18.3.2022 | 03:49
Hámark letinnar
Leti er listgrein út af fyrir sig. Það þarf skipulag til að gera ekki neitt. Eða sem allra minnst. Skipulag og skapandi hugsun. Margar af bestu uppfinningum mannsins urðu til vegna leti. Líka margt spaugilegt.
Ástæða getur verið að smella á myndirnar til að átta sig betur á hvað er í gangi.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
9.3.2022 | 07:47
Afi og flugur
Börnum er hollt að alast upp í góðum samskiptum við afa sinn og ömmu. Rannsóknir staðfesta það. Ég og mín fimm systkini vorum svo heppin að alast upp við afa á heimilinu. Hann var skemmtilegur. Reyndar oftar án þess að ætla sér það.
Afi hafði til siðs að vera með hálffullt vatnsglas á náttborðinu. Ofan á glasinu hafði hann pappírsblað til að verja það ryki. Stríðin yngsta systir mín tók upp á því að lauma flugu ofan í glasið. Ekki daglega. Bara af og til.
Þetta vakti undrun afa. Honum þótti einkennilegt að flugan sækti í vatnið. Ennþá furðulegra þótti honum að hún kæmist undir pappírsblaðið. Afi sagði hverjum sem heyra vildi frá uppátæki flugunnar. Allir undruðust þetta jafn mikið og afi.
Aldrei varð afi eins furðu lostinn og þegar könguló var komin í glasið.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
1.3.2022 | 07:53
Hlálegur misskilningur
Miðaldra íslensk kona var búsett erlendis. Einn góðan veðurdag ákvað hún að fljúga til Íslands til að heimsækja vini og ættingja. Það hafði hún vanrækt í alltof langan tíma. Aldraður faðir hennar skutlaðist út á flugvöll til að sækja hana. Hún var varla fyrr komin í gegnum toll og heilsa honum er hún áttaði sig á klaufaskap.
"Bölvað vesen," kallaði hún upp yfir sig. "Ég gleymdi tollinum!"
"Hvað var það?" spurði pabbinn.
"Sígarettur og Jack Daniels," upplýsti hún.
"Ég næ í það," svaraði hann, snérist á hæl og stormaði valdmannslegur á móti straumi komufarþega og framhjá tollvörðum. Hann var áberandi, næstum tveir metrar á hæð, íklæddur stífpressuðum jakkafötum, með bindi og gyllta bindisnælu.
Nokkru síðar stikaði hann sömu leið til baka. Í annarri hendi hélt hann á sígarettukartoni. Í hinni bar hann Jack Daniels.
Er feðginin héldu af stað til Reykjavíkur sagði konan: "Ég skipti gjaldeyri á morgun og borga þér tollinn."
"Borga mér?" spurði öldungurinn alveg ringlaður.
Í ljós kom misskilningur. Hann hélt að dóttir sín hefði keypt tollvarninginn en gleymt að taka hann með sér. Gamli var svo viss um þetta að hann borgaði ekkert.
Ferðalög | Breytt 9.4.2022 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.2.2022 | 06:04
Bráðskemmtileg svör barna
Eftirfarandi svör barna við spurningum eru sögð vera úr raunverulegum prófum. Kannski er það ekki sannleikanum samkvæmt. Og þó. Börn koma oft á óvart með skapandi hugsun. Þau sjá hlutina fyrir sér frá fleiri sjónarhornum en kassalaga hugsun fullorðna fólksins.
- Hvar var sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna undirrituð?
- Neðst á blaðsíðunni
- Hver er megin ástæða fyrir hjónaskilnuðum?
- Hjónaband
- Hvað getur þú aldrei borðað í morgunmat?
- Hádegismat og kvöldmat
- Hvað hefur sömu lögun og hálft epli?
- Hinn helmingurinn
- Hvað gerist ef þú hendir rauðum steini í bláahaf?
- Hann blotnar
- Hvernig getur manneskja vakað samfleytt í 8 daga?
- Með því að sofa á nóttunni
- Hvernig er hægt að lyfta fíl með einni hendi?
- Þú finnur ekki fíl með eina hönd
5.2.2022 | 03:17
Áhrifamestu plötuumslögin
Plötuumslög gegna veigamiklu hlutverki. Þau móta að nokkru leyti viðhorf plötuhlustandans til tónlistarinnar og flytjandans. Þegar best lætur renna umslag og tónlistin saman í eitt. Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að "rétt" umslag hefur áhrif á sölu plötunnar. Til lengri tíma getur umslag orðið þátttakandi í nýjum straumum og stefnum í tónlist.
American Express Essentials hefur tekið saman lista yfir áhrifamestu plötuumslögin. Hér er ekki verið að tala um bestu eða flottustu umslögin - þó að það geti alveg farið saman í einhverjum tilfelllum. Árlega koma á markað margar milljónir plötuumslaga. Aðeins 0,0000000% þeirra verða almenningi minnisstæð.
Stiklum hér á stóru í rjóma niðurstöðu AEE:
- Elvis Presley. Fyrsta stóra plata hans og samnefnd honum. Kom út 1956. Stimplaði gítarinn inn sem tákn rokksins. Á þessum tímapunkti var það brakandi ný og fersk blanda bandarískra músíkstíla á borð við blús og rokkabilly.
- The Clash: London Calling. 3ja plata Clash sem var önnur tveggja framvarðasveita bresku pönkbyltingarinnar (hin var Sex Pistols). Útgáfuárið er 1979 og pönkið búið að slíta barnsskónum. Clash var ekki lengur "bara" pönk heldur eitthvað miklu meira; stórveldi sem sló í gegn í Ameríku umfram aðrar pönksveitir. Umslagið kallast skemmtilega á við upphaf rokksins. Ljósmyndin var ekki tekin fyrir umslagið. Hún var eldri og fangaði augnablik þar sem bassaleikarinn, Paul Simonon, fékk útrás fyrir pirring. "London Calling" var af amerískum fjölmiðlum - með Rolling Stone í fararbroddi - útnefnd besta plata níunda áratugarins.
- Bítlarnir: Revolver. "Sgt. Peppers...", "Hvíta albúmið", "Abbey Road" og "Revolver" togast á um áhrifamestu Bítla-umslögin. "Revolver" kom út 1966 og var fyrst Bítlaplatna til að skarta "allt öðruvísi" umslagi: teiknimynd af Bítlunum í bland við ljósmyndir. Umslagið rammaði glæsilega inn að hljómsveitin var komin á kaf í nýstárlega tónlist á borð við sýrurokk, indverskt raga og allskonar. Höfundur þess var góðvinur Bítlanna frá Hamborg, bassaleikarinn og myndlistamaðurinn Klaus Voorman.
- Velvet Underground & Nicole. Platan samnefnd hljómsveitinni kom út 1967 undir forystu Lou Reeds. Umslagið hannaði Andy Warhol. Platan og sérkennilegt umslag þóttu ómerkileg á sínum tíma. En unnu þeim mun betur á með tímanum.
- The Rolling Stones: Let it Bleed. Önnur 2ja bestu platna Stones (hin er Beggars Banquet). Kom út 1969. Þarna er stofnandi hljómsveitarinnar, Brian Jones, næstum dottinn út úr henni og arftakinn, Mick Taylor, að taka við. Umslagið er af raunverulegri tertu og plötu. Þetta var löngu fyrir daga tæknibrellna á borð við fótoshop.
- Patti Smith: Horses. AEE telur "Horses" vera bestu jómfrúarplötu sögunnar. Útgáfuárið er 1975. Umslagið rammar inn látlausa ímynd alvörugefna bandaríska pönk-ljóðskáldsins.
- Pink Floyd: Wish You Were Here. Valið stendur á milli þessarar plötu frá 1975 og "Dark Side of the Moon". Ljósmyndin á þeirri fyrrnefndu hefur vinninginn. Hún sýnir tvo jakkalakka takast í hendur. Annar stendur í ljósum logum í alvörunni. Hér er ekkert fótoshop.
- Sex Pistols: Never Mind the Bollocks Heres the Sex Pistols. Eina alvöru plata Sex Pistols. Platan og hljómsveitin gerðu allt brjálað í bresku músíksenunni 1977. Umslagið er vel pönkað en um leið er klassi yfir hönnunni og skæru litavalinu.
- Bruce Springsteen: Born in the USA. 1984 vísuðu umslagið og titillinn í þverbandarísk blæbrigði. Undirstrikuðu að þetta var hrátt verkalýðsrokk; bandarískt verkalýðsrokk sem kallaði á ótal túlkanir. Þarna varð Brúsi frændi sú ofurstjarna sem hann er enn í dag.
- Nirvana: Nevermind. 1991 innleiddi platan Seattle-gruggbylgjuna. Forsprakkinn, Kurt Cobain, fékk hugmyndina að umslaginu eftir að hafa séð heimildarmynd um vatnsfæðingu. Hugmyndin um agnið, peningaseðilinn, var ekki djúphugsuð en má skoðast sem háð á græðgi.
- Björk: Homogenic. AEE segir þetta vera bestu tekno-plötu allra tíma. Titillinn endurspegli leit Íslendingsins að hinum eina rétta tóni plötunnar 1997.
- Sigur Rós: (). Fyrir íslenska hljómsveit sem syngur aðallega á bullmáli en semur fallega og áleitna tónlist er umslagið óvenjulegt og vel við hæfi. Svo segir AEE og áttar sig ekki á að söngur Sigur Rósar er aðallega á íslensku. Reyndar á bullmáli á (). Platan kom út 2002.
Menning og listir | Breytt 8.2.2022 kl. 04:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
29.1.2022 | 00:41
Töfrar úðans
Ég var að selja snyrtivörur, alnáttúrulegar heilsusnyrtivörur úr Aloe Vera plöntunni að uppistöðu til. Aldraður maður á Egilsstöðum hringdi í mig. Hann bað mig um að senda sér í póstkröfu sólarolíu sem heitir Dark Tanning Oil Spray. Ástæðuna sagði hann vera þreytu í augum. Hann grunaði að úðaspreyið gæti gert sér gott. Einkum vegna þess að Aloe Vera var uppistöðuhráefnið.
Nokkrum vikum síðar hringdi maðurinn aftur til að fá fleiri úðabrúsa. Hann sagði að reynslan væri svo góð við að spreyja í augun að hann væri byrjaður að spreyja í eyrun líka. Með jafn góðum árangri. Eyrun hvíldust vel útspreyjuð.
Nokkrum vikum síðar hringdi hann enn í mig. Hann vantaði fleiri úðabrúsa. Nú var hann byrjaður að spreyja upp í munninn á sér undir svefninn. Allt annað líf. Hann svæfi eins og kornabarn. Að auki væru draumfarir ljúfari.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.1.2022 | 05:31
Oft ratast kjöftugum satt á munn. Eða ekki.
Rokkið er lífstíll. Yfirlýsingagleði, dramb og gaspur eru órjúfanlegur hluti af lífstílnum. Alveg eins og "sex and drugs and rock and roll". Þess vegna er oft gaman að lesa eða heyra viðtöl við rokkstjörnur þegar þær reyna að trompa allar hinar.
- Little Richard: "Ég er frumkvöðullinn. Ég er upphafsmaðurinn. Ég er frelsarinn. Ég er arkitekt rokksins!"
- Richard Ashcroft (The Verve): Frumkvöðull er ofnotað hugtak, en í mínu tilfelli er það alveg viðeigandi."
- Jim Morrison (The Doors): "Ég lít á sjálfan mig sem risastóra, eldheita halastjörnu, stjörnuhrap. Allir stoppa, benda upp og taka andköf: "Ó, sjáðu þetta!" Síðan vá, og ég er farinn og þeir sjá aldrei neitt þessu líkt aftur. Þeir munu ekki geta gleymt mér - aldrei."
- Thom Yorke (Radiohead): "Mig langar að bjóða mig fram til forseta. Eða forsætisráðherra. Ég held að ég myndi standa mig betur."
- Courtney Love (Hole): "Ég vildi að ég stjórnaði heiminum - ég held að hann væri betri."
- Brian Molko (Placebo): Ef Placebo væri eiturlyf værum við klárlega hreint heróín hættulegt, dularfullt og algjörlega ávanabindandi."
- Pete Townsend (The Who): Stundum trúi ég því virkilega að við séum eina rokkhljómsveitin á þessari plánetu sem veit um hvað rokk n roll snýst."
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
12.1.2022 | 00:03
Elvis bannar lag með sjálfum sér
Tímarnir líða og breytast. Ósæmileg hegðun sem fékk að viðgangast óátalin fyrir örfáum árum er nú fordæmd. Dónakallar sitja uppi með skít og skömm. Þeirra tími er liðinn. Hetjur dagsins eru stúlkurnar sem stíga fram - hver á fætur annarri - og afhjúpa þá.
Kynþáttahatur er annað dæmi á hraðri útleið. Tónlistarfólk - sem og aðrir - er æ meðvitaðra um hvað má og hvað er ekki við hæfi.
Eitt af stóru nöfnunum í nýbylgjunni á seinni hluta áttunda áratugarins var Elvis Costello. Hans vinsælasta lag heitir Oliver´s Army. Það kom út 1979 á plötunni Armed Forces. Þar syngur hann um vandamál Norður-Írlands. Kaþólikkar og mótmælendatrúar tókust á með sprengjum, drápum og allskonar.
Í textanum segir: "Only takes one itchy trigger / One more widow, one less white nigger."
Á sínum tíma hljómaði þetta saklaust. Gælunafn afa hans í breska hernum var White nigger. Það þótti ekki niðrandi. Í dag hljómar það hræðilega. Þess vegna hefur Elvis gefið útvarpsstöðvum fyrirmæli um að setja lagið umsvifalaust á bannlista. Sjálfur hefur hann tekið þetta sígræna lag af tónleikaprógrammi sínu. Hann ætlar aldrei að spila það aftur.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 03:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
5.1.2022 | 00:06
Spaugilegar sjálfur
Fyrir daga myndsímanna voru ljósmyndir dýrt sport. Kaupa þurfti filmur og spandera í framköllun. Þess vegna vönduðu menn sig við verkefnið.
Í dag kostar ekkert að smella mynd af hverju sem er. Ungt fólk er duglegt að taka myndir af sjálfum sér og birta á samfélagsmiðlum. Í hamaganginum er ekki alltaf aðgætt hvað er í bakgrunni. Enda skjárinn lítill. Þegar ljósmyndarinn uppgötvar slysið er vinahópurinn búinn að gera myndirnar ódauðlegar á netinu. Hér eru nokkur sýnishorn:
- Strákur kvartar undan því að kærastan sé alltaf að laumast til að mynda hann. Í bílrúðunni fyrir aftan sést að stráksi tók myndina sjálfur.
- Einn montar sig af kúluvöðva. Í spegli fyrir aftan sést að hann er að "feika".
- Kauði smellir á mynd af ömmu og og glæsilegu hátíðarveisluborði hennar. Hann áttar sig ekki á að í spegli sést hvar hann stendur á brókinni einni fata.
- Stúlka heimsækir aldraðan afa. Það er fallegt af henni. Hún notar tækifærið og tekur sjálfu á meðan kallinn dottar.
- Önnur dama telur sig vera óhulta í mynd á bak við sturtuhengi. Ef vel er að gáð sést efst á myndinni í gægjudóna. Þetta sést betur ef smellt er á myndina.
- Enn ein er upptekin af sjálfu á meðan barn hennar berst fyrir lífi sínu í baðkari.
- Pabbi tekur mynd af feðgunum. Snati sleppur inn á sem staðgengill hárbrúsks.
- Myndarlegur gutti tekur sjálfu. Ekkert athugavert við það. Nema ef vel er rýnt í bakgrunninn. Þar speglast í rúðu að töffarinn er buxnalaus.
Spaugilegt | Breytt 8.1.2022 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.12.2021 | 09:07
Jólakveðja
Heims um ból höldum við jól;
heiðingjar, kristnir og Tjallar.
Uppi í stól stendur í kjól
stuttklipptur prestur og trallar.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.12.2021 | 03:24
Bestu Bítlaplöturnar
Breska hljómsveitin Bítlarnir (The Beatles) hætti fyrir meira en hálfri öld. Plötuferill hennar spannaði aðeins sex ár. Samt er ekkert lát á vinsældum hennar. Aðdáendahópurinn endurnýjar sig stöðugt. Í útvarpi má iðulega heyra spiluð lög með Bítlunum og umfjöllun um Bítlana. Skammt er síðan Gunnar Salvarsson rakti sögu hljómsveitarinnar í þáttaseríu á Rúv. Gerðar hafa verið leiknar kvikmyndir um Bítlana, sem og heimildarmyndir og sjónvarpsþættir. Núna síðast hefur Disney+ verið að sýna átta tíma heimildarþátt um gerð plötunnar "Let it be".
Það segir margt um stöðu Bítlanna að í hálfa öld hafa 3 plötur hennar verið að skiptast á að verma efstu sæti lista yfir bestu plötur allra tíma. Það eru "Sgt Pepper´s...", "Revolver" og "Abbey Road".
Til gamans: Hér til vinstri á þessari síðu hef ég stillt upp skoðanakönnun um uppáhalds Bítlaplötuna. Vinsamlegast takið þátt í leitinni að henni.
Breska tímaritið Classic Rock hefur tekið saman lista yfir bestu og áhrifamestu Bítlaplöturnar. Staða þeirra er studd sannfærandi rökum. Þannig er listinn:
1. Revolver (1966)
Þarna voru Bítlarnir komnir á kaf í ofskynjunarsýruna LSD og indverska músík. Það tók almenning góðan tíma að melta þessa nýju hlið á Bítlunum. Platan seldist hægar en næstu plötur á undan. Hún sat "aðeins" í 8 vikur í 1. sæti breska vinsældalistans. Því áttu menn ekki að venjast. Í dag hljóma lög plötunnar ósköp "venjuleg". 1966 voru þau eitthvað splunkunýtt og framandi. Plötuumslagið vakti mikla athygli. Í stað hefðbundinnar ljósmyndar skartaði það teikningu af Bítlunum. Hönnuðurinn var Klaus Woorman, bassaleikari sem Bítlarnir kynntust í Þýskalandi. Hann spilaði síðar á sólóplötum Lennons. Umslagið fékk Grammy-verðlaun.
2. Sgt. Pepper´s Lonely Hearts Club Band (1967)
Bítlarnir gengu ennþá lengra í tilraunamennsku og frumlegheitum. Gagnrýnendur voru á báðum áttum. Sumir töldu Bítlana vera búna að missa sig. Þeir væru komnir yfir strikið. Tíminn vann þó heldur betur með Bítlunum.
3. Please Please Me (1963)
Sem jómfrúarplata Bítlanna markaði hún upphaf Bítlaæðisins - sem varir enn. Hún var byltingarkenndur stormsveipur inn á markaðinn. Ný og spennandi orkusprengja sem náði hámarki í hömlulausum öskursöng Lennons í "Twist and Shout". Þvílík bomba!
4. Abbey Road (1969)
Síðasta platan sem Bítlarnir hljóðrituðu. Þeir sönnuðu að nóg var eftir á tanknum. George á bestu lög plötunnar. Hin lögin eru þó ekkert slor.
5. Magical Mistery Tour (1967)
6. Rubber Soul (1965)
7. Hvíta albúmið (1968)
8. With The Beatles (1963)
9. A Hard Day´s Night (1964)
Þrjár plötur ná ekki inn á þennan lista: Beatles for sale (1964), Help (1965), Yellow Submarine (1969). Allt góðar plötur en skiptu ekki sköpum fyrir tónlistarþróun Bítlanna og heimsins.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
10.12.2021 | 01:07
Sprenghlægilegar ljósmyndir af glæpamönnum
Fá ljósmyndaalbúm eru spaugilegri en þau sem hýsa myndir af bandarískum glæpamönnum. Eflaust eru glæpamenn annarra þjóða líka broslegir. Lögregluþjónar þeirra eru bara ekki eins ljósmyndaglaðir. Síst af öllu íslenskir. Hér eru nokkur skemmtileg dæmi:
2.12.2021 | 23:11
Bestu gítarleikarar rokksögunnar?
Sumir halda ranglega að gæði gítarleiks ráðist af hraða og fingrafimi. Þetta á ekki síst við um gítarleikara sem ráða yfir færni í hraða. Jú, jú. Það getur alveg verið gaman að heyra í þannig flinkum gítarleikara. En aðeins í hófi. Miklu hófi. Fátt er leiðinlegra en sólógítarleikari sem þarf stöðugt að trana sér fram og sýna hvað hann getur spilað hratt.
Bestu gítarleikarar eru þeir sem upphefja lagið og meðspilara sína óháð fingrafimi og hraða. Einn gítartónn hjá BB King gerir meira fyrir lag en allir hraðskreiðustu sólógítarleikarar rokksins til saman. Einhver orðaði það á þessa leið. Man ekki hver.
Tímkaritið Woman Tales hefur tekið saman lista yfir bestu gítarleikara rokksögunnar. Ég er glettilega sammála niðurstöðunni. Hún er þessi:
1. Jimi Hendrix. Rökin eru m.a. þau að hann fullkomnaði áður óþekktan leik með enduróm (feedback). Jafnframt spilaði hann hljóma sem fyrirrennarar hans vissu ekki að væru til. Margt fleira mætti telja upp sem stimplar Hendrix inn sem besta gítarleikara rokksögunnar.
Gott dæmi um það hvernig Hendrix umbreytti góðu lagi í meiriháttar snilld er túlkun hans á "All Along the Watchtower".
2. Eric Clapton. Hann kann öll trixin í bókinni. En líka að kunna sér hófs án stæla.
3. Jimmy Page (Led Zeppelin). Hann gerði svo margt flott án þess að trana sér.
4. Chuck Berry bjó til rokk og rollið. Og rokkgítarleikinn.
5. Eddie Van Halen
6. Keith Richards
7. Jeff Back
8. B. B. King
9. Carlos Santana
10. Duane Allman
11. Prince
12. Stevie Ray Vaughn
13. Pete Townshend (The Who)
14. Joe Walsh
15. Albert King .
16. George Harrison
17. John Lennon
18. Kurt Cobain
19. Freddie King
20. Dick Dale
21. Buddy Holly
22. Slash (Guns N Roses)
23. Joe Perry (Aerosmith)
24. David Gilmour (Pink Floyd)
25. Neil Young
26. Frank Zappa
27. Tom Petty og Mike Campell (Heartbreakers)
28. Muddy Waters
29. Scotty Moore
30. Billy Gibbons (ZZ Top)
31. The Edge (U2)
32. Bobby Krieger (The Doors)
33. Brian May (Queen)
34. Angus Young (AC/DC)
35. Tom Morello (Rage Against the Machine / Audioslave / Bruce Springsteen & the E-Street Band)
Tónlist | Breytt 12.1.2022 kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
25.11.2021 | 01:19
KSÍ í vanda
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.11.2021 | 04:54
Ríkustu tónlistarmenn heims
Margir vinsælir tónlistarmenn fengu að heyra það á unglingsárum að þeir þyrftu að læra eitthvað nytsamlegt. Eitthvað sem opnaði þeim leið að vel launuðu starfi. Þetta fengu þeir að heyra þegar hugur þeirra snérist allur um hljóðfæragutl. "Tónlistin gefur ekkert í aðra hönd," fullyrtu vel meinandi foreldrar.
Samkvæmt Geoworld Magazine virðast ýmsir tónlistarmenn hafa komist í álnir. Þar á meðal þessir (innan sviga er virði þeirra):
1 Paul McCartney ($ 1,28 milljarðar)
2 Andrew Lloyd Webber ($ 1,2 milljarðar)
Þessir tveir eru Bretar. Í næstu sex sætum eru Bandíkjamenn.
3 Jay Z ($ 1 milljarður)
4 Herb Albert ($ 850 milljónir)
Eitthvað af þessum aurum hefur Herb Albert fengið fyrir að spila og gefa út á plötu lagið "Garden Party" eftir Eyþór Gunnarsson (Mezzoforte).
5 Sean Combs - Diddy ($ 825 milljónir)
6 Dr.Dre ($ 800 milljónir)
7 Madonna ($ 580 milljónir)
Madonna er lang lang efnuðust tónlistarkvenna. Sú eina sem er inn á topp 20.
8 Emilio Estefan ($ 500 milljónir)
9 Elton John ($ 480 milljónir)
10 Coldplay (475 milljónir)
Elton John og Coldplay eru breskir. Jimmy Buffett er bandarískur, eins og Brúsi frændi. Í sætum 12, 13 og 15 eru Bretar.
11 Jimmy Buffett ($ 430 milljónir)
12 Mick Jagger ($ 360 milljónir)
13 Ringo Starr ($ 350 milljónir)
14 Bruce Springsteen ($ 345 milljónir)
15 Keith Richards (340 milljónir)
16 Neil Sedaka ($ 300 milljónir)
17 Gene Simmons ($ 300 milljónir)
18 Jon Bon Jovi ($ 300 milljónir)
19 Sting ($ 300 milljónir)
20 L.A.Reid ($ 300 milljónir)
Sting er breskur. Hinir bandarískir.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 05:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.11.2021 | 03:14
Hljómplötuumsögn
- Titill: Prine
- Flytjendur: Grasasnar
- Einkunn: ****
Prine er önnur plata borgfirsku hljómsveitarinnar Grasasna. Sú fyrri heitir Til í tuskið. Nýja platan heiðrar minningu bandaríska söngvarans og söngvaskáldsins John Prine (1946 - 2020). Hann var og er virtur, vinsæll og margverðlaunaður.
Öll lögin eru eftir Prine. 9 af 11 textum yrkir Steinar Berg á íslensku. Hann er söngvari og kassagítarleikari hljómsveitarinnar. Bjartmar Hannesson á einn texta (þekktastur fyrir 17. júní lagið með Upplyftingu). Einn texti eftir Prine heldur sér á ensku. Hann er Let´s talk dirty in Hawaian. Þetta er lokalag plötunnar. Það virkar dálítið eins og bónuslag. Bæði vegna enska textans og líka vegna þess að flutningurinn er frábrugðinn öðrum lögum. Hljómar í humátt eins og að vera hljóðritaður í partýi; sem skilur eftir sig gott eftirbragð þegar hlið B lýkur. Reyndar er partý-gleði í fleiri lögum - þó að þetta sé aðal partý-lagið.
Lög Prines eru einföld, auðlærð, fjölbreytt og grípandi. Mjög grípandi. Við fyrstu hlustun þarf aðeins að heyra upphafstóna til að geta trallað með öllu laginu.
Tónlistin er kántrý, kántrý-rokk og kántrýskotnir vísnasöngvar. Útsetningum Prines er ekki fylgt af nákvæmni. Stemmningin fær að halda sér. Að öðru leyti afgreiða Grasasnar útfærsluna með sínu nefi. Fyrir bragðið skilar sér einlægni í flutningi og innlifun.
Hljómsveitin er vel spilandi. Auk Steinars Bergs eru í Grasösnum Sigurþór Kristjánsson (trommur, slagverk, bakraddir), Sigurður Bachmann (gítarar) og Halldór Hólm Kristjánsson (bassi, bakraddir). Að auki skerpa gestaleikarar á litbrigðum með fiðlu, munnhörpu, píanói, harmonikku og fleiru. Allt í smekklegu og snotru hófi.
Söngur Steinars Bergs er með ágætum; röddin sterk og einkennandi fyrir hljóðheim Grasasna.
Textarnir gefa tónlistinni heilmikla vigt. Í þeim eru sagðar sögur. Sumar af búsi og grasi. Margar blúsaðar í bland við gleði af ýmsu tagi. Í dýpri textum er fjallað um siðblind illmenni og lífeyrissjóði. Í Fiskum og flautum segir:
Alla æfi lífeyri lagði ég í sjóð
og lét mig hlakka til að eiga elliárin góð.
Nú étur kerfið sparnaðinn upp af miklum móð.
Þeir kalla þetta krónu á móti krónu.
Textarnir eru í frjálsu formi en með endarími. Umslagið - hannað af Steinari Berg - er harla gott, mikið um sig (tvöfalt) og veglegt með prentuðum textum og skemmtilegum ljósmyndum. Þær keyra upp stemmninguna á Land Rover.
Prine er hlý og notaleg plata. Hún hljómar vel við fyrstu hlustun. Líka eftir að hafa verið margspiluð.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.11.2021 | 00:56
Ósætti út af kjúklingavængjum
Ofbeldi tíðkast víðar en í bandarískum skemmtiþáttaseríum. Stundum þarf ekki mikið til. Jafnvel að gripið sé til skotvopna þegar fólki mislíkar eitthvað. Það hefur meira að segja hent á okkar annars friðsæla Íslandi; þar sem flestir sýna flestum takmarkalausa ást og kærleika.
Í Vínlandinu góða, nánar tiltekið í Utah-ríki, vildi umhyggjusamur faðir gera vel við þrítugan son sinn. Á heimleið úr vinnu keypti hann handa honum vænan skammt af kjúklingavængjum. Viðtökurnar voru ekki jafn fagnandi og pabbinn bjóst við. Stráksa mislíkaði að kallinn hafði ekki keypt uppáhaldsvængina hans heldur einhverja aðra tegund. Mönnum getur sárnað af minna tilefni. Hann stormaði inn á baðherbergi. Þar var ein af byssum heimilisins geymd. Kauði nýtti sér það. Hann tók byssuna og skaut á kallinn. Sem betur fer var hann ekki góð skytta í geðshræringunni. Kúlan fór yfir í næsta hús og hafnaði þar í uppþvottavél.
Kallinn stökk á strákinn og náði að afvopna hann. Áður tókst drengnum að hleypa af tveimur skotum til viðbótar. Bæði geiguðu að mestu en náðu samt að særa kallinn.
Einhver bið verður á að gaurinn fái fleiri kjúklingavængi. Hann er í fangelsi.
.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.10.2021 | 06:38
Ofbeldi upphafið
Ég horfi stundum á sjónvarp. Í Sjónvarpi Símans hafa árum saman verið endursýndir bandarískir grínþættir sem kallast The king of Queens. Sömu þættirnir sýndir aftur og aftur. Það er í góðu lagi. Ein aðalstjarnan í þáttunum er virkilega vel heppnuð og fyndin. Þar er um að ræða geðillan og kjaftforan náunga sem kallast Arthur. Leikarinn heitir Jerry Stiller. Hann ku vera faðir íslandsvinarins Bens Stillers.
Arthur býr heima hjá dóttur sinni og tengdasyni. Eins og algengt er í svona gamanþáttum þá er konan fögur, grönn og gáfuð. Kall hennar er feitur, undirförull og heimskur. Allt er þetta með ágætum ef frá er talið að ofbeldi er fegrað sem brandarar. Hjónin eiga til að hrinda hvort öðru; konan snýr upp á geirvörtur kauða og kýlir hann með hnefa í bringuna. Þetta er ekki til eftirbreytni og ber að fordæma.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 07:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.10.2021 | 19:15
Smásaga um mann sem týndi sjálfum sér
- Af hverju kemur þú svona seint heim? spurði konan ásakandi um leið og Raggi gekk inn um útidyrnar.
- Ég týndi mér, svaraði hann skömmustulega.
- Hvað meinar þú?
- Ég var að ganga niður Bankastræti þegar ég tók eftir því að ég var kominn fram úr mér. Ég reyndi að halda í við mig en það voru alltof margir ferðamenn sem flæktust fyrir. Að lokum missti ég sjónir af mér.
- Hvaða kjaftæði er þetta?
- Ég sver. Ég varð að ganga hús úr húsi í Austurstræti í leit að mér. Þetta var rosalega seinlegt. Sum húsin eru á meira en einni hæð. Ég var sannfærður um að ég væri þarna einhversstaðar. Ég var kominn alveg að Ingólfstorgi þegar ég fann mig á austurlenskum veitingastað. Ég lét mig heyra það óþvegið og dreif mig heim.
- Veistu, ég trúi þér. Mamma kom áðan í heimsókn og spurði hvar þú værir. Ég sagði henni að þú hefðir áreiðanlega týnt þér í miðbænum.
- Hvernig datt þér það í hug?
- Það var ekkert erfitt að giska á þetta. Þetta hefur endurtekið sig á hverju kvöldi í tólf ár.
Tónlist | Breytt 17.10.2021 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)