13.8.2020 | 03:28
Kenning Gudda
Guddi keðjureykti. Sennilega áttu reykingarnar einhvern þátt í miklum hóstaköstum sem hann fékk í tíma og ótíma. Oftar í ótíma.
Guddi slóst í hóp með systkinum mínum er þau skelltu sér á dansleik í Varmahlíð. Er dansleik lauk sýndu gestir á sér fararsnið. Þar á meðal Guddi og systkinin. Líka piltur sem sýndi systir minni áhuga. Gudda þótti hann full ágengur. Hann snöggreiddist, greip þéttingsfast um hálsmálið á kauða og reiddi hnefann til höggs. Í sama mund fékk hann langt og heiftarlegt hóstakast. Hnefinn lak niður. En Guddi sleppti ekki takinu á hálsmálinu. Né heldur rauf hann augnsambandið. Hann starði heiftúðlegum augum á drenginn á meðan hann hann hóstaði og hóstaði. Gaurinn sýndi engin viðbrögð. Starði bara í forundran á Gudda. Hann var töluvert stærri og kraftalegri en Guddi.
Er hóstakastinu linnti var Guddi búinn á því. Hann sleppti takinu og bað systkinin um eitthvað að drekka. Hann yrði að væta kverkarnar eftir svona hóstakast.
Guddi var alltaf eldfljótur til svars. Hann, ég og pabbi vorum að stinga út úr fjárhúsum. Guddi lét reykingar sinar ekki trufla vinnuna. Hann hélt sígarettum á milli vara og hafði hendur lausar til athafna.
Bróðir minn, 4ra eða 5 ára, spurði Gudda: "Af hverju reykir þú svona mikið?"
Guddi svaraði þegar í stað: "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"
7.8.2020 | 22:30
Guddi í áflogum við mannýg naut
Guddi hét maður. Hann varð heimilisvinur foreldra minna á Hrafnhóli í Hjaltadal. Kom og dvaldi þar dögum saman. Ég var fluttur að heiman. Hitti hann aðeins einu sinni er ég heimsótti foreldrana.
Þegar ég hitti hann þá sagði hann mér margar grobbsögur af sér. Þær líktust sögum Munchausens. Ein var af því þegar nautahjörð réðist á hann. Nautin komu hlaupandi í halarófu að honum með hausinn undir sig. Hátt í tuttugu skepnur. Hraðinn á þeim var svo mikill að Guddi sá að vonlaust væri að flýja. Eina ráðið var að standa gleiður og takast á við nautin. Hann greip um hornin á þeim og snéri svo hratt upp á þau að kvikindin urðu afvelta. Hann snéri þeim til skiptis til vinstri og hægri. Þegar atinu lauk var hjörðin í tveimur hrúgum. Svo dösuð var hún að Guddi gat gengið í rólegheitum á braut. En nokkuð móður.
Hann sagðist hafa sagt fólki í - eða frá - Keflavík frá þessu. Það hefði ekki trúað sér. Ég svaraði því til að það væri afar dónalegt að rengja frásagnir fólks. Guddi sagði: "Þú ert góður maður. Ég ætla að gefa þér skyrtuna mína." Svo reif hann síg úr skyrtunni og rétti að mér. Ég sagðist eiga alltof margar skyrtur og bað hann um að fara aftur í skyrtuna sína. Enda dálítið kjánalegt að sjá hann sitja beran að ofan við eldhúsborðið.
Spaugilegt | Breytt 8.8.2020 kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.8.2020 | 20:51
Afi tískufrumkvöðull
Undir lok sexunnar (sjöunda áratugarins) datt afa í hug gott sparnaðarráð. Í stað þess að fara til hárskera á Sauðárkróki - með tilheyrandi kostnaði - gæti ég klippt hann. Ég var um það bil 12 - 13 ára. Uppskriftin var sú að renna greiðu um hársvörð hans og klippa hárin sem stóðu upp úr greiðunni.
Til að gera þetta skemmtilegra þá brá ég á leik. Ég fylgdi uppskriftinni að undanskildu því að ég lét afa safna skotti neðst í hnakkanum. Afi vissi aldrei af þessu. Lyftigeta handa hans náði ekki til hnakkans.
Klippingin vakti undrun og kátínu hvert sem afi fór. Foreldrar mínir stóðu í þeirri trú að afa þætti þetta flott. Sennilega laug ég því í þau. Einhverra hluta vegna nefndi enginn þetta við afa. Mér er minnisstætt er mágkona pabba tók mömmu afsíðis og spurði hvaða uppátæki þetta væri hjá afa að vera með skott. Þær voru sammála um að þetta væri furðulegt uppátæki hjá tengdapabba þeirra en svo sem ekkert furðulegra en margt annað í hans fari.
Svo skemmtilega vildi til að um og uppúr 1980 komst svona skott í tísku. Bæði hérlendis og erlendis. Afi var fyrstur. Hann var frumkvöðullinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt 2.8.2020 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.7.2020 | 23:42
Af hverju talar fólk um sig í þriðju persónu?
Ég var að horfa á sjónvarpsþátt með bandarískum réttarsálfræðingi, Dr. Phil. Hann talar ítrekað um sig í þriðju persónu. Þetta er ósjálfráð aðferð til að upphefja sig. Skrýtið að sálfræðingur átti sig ekki á þessu. Hann hefur þó upplýst hvað liggur að baki. Pabbi hans var sjálfhverfur alkahólisti. Phil þráði viðurkenningu frá honum. Þó ekki væri nema smá hrós. Það kom aldrei. Honum gekk vel í skóla. En pabbinn lét það sig engu skipta. Phil fékk aldrei neitt jákvætt frá honum.
Kunningi minn átti erfiða æsku. Ólst upp við ofbeldi. Hann talar oftast um sig í þriðju persónu. Og alltaf þegar hann hælir sér af einhverju. Hann segir: "Bjössi eldaði frábæran rétt í gær a la Björn" og "Bjössi veit nú margt um þetta!"
Annan þekki ég sem bætir nafni sínu alltaf við þegar hann vitnar í samtöl sín. Hann lætur viðmælandann hefja setningar á ávarpinu "Ólafur minn..." eða: "Ég get sagt þér, Ólafur minn..."
Lífstíll | Breytt 27.7.2020 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
20.7.2020 | 22:07
Söluhæstu lög og plötur í dag
Sölutölur yfir vinsæl lög og plötur eru í dag dálítið flókið og margslungið dæmi. Plötur í föstu formi (vinyl, geisladisk, kassettur...) hafa farið halloka fyrir streymisveitum á netinu. Höfundaréttarskráning heldur utan um þetta flókna dæmi.
Þetta eru söluhæstu tónlistarmenn fyrri helmings - fyrstu 6 mánuði - þessa árs:
1. Bítlarnir seldu um 1,1 milljón eintök af sinni afurð.
2. The Queen koma næst með 780 þúsund eintök.
3. Imagine Dragons 600 þúsund eintök.
4. Fleetwood Mac 565 þúsund eintök.
5. Metallica 550 þúsund eintök.
Óendanlegar yfirburða vinsældir Bítlanna eru ekki óvæntar. Samt. Bítlarnir sendu frá sér plötur aðeins um sex ára skeið á sjöunda áratugnum (6-unni). Síðan er liðin meira en hálf öld.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
16.7.2020 | 00:54
Undarlegur leigjandi
Nonni kunningi minn er á áttræðisaldri. Hann leigir út 3 herbergi í íbúð sinni. Sjálfur er hann í því 4ða.
Eitt sinn vantaði hann leigjanda. Í auglýsingu í Fréttablaðinu óskaði fertugur Þjóðverji eftir herbergi. Nonni lærði þýsku á unglingsárum. Honum þótti spennandi að rifja hana upp.
Honum til vonbrigða vildi sá þýski lítið með þýsku hafa. Sagðist þess í stað þurfa að æfa sig í ensku. Í Þýskalandi biði hans starf sem túlkur.
Fljótlega varð Nonni var við rýrnun í ísskáp sínum og brauðskúffu. Hann leit framhjá því. Þetta var ekki fjárhagstjón sem skipti máli. Verra þótti honum þegar lækkaði í áfengisflöskum hans og leifarnar voru með vatnsbragði. Fremur en gera veður út af þessu þá tók hann til bragðs að geyma áfengið úti í bíl.
Einn daginn var uppáhaldsjakki Nonna horfinn. Þá gerði hann nokkuð sem hann annars gerði aldrei. Hann notaði aukalykil til að kíkja inn í herbergi Þjóðverjans. Þar var jakkinn á stólbaki. Hann lét jakkann vera.
Seint um kvöldið skilaði leigjandinn sér í hús. Nonni spurði hvort hann hefði séð jakkann. Jú, Þjóðverjinn kvaðst hafa fengið hann lánaðan. Sagðist hafa þurft á áríðandi fund og ekki átt nógu fínan jakka sjálfur. Svo snaraðist hann inn í herbergi og kom aftur fram í jakkanum. Saman dáðust þeir Nonni að fegurð jakkans. Skyndilega sagðist kauði þurfa að skjótast út. Hann var enn í jakkanum og skilaði sér ekki fyrr en um miðja nótt.
Næsta dag var leigjandinn enn í jakkanum. Nonni bað hann um að skila flíkinni. Það var auðsótt.
Upp frá þessu tók Þjóðverjinn að ganga í fleiri fötum af Nonna. Þegar hann gerði athugasemd við þetta þá útskýrði kauði að sínar skyrtur væru óhreinar, einu almennilegu buxurnar hefðu rifnað og svo framvegis. Nonni þurfti ávalt að biðja hann um að skila fötunum. Annars gerði hann það ekki.
Svo gerðist það að Nonni brá sér á skemmtistað. Þar hitti hann konu. Er vangadansi og dansleik lauk fylgdi hún honum heim. Hann keypti nokkra bjóra í nesti. Þar sem þau sátu í stofunni, keluðu og sötruðu veigarnar vaknaði leigjandinn við tal þeirra. Hann kom fram og þáði bjór. Síðan rakti hann fyrir konunni dapurlega ævi sína. Foreldrar hans voru myrtir af nasistum. Hann ólst upp við illan kost á munaðarleysingjahæli. Minningarnar voru svo sárar að hann brast í grát. Loks henti hann sér hágrátandi í faðm konunnar. Hún reyndi hvað hún gat að róa hann og hugga.
Nonni brá sér á salerni. Er hann snéri til baka voru konan og leigjandinn horfin. Hann bankaði á dyr leiguherbergisins og kallaði. Þjóðverjinn kallaði til baka að þau væru farin að sofa. Bauð svo góða nótt.
Það fauk í Nonna. Hann rak leigjandann daginn eftir. Konan bauð honum að flytja til sín til bráðabirgða. Lauk þar með samneyti karlanna.
Ári síðar hittust þeir á gangi. Þjóðverjinn leiddi frænku hans. Hún upplýsti að þau væru trúlofuð. Nonni hringdi í foreldra hennar. Sagði þeim frá kynnum sínum af manninnum. Fékk hann þá að vita að tengdasonurinn væri ekki þýskur heldur Íslendingur í húð og hár. En ekki hafði farið framhjá þeim að hann væri ósannsögull.
Spaugilegt | Breytt 17.7.2020 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.7.2020 | 22:28
Keypti í ógáti 28 bíla
Eldri Þjóðverji hugðist uppfæra heimilisbílinn; skipta gamla bensínsvolgraranum út fyrir lipran rafmagnsbíl. Hann hélt sig innanhúss vegna Covid-19. Nógur tími var aflögu til að kynna sér hver væru heppilegustu kaup. Þegar hann var kominn með niðurstöðu vatt hann sér í að panta bílinn á netinu.
Tölvukunnátta er ekki sterkasta hlið karlsins. Allt gekk þó vel til að byrja með. En þegar kom að því að smella á "kaupa" gerðist ekkert. Í taugaveiklun margsmellti hann. Að lokum tókst þetta. Eiginlega of vel. Hann fékk staðfestingu á að hann væri búinn að kaupa bíl. Ekki aðeins einn bíl heldur 28. 1,4 milljónir evra (220 milljónir ísl. kr.) voru straujaðar af kortinu hans.
Eðlilega hafði kauði ekkert að gera við 28 bíla. Bílaumboðið sýndi því skilning og féllst á að endurgreiða honum verð 27 bíla. Tók hann þá gleði sína á ný og staðan á korti hans hrökk í betra hrof.
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.7.2020 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.7.2020 | 04:07
Svínað á Lullu frænku
Mín góða og skemmtilega frænka úr Skagafirðinum, Lulla, var ekki alveg eins og fólk er flest. Oft var erfitt að átta sig á því hvernig hún hugsaði. Viðbrögð hennar við mörgu voru óvænt. Samt jafnan tekin af yfirvegun og rólegheitum. Henni gat þó mislíkað eitt og annað og lá þá ekki á skoðun sinni.
Hún flutti ung til Reykjavíkur. Þar dvaldi hún af og til á geðdeild Borgarspítala og á Kleppi í bland við verndaða vinnustaði. Henni var alla tíð afar hlýtt til Skagafjarðar og Skagfirðinga.
Aksturslag hennar var sérstætt. Sem betur fer fór hún hægt yfir. 1. og 2. gír voru látnir duga. Aðrir bílstjórar áttu erfitt með að aka í takt við hana.
Á áttunda áratugnum var mágur minn farþegi hjá henni. Þá tróðst annar bíll glannalega fram úr henni. Lulla var ósátt og sagði: "Þessi er hættulegur í umferðinni. Hann svínar á manni."
Mágur minn benti henni á að bílnúmerið væri K. Þetta væri skagfirskur ökuníðingur. Lulla svaraði sallaróleg: "Já, sástu hvað hann tók fimlega framúr? Skagfirðingar eru liprir bílstjórar!"
Fleiri sögur af Lullu frænku: HÉR
27.6.2020 | 23:17
Svíi var svo fullur að lögreglan hélt að hann væri Dani
Sænskur saksóknari hefur ákært 29 ára Svía. Sakarefnið er ölvunarakstur, flótti frá árekstri og brot á vopnalögum. Við yfirheyrslu kvaðst hann hafa drukkið romm, koníak, brennivín og vatn. Síðan hafi hann farið í göngutúr og mokað smávegis snjó fyrir utan hús föður síns. Að því loknu vaknaði hann sér til undrunar upp af værum blund í fangaklefa.
Lögreglan kom auga á manninn flýja á hraðferð af vettvangi eftir að hafa klesst á tvo kyrrstæða bíla. Hraðferðin endaði í snjóskafli. Þar sat bíllinn fastur.
Þegar lögreglan opnaði bíldyrnar gus upp megn áfengislykt. Á bílgólfinu blasti við vodkaflaska. Jafnframt reyndist maðurinn vera vopnaður ólöglegum hníf.
Svo sauðdrukkinn var hann að lögreglan var lengst af sannfærð um að hann væri Dani.
Honum er gert að borga sveitarfélaginu Trollhattan 21 þúsund kall fyrir að hafa ekið niður staur. Að auki þarf hann að borga hálfa milljón fyrir bílana sem hann ók utan í. Einhverja sekt fær hann fyrir ölvun undir stýri.
Spaugilegt | Breytt 28.6.2020 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.6.2020 | 23:58
Vinsælustu músíkhóparnir
Á Facebook held ég úti fjölda músíkhópa; hátt á þriðja tug. Flestir voru stofnaðir um svipað leyti. Þess vegna hefur verið áhugavert að fylgjast með þeim vaxa og þróast mishratt. Þessir hópar einskorðast ekki við Ísland. Það er dálítið spennandi. Þeir sem skrá sig í hópana koma úr öllum heimshornum.
Margt sem póstað er í hópana er áhugavert og kynnir mann fyrir ýmsum tónlistarmönnum. Faldir fjársjóðir kynntir til leiks. Stundum fylgja með fjörlegar og fróðlegar umræður í athugasemdakerfinu. Ég hef kynnst hellingi af skemmtilegri músík í þessum hópum. Einnig eignast vini; tónlistarfólk frá flestum nágrannalöndum. Sumir eru lítt þekktir er þeir stimpluðu sig inn en eru í dag stór nöfn.
Af listanum yfir fjölmennustu hópana mína mætti ætla að ég sé fyrst og fremst kántrý-bolti. Svo er ekki. Samt kann ég vel við margt kántrý. Sérstaklega frá fyrri hluta síðustu aldar. Líka americana og roots kántrý, svo ekki sé minnst á cow-pönk.
Einn hópurinn minn var kominn með næstum því 60 þúsund félaga. Þá stálu vondir menn honum. Þeir virtust vera á Filippseyjum. Þeir hökkuðu sig inn í hópinn og yfirtóku hann. Síðan breyttu þeir nafni hans og eru eflaust að herja á liðsmenn hópsins með gylliboðum um peningalán og eitthvað svoleiðis.
Þetta eru vinsælustu hóparnir. Fyrir aftan er félagafjöldinn.
1. The best country and western songs ever 19.904
2. The best international country and western music 1559
3. Country & western music 1069
4. Alternative rock jukebox 941
5. Færeyskir tónar - Faroese music 832
6. Blues, jazz 701
7. Country music, folk, blues 632
8. Best of Icelandic rock music, jazz, reggae, country 584
9. Classic rock 544
10. The Byrds family 461
Félagafjöldinn segir ekki alla söguna. Í sumun fámennari hópum er ekki síðra líf og fjör. Í fjölmennustu hópum vill brenna við að innlegg séu kaffærð helst til fljótt af nýrri póstum.
Tónlist | Breytt 30.6.2020 kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2020 | 23:12
Smásaga um mann
Bjössi gengur léttfættur niður Skólavörðustíg. Á miðri götunni mætir hann manni. Þeir heilsast ekki. Þeir þekkjast ekki. Engir aðrir eru á ferli. Ekki þarna. Samt er klukkan 5 að morgni.
Bjössi heldur áfram för. Kominn niður í Austurstræti rekst hann á vinnufélaga. Áreksturinn er svo harkalega að þeir falla í götuna og kútveltast þar í góða stund. Eftir að hafa rúllað fram og til baka bera þeir kennsl á hvorn annan. Þeir brölta á fætur, faðmast og knúsast.
Í þann mund sem ástandið er að verða erótískt spyr Bjössi: "Hvað er að frétta?" Vinnufélaginn lætur ekki koma að tómum kofa hjá sér. Hann romsar óðamála: "Húsasmiðjan er með afslátt á blómum. Allt upp í 50%. Verkfæralagerinn er með opið til klukkan 5 á sunnudögum. Í útlöndum var maður tekinn af lífi af því að allir voru orðnir leiðir á honum. Íslendingar þurfa að skapa 60 þúsund ný störf næstu 30 árin. Þjóðverjar eru farnir að kaupa hús í Færeyjum. Einn keypti 3 hús á einu bretti. Bítillinn og barnagælan Paul McCartney bregst hinn versti við ef einhver kallar Heather stjúpdóttur hans. Þá skipar hann höstuglega að hún sé kölluð dóttir hans. Hún sé jafn mikil dóttir hans og þær sem hann hefur eignast í hjónabandi. Hann ættleiddi hana er hann tók saman við mömmu hennar, Lindu. Atvinnuleysi á Íslandi fer lækkandi. Skiptar skoðanir eru á vindorkurafmagni. Hafrannsóknarstofa leggur til minni þorskafla. Minni þorskafli var upphaf kvótakerfisins á níunda ártugnum. Sælgætisgerðin Nói Síríus er ósátt við að yfirvöld mismuni samkeppnisstöðu erlendra og innlendra framleiðenda með ofurtollum á hráefni. EZ túpressan er þarfaþing á öllum heimilum. Hún fullnýtir allt innihald túpu, hvort sem er kaviar, tannkrem, olíulitir eða annað. Fyrirhugað er slitlag á Dettifossveg. Tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm er frá Hólum í Hjaltadal. John Lennon var ekki ættrækinn. Enda ekki alinn upp af foreldrum sínum heldur kuldalegri frænku. Frænkunni gaf hann höll. Líka systrum sínum tveimur. Í höllinni bjuggu systurnar ásamt fjárhaldsmanni og fleirum. Þegar John Lennon var myrtur gerði ekkjan, Yoko Ono, sér lítið fyrir og sparkaði systrunum og liðinu í kringum þær út úr húsinu. Bensínsölu í Verslun Haraldar Júl hefur verið hætt á Sauðárkróki. Nasdaq vísitalan lækkaði um hálft prósent í gær."
Þegar hér er komið sögu bugast Bjössi undir tíðindunum. Hann brestur í grát með miklum hljóðum. Vinnufélaginn fattar strax að staðan er sorgleg. Hann brestur einnig í grát og grætur miklu hærra en Bjössi. Fær að auki blóðnasir. Þeir ganga svo í sitthvora áttina án þess að kveðjast. Hávær grátur þeirra bergmálar um næstu götur og vekur útlendinga í nálægum hótelum.
Spaugilegt | Breytt 20.6.2020 kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.6.2020 | 23:32
Dæmalausir fordómar
Ég veit ekki hvort ég fari rétt með orð Andreu Jónsdóttur; hún sagði eitthvað á þá leið að fordómar væru í lagi en ekki miklir fordómar. Allir hafa fordóma. Ég hef fordóma gegn skallapoppi, harmónikkumúsík, kórsöng og ýmsu öðru músíktengdu. Ég hugsa til þess með hryllingi að fara á elliheimili eftir 3 ár og sitja þar undir sömu músík og vistmenn þess í dag. Ekkert Slayer. Ekkert Dead Kennedys. Ekkert Pantera. Ekki einu sinni Skálmöld né Sólstafir.
Á elliheimilinu get ég væntanlega flúið inn á mitt herbergi og blastað í heyrnartólum Sepultura, Mínusi og I Adapt. Málið er að hæg líkamsstarfsemi aldraðra harmónerar ekki við hart og hratt rokk.
Verri eru fordómar gegn hörundslit, menningarmun, hárlit og appelsínugulum sjálfbrúnkulit.
Alltaf er gott að við sljóir hvítir eldri karlar fái olnbogaörskot og séu vaktir upp af værukærum svefni. Ritskoðun á rasisma er hið besta mál. Sérstaklega þegar hún beinist gegn styttum. Þær eru út í hött. Kannski. Nú hefur gríni Fawlty Towers verið úthýst af netveitum ásamst Gone with the Wind (Á hvervandi hveli).
Menning og listir | Breytt 13.6.2020 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.6.2020 | 00:00
Auglýsingar í íslenskum eða erlendum miðlum?
Einhverjir hafa eflaust tekið eftir því að íslenska samfélagið höktir um þessar mundir. Sjaldan hafa jafn mörg fyrirtæki átt í erfiðleikum. Atvinnuleysi er óásættanlegt. Áfram mætti telja. Þess vegna velti ég fyrir mér eftirfarandi:
Helsta tekjulind stærstu samfélagsmiðlanna er auglýsingasala. Svo ég taki Facebook sem dæmi þá er tiltölulega ódýrt að auglýsa þar. Einn auglýsingapakki kostar kannski 5000 kall. Útlagður kostnaður miðilsins er enginn. Auglýsendur græja þetta allt sjálfir.
Ýmsir gallar eru við auglýsingar á Facebook. Það er kúnst að nýta miðilinn þannig að snertiverð sé hagstætt.
Ástæða er til að gagnrýna samfélagsmiðlana sem auglýsingavettvang. Þeir borga enga skatta eða gjöld af auglýsingatekjum sínum. Ekki einu sinni virðisaukaskatt. Þess vegna er einkennilegt að sjá Alþýðusamband Íslands, ASÍ, auglýsa í þeim.
Ég hvet íslenska auglýsendur til að sniðganga samfélagsmiðlana. Auglýsa einungis í íslenskum fjölmiðlum. Ekki endilega til frambúðar. Aðeins og fyrst og fremst núna þangað til hjól atvinnulífsins ná að snúast lipurlega. Á svona tímum þurfum við Íslendingar að snúa bökum saman og gera allt sem í okkar valdi stendur til að yfirstíga yfirstandandi þrengingar. Ferðast innanlands og til Færeyja, Gefa erlendum póstverslunum frí um stund; beina viðskiptum til íslenskra fyrirtækja og blasta íslenskri tónlist sem aldrei fyrr.
Viðskipti og fjármál | Breytt 6.6.2020 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.5.2020 | 23:25
Var John Lennon góður gítarleikari?
Gróf skilgreining á rhythma-gítarleik er sú að hann haldi utan um takt og hljómagang í dægurmúsík. Slái takt með trommaranum og "strömmi" samtímis hljómaganginn á meðan sólógítarleikarinn leikur lausum hala. Eða einhver annar í sólóhlutverki. Gott dæmi er Addi Sigurbjörns í Glugganum með Flowers.
Þrátt fyrir mikilvægi rhythma-gítarleikara stendur hann jafnan í skugga þeirra sem spila sóló. Sólógítarleikari fær að troða sér framarlega á sviðið á meðan hann afgreiðir sólóið. Jafnvel troðast fram fyrir söngvarann (ég hef lent í þessu).
John Lennon var rhythma-gítarleikari Bítlanna. Hann var aldrei í skugga vegna þess að hann samdi flest lög Bítlanna, söng mörg þeirra og var í huga margra - þar á meðal annarra Bítla - forsprakki hljómsveitarinnar. Þar að auki einn besti söngvari og textahöfundur rokksögunnar. Margt fleira gott mætti segja um hann annað en að hann lamdi fyrri eiginkonu sína, einnig bassaleikara sína, Paul og Stu Sutcliffe, trommuleikarann sinn í Querrymen og marga fleiri.
Flottur sólógítarleikari Bítlanna var George Harrison. Paul McCartney var einnig góður gítarleikari. Í upphafi ferils Bítlanna kom til ágreinings um hvor ætti að afgreiða sólógítarinn. Það var þegar Stu helltist úr lestinni. Leikar fóru þannig að Paul varð að sætta sig við að George væri betri sólógítaleikari.
John Lennon fór ekki troðnar slóðir í gítarleik fremur en öðru. Í einu af fyrstu Bítlalögum, All My Loving, stelur hann senu með óvæntu og nýstárlegu gítarspili. Þar hamrar hann hratt í gegnum lagið - eins og í kapphlaupi - í stað þess að fylgja trommutaktinum.
Blessunarlega voru Bítlarnir - allir - lausir við sólórembing. Bassaleikarinn Paul trommaði í stöku lagi. Ekki til að gera betur en Ringo. Bara halda takti. John og Paul tóku mörg gítarsóló á síðustu plötum Bítlanna. Þar á meðal spilaði John sólógítar lagsins Get Back á lokakonserti Bítlanna á Abbey Road. Síðar sagðist hann hafa farið í hlutverkaleik, eins og þeir Paul gerðu svo oft. Í þessu tilfelli þóttist hann vera George. Spilaði sólógítarleik eins og George hefði gert.
John var meiriháttar flottur kssagítarplokkari. Fór samt einkennilega sparlega með það. Hann var meira í rokkinu.
.
John var eldfljótur að læra á hvaða hljóðfæri sem var. Hann var dúndurgóður munnhörpuleikari. Alls spilaði hann á fast að tuttugu hljóðfæri. Vegna óþolinmæði og athyglisbrests nennti hann aldrei að æfa hljóðfæraleik. Hann glamraði oft á hljómborð - bæði með Bítlum og ennfremur á sólóferli - en vissi aldrei hvað hljómarnir hétu sem hann spilaði.
John var uppátækjasamur frá fyrstu tíð. Hann var knúinn áfram af takmarkalausri sköpunargleði. Til að mynda notaði hann endurkast sem inngang í I Feel Fine. 1964 hafði svoleiðis ekki heyrst áður. Sömuleiðis samdi hann gítar-riffið sem gengur í gegnum lagið.
Mestu varðaði að gítarleikur Johns skipti iðulega sköpum fyrir stemmningu lagsins.
Hér má heyra hvað gítarleikur Johns vó þungt í flutningi Bítlanna. Á mínútu 2:58 hleypur áheyrandi upp að honum. Hann fipast og sleppir úr nokkrum töktum. Við það fellur krafturinn og botninn úr flutningnum.
Tónlist | Breytt 2.8.2020 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.5.2020 | 23:51
Svívirðilegur áróður gegn Íslandi
Á Norðurlöndunum er gríðarmikill áhugi fyrir því að sækja Ísland heim. Ástæðurnar eru margar. Þar á meðal að íslenska krónan er lágt skráð. Einnig að Íslendingar hafa staðið sig sérlega vel í baráttunni gegn kórónaveiruna. Þar að auki þykir íslensk tónlist ævintýraleg og flott, sem og íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsþættir.
Ekki eru allir sáttir við þetta. Norska dagblaðið VG hvetur fólk til að heimsækja EKKI Ísland. Bent er á að Ísland þyki svalt og íbúarnir ennþá svalari. Vandamálið sé yfirþyrmandi ferðamannafjöldi: Sex ferðmenn á móti hverjum einum Íslendingi og það sé eins og allir ætli í Bláa lónið á sama tíma og þú.
VG segir að til sé vænni valkostur. Þar séu reyndar hvorki jöklar né eldfjöll. Hinsvegar öðlast fólk þar sálarró og frið í afskekktum óspilltum sjávarþorpum og fordómaleysi.
Staðurinn sé óuppgötvaður eyjaklasi sem svo heppilega vill til að er landfræðilega nær Noregi en Ísland. Hann heiti Færeyjar.
19.5.2020 | 05:55
Smásaga um mann
Hann er kallaður Graði brúnn. Það er kaldhæðni. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur. Því síður karlmann. Ástæðan umfram annað er rosaleg feimni. Ef kona ávarpar hann þá fer hann í baklás. Hikstar, stamar og eldroðnar. Hann forðar sér á hlaupum úr þannig aðstæðum. Gárungar segja hann eiga sigurmöguleika í 100 metra spretthlaupi. Svo hratt hleypur hann.
Nýverið varð breyting á. Kallinn keypti sér tölvu. Þó að hann kunni lítið í ensku gat hann skráð sig á útlendar stefnumótasíður. Með aðstoð translate.google gat hann ávarpað útlenskar konur. Feimnin þvælist ekki fyrir honum fyrir framan tölvuskjá. Að vísu setur hann upp kolsvört sólgleraugu til að finna öryggi.
Svo skemmtilega vildi til að finnsk kona sýndi honum óvæntan áhug. Hún var sérlega spennt fyrir því að Graði brúnn safnar servíettum, merktum pennum og tannstönglum notuðum af frægum Íslendingum.
Finnska fraukan lýsti fljótlega yfir löngun til að heimsækja okkar mann. Framan af varðist hann fimlega. Bar fyrir sig dauðsfalli móður. Þvínæst dauðsfalli föður. Svo annara helstu ættingja. Vörnin brast þegar hann var farinn að telja upp dauðsfall fjarskyldra ættingja og vini þeirra. Dauðsföllin slöguðu upp í fórnarlömb Víetnam-stríðsins.
Einn daginn tilkynnti sú finnska að hún væri á leið til Íslands. Búin að kaupa flugmiða og hann ætti að sækja hana upp á flugstöð. Hann fékk áfall. Fyrst leið yfir hann. Svo fékk hann kvíðakast. Því næst át hann kornflex-pakka í taugaveiklunarkasti. Sporðrenndi ekki aðeins kornflexinu heldur einnig sjálfum pappakassanum. Honum datt í hug að skrökva því að hann væri dáinn. Hefði verið myrtur af ofbeldismanni. Aðrir eru ekki að drepa fólk.
Að lokum komst Graði brúnn að þeirri niðurstöðu að nú væri að duga eða drepast. Helst að duga. Hann keyrði á réttum tíma til flugstöðvarinnar. Hann þekkti finnsku dömuna þegar í stað. Enda eina konan á svæðinu búin að raka af sér allt hárið nema fjólubláa fléttu fyrir ofan annað eyrað.
Strax við fyrstu kynni í raunheimum blossaði feimnin upp. Komin út í bíl sýndi hann dömunni með leikrænum tilþrifum að hann væri að hlusta á útvarpið. Hann stillti það hátt. Þulurinn á Rás 2 malaði: "Klukkan er 5 mínútur gengin í sex. Nóg framundan til klukkan sex. Metsölubókahöfundur er að koma sér fyrir hérna. Um hálf sex leytið mætir vinsælasta hljómsveit landsins og frumflytur nýtt lag... Klukkan sex taka fréttir við..."
Þegar hér var komið sögu sló sú finnska hann af alefli í andlitið. Hann varð hissa og spurði: "Ertu að lemja mig í andlitið?" Blóðnasirnar svöruðu spurningunni.
Kella hafði ekki sagt sitt síðasta orð. Hún gargaði á kauða: "Hvernig vogar þú þér að spila fyrir framan mig klámútvarp? Sex, sex, sex í annarri hverri setningu. Heldur að ég fatti ekki neitt, klámhundur!"
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.5.2020 | 01:00
Kallinn sem reddar
Er eitthvað bilað? Þarf að breyta einhverju? Þarf að bæta eitthvað? Þarf að laga eitthvað? Þá getur komið sér vel að vita af kallinum sem reddar ÖLLU. Sjón er sögu ríkari:
8.5.2020 | 00:30
Áhrifarík plata
- Titill: Sameinaðar sálir
- Flytjandi: Guðmundur R. Gíslason
- Einkunn: ****
Mér telst til að þetta sé þriðja sólóplata Guðmundar Rafnkels Gíslasonar. Hann er einnig þekktur fyrir að hafa verið söngvari hljómsveitarinnar Sú Ellen í Norðfirði. Söngstíll hans er snyrtilegur, mildur og notalegur. Engin öskur eða læti. Sama má segja um lög hans, sem og Guðmundar Jónssonar og Jóns Ólafssonar. Þau eru snotur, söngræn og hafa eiginleika til að lifa lengi (verða sígild).
Textar Guðmundar vega þungt. Þeir vekja til umhugsunar. Eru blúsaðir. Þeir fjalla margir hverjir um sársaukafullar aðstæður: Eiturlyfjafíkn, dauðsföll, alzheimer og aðra erfiða lífsreynslu. Margt er það haganlega ort. Innihalda gullkorn á borð við:
"Ég veit þú ræður ekki yfir þér;
þú meinar ekki hvert orð.
Menn geta drepið
þótt þeir fremji ekki morð!"
Sérkennilegt er að á milli laga bregður fyrir talbútum. Fyrst hélt ég að þeir myndu eldast illa. Svo er þó ekki. Þvert á móti. Þeir dýpka heildarsvip plötunnar og gera mikið fyrir stemmninguna þegar á reynir.
Útsetningar eru látlausar og smekklegar. Músíkin er fjölbreytt nett nýbylgjukennt popp-rokk. Mestu skiptir að platan er öll hin áheyrilegasta.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.4.2020 | 00:01
Vinsælustu lögin
Á Fasbók hef ég til nokkurra ára haldið úti grúppu sem heitir "Færeyskir tónar - Faroese music". Þangað inn pósta ég færeyskri tónlist (myndböndum) - eins og titillinn bendir sterklega til. Fylgjendur síðunnar eru 831 og "lækarar" 824. Flestir Íslendingar. Líka nokkrir útlendingar.
Forvitnilegt og áhugavert er að fylgjast með því hvaða lög eru oftast spiluð. Ég veit að sama fólkið spilar iðulega aftur lög sem heilla.
Þetta eru vinsælustu lögin. Innan sviga er hvað þau hafa oft verið spiluð á síðunni:
1. "Dreymurin" með Alex heitnum Bærendsen (449 sinnum). Hann kom fram á hljómleikum í Laugardalshöll í byrjun þessarar aldar. Dóttir hans, Kristína Bærendsen, söng nokkrum sinnum hérlendis á hljómleikum. Tók meðal annars þátt í söngvakeppni sjónvarpsins, júrivisjon. Hún býr núna á Íslandi.
2. "Hon syndrast" með dómdagshljómsveitinni Hamferð (doom metal) (326 sinnum). Hamferð hefur túrað með Skálmöld bæði hérlendis og erlendis.
3. "Tú er min spegil" með Jórunni (219 sinnum). Sjaldgæft er að sjá í færeysku 2 n í röð.
4. "Brotin" með Eivöru (215 sinnum)
5. "Langt burt frá öðrum löndum" með Eivöru (209 sinnum)
6. "Færeyingur á Íslandi" með Árna Tryggvasyni (184 sinnum). Það er aðeins að finna á Fasbók (ekki youtube): https://www.facebook.com/plotuskapurinn.glymskrattinn/videos/140518442709494/
7. "Aldan" með Anniku Hoydal (175 sinnum)
8. "Dansaðu vindur" með Eivöru (172 sinnum)
9-10. "Ólavur Riddararós" með Harkaliðinu (168 sinnum)
9-10. "Vilt tú at Jesus skal koma tær nær" með Manskór úr Rituvík (168 sinnum). Lagið er ekki til á youtube. Bara á Fasbók. https://www.facebook.com/sjomansmissionin/videos/213463456262854/
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.4.2020 | 06:04
Óþægilega þröngar skorður
Mér áskotnaðist "Cashout Ticket" frá Gullnámunni. Gullnáman er spilavíti rekið af góðmennsku af Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ). Upphæð miðans er kr. 25,-. Það er metnaðarlítil upphæð. Þess vegna datt mér í hug að hressa upp á upphæðina, Bæta nokkrum núllum við. Ég gerði það oft - með góðum árangri - á dögum ávísana.
Þá kom reiðarslag. Ég kíkti á bakhlið miðans. Þar stendur skýrum stöfum: Miðar eru ógildir ef þeir eru falsaðir eða þeim hefur verið verið breytt.
Hver er munur á breyttum miða og fölsuðum?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)