20.11.2022 | 01:52
Gullgrafarar
Fólk sem á rosalega marga peninga á við vandamál að etja. Fátækt fólk er laust við það vandamál. Þetta snýst um hvort makinn sé ástfanginn af viðkomandi eða peningahrúgunni. Líkurnar á að síðarnefnda dæmið eigi við eykst með hverju árinu sem munar á aldri parsins.
Þegar bítillinn Paul McCartney tók saman við Heather Mills var hann 26 árum eldri. Hún var á aldur við börn hans. Þau mótmæltu. Töldu hana vera gullgrafara. Hún myndi láta hann barna sig og skilja við hann. Þar með væri hún komin með áskrift að ríflegu meðlagi og vænni sneið af fjármunum hans. Þetta gekk eftir. Hún fékk 50 milljón dollara í vasann (x 144 kr.).
John Lennon og Yoko Ono er flóknara dæmi. Hún var ekki á eftir peningum er hún tók upp á því að sitja um hann. Hún var allt að því eltihrellir (stalker). Hún kemur út auðmannafjölskyldu. Hún var og er framúrstefnu myndlistamaður. Góð í því. En var ekki fræg utan þess fámenna hóps sem aðhylltist avant-garde. John Lennon var farseðill hennar til heimsfrægðar.
Yoko er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar henni tókst að ná John frá þáverandi eiginkonu hans og barnsmóður hélt hún því fram að hún þekkti lítið sem ekkert til Bítlanna. Hún væri bara í klassískri músík. Eina manneskjan í New York sem vissi ekkert um Bítlana. Hún var ekki fyrr tekin saman við John en hún fór að dæla frá sér þokkalegum popplögum.
Dæmi um undirferli Yokoar: Hálfblindur John keyrði út í móa. Yoko slasaðist. Hún var rúmföst og gat sig lítið hreyft. Bítlarnir voru að hljóðrita Abbey Road plötuna. John plantaði rúmi handa Yoko í hljóðverið. Þannig gat hann annast hana. Svo gerðist það að John, Paul og Ringo brugðu sér frá. George Harrison var að dunda á annarri hæð hljóðversins. Þar voru skjáir sem sýndu úr öryggismyndavélum í byggingunni. Yoko fattaði það ekki. George sá hana tipla léttfætta þvert yfir hljóðversgólfið og stela frá honum súkkulaðikexi.
Anna Nicoli Smith var bandarísk nektarfyrirsæta. Mjög fögur. 26 ára giftist hún 89 ára gömlum auðmanni. Hann dó. Hún fór í mál við son hans. Krafðist helming arfs. Þá dó hún. Einnig sonur hennar sem var eiturlyfjafíkill.
Rachel Hunt var 21 árs sýningardama er hún giftist hálf fimmtugum breskum söngvara, Rod Stewart. Hann hélt að hann hefði tryggt sig gegn gullgrafara. Það reyndist ekki virka. Rachel náði af honum 35 milljónum dollara.
Svo getur alveg verið að venjulegt blásnautt fólk verði í alvöru ástfangið af vellauðugri manneskju. Peningar skipti þar engu máli.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.11.2022 | 06:58
Ný ljóðabók og hljómplata
Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með Ólafi F. Magnússyni eftir að hann settist í helgan stein. Reyndar líka áður. Hann var besti borgarstjóri Reykjavíkur. Eftir það tímabil tók við nýr - og kannski óvæntur - ferill. Frjó og farsæl sköpunargleði fór á flug. Hann yrkir kjarnyrt kvæði á færibandi, semur viðkunnanleg söngræn lög og vex stöðugt sem ágætur söngvari.
Nú er komin út hans þriðja ljóðabók, Ég vil bæta mitt land. Eins og í fyrri bókum eru þetta ættjarðarljóð, heilræðisvísur og allskonar. Meðal annars um margt nafngreint fólk. Eitt kvæðið heitir Eivör Pálsdóttir:
Holdtekju listar með hárið síða,
hátónagæði með fegurð prýða.
Sönglóan okkar færeyska fríða,
flögrar um eins og sumarblíða.
Bókinni fylgir 13 laga hljómdiskur. Þar af eru 9 áður óútgefin lög. Hin eru sýnishorn af fyrri þremur diskum Ólafs.
Söngurinn er afgreiddur af Ólafi og Páli Rósinkrans, svo og óperusöngvurunum Elmari Gilbertssyni, Guðlaugu Dröfn Ólafsdóttur og Ingibjörgu Aldísi Ólafsdóttur. Útsetningar og hljóðfæraleikur eru að mestu í höndum galdrakarlsins Vilhjálms Guðjónssonar. Gunnar Þórðarson kemur líka við sögu.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.11.2022 | 20:51
Snúður og kjulli
Börn, unglingar og fullorðnir hafa verulega ólík viðhorf til veislumatar. Þegar ég fermdist - nálægt miðri síðustu öld - bauð mamma mér að velja hvaða veislubrauð yrði á boðstólum í fermingarveislunni. Ég nefndi snúða með súkkulaðiglassúr. Mamma mótmælti. Eða svona. Það var kurr í henni. Hún sagði snúða ekki vera veislubrauð. Svo taldi hún upp einhverja aðra kosti; tertur af ýmsu tagi og einhverjar kökur. Ég bakkaði ekki. Sagði að snúður væri mitt uppáhald. Mig langaði ekki í neitt annað.
Leikar fóru þannig að mamma bakaði eitthvað að eigin vali. Fyrir framan mig lagði hún hrúgu af snúðum úr bakaríi. Ég gerði þeim góð skil og var alsæll. Í dag þykir mér snúðar ómerkilegir og ólystugir. Ég hef ekki bragðað þá í áratugi.
Þetta rifjaðist upp þegar ég spjallaði í dag í síma við unglingsstelpu. Hún á afmæli. Hún sagði mér frá afmælisgjöfum og hvernig dagskrá væri á afmælisdeginum. Nefndi að um kvöldið yrði farið út að borða veislumat. "Hvar?" spurði ég, Svarið: "KFC".
Matur og drykkur | Breytt 6.11.2022 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.10.2022 | 09:29
Stysta heimsreisa sögunnar
Miðaldra maður í Ammanford á Englandi átti sér draum um að fara í heimsreisu. Í mörg ár undirbjó hann ferðalagið af kostgæfni. Sparaði hvern aur og kom sér upp þokkalegum fjársjóði. Er nær dró farardegi seldi hann hús sitt, allt innbú og fleira og sagði upp í vinnunni. Hann undirbjó nákvæma ferðaáætlun. Endastöðin átt að vera New York. Þar ætlaði hann að setjast á helgan stein í kjölfar 32.000 kílómetra vel skipulagðrar heimsreisu.
Síðustu daga fyrir brottför varði hann í að kveðja sína nánustu og vini. Á lokakvöldinu sló hann upp kveðjuhófi. Hann datt rækilega í það. Skálaði ítrekað við gesti og gangandi. Hver á fætur öðrum bað um orðið, flutti honum mergjaðar kveðjuræður og óskuðu góðrar ferðar. Sjálfur steig hann ítrekað í pontu og kastaði kveðju á viðstadda. Samkoman stóð fram á nótt og menn voru farnir að bresta í söng.
Morguninn eftir lagði hann af stað í nýjum húsbíl. Tveimur mínútum síðar - eftir að hafa ekið 1 og hálfan km - stöðvaði lögreglan hann. Áfengi í blóði var þrefalt yfir leyfilegum mörkum. Húsbíllinn var kyrrsettur. Ferðalangurinn var sviptur ökuleyfi til hálfs þriðja árs.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.10.2022 | 09:54
Flott plata
- Titill: Bláturnablús
- Flytjandi: Gillon
- Einkunn: ****
Gillon er listamannsnafn Gísla Þórs Ólafssonar. Hann er Skagfirðingur, búsettur á Sauðárkróki. Hann hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og hljómplatna. Allt vænstu verk. Á nýjustu afurðinni, plötunni Bláturnablús, eru öll lögin og ljóðin frumsamin. Gillon syngur að venju og spilar á kassagítar og bassa. Hans hægri hönd er upptökustjórinn Sigfús Arnar Benediktsson. Hann spilar á trommur, rafgítar, gítarlele og ýmis hljómborð.
Söngstíll Gillons er "spes". Hann er í humátt eins og sitt lítið af Megasi, Bjartmari og Birni Jörundi. Stíllinn klæðir söngvana prýðilega. Ljóðin eru í frjálsu formi og súrrealísk. Sparlegu endarími bregður þó fyrir í einstaka ljóði.
Platan er frekar seintekin. Hún þarf nokkrar spilanir áður en fegurð laganna opinberast að fullu. Kannski spilaði inn í hjá mér að við fyrstu yfirferðir var athyglin á hugmyndaríku og skemmtilegu ljóðunum.
Útsetningar og hljóðfæraleikur eru snyrtileg og smekkleg. Enginn brjálaður hávaði og læti. Lögin flest róleg eða á hóflegum millihraða. Það er heldur poppaðra yfirbragð en á fyrri plötum Gillons. Til að mynda lýkur plötunni á "sing-along" tralli Gillons og þriggja kvenna. Gott niðurlag á flottri og skemmtilegri plötu.
Teikning Óla Þórs Ólafssonar á framhlið umslagsins er virkilega "töff".
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.10.2022 | 00:02
Skemmtileg bók
- Titill: Glaðlega leikur skugginn í sólskininu
- Höfundur: Steinn Kárason
Sögusviðið er Skagafjörður á sjöunda áratugnum. Segir þar frá ungum dreng - 10 - 11 ára - á Sauðárkróki. Bakgrunnurinn er sjórinn, sjómennska og sveitin í þroskasögunni. Inn í hana blandast kaldastríðið, Kúbudeilan og Bítlarnir. Steinn kemur andrúmslofti þessara ára vel til skila.
Ég ætla að stór hluti sögunnar byggi á raunverulegri upplifun höfundar. Ég kannast við suma atburði sem sagt er frá. Ég var barn í Skagafirði á þessum tíma. Fyrir bragðið var sérlega gaman fyrir mig að rifja upp bernskubrekin. Bókin er þar fyrir utan líka skemmtileg og fróðleg fyrir fólk sem veit ekki einu sinni hvar Skagafjörður er. Mörg brosleg atvik eru dregin fram. En það skiptast á skin og skúrir. Ógeðfelldir atburðir henda sem og mannlegur breyskleiki í ýmsum myndum.
Þetta er stór og mikil bók. Hún spannar 238 blaðsíður. Káputeikning Hlífar Unu Bárudóttur er flott.
Steinn Kárason er þekktur fyrir fræðibækur, blaðagreinar, tónlist og dagskrárgerð í ljósvakamiðlum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.10.2022 | 23:34
Frjósemi Bítlanna
Frjósemi vesturlandabúa hefur aldrei verið jafn bágborin og nú. Að meðaltali eignast evrópskar konur innan við tvö börn hver um sig. Nema í Færeyjum. Þar býr hamingjusamasta þjóð heims. Og ástríkasta. Færeysk kona eignast að meðaltali hálft þriðja barn.
Frjósemi Bítlanna skiptist í tvö horn. Sólógítarleikarinn, George heitinn Harrison, eignaðist aðeins eitt barn, gítarleikarann Dhani Harrison. Dhani er hálffimmtugur. Eða því sem næst. Hann var til fjögurra ára giftur íslenskri konu, Sólu Káradóttur (Stefánssonar). Þau eignuðust ekki barn. Ef Dhani fer ekki að drífa sig deyja gen George Harrison út með honum. Sú staða virðist eiginlega blasa við. Hvers vegna?
Ekkja Georges, Olivia, er jafnan mætt í Viðey þegar kveikt er á friðarsúlunni.
Forsprakki Bítlanna, John heitinn Lennon, var tvígiftur. Hann eignaðist soninn Julian Lennon, með fyrri konu sinni, Cyntheu, og Sean Lennon með Yoko Ono. Þau síðarnefndu eru dugleg að heimsækja Ísland.
Julian og Sean eiga engin börn. Einhverjir sálfræðingar rekja barnleysi Julians til þess að John var ekki góður pabbi. Hann vanrækti sambandið við soninn.
Eins og staðan er í dag má ætla að gen Johns og George berist ekki til næstu kynslóða.
Trommuleikarinn Ringo Starr eignaðist 3 syni með fyrri konu sinni, Maurice. Litlu munaði að George barnaði hana líka.
Besta barnagæla Bítlanna var og er Paul McCartney. Julian segir hann hafa verið miklu meiri pabba sinn en John. Ótal ljósmyndir staðfesta það.
Paul McCartney á fimm börn. Hann er ekki líffræðilegur faðir elstu dótturinnar, Heather. Hann bregst hinn versti við ef einhver kallar hana stjúpdóttur eða fósturdóttur. "Hún er jafn mikil dóttir mín og hin börn mín," segir hann.
Tónlist | Breytt 16.10.2022 kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.10.2022 | 03:45
Hættulegar skepnur
Öll vitum við að margar skepnur eru manninum hættulegar. Við vitum af allskonar eiturslöngum, ljónum, krókódílum, hákörlum, ísbjörnum, tígrisdýrum og svo framvegis. Fleiri dýr eru varhugaverð þó við séum ekki sérlega meðvituð um það. Einkum dýr sem eru í öðrum löndum en Íslandi.
- Keilusnigill er umvafinn fagurri skel. En kvikindið bítur og spúir eitri. Það skemmir taugafrumur og getur valdið lömun.
- Tsetse flugan sýgur blóð úr dýrum og skilur eftir ssig efni sem veldur svefnsýki. Veikindunum fylgir hiti, liðverkir, höfuðverkur og kláði. Oft leiðir það til dauða.
- Sporðdrekar forðast fólk. Stundum koma upp aðstæður þar sem sporðdreki verður á vegi fólks. Þá stingur hann og spúir eitri. Versta eitrið gefur svokallaður "deathstalker". Það veldur gríðarlegum sársauka en drepur ekki heilbrigða og hrausta fullorðna manneskju. En það drepur börn og veikburða.
- Eiturpílufroskurinn er baneitraður. Snerting við hann er banvæn.
- Portúgölsku Man O´War er iðulega ruglað saman við marglyttu. Enda er útlitið svipað. Stunga frá þeirri portúgölsku veldur háum hita og sjokki.
- Í Víetnam drepa villisvín árlega fleiri manneskjur en önnur dýr. Venjuleg alisvín eiga til að drepa líka. Í gegnum tíðina haf margir svínabændur verið drepnir og étnir af svínunum sínum.
- Hættulegasta skepna jarðarinnar er mannskepnan. Hún drepur fleira fólk og aðrar skepnur en nokkur önnur dýrategund.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 04:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.9.2022 | 06:38
Hryllingur
Ég mæli ekki með dvöl í rússnesku fangelsi. Það er ekkert gaman þar. Fangaverðir og stjórnendur fangelsanna eru ekkert að dekra við fangana. Það geta úkraínskir stríðsfangar staðfest.
Á dögunum skiptust Rússar og Úkraínumenn á stríðsföngum. 215 úkraínskir fangar fengu frelsi og 55 rússneskir. Hér eru ljósmyndir af einum úkraínskum. Hann var tekinn til fanga í Maríupól ftrir nihhrun vikun,. Þannig leit hann þá út. Á hægri myndinni sést hvernig fangelsisdvölin fór með hann.
![]() |
Erna Ýr ekki allslaus í Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.9.2022 | 09:04
Bestu hljómplötur allra tíma
Bandaríski netmiðillinn Consequence hefur tekið saman og birt lista yfir bestu hljómplötur allra tíma. Listinn ber þess að nokkru merki að vera tekinn saman af Bandaríkjamönnum. Ég er alveg sáttur við valið á plötunum. Aftur á móti er ég ekki eins sammála röðinni á þeim. Til að mynda set ég "Abbey Road" í toppsætið. "London Calling" með The Clash set ég ofar "Rumours". Gaman væri að heyra álit ykkar.
Svona er listinn:
1 Prince - Purple Rain
2 Fleetwood Mac - Rumours
3 Bítlarnir - Abbey Road
4 The Clash - London Calling
5 Joni Mitchell - Blue
6 The Beach Boys - Pet Sounds
7 Kendrick Lamar - To Pimp a Butterfly
8 Radiohead - OK Computer
9 Marvin Gaye - What´s Going On
10 Nirvana - Nevermind
11 Lauryn Hill - The Miseducation of Lauryn Hill
12 Bob Dylan - Blonde on Blonde
13 The Velvet Underground - The Velvet Underground & Nico
14 Bítlarnir - Sgt, Pepper´s Lonely Hearts Club Band
15 David Bowie - The Rise and Fall of Ziggy Stardust
16 Bruce Springsteen - Born to Run
17 Patti Smith - Horses
18 Beyoncé - Lemonade
19 Talking Heads - Remain in Light
20 Kate Bush - Hounds of Love
21 Led Zeppelin - IV
22 Stevie Wonder - Songs in the Key of Life
23 Rolling Stones - Let it Bleed
24 Black Sabbath - Paranoid
25 Public Enemy - It takes a Nation of Millions to Hold Us Back
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.9.2022 | 05:01
Drykkfeldustu þjóðir heims
Þjóðir heims eru misduglegar - eða duglausar - við að sötra áfenga drykki. Þetta hefur verið reiknað út og raðað upp af netmiðli í Vín. Vín er við hæfi í þessu tilfelli.
Til að einfalda dæmið er reiknað út frá hreinu alkahóli á mann á ári. Eins og listinn hér sýnir þá er sigurvegarinn 100 þúsund manna örþjóð í Austur-Afríku; í eyjaklasa sem kallast Seychelles-eyjar. Það merkilega er að þar eru það nánast einungis karlmenn sem drekka áfengi.
Talan fyrir aftan sýnir lítrafjöldann. Athygli vekur að asískar, amerískar og norrænar þjóðir eru ekki að standa sig.
4.9.2022 | 01:43
Hvenær hlæja hundar?
Hundar hafa brenglað tímaskyn. Þeir kunna ekki á klukku. Þeir eiga ekki einu sinni klukku. Þegar hundur er skilinn eftir einn heima þá gerir hann sér ekki grein fyrir því hvað tímanum líður. Hann áttar sig ekkert á því hvort heimilisfólkið er fjarverandi í fimm mínútur eða fimm klukkutíma. Oft dottar hann þegar hann er einn.
Hundar hafa kímnigáfu. Þegar þeim þykir eitthvað verulega fyndið þá anda þeir eldsnöggt frá sér. Það hljómar eins og þeir séu að snýta sér. Húmor hunda er ekki upp á marga fiska. Hundur hlær að ýmsu sem er ekki sérlega fyndið. Sömuleiðis er hægt að segja hundi bráðfyndinn brandara án þess að hann sýni viðbrögð. Setur bara upp hundshaus og horfir sljór á mann. "Pönslínan" fer fyrir ofan garð og neðan. Engu að síður er góð skemmtun að vita þetta og kannast við þegar hundur hlær. Eitt sinn missteig ég mig heima fyrir framan símborð og féll við. Þá hló heimilishundurinn tvisvar.
Þegar hundur horfir neikvæður á mann þá leitar skott hans til vinstri. Þegar hann er jákvæður leitar það til hægri.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.8.2022 | 01:35
Aðeins í Japan
Í Japan er margt öðruvísi en við eigum að venjast. Til að mynda hvetja þarlend yfirvöld ungt fólk til að neyta meira áfengis. Það er til að örva hagkerfið. Fá meiri veltuhraða. Ástæðan fyrir því að vöruflokkurinn áfengi er notaður í þetta er sú að ölvaðir unglingar eyða meiri peningum í skemmtanir, leigubíla, snyrtivörur, fín föt og allskonar óþarfa. Líka á þetta að hækka fæðingartíðni.
Í Japan fæst áfengi í allskonar umbúðum. Þar á meðal litlum fernum sem líta út eins og ávaxtasafafernur með sogröri og allt.
Japanir eru einnig í hollustu. Eða þannig. Kóladrykkir eru ekki hollir út af fyrir sig. En ef þeir innihalda hvítlauk og eru með hvítlauksbragði?
Annað dæmi um hollustu í Japan eru rafmagnsprjónar. Matprjónar. Þeir gefa frá sér vægt rafstuð af og til. Það er sársaukalaust en framkallar salt bragð af matnum. Salt er óhollt.
Mörg japönsk hótel, mótel og gistiheimili bjóða upp á ódýra svefnaðstöðu. Ekki er um eiginlegt herbergi að ræða. Þetta er meira eins og þröngur skápur sem skriðið er inn í án þess að geta staðið upp.
Japanir elska karaókí. Það er eiginlega þjóðarsport. Vinnufélagar fara iðulega á skemmtistaði til að syngja í karaókí. Þá er reglan að hver og einn taki lag óháð sönghæfileikum. Mörgum þykir líka gaman að syngja heima eða út af fyrir sig á vinnustað. Til að það trufli engan brúka söngfuglarnir hljóðhelda hljóðnema. Með heyrnartæki í eyra heyra þeir þó í sjálfum sér.
Eitt af því sem víðast þykir lýti en í Japan þykir flott eru skakkar tennur. Sérstaklega ef um er að ræða tvöfaldar tennur. Þar sem ein tönn stendur fyrir framan aðra. Þetta þykir svo flott að efnað fólk fær sér aukatennur hjá tannlæknum.
Tónlist | Breytt 29.8.2022 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.8.2022 | 00:01
Furðufluga
Ég var að stússa í borðtölvunni minni. Skyndilega flaug pínulítil fluga á milli mín og skjásins. Ég hélt að hún færi strax. Það gerðist ekki. Hún flögraði fyrir framan mig í augnhæð. Það var eins og hún væri að kanna hvort hún hefði séð mig áður. Þetta truflaði mig. Ég sló hana utanundir. Hún hentist eitthvað í burtu.
Nokkrum sekúndum síðar var hún aftur komin á milli mín og skjásins. Ég endurtók leikinn með sama árangri. Hún lét sér ekki segjast. Í þriðja skipti var hún komin fyrir framan mig. Ég gómaði hana með því að smella saman lófum og henti henni vankaðri út á stétt.
Háttalag hennar veldur mér umhugsun. Helst grunar mig að henni hafi þótt þetta skemmtilegt. Í hennar huga hafi við, ég og hún, verið að leika okkur.
13.8.2022 | 23:16
Magnaðar myndir
Fátt er skemmtilegra að skoða en sláandi flottar ljósmyndir. Einkum ljósmyndir sem hafa orðið til þegar óvart er smellt af á réttu augnabliki og útkoman verður spaugileg. Tekið skal fram að ekkert hefur verið átt við meðfylgjandi ljósmyndir. Ekkert "fótóshopp" eða neitt slíkt.
Myndirnar stækka og verða áhrifameiri ef smellt er á þær.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
7.8.2022 | 04:13
Buxnalaus
Fyrir nokkrum árum bjó ég í Ármúla 5. Það var góð staðsetning. Múlakaffi á neðstu hæð og hverfispöbbinn í Ármúla 7. Hann hét því einkennilega nafni Wall Street. Skýringin var sú að í götunni voru mörg fjármálafyrirtæki. Fyrir daga bankahrunsins, vel að merkja. Áður hét staðurinn Jensen. Síðar var hann kenndur við rússneska kafbátaskýlið Pentagon. Það var ennþá undarlegra nafn.
Þetta var vinalegur staður. Ekki síst vegna frábærra eigenda og starfsfólks. En líka vegna þess að staðurinn var lítill og flestir þekktust. Ekki endilega í fyrsta skipti sem þeir mættu á barinn. Hinsvegar sátu allir við borð hjá öllum og voru fljótir að kynnast.
Eitt kvöldið brá svo við að inn gekk ókunnugur maður. Það var sláttur á honum. Hann var flottari en flestir; klæddur glæsilegum jakka, hvítri skyrtu með gullslegnum ermahnöppum, rauðu hálsbindi og gylltri bindisnælu. Hann var í dýrum gljáburstuðum spariskóm.
Undrun vakti að hann var á brókinni, skjannahvítri og því áberandi. Hann bað eigandann um krít. Hann gæti sett giftingarhring í pant. Sem var samþykkt en athugasemd gerð við buxnaleysið. Útskýringin var þessi: Honum hafði sinnast við eiginkonu sína. Hún sparkaði honum út. Þá tók hann leigubíl í Ármúlann. Á leiðarenda uppgötvaðist að hann var án peninga og korts. Úr varð að leigubílstjórinn tók buxur hans í pant.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
30.7.2022 | 20:11
Bindindismótið í Galtalæk
Til nokkurra ára vann ég við Bindindismótið í Galtalæk um verslunarmannahelgina. Þetta var á árunum í kringum 1990. Þessi mót voru fjölmenn. Gestir voru tíu til tólf þúsund. Álíka fjöldi og í Vestmannaeyjum. Stundum fjölmennari.
Sérstaða Bindindismótsins var að þar fór allt friðsamlega fram. Aldrei neitt vesen. Aldrei nauðganir eða aðrar líkamsárásir. Aldrei þjófnaðir eða illdeilur.
Uppistaðan af gestum var fjölskyldufólk. Þarna voru börn og unglingar í öruggu umhverfi.
Öll neysla áfengis var bönnuð á svæðinu. Ég vann sem vörður í hliðinu inn á svæðið. Allir bílar voru stöðvaðir. Ökumönnum og farþegum var boðið að geyma fyrir þá áfengi fram yfir mót. Að öðrum kosti yrði leitað í bílnum og áfengi hellt niður ef það finnist.
Einhverra hluta vegna reyndu sumir að smygla áfengi inn á svæðið. Því var skipt út fyrir rúðupiss, sprautað inn í appelsínur, falið inn í varadekki... Á skömmum tíma lærðist hverjir reyndu smygl. Margir litlir taktar einkenndu þá. Til að mynda að gjóa augum snöggt í átt að smyglinu, hika smá áður en neitað var o.s.frv.
Fyrir margt löngu hitti ég mann sem sagðist hafa sem unglingur fundið pottþétta leið til að smygla áfengi inn á mótið. Hann mætti á svæðið nokkrum dögum áður og gróf áfengið ofan í árbakka á svæðinu. Þegar hann svo mætti á mótið sá hann sér til skelfingar að búið var að hlaða margra metra háum bálkesti ofan á felustaðinn. Í honum var ekki kveikt fyrr en á sunnudagskvöldinu.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2022 | 00:29
Rekinn og blómstraði sem aldrei fyrr
Rokksagan geymir mörg dæmi þess að liðsmaður hljómsveitar hafi verið rekinn; í kjölfarið fundið sína fjöl og skinið skærar en hljómsveitin. Nei, ég er ekki að tala um trommuleikarann Pete Best sem var rekinn úr Bítlunum. Hans ferill varð klúður á klúður ofan.
Eitt frægasta dæmið í íslenskri rokksögu er þegar söngvarinn Pétur Kristjánsson var rekinn úr Pelican. Þetta var um miðjan áttunda áratuginn. Pelican var vinsælasta hljómsveit landsins. Pétur brá við snöggt; hafði samband við fjölmiðla sem slógu upp fyrirsögnum um brottreksturinn. Samtímis stofnaði Pétur eldsnöggur nýja og ferska rokksveit, Paradís, með ungum hljóðfæraleikurum. Það var kýlt á spilirí út og suður og hent í plötu. Sá sem stýrði fjölmiðlaumræðunni var góðvinur okkar, Smári Valgeirsson. Sá hinn sami og á sínum tíma tók sögufrægt viðtal við Hörð Torfason. Smári spilaði á fjölmiðla eins og á fiðlu. Ég kom smá ponsu við sögu; teiknaði myndir af Pétri í auglýsingar, málaði nafn hljómsveitarinnar á bassatrommuna og eitthvað svoleiðis.
Pétur fékk samúðarbylgju. Rosa öfluga samúðarbylgju. Pelican var allt í einu runnin út á tíma.
Af erlendum dæmum má nefna Jimi Hendrix. Hann var gítarleikari bandarískrar hljómsveitar, The Isle Brothers, undirleikara Little Richard um miðjan sjöunda áratuginn. Rikki var ofurstjarna áratug áður en mátti á þessum árum muna sinn fífil fegri. Hendrix rakst illa í hljómsveit. Hann var afar óstundvís og notaði vímuefni. Rikki rak hann. Ári síðar sló Hendrix í gegn með "Hey Joe" og varð í kjölfar stærsta gítarhetja rokksögunnar.
Í fljótu bragði man ég líka eftir Lemmy. Hann var söngvari og bassaleikari ensku hljómsveitarinnar Hawkwind á fyrri hluta áttunda áratugarins. Allt gekk vel. Nema dópneysla Lemmy þótti um of. Hann var rekinn. Stofnaði þá tríóið Motörhead. Spilaði þar á gítar og hljómsveitin sló rækilega í gegn.
Einnig má nefna enska söngvarann Ozzy Osbourne. Dópneysla hans gekk fram af félögum hans í Black Sabbath. Seint og síðar meir gáfust þeir upp og spörkuðu honum. Með dyggri aðstoð konu sinnar snéri hann vörn í sókn og náði að trompa Black Sabbath á mörgum sviðum.
Hér fyrir neðan má heyra Hendrix og Rikka litla spila lag frænda þess fyrrnefnda, Woody Guthrie, "Belle Star".
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
17.7.2022 | 05:52
Raunverulegt skrímsli
Víða um heim er að finna fræg vatnaskrímsli. Reyndar er erfitt að finna þau. Ennþá erfiðara er að ná af þeim trúverðugum ljósmyndum eða myndböndum. Sama hvort um er að ræða Lagarfljótsorminn eða Loch Ness skrímslið í Skotlandi. Svo er það Kleppsskrímslið í Rogalandi í Noregi. Í aldir hafa sögusagnir varað fólk við því að busla í Kleppsvatninu. Þar búi langur og þykkur ormur með hringlaga munn alsettan oddhvössum tönnum.
Margir afskrifa sögurnar sem óáreiðanlegar þjóðsögur. En ekki lengur. Á dögunum voru tvær ungar vinkonur á rölti um Boresströndina. Þær voru að viðra hund. Hann fann skrímslið dautt; meterslangan hryggleysingja, 5 punda. Samkvæmt prófessor í sjávarlíffræði er þetta sníkjudýr. Það sýgur sig fast á önnur dýr, sýgur úr þeim blóð og hold. Óhugnanlegt skrímsli. Eins gott að hundurinn var ekki að busla í vatninu.
Ef smellt er á myndina sést kvikindið betur.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.7.2022 | 06:43
Furðulegar upplifanir á veitingastöðum
Hvers vegna borðar fólk á veitingastöðum? Ein ástæðan getur verið að það sé svangt. Mallakúturinn gargi á næringu. Önnur ástæða getur verið að upplifa eitthvað öðruvísi. Eitthvað framandi og meira spennandi en við eldhúsborðið heima. Þó að pepperóni-sneiðar séu hversdaglegar má hressa þær við með því að þræða þær á skrítna grind.
Forréttur þarf ekki að vera matarmikill. En hann getur orðið ævintýralegur sé honum stillt upp eins og hnöttum himins.
Nokkru skiptir hvernig þjónninn ber matinn fram. Til dæmis með því að skottast með hann á stórri snjóskóflu.
Sumt fólk er með klósettblæti. Það fær "kikk" út úr því að borða súkkulaðidesert upp úr klósetti.
Annað fólk er með skóblæti. Þá er upplagt að snæða djúpsteiktan ost úr skó.
Hvernig geta beikonsneiðar sýnt á sér nýja hlið? Til dæmis með því að vera hengdar upp á snúru.
Smjörklípa er óspennandi. Nema henni sé klesst á lófastóran stein.
Það er eins og maturinn sé lifandi þegar hann er staðsettur ofan á fiskabúri.
Með því að smella á mynd stækkar hún.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)