27.11.2008 | 20:16
Afmælisveisla Fræbbblanna í kvöld - öllum boðið!
Hljómsveitin síspræka Fræbbblarnir fagnar þrítugsafmæli sínu með stæl á Grand Rokk í kvöld, fimmtudaginn 27. nóvember. Fræbbblarnir eru lífseigasta pönkhljómsveit landsins og var ein allra fyrsta íslenska pönkhljómsveitin. Á þrjátíu ára ferli hefur hljómsveitin sent frá sér 87 lög á plötu og efni á næstu plötu er að mestu tilbúið. Hún hefur vinnutitilinn "Puttinn".
Lög af "Puttanum" verða á dagskrá Fræbbblanna í kvöld í bland við gömlu góðu "standardana" af fyrstu plötum Fræbbblanna. Hljómleikarnir hefjast klukkan 22:00. Það er frítt inn og bjórinn verður á eldgamla genginu. Sem er vel við hæfi því Fræbbblarnir lögðu sitt af mörkum í baráttunni fyrir því að bjór væri leyfður á Íslandi.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2008 | 21:34
Frábærlega fyndnar ljósmyndir
Nú þegar hundur er í mörgum vegna bankahrunsins er við hæfi að ná fram brosi með aðstoð þessara bráðskemmtilegu hundamynda.
Það þurfti ekki mikið til að laða fram bros hjá þessum. Það dugði að upplýsa hann um það sem satt er: Að í Færeyjum eru menn sagðir vera hundasjúkir ef þeir eru með það sem við köllum þynnku eða timburmenn.
Litli hundurinn er snöggur að víkja sér undan árás stóra hundsins. En er samt meðvitaður um að sá stóri sé ólaður og komist ekki langt. Þess vegna heldur sá litli "kúlinu" með því að færa sig ekki lengra en þarf.
Kötturinn ætlaði bara að kitla hvutta til að ná fram brosi hjá honum. Hvutti heldur hinsvegar að þetta sé smekklaus árás á sig og jafnvel upphaf á einelti.
Þessi er hundfúll yfir að vera skilinn eftir einn tjóðraður við sandpott. Frekar en gera ekkert í málinu gerir hann bara eitthvað.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
25.11.2008 | 20:10
Til hamingju Ísland!
Til hamingju Ísland. Til hamingju Ísland.
Til hamingju Ísland. Til hamingju Ísland.
Til hamingju Ísland. Til hamingju Ísland.
Til hamingju Ísland.
![]() |
Efast um að Davíð eigi við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.11.2008 | 13:58
Langbest á fiskinn
Í áraraðir hef ég heyrt íslensku kryddblöndunni Best á lambið hælt í bak og fyrir. Ekki síst í Færeyjum. Þar nýtur hún mikilla vinsælda. Vegna þess að ég bý einn þá nenni ég ekki að elda. Fyrir bragðið þekki ég Best á lambið einungis af afspurn. Einnig er til Best á kjúklinginn og Best á fiskinn.
Í gær datt ég í lukkupottinn. Mér var boðið í mat þar sem á borðum var ofnbakaður fiskur með Best á fiskinn. Þvílík snilld. Þegar ég var að rifja áðan upp þennan gómsæta veislumat laust niður í huga minn þessi hugsun: "Ég verð að láta vini mína, vandamenn - og jafnvel fleiri - vita af þessari frábæru kryddblöndu. Annars er maður ekki vinur í raun."
24.11.2008 | 23:16
Svölustu rokkstjörnurnar
Að undanförnu hefur breska poppblaðið New Musical Express staðið fyrir könnun meðal lesenda sinna um það hver sé svalasta poppstjarna rokksögunnar. Könnunni er ekki endanlega lokið en niðurstaðan liggur fyrir í grófum dráttum. Hugsanlega eiga eftir að verða einhver sætaskipti á neðstu sætunum án þess að riðla listanum sem neinu nemur.
Þannig er staðið að könnuninni að þátttakendur gefa poppstjörnunum einkunn frá 0 - 10 eftir því hvað þær eru svalar (cool). Þátttakendum er frjálst að gefa einni eða fjöldamörgum poppstjörnum einkunn. Meðaleinkunnin er fyrir aftan nafn viðkomandi. Gaman væri að heyra viðhorf ykkar til niðurstöðunnar:
1. John Lennon 7,47
Tónlist | Breytt 25.11.2008 kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
24.11.2008 | 22:39
Anna á Hesteyri - í heyskap
Eftirfarandi frásögn af Önnu á Hesteyri skrifaði Þóra Guðnadóttir í gestabókarfærslu hjá mér. Ég hef grun um að fáir lesi gestabókarfærslur. Þess vegna set ég frásögnina hér inn:
Fyrir nokkrum árum vorum við, ég og maðurinn minn, á ferðalagi og fórum í Mjóafjörð. Það var gott veður, þurrt en sólarlaust. Allt í einu geystist inn á veginn fyrir framan okkur kona í síðu svörtu pilsi og veifaði báðum höndum. Við stoppuðum og hún kynnti sig sem Önnu á Hesteyri. Bað okkur að hjálpa sér með að ná saman heyi því það væri svo rigningalegt og hún svo slæm í "sírunni". Maðurinn mínn er fæddur og uppalinn í sveit svo hann dreif sig í verkefnið og ég hjálpaði til. Við eyddum þarna dagparti við heyvinnu, náðum öllu saman fyrir hana sem lá flatt. Þessi dagur var alveg ógleymanlegur en aldrei kom rigningin sem hún spáði. Þetta kallar maður að bjarga sér.
------------------------
Fleiri frásagnir af Önnu á Hesteyri:
- fór í bakarí
http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/715823/
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.11.2008 | 19:09
Jólagjöfin í ár
Jólagjöfin í ár þarf ekki að vera dýr. Þú getur prentað þessa mynd hér að ofan út og límt hana á pappaspjald eða þunna tréplötu. Best er að nota 3M spreylím. Síðan er klippt snyrtilega í kringum myndina. Ég hef grun um að hægt sé að nota bréfaklemmu fyrir snaga. Ég veit samt ekki alveg hvernig það er gert. Einnig má líma tvöfalt límband á bakhlið spjaldsins, til að festa það á vegg. Svo safnast fjölskyldan og nágrannar saman og keppa í að láta pílurnar svífa í mark. Góða skemmtun!
Til að öllu sé til haga haldið þá kann ég ekki á tölvu og veit ekkert hver er höfundur þessa spjalds. Gaman væri hinsvegar ef einhver kann deili á því.
![]() |
Kaupþing fær greiðslustöðvun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2008 | 13:19
Einn léttur
Svissneski ráðherrann svaraði: "Ja, hvað eru Íslendingar að gera með fjármálaráðherra?"
![]() |
Stofnstærð hörpudisks í lágmarki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2008 | 23:06
Kynning á bókinni um Önnu á Hesteyri á morgun (sunnudag) í Reykjavík
Á morgun verður viðburðarík dagskrá í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Breiðholti á morgun, sunnudaginn 23. nóvember, frá klukkan 13:00 til 16:00. Þar ber hæst kynning austfirska bókmenntafræðingsins Rannveigar Þórhallsdóttur á bókinni frábæru "Ég hef nú sjaldan verið algild - Ævisaga Önnu á Hesteyri". Þetta er eina kynningin á þessari bráðskemmtilegu bók á suðurhluta landsins. Því er mikilvægt að missa ekki af þessum viðburði.
Um 30 aðrar konur kynna einnig sínar bækur. Þar á meðal eru Álfrún Gunnlaugsdóttir, Auður Jónsdóttir, Erla Bolladóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Sigrún Eldjárn, Guðrún Helgadóttir, Þórunn Valdimarsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Halla Gunnarsdóttir, Bryndís Schram, Iðunn Steinsdóttir, Eyrún Ýr Tryggvadóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sigurlína Davíðsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir.
Sitthvað verður um að vera, svo sem upplestur úr bókunum, sýning á myndum úr bókunum, ljósmyndasýning Bjarna Sigurjónssonar verður opnuð, einnig málverkasýning Halldóru Helgadóttur og boðið upp á góðgæti af ýmsu tagi.
Á bókasafninu verður upplestur fyrir börn, ásamt sýningu á bókunum sem hlutu Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, 2007 og 2008. Það verður þess vegna hægt að ná úrvals fjölskylduskemmtun út úr þessum pakka.
Þá er bara að reyna að vakna óvenju snemma til að missa ekki af neinu.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.11.2008 | 13:56
Lauflétt smásaga
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.11.2008 | 23:48
Ævisaga Harðar Torfa komin út
Mannréttindafrömuðurinn, söngvaskáldið og leikstjórinn Hörður Torfa hefur síðustu laugardaga staðið fyrir fjölsóttum og vel heppnuðum mótmælafundum á Austurvelli. Ævisaga hans, Tabú, var að koma út, skrásett af Ævari Erni Jósepssyni. Á morgun, miðvikudag, les Ævar Örn upp úr bókinni í Iðnó á milli klukkan 16:00 til 18:00.
Í fyrra þegar færeyska rokkstjarnan og gítarsnillingurinn Rasmus Rasmussen varð fyrir fólskulegri árás í Þórshöfn fyrir það eitt að vera samkynhneigður var mér illa brugðið. Færeysk lög vernduðu hann ekki fyrir ofsóknum á forsendum hommafóbíu. Rasmus er góður vinur minn og búinn að standa vaktina í áraraðir við að spila íslenska rokkmúsík í færeysku útvarpi. Ég brást við með því að fá alla þá Íslendinga sem mér hugkvæmdist að gætu komið Rasmusi og öðrum samkynhneigðum Færeyingum til varnar, meðal annars til að fá lögum í Færeyjum breytt þannig að bannað yrði að ofsækja samkynhneigða. Ég er sjálfur gagnkynhneigður en það skiptir ekki máli í þessari atburðarrás sem varð mjög hatrömm. Ég hef átt þeirri gæfu að fagna að vera vel kynntur í Færeyjum sem Færeyingavinur. Í þessu máli gaf þó á bátinn. Ég fékk minn ágæta skammt af gusum frá mörgum ágætum færeyskum vinum fyrir að skipta mér af því sem þeir kölluðu sataníska baráttu fyrir sódómísku. Svo vægt sé til orða tekið var dálítið heift í færeysku vinafólki mínu.
Meðal þeirra sem ég leitaði til um stuðning við málstaðinn var Hörður Torfa, sem ég þekkti ekki áður. Þar hitti ég fyrir mann sem lætur verkin tala. Ég má til með að nota tilefnið til að færa einnig þakkir til alþingiskvennanna Rannveigar Guðmundsdóttur og Guðrúnar Ögmundsdóttur fyrir glæsilega framgöngu sem skilaði árangri, ásamt Geir Haarde. Færeyskum lögum var breytt í nútímalegt horf og ofsóknir gegn samkynhneigðum eru bannaðar í Færeyjum í dag.
Bókaútgáfan Tindur hefur sent frá sér bókina Tabú -Ævisögu Harðar Torfasonar, sem Ævar Örn Jósepsson skráði.
Fáir listamenn hafa markað dýpri spor í íslenska samtímasögu en Hörður Torfason. Þeir eru til sem hafa hærra og sperra sig meira, en rétt eins og dropinn sem holar steininn hefur Hörður náð að búa um sig í íslenskri þjóðarvitund og breyta henni nánast án þess að nokkur tæki eftir því.
Að vísu tóku nánast allir eftir því þegar hann lýsti því yfir opinberlega, fyrstur Íslendinga, að hann væri hómósexúalisti í viðtali í tímaritinu Samúel árið 1975. Þá fór allt á hvolf, enda glæpsamlegur öfuguggaháttur að vera hinsegin í flestra augum. Hörður, sem hafði verið einn dáðasti og vinsælasti tónlistarmaður landsins, eftirsóttur leikari og fyrirsæta, hraktist af landi brott, ofsóttur og forsmáður jafnt af almenningi og þeim sem ferðinni réðu í listalífinu. Það sem hann gerði í framhaldinu (og gerir enn) hefur ekki farið jafnhátt.
Með seigluna, réttlætið og umfram allt þrákelknina að vopni vann hann hörðum höndum að stofnun baráttusamtaka fyrir réttindum samkynhneigðra. Það tókst er Samtökin 78 voru stofnuð á heimili hans þann níunda maí 1978. En hann lét ekki staðar numið heldur hélt áfram að vinna að réttindamálum samkynhneigðra á sinn hógværa en markvissa hátt. Ekki með hnefann á lofti eða slagorð á vörum, heldur með gítarinn, söngvana sína og sögurnar að vopni og umfram allt sjálfan sig.
Margt hefur breyst frá 1975. Fólk þarf ekki lengur að fara í felur með kynhneigð sína. Þjóðfélagið hótar ekki lengur að drepa þá sem eru hinsegin, líkt og fjölmargir hótuðu Herði í kjölfar játninga hans.
Tabú er áhrifarík saga einstaklings sem breytti sögu þjóðar með því að vera hann sjálfur.
![]() |
6 fundir með seðlabankastjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.11.2008 | 13:45
Anna á Hesteyri - þegar hún fór í bakarí
Hulda Elma Guðmundsdóttir segir á bloggsíðu sinni frá fyrstu kynnum af Önnu á Hesteyri. Ég tek mér það bessaleyfi að hnupla sögunni og birta hér örlítið stytta:
"Ég man það eins og gerst hafi í gær þegar ég átti fyrst orðaskipti við Önnu. Þá var ég 14 ára gömul og vann í bakaríinu hjá Línu og Sigga.
Þær mæðgur komu í bakaríið, ekki man ég hvað þær keyptu, en Lára fór út á undan Önnu, þurfti að skreppa yfir götuna í SÚN og Anna varð eftir. Hún leit yfir sæta brauðið sem var útstillt á borði bak við afgreiðsluborðið og sagði svo: "Ég ætla að fá eitt loðið".
Ég hváði og hún endurtók með niðurbældum hlátri: "Ég ætla að fá svona, eitt loðið". Ég man að mér var ekki alveg sama, það var ekkert loðið að fá í bakaríinu, svo ég sagði við hana: "Komdu bara hérna inn fyrir og sýndu mér hvað þú ætlar að fá".
Anna kom inn fyrir afgreiðsluborðið, það kraumaði í henni hláturinn, hún gekk að borðinu með sætabrauðinu og benti á kókos kúlurnar og sagði: Ég ætla að fá eitt svona. Hún hafði aldrei séð kókos kúlur fyrr og var furða þótt henni hafi fundist þetta vera eitthvað loðið."
Hulda Elma tók nýverið viðtal við Önnu á Hesteyri. Það birtist í héraðsblaðinu Austurglugganum á fimmtudaginn. Blogg Huldar Elmu er á www.heg.blog.is. Gaman væri að heyra fleiri sögur af Önnu.
.
Hér eru fleiri sögur af Önnu á Hesteyri:
Bækur | Breytt 16.9.2009 kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2008 | 04:26
Plötuumsögn
- Titill: Jarðsaga
- Flytjandi: Hörður Torfa
- Einkunn: **** (af 5)
Þetta er þriðja platan af fimm í ævintýrasögu mannréttindafrömuðarins Harðar Torfa um Vitann. Þær fyrri eru Loftssaga og Eldssaga. Hver plata er sjálfstætt verk á þann hátt að þær njóta sín hið besta án samhengis við hinar. Um Vitann er hægt að lesa á http://www.hordurtorfa.com/?view=010127.
Hörður er afbragðsfínn lagahöfundur. Lög hans mörg hver hefjast á þægilegri söngrænni laglínu sem opnast eða stækkar eftir því sem vindur fram. Þetta eru yfirleitt falleg lög og áheyrileg strax við fyrstu hlustun en venjast líka vel og þola mikla spilun. Textarnir eru ljóðrænir og vel ortir með stuðlum, höfuðstöfum og rími.
Útsetningar eru í höndum Vilhjálms Guðjónssonar galdrakarls. Flest hljóðfæri leika í höndum Vilhjálms. Þar af er hann sérlega flinkur gítarleikari. Hér spilar Vilhjálmur á 10 hljóðfæri. Í útsetningum hans er þetta frekar poppuð vísnasöngvaplata. Ég kann best við fábrotnustu útsetningarnar. Það er vegna þess að ég er lítið fyrir poppmúsík að öllu jöfnu. Poppaðri lögin eru þó áreiðanlega útvarpsvænni, eins og það kallast.
Útsetningarnar eru þokkalega fjölbreyttar. Það bregður fyrir djamaískum reggítakti í Draumurinn. Gamaldags sveifla (djass swing) dúkkar upp í Fiðrildi. Spænsk stemmning setur svip á Skúffur og skápar. Það er gospel-keimur af Vasaljós og kántrý-fjör í Mas í mó. Þannig mætti áfram telja.
Hörður er fjölhæfur söngvari með breitt raddsvið. Oft bregður hann fyrir sig leikrænni tjáningu. Hann er einnig ljómandi fær kassagítarleikari. Þó platan sé góð þá er Hörður ennþá flottari á hljómleikum. Það standast fáir samanburð við trúbardorinn Hörð Torfa á sviði.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 04:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.11.2008 | 22:07
Lærið færeysku
Vegna opinberrar heimsóknar Jörgens Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja, og eiginkonu hans til Íslands er ástæða fyrir Íslendinga til að þekkja til nokkurra orða og orðatiltækja sem hljóma öðruvísi í færeysk eyru en íslensk. Þó ekki sé nema til að forðast að gera hinum tignu gestum hvert við. Nokkur dæmi:
- Þegar Færeyingar heyra einhvern segja að hann ætli að fleygja sér eftir matinn þá halda þeir að viðkomandi ætli að dunda sér við sjálfsfróun.
- Þegar Færeyingar heyra talað um afganga þá halda þeir að verið sé að tala um sæði.
- Það skal forðast að tala um Mogga nálægt Færeyingum. Þeir halda að þá sé verið að tala um kynmök.
- Ef Færeyngar eru með í för til Vestmannaeyja er ástæðulaust að minnast á að til standi að spranga alla helgina í eyjunum. Færeyingar halda þá að til standi að afmeyja kvenfólk alla helgina, eða vikuskiptið eins og Færeyingar segja.
- Það er lítið af flugum í umferð núna. En ef Færeyingar heyra okkur tala um flugur halda þeir að við séum að tala um geisladiska.
- Sá sem heitir Örlygur ætti að kynna sig með öðru nafni fyrir Færeyingum. Annars halda Færeyingar að hann sé að kynna sig sem fávita.
Það er ágætt að vita hvað Færeyingar eru að meina þegar þeir nefna eftirfarandi:
- Ef þeir segja að einhver hafi misst vitið þá eiga þeir við að viðkomandi hafi rotast eða fallið í yfirlið.
- Þegar Færeyingar tala um bert starfsfólk þá meina þeir EINUNGIS fyrir starfsfólk.
- Þegar Færeyingur segist ætla að afmynda einhvern er hann ekki að hóta barsmíðum heldur óska eftir því að fá að ljósmynda viðkomandi.
- Þegar Færeyingar segja að Jón sé bóndi aftan á Pétri eða Jón sé prestur aftan á Pétri þá eru þeir að tala um Pétur hafi tekið við starfi Jóns.
- Ef Færeyingur lýsir einhverjum sem álkulegum er hann að segja að viðkomandi sé farinn að grána í vöngum.
- Þegar Færeyingur talar um baðstofu þá á hann við sánaklefa.
- Ef Færeyingar eru sagðir hafa slegist með nefunum þá er verið að lýsa barsmíðum með hnefum.
- Þegar Færeyingar tala um niðurgang eru þeir að tala um mjóan brattan göngustíg.
- Færeyingar tala um að fólk sé farið að fíflast þegar bera fer á handskjálfta.
- Í færeyskum auglýsingum er sagt að nú megi brúka píkur. Þar er verið að tilkynna að löglegt sé að setja nagladekk undir bíla.
- Ef sagt er að einhver Færeyingur hafi orðið skakkur á einhverjum viðburði er ekki verið að lýsa hassreykingamanni heldur einhverjum viðkvæmum sem hefur klökknað eða komist við.
![]() |
Utanríkisráðherra Færeyja í heimsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.11.2008 | 19:22
Stjórnmálafræði fyrir byrjendur
Þetta fékk ég sent og brosti. Ég hef séð mun styttri útgáfu af þessu áður. Nú hafa stjórnmálafræðingar bætt um betur. Vonandi tekst þessari samantekt að lyfta á ykkur munnvikunum. Það veitir ekki af í hræringum síðustu vikna.
KOMMÚNISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar og gefur þér mjólk.
SÓSÍALISMI
Þú átt 2 kýr.
Þú gefur nágranna þínum aðra þeirra.
KAPITALISMI
Þú átt 2 kýr.
Þú selur aðra þeirra og kaupir naut. Þú stofnar kúabú, hagnast vel, selur kúabúið og sest í helgan stein.
FASISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar og selur þér mjólk.
NASISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar...og skýtur þig svo.
SKRIFRÆÐI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar, skýtur aðra þeirra samkvæmt reglugerð, mjólkar hina samkvæmt reglugerð og hellir svo allri mjólkinni niður samkvæmt reglugerð.
SÚRREALISMI
Þú átt 2 gíraffa.
Ríkið sendir þig í harmonikkunám.
ÍSLENSKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Þú selur 3 þeirra til fyrirtækis á opnum markaði með veði í gervifyrirtæki mágs þíns, gengur svo frá yfirtöku með vísan í skráningu á markaði þannig að þú færð allar 4 kýrnar tilbaka og skattaívilnanir vegna einnar til viðbótar. Afurðarétturinn af kúnum 6 er færður yfir á fyrirtæki í Karíbahafinu, en leynilegur meirihlutaeigandi þess selur þér aftur réttinn að öllum 7 kúnum. Samkvæmt ársskýrslu á fyrirtækið nú 8 kýr, með eigendarétti að einni til viðbótar. Þú selur eina kú til þess að þóknast ónefndum stjórnmálamanni og átt þá níu kýr. Rétturinn að nautinu er seldur almenningi í hlutafjárútboði. Þá þjóðnýtir ríkið allt heila klabbið. Engar eignir finnast fyrir skuldum.
BANDARÍSKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Þú selur aðra þeirra og þvingar hina til að gefa af sér mjólk á við fjórar kýr. Þú ræður svo sérfræðing til að komast að því hvers vegna hún datt niður dauð.
FRANSKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Þú ferð í verkfall, skipuleggur mótmæli og tefur umferð...vegna þess að þú vilt eiga þrjár kýr.
JAPANSKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Þú endurhannar þær þannig að þær verða tíu sinnum minni, en framleiða tuttugu sinnum meiri mjólk. Þú markaðssetur svo nýja teiknimyndahetju, Kúmann, sem nær miklum vinsældum um allan heim.
ÞÝSKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Þú endurhannar þær þannig að þær lifa í 100 ár, éta einu sinni í mánuði og mjólka sig sjálfar.
ÍTALSKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Þú veist ekki hvar þær eru niðurkomnar. Þú ákveður að fá þér að borða spagettí.
RÚSSNESKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Þú telur þær og kemst að því að þú átt 5 kýr.
Þú telur þær aftur og kemst að því að þú átt 42 kýr.
Þú telur þær enn og aftur og kemst að því að þú átt 2 kýr.
Þú hættir að telja og opnar aðra vodkaflösku.
SVISSNESKA LEIÐIN
Þú átt 5000 kýr. Engin þeirra tilheyrir þér í raun.
Þú rukkar eigendurna fyrir geymsluna.
KÍNVERSKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Þú ræður 300 manns til að mjólka þær. Þú segir atvinnuleysi í lágmarki og blómstrandi landbúnað. Þú handtekur fréttmanninn sem sagði frá því að þetta sé ekki rétt.
INDVERSKA LEIÐIN
Þú átt tvær kýr.
Þú tilbiður þær.
BRESKA LEIÐIN
Þú átt tvær kýr.
Báðar eru með gin-og klaufaveiki
ÁSTRALSKA LEIÐIN
Þú átt 2 kýr.
Bissnessinn gengur vel.
Þú lokar skrifstofunni og færð þér nokkra kalda til að halda upp á það.
NÝ-SJÁLENSKA LEIÐIN
Þú átt tvær kýr.
Sú til vinstri er asskoti löguleg.
ÍRASKA LEIÐIN
Allir virðast eiga fjölda kúa.
Þú segir öllum að þú eigir enga.
Enginn trúir þér svo þeir sprengja þig í tætlur og ráðast inn í landið.
Þú átt enn engar kýr, en þú býrð þó a.m.k. í lýðræðisríki núna...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.11.2008 | 16:35
Skemmtilegir upplestrar úr bókinni um Önnu á Hesteyri
Bókin um Önnu á Hesteyri, Ég hef nú sjaldan verið algild, hefur fengið góðar viðtökur; selst vel og lesendur skemmta sér konunglega. Ekki síður skemmtir fólk sér frábærlega vel undir upplestri Rannveigar Þórhallsdóttur úr bókinni. Hér er upptalning á þeim upplestrum sem þegar hafa verið bókaðir. Látið ekki góða skemmtun framhjá ykkur fara. Þeim ykkar sem eiga heima fjarri Austfjörðum er bent á að bensínlítrinn lækkaði um 13 krónur í síðustu viku. Sömuleiðis er hægt að panta flug á www.flugfelag.is. En það er einnig kynning á bókinni í Gerðubergi í Reykjavík.
Miðvikud. 19. nóvember
Kl. 9:45. Shell sjoppan á Seyðisfirði. Upplestur fyrir Öldunarráð Seyðisfjarðar.
Kl. 14:45. Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Upplestur í hjúkrunardeild fyrir dvalarfólki á spítalanum.
Kl. 15:15. Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Upplestur með Önnu í matsal fyrir starfsfólks og gesti.
Kl. 16:00. Upplestur fyrir eldri borgara á Nesgötu 5 í Neskaupstað.
Kl. 17:00. Tónspil, Neskaupstað. Upplestur og áritun. (óstaðfest)
Sunnud. 23. nóvember
Gerðuberg, höfuðborgarsvæðið, kynning á bókinni á milli kl. 13:00-17:00.
Mánud. 24. nóvember
Café Nielsen, Egilsstöðum, kl. 20:00. Upplestur með fleiri rithöfundum.
Fimmtud. 27. nóvember
Skriðuklaustur, Fljótsdal, kl. 20:00. Upplestur.
Föstud. 28. nóvember
Vopnafjörður, Kaupvangur, kl. 17:00. Upplestur.
Laugard. 29. nóvember
Skaftfell, Seyðisfirði, kl. 20:00. Upplestur.
Mánud. 8. desember
Bókasafni Seyðisfjarðar, kl 18:00. Upplestur ásamt Vilhjálmi Hjálmarssyni.
Bækur | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2008 | 23:19
Áhugaverð bók á sértilboði fyrir lesendur þessa bloggs
Vilhjálmur frændi minn Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði var að senda frá sér bókina Gullstokkur gamlingjans. Það er hans 19. bók og kappinn kominn á 95. aldursár. En ern eins og unglingur. Á árum áður, á meðan ég var í auglýsingabransanum, hannaði ég bókakápur fyrir bækur hans og sá um markaðssetningu á þeim. Að sjálfsögðu urðu þær bækur vinsælar. Enda Villi lipur penni sem segir skemmtilega frá í léttum dúr og fróður með afbrigðum. Í einni bókinni, Mjófirðingasögur, gerði Villi honum Jens Kristjáni Ísfeld, afa mínum, og hans fólki, mömmu, Fjólu Ísfeld og fleirum góð skil.
Margir kannast við Villa frá því að hann var menntamálaráðherra. Vinsæll og vel liðinn af öllum hvar í flokk sem menn stóðu.
Bókin kostar 4780 krónur en Bókaútgáfan Hólar býður ættingjum mínum og lesendum þessa bloggs hana á 3600 krónur.
Í bókinni rifjar Vilhjálmur á sinn einstæða hátt upp bernsku- og uppvaxtarár í Mjóafirði og bregður upp skemmtilegri mynd af samferðafólki. Slyngum sláttumönnum og hressum kaupakonum. Fólki sem talaði tæpitungulaust.
Pantanir berist með tölvupósti á netfang mitt annaeiriks@simnet.is
Upplýsingar sem þurfa að fylgja eru eftirfarandi.
NAFN
HEIMILISFANG
KENNITALA
KORTANÚMER OG GILDISTÍMI
Þeir sem ekki nota kreditkort geta greitt fyrir bókina með gíróseðli. Einnig er hægt að hringja í Önnu eftir klukkan 18.00 í síma 695-4983.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.11.2008 | 16:21
Svikahrappur snýtti borgarbúum í heilt ár
Þeir sem töpuðu ævisparnaði í bankahruninu, eru að missa vinnuna og bráðum húsið sitt, upplifa það að hafa verið hafðir að fíflum og plataðir. Þannig líður einnig 30 þúsund íbúum enska sjávarbæjarins Dover í Kent. Í heilt ár stóðu þeir í þeirri trú að söngvari einnar frægustu rokksveitar heims, Status Quo, væri sestur að í borginni.
Fyrirmenn bæjarins, jafnt sem almenningur, kepptust við að vingast við "söngvarann fræga". Hann fékk að rúnta um í limmósínu bæjarstjórans að vild. Veitingastaðir toguðust á um að hafa hann í ókeypis fæði. Hann var fastur boðsgestur á allar skemmtanir og veislur í bænum. Hann lifði eins og kóngur og þurfti aldrei að borga fyrir eitt né neitt. Kvenfólk stóð nánast í biðröð við svefnherbergisdyr hans. Það var ný kona á hverri nóttu sem átti þá ósk heitasta að giftast "söngvaranum fræga" eða verða barnsmóðir hans að minnsta kosti.
Á einni stórri skemmtun tróð hann upp og söng vinsælasta lag Status Quo, "In the Army Now". Það ætlaði allt um koll að keyra. Klappi, flauti og öðrum fagnaðarlátum borgarbúa ætlaði aldrei að linna. Þvílík upplifun.
Áður en "söngvarinn frægi" hóf upp söng sinn var honum réttur gítar til að hann gæti spilað undir. Hann afþakkaði gítarinn með þeim orðum að vegna gigtarkasts gæti hann ekki spilað á gítarinn í þetta sinn.
Sumum þótti "söngvarinn frægi" vera í eigin persónu ótrúlega ólíkur söngvaranum á frægustu ljósmyndum af hljómsveitinni. Mun lágvaxnari, grennri og stöðugt rauðþrútinn af drykkju. Jafnframt söknuðu sumir síða hársins bundnu í tagl, einkennistákni söngvarans í áratugi. "Söngvarinn frægi" útskýrði þennan mun með því að hann fari aldrei á svið með Status Quo öðru vísi en förðunarfræðingur sé búinn að sparsla upp í andlitið og líma síðu gervitagli ofan á sköllóttan hvirfil hans.
Sumum þótti einkennilegt að "söngvarinn frægi" sýndi aldrei viðbrögð ef einhver nefndi nafnið Francis Rossi (nafn hins raunverulega söngvara Status Quo) heldur gegndi hann nafninu Graham.
"Söngvarinn frægi" boðaði bæjarbúum að á stærstu tónlistarhátíð Dover myndu bestu vinir hans í rokkbransanum troða upp með sér: Bítillinn Paul McCartney, Brian May úr Queen og Charlotte Church. Þessir vinir sínir myndu ekkert rukka fyrir. Þeir hefðu bara gaman af að heilsa upp á vin sinn og spila með honum.
Bæjarbúar hlökkuðu gífurlega til. Vonbrigðin urðu mikil þegar vinahópur "söngvarans fræga" lét ekki sjá sig á hátíðinni og sjálfur var "söngvarinn frægi" horfinn með öllu og hefur ekkert til hans síðar spurst. Við eftirgrennslan var haft samband við hinn raunverulega söngvara Status Quo, Francis Rossi. Hann sprakk úr hlátri við tíðindin og spurði: "Hvernig ætli gaurinn hafi fattað leyndarmálið með taglið?"
Flestir bæjarbúar eiga ljósmyndir af sér með "söngvaranum fræga". Þeir eru hinsvegar ófáanlegir til að sýna fjölmiðlum myndirnar. Stór ljósmynd af fegurðardrottningu Dover 2007 og "söngvaranum fræga" skreytti veggi margra fyrirtækja og stofnana í Dover. Þessi mynd sést hvergi lengur.
Svo neyðarlega vill til að bara einu ári áður lék annar svitahrappur svipaðan leik í Dover. Sá þóttist vera Pete Townshend, gítarleikari The Who. Honum var tekið jafn opnum örmum af bæjarbúum. Sumir telja að um einn og sama svikahrappinn sé að ræða. Hann hafi bara skipt um sólgleraugu, hárgreiðslu og föt.
Með þessum svikabrögðum hefur verið afhjúpuð sú mynd af íbúum Dover að þeir séu einstaklega hrekklausir og trúgjarnir einfeldningar sem blindast auðveldlega af því sem þeir halda að sé frægð.
Þetta eru helstu fyrirmenni Dover, fráfarandi bæjarstjóri í miðið. Íbúar Dover halda afskaplega fast í gamlar hefðir og þykja óvenju snobbaðir.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.11.2008 | 14:11
Bókin um Önnu á Hesteyri komin út!
Bókin um Önnu á Hesteyri kom sjóðandi heit úr prentun í gær. Bókin heitir Ég hef nú sjaldan verið algild. Hún á að vera komin í allar bókabúðir í dag. Ég er ekki kominn með bókina í hendur en það sem ég hef lesið úr henni er bráðskemmtilegt. Enda er Anna svo frábær og merkileg persóna að ævisaga hennar getur ekki verið annað en bara skemmtileg. Í baksíðutexta á bókarkápu segir:
Anna á Hesteyri er alveg einstaklega skemmtilegur og hrífandi persónuleiki.
Brosandi, tannlaus fegurðardís í sóleyjarskrúða? Ruslasafnari á hjara veraldar? Hetja? Verndari utangarðs- og glæpamanna?
Til hvaða ráða grípur Anna á Hesteyri þegar til hennar kemur óboðinn gestur um nótt?
Hvað fékk hún Landhelgisgæsluna til að gera?
Hvernig lék hún á dýralækninn?
Og hverju lofaði hún þegar í óefni stefndi í bílprófinu?
Bráðskemmtileg saga og spennandi - sögð með orðum einbúans á Hesteyri og þeirra sem til hennar þekkja.
Það er Rannveig Þórhallsdóttir, bókmenntafræðingur, sem skráir bókina. Búðarverð á bókinni er 4980 krónur. Bókaútgáfan Hólar býður hinsvegar lesendum þessarar bloggsíðu bókina á 3780 krónur. Sendingarkostnaður er innifalinn í því verði.
Það eina sem þú þarft að gera er að senda eftirfarandi upplýsingar á netfangið annaeiriks@simnet.is:
NAFN - HEIMILISFANG OG PÓSTNR - KENNITALA - HEITI BÓKAR OG TILBOÐSVERÐ.
Greiðslukortaþjónusta er í boði og hægt að tvískipta greiðslu án aukakostnaðar. Kortanúmer - alls 16 tölustafir - og gildistími korts þurfa þá að fylgja pöntun.
Póstkrafa er annað greiðsluform og þá er greitt fyrir bókina á pósthúsi.
Eftir klukkan 18.00 er hægt að hringja í Önnu Eiríksdóttur og ganga frá pöntun í síma 695 4983.
Þeir sem ekki kannast við Önnu á Hesteyri (og líka þeir sem kannast við hana) geta lesið hér nokkrar sögur af henni:
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2008 | 23:21
100 bestu söngvarar poppsögunnar
Söluhæsta poppblað heims, Rolling Stone, hefur fengið fjölda helstu núlifandi popp- og rokksöngvara heims til að skera úr um það hverjir eru bestu söngvarar poppsögunnar. Hér er listinn yfir þá 100 bestu ásamt rökstuðningi þeirra sem völdu söngvarana í efstu sætunum. Gaman væri að heyra álit ykkar á listanum.
1 | Aretha Franklin
Um Arethu segir Mary J. Blige: "Þegar kemur að því að tjá sig í söng kemst engin/n nálægt henni. Hún er ástæðan fyrir því að konur langar að syngja. Hún er með allt: Kraftinn, tæknina. Hvert orð hjá henni er einlægt og satt."
2 | Ray Charles
Um Ray Charles segir Billy Joel: "Hann hafði frábærustu rödd poppsögunnar. Söngur hans var ekki aðeins tilfinningaþrunginn heldur lagði hann allar sínar tilfinningar í sönginn. Þær komu frá hans innstu hjartarótum."
3 | Elvis Presley
Um Presley segir Robert Plant: "Röddin geislaði af sjálfsöruggi, var hrífandi og gerði engar málamiðlanir."
4 | Sam Cooke
Um Sam Cook segir Van Morrison: "Hann hafði óviðjafnanlega rödd. Hann gat sungið allt þannig að það steinlá. Þegar við tölum um styrk hans skiptir sviðið engu máli. Það var orkan sem hann gaf frá sér, hvernig hann mótaði tóninn og allur heili söngstíllinn."
5 | John Lennon
Um John Lennon segir Jackson Browne: "Það var ofsafenginn innileiki í öllu sem hann gerði matreitt með yfirburðagáfum. Það gerði hann að stórkostlegum söngvara. Hann var heiðarlegur og opinn gagnvart tilfinningum sínum varðandi allt sem hann söng um. Eftir því sem lagasmíðar hans þróuðust varð söngur hans blæbrigðaríkari. Í A Day in a Life túlkar söngur hans hræðilega einsemd. Í Mother nístir sársauki hans merg og bein."
6 | Marvin Gaye
Um Marvin Gaye segir Alicia Keys: "Það hljómar enginn eins og hann: Hvað söngur hans var mjúkur og mildur en samt svo kraftmikill. Söngurinn kom beint frá hjartanu. Allt í lífi hans - hvernig hann hugsaði og hvernig honum leið - skilaði sér í söng hans."
7 | Bob Dylan
Í fljótu bragði kom mér á óvart að sjá nafn Dylans á þessum lista. Fagurfræðilega er hann vondur söngvari. En ég kaupi rökin hjá Bono: "Dylan hefur það umfram flesta aðra söngvara að hann breytti sönstíl poppara. Hundruð söngvara eru undir hans áhrifum. Til að átta sig á því þurfum við að ímynda okkur poppsöguna án Toms Waits, Brúsa Springsteens, Edda Vedders, Kurts Cobains, Lucindu Williams og annarra söngvara með brakandi/brostna rykaða og blúsaða göturödd."
8 | Otis Redding
9 | Stevie Wonder
10 | James Brown
11 | Paul McCartney
12 | Little Richard
13 | Roy Orbison
14 | Al Green
15 | Robert Plant
16 | Mick Jagger
17 | Tina Turner
18 | Freddie Mercury
19 | Bob Marley
20 | Smokey Robinson
21 | Johnny Cash
22 | Etta James
23 | David Bowie
24 | Van Morrison
25 | Michael Jackson
26 | Jackie Wilson
27 | Hank Williams
28 | Janis Joplin
29 | Nina Simone
30 | Prince
31 | Howlin' Wolf
32 | Bono
33 | Steve Winwood
34 | Whitney Houston
35 | Dusty Springfield
36 | Bruce Springsteen
37 | Neil Young
38 | Elton John
39 | Jeff Buckley
40 | Curtis Mayfield
41 | Chuck Berry
42 | Joni Mitchell
43 | George Jones
44 | Bobby "Blue" Bland
45 | Kurt Cobain
46 | Patsy Cline
47 | Jim Morrison
48 | Buddy Holly
49 | Donny Hathaway
50 | Bonnie Raitt
51 | Gladys Knight
52 | Brian Wilson
53 | Muddy Waters
54 | Luther Vandross
55 | Paul Rodgers
56 | Mavis Staples
57 | Eric Burdon
58 | Christina Aguilera
59 | Rod Stewart
60 | Björk
61 | Roger Daltrey
62 | Lou Reed
63 | Dion
64 | Axl Rose
65 | David Ruffin
66 | Thom Yorke
67 | Jerry Lee Lewis
68 | Wilson Pickett
69 | Ronnie Spector
70 | Gregg Allman
71 | Toots HIbbert
72 | John Fogerty
73 | Dolly Parton
74 | James Taylor
75 | Iggy Pop
76 | Steve Perry
77 | Merle Haggard
78 | Sly Stone
79 | Mariah Carey
80 | Frankie Valli
81 | John Lee Hooker
82 | Tom Waits
83 | Patti Smith
84 | Darlene Love
85 | Sam Moore
86 | Art Garfunkel
87 | Don Henley
88 | Willie Nelson
89 | Solomon Burke
90 | The Everly Brothers
91 | Levon Helm
92 | Morrissey
93 | Annie Lennox
94 | Karen Carpenter
95 | Patti LaBelle
96 | B.B. King
97 | Joe Cocker
98 | Stevie Nicks
99 | Steven Tyler
100 | Mary J. Blige
Tónlist | Breytt 15.11.2008 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)