Hvernig litu rokkstjörnurnar út í dag?

  Í hvaða átt hefði tónlist Jimi Hendrix þróast ef hann væri á lífi í dag?  En Janis Joplin?  Eða Kurt Cobain?  Þessum spurningum hefur áhugafólk um tónlist spurt sig í áraraðir.  Það hefur borið hugmyndir sínar saman við hugmyndir annarra.  Þetta er vinsælt umræðuefni á spjallsíðum netsins.

  Önnur áhugaverð spurning:  Hvernig liti þetta fólk út ef það væri sprelllifandi í dag?  Tyrkneskur listamaður telur sig geta svarað því.  Til þess notar hann gervigreind.  Útkoman er eftirfarandi.  Þarna má þekkja John Lennon,  Janis Joplin,  Jimi Hendrixkurt,  Kurt Cobain,  Tupac,  Freddie Mercury og Elvis Presley.

Johnjanisjimi

                                                                                           

I-havefreddieelvis


Hefur eignast lög sín eftir hálfrar aldar illindi og málaferli

  Forsagan er þessi:  Á sjöunda áratugnum haslaði bandarískur drengur,  Tom Fogerty,  sér völl sem söngvari.  Til undirleiks fékk hann "instrúmental" tríó yngri bróður síns,  Johns.  Samstarfið gekk svo vel að Tom og tríóið sameinuðust í nýrri hljómsveit sem hlaut nafnið Creedence Clearwater Revival. 

  Framan af spilaði hún gamla blússlagara í bland við frumsamin lög bræðranna.  Í ljós kom að John var betri lagahöfundur en stóri bróðir, betri söngvari og gítarleikari.  Að auki var hann með sterkar skoðanir á útsetningum og stjórnsamur.  Frábær söngvari og gítarleikari.  Frábær lagahöfundur.  Spilaði líka á hljómborð og saxafón.  

  Tom hrökklaðist úr því að vera aðalkall í að vera "aðeins" rythma gítarleikari á kantinum.  Ekki leið á löngu uns hann hætti í hljómsveitinni og hóf lítilfjörlegan sólóferil.  Á meðan dældi CCR út ofursmellum.  Að því kom að hryn-par (bassi, trommur) hennar bar sig aumlega undan ofurríki Johns og var með ólund.

  Hann bauð hryn-parinu að afgreiða sín eigin lög á næstu plötu CCR,  "Mardi Grass".  Það varð þeim til háðungar.  

  Í framhaldinu vildi John hefja sólóferil.  En hann var samningsbundinn plötufyrirtæki sem liðsmaður CCR.  Hann reyndi allra leiða til að rifta samningnum.  Án árangurs.  Hryn-parið og Tom stóðu þétt við bak plötufyrirtækisins.  Seint og síðar meir tókst John að öðlast frelsi með því að framselja til plötufyrirtækisins höfundarrétt vegna CCR katalógsins.  Þar með átti hann ekki lengur sín vinsælustu lög.  Allar götur síðan hefur hann barist fyrir því að eignast lögin sín.  Á dögunum upplýsti hann að loksins væri hann orðinn eigandi allra sinna laga eftir langar og strangar lagaflækjur.     

          


Drottning sveitasöngvanna hellir sér í rokkið

  Dolly Parton er stærsta nafn kántrý-kvenna.  Hún hefur sungið og samið fjölda sívinsælla laga.  Nægir að nefna "Jolene",  "9 to 5" og "I will always love you".  Síðast nefnda lagið er þekktara í flutningi Whitney Houston.  Fyrir bragðið vita ekki allir að höfundurinn er Dolly.

  Á dögunum fagnaði hún 77 ára fæðingardegi.  Að því tilefni datt henni í hug að söðla óvænt um og hella sér í rokkið.  Ekki seinna vænna.  Hún ætlar að vanda sig við umskiptin.  Gæta þess að verða ekki að athlægi eins og Pat Boone.  Sá sætabrauðskall reyndi um árið að endurheimta fyrri vinsældir með því að skella sér í þungarokk.  Útkoman varð hamfarapopp.

  Rokkplata Dollyar verður ekkert þungarokk.  Hún verður léttara rokk í bland við kraftballöður.  Þetta verða lög á borð við "Satisfaction" (Rolling Stones),  "Purple Rain" (Prince),  "Stairway to heaven" (Led Zeppelin) og "Free Bird" (Lynyrd Skynyrd). 

  Dolly dreifir ábyrgð yfir á gestasöngvara.  Þeir eru:  Paul McCartney, John Fogerty (Creedence Clearwater Revival),  Steven Tyler (Aerosmith),  Pink,  Steve Perry (Journey),  Stevie Nicks (Fleetwood Mac), Cher og Brandi Carlili. 

  Vinnuheiti plötunnar er "Rock star". 

 


Lisa Marie Presley

 Fyrir nokkrum árum var ég á flandri austur í Englandi.  Að mig minnir í Brighton.  Á sama gistiheimili bar að tvo unga menn.  Gott ef þeir voru ekki sænskir.  þeir voru að flakka þvers og kruss um England.  Á einni sveitakrá blasti við þeim kunnugleg bardama.  Þeir tóku hana tali og komust að því að hún væri Lisa Marie Presley,  dóttir Elvis Presley.

  Mér þótti sagan ótrúverðug.  Í fyrsta lagi var Lisa Marie bandarísk.  Allar slúðursögur af henni fjölluðu um hana í Bandaríkjunum með bandarísku fólki.

  Í öðru lagi var hún moldríkur erfingi föður síns.  Hún var auðmaður sem þurfti ekki að dýfa hendi í vatn.  Hvorki kalt né heitt. Hvers vegna ætti hún að strita á kvöldin við að afgreiða bjór á enskri krá?  Þetta passaði ekki.

  Drengirnir bökkuðu ekki með sína sögu.  Þeir sýndu mér ljósmyndir af sér með henni.  Ljósmyndir eru ekki pottþétt sönnunargagn.  Ég leitaði á náðir google.  Í ljós kom að dóttir rokkkóngsins var stödd á þessari sveitakrá.  Ensk vinhjón hennar ráku krána.  Lisu Marie þótti einfaldlega gaman að afgreiða á barnum. 

  Svo féll hún frá,  núna 12. jan,  aðeins 54 ára.

-----------------------

  Allt annað:  Í tilefni af Þorra: 

 

     


Ást í háloftunum

  Ég brá mér á pöbb.  Þar var ung kona.  Við erum málkunnug.  Við tókum spjall saman.  Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir.  Hún var með bullandi prófskrekk.  Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar.  Hún var að slá á skrekkinn.  

  Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur.  Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur.  Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum.  Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál.  Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir.  Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út.  Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.

  Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum.  Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu að vísu átt góða nótt.  En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig.  Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll.  Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.

  Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan.  "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi.  "En hvað með flugprófið?"  spurði hún.  "Það var spaug,"  svaraði hann.  "Ég veit ekkert um flugvélar.  Ég er strætóbílstjóri!"    

flugvél


Sjaldan launar kálfur ofeldi.

  Ég þekki konu eina.  Við erum málkunnug.  Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman.  Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns.  Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni.  Hann er dekurbarn.  Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót.  Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu.  Það er eiginlega í neyð.  Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa.  Hún kemst ekki í búð án bílsins. 

  Núna um helgina varð hún á vegi mínum.  Hún sagði farir sínar ekki sléttar.  Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan.  Honum var boðið í partý.  Konan tók vel í það.  Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ.  Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.  

  Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.  

  - Ekki séns,  svaraði kauði.

  - Hvað átt þú við?  Ég þarf að komast heim,  útskýrði konan.

  - Ég er að fara í partý.  Það verður nóg að drekka.  En það verður enginn ölvunarakstur.

  - Ég er að lána þér bílinn minn.  Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.

  - Þú verður að redda þér sjálf.  

  - Hvernig á ég að redda mér fari?  Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.

  - Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa?  hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.  

taxi 


Hvað ef?

  Oft er fullyrt að Bítlarnir hafi verið réttir menn á réttum stað á réttum tíma.  Það skýri ofurvinsældir þeirra.  Velgengni sem á sér ekki hliðstæðu í tónlistarsögunni.  Enn í dag eru þeir ráðandi stórveldi og fyrirmynd 60 árum eftir að þeir slógu í gegn og 52 árum eftir að hljómsveitin snéri upp tánum. 

  Bítlarnir voru EKKI á réttum stað þegar þeir hösluðu sér völl.  Þeir voru staðsettir í Liverpool sem á þeim tíma þótti hallærislegasta krummaskuð.  Þetta var hafnar- og iðnaðarborg;  karlar sóttu pöbbinn á kvöldin, rifust, slógust og konur voru lamdar heimafyrir.  Enskuframburður þeirra var hlægilegur.  Það voru ekki forsendur fyrir því að Liverpool guttar ættu möguleika á frægð og frama.  John Lennon sagði að það hafi verið risapólitík þegar Bítlarnir ákváðu í árdaga að halda Liverpool-framburðinum. 

  Spurning um tímasetninguna.  Hún var Bítlunum í hag.  Það var ládeyða í rokkinu 1963.  Hinsvegar hefðu Bítlarnir sómt sér vel á hátindi rokksins 1955-1958,  innan um Presley, Chuck Berry,  Little Richard,  Jerry Lee Lewis,  Fats Domino og Buddy Holly.  

  Bítlarnir hefðu líka spjarað sig vel 1965 eða síðar með Beach Boys og The Byrds.  

  Það sem skipti ÖLLU máli var að Bítlarnir voru réttir menn.  Og rúmlega það.  Þeir hefðu komið, séð og sigrað hvar og hvenær sem er.


Rökföst

    Í gær ræddi ég við unga stúlku um jólin. 

  - Hvað verður í matinn hjá ykkur á aðfangadag?  spurði ég.

  - Það er alltaf tvíréttað;  lamb og svín,  svaraði hún.

  - En á jóladag?

  - Ég veit það ekki.  Enda er það ekkert merkilegur dagur!

  - Jú, jóladagurinn er eiginlega skilgreindur sem aðal jóladagurinn.

  - Í útlöndum,  já.  Á Íslandi er aðfangadagur aðal jóladagurinn.  Þá bjóðum við hvert öðru gleðileg jól; þá er mesta veislan og við opnum jólapakkana,  lesum á jólakort og leikum okkur.

  - Það er rétt hjá þér að þetta er misvísandi.  En orðið aðfangadagur þýðir að þetta sé dagurinn fyrir jóladag; aðdragandi jóla.

  - Hvers vegna heldur þú að í súkkulaðijóladagatalinu sé síðasti dagurinn 24. des?  25. des er ekki einu sinni í dagatalinu.

  Ég var mát!


mbl.is „Jólunum er aflýst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinafagnaður

  Ég var gestkomandi úti í bæ.  Þar hittust einnig tvær háaldraðar systur.  Þær höfðu ekki hist í langan tíma.  Það urðu því fagnaðarfundir.  Þær höfðu frá mörgu að segja. Þar á meðal barst tal að frænku þeirra á svipuðum aldri.  Þær báru henni illa söguna.  Fundu henni allt til foráttu.  Sögðu hana vera mestu frekju í heimi,  samansaumaðan nirfil,  lúmska,  snobbaða,  sjálfselska,  ósmekklega,  ófríða,  vinalausa,  drepleiðinlega kjaftatík...

  Systurnar fóru nánast í keppni um að rifja upp og segja af henni krassandi sögur.  Í æðibunuganginum hrökk upp úr annarri:  "Það er nokkuð langt síðan ég hef heyrt frá henni."

  Hin tók undir það og bætti við:  "Eigum við ekki að kíkja snöggvast til hennar?"

  Það gerðu þær.  

 


4 milljónir flettinga

  Á dögunum brá svo við að flettingar á þessari bloggsíðu minni fóru yfir fjórar milljónir.  Það er gaman.  Flettingar eru jafnan 10 - 15% fleiri en innlit.  Innlit eru sennilega einhversstaðar á rólinu 3,5 milljón.  

  Velgengni bloggsíðunnar kitlar hégómagirnd.  Samt er ég ekki í vinsældakeppni.  Til að vera í toppsæti þarf að hengja bloggfærslur við fréttir á mbl.is og blogga rúmlega daglega.  Ég geri hvorugt.  Ég blogga aðeins þrisvar eða fjórum sinnum í mánuði. Það dugir mér fyrir útrás blaðamannsbakteríu frá því að ég til áratuga skrifaði um popptónlist fyrir allt upp í 12 tímarit þegar mest gekk á.  

  Það er skemmtun að velta vöngum yfir ýmsu í tónlist.  Ekki síst þegar það kveikir umræðu.  Jafnframt er ljúft að blogga um það sem vinir mínir eru að bardúsa í tónlist,  bókmenntum,  kvikmyndum eða öðru áhugaverðu.

  Fyrir nokkrum árum - þegar barnabörn mín stálpuðust og lærðu að lesa - tók ég ákvörðun um að láta af neikvæðum skrifum um menn og málefni.  Núna skrifa ég einungis vel um alla.  Sumir eiga erfitt með að meðtaka það.  Ekki svo mjög á blogginu.  Það er frekar á Facebook.  Þar vilja sumir fara í leðjuslag við mig. Sem var gaman áður en ég hætti neikvæðni.  Nú er runnin upp stund jákvæðninnar.  Og meira að segja stutt í sólrisuhátíðina jól.   


Skemmtisögur

 

  Út er komin sjötta bókin í flokknum Skagfirskar skemmtisögur.  Hún er kyrfilega merkt tölunni 6.  Undirtitill er Fjörið heldur áfram.

  Eins og fyrri bækurnar er það blaðamaðurinn Björn Jóhann Björnsson sem skráir sögurnar.  Þær eru á þriðja hundrað.  Þær er ljómandi fjölbreyttar.  Sumar með lokahnykk (pönslæn).  Aðrar eru meira lýsing á spaugilegri stemmningu.  Svo eru það stökurnar,  limrurnar og lengri vísur.   

  Þrátt fyrir að sögurnar séu um nafngreinda Skagfirðinga þá er ekki þörf á að vera Skagfirðingur til að skemmta sér vel við lesturinn.  Ég er Skagfirðingur og kannast við flesta í bókinni.  Þó ekki alla.  Ég skemmti mér alveg jafn vel við lestur um þá ókunnugu. 

  Hér eru nokkur sýnishorn:

  Að loknu stúdentsprófi í MA fór Baldur í guðfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1956.  Á háskólaárunum bjó hann á Nýja stúdentagarðinum.  Þar var aðeins einn sími til afnota fyrir stúdenta, og þótti ekki vinsælt ef menn héldu honum mjög lengi,  einkum á annatíma.

  Eitt sinn hafði síminn verið upptekinn dágóða stund og voru margir farnir að bíða og huga að því hver væri að tala.  Reyndist það vera Baldur,  en hann bandaði mönnum frá sér og kvaðst vera að tala í landsímann.  Vissu menn þá að hann var að tala við föður sinn,  Vilhelm símstöðvarstjóra.  Þurfti Baldur því ekki að hafa miklar áhyggjur af kostnaði við lengd símtalsins.

  Öðru hverju opnuðu samnemendur Baldurs dyrnar á símklefanum,  en heyrðu aðeins mas um einskis verða hluti og þar kom að einhver spurði Baldur hvort hann væri ekki að verða búinn.

  "," svaraði Baldur,  "ég er að koma mér að efninu."  Og í því að dyrnar á klefanum lokuðust heyrðist Hofsósingurinn segja:

  "En án gamans, er amma dauð?"

  Jón Kristjánsson, fv. ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins,  er alinn upp í Óslandshlíðinni.  Ungur að árum,  líklega 16 ára,  var hann að koma af balli á félagsheimili þeirra sveitunga,  Hlíðarhúsinu.  Fékk hann far út á Krók með Gísla í Þúfum og Árna Rögnvalds.  Var létt yfir mannskapnum og gekk flaska á milli.  Árni var undir stýri og heyrði Jón þá margar sögurnar fjúka milli hans og Gísla.

  Ein sagan hjá Árna var af ónefndum blaðamanni sem kom á elliheimili til að taka viðtal við 100 ára konu.  Var hún m.a. spurð hvað hún hefði verið gömul er hún hætti að hafa löngun til karlmanns.  Þá mun sú gamla hafa svarað: 

  "Þú verður að spyrja einhverja eldri en mig!"

  Guddi var alltaf eldsnöggur til svars og þurfti aldrei að hugsa sig um.  Um miðjan áttunda áratuginn kom hann sem oftar í heimsókn í Hrafnhól í Hjaltadal.  Þetta var að vori til.  Guðmundur bóndi var að stinga út úr fjárhúsunum.  Guddi greip gaffal og bar hnausana út.  Hann keðjureykti en lét það ekki trufla sig við vinnuna,  sígaretturnar löfðu í tannlausum gómnum.  Ungur drengur varð vitni að hamaganginum og spurði: 

  "Hvers vegna reykir þú svona mikið,  Guddi?"

  Hann svaraði um hæl:

  "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"

  Eitt sinn bar gest að garði á Silfrastöðum,  sem spurði Steingrím frétta á bæjarhlaðinu.  Hann var þá með eitthvað af vinnufólki,  enda hafa Silfrastaðir jafnan verið stórbýli. 

  "Ja,  það drapst hér kerling í nótt,"  svaraði Steingrímur við gestinn,  og bætti við:  "Og önnur fer bráðum."

  Margir áttu leið í Búnaðarbankann til Ragnars Pálssonar útibússtjóra,  þeirra á meðal Helgi Dagur Gunnarsson.  Eitt sinn hafði hann verið í gleðskap og þokkalega vel klæddur mætti hann í bankann og bað Ragnar um lán.  Ragnar sagðist ekki sjá ástæðu til að lána mönnum,  sem klæddust jakkafötum á vinnudegi!  Helgi sagði ástæðu fyrir því.

  "Sko," sagði hann,  "ég er svo blankur að ég á ekki fyrir gallabuxum og þetta er það eina sem ég á eftir."

  Ragnar tók þessa skýringu góða og gilda.  Helgi fékk lánið og daginn eftir mætti hann til Ragnars í gallabuxum sem hann hafði keypt sér!"

  Maður einn á Króknum fór í verslunina Gránu í hverri viku og keypti yfirleitt það sama í hvert skipti af helstu nauðsynjum.  Í Gránu voru vörurnar keyptar "yfir borðið" og fólk lagði inn lista eða sagði afgreiðslufólkinu hvað það vanhagaði um.  Sagan segir að hér hafi Jón Björnsson verið á ferð,  kallaður Jón kippur,  en það hefur ekki fengist staðfest.  Einn daginn tók afgreiðslukona hjá Kaupfélaginu eftir því að maðurinn bað um tvær klósettrúllur,  en yfirleitt hafði hann bara beðið um eina.  "Stendur eitthvað til?"  spurði konan og maðurinn svaraði: 

  "Ég ákvað að gera vel við mig í þetta skiptið!" 

 

Skagfirskar-6


Friðsömustu og öruggustu lönd til að heimsækja

  Íslendingar eru hræddir.  Þeir óttast að fara í miðbæ Reykjavíkur.  Óttinn við að verða stunginn með hnífum er yfirþyrmandi.  Stjórnvöld í löndum fjölmennustu túrista til Íslands vara þegna sína við að fara í miðbæ Reykjavíkur. 

  Hvað er til ráða?  Eitthvert þurfa ferðamenn að fara til að sletta úr klaufunum.  Hver eru hættulegustu lönd til að sækja heim?  Hver eru öruggustu?  

  Það þarf ekki vísindalega útreikninga til að vita að hættulegustu lönd er Afganistan,  Jemen og Sýrland.

  Institute for Economics and Peace hefur reiknað dæmið með vísindalegum aðferðum.  Niðurstaðan er sú að eftirfarandi séu öruggustu lönd heims að ferðast til.  

1  Ísland

2  Nýja-Sjáland

3  Írland

4  Danmörk

5  Austurríki

6  Portúgal

7  Slóvenía

8  Tékkland

9  Singapúr

10 Japan


Gullgrafarar

 

  Fólk sem á rosalega marga peninga á við vandamál að etja.  Fátækt fólk er laust við það vandamál.  Þetta snýst um hvort makinn sé ástfanginn af viðkomandi eða peningahrúgunni.  Líkurnar á að síðarnefnda dæmið eigi við eykst með hverju árinu sem munar á aldri parsins.

  Þegar bítillinn Paul McCartney tók saman við Heather Mills var hann 26 árum eldri.  Hún var á aldur við börn hans.  Þau mótmæltu.  Töldu hana vera gullgrafara.  Hún myndi láta hann barna sig og skilja við hann.  Þar með væri hún komin með áskrift að ríflegu meðlagi og vænni sneið af fjármunum hans.  Þetta gekk eftir.  Hún fékk 50 milljón dollara í vasann (x 144 kr.). 

  John Lennon og Yoko Ono er flóknara dæmi.  Hún var ekki á eftir peningum er hún tók upp á því að sitja um hann.  Hún var allt að því eltihrellir (stalker).  Hún kemur út auðmannafjölskyldu.  Hún var og er framúrstefnu myndlistamaður.  Góð í því.  En var ekki fræg utan þess fámenna hóps sem aðhylltist avant-garde.  John Lennon var farseðill hennar til heimsfrægðar. 

  Yoko er ekki öll þar sem hún er séð.  Þegar henni tókst að ná John frá þáverandi eiginkonu hans og barnsmóður hélt hún því fram að hún þekkti lítið sem ekkert til Bítlanna.  Hún væri bara í klassískri músík.  Eina manneskjan í New York sem vissi ekkert um Bítlana.  Hún var ekki fyrr tekin saman við John en hún fór að dæla frá sér þokkalegum popplögum. 

  Dæmi um undirferli Yokoar:  Hálfblindur John keyrði út í móa.  Yoko slasaðist.  Hún var rúmföst og gat sig lítið hreyft.  Bítlarnir voru að hljóðrita Abbey Road plötuna.  John plantaði rúmi handa Yoko í hljóðverið.  Þannig gat hann annast hana.  Svo gerðist það að John, Paul og Ringo brugðu sér frá.  George Harrison var að dunda á annarri hæð hljóðversins.  Þar voru skjáir sem sýndu úr öryggismyndavélum í byggingunni.  Yoko fattaði það ekki.  George sá hana tipla léttfætta þvert yfir hljóðversgólfið og stela frá honum súkkulaðikexi. 

  Anna Nicoli Smith var bandarísk nektarfyrirsæta.  Mjög fögur.  26 ára giftist hún 89 ára gömlum auðmanni.  Hann dó.  Hún fór í mál við son hans.  Krafðist helming arfs.  Þá dó hún.  Einnig sonur hennar sem var eiturlyfjafíkill.                

  Rachel Hunt var 21 árs sýningardama er hún giftist hálf fimmtugum breskum söngvara,  Rod Stewart.  Hann hélt að hann hefði tryggt sig gegn gullgrafara.  Það reyndist ekki virka.  Rachel náði af honum 35 milljónum dollara. 

  Svo getur alveg verið að venjulegt blásnautt fólk verði í alvöru ástfangið af vellauðugri manneskju.  Peningar skipti þar engu máli.   

 

anna-nicole-smith-and-husband-j-howard-marshallRod Stewart   


Ný ljóðabók og hljómplata

 Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með Ólafi F. Magnússyni eftir að hann settist í helgan stein.  Reyndar líka áður.  Hann var besti borgarstjóri Reykjavíkur.  Eftir það tímabil tók við nýr - og kannski óvæntur - ferill. Frjó og farsæl sköpunargleði fór á flug.  Hann yrkir kjarnyrt kvæði á færibandi,  semur viðkunnanleg söngræn lög og vex stöðugt sem ágætur söngvari.

  Nú er komin út hans þriðja ljóðabók,  Ég vil bæta mitt land.  Eins og í fyrri bókum eru þetta ættjarðarljóð,  heilræðisvísur og allskonar.  Meðal annars um margt nafngreint fólk.  Eitt kvæðið heitir Eivör Pálsdóttir:

Holdtekju listar með hárið síða,

hátónagæði með fegurð prýða.

Sönglóan okkar færeyska fríða,

flögrar um eins og sumarblíða.

  Bókinni fylgir 13 laga hljómdiskur.  Þar af eru 9 áður óútgefin lög.  Hin eru sýnishorn af fyrri þremur diskum Ólafs.  

  Söngurinn er afgreiddur af Ólafi og Páli Rósinkrans,  svo og óperusöngvurunum Elmari Gilbertssyni,  Guðlaugu Dröfn Ólafsdóttur og Ingibjörgu Aldísi Ólafsdóttur.  Útsetningar og hljóðfæraleikur eru að mestu í höndum galdrakarlsins Vilhjálms Guðjónssonar.  Gunnar Þórðarson kemur líka við sögu. 

      

ÓFM


Snúður og kjulli

  Börn, unglingar og fullorðnir hafa verulega ólík viðhorf til veislumatar.  Þegar ég fermdist - nálægt miðri síðustu öld - bauð mamma mér að velja hvaða veislubrauð yrði á boðstólum í fermingarveislunni.  Ég nefndi snúða með súkkulaðiglassúr.  Mamma mótmælti.  Eða svona.  Það var kurr í henni.  Hún sagði snúða ekki vera veislubrauð.  Svo taldi hún upp einhverja aðra kosti;  tertur af ýmsu tagi og einhverjar kökur.  Ég bakkaði ekki.  Sagði að snúður væri mitt uppáhald.  Mig langaði ekki í neitt annað.

  Leikar fóru þannig að mamma bakaði eitthvað að eigin vali.  Fyrir framan mig lagði hún hrúgu af snúðum úr bakaríi.  Ég gerði þeim góð skil og var alsæll.  Í dag þykir mér snúðar ómerkilegir og ólystugir.  Ég hef ekki bragðað þá í áratugi.

  Þetta rifjaðist upp þegar ég spjallaði í dag í síma við unglingsstelpu.  Hún á afmæli. Hún sagði mér frá afmælisgjöfum og hvernig dagskrá væri á afmælisdeginum.  Nefndi að um kvöldið yrði farið út að borða veislumat.  "Hvar?" spurði ég,  Svarið:  "KFC".  

snúðurkjuklingur 

 

 


Stysta heimsreisa sögunnar

  Miðaldra maður í Ammanford á Englandi átti sér draum um að fara í heimsreisu.  Í mörg ár undirbjó hann ferðalagið af kostgæfni.  Sparaði hvern aur og kom sér upp þokkalegum fjársjóði.  Er nær dró farardegi seldi hann hús sitt,  allt innbú og fleira og sagði upp í vinnunni.  Hann undirbjó nákvæma ferðaáætlun.  Endastöðin átt að vera New York.  Þar ætlaði hann að setjast á helgan stein í kjölfar 32.000 kílómetra vel skipulagðrar heimsreisu. 

  Síðustu daga fyrir brottför varði hann í að kveðja sína nánustu og vini.  Á lokakvöldinu sló hann upp kveðjuhófi.  Hann datt rækilega í það.  Skálaði ítrekað við gesti og gangandi.  Hver á fætur öðrum bað um orðið,  flutti honum mergjaðar kveðjuræður og óskuðu góðrar ferðar.  Sjálfur steig hann ítrekað í pontu og kastaði kveðju á viðstadda.  Samkoman stóð fram á nótt og menn voru farnir að bresta í söng.    

  Morguninn eftir lagði hann af stað í nýjum húsbíl.  Tveimur mínútum síðar - eftir að hafa ekið 1 og hálfan km - stöðvaði lögreglan hann.  Áfengi í blóði var þrefalt yfir leyfilegum mörkum.  Húsbíllinn var kyrrsettur.  Ferðalangurinn var sviptur ökuleyfi til hálfs þriðja árs.

 


Flott plata

gillon

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 - Titill:  Bláturnablús

 - Flytjandi:  Gillon

 - Einkunn:  ****

  Gillon er listamannsnafn Gísla Þórs Ólafssonar.  Hann er Skagfirðingur,  búsettur á Sauðárkróki.  Hann hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og hljómplatna.  Allt vænstu verk.  Á nýjustu afurðinni,  plötunni Bláturnablús,  eru öll lögin og ljóðin frumsamin.  Gillon syngur að venju og spilar á kassagítar og bassa.  Hans hægri hönd er upptökustjórinn Sigfús Arnar Benediktsson.  Hann spilar á trommur,  rafgítar,  gítarlele og ýmis hljómborð.

  Söngstíll Gillons er "spes".  Hann er í humátt eins og sitt lítið af Megasi,  Bjartmari og Birni Jörundi.  Stíllinn klæðir söngvana prýðilega.  Ljóðin eru í frjálsu formi og súrrealísk.  Sparlegu endarími bregður þó fyrir í einstaka ljóði.

  Platan er frekar seintekin.  Hún þarf nokkrar spilanir áður en fegurð laganna opinberast að fullu.  Kannski spilaði inn í hjá mér að við fyrstu yfirferðir var athyglin á hugmyndaríku og skemmtilegu ljóðunum.  

  Útsetningar og hljóðfæraleikur eru snyrtileg og smekkleg.  Enginn brjálaður hávaði og læti.  Lögin flest róleg eða á hóflegum millihraða.  Það er heldur poppaðra yfirbragð en á fyrri plötum Gillons.  Til að mynda lýkur plötunni á "sing-along" tralli Gillons og þriggja kvenna.  Gott niðurlag á flottri og skemmtilegri plötu.

  Teikning Óla Þórs Ólafssonar á framhlið umslagsins er virkilega "töff".     

 


Skemmtileg bók

 - Titill:  Glaðlega leikur skugginn í sólskininu

 - Höfundur:  Steinn Kárason

  Sögusviðið er Skagafjörður á sjöunda áratugnum.  Segir þar frá ungum dreng -  10 - 11 ára - á Sauðárkróki.  Bakgrunnurinn er sjórinn,  sjómennska og sveitin í þroskasögunni.  Inn í hana blandast kaldastríðið,  Kúbudeilan og Bítlarnir.  Steinn kemur andrúmslofti þessara ára vel til skila.  

  Ég ætla að stór hluti sögunnar byggi á raunverulegri upplifun höfundar.  Ég kannast við suma atburði sem sagt er frá.  Ég var barn í Skagafirði á þessum tíma.  Fyrir bragðið var sérlega gaman fyrir mig að rifja upp bernskubrekin.  Bókin er þar fyrir utan líka skemmtileg og fróðleg fyrir fólk sem veit ekki einu sinni hvar Skagafjörður er.  Mörg brosleg atvik eru dregin fram.  En það skiptast á skin og skúrir.  Ógeðfelldir atburðir henda sem og mannlegur breyskleiki í ýmsum myndum.

  Þetta er stór og mikil bók.  Hún spannar 238 blaðsíður.  Káputeikning Hlífar Unu Bárudóttur er flott.

  Steinn Kárason er þekktur fyrir fræðibækur,  blaðagreinar,  tónlist og dagskrárgerð í ljósvakamiðlum.   

GladlegaLeikurSkugginn


Frjósemi Bítlanna

  Frjósemi vesturlandabúa hefur aldrei verið jafn bágborin og nú.  Að meðaltali eignast evrópskar konur innan við tvö börn hver um sig.  Nema í Færeyjum.  Þar býr hamingjusamasta þjóð heims.  Og ástríkasta.  Færeysk kona eignast að meðaltali hálft þriðja barn.  

  Frjósemi Bítlanna skiptist í tvö horn.  Sólógítarleikarinn,  George heitinn Harrison,  eignaðist aðeins eitt barn,  gítarleikarann Dhani Harrison.  Dhani er hálffimmtugur.  Eða því sem næst. Hann var til fjögurra ára giftur íslenskri konu,  Sólu Káradóttur (Stefánssonar).  Þau eignuðust ekki barn.  Ef Dhani fer ekki að drífa sig deyja gen George Harrison út með honum.  Sú staða virðist eiginlega blasa við.  Hvers vegna?

  Ekkja Georges,  Olivia,  er jafnan mætt í Viðey þegar kveikt er á friðarsúlunni. 

  Forsprakki Bítlanna,  John heitinn Lennon,  var tvígiftur.  Hann eignaðist soninn Julian Lennon,  með fyrri konu sinni,  Cyntheu,  og Sean Lennon með Yoko Ono.  Þau síðarnefndu eru dugleg að heimsækja Ísland.  

  Julian og Sean eiga engin börn.  Einhverjir sálfræðingar rekja barnleysi Julians til þess að John var ekki góður pabbi.  Hann vanrækti sambandið við soninn.

  Eins og staðan er í dag má ætla að gen Johns og George berist ekki til næstu kynslóða.    

  Trommuleikarinn Ringo Starr eignaðist 3 syni með fyrri konu sinni,  Maurice.  Litlu munaði að George barnaði hana líka.

  Besta barnagæla Bítlanna var og er Paul McCartney.  Julian segir hann hafa verið miklu meiri pabba sinn en John.  Ótal ljósmyndir staðfesta það.

  Paul McCartney á fimm börn.  Hann er ekki líffræðilegur faðir elstu dótturinnar,  Heather.  Hann bregst hinn versti við ef einhver kallar hana stjúpdóttur eða fósturdóttur.  "Hún er jafn mikil dóttir mín og hin börn mín,"  segir hann.  


Hættulegar skepnur

  Öll vitum við að margar skepnur eru manninum hættulegar.  Við vitum af allskonar eiturslöngum,  ljónum,  krókódílum,  hákörlum, ísbjörnum,  tígrisdýrum og svo framvegis.  Fleiri dýr eru varhugaverð þó við séum ekki sérlega meðvituð um það.  Einkum dýr sem eru í öðrum löndum en Íslandi. 

  -  Keilusnigill er umvafinn fagurri skel.  En kvikindið bítur og spúir eitri.  Það skemmir taugafrumur og getur valdið lömun.

  -  Tsetse flugan sýgur blóð úr dýrum og skilur eftir ssig efni sem veldur svefnsýki.  Veikindunum fylgir hiti,  liðverkir,  höfuðverkur og kláði.  Oft leiðir það til dauða.

  - Sporðdrekar forðast fólk.  Stundum koma upp aðstæður þar sem sporðdreki verður á vegi fólks.  Þá stingur hann og spúir eitri.  Versta eitrið gefur svokallaður "deathstalker".  Það veldur gríðarlegum sársauka en drepur ekki heilbrigða og hrausta fullorðna manneskju.  En það drepur börn og veikburða.

  - Eiturpílufroskurinn er baneitraður.  Snerting við hann er banvæn.

  - Portúgölsku Man O´War er iðulega ruglað saman við marglyttu.  Enda er útlitið svipað.  Stunga frá þeirri portúgölsku veldur háum hita og sjokki.

  - Í Víetnam drepa villisvín árlega fleiri manneskjur en önnur dýr.  Venjuleg alisvín eiga til að drepa líka.  Í gegnum tíðina haf margir svínabændur verið drepnir og étnir af svínunum sínum.

  -  Hættulegasta skepna jarðarinnar er mannskepnan.  Hún drepur fleira fólk og aðrar skepnur en nokkur önnur dýrategund.   

  goldenpoisonfrogsmall0x0snigilltsetse-flyxMjPs9YK4NbzAhK25AV7N8-320-80


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband