Meira um Önnu á Hesteyri

  Á dögunum skúbbaði ég frétt um að væntanleg sé á markað bók um Önnu Mörtu á Hesteyri í Mjóafirði.  Skrásetjari er Rannveig Þórhallsdóttir bókmenntafræðingur og útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.  Nú hafa mér borist þau ánægjulegu tíðindi að í farvatninu sé einnig gerð útvarpsþáttar um Önnu.  Enn sem komið er veit ég ekki hvort um verður að ræða aðeins einn þátt eða þáttaseríu.  Vonandi verður það þáttasería. 

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/592177


Þegar bloggskúbbið mitt varð að skúbbi dagblaðanna

  hebbi

  Á fimmtudaginn ljóstraði ég upp gömlu leyndarmáli;  sagði frá því að íslensk plata innihaldi trommuleik Charlies Watts úr The Rolling Stones.  Vegna þess að þetta hefur verið vel varðveitt leyndarmál í næstum aldarfjórðung gekk ég ekki svo langt að nefna plötuna eða flytjandann.  Þess í stað gaf ég upp nokkrar vísbendingar.  Þær nægðu nöskum blaðamönnum Fréttablaðsins og Moggans.

  Daginn eftir skúbbuðu bæði blöðin með uppsláttarfrétt um að Rolling Stones trommarinn væri á plötu Hebba Guðmunds, Dawn on the Human Revolation,  sem kom út 1985.  Þar á meðal í stórsmellinum Can´t Walk Away

  Útvarpsstöðvarnar gerðu þessu sömuleiðis góð skil.

  Hvorki í dagblöðunum né útvarpsstöðvunum var þess getið að skúbbið væri frá mér komið.  Sem var í sjálfu sér eðlilegt.  Þó að ég hafi upplýst atvikið þá voru það dagblöðin sem börnuðu fréttina með því að gefa upp öll nöfn.  Hinsvegar er ástæða til að halda til haga hvernig þessi aldarfjórðungs gamla stórfrétt komst loks upp á yfirborðið.  Ekki síst upp á seinni tíma sagnfræði. 


Bestu músíkmyndbönd sögunnar

  Enska poppblaðið New Musical Express stendur þessa dagana fyrir kosningu meðal lesenda sinna á besta músíkmyndbandi sögunnar (the greatest music video ever).  Kosningunni er ekki lokið.  Línur eru þó orðnar skýrar.  Niðurstaðan á tæplega eftir að breystast svo neinu nemur.

  Efstu sætin sýna enn einu sinni hversu ofur hátt Bretar skrifa hljómsveitina Oasis.  Ekki síst lesendur NME.  Og reyndar allt þetta brit-popp.  Það kemur aftur á móti kannski pínulítið á óvart að The White Stripes skuli eiga myndbönd í 5. og 6.  sæti.  Þá er gaman að sjá myndbönd með gömlu mönnunum,  Bob Dylan og Johnny Cash,  í 11.  og 18.  sæti. 

  Gaman væri að heyra viðhorf ykkar til þessa lista.

  Þannig er niðurstaðan:

1    Oasis:  Don´t Look Back in Anger

2    Oasis:  The Importance of Being Idle

3    The Verve:  Bittersweet Symphony

   Blur:  Coffee and TV

white stripes

5    The White Stripes:  Fell in Love With a Girl

6    The White Stripes:  Hardest Button to Button

7    Radiohead:  Just

8    Ok Go:   Here it Goes Again

9    Nirvana:  Smells Like Teen Spirit  

homesickblues

10  Bob Dylan:  Subterranean Homesick Blues

11  Weezer:  Buddy Holly

12  Beastie Boys:  Sabotage 

13  Pulp:  Common People

14  Foo Fighters:  Learn to Fly

15  Artic Monkeys:  Fluoercent Adolecent

16  Fatboy Slim:  Praise You

Nirvana in bloom

17  Nirvana:  In Bloom

gorillaz

18  Gorillaz:  Gorillaz

cash

19  Johnny Cash:  Hurt

20  Frans Ferdinand:  Take me Out

bjork

  Myndband Bjarkar,  All is Full of Love,  mallar þarna aðeins fyrir neðan.


Skúbb! Rolling Stones trommari á íslenskri plötu

rolling stones

  Á rúnti mínum um blog.is í gær rakst ég á færslu tónlistarmyndagerðarmanns sem hafði hitt gítarleikara The Rolling Stones,  Ronnie Wood,  á ferðalagi vegna skákmóts.  Rifjaðist þá upp fyrir mér leyndarmál úr íslenska músíkbransanum og er á fárra vitorði.  Það snýr að því að trommuleikari þessarar sömu hljómsveitar trommar í nokkrum lögum á einni ágætri íslenskri plötu.  Þar á meðal í lagi sem orðið hefur eitt af sívinsælustu lögum íslensku poppsögunnar.  Lagi sem komið hefur út á 7 plötum,  núna síðast  100 bestu lög íslenska lýðveldisins.

  Gallinn við þetta er að um vel varðveitt leyndarmál er að ræða.  Þannig verður það að vera áfram vegna ýmissa hluta sem snýr að höfundarrétti,  útgáfurétti og öðru þessháttar. 


Skúbb! - Anna á Hesteyri - bók á leiðinni

  anna á hesteyri

  Anna Marta Guðmundsdóttir náfrænka mín á Hesteyri í Mjóafirði er fyrir löngu síðan orðin þjóðsagnarpersóna.  Ekki aðeins fyrir mörg broslega sérkennileg og barnsleg uppátæki heldur einnig fyrir sterka réttlætiskennd og ást á dýrum.  Ég hef rifjað hér upp á blogginu nokkrar sögur af henni.  Það má fletta þeim upp á http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/532905.  

  Um mánaðarmótin september/október mun Bókaútgáfan Hólar frá sér í bókarformi ævisögu Önnu á Hesteyri.  Anna er 79 ára og komin á sjúkrahús.  Það er því ekki seinna vænna að tekin sé saman bók um þessa merku konu.  Margir hafa rætt um þörfina á slíku í áratugi.

 Rannveig Þórhallsdóttir bókmenntafræðingur skráir ævisögu Önnu.  Rannveig er þekktust fyrir störf sín sem safnstjóri Minjasafns Austurlands.

  Það er fleiri en ég þegar farnir að hlakka til útkomu bókarinnar.    

  Til gamans fylgir hér brot úr nýlegri bloggfærslu ungrar konu frá Reyðarfirði,  Jóhönnu Kristínar:

  "Alla amma er svo mikill lukkunar pamfíll að hún liggur á stofu með Önnu á Hesteyri sem er náttúrulega bara alveg einstök og sérstök..  
  Anna var semsagt að drekka súpu úr bolla, þeas hún hellti súpunni úr disknum yfir í bolla og drakk það sollis.. Hún notaði hvert tækifæri til að segja frá og troða að hnyttnum spakmælum/ máltækjum.. Og svo var hún alveg viss um að Ormurinn sem hún kallaði stráksa væri nautsterkur og heimtaði að fá hann í krumlu.. Ormurinn lét nú ekki biðja sig um það 2svar heldur greip í kellu og þau byrjuðu að togast á..  (ég varð hálfhrædd, því mér leist nú ekkert á blikuna á tímabili) 
Enda Anna orðin eins og sprungin tómatur í framan og súpuhelvítið á leiðinni út úr henni.. og stráksi bara heldur sterkari en hún þorði að vona og hvað þá trúa.. hahhaha frekar fyndið atriði.. og svo segir hún eftir átökin (hún var nærri búin að frussa út úr sér tönnunum) að hann sé bara nokkuð sterkur og þá gall í mér.. já hann hefur það frá móður sinni þá hló nú Anna og sagði já þú segir það þegar kallinn heyrir.. og hélt að auðvitað Bjarki væri pabbi Ormsins..   Hahhaha
Þetta var priceless spítalaheimsókn.."

  Í öðru bloggi,  sem kallast 1964,  segir frá Nönnum í kvenfélagi Neskaupstaðar.  Þær lýstu eftir ungum manni að nafni Axel og fengu margar vísbendingar um ferðir hans.  Þetta stendur síðan:

  "Anna á Hesteyri hafði einnig samband og framan af símtalinu við Önnu taldi yfir-Nannan líklegt að Axel væri að finna í Mjóafirði. Undir lok símtalsins kom í ljós að svo var ekki heldur vildi Anna fá Axel sem húskarl; taldi hann vel brúklegan til allra nota."


Veitingahús - umsögn

kótelettur 

Veitingastaður:  Pítan,  Skipholti 50,  Reykjavík

Réttur:  Grillaðar kótelettur með bakaðri kartöflu

Verð:  1695 kr.

Einkunn: **** (af 5)

  Ég sæki frekar í fisk en kjöt.  Grilluðu kóteletturnar í Pítunni kalla samt stundum á mig.  Það er sérkennilega skarpt og bragðgott kryddbragðið af þeim.  Mér skilst að kryddblandan sé leyndarmál.  Með kótelettunum er borin fram bökuð kartafla (ein stór eða tvær minni),  smjör og kryddsmjör,  ferskt salat og 1000 eyja sósa.

  Salatið samanstendur af káli og litlum tómatbitum.  Ljómandi ágætt út af fyrir sig.  Það væri þó meiri stæll á því ef örfáar þunnar agúrkusneiðar myndu fylgja með.

  1000 eyja sósan er í bréfi eins og þeim sem seld eru með salatbarnum í Nóatúni.  Það er sjoppulegt.  Sósan ætti að vera í lítilli opinni skál,  til að mynda samskonar þeirri sem kryddsmjörið er í.   

  Ég er ekki alsáttur við að fá 1000 eyja sósu með kótelettunum.  Hún er svo sem allt í lagi.  En frönsk sósa (French dressing) passar mun betur með þeim.

  Bakaðar kartöflur eru frekar bragðdauft fyrirbæri.  Það þarf að strá yfir þær smá salti og pipar til að hjálpa smjörinu að skerpa á bragðinu.  Á Pítunni vantar pipar á borðin.  Þar er bara salt og krydd fyrir franskar kartöflur.

  Á fyrstu árum Pítunnar var lítil hreyfing á starfsfólki.  Viðskiptavinir fóru að kannast við það og starfsfólkið lærði á sérþarfir þeirra.  Undanfarin ár hefur verið meiri endurnýjun á afgreiðslufólkinu.  Það eru stöðugt ný andlit.  Ég veit ekki hvað veldur.  Kannski er það vegna þess að stillt er á útvarpsstöðina FM957.  Það þarf sterkar taugar til að vinna undir þeim viðbjóði sem þar er útvarpað.  Svo ekki sé minnst á heimskulegt og innihaldslaust blaðrið á milli laga. 

  Ég er ekkert að velta mér upp úr innréttingum og þess háttar á veitingastöðum.  Tek varla eftir þeim.  Pítan er snyrtilegur staður og stílhreinn.  Held ég.  Afgreiðsla gengur lipurlega fyrir sig.  Matseðilinn má sjá á www.pitan.is.  Þar hafa verð ekki verið uppfærð í öllum tilfellum.  Á síðunni yfir matseðilinn er gefið upp að kóteletturnar kosti 1595 kall. 

  Þó að ég skrifi hér um kóteletturnar þá get ég einnig mælt með pítunum á Pítunni.  Þær gerast ekki betri.


Fyndin saga

  Fyrir nokkrum dögum heyrði ég fyrir tilviljun brot úr bráðskemmtilegum þætti á rás 1.  Nokkrum dögum síðar ætlaði ég að fletta þættinum upp á netinu til að heyra hann í heild.  Ég fann hann ekki.  Ég vissi ekki nafn þáttarins og tókst ekki að rifja upp hvenær ég heyrði brotið.  En það hljómaði þannig:

  Sagt var frá nafngreindum fullorðnum bræðrum á bæ í nágrenni Bolungarvíkur.  Þeir bjuggu tveir saman og stunduðu búskap.  Fátt var um gestakomur.  Þó brá svo við einn daginn að maður nokkur átti erindi við þá.  Annar bróðirinn bauð gestinum upp á kaffi og mjólkurkex.  Gesturinn bleytti upp í kexinu með því að dýfa því í kaffið.  Þegar hann er byrjaður að slafra kexinu í sig spurði gestgjafinn:

 - Þykir þér vera skrítið bragð af kexinu?

  Gesturinn velti bragðinu og spurningunni fyrir sér og kvað hálf hikandi nei við.  Þá sagði gestgjafinn eins og ekkert væri eðlilegra:

 - Bróðir minn heldur því fram að kötturinn hafi migið í kexkassann.  Ég held ekki.


Tékkið á þessu

rasmus

   Núna í lok júní sendi færeyski gítarsnillingurinn Rasmus Rasmussen frá sér þriðju sólóplötuna,  Poems in Sound.  Á plötunni er ljúf "instrumental" músík (einungis hljóðfæraleikur án söngs).  Rasmus var gítarleikari rokksveitarinnar Makrels,  sem tók þátt í Músíktilraunum Tónabæjar 2002.  Makrel sigraði á sínu kvöldi undanúrslita og hreppti bronsið á lokakvöldinu.  Rasmus var jafnframt kosinn besti gítarleikari Músíktilraunanna.

  Með Makrel spilaði Rasmus inn á nokkrar plötur.  Þær fást í versluninni Pier í glerturninum við Smáratorg.  Þar fást margar fleiri færeyskar plötur.

  Rasmus sendi frá sér eina sólóplötu,  Implosive,  áður en hann hætti í Makrel fyrir tveimur árum.  Í fyrra kom út önnur sólóplata hans,  Edalweiss.

  Eitthvað af sólóplötum Rasmusar er hægt að nálgast á skrifstofu Samtakanna 78.  Það er líka hægt að fá þær í póstverslun www.tutl.com.

  Tékkið á www.myspace.com/rasmusrasmussen


Flett ofan af vegasvindlinu mikla

vegaskemmdir1vegaskemmdir2

   Allir ökumenn þekkja það að keyra í mestu makindum á vel malbikuðum og rúmgóðum vegi þegar skyndilega blasa við vegaskemmdir.  Það eru holur í malbikinu.  Þá er ekki um annað að ræða en draga verulega úr hraða og reyna að beygja framhjá holunum því ekki vilja menn leggja það á bílinn að fá á sig þau högg sem tilheyra akstri ofan í svona vegaskemmd.

  Raunveruleikinn er sá að þetta er allt eitt allsherjar svindl.  Í skjóli nætur laumast starfsmenn vegagerðarinnar til að leggja ljósmyndir af vegaskemmdum ofan á malbikið.  Grunur leikur á að þetta sé gert ekki aðeins til að draga úr ökuhraða heldur ennþá fremur til að almenningur og stjórnvöld haldi að starfsmenn vegagerðarinnar þurfi að vinna dag og nótt í næturvinnu og á aukavöktum við að gera við allar þessar dularfullu vegaskemmdir.

  Þeir sem halda að þeir keyri ofan í svona vegaskemmdir hossa sér ósjálfrátt sjálfir í sætinu og upplifa þannig "raunverulega" vegaskemmd.  Hí á þá.

vegaskemmdir3


Tveir frábærir kjötréttir

  kjöt

   Hvernig væri að koma fjölskyldunni og gestum skemmtilega á óvart um helgina?  Til að mynda með því að bjóða þeim upp á einn eða tvo nýja,  spennandi og gómsæta rétti.  Það góða við þessar uppskriftir er sömuleiðis að þær eru ótrúlega einfaldar og auðveldar viðureignar.  Það er varla hægt að klúðra þeim   

Fyrri rétturinn er þannig og hentar best á laugardegi:

Hráefni:

- Nokkrar 11 mm þykkar sneiðar af fersku ísbjarnarkjöti,  helst úr lund

- matarolía

- Best á ísbjörninn (sjá www.bestalambid.is)

  Penslið kjötið klaufalega með olíunni og kryddið með Best á ísbjörninn.  Grillið á KOLAgrilli í 3 mín og 17 sek á hvorri hlið.  Með þessu er gott að hafa kartöflusalat frá Kjarnafæði og nokkrar kippur á mann af Kalda.  Það skerpir notalega á norðlensku stemmningunni.

Sunnudags hakkréttur

- 4 epli

- 613 gr beinlaust ísbjarnarkjöt

- 3 dl mjólk

- 1 dl vatn

- 1 dl tómatsósa

- 4 msk hveiti

- 2 egg

- 1 eggjahvíta

- slatti af steiktum lauk

- brauðrasp

- Best á ísbjörninn

- 3ja lítra kútur af rauðvíni

  Eplin eru skræld,  skorin í þunnar sneiðar og raðað snyrtilega í eldfast mót.  Rauðvíninu er hellt í stórt glas og þambað í einum teyg.  Í kjölfarið skal horft framhjá eggjahvítunni,  vatninu, tómatsósunni og rauðvíninu og láta sem maður sjái það ekki.  Allt hitt er hakkað saman í eina klessu og gusað með hávaða og látum yfir eplin.  Þá er rauðvíninu aftur hellt í stóra glasið og þambað í einum teyg.  Því næst er hakkklessan pensluð með eggjahvítu og slatta af raspi stráð yfir.

  Þetta er bakað í 173° heitum ofni í 47 mínútur.  Á 8 mínútna fresti er rauðvíninu hellt í stóra glasið og þambað í einum teyg.  Um svipað leyti er vatninu og tómatsósunni slæmt yfir hakkið í ofninum.  

  Borið fram og til baka í nokkrar mínútur og síðan sett niður og snætt með kartöflusalati frá Kjarnafæði og afgangnum af rauðvíninum.  Öðrum er boðið upp á nokkrar kippur af Kalda.  Nema mjög ungum börnum.  Þau fá bara eina kippu.


Það verður allt brjálað á Blönduósi

  Allt stefnir í að Blönduós og nágrenni muni iða af lífi og klikkuðu fjöri um helgina.  Spenningur fyrir helgarstuðinu á Blönduósi er svo mikill að heyrst hefur af fólki sem kemur að langar leiðir,  jafnvel frá fjarlægum útlöndum,  í þeim eina tilgangi að missa ekki af fjörinu.  Yfirskrift skemmtunarinnar er Húnavaka 11. - 13. júlí 2008.

  Það sem mestur spenningur ríkir um er að á föstudagskvöldinu,  annað kvöld,  mun hin áður ofurvinsæla stuðsveit,  Lexía frá Laugarbakka,  rísa upp eftir aldarfjórðungs langan dvala.  Lexía var mest auglýsta danshljómsveit landsins á sínum tíma og kunni öll "trixin" við að skrúfa upp í topp stemmninguna á böllunum. 

  Lexía mun að sjálfsögðu spila alla gömlu vinsælu smellina sína en til viðbótar kynna nýjan sumarsmell.  Þar segir (gott að vera búinn að læra þetta fyrir annað kvöld):

"Tjaldhælar og strigaskór,

gítargarmur og fullt af bjór,

  allir syngja í einum kór

Bítla,  Bubba og Magga Þór."

  Fjöldi annarra hljómsveita skemmtir á Húnavökunni.  Má þar nefna Svörtu sauðina (nafnið er sennilega innblásið af færeyska bjórnum Black Sheep),  Haldapokana,  Polyester,  Groundfloor,  Mercedes klúbbinn (sem kynnir til sögu nýja söngkonu,  Margréti Eddu Jónsdóttur (Gnarr)) og hljómsveit Guðmundar Jónssonar,  gítarleikara frá Skagaströnd.    

  Af öðrum hápunktum Húnavökunnar er ástæða til að vekja athygli á skóflustungu að sundlaugargarði á Blönduósi,   skoðunarferð um leikskóla bæjarins og að veðurspámaður verður hylltur.  Gestum verður boðið upp á mjólk,  sér að kostnaðarlausu,  eftir hádegi á laugardeginum. 

  Margt verður til skemmtunar fyrir börn:  Gunni og Felix sprella,  söngleikurinn Abbababb eftir Dr.  Gunna verður sýndur og keppt í söng.  Bara svo fátt eitt sé nefnt.

  Kíkið á www.lexia.blog.is.  Þar er hægt að finna meira um Lexíu og dagskrá Húnavökunnar.

hunavoku-plagat-lexia


Lögreglan greip mig áðan

  Síðdegis í dag helltist skyndilega yfir mig þorsti.  Kannski var það út af sólinni og hitamollunni.  Mig langaði í kalt appelsín.  Það var ekki um annað að ræða en snarast í næstu sjoppu sem var Neinn við Vatnsmýri.  Þar tyllti ég mér niður um leið og ég teygaði svalandi og litað sykurvatnið.  Ég var svo upptekinn af að svala þorstanum að ég tók ekki eftir neinu í kringum mig og var í eigin heimi.

  Allt í einu hrökk ég inn í raunheim við það að vingjarnlegur einkennisklæddur lögreglumaður lagði hönd á öxl mér.  Hann bauðst til að fylgja mér til Lindahverfis í Kópavogi.  Mér þótti vænt um þetta góða boð en varð að afþakka það.  Ég átti ekkert erindi í Kópavog og síst af öllu í Lindahverfið.

  Lögreglumaðurinn sýndi mér þá ljósmynd af ókunnugum manni og spurði hvort að ég héti ekki Sigurður.  Nei,  ég kannaðist ekki við að heita Sigurður og hef ekki einu sinni heyrt að neinn hafi reynt að uppnefna mig Sigurð.  Ég sagðist heita Jens og laug þar engu.

  Samtalið varð ekki lengra og ég kláraði appelsínið frekar ringlaður en ekki eins þyrstur og áður.  Ég tók ekki eftir því hvað varð af lögreglumanninum.  Ég sá eftir að hafa ekki haft rænu á að spyrja hver þessi Sigurður væri.

  Núna þegar ég kom heim og fletti mbl.is sé ég hvað var í gangi.  Leit stóð yfir af alzheimer-sjúklingi,  Sigurði að nafni.  Af ljósmyndinni að dæma sem fylgir fréttinni er maðurinn ekkert mjög ólíkur mér.  Þannig lagað; að minnsta kosti fyrir fólk sem þekkir hvorugan okkar.  Að auki er tekið fram í fréttinni að hann sé með yfirvararskegg (eins og ég en það stendur reyndar ekki í fréttinni).  Yfirvararskeggið á Sigurði sést ekki á myndinni en lögreglumaðurinn sagði mér að myndin sé margra ára gömul.

  Allt er gott sem endar vel og Sigurður fannst.  Sem betur fer er ég ekki ennþá kominn með alzheimer.  Annars væri ég núna í Lindahverfi í Kópavogi og Sigurður ennþá týndur.


mbl.is Maðurinn fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkoma í Krossinum

heavy_metalkrossinn

Staður:  Krossinn,  Hlíðasmára 5 - 7,  Kópavogi,  6.  júlí

Skemmtikraftar: Hljómsveitin G.I.G.,  söngkonan Íris,   Ron Botha frá S-Afríku,  Gunnar Þorsteinsson og fleiri

Einkunn: **** (af 5)   

  Ég missti af blábyrjun samkomunnar.  Þegar ég mætti á svæðið var hljómsveitin G.I.G. á útopnu.  Hún flutti hart metal-rokk og náði upp gífurlega öflugri stemmningu.  Lögin eru þannig upp byggð að það skiptast á harðir háværir kaflar og mildir.  Í mildu köflunum spilar kannski eitt eða tvö hljóðfæri undir sönginn,  síðan koma hin hljóðfærin inn og byggja upp spennu sem stigmagnaðist upp í kröftugan hávaða. 

  Þetta skilaði sér á þann hátt að um 30 áheyrendur hópuðust upp að sviði.  Þar dönsuðu þeir og lyftu höndum.  Nokkrir tóku á sprett og hlupu eins hratt og fætur toguðu fram og til baka fremst í tröppunum sem liggja upp á svið. 

  Ég átta mig ekki á tilgangi hlaupsins.  Sumir höfðu varla heilsu í svona spretthlaup.  Þeir stóðu á öndinni eftir sprettinn.  Hugsanlega hjálpa hlaupin fólkinu að komast í eitthvert tiltekið hugarástand.

  Mér heyrðist lögin með G.I.G. vera í raun eitt og sama lagið flutt með mismunandi textum.  Líklega hef ég rangt fyrir mér.  Lögin hljóma bara lík hvert öðru við fyrstu hlustun. 

  Frekar skrítið er að íslensk hljómsveit skuli semja og syngja enska texta fyrir íslenska áheyrendur á samkomu í Krossinum í Kópavogi.  Söngkona hljómsveitarinnar sagði mér eftir samkomuna að ástæðan sé sú að íslenski markaðurinn sé svo lítill að stefnan er sett á alþjóðamarkað.  Það er skiljanlegt og skýrir málið.  Björk lætur sig þó ekki muna um að snara sínum ensku textum yfir á íslensku þegar hún syngur á Íslandi.  En það er ekki til nema ein alvöru Björk.

  Vonandi mun G.I.G. ná rækilega inn á alþjóðamarkaðinn.  Hljómsveitin hefur alla burði til þess.

  Það er ástæðulaust að rekja hér í smáatriðum hvern dagskrárlið samkomunnar.  Dagskráin var fjölbreytt.  Þar skiptust á fagmenn og leikmenn.  Gaman var að heyra vitnisburð 7 ára drengs.  Hann sagðist vera kominn upp á lag með að spila á píanó.  Ekki nóg með það.  Hann væri nýlega farinn að æfa sig í að spila með báðum höndum.  Að auki sagðist hann spila á trommur.  Ég verð líka að nefna hugljúfan og virkilega fallegan söng Írisar um ungan mann sem er fallinn frá.

  Gunnar Þorsteinsson kann öll "trixin" í bókinni og notar óspart þetta:  "Eru ekki allir í stuði?  Má ég heyra betur?  Ég sagði:  Eru ekki allir í stuði?"  Að vísu notar hann ekki nákvæmlega þetta orðalag.  Þess í stað spyr hann:  "Ætlum við ekki að sigra?" og eitthvað álíka.

  Blökkumaðurinn Ron Botha frá S-Afríku flutti magnaða predikun.  Hann kom víða við og sagði margt merkilegt.  Meðal annars það að Íslendingar hafi verið fátækir kotbændur alveg þangað til her Ísraels rústaði herjum nágrannaríkjanna í 6 daga stríðinu á sjöunda áratugnum.  Nákvæmlega á þeim tímapunkti sem her Zíonista sigraði þá umpólaðist hagur Íslendinga.  Eins og hendi væri veifað náðu Íslendingar einum mestu lífsgæðum allra þjóða.  "Hvers vegna?"  spurði Ron og svaraði:  "Vegna þess að Íslendingar einir allra þjóða stóðu með Ísrael."

  Ron varð tíðrætt um blessun.  Hann lauk sinni dagskrá með því að bjóðast til að blessa þá sem pabbar okkar gleymdu að blessa.  Það var ekki ónýtt að fá blessun.  Innifalið í blessuninni er að hver sá sem bölvar mér hér eftir hann mun einungis sjálfur hljóta bölvun.  Farið þess vegna varlega í að bölva mér,  elskurnar mínar.

  Niðurlag samkomunnar varð heldur endasleppt.  Rann eiginlega út í sandinn.  Eftir heilmikla stemmningu,  fjör,  hart metal-rokk,  blessanir og þess háttar lauk Gunnar samkomunni með vel völdum orðum en endaði á því að segja að næsta samkoma væri á þriðjudaginn.  Þetta var klaufalegur endir hvað það varðar að allt var dottið í dúnalogn.  Þarna hefði ég viljað heyra G.I.G. reka endahnút með kröftugu rokklagi,  vælandi gítarsólóum og öðru slíku sem hefði skilið salinn eftir í iðandi hallelújahrópum,  dansi og fjöri.

  Þegar fólk yfirgaf samkomuna var bara eftir að kaupa á leiðinni út harðfisk,  lakkrís,  klósettpappír og kók fyrir það klink sem ekki hafði ratað í söfnunarbauka Krossins sem voru látnir ganga á samkomunni.  


Ekki missa af þessum frábæra útvarpsþætti!

  byrds

  Siggi Lee Lewis,  píanósnillingur,  var í mestu makindum að hlusta á rás 1 í gærkvöldi.  Þá heyrði hann skyndilega þetta fína kántrý-lag sem hann kannaðist ekki við.  Hann lagði því betur við hlustir.  Þegar lagið var afkynnt þekkti Siggi þar rödd Gunna "Byrds" sem var að rifja upp ferð sína til Englands 1977.

  Siggi hringdi í snatri í mig og sagði mér að skipta í hvelli yfir á rás 1.  Það vildi svo skemmtilega til að ég var einmitt að hlusta á rás 1.  Nokkrum mínútum síðar hringdi Stebbi eldri bróðir minn í mig sömu erinda.

  Þessi þáttur með Gunna "Byrds" tilheyrir þáttaseríunni "Á sumarvegi".  Þar rifja hinir ýmsu þáttastjórnendur upp sínar bestu sumarminningar.  Gunnar er svo heppinn að hafa farið í félagi við fleiri Íslendinga á vel heppnaða stórhljómleika í London 1977 þar sem fram komu Roger McGuinn,  Gene Clarke og Chris Hillman með sínum hljómsveitum.  Áður voru þessir þrir liðsmenn The Byrds.

  Fyrir utan að þetta eru allt eðalsnillingar sem markað hafa djúp spor í sögu rokksins og ýmissa annarra músíkstíla þá er einstaklega gaman að heyra Gunnar segja frá.  Hann býr yfir þeim eiginleika að gæða frásögnina lífi á þann hátt að atburðarrásin birtist hlustandanum ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.  Það segir sína sögu að þegar þessum 45 mín.  langa þætti lauk þá hrökk ég við.  Mér fannst þátturinn rétt hafa varað í korter eða svo.

  Það góða er að hægt er að hlusta á þáttinn á heimasíðu RÚV.  Þá smellir maður á rás 1 og síðan yfir á dagsetninguna 4.  júlí.  Þá birtist dagskrá þess dags og maður smellir á þáttinn.  Ég kann ekki búa til hlekk yfir á það.  Er einhver ykkar til í að setja hlekkinn hér inn til að einfalda dæmið?

  Ég er núna búinn að hlusta á þáttinn tvisvar á netinu og ennþá finnst mér þessi 45 mín.  þáttur aðeins vera korters langur.  Þátturinn minnir mig á að ég hef lengi ætlað að skrifa sérstaka færslu um The Byrds.  Hljómsveit sem hafði gífurlega mikil áhrif á þróun rokksins.  Ekki síst í gegnum Bítlana, Rolling Stones og Bob Dylan.  Og ennþá fremur á yngri hljómsveitir á borð við REM og ótal aðrar.  Forsprakki The Byrds,  Roger McGuinn,  lagði meira að segja grunninn að pönkinu með því að gefa út fyrsta Clash-lagið áður en The Clash urðu til! 


Viltu græða hellings pening um verslunarmannahelgina?

   Ég er of gamall til að flandra á útihátíðir um verslunarmannahelgina.  Þess vegna gef ég boltann til ykkar sem yngri eruð - eða annarra sem viljugir eru á útihátíðir - og viljið græða hellings pening á einfaldan og skjótfenginn hátt.  Tugþúsundir manna sækja þessar útihátíðir þannig að markaðurinn er stór.  Fæst af þessu fólki tekur með sér tannbursta.  Hann gleymist þegar fólk hugsar ekki um annað en tjald,  bjór og brennivín.  Svo vaknar þetta fólk upp með æluna upp í sér - og út um allt ef betur er að gáð.
 
  Þá er lag:  Bjóðið upp á tannbursta til leigu með ögn af tannkremi sem kaupauka.  Fjárfesting ykkar felst í kaupum á 2 - 3 tannburstum og nokkrum tannkremstúpum.  Það eina sem þið þurfið að gera er að rölta um svæðið þegar fólk er að rísa úr "rekkju" og bjóða til leigu tannbursta á vægu verði (100 kall eða svo).  Það er heppilegast að staðsetja sig nálægt kranavatni. 
  Það þarf ekki að leigja út tannbursta til nema 1000 - 2000 manns á dag og afraksturinn er 100.000 til 200.000 kall.  Áhættan er engin því ekkert er lagt undir.  Við erum að tala um útleigða tannbursta að morgni - eða hádegi - föstudags,  laugardags,  sunnudags og mánudags. 
  
  Helgin getur hæglega skilað hálfri til einni milljón króna og upp í nokkrar milljónir ef vel tekst til.     
  Þar fyrir utan verðið þið vinsælasta liðið á svæðinu,  með tilheyrandi "grúppíum" af báðum kynjum.  Jafnvel öllum kynjum.
 
  ölvunarvandræði5
  Þessum bráðvantar að fá tannbursta leigðan til að skrúbba ælubragðið úr munninum.  Og kannski til að skrúbba sletturnar af bílnum líka.

Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna féll í skuggann af 20 ára afmæli Blönduósbæjar

  Venjulega litast dagskrá útvarpsstöðvanna mjög af því 4.  júlí ár hvert að þá er þjóðhátíðardagur Bandaríkja Norðu-Ameríku.  Í ár brá hinsvegar svo við að varla heyrðist bandarískt lag spilað heldur var lagaval meira og minna kæft af músík frá Blönduósi.  Reyndar heyrði ég á Útvarpi Sögu að í tilefni þjóðhátíðardags Bandaríkjanna var spilað lag með Bryan Adams.  Hann er kanadískur og Kanada er ekki langt frá Bandaríkjunum.  Á annarri útvarpsstöð var afmæli Blönduóss fagnað með spilun á lagi með hljómsveitinni Jörlum frá Reyðarfirði.  Enda hvorutveggja úti á landi og ekki mjög langt á milli.
mbl.is Blönduós 20 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparaðu tugþúsundir króna

 flugvél strönd

  Á tímum óðaverðbólgu á Íslandi og í Simbabve,  hæstu stýrivaxta í Evrópu annarsvegar og Afríku hinsvegar,  hratt rýrnandi kaupmáttar launa,  hrapandi fasteignaverðs og kreppu er áríðandi að fólk standi saman og bendi hvert öðru á einföld sparnaðarráð.  Ég hef ekki látið mitt eftir liggja í þeim efnum og bæti enn í pottinn:

  Utanlandsferðir eru ekki beinlínis lúxus vegna þess að matur og aðrar vörur eru ódýrari í útlöndum.  Það er ferðin sjálf sem kostar pening.  Þennan pening má spara.  Það eru nefnilega starfandi hérlendis fasteignasölur sem bjóða til sölu hús á Flórída,  Spáni,  í Búlgaríu og víðar.  Þær bjóða upp á ókeypis skoðunarferðir á staðinn.  Það er meira að segja frítt með rútu til og frá flugvelli.  Galdurinn er ekki flóknari en það að taka upp tólið,  hringja í þessar fasteignasölur hverja á fætur annarri,  þykjast hafa hug á að kaupa hús í útlöndum og þú ert kominn til útlanda áður en hendi er veifað - án þess að borga krónu í ferðakostnað.

  Þetta eru frekar stuttar ferðir en það má teygja á þeim með því að segjast þurfa að skoða aðeins betur,  þurfa að skoða fleiri íbúðir,  þurfa að kanna ströndina og svo framvegis. 

  Í steikjandi sól á ströndinni er hægt að spara kaup á sólvörn með því að kappklæða sig í samfesting,  úlpu,  lambhúshettu,  trefil og vettlinga.  Það ver húðina fyrir sólbruna.  Þetta ráð má nota hvar sem sól skín.

  Fleiri sparnaðarráð:


Brenglað fjarlægðarskyn

 lím Flestu fólki þykir eðlilegt að viðmælendur þeirra almennt séu í dálítilli fjarlægð.  Það er að segja séu ekki klesstir upp við nefið á manni.  Svona að öllu jöfnu.  þetta er eitthvað sem enginn þarf að ræða sérstaklega.  Fólk kann þetta.  Nema þeir sem jórtra Opal.  Efnablandan í Opali veldur því að þeir tapa fjarlægðarskyni.  Þeir upplifa sig vera í kurteislegri fjarlægð þó þér séu alveg með nefið á sér þétt við nef viðmælandans.  Þetta sést meira að segja í sjónvarpsauglýsingum um fólk sem borðar Opal.

  Þó að Opal sé selt sem jórturnammi þá er Opal í raun pappalím.  Sælgætisgerðin kynntist Opali sem lími til að ganga frá umbúðum.  Við forstjóraskipti eitt sinn varð til sá hlálegi misskilningur að Opal væri nammi.  Og af því að það var forstjórinn sem misskildi þetta þá kunni enginn við að leiðrétta hann.

 


Leoncie deilir á íslensku lögguna

  leoncie

  Íslenska Madonna,  eins og indverska prinsessan Leoncie kallar sig,  er ein af þessum gleðigjöfum sem kemur manni í gott skap við það eitt að sjá mynd af henni.  Viðtöl við hana eru dásamlega safarík,  skemmtileg og upplýsandi.  Í viðtali við visir.is leiðréttir hún misskilning sem ég er viss um að fleiri en ég stóðu í trú um.  Ég var sannfærður um að Leoncie væri á föstum fjárlögum frá íslenska ríkinu,  jafnvel hjá fleiri en einu ráðuneyti.  Þessu vísar Leoncie á bug í visir.is og segir: 

Íslenska lögreglan, dómsmálaruslið og allt þetta ömurlega kerfi á það skilið að því sé sturtað niður í klósettið. Lögreglan og fólkið í Englandi er frábært.  Íslenska ríkisstjórnin styður mig ekki eins og allt þetta fólk sem er öfundsjúkt út í mig. Sigur rós, Björk og aðrar hæfileikalausar blöðrur sem geta ekki gert neitt án stuðnings frá ríkinu."

  Þetta verður að rannsaka.  Þarna er spilling.  Hugsanlega rasismi líka.  Það er eitthvað meira en lítið bogið við það að íslenska Madonna,  indversk prinsessa,  sé sniðgengin og fjársvelt af íslensku ríkisstjórninni,  löggunni og dómsmálaráðuneytinu á meðan glórulaus fjáraustur til öfundsjúkra og hæfileikalausra blaðra er látinn viðgangast.  Og það þrátt fyrir að hæfileikalausu blöðrurnar selji plötur í milljóna upplögum og eigi nógan pening. 

  Í nýlegu hefti tímaritsins New York Entertainment er stutt en áhugaverð grein um Leoncie er byggir að hluta á upplýsingum frá henni sjálfri og á því að vera nokkuð áreiðanleg.  Þannig er greinin:

Leoncie, Iceland’s Madonna, Makes Own Dirty Videos

Icelandic artist Leoncie has drawn comparisons to Madonna for her overt sexuality, fast-changing hairstyles, and prolific music-video output. She writes and performs all her own music and directs the rather cheesy videos, too—courting controversy with some of them (they were pulled from YouTube) because she showed her boobs. We particularly recommend the surreal “Invisible Girl,” in which she flies on a magic carpet, and “Sex Crazy Cop,” with the catchy refrain: “Ooooh, cheap sex.”


Stærsta fréttin í Fjáreyjum í dag

 Á dögunum vakti mikla athygli í Fjáreyjum þegar sjálfur borgarstjórinn í Reykjavík,  Ólafur F.  Magnússon, bauð í eigin persónu lítt þekktri fjáreyskri karókí-söngkonu,  Sölvu Ford - eða Sólvá Ford (fjáreyskir fjölmiðlar skrifa nafnið sitt á hvað) - í heimsókn til Íslands. Ekki til að syngja í sturtu,  þó ekki sé lagst gegn því,  heldur til að syngja á fjölsóttustu árlegri fjöldasamkomu landsins,  Menningarnótt í Reykjavík.  Gestir á Menningarnótt eru iðulega um og yfir 100.000. 

  Eðlilega þykir Fjáreyingum þetta vera gífurleg upphefð og stórt tækifæri fyrir óþekkta söngkonu úr 48 þúsund manna samfélagi. Um fátt hefur verið meira talað í eyjunum síðustu daga.

  Fréttin barst til Íslands og vakti gífurlega athygli hérlendis.  Núna er það stærsta fréttin í Fjáreyjum að þetta skuli þykja frétt á Íslandi og að Íslendingar nafn söngkonunnar sé á allra vörum án þess að aðrir en borgarstjórinn í Reykjavík hafi heyrt hana syngja. 

  Það fylgir sögunni að fjáreyska söngkonan ætli að þakka borgarstjóranum fyrir heiðurinn með því að syngja fyrir hann Ylfu Lindar-slagarann "As Tears Go By".  Sú fjáreyska leggur nú dag við nótt að læra lagið og  textann og æfa sönginn. Lítill fugl hvíslaði að mér að hún hafi hug á að kalla borgarstjórann upp á svið til að syngja lagið með sér.  Þeir sem vilja taka undir geta lært lagið með því að hlusta á það í tónspilaranum mínum hérna við hliðina.
--------------------------------

Sólvá Ford vekir ans í Íslandi
30. jun 2008, 13:27
 


Sólvá Ford vekir ans í Íslandi
Mynd: Sólvá Ford og Ólafur F. Magnússen, borgarstjóri Reykjavíkar

Tað hevur vakt ans í Íslandi, at borgarstjórin í Reykjavík hevur boðið Sólvu Ford at taka lut á mentanarnátt í Reykjavík. Eisini Rasmus Rasmussen ger vart við seg í Íslandi
Tað er nógv frammi í íslendskum miðluym, at borgarstjórin í Reykjavík herfyri beyð føroysku tónlistakvinnuni at framføra á mentanarnátt í Reykjavík í august. Borgarstjórin, Ólafur F. Magnússon, hoyrdi hana syngja, tá hann herfyri vitjaði í Tórshavn.
Heimmildarmaðurin hjá Portalinum í Íslandi, Jens Guð, sigur, at mentaranarnáttin, The Culture Night, er sera stór hending í Íslandi, og ljós verður varpað á tað, ið fer fram. Fleiri enn 110.000 fara vanliga í býin at njóta konsertir og onnur tilboð, tá mentanarnáttin er í Reykjavík. Og knappliga er Sólvá Ford eitt navn, ið íslendingar eru um at kennast við.
Guitarleikarin Rasmus Rasmussen, sum júst hevur givið enn eina fløgu út við guitartónleiki, ger eisini vart við seg í Íslandi. Hann spældi um vikuskiftið í Hafnarhúsið í Reykjavík, tá felagsskapurin fyri samkynd í Íslandi, Samtøkin 78, helt sín 30 ára stovningardag. Hetta var eisini hending, sum miðlar í Íslandi gjørdu heilt fitt burturúr, frættist frá Jens Guð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.