3.3.2015 | 04:22
Ringo segir Paul hafa látist í bílslysi 1966
Tónlist | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.3.2015 | 21:24
Viðhald festist við gifta konu
Í sveitinni í Hjaltadal fóru tíkur stundum á flakk á milli bæja. Þá voru þær á lóðaríi. þegar hundar sinntu þeim festi tíkin þá í dágóða stund. Þetta getur hent í samskiptum fólks líka. Til að mynda í S-Afríku. Þar kom harðgift hálf fertug kona sér upp viðhaldi, tvítugum dreng. Eiginmanninn á fimmtugsaldri grunaði þetta. Til að komast að hinu sanna þá leitaði hann til töfralæknis. Sá framkvæmdi þegar í stað svartagaldur og lagði á konuna. Það var eins og við manninn mælt. Viðhaldið festist við hana í ástarleik.
Þegar konan og friðillinn uppgötvuðu vandamálið hrópuðu þau á hjálp. Sem betur fer voru allar dyr í húsinu ólæstar. Verra var að fólkið sem kom fyrst að gat enga hjálp veitt. Þess í stað hringdi það í vini og kunningja í nágrenninu og sagði tíðinda. Á örskammri stundu var 2000 manna hópur mættur á svæðið til að fylgjast með vandræðum elskendanna.
Fólk flissaði, tók bakföll og ljósmyndir. Þetta þótti góður farsi. Lögreglu bar að. Fólkið vildi halda áfram að fylgjast með. Lögreglunni tókst seint og síðar meir með hjálp piparúða að fæla fólkið á brott. Að lokum voru turtildúfurnar fluttar á sjúkrahús. Þar var konunni gefið vöðvaslakandi lyf til að losa um vöðvakrampann.
Myndin sýnir mannfjöldann streyma að áður en lögreglan skarst í leikinn.
Vísindi og fræði | Breytt 21.2.2016 kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2015 | 19:19
Eivör breytir mannanafnalögum
Í huga Íslendinga er færeyska álfadísin Eivör eiginlega íslensk. Það er staðfest með því að hinar ýmsu akademíur hafa ítrekað verðlaunað og eða nefnt Eivöru og tónlist hennar til íslenskra verðlauna af margvíslegu tagi; allt frá "Besta íslenska söngkonan" til "Besta íslenska leikverkstónlistin" Jafnframt hefur Eivör verið hluti af Íslensku dívunum.
Í huga Íslendinga er Eivör líka færeyska drottningin. Eða færeyska álfadrottningin.
Vinsældir Eivarar eru það miklar og langvarandi að nafn hennar er orðið íslenskt. Mannanafnanefnd hefur nú formlega kveðið upp úrskurð þar um. Ekki seinna vænna. Íslenskir foreldrar vilja gefa dætrum sínum nafnið Eivör.
Í aldir hefur einstaka íslensk kona borið nafnið Eyvör. Það þýðir heill Vör! Vör er vitur og spurul gyðja í ásatrú.
Nafnið Eivör hefur aðra merkingu. Það þýðir ávallt verndandi. Í Færeyjum er nafnið borið fram sem Ævör. Þannig höfum við einnig vanist því á Íslandi.
Tónlist | Breytt 1.3.2015 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2015 | 23:05
Snati kann og veit
Venjulegur hundur með þokkalega rænu skilur um 70 orð. Sumir fleiri orð og aðrir færri. Eitt sinn átti ég hund sem var meinilla við að vera settur í bað. Ef heimilisfólkið nefndi orðið bað hvarf hundurinn með það sama. Faldi sig með hraði undir eða á bakvið húsgögn. Það kostaði mikið at að ná honum. Hann varðist eins og ljón - samt án þess að bíta.
Eitt sinn var brugðið á það ráð að stafa orðið bað. Hvutti hvarf á sama augnabliki. Við prófuðum oftar að stafa orðið til að sannreyna skilning hundsins. Alltaf með sömu útgáfu.
Ég er fæddur og uppalinn í sveit; í útjaðri Hóla í Hjaltadal. Ætíð þegar minnst var á heimaslátrun þá þaut heimilishundurinn eins og píla til fjalla og sást ekki í tvo daga. Það var fastur liður.
Í N-Karólínu Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er hundur sem skilur á annað þúsund orð. Sumt fólk þar um slóðir kann ekki einu sinni svo mörg orð.
Til að sannreyna skilning Snata í N-Karólínu hefur hann verið látinn sækja 900 leikföng. Nafn leikfangsins er nefnt og hann sækir það án vandkvæða.
![]() |
Kári vill komast í strætó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 28.2.2015 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.2.2015 | 00:37
Dani fangelsaður fyrir að berjast gegn ISIS
Uppgangur glæpagengisins ISIS í M-Austurlöndum hefur margar hliðar. Sumar snúnar. Aðrar ennþá snúnari. Burt séð frá því hvernig þetta allt byrjaði með innrás í Írak, stuðningi við uppreisnaröfl í Sýrlandi og allskonar.
47 ára Dana býður nú fangelsun fyrir þátttöku í hernaði í M-Austurlöndum. Hann heitir Alan Grétar. Hann er af kúr-Dönskum ættum. Hann er harðlínu lýðræðissinni og gat ekki hugsað sér að sitja aðgerðarlaus hjá í Danmörku og leyfa ISIS að valta yfir það litla lýðræði sem þó hefur örlað á í þessum heimshluta. Svo ekki sé hlaupið yfir yfirgengilegt ofbeldi og fornaldarsjónarmið ISIS glæpagengisins.
Alan Grétar gekk til liðs við kúrdískar hersveitir sem berjast gegn ISIS. Fyrir bragðið er hann skilgreindur sem viljugur þátttakandi í hernaði í M-Austurlöndum. Og það þrátt fyrir að berjast við hið danskra hersveita með sama markmið.
Góðu fréttirnar eru þær að það er alveg þolanlegt að sitja af sér í dönskum fangelsum. Alan Grétar mun sannreyna það.
![]() |
BBC nafngreinir böðulinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2015 | 20:38
Hvort kynið er betri bílstjóri? Óvænt niðurstaða
Í dag eru leigðir bílar iðulega búnir tölvu sem geymir allar upplýsingar um aksturinn. Breska fyrirtækið In-car Cleverness skoðaði tölvubúnað tíu þúsund leigðra bíla; skrásett og flokkað yfir sex mánaða tímabil.
Í ljós kom að konur aka að meðaltali hraðar en karlar. Þær aka 17,5% hraðar en karlarnir. Það kemur á óvart. Í fljótu bragði ætla flestir að karlar séu glannarnir. Þeir stígi fastar á bensínpedalann.
Þar fyrir utan lenda karlar frekar í óhöppum - þrátt fyrir að aka hægar. Það eru fimm sinnum meiri líkur á að þeir valdi einhverskonar tjóni á bíl. Allt frá smádældum til stærri tjóna. Það er ekkert smá munur. Kannski eru karlar áhættusæknari? Eða meiri klaufar?
Ferðalög | Breytt 18.2.2016 kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.2.2015 | 22:20
Uppfærð Orðabók Menningarsjóðs
Fyrir alla sem hafa gaman af blæbrigðum og fjölbreytileika íslenskrar tungu eru Vigdís Hausdóttir og Bibba á Brávallagötu himnasending. Jafnvel í fleirtölu og nefnifalli. Báðar hafa dágóða kímnigáfu fyrir því að skirpla á svellinu. Það er allt annað en vefjast tunga um fót.
Nýjasta dæmið er gagnrýni Vigdísar á Hildi Sverrisdóttur fyrir að hafa, ja, að mati Vigdísar, fundið upp orðskrípið skrýtilegt.
Kannski er notkun orðsins landshlutabundin. Ég veit það ekki. Ég er fæddur og uppalinn í Skagafirðinum. Þar er þetta orð brúkað daglega athugasemdalaust.
Ég á Orðabók Menningarsjóðs, útg 1988. Þar stendur:
skrýtilegur L kátlegur skrýtinn.
Í næstu prentun á Orðabók Menningarsjóðs má bæta við
skrýtilegt L Vigdís
![]() |
Vigdís vandar um við Hildi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt 17.3.2015 kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.2.2015 | 22:01
Spaugilegar fjölskyldumyndir
Fyrir daga farsíma með innbyggðri myndavél og snjallsíma var ekki kastað til höndum er kom að ljósmyndatöku. Við hátíðleg tækifæri mættu fjölskyldur spariklæddar á ljósmyndastofur. Þar var eftir kúnstarinnar reglum stillt upp ljósalömpum og öll lýsing mæld út með ljósmæli. Ekki var smellt af fyrr en allir voru með sitt hlutverk á hreinu. Hver ljósmynd kostaði drjúgan skilding.
Eins og gerist og gengur hafði fólk ólíkan skilning og smekk fyrir því hvernig rándýra ljósmyndin átti að vera. Einnig slæddust með mistök. Einkum þegar ung börn föttuðu ekki út á hvað dæmið gekk.
Hér eru nokkur skondin dæmi (ungt fólk fattar ekki hvað þetta er broslegt)
Hér náði allt barnastóðið að setja upp sparisvip. En á sama tíma og sprenglærður ljósmyndarinn smellti af brast flótti á ungan gutta sem er skelfingu lostinn yfir uppstillingunni.
Fyrir vestan haf eru strandmyndir vinsælar. Það er í fínu lagi og gaman að sveifla börnum til á ströndinni. Spurning um að draga línuna réttu megin við strikið.
Vinaleg og snyrtileg fjölskylda. Karlarnir í eins skyrtu. Af hverju heldur sonurinn um mömmuna eins og hann sé í þann mund að kyrkja hana?
Ótrúlegt en satt: Allir í fjölskyldunni eru skjólstæðingar sömu hárgreiðsludömunnar.
Þessi mynd var jólakort. Klæðnaður - eða ðllu heldur klæðaleysi - húsbóndans er spurningarmerki.
Trúlofunarmynd feimna fólksins. Að giftingu afstaðinni ætla þau að taka stóra skrefið og prófa að haldast í hendur.
Heppnasta fjölskylda í heimi. Hún datt inn á útsölu og fann svartar peysur með bleikum skrautborðum og herðakústum. Þær voru til í öllum stærðum sem pössuðu fjölskyldunni.
Gárungarnir kalla fjölskylduna "Græna gengið". Það er út af því að fjölskyldubíllinn er grænn. Líka íbúðarhúsið að utan. Já, og að innan.
Spaugilegt | Breytt 23.2.2015 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2015 | 20:46
Jón Þorleifs og símahleranir
Einn góðan veðurdag fékk Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, þá flugu í höfuðið að bandaríska leyniþjónustan, CIA, fylgdist með sér. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvenær honum datt þetta í hug. Mig grunar að það hafi verið í kjölfar þess að systir mín og hennar fjölskylda flutti til útlanda fyrir aldarfjórðungi eða svo. Fyrstu símtölin að utan voru úr lélegum símasjálfsölum. Á sama tíma varð Jón þess var að pakkar að utan voru greinilega opnaðir á Tollpóststofunni.
Grunur og vissa Jóns um þessar njósnir urðu þráhyggja. Hann velti sér upp úr þessu. Það var í aðra röndina eins og honum þætti upphefð af því að vera undir eftirliti CIA.
Sumir urðu til að fullyrða við Jón að þetta væri hugarburður hjá honum. "Hvers vegna ætti leyniþjónusta vestur í Ameríku svo mikið sem vita af íslenskum eftirlaunþega þó að hann gefi út fjölritaðar bækur í örfáum eintökum?" var spurt.
Jón svaraði: "Það er merkilegt að leyniþjónustan hafi svona miklar áhyggjur af bókunum mínum. Orð geta verið beittari en sverð."
Jón gerði sér nokkrar ferðir til Símans í Ármúla. Þar krafðist hann þess að Síminn hætti umsvifalaust að leyfa CIA að hlera síma sinn. Kunningi minn sem vann hjá Símanum sagði að heimsóknir Jóns vektu kátínu þar á bæ.
Jón taldi sig merkja af viðbrögðum starfsmanna Símans að þeir vissu upp á sig skömmina. Þeir urðu lúpulegir og missaga.
Svo fór að starfsmaður Símans heimsótti Jón. Sagðist vera að rannsaka þessar hleranir. Jón sagðist hafa verið fljótur að sjá í gegnum það leikrit. "Maðurinn var ósköp vinalegur. Hann ræddi við mig um flest annað en símhleranirnar. Vildi vita hvernig heilsa mín væri og hvaðan ég væri af landinu. Hann tók aðeins upp símtólið til að heyra sóninn. Hann hafði ekki einu sinni rænu á að þykjast leita að hlerunarbúnaði. Enda vissi hann jafn vel og ég að hlerunarbúnaðurinn er staðsettur í húsakynnum Símans eða Sendiráði Bandaríkjanna."
Fleiri sögur af Jóni: hér
Spaugilegt | Breytt 22.2.2015 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2015 | 21:40
Tískubylgjan er kústur
Norður-Kórea er eitt af undrum veraldrar. Þetta er lokaðasta og einangraðasta ríki heims. Mannréttindabrot eru stórfelld og mikil fátækt. Forseti landsins er Kim Il Sung. Hann dó fyrir tveimur áratugum. En er samt ennþá forseti landsins. Stjórnar því af öryggi. Fyrst með aðstoð sonar síns, Kim Jong Il. Sá lagði sig svo fram um að hlaupa undir bagga með pabbanum að hann dó úr vinnuálagi. Dugði þar hvergi til að hann var árum saman búinn að safna orku og kröftum við að sitja öll kvöld allsnakinn við að þamba koníak.
Þegar Kim Jong Il dó úr vinnuálagi varð fuglum himins svo um að þeir þögnuðu. Harmur þeirra var svo yfirþyrmandi við að heyra fréttina.
Kim Jong Il fann upp hina heimsþekktu kjötsamloku sem kallast hamborgari. Þessa fróðleiksmola hef ég eftir n-kóreskum fjölmiðlum.
Við fráfall koníaksþambarans tók sonur hans, Kim Jong Un, við því hlutverki að hjálpa afa sínum við að stýra ríkinu. Eldri bróðir hans hafði klúðrað arftökunni með því að laumast til Japans á fölsuðum skilríkjum. Hann var staðinn að verki í tívolí í Japan. Fyrir bragðið varð hann aðhlátursefni um allan heim. Sem var út af fyrir sig í stíl við það aðhlátursefni sem pabbi hans og afi hans voru og eru. En í Norður-Kóreu var gerður munur á þessu.
Kim Jong Un kom brattur inn á sviðið. Hann lét þegar í stað taka af lífi háttsetta í fjölskyldunni. N-Kóreskir fjölmiðlar slógu upp á forsíðu að Kim Jong Un væri af heimsbyggðinni talinn kynþokkafyllsti maður heims.
Vissulega er Kim Jong Un kynþokkafullur. Held ég. Reyndar er ég ekki flinkur við að átta mig á því hvaða karlar eru kynþokkafullir eða ekki. Ég legg það í hendur n-kóreskra fjölmiðla. Og ykkar.
Kim Jong Un hefur aðgang að bestu stílistum N-Kóreu. Hann hefur lagt línu fyrir heimsbyggðina með stíl sem kallast kústur. Nafnið er dregið af hárgreiðslu og vel snyrtum stuttum augnabrúnum. Þetta er til fyrirmyndar. Kústur er málið.
.
Lífstíll | Breytt 12.2.2016 kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.2.2015 | 21:29
Bráðskemmtilegar myndir úr umferðinni
Umferð í Japan getur verið afar ruglingsleg. Fyrir ókunnuga líkist hún helst flókinni gestaþraut. Fyrir ferðamenn er heppilegra að taka leigubíl en fara sjálfir undir stýri á leigðum bíl. Þessi mynd sýnir gatnamót. Allir bílarnir eru á góðri ferð.
Í Bandaríkjum Norður-Ameríku njóta vinsælda "aktu taktu" matsölustaðir sem kallast Drive-thru. Bein þýðing getur verið "ekið í gegn". Ótrúlega margir taka þetta bókstaflega og reyna að aka í gegnum matsölustaðinn.
Þessi mynd er úr bílastæðahúsi verslunarmiðstöðvar. Öll bílastæði voru upptekin. Einhvernvegin tókst ökumanni að leysa vandamálið með því að troða bíl sínum ofan á annan bíl.
Þetta er jafn undarlegt og þau ótal dæmi af ökumönnum sem tekst að leggja bíl sínum þversum í rými þar sem slíkt á ekki að vera mögulegt. Þau dæmi eiga það sameiginlegt að ökumaðurinn skilur allra manna síst hvernig þetta gerðist. Hann var að reyna að snúa bílnum þegar hann var allt í einu fastur. Komst hvorki aftur á bak né áfram.
Hvorki lögregla né ökumaður skilja upp né niður í því hvernig þessi bíll komst á bak við gulu steyptu staurana. Húdd bílsins dældaðist þegar ökumaðurinn reyndi að koma sér og bílnum úr þessari klemmu.
Eiginmaðurinn gaf konunni nýja eldavél í jólagjöf. Hann er dáldið gamaldags í hugsun. Telur stöðu konunnar vera á bak við eldavélina. Myndin sýnir viðbrögð konunnar.
Atburðarrásinni lauk ekki þarna heldur þurfti með mikilli lagni og fyrirhöfn að losa kallinn úr leiktæki í bakgarði heimilisins.
Sonur hjónanna fékk bíl í jólagjöf. Hann er ekki með bílpróf. En tók samt rúnt á bílnum. Svo varð bíllinn bensínlaus. Þá fauk í stráksa og hann henti bílnum í ruslið. Hann hélt að bensínlaus bíll væri ónýtur.
Ferðalög | Breytt 11.2.2016 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2015 | 20:54
Einföld og ódýr leið til að leysa malbikunarvandamálið
Í símatímum útvarpsstöðva er kvartað sáran undan holóttu malbiki. Einkum í Reykjavík. Ökumenn annarra sveitafélaga hafa meira umburðarlyndi gagnvart holunum. Skiptir þá engu þó að holur í malbiki þar séu alveg jafn skemmtilegar.
Kínverjar hugsa í öldum. Íslendingar hugsa í ársfjórðungum. Það var ekki þannig. Á síðustu öld hugsuðu Íslendingar í árum. Þá notuðu menn endingardrjúg efni við malbikun. Efni sem dugðu í 16 - 20 ár.
Nú er öldin önnur. Aðeins notuð bráðabirgðaefni. Endingin er eftir því. Allt í hættulegum holum snemma vetrar.
Þetta vandamál er auðvelt að leysa snöfurlega. Það eina sem þarf að gera er að fella niður alla tolla, gjöld og virðisaukaskatt á flugbílum. Einnig að gera kaupverð þeirra frádráttarbært frá skatti.
Á skammri stundu leiðir þetta til þess að hvorki þarf að malbika götur né halda þeim við. Við erum að tala um risakostnað sem hverfur eins og dögg fyrir sólu.
![]() |
Dekk sprungu á 7 bílum í sömu holu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2015 | 20:25
Svikin matvæli og svikin fæðubótaefni
Í hillum íslenskra og útlendra verslana er gríðarlega mikið af fölsuðum vörum. Þær eru af öllu tagi. Nýlegar efnagreiningar á fæðubótaefnum í fjórum helstu verslunarkeðjum í New York í Bandaríkjum Norður-Ameríku leiddu í ljós að uppistaðan af vörunum er "feik". Þær innihalda lítið sem ekkert af virkum efnum sem vörurnar eru kenndar við.
Íslendingar þekkja svona dæmi af kjötbökum sem innihalda ekkert kjöt. Frægir eru nautakjötsréttir sem innihalda hrossakjöt en ekkert nautakjöt.
Margir pizzastaðir nota ostlíki á sínar pizzur. Jafnframt er kjöthakkið "aðeins" soyakjöt. Stundum reyndar blandað saman við hrossakjötshakk.
Fyrir mörgum árum voru allar ginsengsvörur í sænskum verslunum efnagreindar. Yfir 20 tegundir. Aðeins tvær stóðust skoðun. Flestar innihéldu ekkert ginseng.
Hérlendis þekkjum við "Rautt Kóreskt ginseng". Eftir fjölda kvartana frá neytendum létu Neytendasamtökin efnagreina "Rautt Kóreskt ginseng" á þýskri rannsóknarstofu. Niðurstaðan var ótvíræð til samræmis við grun neytenda: Það er ekkert rautt ginseng í vörunni.
Núna voru Interpol og Europol að gera skurk í að afhjúpa fölsuð matvæli í verslunum á Íslandi og víðar. Niðurstaðan var óhugnanleg. Markaðurinn er fullur af fölskum vörum. Meira að segja er allt morandi í fölsuðum hænueggjum. Í ljós kom að sum þeirra eru hanaegg og önnur páskaegg.
![]() |
Fölsuð matvæli í tonnavís |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.2.2015 | 22:22
Óþolandi umburðarlyndi gagnvart ofbeldi
Það er einkennilegt hvað íslenskir dómsstólar eru léttúðugir gagnvart heimilisofbeldi. Ítrekað hafna þeir ósk barnaverndaryfirvalda og lögreglu um nálgunarbann. Það virðist þurfa að ganga mjög mikið á áður en dómstólar fallast á nálgunarbann. Lögreglan þarf að veifa framan í dómara hnausþykkum skýrslubunka sem sannar langvarandi ofbeldi til að fallist sé á það.
Barn á aldrei að upplifa það að vera áhorfandi að ofbeldi á heimilinu. Eitt atvik er of mikið. Manneskja sem beitir barn ofbeldi er illmenni.
Það er glæpur að beita barn ofbeldi. Óþverralegur glæpur. Hvort heldur sem er andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Það á að taka á þeim glæp af fullri festu til samræmis við alvarleika hans.
Barn á að upplifa heimili sem hreiður og skjól. Líka fullorðið fólk. Heimilisofbeldi má ekki líða. Það á að taka snöfurlega á slíku og beita öllum mögulegum meðölum til að stöðva og fyrirbyggja framhald á því. Það þarf að skilgreina heimilisofbeldi sem grófan og MJÖG alvarlegan glæp.
Helst þyrfti að loka ofbeldismann umsvifalaust í 2ja vikna gæsluvarðhald við fyrsta brot. Jafnframt að beita hann háum fjársektum, skikka í samfélagsþjónustu og setja nálgunarbann. Aðeins þannig fær illmennið rétt skilaboð.
Umburðarlyndi dómsstóla gagnvart heimilaofbeldi er óþolandi.
![]() |
Barði börn sín og hótaði þeim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 17.2.2015 kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2015 | 20:25
Geggjuð andlitshúðflúr
Húðflúr segja mikið um þann sem ber húðflúrið. Einkum húðflúr á andliti. Í fyrsta lagi þarf töluverða dirfsku til að fá sér húðflúr á jafn áberandi stað. Oft er það fífldirfska.
Flest húðflúr í andliti eru sakleysislegar augnlínur og ennþá saklausari augnabrúnir. Það er ekkert nema í góðu lagi ef húðflúrið fylgir stæði raunverulegu augnabrúnna. Mörgum konum þykir það þægilegt. Það sparar tíma og peninga við að lita stöðugt á sér augnabrúnir. Verra er þegar húðflúrið fylgir ekki augnabrúnastæðunum. Það er sama hversu vel augnabrúnahárin eru rökuð burt; það sést alltaf móta fyrir stæðunum. Útkoman verður kjánaleg.
Sumir nota augnabrúnirnar til að skreyta ennið enn frekar með húðflúri. Það takmarkar mjög mikið möguleika fólks á vinnumarkaðnum. Ekki einungis vegna þess að þetta er langt frá því að vera flott heldur vegna þess að þetta sýnir glöggt að einstaklingurinn er ekki í lagi. Manneskja sem sýnir augljósan dómgreindarskort er ólíklegur til að standa sig vel í vinnu. Að auki einkennir þannig fólk iðulega sauðalegur svipur.
Enn aðrir merkja yfirlýsingu á ennið á sér. Þeir taka af allan vafa um hversu hættulega brenglaðir þeir eru.
Ein vinsæl aðferð er að láta húðflúra "augu" á augnlokin. Þá sér enginn þegar viðkomandi blikkar augunum. Eða, jú. Allir sjá að viðkomandi verður fíflalegur og sturlaðir á svip.
Í glæpagengjum leyfa höfuðpaurar sér gjarnan að fá húðflúr yfir allt andlitið. Þeir vita að þeir muni aldrei fara út á almennan vinnumarkað. Húðflúrað andlitið háir þeim þess vegna ekki. Þvert á móti. Það er stöðutákn innan glæpagengisins.
Svo eru þeir til sem fá sér húðflúr yfir allt andlitið til að tjá þjóðernisrembing. Kannski takmarkar það ekki verulega atvinnumöguleika. Hinsvegar er meiri reisn yfir því að láta húðflúra á sig fána lágréttum fremur en lafandi lóðréttum.
Til að fyrirbyggja misskilning þá hef ég ekkert á móti húðflúrum. Fjarri því. Ég er með fjölda húðflúra. En ekki á andlitinu.
![]() |
Ljóska sér eftir að hafa tattúverað augnabrúnirnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 6.2.2016 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.2.2015 | 23:17
Sekir eru saklausir
Siggi var sauðdrukkinn úti í haga,
sullandi í rommi lengst austur í mó.
Valtur um holtin kaus hann að kjaga
kengfullur út um allt þversum hann spjó.
"Agg, gagg, gagg," sagði tófan a grjóti.
"Agg, gagg, gagg," sagði Siggi á móti.
Göróttum augunum trúi ég hann gjóti.
Greyið hann Siggi, hann þorir ekki heim.
Samkvæmt mínum heimildum er Al-Thani bróðir sinn.
![]() |
Brotin þaulskipulögð og ófyrirleitin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 13.2.2015 kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
12.2.2015 | 08:01
Stundum verður fólki á - Spaugilegar myndir sanna það
Öllum getur orðið á að verða á. Hér eru nokkur skemmtileg dæmi um það.
Þegar verið er að taka sjálfsmynd er útkoman betri ef myndavélalinsan snýr að manni. Ekki frá manni.
Það er sama hvort verið er að taka sjálfsmynd eða mynd af einhverju öðru; þá er heppilegra að taka linsulokið af. Annars verður myndin bara svört.
Á öllum skrifstofum er hægt að prenta út afrit af gögnum úr fartölvum. Útkoman er ekki eins góð þegar tekið er ljósrit af gögnum úr fartölvu. Meðal annars vegna þess að hún getur ekki lagst þétt á linsugler ljósritunarvélarinnar. Þar með er allt úr fókus.
Í léttpoppinu er algengt að hljómleikar séu "feik". Músíkin er spiluð af plötum viðkomandi en ekki "live" á staðnum. Söngvarar og hljóðfæraleikarar á sviðinu "mæma" bara; þykjast flytja músíkina á stað og stund. Aularnir sem fylgjast með úti í sal taka ekki eftir neinu. Ekki nema söngkonan snúi hljóðnemanum í vitlausa átt.
Hver hefur ekki lent í því að ruglast á bensínloki og hurðarhandfangi? Mestu skiptir að koma bensíni á bílinn.
Það má stundum hafa umburðarlyndi gagnvart því að númerplata snúi á haus. Sérstaklega þegar einkanúmerið er "Ljóska".
Hvað er til ráða þegar komið er að brennandi húsi? Jú, þá kemur snjallsíminn að góðum notum. Úr honum er hægt að pósta beiðni inn á Fésbók um að einhver hringi í Neyðarlínuna.
Þegar orð er myndað með því að hver manneskja haldi á lofti spjaldi með einum staf er áberandi ef eitt spaldið snýr vitlaust.
Inngangur almennings
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2015 | 22:01
Egg og beikon og svívirðileg verðlagning
Um margra ára skeið var veitingastaður í Ármúla 7, Vitaborgarinn. Þar fékk ég mér stundum egg og beikon. Síðast þegar ég gerði mér þess háttar erindi þangað þá var ég upplýstur um að þarna væri kominn nýr veitingastaður, Joe´s Diner. Á matseðlinum var ekki lengur "egg og beikon".
Ungur afgreiðslumaður rétti mér matseðil Joe´s Diner. Ég renndi augum yfir hann. En sagði dapur á svip að þar væri ekkert sem mig langaði í.
Afgreiðslumaðurinn sagðist harma það. En fyrst að ég hafi spurt um egg og beikon þá væri svo sem hægt að græja svoleiðis. Þeir væru hvort sem er að selja hamborgara með beikoni og eggi. Það væri ekki vandamál að afgreiða egg og beikon án hamborgara. "Hvað viltu margar beikonsneiðar?" spurði hann.
Ég: "Á Vitaborgaranum voru þær 12"
Afgreiðsludrengurinn: "Eitt eða tvö egg?"
Ég bað um tvö egg. Drengurinn sagði: "Ég veit ekki hvernig ég á að verðleggja þetta. Hvað rukkaði Vitabarinn fyrir þetta?"
Mig minnti að það hafi verið um 800 kall. Jafnframt lét ég þess getið að þar hafi einnig fylgt með ristaðar brauðsneiðar og smjör. En ég hefði engan áhuga á því meðlæti.
Afgreiðslumaðurinn stakk upp á 600 kalli. Þetta var til fyrirmyndar.
Anna Margrét Valgeirsdóttir skrifaði fésbókarfærslu um öðru vísi afgreiðslu í Herjólfi á eggi og beikoni. Vegna fæðuofnæmis gat hún ekki pantað sér neitt af matseðlinum. Hún bað um að vikið væri frá matseðlinum og snúið upp á egg og beikon. Því var mætt með afgreiðslu á hamborgara án brauðs og án hamborgara. En með eggi og beikoni. Fyrir þetta var hún rukkuð um 200 kall fyrir beikon + 200 kall fyrir egg + 1490 fyrir hamborgara. Hamborgara sem var ekki með í pakkanum. En egg (tvö) og beikon (sex sneiðar) kostaði 1890 kall. Fyrir sömu upphæð er hægt að fá nokkuð veglega máltíð á þokkalegu veitingahúsi. Til að mynda bjóða mörg asísk veitingahús upp á glæsilegt hlaðborð fyrir mun lægri upphæð.
Fyrir ofan er mynd sem Anna Margrét tók af 1890 kr. beikoninu og eggi. Ef smellt er á myndina þá stækkar hún og kvittunin verður læsileg.
Matur og drykkur | Breytt 11.2.2015 kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2015 | 22:57
Mannanafnalöggan
Eitt fáránlegasta fyrirbæri forræðishyggju er mannanafnalöggan. Foreldrum er treyst til að velja fatnað á börn sín. Þeim er treyst til að ráða hárgreiðslu og klippingu barna sinna. Þeim er treyst til að velja morgunmat og annað fæði barna sinna. En þegar kemur að nafni barnsins þá kemur "stóri bróðir" og grípur í taumana. Hann fer yfir málið og hafnar eða samþykkir nafngiftina.
Þetta er kolgeggjað.
Víðast um heim eru foreldrar blessunarlega lausir við þessa forræðishyggju. Án vandræða. Mannanafnalög í Bretlandi eru frjálsleg. Þar bættust við 2013 drengjanöfnin Tiger, Luck, Lohan, Geordie, Victory, Dior og Dallas. Einnig stúlkunöfnin Rosielee, Tea, Nirvana, Olympia, Phoenix, Reem, Paradise, Vogue, Pinky, Peppa og Puppy. Bara flott nöfn.
Tiger var nefndur í höfuðið á bandarískum golf-meistara. Rosielee er gælunafn yfir tebolla. Nirvana var nefnd í höfuðið á uppáhaldshljómsveit foreldranna. Olympia var getin á Olympíuleikunum í London 2012.
Vinsælustu nöfnin eru drengjanafnið Jack og stelpunafnið Amella.
Spaugilegt | Breytt 10.2.2015 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
9.2.2015 | 00:24
Jón Þorleifsson og bandaríska leyniþjónustan
Jón Þorleifsson, rithöfundur og verkamaður, beit í sig sannfæringu um að vera undir smásjá bandarísku leyniþjónusturinnar CIA. Það var ekki ótrúlegra en margt annað sem tekið hefur verið upp á af embættismönnum CIA. Nema að fátt benti til að Jón væri þar undir eftirliti. Tekið skal fram að Jón var enginn bjáni. Þvert á móti. Hann var klár náungi. En eitthvað skransaði til hjá honum á gamals aldri varðandi þetta.
Þegar Júlía systir mín og hennar fjölskylda flutti til útlanda fyrir hátt í þremur áratugum sendu þau Jóni pakka fyrir jól og afmælisdag hans. Pakkarnir lentu iðulega í tollskoðun. Jón kom með pakkana í heimsókn til mín. Sýndi mér að bandaríska leyniþjónustan uppi á Höfða hafi hnusað í pakkana. "Þetta lið er svo heimskt að það kann ekki einu sinni að fela verksummerkin," sagði Jón og vísaði til þess að pakkarnir voru límdir aftur með límbandi merktu Tollinum á Íslandi.
Þegar stafrænum símanúmerum var fjölgað í 7 stafi fór Jón á flug. Hann var til að byrja með fastur í sex stafa símanúmerunum. Þá greip sjálfvirkur símsvari inn í og minnti á 7 stafa númer. "Vinsamlegast munið eftir 7 stafa símanúmerum".
Jón sagði: "CIA njósnararnir eru svo spenntir að vita hvert ég er að hringja að þeir geta ekki á sér setið þegar ég gleymi breytingunni yfir í 7 stafa númer. Þá gjamma þeir um 7 stafa númer."
Ég: "Hvað segir þú? Kalla þeir á þig og benda á að búið sé að breyta númerakerfinu?"
Jón: "Já, þeir geta ekki á sér setið fyrir forvitni. Það er allt í lagi. Ég les þeim pistilinn. Læt þá heyra það á ómengaðri íslensku."
Ég: "Hverju svara þeir?"
Jón: "Þetta er svo heimskt að það getur engu svarað. Þeir halda bara áfram að tönglast á því að ég eigi að muna eftir 7 stafa símanúmerum."
Fleiri sögur af Jóni Þorleifs: Hér
Spaugilegt | Breytt 3.5.2015 kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)