21.9.2013 | 23:58
Breskt dagblað hvetur til Íslandsferða
Breska fríblaðið Metro státar sig af því að vera stærsta og útbreiddasta dagblað heims. Ég hef ekki forsendur til að rengja það. Á tímabili var íslenskt fríblað í Danmörku, Nyheds-eitthvað, toppurinn. Á sama tíma íslenskt dagblað gefið út í Boston. Það hét Boston News eða eitthvað álíka. Núna er ekkert íslenskt dagblað gefið út utan Íslands. Satt en ótrúlegt.
Í fimmtudagsblaði Metro er mælt með því að þeir sem eigi eftir að taka út haustfrí velji sér einhvern af eftirtöldum 5 áfangastöðum: Ísland, Kúpu, Ítalíu, Sri Lanka eða Oman. Þunginn í meðmælunum með Íslandi er sá að norðurljósin sem sjást á Íslandi verði sérlega áberandi og fjörug þetta haustið. Vísað er til fullyrðinga geimvísindastofnunar, Nasa, í því sambandi. Heildarkostnaður við 7 nátta ferð til Íslands er aðeins um 170 þúsund kall: Flug, gisting og morgunverður. Góður og ódýr kostur fyrir Breta. Einn af 5 bestu kostum. Til samanburðar kostar ræfilsleg 5 daga ferð til Ítalíu Bretann hátt á þriðja hundrað þúsund. Valið er auðvelt.
Ferðalög | Breytt 22.9.2013 kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2013 | 00:10
Ævintýri í leigubíl
Það er oft gaman að taka leigubíl. Í dag hringdi ég á leigubíl. Ég bý við einstefnuakstursgötu. Þegar mig fór að lengja eftir bílnum rölti ég upp götuna til að leigubíllinn þyrfti ekki að keyra niður einstefnuna. Þar sem ég stóð við enda götunnar sá ég allt í einu að leigubíllinn kom akandi upp götuna á móti einstefnu. Ég settist inn í bílinn og sagði: "Þú kemur brunandi hér upp gegn einstefnu." Bílstjórinn svaraði: "Já, ég kom frá hliðargötu og misreiknaði mig. Ég ætlaði að bakka upp götuna en eitthvað fór úrskeiðis."
Svo tók hann dálítinn krók í vitlausa átt. Það var reiðulaust af minni hálfu. Því næst ók hann að gatnamótum með götuljósum. Þar loguðu rauð ljós. Bílstjórinn lét það ekki trufla sig heldur ók rakleiðis yfir gatnamótin gegn rauðu ljósi. Sem betur fer var umferð hæg og aðrir bílstjórar negldu niður til, náðu þannig að forða árekstri og flautuðu ákaft. Mér varð að orði: "Hvað er þetta? Er allt í rugli með ljósin?" Bílstjórinn var hinn rólegasti og svaraði: "Já, þau bara blikka. Þetta er eitthvað rugl."
Mér varð litið yfir gatnamótin. Þar var pallbíll staddur með vinnumönnum og blikkandi gulu ljósi. Leigubílstjórinn hafði tekið meira mark á þeim ljósum en umferðarljósunum á gatnamótunum. Bílstjórinn bætti við: "Það er allt í rugli í gatnagerð á þessum árstíma. Maður er alveg ringlaður út af þessari dellu. Það væri nær að sinna gatnagerð yfir hásumarið þegar allir eru í sumarfríi og engin umferð."
Eftir þetta gekk allt vel fyrir sig.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.9.2013 | 00:08
Furðulegar ljósmyndir
Á ferðalagi um veraldarvefinn (internetið) verða á vegi allra af og til ljósmyndir sem skilja eftir stór spurningamerki. Það er erfitt að átta sig á því hvað er í gangi; hvað fólki gengur til. Fólk er skrýtið. Hér eru nokkur sýnishorn valin af handahófi:
Hvað er í gangi með konuna í bakgrunninum?
Arabi með ýstru, hringi í geirvörtum og hvolp? Ljótan hvolp. Náttúruunnandi með grasköngla.
Vodka og gaddaólar. Pottþétt töff blanda.
Einmitt það sem hann óskaði sér í afmælisgjöf: Uppblásin dúkka með svínsandlit.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.9.2013 | 20:42
Fólk þarf að bera virðingu fyrir sektum
Hvers vegna gefa íslenskir ökumenn ekki stefnuljós? Hvers vegna tala íslenskir ökumenn á ferð í síma? Hvers vegna leggja "heilbrigðir" í stæði merkt fötluðum? Hvers vegna nota hjólreiðamenn ekki öryggishjálm? Svarið er einfalt: Ástæðan er sú að Íslendingar bera enga virðingu fyrir umferðarlögum um þessi atriði né heldur sektum við því að brjóta þessi lög.
Þekkir þú einhvern sem hefur verið sektaður fyrir að gefa ekki stefnuljós? Ekki ég heldur. Og þó. Fyrir 2 eða 3 árum var auglýst átak fyrir notkun stefnuljósa. Þá vikuna notuðu flestir stefnuljós. Einstaka manneskja var föst í gamla farinu og fékk smá sekt. Sektin var svo lág að það var hlegið að henni. Síðan hefur enginn skipt sér frekar af stefnuljósum.
Oft og tíðum birtast fréttir af rannsóknum sem leiða í ljós að ökumaður á ferð sem talar í síma tapar einbeitingu og athygli í umferðinni á meðan. Reyndar sér maður það ósjaldan í umferðinni. Sömu rannsóknir sýna að það er enginn munur á því hvort að ökumaður talar í handfrjálsan búnað eða heldur sjálfur símanum við eyrað. Handfrjáls búnaður er í raun verri vegna þess að hann veitir falskt öryggi.
Það er kjánalegt að halda í lög um handfrjálsan símabúnað. Það ber enginn virðingu fyrir kjánalegum lögum. Ofan á þennan kjánagang þá er refsilaust að ökumaður tali í talstöð.
Við höfum nýlegt dæmi um frjálsíþróttamann sem leggur jafnan jeppa sínum beint á ská í tvö stæði merkt fötluðum. Útskýring hans er sú að hann vilji frekar borga 5000 króna sekt fyrir það en láta "hurða" bílinn á þrengra stæði. Enda sé bíllinn á einkanúmeri.
Hann er ekki einangraður frekjuhundur. Þetta er algeng afstaða jeppagutta. Sektin fyrir að leggja í stæði merkt fötluðum er svo lág að það er hlegið að henni. Þar fyrir utan eru þessi spjátrungar aldrei sektaðir fyrir að leggja í stæði merkt fötluðum. Þeir fá að komast upp með þetta vegna þess að þeim er vorkunn. Frekja þeirra og ótillitssemi ræðst augljóslega af andlegri fötlun.
![]() |
Fékk ekki að borga sektina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 19.9.2013 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.9.2013 | 23:34
Plötuumslög í sínu rétta umhverfi
Þegar rölt er um New York borg ber margt fyrir auga sem kemur kunnuglega fyrir sjónir. New York borg er vettvangur margra kvikmynda, sjónvarpsþátta og tónlistar. Demókratar eru ráðandi. Íbúar eru um 8 milljónir. Daglegir túristar í New York eru jafn margir: 8 milljónir.
New York er suðupottur fjölmenningar í tónlist og ýmsu öðru, með sitt Kínahverfi, litlu Ítalíu, fátækrahverfi svertingja (Harlem) og svo framvegis. New York er heimsálfa ólíkra hverfa, ólíkra menningarsvæða...
Mörg af frægustu plötuumslögum rokksögunnar hafa verið ljósmynduð í NY. Það er þess vegna sem gestkomandi í New York borg kannast við umhverfið.
Plötuumslag bresku mod-hljómsveitarinnar The Who "The Kids are Allright", byggir á ljósmynd í New York.
Umslag plötunnar "Too Long in Exile" með írska söngvaranum Van Morrison.
"After The Gold Rus" með kanadíska tónlistarmanninum Neil Young skartar ljósmynd frá NY.
Umslag plötunnar "Live at Max´s Kansas City" með NY sveitinni Velvet Underground.
Hljómsveitin New York Dolls og umslag samnefndrar plötu.
Ramones, enn ein NY sveitin og umslag plötunnar "Rocket to Russia".
Steely Dan brugðu sér í Central Park garðinn í NY til að sitja fyrir á mynd á umslag plötunnar "Pretzel Logic".
Söngleikjaplatan "West Side Story".
Bob Dylan bjó í NY og þurfti ekki að sækja myndefni langt.
Dylan fór samt til London til að filma myndband við lagið "Subterranean Homesick Blues".
Tónlist | Breytt 18.9.2013 kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.9.2013 | 00:26
Söluhæstu lög allra tíma
Söluhæsta lag allra tíma er "White Christmas" í flutningi Bings Grosbys. Þetta lag hefur haldið forystusæti í marga áratugi. Reyndar með þeirri undartekningu að "Candle in the Wind" með Elton John fór á tímabili fram úr. Í dag er staðan sú að "White Cristmas" hefur selst í 50 milljónum eintaka á móti 33 milljónum eintaka sölu á "Candle in the Wind" með Elton John.
Hér fyrir neðan er listi yfir söluhæstu lög frá og með árinu 1958. Þessi listi mælir ekki sölu á lögum hvers árs fyrir sig (sölu í árslok) heldur heildarsölu frá því að lagið kom út. Það er gaman að skoða listann út frá ártalinu vegna þess að plötusala hefur vaxið gríðarlega mikið frá einum áratug til annars. Bæði fjölgar jarðarbúum hratt og fram eftir sjöunda áratugnum voru aðeins til plötuspilarar á fínni heimilinum og eða þar sem ungt fólk var til heimilis. Í dag eiga nánast allir einstaklingar tæki til að spila músík af plötu, disk eða iPad...
1958 Kingston Trio 'Tom Dooley' 8.241.000 points
1959 Bobby Darin 'Mack The Knife' 6.994.000 points
Ég lauma hér inn kráku (cover song) Marks Lonegans á "Makka hníf" úr þýsku "Túskildingsóperu" Kurts Weills. Mark heldur hljómleika hérlendis 30. sept. Það er fyrir löngu löngu löngu síðan uppselt á hljómleikana. Mark er einn af helstu gruggurum Seattle (grunge). Þekktastur sem söngvari Screaming Trees. Hann var að senda frá sér sólóplötu. Flottasta lagið er þessi kassagítarútfærsla af "Makka hníf":
1960 Elvis Presley 'It's Now Or Never' 10.981.000 points
1961 Elvis Presley 'Surrender' 6.405.000 points
1962 Pat Boone 'Speedy Gonzales' 8.463.000 points
1963 Beatles 'I Want To Hold Your Hand' 14.435.000 points #5
1964 Beatles 'Can't Buy Me Love' 8.063.000 points
1965 Rolling Stones 'Satisfaction'
1966 Frank Sinatra 'Strangers In The Night'
1967 Scott McKenzie 'San Francisco (Be Sure To Wear Flowers)' 10.303.000 points
1968 Beatles 'Hey Jude' 13.972.000 points #7
1969 The Archies 'Sugar Sugar' 9.974.000 points
1970 George Harrison 'My Sweet Lord' 11.434.000 points
1971 Carly Simon 'You're So Vain' 7.815.000 points
1972 Hot Butter 'Popcorn' 7.856.000 points
1973 Rolling Stones 'Angie' 9.001.000 points
1974 Terry Jacks 'Seasons In The Sun' 10.678.000 points
1975 Queen 'Bohemian Rhapsody' 9.008.000 points
1976 Abba 'Dancing Queen' 8.739.000 points
1977 Bee Gees 'How Deep Is Your Love' 8.039.000 points
1978 John Travolta & Olivia Newton-John 'You're The One That I Want' 12.139.000 points #10
1979 Pink Floyd 'Another Brick In The Wall (Part II)' 11.810.000 points
1980 Barbra Streisand 'Woman In Love' 11.227.000 points
1981 Kim Carnes 'Bette Davis Eyes' 10.602.000 points
1982 Culture Club 'Do You Really Want To Hurt Me' 10.543.000 points
1983 Irene Cara 'Flashdance...What A Feeling' 11.953.000 points
1984 Stevie Wonder 'I Just Called To Say I Love You' 11.667.000 points
1985 USA For Africa 'We Are The World' 14.600.000 points #4
1986 Madonna 'Papa Don't Preach' 8.261.000 points
1987 Whitney Houston 'I Wanna Dance With Somebody' 7.897.000 points
1988 Phil Collins 'A Groovy Kind Of Love' 8.042.000 points
1989 Madonna 'Like A Prayer' 9.520.000 points
1990 Sinead O'Connor 'Nothing Compares 2 U' 10.128.000 points
1991 Bryan Adams '(Everything I Do) I Do It For You' 15.694.000 points #3
1992 Whitney Houston 'I Will Always Love You' 16.547.000 points #2
1993 UB 40 '(I Can't Help) Falling In Love With You' 10.353.000 points
1994 All-4-One 'I Swear' 10.872.000 points
1995 Coolio feat. L.V. 'Gangsta's Paradise' 12.942.000 points #9
1996 Los Del Rio 'Macarena' 14.126.000 points #6
1997 Elton John 'Candle In The Wind 1997' 21.314.000 points #1
1998 Celine Dion 'My Heart Will Go On' 11.256.000 points
1999 Britney Spears 'Baby One More Time' 8.918.000 points
2000 Madonna 'Music' 7.414.000 points
2001 Kylie Minogue 'Can't Get You Out Of My Head' 8.123.000 points
2002 Shakira 'Whenever Wherever' 8.541.000 points
2003 Outkast 'Hey Ya!' 6.817.000 points
2004 Maroon 5 'This Love' 7.791.000 points
2005 James Blunt 'You're Beautiful' 9.469.000 points
2006 Shakira feat. Wyclef Jean 'Hips Don't Lie' 9.845.000 points
2007 Timbaland feat. OneRepublic 'Apologize' 10.912.000 points
2008 Leona Lewis 'Bleeding Love' 10.420.000 points
2009 Black Eyed Peas 'I Gotta Feeling' 13.044.000 points #8
2010 Eminem feat. Rihanna 'Love The Way You Lie' 9.067.000 points
2011 Adele 'Rolling In The Deep' 11.969.000 points
2012 Carly Rae Jepsen 'Call Me Maybe' 11.611.000 points
2013 Robin Thicke feat. T.I. & Pharrell Williams 'Blurred Lines'
Tónlist | Breytt 18.9.2013 kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2013 | 17:56
Undarleg afhommun
Fæstir velta fyrir sér kynhneigð annarra. Ekki fremur en hárlit eða skóstærð. Einstaka manneskja lætur samkynhneigð trufla sig. Viðbrögðin brjótast út í yfirlýstri andúð á samkynhneigð. Þetta getur þróast út í þráhyggju, löngun til að refsa samkynhneigðum eða afhomma eða reka liðið aftur inn í skápana. Ótal oft hefur seint og síðar meir komið í ljós að þetta eru varnarviðbrögð manns sem á í örvæntingarfullri baráttu við eigin bælda samkynhneigð.
Gagnkynhneigður maður sem er öruggur með sína kynhneigð veltir ekki fyrir sér kynhneigð annarra manna. Samkynhneigð heldur aðeins vöku fyrir skápahommum.
Í vikunni var prestur í Iowa í Bandaríkjum Norður-Ameríku fundinn sekur um að nauðga ungum drengjum á þeirri forsendu að hann væri að lækna þá af samkynhneigð. Upphaflega viðurkenndi presturinn fyrir lögreglunni að hafa beitt fjóra drengi þessari afhommunartækni. Síðar komu átta aðrir drengir fram og ásökuðu prestinn um að hafa níðst á sér.
Presturinn lýsti fyrir lögreglunni aðferð sinni: Á meðan hann hefði kynferðislegt samneyti við drengina þá færi hann með kröftuga bæn sem gerði drengina "kynferðislega hreina" í augum guðs.
Presturinn var dæmdur í 17 ára fangelsi. Hann þarf þó ekki að sitja inni í einn einasta dag sæki hann sálfræðitíma á 5 ára skilorðstíma.
Fórnarlömb prestsins og fjöldi annarra mótmæla útfærslu dómsins. Þeirra fremst í flokki er eiginkona prestsins og móðir fjögurra barna þeirra. Henni þykir fórnarlömbum nauðgana sýnd mikil lítilsvirðing með þessum allt að því refsilausa dómi.
Vísindi og fræði | Breytt 16.9.2013 kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
14.9.2013 | 22:37
Nýtt lag frá Högna Lisberg, MTV og Opna bandaríska tennismótið
Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég bloggfærslu um ný lög sem færeyska söngvaskáldið, söngvarinn og trommuleikarinn Högni Lisberg er að senda frá sér. Um það má lesa með því að smella á slóðina: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1310157/
Ég mæli með því að þið lesið þá bloggfærslu áður en lengra er haldið hér. Svona til að allt sé í réttu samhengi.
Lag Högna sem þar er kynnt til sögunnar, Fólkið í Sprekkunum, kraumar undir Topp 30 vinsældalistanum á Rás 2. Magnað lag. Smellið á þessa slóð og kjósið lagið: http://www.ruv.is/topp30?mottekid=1
22. ágúst sendi Högni frá sér annað flott lag, Drukni. Það má heyra með því að smella á: http://www.youtube.com/watch?v=oVnJp2jPX80
Núna var Högni að senda frá sér 3ja lagið á færeysku, Villir hundar. http://www.youtube.com/watch?v=__kcAJ_WlHA
Til viðbótar þeim upplýsingum sem komu fram í bloggfærslunni er vitnað er til hér efst þá hefur bandaríska sjónvarpsstöðin MTV verið dugleg við að spila lög Högna. Líka evrópska MTV. Þar fyrir utan hefur bandaríska tennissambandið US Open Tennis Campaigns gert út á lög Högna bæði í ár og í fyrra. Þetta má sjá með því að smella á: http://vimeo.com/73317624
Til að hnýta allt í samhengi er gott að hverfa röskan áratug aftur í tímann og rifja upp þegar Högni kom sterkur inn á markaðinn sem trommuleikari trip-hopp hljómsveitarinnar Clickhaze. Eivör söng og þau Högni höfðu áður verið saman í hljómsveitinni Reverb þar sem Eivör öskraði Led Zeppelin lög í bland við Bob Dylan ballöður í þorpinu Götu á Austurey.
Tónlist | Breytt 15.9.2013 kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2013 | 04:17
Hvað er í hamborgaranum þínum?
Veistu hvað er í samlokunni þinni? Þessari sem kallast hamborgari? Áleggið er flöt "kjötbolla"; hakkað nautakjöt. Í auglýsingum segir: "Einungis úr 1. flokks úrvals ungnautahakki af nýslátruðum." Stenst það skoðun?
Í nýrri rannsókn í Bandaríkjum Norður-Ameríku voru hamborgarnir efnagreindir. Það er að segja hamborgarakjötið. Þetta voru hamborgarar frá 8 helstu hamborgarakeðjunum í Ameríku. Niðurstaðan var þessi:
Helmingurinn af hamborgarakjötinu var vatn (allt upp í 62,4%. Í skásta tilfellinu var vatnið aðeins 37,7%). Það kom ekki á óvart. Matvælaframleiðendur eru orðnir lagnir við að drýgja framleiðsluna með vatni.
Hitt kom verulega á óvart: Kjöt var ekki nema 8,45% af kjötinu! Í grófasta dæminu var kjötið bara 2,1%. Það eru hrein og klár vörusvik, næstum eins og íslensku kjötlokurnar sem voru án kjöts. Í skásta dæminu var kjötið 14,8% af kjötinu.
Hvaða fylliefni fylla upp í 41,5% sem kjötið samanstendur af ásamt vatni og kjöti? Í stuttu máli: Drasl og viðbjóður. Bein, brjósk, æðar, fituvefi, taugar og svo framvegis. Að ógleymdum saurgerlum!
Þannig lítur fylliefnið í hamborgaranum út:
Það er spurning hvort að íslenskir hamborgarar séu frábrugðnir þeim bandarísku. Hér voru til skamms tíma tvær hamborgarakeðjur sem eru áberandi í Bandaríkjunum. Annars vegar McDonalds og hinsvegar Burger King (Burger King hefur lengst af verið ensk keðja með útibú víða um heim). Þannig keðjur hæla sér af því að bjóða upp á nákvæmlega eins vöru frá einu landi til annars.
Margir sem eiga það til að laumast í hamborgara segjast ætíð fá magakveisu í kjölfarið. Til að verjast henni er ástæða til að sniðganga hamborgarakeðjur í útlöndum.
Ég hef sannfæringu fyrir því að rammíslenskir hamborgarastaðir séu lítið sem ekkert í því að drýgja nautakjötið hjá sér.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 04:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.9.2013 | 22:15
Fær skaðabætur frá ljótri konu
Fyrir nokkrum árum hittust ókunnug kona og ókunnugur maður. Þau felldu hugi saman, eins og gengur með ungt fólk. Með þeim tókust heitar ástir. Sagan endar ekki þar, heldur er rétt að byrja. Þau gengu í hjónaband og síðan í eina sæng. Að röskum níu mánuðum liðnum fæddi hans gullfallega kona barn.
Barnið var ótrúlega ljótt, að mati mannsins. Hann mat stöðuna þannig að útilokað væri að jafn fagur Kínverji og hann sjálfur gæti verið faðir svona ljóts barns. Öll börn og fullorðnir í hans ætt eru hver öðrum fallegri. Það var næsta víst að köttur hafi komist í ból bjarnar.
Kappinn lét þegar í stað taka DNA sýni úr ljóta barninu til að ekkert færi á milli mála. Niðurstaðan var sú að hann væri örugglega faðir barnsins. Þá var ekki um annað að ræða en rannsaka ljósmyndir af ættingjum konunnar. Þar var klárlega einhver ljótur arfberi. Rannsóknin leiddi í ljós að það var kínverska eiginkonan, barnsmóðirin, sem var svona herfilega ljót. Hvernig mátti það vera?
Svarið leyndist í leyndarmáli: Konan hafði - áður en hún kynntist fagra manninum - farið í sex lýtaaðgerðir. Samtals hafði hún kostað sem svarar 12 milljónum íslenskra króna í nýtt útlit.
Maðurinn taldi sig vera illa og gróflega svikinn. Hann sótti þegar í stað um skilnað frá flagðinu. Samtímis kærði hann konuna fyrir að hafa af makalausri ósvífni leitt sig í gildru. Dómarinn var manninum sammála. Hann dæmdi konuna til að borga fórnarlambinu sömu upphæð og andvirði lýtalækninganna + álagi. Samtals 14 milljónir ísl. króna.
Hvað varð um að útlitið skipti ekki máli? Það sé innrætið sem skipti máli. Er fegurðardýrkunin ekki komin út í öfgar í Kína? Þetta er ljót frétt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
10.9.2013 | 22:39
Kona bundin á pallbíl
Vegfarendum í Waco í Texas var illa brugðið í umferðinni á dögunum. Eru þeir þó ýmsu undarlegu vanir. Þaulvanir. Það sem olli þeim undrun núna var sjón sem blasti við er þeir óku á eftir hvítum pallbíl. Við blasti ljóshærð kona í hnipri á pallinum. Hún var bundin á höndum og fótum.
Vegfarendur gerðu hið rétta í stöðunni: Þeir hringdu í lögregluna og tilkynntu um unga konu í vandræðum aftan á pallbíl.
Þegar málið var rannsakað kom í ljós að aftan á pallbílnum var aðeins ljósmynd af konunni. Eigandi bílsins er skiltagerðarfyrirtæki. Myndinni er ætlað að sýna prentgæði á útprentuðum myndum fyrirtækisins. Eigandi skiltagerðarinnar fullyrðir að viðbrögðin við myndinni komi sér í opna skjöldu. Hann sá þau ekki fyrir, að sögn (les= fáviti). En viðurkennir treglega að uppátækinu sé ætlað að vekja athygli á skiltagerðinni.
Fagmenn í auglýsingabransanum skilgreina svona aðferð sem dapurlega lágkúru. Hún sé ekki nýstárleg heldur gamaldags, úrelt og skammarleg. Það hafi löngum tíðkast í pallbílabransanum að sýna hliðstæðar myndir af illri meðferð á konum.
Spurningu er varpað upp hvort að ástæða sé til að kæra og sekta fyrirtæki sem nota auglýsingaaðferðir er auki ástæðulaust álag á neyðarlínu lögreglunnar.
Löggæsla | Breytt 11.9.2013 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.9.2013 | 21:24
Uppfinningar sem "floppuðu"
Á hverjum einasta degi koma á markað bráðsnjallar nýjar uppfinningar. Flestar lúta að því að bæta líf okkar. Gera tilveruna þægilegri. Þökk sé letingjum. Það eru þeir sem finna leiðir til að auðvelda sér puðið. Vandamálið er að fyrir hverja eina nýja uppfinningu sem slær í gegn þá "floppa" 100 (talan er ónákvæmt slump). Ástæðan fyrir því snýr að markaðssetningunni. Annað hvort var ekki kannað - áður en varan fór í framleiðslu - hvort að spurn væri eftir henni. Eða hitt að "þörfin" fyrir vöruna er ekki kynnt á réttan hátt fyrir neytendum.
Fyrir næstum öld eyddi íslenskt ljóðskáld öllum sínum peningum í Danmörku í framleiðslu á járnlokum til að skella ofan á bjórglös. Hugmyndin var góð. Danir drekka gjarnan öl utan dyra. Járnlokið hélt flugum og fjúkandi drasli frá bjórnum. Engir keyptu járnlok. Þau ryðguðu til ónýtis í geymslu skáldsins.
Á móti höfum við ótal dæmi um vörur sem ekkert seldust árum saman. En með snjöllu markaðsátaki urðu vörurnar ómissandi á hverju heimili. Góð dæmi eru fótanuddtækin og Soda Stream.
Hér eru nokkrar uppfinningar sem ekki hafa náð almennilega inn á markaðinn:
Tjaldhælar með ljósi. Kæmu sér vel um verslunarmannahelgina í Herjólfsdal. Myndu forða mörgum ofurölvi unglingnum frá því að detta um tjaldið. Sömuleiðis myndu þeir hjálpa hinum sömu að finna tjaldið sitt.
Tölvuborð með göngubretti. Margir sem vinna við tölvur eyða dýrmætum tíma í að heimsækja líkamsræktarstöðvar og rölta klukkustundum saman á göngubretti. Þann tíma má spara með því að rölta á göngubretti á meðan unnið er í Excel skjölunum.
Allir hundaeigendur kannast við vandamálið við að passa hundinn niðri á strönd eða á tjaldstæðinu. Fólk er að böðlast við að tjóðra hundinn; hann er samt sígeltandi á aðra og reyna að hlaupa af stað. Lausnin er hundataska undir baðstrandarstólnum.
Þegar matur hefur verið olíu- eða smjörsteiktur á pönnu eru stöðug vandræði við að fjarlægja feitina. Það er reynt að hella henni af pönnunni en þá dettur maturinn út um allt. Væri þá ekki gott að hafa við höndina plasttrekt sem síar olíuna frá án þess að maturinn detti út um allt.
Þegar gashellur eru brúkaðar kostar það stöðug þrif. Það er alltaf eitthvað að sullast niður. Væri ekki þægilegt að eiga kost á tilsniðnum mottum sem smellt er undir grindina og taka við öllu sullinu? Það hefði ég haldið.
Fyrir daga brauðristarinnar var logsuðutæki ómissandi á öllum betri heimilum. Með því ristaði fólk brauðið sitt. Þegar brauðristin kom til sögunnar átti hún ekki upp á pallborðið hjá almenningi. Aðal vandamálið var það að fólki gekk illa að skera sneiðar sem pössuðu í brauðristina. Fólk var að troða of þykkum sneiðum í hana. Þær festust. Tóm leiðindi. Sami maður og fann upp brauðristina leysti vandamálið með því að hefja sölu á niðursneiddu brauði. Þær sneiðar smellpössuðu í brauðristina. Þetta var göldrum líkast. Töfrarnir voru slíkir að niðursneidd brauð urðu tískubylgja og brauðristin var árum saman talin vera þarfasta heimilistækið.
Spaugilegt | Breytt 10.9.2013 kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.9.2013 | 13:22
Svíakonungur fer á kostum - spaugilegar myndir


Sérkennileg kímnigáfa Karls Gústafs Svíakonungs birtist á fleiri vegu en í sérkennilegum orðatiltækjum og tilsvörum. Illar tungur - sem ég tek ekkert mark á - segja að Kallinn sé einfaldlega nautheimskur en ekki húmoristi. Hann bulli út í eitt sem nævisti. Sé hinn raunverulegi Forrest Gump.
Kalli er sjúklega sólginn í höfuðföt af öllu tagi. Honum þykir ekki verra að þau séu undarleg. Kallinn má hvergi rekast á kjánalegan höfuðbúnað án þess að festa kaup á honum. Síðan verður hann viðþolslaus að viðra sig með húfuna á opinberum vettvangi.
Inn á milli bráir galsinn af kallinum og hann setur upp virðulegar húfur eða kórónur. Á heimasíðu konungs, annarra í konungsfjölskyldunni og konungsembættisins má finna margar skemmtilegar myndir af húfusnatanum.
![]() |
Hún er svo veik að það þarf að skera af henni eyrun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 9.9.2013 kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.9.2013 | 20:31
Undarleg leikfimi í Nóatúni
Þegar gengið er inn í matvöruverslunina Nóatún norðanmegin í Austurveri þá kemur maður fyrst að anddyri. Það er gler að framan og gler á báðum hliðum. Á hliðunum eru jafnframt glerhurðir með skynjara. Þegar einhver nálgast hurð þá opnast dyrnar sjálfvirkt. Mjög þægilegt.
Í dag átti ég sem oftar erindi í Nóatún. Mig langaði í Malt. Á bakaleiðinni út sá ég eldgamlan mann í anddyrinu. Hann var í kínverskri leikfimi. Hann stóð alveg upp við eina rúðuna og veifaði höndum hægt til og frá fyrir ofan höfuðið á sér. Jafnframt sveigði hann og beygði líkamann. Allt hægar hreyfingar. Kannski að hluta til vegna þess að maðurinn var greinilega óstöðugur til fótanna.
Ég staldraði við í augnablik og starði jákvæður á leikfimikúnstirnar. Hugsaði með mér að fleiri öldungar ættu að taka þennan sér til fyrirmyndar. Þessar hægu kínversku leikfimihreyfingar eru bráðhollar. Þær liðka allan skrokkinn og styrkja, ásamt því að koma hreyfingu á blóðrásina og eitthvað slíkt.
Svo gekk ég hröðum skrefum að dyrunum sem opnuðust með það sama. Þá var eins og gamli maðurinn vaknaði af svefni. Hann tók snöggt viðbragð, spratt af stað og næstum því ruddi mér til hliðar um leið og hann rauk hröðum skrefum fram úr mér út um dyrnar. Samtímis hrópaði hann fagnandi - ég veit ekki hvort til sjálfs síns eða mín: "Nú, þarna voru þá dyrnar!"
Spaugilegt | Breytt 7.9.2013 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.9.2013 | 21:29
Plötuumsögn
- Titill: Bláar raddir
- Flytjandi og höfundur laga: Gísli Þór Ólafsson
- Ljóð: Geirlaugur Magnússon
- Einkunn: **** (af 5)
Áður en ég skellti disknum undir geislann renndi ég yfir textabæklinginn. Ljóð Geirlaugs Magnússonar eru frjáls í forminu. Það er ekki sterkur hrynjandi eða taktur í þeim, né rím. Upp í huga mér kom spurningin: Hvernig í ósköpunum getur Gísli Þór samið dægurlög við svona ljóð? Svarið er: Hann ræður bærilega við það. Reddar sér snilldarlega fyrir horn þegar mest á reynir.
Ljóð Geirlaugs eru mögnuð; samanpakkaðir gullmolar; safarík orðsnilld. Ljóðin eru svo geislandi perlur að platan verður eiginlega skilgreind sem tónskreyttur flutningur á þeim. Samt geta lögin staðið prýðilega ein og sér - án þess að hlustað sé náið eftir ljóðinu.
Upphafslagið, Hringekjan, er eina rokkaða lagið á plötunni. Harður trommutaktur og kröftugur gítar. Grípandi stuðlag.
Við tekur Rökkur; gullfallegt og hátíðlegt. Hálfgerður sálmur. Svo kirkjuleg er stemmningin. Einungis söngur og hljómborð. Mjög Toms Waits-legt lag og Toms Waits-legur söngur. Andi Toms Waits svífur víðar yfir vötnum á plötunni. Mest í lokalaginu, Fugl sem fuglari, fyrir utan Rökkur. Þau tvö eru bestu lög plötunnar. Tilviljun? Held ekki.
Fugl sem fuglari er vals, spilaður á harmonikku (ásamt kontrabassa og kassagítar). Frábært lokalag.
Þau sjö lög sem eru á milli Rökkur og Fugl sem fuglari eru "venjulegri". Það er ónákvæm lýsing sem segir fátt. Það segir ekki mikið meira að tilgreina að þau lög hafi ekki sömu sterku sérkenni og lögin sem hafa verið nefnd. Engu að síður ljómandi fín lög, hvert fyrir sig. Það er engan veikan punkt að finna á plötunni.
Gísli Þór spilar sjálfur á fjölda hljóðfæra (gítar, bassa, orgel). Honum til aðstoðar er Sigfús Arnar Benediktsson sem spilar á trommur, gítar og hljómborð. Jón Þorsteinn Reynisson spilar á harmonikku. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir syngur bakrödd í Hringekjan.
Glæsilegt málverk á forsíðu er eftir Margréti Nilsdóttur.
Tónlist | Breytt 6.9.2013 kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.9.2013 | 20:42
Heimsfræg bandarísk poppstjarna syngur færeyskt lag inn á plötu
Höfundur lags sem vinsælar og heimsfrægar poppstjörnur syngja og gefa út á plötum er í góðum málum. Fyrir það fyrsta gefur það ágætan pening í aðra hönd. Oft kemur það sér vel að fá marga peninga í vasann. Í annan stað er það öflug kynning fyrir lagahöfundinn. Aðrir flytjendur sjá nafn höfundarins. Ef þeir kunna vel við lagið geta viðbrögð orðið þau að kynna sér fleiri lög eftir sama höfund. Margar af skærustu poppstjörnum heims hófu feril sinn sem höfundar laga sem poppstjörnur sungu og gáfu út á plötu. Þannig var það með Kris Kristofferson. Lag eftir hann rataði inn á plötu með Jerry Lee Lewis. Í kjölfarið pikkuðu Johnny Cash, Janis Joplin og fleiri lög hans upp og gáfu út í sínum flutningi. Svipaða sögu má segja um Willie Nelson og ótal aðra.
Í þriðja lagi er þetta mikil viðurkenning á hæfileikum höfundar. Vinsælar og heimsfrægar poppstjörnur hafa úr milljónum laga að velja þegar þær syngja inn á 12 - 14 laga plötu. Hvert lag sem þær syngja eftir aðra en sjálfa sig þarf virkilega að heilla viðkomandi.
Núna í lok september sendir bandaríska söngkonan og leikarinn Cher frá sér sína fyrstu plötu í 12 ár. Platan heitir Closer to the Truth. Hún inniheldur 14 lög. Þar af eitt færeyskt. Það heitir My Love og er eftir Gretu Svabo Bech.
Lagið var upphaflega samið fyrir og flutt af hljómsveitinni Picture Book sem Greta var í fyrir nokkrum árum.
Greta var stödd inni í mátunarklefa í fataverslun í London þegar síminn hringdi. Á línunni var starfsmaður Cher. Hann spilaði lagið í flutningi Cher og spurði hvort að Greta væri sátt við útkomuna. Greta varð svo undrandi að hún varð ringluð og spurði sjálfa sig: Hver er ég? Hvað er þetta?
Cher hefur átt fjölda laga á toppi vinsældarlista. Fyrst sem dúettinn Sonny & Cher. Síðan undir eigin nafni sem sólósöngvari.
Greta rekur sitt eigið hljóðver í Miðvági í Færeyjum.
Á myndbandinu fyrir neðan syngur Greta með Picture Book (lagið hefst ekki fyrr en á 38. sek).
Sennilega er Believe þekktasta lag Cher til þessa. Svo tekur My Love eftir Gretu Svabo við.
Tónlist | Breytt 5.9.2013 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.9.2013 | 23:03
6 ára prjónar sín eigin föt
Sem barn prófaði ég að prjóna. Það fór allt í rugl. Prjónarnir fóru í vitlausa átt, garnið flæktist og ég áttaði mig aldrei á því hvað ég var að reyna að prjóna. Niðurstaðan varð sú að það sé kúnst að prjóna.
Í Færeyjum ríkir sá skemmtilegi siður að við upphaf skólagöngu fær nýneminn nýja prjónapeysu. Oftast er það amman sem prjónar peysuna. Þessi siður gerir upphaf skólagönguna ævintýralegri og skemmtilegri en annars.
Tilhlökkun að eignast nýja prjónapeysu er hjá mörgum eftirsóknarverðara og meira spennandi en að setjast á skólabekk.
6 ára stelpa í Rituvík gerði sér lítið fyrir á dögunum og prjónaði sjálf nýju peysuna á sig. Nicolína Æðustein Daníelsen heitir stelpan. Hún getur prjónað hvaða flík á sig sem er. Hún sá ömmu sína prjóna og áttaði sig algjörlega út á hvað prjónaskapur gengur. Nicolína frumsemur sjálf mynstur og hannar útlit á fatnaðinum sem hún prjónar. Hún þarf ekkert að sækja í uppskrift frá öðrum. Henni þykir flottast að láta ólíka liti kallast á. Samtímis gætir hún þess að hafa hemil á mynstrum og litadýrð. Hún lætur mynstrin endurtaka sig með smá tilbrigðum. Hún passar líka upp á að ráðandi einlitir fletir fái að njóta sín.
Fatahönnun er ekki mín bjórdós. Engu að síður dáist ég að útfærslunni. Það er virkilega töff hvernig Nicolína lætur vvv-laga mynstrið endurtaka sig neðst á peysunni og endurtekur það í stærra sniði ofar á peysunni. Að láta aðra ermina kallast á við græna litinn í mynstrinu og hálsmálinu er djörf og vel heppnuð snilld.
Ég spái Nicolínu glæsilegum frama á sviði fatahönnunar í framtíðinni. Það bara hlýtur að vera.
Menning og listir | Breytt 4.9.2013 kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.9.2013 | 22:39
Sadistar og kynferðislega brenglaðir hafa eyðilagt busavígslur
Það er fyrir löngu síðan tímabært að tekið sé af alvöru á busavígslum. Það er fyrir löngu síðan fullljóst að busavígslur þjóna þeim eina tilgangi að fróa annarlegum hvötum sadista og kynferðislega brenglaðra einstaklinga. Þeir fá "kikk" út úr því að þvinga nýnema undir sitt vald og niðurlægja þá. Fjölmörg dæmi eru þess að busun sé upphaf á einelti.
Það er fyrir löngu síðan tímabært að ofbeldisfull framkoma brenglaðra busunarböðla sé skilgreint eins og annað ofbeldi. Og tekið á því eins og öðru ofbeldi. Ofbeldi varðar við lög. Sama á við um einelti. Það verður að fara að taka á því eins og hverju öðru ofbeldi og ofsóknum sem varða við lög.
Ég kann ekki sögu og þróun busavígslna. En ég þykist viss um að þær hafi verið saklaus leikur framan af. Ég man eftir busavígslum þar sem nýnemar voru "tolleraðir" (hent þrisvar upp í loftið). Það var ósköp saklaust. Ég man líka eftir busavígslum þar sem nýnemar voru látnir krjúpa fyrir framan fulltrúa eldri nema og fara með tiltekinn texta. Textinn gekk út á að businn lýsti sér sem vesalingi og lofaði að sýna eldri nemendum virðingu. Ósköp saklaust en kjánalegt. Það er eiginlega allt kjánalegt við busavígslur.
Þegar ég hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands fyrir næstum fjórum áratugum voru við busarnir leiddir - með bundið fyrir augun - einhverjar krókaleiðir og látnir smakka á einhverjum ógeðsdrykkjum. Ég vissi aldrei hvað var í þessum drykkjum. Það var þó að minnsta kosti lýsi. Þetta var bara kjánalegt.
Næsta ár á eftir sameinuðumst við bekkjarsystkinin um að leggja af þessar aulalegu busavígslur. Þess í stað buðum við busa velkomna með glæsilegu kaffihlaðborði. Sá siður festist í sessi í skólanum (minnir mig) öllum til gleði og ánægju.
Ég veit ekki hvenær sadistar og kynferðislega brenglaðir komust upp með að gera busavígslur að sínum degi. Degi þar sem þeir fengu átölulaust að níðast á öðrum. Sennilega misjafnt eftir skólum. En það verður að taka í taumana og stöðva þetta ofbeldi.
Það verður líka að fara að taka af alvöru á (líkamlega) ófötluðum sem leggja undir sig bílastæði fatlaðra.
![]() |
Busavígslum hætt vegna ofbeldis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.9.2013 | 15:48
Húsmóðir á sextugsaldri í Gullbringusýslu breyttist í ungling
Þetta er frétt sem lýtalæknar hata og vilja þagga í hel. Þetta er vel varðveitt leyndarmál sem framleiðendur Botox og snyrtistofur vilja ekki að þú fréttir af. Alls ekki. Þetta er saga af 53ja ára ráðsettri konu í Gullbringusýslu. Á örfáum dögum breyttist hún í ungling. Núna er hún með bullandi unglingaveiki, hlýðir hvorki foreldrum sínum né öðrum, djammar út í eitt, vakir allar nætur og safnar úrklippum um Justin Bieber.
Það eina sem konan, María, gerði var að kaupa hræódýr útlensk krem. Svokölluð yngingarkrem. Kremin sjálf eru óvirk. Það er trúin á kremin sem gerir gæfumuninn. Trúin flytur fjöll og búslóðir.
Vísindi og fræði | Breytt 2.9.2013 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.8.2013 | 12:59
Hvers vegna?
Í næst síðustu bloggfærslu minni, hér fyrir neðan, er samantekt á listum ýmissa fjölmiðla yfir bestu plötur rokksögunnar. Athygli vekur að allar plöturnar á listunum eru komnar vel til ára sinna. Þar af flestar frá sjöunda og áttunda áratugnum. Bítlarnir, Nirvana, Pink Floyd, Clash, Beach Boys, Bob Dylan, Rolling Stones og aðrir slíkir einoka listana. Langyngsti flytjandinn er Radiohead með langnýjustu plöturnar. Sú nýrri þeirra kom út fyrir 16 árum.
Af hverju eiga nýliðar og nýrri plötur erfitt uppdráttar á svona listum? Ég gerði könnun: Skoðaði forsíður nýjustu tölublaða helstu tónlistartímaritanna. Og sjá: Þær eru undirlagðar þessum sömu gömlu og rótgrónu nöfnum. Sömu nöfnum og tróna efst á listum yfir bestu plöturnar.
Af langri reynslu hafa ritstjórnir þessara tímarita lært hvaða forsíðuumfjallanir selja blöðin. Þær þekkja kaupendur blaðanna. Vita hvað þeir vilja.
Þetta er einskonar sjálfhelda: Tímaritin fóðra lesendur á endalausri og síendurtekinni umfjöllun um sömu gömlu poppstjörnurnar. Lesendur eru búnir að lesa svo oft sömu klisjurnar um þessar poppstjörnur að þeir kunna þær utan að. Út á það gengur skemmtunin: Það er þægilegt að lesa kunnuglegan texta og rifja upp sögurnar af gömlu hetjunum sínum. Það gefur jafnframt ástæðu til að endurnýja kynni við gömlu góðu plöturnar enn einu sinni. Það er góð skemmtun.
Kannski er líka kominn tími til að kaupa ný "remasteruð" eintök af plötunum - með aukalagi. Það er gaman. Sú er ástæðan fyrir því að almennar plötubúðir eru hættar að hafa á boðstólum aðrar plötur en þessar með gömlu góðu poppstjörnunum (ásamt þeim sem eru efst á vinsældalista dagsins). Í plötubúðunum eru allar plötur Bítlanna, Rolling Stones, Dylans og Clash. Plötur með minna þekktum tónlistarmönnum fást ekki lengur í almennum plötubúðum.
Klassíska rokkið er allsráðandi á markaðnum. Það er í góðu lagi út af fyrir sig. Rúnar heitinn Júlíusson orðaði það einhvernvegin þannig: "Mínar gömlu hetjur, Hendrix og Led Zeppelin, standast svo vel tímans tönn að ég hef ekki þurft að skipta þeim út fyrir nýrri stjörnur."
Tíminn gegnir veigamiklu hlutverki í tónlist. Eitt af þeim hlutverkum er að tíminn sorterar hismið frá kjarnanum. Gullmolarnir verða eftir og glansa skærar með hverju ári. Plötur sem þola ítrekaða og langvarandi spilun verða klassík. Hinar verða tröllum að bráð og gleymast án þess að nokkur sakni þeirra.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)