almennilega úr sorginni sem því fylgdi.
Paul þykir vænt um ljósmynd af þeim John sem Linda smellti af um það leyti er hljómsveitin sprakk í loft upp. Þó að allt hafi lent í illindum þá nutu þeir þess að vinna saman að tónlist fram á síðasta dag. Samband þeirra hafi verið einstaklega sterkt og náið til lífstíðar, segir Paul og bendir á að þarna blasi við hamingjusamur John Lennon.
Önnur ljósmynd sem Paul þykir vænt um segir hann vera dæmigerða fyrir stemmningu og andrúmsloft sem einkenndi samskipti Bítlanna innbyrðis. Þar heilsast John og Paul í galsa með handabandi. George og Ringo skemmta sér konunglega yfir gríninu.
Tónlist | Breytt 27.6.2019 kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.6.2019 | 17:07
Gáfnafar Íslendinga slagar í asískar þjóðir
Flestir vita að Asíubúar eru gáfaðastir allra jarðarbúa. Þar af skora íbúar Hong Kong og Singapore hæst. Fast á hæla þeirra koma íbúar Suður-Kóreu, Japans, Kína og Tævans. Til að allrar sanngirni sé gætt skal tekið fram að ekki hefur tekist að mæla gáfnafar íbúa Norður-Kóreu. Að sögn þarlendra fjölmiðla búa stjórnendur ríkisins að yfirnáttúrulegu gáfnafari. Og yfirnáttúrulegum hæfileikum á flestum sviðum, ef út í það er farið. Hafa meira að segja sent mannað geimfar til sólarinnar.
Færri vita að Ítalir, Íslendingar og Svisslendingar koma þétt upp að Asíubúum í gáfnafari. Ótrúleg staðreynd ef hliðsjón er höfð af útsendingum frá Alþingi. Málið er að aðrar þjóðir eru vitlausari.
HÉR má sjá listann. Hann er ekki fullkominn, eins og að ofan greinir varðandi Norður-Kóreu. Líka vantar Færeyinga á listann. Þeir eru flokkaðir með Dönum. Eiga áreiðanlega sinn þátt í því að Danir ná 9. sætinu.
Vísindi og fræði | Breytt 24.6.2019 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
20.6.2019 | 00:14
Hver voru viðhorf Johns, Pauls og Julians við "Hey Jude"?
Í nýlegu viðtali var bítillinn Paul McCartney spurður að því hvort hann sjái eftir einhverju lagi sem hann hafi samið og gefið út. Paul sagðist iðrast lagsins "Hey Jude". Það hafi verið ósmekkleg afskipti af fjölskyldumálum Johns Lennons. Lagið er ávarp til sonar Johns, Julians. Huggunarorð vegna skilnaðar foreldra hans.
Þrátt fyrir þessa afstöðu tekur Paul lagið iðulega á hljómleikum. Enda voru John og Julian afar sáttir við lagið. John sagði texta lagsins vera einn besta texta Pauls. Hann hefði iðulega gert góðlátlegar lagfæringar á textum Pauls. Sem Paul alltaf fagnaði. En í þessu tilfelli hafi textinn verið virkilega flottur frá upphafi til enda.
John las út úr textanum vinsamlega kveðju til sín. Í textanum segir: "When you found her, now go and get her." John túlkaði þetta sem Paul væri að votta skilning eða samþykki á því að hann væri að skilja við Cintheu og taka saman við Yoko.
John ólst upp á ástlausu en um margt góðu heimili kaldlyndrar og afar snobbaðrar frænku sinnar. Hann þekkti ekki foreldra sína fyrr en á fullorðinsárum. Það sat alltaf í honum. Sauð á honum reiði sem leitaði útrásar í slagsmálum á pöbbum.
John var lítt góður faðir. Paul var syni hans, Julian, miklu betri "faðir". John lýsti Paul sem mikilli barnagælu. Ótal ljósmyndir staðfesta að samband Pauls og Julians var nánara en samband Johns við son sinn. Julian kallar Paul besta frænda. Þegar Julian var á barnsaldri og þeir þrír gengu saman voru það Paul og Julian sem leiddust. Paul hefur alla tíð ræktað gott samband við börn Bítlanna. Nema Sean Lennon. Þeir hafa aldrei kynnst almennilega.
Tónlist | Breytt 22.6.2019 kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.6.2019 | 00:10
Górillur "pósa"
Flestir reyna að koma þokkalega fyrir þegar þeir verða þess varir að ljósmyndavél er beint að þeim. Ekki síst þegar teknar eru svokallaðar sjálfur. Þetta er greinilegt þegar kíkt er á sjálfurnar sem flæða yfir fésbókina.
Svona hegðun er ekki einskorðuð við mannfólkið. Þetta á líka við um górillurnar í þjóðgarðinum í Kongó. Þær hafa áttað sig á fyrirbærinu ljósmynd. Þær "pósa"; stilla sér upp bísperrtar og eins virðulegar og mannlegar og þeim er unnt.
Á meðfylgjandi mynd er önnur górillan eins og hún sé með hönd í vasa. Afar frábrugðið eðlilegri handstöðu apans. Hin hallar sér fram til að passa upp á að vera örugglega með á mynd. Undir öðrum kringumstæðum gengur gorillan á fjórum fótum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.6.2019 | 00:55
Ódýrasta bensínið?
Hvert olíufyrirtækið á eftir öðru auglýsir grimmt þessa dagana. Þar fullyrða þau hvert og eitt að þau bjóði upp á lægsta verð. Hvernig er það hægt? Lægsta verð þýðir að allir aðrir eru dýrari. Ef öll olíufélögin bjóða sama verð þá er ekkert þeirra ódýrast.
Er einhver að blekkja? Ekki nóg með það heldur er Jón Ásgeir kominn í stjórn Skeljungs. Í kjölfar var færeyski forstjórinn settur af. Fleiri fuku í leiðinni. Við lifum á spennandi tímum, sagði Þorgerður Katrín þegar bankarnir voru keyrðir í þrot (og kúlulán upp á heila og hálfa milljarða voru afskrifuð á færibandi).
4.6.2019 | 08:02
Fölsk Fésbókarsíða
Fésbókarvinur minn, Jeff Garland, sendi mér póst. Hann spurði af hverju ég væri með tvær Fésbókarsíður með samskonar uppsetningu. Sömu ljósmyndir og sömu Fésbókarvinir. Draugasíðan hafði sent honum vinarbeiðni. Mín orginal-síða er með 5000 vinum. Draugasíðan var með 108 vini. Öllum sömu og orginal-síðan mín.
Ég fatta ekki húmorinn eða hvaða tilgangi draugasíðan á að þjóna. Enda fattlaus. Jeff hefur tilkynnt FB draugasíðuna. Vonandi er hún úr sögunni. Draugasíðan hefur blessunarlega ekki valdið neinu tjóni. Þannig lagað. En ginnt 108 FB vini mína til að svara vinarbeiðni.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.6.2019 | 00:11
Vinsælustu klassísku rokklögin
Fyrir þremur árum sofnaði ég á Fésbók tónlistarhópinn "Classic Rock". Þar birti ég myndbönd með sívinsælustu slögurum rokksögunnar. Reyndar með þeim skekkjumörkum að ekki séu fleiri en 3 myndbönd með sama flytjanda. Notendur síðunnar eru á annað þúsund ("lækarar" + fylgjendur). Áhugavert er að sjá hvaða myndbönd eru mest spiluð á síðunni. Ég hefði ekki giskað rétt á röðina. Þannig raðast þau: Að vísu er teljarinn óvirkur nú til nokkurra vikna. En kemur - að ég held - ekki að sök.
1. Stealers Wheel - Stuck in the middle with you (588 spilanir)
2. Týr - Ormurin langi (419 spilanir)
3. Steely Dan - Reelin in the year (322 spilanir)
4. Deep Purple - Smoke on the water (238 spilanir)
5. Fleetwood Mac - Black magic woman (192 spilanir)
6. Tom Robinson Band - 2-4-6-8 Motorway (186 spilanir)
7. Tracy Chapman - Give me one reason (177 spilanir)
8. Bob Marley - Stir it up (166 spilanir)
9. Sykurmolarnir - Motorcycle mama (162 spilanir)
10. Creedence Clearwaer Revival - I put a spell on you (160 spilanir)
11-12. Janis Joplin - Move over (148 spilanir)
11-12. Shocking Blue - Venus (148 spilanir)
13. Jethro Tull - Aqualung (145 spilanir)
14. Bob Dylan - Subterreanean homesick blues (138 spilanir)
15. Bruce Springsteen - Glory Days (134 spilanir)
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)