4.4.2013 | 03:23
Má ég bjóða þér á hljómleika?
Ég er alltaf af og til að bjóða ykkur á ókeypis hljómleika, í kvikmyndahús eða á aðrar skemmtanir. Það er hvergi lát þar á. Þetta ætlar engan enda að taka. Enda gaman. Nú er röðin komin að laugardeginum, næsta laugardegi (6. apríl 2013). Klukkan 21.00 stígur á stokk í Sjóminjasafninu á Grandagarði 8 í Reykjavík færeyska kventríóið Pushing Up Daisies. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Dorthea Dam, Jensia Höjgaard Dam og Óluvá Dam skipa Pushing Up Daisies. Þær syngja allar og spila undir á gítar og píanó. Lögin eru falleg og söngurinn himneskur.
Lagið í myndbandinu hér efst, Hey Candy með Dortheu Dam, var eitt mest spilaða lag í færeyska útvarpinu á síðasta ári. Sennilega verður það langlíft. Þrátt fyrir að vera snoturt og grípandi þá þolir það ítrekaða spilun. Sumum þykir lagið í myndbandinu hér fyrir neðan, When I´m Gone með Dortheu Dam, jafnvel ennþá magnaðra. Höfundur laganna er William Silverthorn. Hann er eiginmaður Dortheu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.4.2013 | 01:07
Wow sló í gegn enn einu sinni!
Ég brá mér til Lundúnaborgar yfir páskana, frjósemishátíð til heiðurs frjósemisgyðjunni Oester (Easter). Það var ægilegur barlómur í Bretum. Meira um það síðar. Allt annað hljóð og jákvæðara var í flugáhöfn Wow. Hún lék við hvern sinn fingur og reitti af sér vel heppnaða brandara. Farþegar veltust um úr hlátri. Þetta var í annað sinn sem ég ferðast með Wow til útlanda og aftur til baka. Ég gerði skilmerkilega grein fyrir fyrri ferðinni. Sjá: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1255933/
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2013 | 23:54
Anna á Hesteyri og Sævar Ciesielski
Ég var og er jafnaldri - eða því sem næst - þeirra sem saklaus voru dæmd fyrir morð á Geirfinni og Guðmundi. Ég vissi deili á þessum jafnöldrum. Varð var við þá á skemmtistöðum. Einhverju sinni keypti ég bjórkassa af Sævari (smygluðum - að ég held - ofan frá bandarísku herstöðinni í Keflavík). Þarna á fyrri hluta áttunda áratugarins var sala á bjór bönnuð á Íslandi. Bjórinn var talinn vera stórhættulegur fyrir land og þjóð. Gæti jafnvel framkallað ölvunarástand.
Ég fylgdist vel með fréttum af því þegar þetta fólk var handtekið (reyndar fyrir annað) og síðar sakað um morðin. Síðdegisblöðin Vísir og Dagblaðið fóru mikinn. Ruglið og bullið óx dag frá degi. Nánast frá fyrsta degi áttaði maður sig á því að ekki stóð steinn yfir steini. Þetta var fár sem í dag má líkja við Lúkasarmálið á Akureyri. Fjöður varð að hænu og dellan fór í hæstu hæðir. Allt sem snéri að rannsókn málsins var í skötulíki. Öll framvindan var skrípaleikur út í eitt.
Það sem verra var er að í ljós kom að ungmennin sættu grófum mannréttindabrotum. Meðal annars pyntingum og kynferðisofbeldi. Eftir óralanga einangrunarvist og gæsluvarðhald sem aðeins á sér hliðstæðu í 3ja heims ríkjum harðstjóra og í Guantanamó var unga fólkið dæmt til margra ára fangelsisvistar með rökum sem héldu hvergi vatni.
Þeir einir réttlæta dómana sem komu að málum við að fremja réttarmorðin og aðstandendur þeirra. Já, og vitaskuld Brynjar Nielsson væntanlegur dómsmálaráðherra (nema hann skræli fylgið þeim mun meir af Sjálfstæðisflokknum).
Víkur þá sögu að Önnu frænku minni á Hesteyri. Hún skemmti sér við að horfa á Spaugstofuna í sjónvarpi á laugardögum. Anna hreifst mjög af skemmtilegu rónunum Boga og Örvari. Hún tók ástfóstri við þá.
Anna hringdi í frænku okkar í Reykjavík og sagðist vita fátt skemmtilegra en róna. Vegna þess að Anna bjó ein og var baráttumanneskja gegn áfengi þá datt henni í hug að gaman væri að fá róna í einskonar afvötnun á Hesteyri. Hún myndi leiða þeim fyrir sjónir að áfengi sé óhollt og þeir gætu hjálpað henni við bústörf í staðinn.
Svo einkennilega vildi til að frænka okkar Önnu bjó í fjölbýlishúsi og þar var ekkjumaður. Hann var langdrukkinn. Skemmtilegur náungi. Spaugsamur og kattþrifinn. Frænka okkar sendi hann til Önnu. Þar uppfyllti kallinn hugmyndir Önnu um skemmtilega róna. Kallinn hófst handa við tiltekt á Hesteyri (og veitti ekki af eins og kom síðar fram í sjónvarpsþættinum "Allt í drasli"). Hann var jafnframt ágætur kokkur. Anna var alsæl með þennan róna. Í kjölfar hafði hún samband við lögregluna og bauðst til að taka að sér fleiri róna.
Þannig kom það til að Sævar Cielsielski varð húskarl hjá Önnu frænku á Hesteyri. Mínum heimildum ber ekki saman um hvernig það atvikaðist. Ein útgáfan snýr að því að Sævar hafi verið í einhverjum vandræðum er hann kom með Norrænu erlendis frá. Önnur útgáfa er sú að hann hafi verið á leið frá Íslandi með millilandaflugi á Egilsstaðaflugvelli. Hvor útgáfan sem er rétt þá kom Sævar í lögreglufylgd í Hesteyri og varð skjólstæðingur Önnu frænku.
Sævar þurfti reglulega að sækja lyf í Neskaupsstað. Hann keypti sér áfengi í leiðinni. Hann var þess vegna meira og minna "mjúkur" á Hesteyri. Anna þekkti ekki áfengislykt og tók ekkert eftir því að Sævar var að staupa sig. Sævar hafði stjórn á því að verða ekki verulega fullur. Önnu grunaði ekkert. Hún stóð í þeirri trú að hún væri að halda honum edrú á Hesteyri.
Bæði fyrir og eftir dvöl Sævars á Hesteyri hýsti Anna sennilega um tug annarra manna sem hún taldi sig vera með í afvötnun. Sævar var hennar uppáhald. Hann spilaði á gítar og þau sungu saman íslenska slagara á hverju kvöldi. Oft fram á nótt. Anna var dálítið laglaus (án þess að vita það). Sævar var lagvissari en söngstíll hans var ekki fágaður.
Anna átti það til að hringja í ættingja og leyfa þeim að heyra músík þessa sérkennilega dúetts. Anna hringdi líka í ættingja til að spjalla og er leið á samtal gaf hún það til Sævars. Vildi að hann kynntist ættingjunum. Í einu símtali við mig viðraði hann hugmyndir um að fara í auglýsingabransann. Ég vann þá á auglýsingastofu. Hann sagðist vera búinn að vinna við dúk- eða parketlagningar (að mig minnir) en langi til að láta reyna á teiknihæfileika. Hann langaði til að kaupa auglýsingastofu. Af því varð þó ekki.
Mér finnst eins og Sævar hafi oftar en einu sinni dvalið á Hesteyri.
Sævar Ciesielski var sá maður sem Önnu á Hesteyri þótti vænst um af öllum sem þar dvöldu. Henni þótti hann mjög skemmtilegur; "hlýr maður og góður," sagði hún. Anna lenti í miklum vandræðum með suma aðra. Til að mynda óþverrann Steingrím Njálsson.
Fleiri sögur af Önnu frænku: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1288207/
![]() |
Ekkert hjarta í Sævari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 4.6.2013 kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.3.2013 | 03:04
Ekki láta þessa framhjá þér fara!
Það gæti verið gaman fyrir ykkur að tékka á þessari plötu, World Music from the Cold Seas, um páskana. Þarna eru sérvalin lög frá Færeyjum, Grænlandi, Samalandi og Íslandi. Þar á meðal er fjöldi gullmola frá þessum löndum. Platan fæst í Smekkleysu plötubúð á Laugavegi 35 og kannski víðar.
Um World Music from the Cold Seas segir svo á heimasíðu færeyska plötufyrirtækisins Tutl:
"World Music from the Cold Seas" is an independent continuation of the successful metal rock CD "Rock from the Cold Seas". Based on traditional music, the performances here are a mix of ethnic sounds of several cultures from across the land. The CD samples the multi-faceted indigenous music of the Cold Seas. Listen to the traditional beats of the Greenlandic drumdance. Or groove to a funky techno drumdance. Find out why the fresh and powerful Týr jumped straight to No.1 in the Faroe Islands and Iceland with a rock rendition of an old Faroese ringdance. International audiences and critics alike have deemed Yggdrasil's Eivør to be one of the most talented female singers in the world. The Sami weave a spell of beautiful yoik trance. The yoik, Europe's oldest musical form, will touch you and capture you in its timelessness. Margret Ornolfsdottir's rock group the Sugarcubes introduced Bjork to the world. Klakki's "Faeding Mafsins II" is co-written by Sjon another well-known collaborator of Bjork's. The two of them were Oscar nominees for the music to Lars von Trier's film "Dancer in the dark". Let the music enchant you with the brave, new "World Music from the Cold Seas".
Sjá: http://www.tutl.com/shop/published/SC/html/scripts/index.php?productID=677
Og umsagnir Íslendinga:
http://bubbij.123.is/blog/record/645100/
http://meistarinn.blog.is/blog/meistarinn/entry/1279914/
Tónlist | Breytt s.d. kl. 03:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2013 | 01:43
Auðvelt að verjast bílaflakki
Algengt er að bílar fari á flakk. Þeir renna burt. Þeir fjúka burt. Þeir fljúga burt. Þeim er stolið. Það er til einföld aðferð sem kemur í veg fyrir öll slík óhöpp. Aðferðin felst í því að leggja við ljósastaur eða aðra jarðfasta hluti og tjóðra bílinn rækilega við þá. Til að mynda með því að kaupa ódýran reiðhjólalás. Einhverjum kann að finnast það vera haldlítil vörn gegn bílaþjófum. Auðvelt er að klippa reiðhjólalás í sundur. Málið er að bílaþjófar eru heimskir. Þeir fatta þetta ekki og sniðganga tjóðraða bíla.
Það er líka hægt að bora með steinbor í malbikið og festa bílinn með böndum.
![]() |
Bíll flaug á hús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2013 | 02:21
Smásaga um rómantíska helgarferð til Parísar
"Af hverju talar þú svona einkennilega?"
Bækur | Breytt 25.3.2013 kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.3.2013 | 02:35
Kvikmyndarumsögn
- Titill: Identity Thief
- Leikstjóri: Seth Gordon
- Leikarar: Jason Bateman, Melissa McCarthy o.fl.
- Kvikmyndahús: Háskólabíó
- Einkunn: *** (af 5)
Upphaf myndarinnar lofar ekki góðu. Hún hefst á barnalegum aulahúmor og fyrirsjáanlegum klisjum. En svo braggast myndin þegar á líður, Úr verður þokkaleg skemmtun. Þar á meðal æsilegur bílaleikur og af og til dálítil spenna.
Myndin fjallar um starfsmann hjá fjárfestingafyrirtæki í Colorado. Hann verður fyrir því að greiðslukort hans er klónað. Gerandinn er siðblind kona í Flórída. Hún tæmir inneign mannsins. Við það fer tilvera hans á haus. Hann leitar konuna uppi og reynir að semja við hana um að leysa málið í góðu. Hún þráast við til að byrja með en verður samvinnuþýðari þegar harðsvíraðir leigumorðingjar fara að herja á þau.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2013 | 12:56
Veitingaumsögn
- Réttur: Morgunverður
- Veitingastaður: Prikið, Bankastræti 12
Matur og drykkur | Breytt 21.3.2013 kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.3.2013 | 21:00
Ókeypis lag til niðurhals og uppselt á alla hljómleika
"Ferðalagið byrjaði í Þýskalandi og hefur gengið vonum framar en þetta verða nærri 30 tónleikar í 11 löndum á 31 degi," útskýrir Svavar Austmann, bassaleikari Sólstafa. Flestir tónleikarnir eru haldnir á meðalstórum stöðum sem taka 500 til 1000 manns. Það hefur verið smekkfullt öll kvöld enn sem komið er, og oftast uppselt," bætir Svavar við.
Nýtt smáskífulag
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2013 | 23:38
Kvikmyndarumsögn
Kvikmyndir | Breytt 18.3.2013 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2013 | 23:24
Anna á Hesteyri sendi póst
Þegar aldurinn færðist yfir Önnu frænku á Hesteyri dró úr póstsendingum frá henni. Kannski vegna þess að rithöndin varð óstyrkari. Kannski vegna þess að sjón dapraðist. Kannski þó helst vegna þess að hún fór að nota síma í auknum mæli eftir að landið allt varð eitt og sama gjaldsvæðið hjá Símanum. Áður var mjög dýrt að hringja út fyrir sitt gjaldsvæði. Þannig símtöl kölluðust langlínusímtöl. Lengst af var að auki aðeins hægt að hringja langlínusamtöl á afmörkuðum tímum dags: Klukkutíma að morgni og tvo klukkutíma síðdegis. Eða eitthvað svoleiðis.
Þó að landið yrði eitt gjaldsvæði þá voru símreikningar Önnu mjög háir. Jafnan upp á tugi þúsunda. Hún var stundum í vandræðum með að standa skil á þeim.
Hugsanlega sendi Anna oftar póst en við ættingjar og vinir hennar urðum varir við. Anna varð nefnilega sífellt kærulausari með að merkja nákvæmt póstfang á umslögin.
Um tíma bjó ég á Grettisgötu 64 í Reykjavík. Flest hús við Grettisgötu eru fjölbýlishús (blokkir). Þetta eru gamlar byggingar og gamaldags. Á útidyrahurð hvers stigagangs er ein bréfalúga. Inn um hana setur póstburðarmaðurinn allan póst í einni hrúgu. Íbúarnir sjálfir fiska síðan úr bunkanum sinn póst.
Eitt sinn sá ég í pósthrúgunni umslag með áletruninni "Heimilisfólkið á Grettisgötu í Reykjavík". Umslagið hafði verið opnað. Ég kíkti í umslagið. Það innihélt fjölda ljósmynda af Önnu, foreldrum hennar, mömmu minni og hennar systkinum og afa mínum. Þegar ég kannaðist svona vel við fólkið á myndunum þekkti ég einnig rithönd Önnu utan á umslaginu. Póstsendingin var frá Önnu til mín. Ég rak jafnframt augu í að póststimpillinn á umslaginu var margra vikna gamall.
Á þessum árum lagði póstburðarfólk sig í líma við að koma öllum pósti til rétts viðtakanda hversu fátæklegar, rangar eða villandi sem upplýsingar utan á umslagi voru. Í þessu tilfelli hafði póstburðarmaðurinn brugðið á það ráð að bera sendinguna frá Önnu fyrst á Grettisgötu 1. Þegar enginn veitti umslaginu viðtöku þar var það næst borið út á Grettisgötu 2. Þannig koll af kolli uns það barst loks í réttar hendur á Grettisgötu 64.
Anna frænka féll frá 2009. Fyrir jólin 2008 hringdi í mig kona. Hún kynnti sig með nafni og sagðist hafa fengið jólakort frá Önnu á Hesteyri. Konan þekkti Önnu ekki neitt en hafði lesið um hana á blogginu mínu. Konan var þess fullviss að jólakortið væri ætlað einhverri alnöfnu sinni. Þær væru nokkuð margar svo konan brá á þetta ráð; að hringja í mig. Utan á umslagið hafði Anna aðeins skrifað nafnið og Reykjavík. En ekkert heimilisfang.
Nafnið hringdi einhverjum bjöllum hjá mér. Ég hafði heyrt það áður. Ég bað konuna um að lesa fyrir mig textann í jólakortinu. Þar kallaði Anna viðkomandi systir. Þá áttaði ég mig á því að Anna hefði nefnt þetta nafn einhvern tíma við mig í samhengi við aðventísta (Anna var aðventísti). Mér dugði að hringja í Kirkju sjöunda dags aðventísta og spyrja um heimilisfang konunnar. Hún reyndist vera búsett í Kópavogi (en ekki Reykjavík).
Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1286915/
Spaugilegt | Breytt 16.3.2013 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2013 | 01:54
Viðbjóður í Ohio
Nauðgunarmálið í Ohio er ljótara en virðist vera af léttvægum fréttum af því. Forsagan er sú að fórnarlambið, 16 ára stelpan, átti í ástarsambandi við vinsælan boltaleikmann í Steubenville í Ohio. Svo sagði hún honum upp. Hann trylltist. Dældi smáskilaboðum (sms) á vini sína um að hann sætti sig ekki við umsögnina. Orðrétt sagði hann: "Það segir mér engin upp". Hann sór þess eið að rústa stelpunni.
Hún var leidd í gildru. Sameiginlegur vinur stelpunnar og stráksins fullvissaði stelpuna um að hótanir boltabullunnar væru marklausar. Hann fékk hana til að mæta í gleðskap. Hún var sótt í bíl og þar boðið upp á drykk. Sá drykkur var göróttur og stelpan missti þegar í stað ráð og rænu. Eftir það var henni nauðgað af fjölda drengja. Henni var rænulausri dröslað á milli partýa þar sem henni var ítrekað nauðgað. Gerendur skemmtu sér vel við að taka upp myndbönd af því og deila myndum af því á fésbók. Rosalega fyndið að því er þeim þótti. Til eru myndbönd af gerendum segja flissandi frá þessu skemmtiefni.
Vondu fréttirnar ofan í vondu fréttirnar er að samfélagið í Steubenville stendur að hluta með nauðgurunum. Boltabullurnar þar eru í hávegum. Þær standa undir tekjum sveitafélagsins.
![]() |
Hún sagði aldrei skýrt nei |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.3.2013 | 19:50
Ráð til að fá börn til að borða pizzu
Pizza er þekkt flatbaka og vinsæl meðal fátæklinga á Ítalíu. Svo vinsæl að hún einskonar vörumerki fyrir Ítalíu. Reyndar á hún ættir að rekja aftur til Forngrikka en barst eftir krókaleiðum til Ítalíu fyrir þremur öldum eða svo. Ástæðan fyrir gríðarlegum vinsældum pizzunnar meðal ítalskra fátæklinga er fyrst og fremst sú að hráefniskostnaður er lægri en við flestan annan mat. Einungis þarf hveiti, vatn, ger og matarolíu. Kannski örlítið salt. Þessum hráefnum er hnoðað saman og rúllað út í þunnan brauðbotn. Ofan á hann er dreift matarafgöngum úr ísskápnum sem annars væri hent í ruslið. Galdurinn er að saxa alla bita í smátt. Ef harður ostbiti finnst í ísskápnum er ágætt að raspa hann niður og strá yfir. Flatbakan er síðan bökuð í ofni. Eftir bankahrunið er pizza heppilegur kostur á fátækum heimilum.
Vandamálið er að börn fúlsa jafnan við þessum fátækramat. Þau vilja frekar siginn fisk og grænmetisbuff. Það eru til ráð við því vandamáli. Eitt ráðið felst í svokallaðri kolkrabbapizzu. Hún er útfærð á þennan hátt og börnunum talin trú um að þetta sé ekki pizza heldur kolkrabbi:
Sama hátt má hafa á með kisupizzu. Börnum þykir spennandi að halda að þau séu að borða kisu.
Í desember og janúar er upplagt að bjóða upp á jólasveinspizzu. Börn elska að halda að þau séu að borða jólasvein.
Þegar börn læra á klukku er upplagt að segja því að vekjaraklukkan hafi bilað. Þess vegna sé best að snæða hana.
Þegar barn á afmæli er kannski hægt að spandera hamborgurum, kjúklinganöggum og frönskum á pizzuna.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.3.2013 | 22:13
Veitingaumsögn
Matur og drykkur | Breytt 21.3.2013 kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.3.2013 | 00:36
Anna Marta og fjölskyldugrafreiturinn á Hesteyri
Anna Marta á Hesteyri var ekki aðeins náttúrubarn. Mikið náttúrubarn. Hún var einnig barn að sumu öðru leyti. Ekki samt nævisti. Alls ekki. Móðir hennar var sérlunduð og eiginlega ekki alveg heil heilsu. Hún talaði iðulega barnamál við Önnu fram eftir öllu. Það leiddi til þess að Anna var með einkennilegan framburð. Til að mynda sagði hún r þar sem á að vera ð í orðum. Fyrir bragðið var hún af sumum þekkt undir nafninu Anna "góri minn".
Þó að Anna yrði dálítið stór og mikil um sig er hún fullorðnaðist hélt móðir hennar þeim sið að láta hana setjast á hné sér og greiddi henni eins og lítilli stelpu. Hár Önnu var krullað og úfið og þolinmæðisverk að greiða það.
Anna var jafnan jákvæð og ljúf. Hún átti það samt til að snöggreiðast af litlu tilefni eins og óþekkt barn. Þá hækkaði hún róm og varð verulega æst. Eitt sinn er hún var í heimsókn hjá mér barst tal einhverra hluta vegna að Gvendi Jaka. Ég lét einhver neikvæð orð um hann falla. Það fauk svo í Önnu að hún spratt á fætur og hrópaði eða eiginlega hvæsti á mig að Guðmundur Jaki væri góður maður. Í önnur skipti átti hún það til að æsa sig í símtölum vegna - svo dæmi sé tekið - þess að einhver hafði gagnrýnt Vigdísi fyrrverandi forseta.
Á Hesteyri er fjölskyldugrafreitur. Þar hvíla meðal annars afi minn og amma. Afi minn og faðir Önnu voru bræður.
Eitt sinn áttu frændi minn og kona hans leið um Austfirði. Þau ákváðu að heilsa upp á Önnu dagspart og skoða leiði afa okkar og ömmu. Leiði þeirra reyndist vera í niðurníðslu, eins og frændi minn reyndar vissi af áður. Þess vegna mætti hann á Hesteyri með blóm til að gróðursetja á leiðin. Jafnframt sló hann gras á leiðunum, snyrti þau, rétti af legsteina, pússaði þá, snurfusaði og gerði leiðin afskaplega fín.
Þetta varð margra klukkutíma vinna. Að henni lokinni kvöddu frændi og konan hans Önnu og hugðust halda áfram för. En þá snöggfauk í Önnu. Henni þótti það vera ósvífni af versta tagi að snyrta tvö leiði og skilja önnur útundan í niðurníðslu. Anna var svo reið og sár og æst að frændi og kona hans neyddust til að breyta ferðaáætlun með tilheyrandi óþægindum og framlengja dvöl á Hesteyri um annan dag til að snyrta og snurfusa allan fjölskyldugrafreitinn þangað til Anna varð sátt.
Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1283923/
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2013 | 22:54
"Merkilegur menningarvitnisburður"
"Nú skömmu fyrir jólin læddist inn um lúgu hjá mér skífa nokkur sem eftir því sem tíminn líður og meira er hlustað, verður meira og meira skemmtileg og góður vitnisburður fyrir sinn (þjóða)hatt!"
Svo segir Magnús Geir Guðmundsson um kynni sín af vest-norrænu safnplötunni World Music from the Cold Seas. Magnús Geir var árum saman plötugagnrýnandi dagblaðanna Tímans og Dags. Magnús Geir segir ennfremur:
"Ansi fjölbreytt flóra þarna á ferðinni, meira og minna rammþjóðleg, ný lög í bland við eldri og kunnari, samanber hinn geysivinsæla Orm víkingarokkaranna í Týr (svei mér ef lagið var bara ekki það alvinsælasta hérlendis um langt skeið?) þjóðbraginn gamla um Ólaf (í frábærum flutningi Tryggva o.fl.)...
Þau Elín og Johann Anders frá Samalandi eru bæði með gríðarfín lög, hennar ansi seiðmagnað bæði og kraftmikið, minnti mig í senn á eitthvað í anda Bjarkar og eitthvað svona austrænt í taktinum. Hans þjóðlegra en þó skemmtilega djassskotið.
Hin íslensk-danska Klakki er þarna sömuleiðis með ansi flott lag er hreif mig vel og þannig mætti telja fleiri lög af plötunni.
Síðan má ekki láta hins merkilega færeyska músíkfrömuðar, Kristian Blak, ógetið, en ekki aðeins gefur hann plötuna út sem eigandi Tutl, heldur kemur hann við sögu allra hinna færeysku laganna og gaf auðvitað Týr út á fyrri stigum. Stórmerkilegur maður og áhrifamikill!
Þessi eftirfari hinnar mögnuðu og rokkuðu Rock From The Cold Seas kemur mér satt best að segja mjög þægilega á óvart, vel heppnað samsafn í alla staði í öllum þeim ólíku tónmyndum sem þar birtast.
Merkilegur menningarvitnisburður um hve margt er að finna hjá þessum fjórum ólíku en menningarríku þjóðum í norðri!"
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.3.2013 | 23:37
Frábær mynd
Dýr eru merkilegar skepnur og áhugaverðar um margt. Mörg dýr gera glöggan greinarmun á fullorðinni manneskju annarsvegar og ungu barni hinsvegar. Til að mynda sýna kettir ungum börnum ótrúlegt umburðarlyndi. Barnið bögglast klaufalega með köttinn, togar í skottið á honum eða gerir annað sem klárlega veldur kettinum sársauka eða veruleg óþægindi. Kötturinn lætur sig hafa þetta. Hann bregst ekki til varnar. Reynir, jú, varlega að koma sér úr aðstæðunum án þess að valda barninu ama. Kötturinn hefur fullan skilning á að þarna sé óviti að verki.
Þess er líka fjöldi dæmi um að kettir vakti barnavagn þegar kornabarn sefur úti.
Algengt er að hestar hagi sér allt öðru vísi með ungt barn á baki en fullorðna manneskju. Með ungt barn á baki getur ólmasti hestur orðið ljúfur sem lamb. Hann gerir allt sem hann getur til að varna því að barnið detti af baki. Hann gengur til hliðar ef barnið hallar á aðra hlið. Gengur undir því, eins og það er kallað. Það er hrífandi að fylgjast með því hvernig verstu tryppi skipta um gír með ungt barn á baki. Umhyggja fyrir ungviðinu gengur fyrir öllu.
Hundar finna iðulega til sterkrar ábyrgðartilfinningar þegar ungt barn er á heimilinu. Ef hvutta finnst barnið fara glannalega í námunda við vatn grípur hann þegar í stað til varúðarráðstafana.
![]() |
Rottur stærri en kettir í Tehran |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 6.3.2013 kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.3.2013 | 20:18
Bráðnauðsynlegt að vita
Líftími örbylgjuofna er yfirleitt stuttur - til samanburðar við ísskápa og önnur heimilistæki. Síðasti örbylgjuofninn minn entist aðeins í rúm tvö ár (eða réttara sagt næst síðasti því að ég var að kaupa nýjan). Örbylgjuofnar eru hrekkjóttir og illgjarnir. Þeir bila þegar verst stendur á. Til að mynda þegar fólk vaknar skelþunnt og hugsar með eftirvæntingu til pizzasneiðar frá deginum áður í ísskápnum. Sneiðinni er skellt með hraði í örbylgjuofninn og ýtt á start. En ekkert gerist. Örbylgjuofninn er bilaður.
Þá er til ráð sem leysir örbylgjuofninn snöfurlega af hólmi: Ráðið felst í því að skorða straujárn þannig að slétta hliðin snúi upp. Straujárnið er hitað og pizzasneiðin lögð ofan á. Til að hita efri hluta pizzunnar er heitu lofti frá hárblásara beint að henni. Á skammri stundu verður pizzasneiðin eins og ný og ilmandi matarlykt kitlar nefið.
Þetta ráð má einnig nota á ferðum um landið og erlendis. Fólk hímir svo oft svangt á hótelherbergi og langar í rjúkandi heita pizzasneið, hamborgara, beikon, spælegg eða annað. Þá er minnsta mál í heimi að skjótast út í búð og bera björg heim á hótel. Svo er bara að draga fram straujárnið og hárblásarann.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.3.2013 | 19:19
Veitingaumsögn - Grill 66
![]() |
Opnar Joe & the Juice á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.3.2013 | 20:50
Óhefðbundið
Sumir ökumenn fara í hvívetna eftir umferðarlögum. Þeir leggja til að mynda bílnum einungis í lögleg bílastæði. Það er hefðbundin hegðun. Aðrir reyna þetta en tekst ekki alltaf sem best upp. Enn aðrir fara óhefðbundnar leiðir. Þeir búa til sínar eigin reglur eftir hentugleika. Það eru þeir sem eiga dýrustu fjölskyldubílana. Frumleiki þeirra vekur hvarvetna undrun og hrifningu.
Þessi notar alltaf spil á vörubíl til að leggja fjölskyldubílnum snyrtilega í holur sem hann hefur áður grafið.
Fjölskyldumenn sem ólust upp með heimilisdýrum umgangast bíla sína eins og lifandi verur. Eftir langa ökuferð leggja þeir bílinn á hliðina. Það er til að leyfa honum að hvílast. Jafnframt brynna þeir honum um leið.
Örfáir ökumenn kunna þá list að leggja ofan á trjám. Það er svo að bílinn renni ekki úr stæðinu.
Fleiri reyna að leggja á ljósastaur. Það tekst sjaldnast vel. Vænlegra er að leggja á vegrið.
![]() |
30 milljarðar á ári í umferðarslys |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)