Vigdís

  Nei,  ekki Vigdís Hauks.  Nú snýst allt um Vigdísi Finnbogadóttur út af afmæli hennar.  Ég þekki hana ekki neitt.  Samt hef ég skrautskrifað á ótal skjöl fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.  Aðrir starfsmenn stofnunarinnar hafa séð um samskiptin við mig.  Sem er hið besta mál. Ég á ekkert vantalað við Vigdísi.  Áreiðanlega er hún þó viðræðugóð.

  Dorrit Moussaieff segir Vigdísi vera besta forseta Íslands.  Dáldið vandræðalegt fyrir Ólaf Ragnar.  

  1983 var ég beðinn um að skrifa bók um íslenska rokkmúsík.  Sem ég gerði.  Bókin,  Poppbókin, hefur fylgt mér eins og skuggi og virðist - því miður - ekki falla í gleymskunnar dá.  Árlega hringja í mig ungir námsmenn sem eru að skrifa ritgerð um íslenska rokkmúsík.  Sömuleiðis hitti ég stöðugt rokkáhugafólk sem segist hafa verið að lesa hana núna næstum fjórum áratugum eftir útkomu hennar.

  Ég frétti af tveimur mönnum sem toguðust á um hana í Góða hirðinum.  Það urðu ekki slagsmál en næsti bær þar við.  

  Víkur þá sögu að útgáfuári Poppbókarinnar.  Skyndileg birtist Vigdís Finnbogadóttir á skrifstofu Bókaútgáfu Æskunnar. Erindið var að kaupa bókina. 

  Þarna var Vigdís rösklega fimmtug.  Hún hafði eitthvað sungið með hjómsveitum.  Því kom áhugi hennar á Poppbókin ekki á óvart.  Jú,  reyndar kom það starfsmönnum Æskunnar á óvart.  Þeir höfðu ekki vanist því að vera með forseta Íslands inni á sínu gólfi.

  Á þessum árum var forsetaembættið hágöfugt og sveipað dýrðarljóma.

  Næst gerðist það að ég átti leið í Pósthús á Eiðistorgi.   Þetta var áður en númerakerfi var tekið upp.  Viðskiptavinir tróðust.  Aðallega ég.  Ruddist með frekju framfyrir aðra.  Var í tímahraki.  Ég komst fram fyrir virðulega konu.  Einhver orðskipti átti ég við afgreiðsludömuna.  Í kjölfar segir virðulega konan við mig:  "Afskaplega er gaman að heyra skagfirsku."  Ég sá þá að þetta var Vigdís.   Ég flutti úr Skagafirði til Reykjavíkur 16 ára.  Ég hélt að næstum þremur áratugum síðar væri ég búinn að tapa niður allri norðlensku.  En Vigdís er tungumálaséní umfram flesta aðra. 

Heyra má Vigdísi syngja með því að smella á HÉR 

vigdís og bill

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndin er ekki af Bill Clinton og Monicu Lewinsky.  Jú,  reyndar af Bill. 

 


Furðuleg sölubrella

  Á föstudaginn bauð 10-11 landsmönnum í kaffi- og kakóveislu.  Það gerði fyrirtækið með 2ja dálka x 40 cm auglýsingu í grænum lit í Fréttablaðinu (einkennislit fyrirtækisins).  Hvað með það?  Vel boðið.  Nema hvað.  Svo einkennilega vill til að fyrirtækið 10-11 er ekki til.  Þetta var vinsæl matvöruverslun.  Hún vann sér til frægðar að vera dýrasta búð landsins.  Svo breyttist hún í Kvikk og Krambúðina.  Þá lækkaði verðið um 25% með einu pennastriki.  Svo einfalt og auðvelt var það.  

  Þetta var hrekkur.  Langt frá 1. apríl.  Kaffiþyrstur kunningi minn ók til Mosfellsbæjar og Voga á Vatnsleysuströnd.  Honum fannst hann vera hafður að fífli.  Hvergi var ókeypis kaffi að finna.  Reyndar þurfti þetta ekki til að hann væri eins og hafður að fífli.  Hann er fífl. 

  Annað:  Rory and The Hurricanes voru stóra nafnið í Liverpool á undan Bítlunum.  Miklu munaði að Bítlarnir sömdu sín eigin lög.  Góð lög.   Bestu lög rokksögunnar.  Að auki tefldu Bítlarnir fram tveumur bestu rokksöngvurum dægurlagaheims.  Ringo var trommari Hurrycanes.  Já, og síðar Bítlanna.  Þar veðjaði hann á réttan hest.  Mestu skipti að honum þótti Bítlarnir vera miklu fyndnari og skemmtilegri en liðsmnenn Hurrycanes.  Að vera í Bítlunumn var eins og að vera í skemmtiþætti Monty Python.  Fyndnustu brandarar í heimi á færibandi.     

 


Ósvífin sölubrella

  "Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?" spyr Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.  Eðlileg spurning sem margir hafa spurt sig.  Og aðra.  Ennþá brýnni er spurningin:  Hvenær er dýrari vara ódýrasta varan? 

  Í Fréttablaðinu í dag er heilsíðu auglýsing í rauðbleikum lit.  Þar segir í flennistórum texta:  "LÆGSTA VERÐIÐ Í ÖLLUM LANDSHLUTUM". 

  Í litlum og illlæsilegum neðanmálstexta má með lagni stauta sig framúr fullyrðingunni:  "Orkan býður lítrann á lægsta verðinu í öllum landshlutum - án allra skilyrða." 

  Auðséð er á uppsetningu að auglýsingin er ekki hönnuð af fagmanni.  Líka vegna þess að fagmaður veit að bannað er að auglýsa með hæsta stigs lýsingarorði.  Líka vegna þess að ekki má ljúga í auglýsingum. 

  Ég átti erindi um höfuðborgarsvæðið.  Ók framhjá nokkrum bensínstöðvum Orkunnar (Skeljungs).  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 216,80,-  Nema á Reykjavíkurvegi.  Þar kostaði hann kr. 188.8,-.  Sú stöð var merkt í bak og fyrir textanum:  "Ódýrasta eldneytisverð á landinu". 

  Ég var nokkuð sáttur við það.  Þangað til ég ók framhjá Costco.  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 180.9,-  


Falskt öryggi

  Einnota hanskar eru í tísku um þessar mundir.  Hvítir þykja flottastir. Bláir og grænir njóta einnig vinsælda.  Annars fer þetta að mestu eftir litnum á fötunum sem fólk klæðist hverju sinni. 

  Einnota hanskar eru ekki aðeins skemmtilegur klæðnaður.  Þeir geta líka spornað gegn útbreiðslu kórónaveirunnar.  Eða hvað?  Jú,  ef rétt er að farið.  Verra er að þeir geta einnig gefið falskt öryggi.

  Veiran smitast ekki bara við snertingu.  Hún svífur um loftin blá;  ferðast allt í kringum smitað fólk.   Veik manneskja þarf ekki einu sinni að hósta hraustlega til að smita aðra.  Henni nægir að anda án rykgrímu.

  Einnota hanski venur fólk ekki af því að snerta andlitið á sér.  Í hanska flaðrar fólk upp hurðahúna sem löðra í veirum; stigahandrið, innkaupakerrur,  slær inn PIN-númer og svo framvegis.  Þegar hanskaklætt fólkið snertir síðan á sér andlitið þá er það engu betur sett en berhentir.

  Yfirleitt liggja hanskarnir þétt um höndina.  Við það verður húðin þvöl.  Það er kjörlendi fyrir veiruna.  Mikilvægt er að hendur séu vel þurrar þegar þeim er stungið í hanska.  

 Töluverð kúnst er að fara úr einnota hanska.  Margir fara þannig úr þeim að þeir gætu eins sleikt hurðahún. 

  Tíður handþvottur er heppilegri en hanskar.  Hann skilur heldur ekki eftir sig sama sóðaskap og hanskinn.  Víða fyrir utan matvöruverslanir má sjá einnota hanska fjúkandi út um öll bílastæði.

  Sumir klippa framan af fingrum hanskans;  breyta honum í grifflur.  Það er töff en veitir falskt öryggi gegn kórónaveirunni. 

einnota hanskarveiruvörn    


Ljúf plata

  Undanfarna daga hefur platan Songbird rúllað í spilaranum hjá mér.  Á henni syngur Helga Fanney.  Faðir hennar,  Tómas Malmberg,  spilar snyrtilega undir ýmist á píanó eða kassagítar.  Hann er jafnframt höfundur gullfallegs lokalags plötunnar,  Þú lífs míns ljós.  Textinn er eftir Ruth Reginalds Moore.  Hin 9 lögin eru kunnar og sívinsælar ballöður.  Allar nema ein engilsaxneskar.  Lagavalið hefur kosti og galla.  Kostirnir eru meðal annars þeir að lögin eru góð.  Hlustandinn þekkir lögin strax við fyrstu spilun og kann væntanlega vel við þau flest. 

  Gallinn er sá helstur að þau hafa verið sungin af mörgum bestu poppsöngvurum heims.  Söngvarinn er í þeirri stöðu að vera borinn saman við þá.  Það er ekki auðvelt hlutskipti.  Helga Fanney sleppur nokkuð vel út úr samanburðinum.  Meðal annars vegna þess að söngur hennar er einlægur, tilgerðarlaus og blæbrigðaríkur.  Söngröddin er hljómfögur og raddbeiting ágæt. 

  Flutningurinn er skemmtilega hrár,  hljóðritaður í einni töku.  Gaman hefði verið að heyra íslenska texta sem til eru við sum lögin.  Til að mynda Imagine eftir John Lennon (Að hugsa sér kallast þýðing Þórarins Eldjárn),  Arms of an angel eftir Söru Mclachian  (Umvafin englum í þýðingu Valgeirs Skagfjörð) og Hallelujah eftir Leonard Cohen (íslenskur texti eftir Jóhönnu F. Karlsdóttur, líka eftir Ragnar Geir Brynjólfsson og eftir Val Gunnarsson,  svo og Stefán Gíslason).

  Af öðrum lögum er vert að nefna Make you feel my love eftir Bob Dylan og When I think of angels eftir KK. 

  Helga Fanney er aðeins 14 ára í sumum lögunum en hljómar ekki eins og barn.  Hún er eitthvað eldri í öðrum lögum.  Ég giska á 16 - 17 ára.  Aldursmunurinn heyrist ekki.

  Songbird er notaleg plata.     

Helga Fanney 


Kvikmyndarumsögn

 - Titill:  Klovn the Final

 - Höfundar og helstu leikarar:  Frank Hwam og Casper Cristensen

 - Einkunn: ***1/2

  Dönsku sjónvarpsþættirnir Klovn eru snilld.  Húmorinn er grófur, ferskur, ófyrirséður og bráðfyndinn. 2010 kom á markað kvikmyndin Klown.  Hún var sprengja.  Í henni var gengið lengra í groddadagangi og húmorinn tekinn fram á ystu nöf.  Vinsældum hennar var fylgt eftir með myndinni Klown Forever 2015.  Henni háði að væntingar áhorfandans voru miklar.  Jafnframt var hann orðinn brynjaður fyrir senum sem annars hefðu gengið fram af honum.  Engu að síður  slagaði hún upp í fyrri myndina á öllum sviðum.

  Nú er verið að sýna þriðju myndina,  Klovn the Final.  Hún er sögð vera lokamyndin í þríleiknum.  Það er skynsamleg niðurstaða.  Hún stendur fyrri myndunum örlítið að baki.  Samt er hún bráðskemmtileg.  Salurinn hló oft og mikið.  Líka ég.  Hún hefur sérstakt gildi fyrir Íslendinga.  Söguþráðurinn snýst um ferðlag kumpánanna til Íslands.  Ef ekki væri vegna kórona-vírusins væri myndin góð auglýsing fyrir Íslands.  Það getur svo sem skilað sér síðar.   

  Einhverra hluta vegna hefur myndin verið illa auglýst hérlendis.  Kannski gerir það ekki til vegna samkomubannsins.  Þá er bara að ná henni í sjónvarpi eða einhverjum netveitum. 

  Vegna meðfylgjandi sýnishorna skal tekið fram að í íslenskum kvikmyndahúsum er myndin textuð á íslensku. 

    


Bestu trommuleikarar sögunnar

  Kanadíska tímaritið Drumeo hefur tekið saman áhugaverðan lista yfir bestu trommuleikara allra tíma.  Þeim er raðað í sæti.   Eflaust geta verið skiptar skoðanir um sætaröðina.  En tæplega um þá sem eru á listanum.

  Svona listi er ekki heilagur sannleikur.  Til að mynda einblínir hann á engilsaxneska trommuleikara.  Þetta er fyrst og fremst skemmtilegur samkvæmisleikur.  Í leiðinni vekur hann athygli á trommuleikurum sem áhugasamir eiga mögulega eftir að kynna sér.  Þessir raðast í efstu sætin:

1  Buddy Rich

  Hann er þekktur fyrir kraft, orku, ótrúlegan hraða, fullkomna tækni og ýmsar brellur.  Auk þess að vera hljómsveitarstjóri eigin hljómsveitar þá spilaði hann með bandarískum samlöndum sínum,  svo sem Louis Armstrong, Ellu Fitzgerald,  Charlie Parker, Frank Sinatra, Count Basie,  Harry James og mörgum fleiri.    

2  Neil Peart

Kanadískur trommari prog-hljómsveitarinnar Rush.  Trommusóló hans voru jafnan hápunktur á hljómleikum tríósins. 

3  John Bonham

Enskur trommuleikari Led Zeppelin.  Besti rokktrommuleikarinn.  Hann var þó undir miklum áhrifum frá djasstrommuleikurum á borð við Buddy Rich, Max Roach og Elvin Jones.  Aðalsmerki hans var tilfinningahiti,  "grúv" og hraður bassatrommusláttur með einu fótstigi.

4  Vinnie Colaiuta

Bandarískt kameljón.  Hóf feril með Frank Zappa.  Hefur síðan spilað með svo ólíkum tónlistarmönnum sem Noruh Jones,  Megadeath,  Sting,  Steely Dan,  Bill Evans,  Ray Charles,  Chick Corea,  Joni Mitchelle og mörgum fleiri. 

5  Tony Williams

Bandaríkjamaður sem vakti 17 ára gamall athygli í hljómsveit Miles Davis.  Hann spilaði af tilraunagleði og var einn af frumkvöðlum í að bræða saman tónlistarstíla.  Auk þess að halda úti eigin tríói þá spilaði hann með Sonny Rollins,  Herbie Hancock,  Ron Carter,  Stanley Clarke,  Chet Baker,  Winton Marsalis og Eric Dolphy.

6  Steve Gadd

Bandarískur djassisti.  Hefur spilað með Chick Corea,  Jaco Pastorius,  Steely Dan,  Steve Khan,  Paul Simon,  Paul McCartney,  Frank Sinatra og Weather Report.

7  Ringo Starr

Breskur Bítill.  Hann spilaði ólíkt því sem áður þekktist.  Hann hlóð einstaklega vel undir tónlistina og gerði hana þannig að sterku vörumerki.

8  Billy Cobham

Fæddur í Panama en flutti á barnsaldri til Bandaríkjanna.  Á stóran þátt í mótun nútíma trommuleiks.  Var frumkvöðull í að nota af árásargjörnum krafti tvær bassatrommur og spila bræðing (fusion). 

9  Max Roach

Bandarískur djassisti.  Spilaði meðal annars með Dizzy Gillespie.  Miles Davis,  Sonny Rollins,  Duke Ellington,  Chet Baker,  Clifford Brown og Charlie Parker.

10 Stewart Copeland

Fæddur í Bandaríkjunum en fjölskyldan flutti til Mið-Austurlanda þegar hann var aðeins nokkurra mánaða.  12 ára hóf hann trommunám í Englandi.  Hann er þekktur fyrir reggískotinn trommuleik með breska tríóinu The Police. 

Af ofantöldum trommurum eru á lífi aðeins Vinnie Colaiuta,  Steve Gadd,  Ringo Starr,  Billy Cobham og Stewart Copeland. 


Fjölmiðlar ljúga gróflega

  Íslenskir fjölmiðlar hafa hamrað á því dögum og vikum saman að coronaveiran - Covid 19 - sé komin til allra Norðurlandanna.  Framan af var reyndar hengt við fréttina að Ísland væri undanskilið.  Svo kom veiran til Íslands. 

  Stóra lygin í þessum fréttaflutningi er að veiran hefur ekki borist til Færeyja (í þessum skrifuðu orðum).  Hafa Færeyingar þó hvergi dregið af sér að spígspora um Tenerife og Ítalíu.

  Ólíklegt er að Færeyingar sleppi við veiruna til frambúðar.  Samt.  Færeyingar eru heilsubesta þjóð í Evrópu (og kannski í heiminum?).  Líka hamingjusamasta þjóð Evrópu (og kannski heims?).  Atvinnuþátttaka Færeyinga er sú mesta í Evrópu.  Bæði meðal karla og kvenna.  85,4 Færeyinga, 15 ára og eldri,  vinna sér til gagns og gamans.  Að auki eru Færeyingar frjósamasta þjóð Evrópu.  Þannig mætti áfram telja.  

  Annað en þó þessu skylt.  Samkvæmt óstaðfestum fréttum greindist maður í N-Kóreu með veiruna.  Hann var skotinn með það sama. 

 


Þannig má laga skemmd lungu

  Sígarettur eru ekki eins hollar og margir halda.  Að reykja þær veldur ertingu og álagi á lungun.  Einkum ef mikið og oft er reykt;  þá skaðast lungun.  Strompar fá þrálátan hósta,  lungnateppu og jafnvel krabbamein,  svo fátt eitt sé nefnt. 

  Háskóli í Maryland í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur rannsakað dæmið og skoðað hvað sé til ráða.  Niðurstaðan kemur á óvart.  Ávöxturinn tómatur getur gert kraftaverk.  Aðeins þarf að snæða tvo tómata á dag til að þeir hefji viðamikla viðgerð á skemmdum lungum. 

  Tómatsósa skilar minni árangri.  Skiptir þar engu máli hvort hún er framleidd úr tómötum eða eplamauki.  Hinsvegar geta fersk epli hjálpað. 

tómatar


Þegar Harrison hrekkti Phil Collins

 

  Ýmsir tónlistarmenn líta á Phil Collins sem fígúru.  Eða hafa að öðru leyti lítið álit á persónunni.  Til að mynda Liam Callagher.  Bítlarnir Paul McCartney, Ringo Starr og George Harrison líka.  

  1970 fékk sá síðastnefndi Phil til að spila á bongótrommur í laginu "Art of dying" fyrir plötuna flottu "All things must pass".  Hann var þá í hljómsveitinni Flaming Youth.  Þetta var nokkru fyrir daga Brand X og Genesis. 

  Þegar platan kom út var bongótrommuleikur Phils fjarri góðu gamni.  Það var áfall fyrir unga manninn sem dýrkaði Bítlana og hafði stúderað trommuleik Ringos út í hörgul.  Hann kunni ekki við að leita skýringar fyrr en mörgum árum síðar.  Þá var hann orðinn frægur og kominn með sjálfstraust til þess.

  George brá á leik.  Hann var alltaf stríðinn og hrekkjóttur.  Hann fékk Ray Cooder til að koma í hljóðver og spila afar illa og klaufalega á bongótrommur undir lagið.  Svo skemmtilega vildi til að í lok upphaflegu hljóðritunarinnar á laginu heyrist George kalla:  "Phil,  við hljóðritum þetta aftur og nú án bongótrommuleiks."  

  Þessa upptöku með lélega bongóleiknum spilaði George fyrir Phil.  Honum var verulega brugðið; miður sín yfir því hvað bongótrommuleikur "hans" var ömurlegur.  Einnig við að heyra George í raun reka hann.  

  Phil sá sem George ávarpaði í upptökunni var ekki Collins heldur upptökustjórinn, Phil Spector.   Mörgum árum síðar sagði George kauða frá hrekknum.  Þungu fargi var af honum létt. 


Heilsuátak Stónsara

  Óregluiðnaðurinn hefur átt um sárt að binda síðustu árin.  Þetta byrjaði með því að gítarleikari The Rolling Stones,  Keith Richards,  hætti á gamals aldri að nota eiturlyf.  Áður var hann stórtækur neytandi þeirra í hálfa öld.  Hann hélt sig ekki við eitthvert eitt eiturlyfið heldur hellti þeim öllum í sig sem hann komst yfir.

  Keith gafst upp á dópinu vegna þess að honum þótti eiturlyfin sem eru í boði í dag vera léleg.  Útþynnt drasl.

  Þessu næst fékk whisky-iðnaðurinn kjaftshögg er hann hætti að þamba daglegan skammt. Hann hætti að drekka áfengi,  að eigin sögn.  Hefur síðan aðeins drukkið hvítvín og bjór.  Nú er það sígarettuiðnaðurinn sem fær höggið.  Í október hætti hann að reykja búðarsígarettur.  Segist vera hættur að nenna því.  Ekki hefur komið fram hvort eða hvað hann reykir í staðinn.  

  Í fréttum er haldið fram að hann hafi reykt 19 pakka á dag.  Það stenst ekki skoðun.  Mestu strompar ná ekki að reykja nema 4 eða 5 pakka á dag.  Hver sem rétt tala er þá finnur sígarettuiðnaðurinn fyrir heilsuátaki Keiths.  Hann segir að mun auðveldara hafa verið að leggja heróínneyslu á hilluna en retturnar.   

 


Illa farið með góðan dreng

  Ég rekst stundum á mann.  Við erum málkunnugir.  Köllum hann Palla.  Hann býr í lítill blokk.  Í sama stigagangi býr vinur hans.  Köllum hann Kalla.  Þeir eru hálfsjötugir einstæðingar.  Fyrir bragðið sækja þeir í félagsskap hvors annars. Fá sér stundum bjór saman; tefla,  skreppa í bingó og svo framvegis.

  Í hvert sinn sem ég rekst á Palla hefst samtalið á þessum orðum:  "Ég er alveg að gefast upp á Kalla."  Í kjölfar kemur skýring á því.  Í gær var hún svona:

  "Hann bauð mér út að borða.  Þegar við héldum af stað bað hann mig um að aka að Bæjarins bestu.  Það var allt í lagi.  Mér þykir pylsur góðar.  Hann pantaði tvær pylsur með öllu og gos.  Ég hélt að önnur væri handa mér og hann myndi spyrja hvernig gos ég vildi.  En,  nei,  pylsurnar voru handa honum.  Ég pantaði pylsu og gos.  Þegar kom að því að borga sqagði hann:  "Heyrðu,  ég gleymdi að taka veskið með mér.  Þú græjar þetta."  Ekki í fyrsta skipti sem hann leikur þennan leik.  Þegar við vorum búnir með pylsurnar sagðist hann verða að fá eitthvað sætt á eftir.  Við keyrðum að konditorí-bakaríi.  Ég keypti handa okkur tertusneiðar og heitt súkkulaði.  Hann kvartaði undan tertunni.  Skóf utan af henni allt besta gumsið og borðaði það.  Skildi sjálfa tertukökuna eftir.  Lét mig síðan kaupa aðra og öðruvísi tertusneið."

  Fyrir mánuði rakst ég á Palla.  Þá sagði hann:

  "Ég er alveg að gefast upp á Kalla.  Um daginn stakk hann upp á því að við myndum halda upp á jólin með stæl.  Gefa hvor öðrum lúxus-jólagjafir.  Samt eitthvað gagnlegt sem við myndum hvort sem er kaupa sjálfir fyrr eða síðar.  Ég var tregur til.  Enda auralítill.  Honum tókst að tala mig til með þeim rökum að hann væri búinn að kaupa góða jólagjöf handa mér sem ég ætti eftir að nota oft.  Er ég samþykkti þetta sagðist hann vera búinn að velja sér jólagjöf frá mér.  Það væri tiltekinn snjallsími.  Mér þótti heldur mikið í lagt.  Um leið fékk ég þá flugu í hausinn að hann væri búinn að kaupa samskonar síma handa mér.  Ég hafði stundum talað um að fá mér snjallsíma.  Flestir eru með svoleiðis í dag.  Á aðfangadag tók ég upp pakkann frá honum.  Í honum voru tíu þvottapokar úr Rúmfatalagernum sem kosta 99 kr. stykkið"           

pylsur terta


Ódýrt flug til Kína

 

  Það er margt um að vera í Kína þessa dagana.  Nú er lag að skella sér þangað - áður en landið verður of vestrænt.  Reyndar er gott fyrir íbúa landsins að það verði vestrænt.  Hinsvegar er ekkert gaman fyrir vestræna ferðamenn í Kína að rölta á milli McDonalds og Burger King.  Það geta þeir gert heima hjá sér.  Nema á Íslandi.  Íslendingar taka þorramat framyfir.

  Seint á síðustu öld hélt breska hljómsveitin Wham! hljómleika í Kína.  Skömmu síðar fylgdu Stuðmenn í kjölfarið - undir dulnefninu Strax.  Þetta voru fyrstu kynni Kínverja af vestrænni poppmúsík.  

  Til gamans má geta að nokkru áður komst kínverskur barnakór yfir lag eftir Gísla Helgason.  Barnakórinn fór með lagið inn á Topp 10 kínverska vinsældalistann.  Svo illa vildi til að á þeim tímapunkti höfðu Kínverjar ekki gengið til liðs við alþjóðleg höfundarréttarsamtök.  Annars væri Gísli auðmaður.  Aðeins munaði örfáum árum.

  Í dag tröllríður vestræn dægurmúsík Kína.  Rapp, teknó, píkupopp,  alt-rokk og bara nefndu það. 

  Svo skemmtilega vill til að um þessar mundir er verð á flugi til og frá Kína í lágmarki.  Hægt er að skjótast þangað í menningarreisu fyrir aðeins 88 þúsund kall (flug fram og til baka) og gæða sér á djúpsteiktum rottum. 


Hvaða Bítlar voru nánastir?

 

  Svarið við spurningunni er ekki augljóst í fljótu bragði.  Bítlarnir voru allir afar nánir lengst af.  Þeir voru bestu vinir hvers annars.  Hnífur gekk ekki á milli þeirra.  Þeir heldu hópinn í frítímum;  héngu saman öllum tímum.  Á hljómleikaferðum - eftir að þeir slógu í gegn - fengu þeir sitthvert hótelherbergið en söfnuðust alltaf saman í eitthvert eitt herbergið.  Þar var mikið grínast og mikið hlegið. 

  1957 hélt þáverandi hljómsveit Johns Lennons,  The Quarrymen,  hljómleika í Liverpool.  Hann var 16 ára.  Paul McCartney var nýorðinn 15 ára.  Hann heilsaði upp á John og spilaði fyrir hann nokkur lög.  John hreifst af og bauð honum í hljómsveitina.

  Þeir smullu saman;  urðu samloka.  Hófu þegar að semja saman lög og texta.  Þeir vörðu öllum tímum saman.  Ýmist við að semja eða til að hlusta á plötur.  Þeir voru mestu aðdáendur og fyrirmynd hvors annars.   Áreiðanlega taldi Paul þá vera nánasta.  Sennilega John líka.

  Áður en Paul gekk í The Quarrymen var besti vinur hans George Harrison.  Hann var ári yngri og í sama skóla.  Paul suðaði í John um að fá George í hljómsveitina.  Lengi vel án árangurs.  George fékk þó að djamma af og til með.  Þeir John kynntust,  urðu miklir mátar og hann var fullráðinn í hljómsveitina vorið 1958.

  Innkoma Pauls og George kallaði á mannabreytingar.  1962 gekk Ringo Starr í hljómsveitina.  Þá hét hún The Beatles. 

  Ringo yfirgaf vinsælustu þáverandi hljómsveit Liverpool er hann gekk til liðs við Bítlana.  Þetta var áður en þeir urðu þekktir og vinsælir.  Ringó elskaði að umgangast þá og þeir elskuðu glaðværð hans, húmor og trommuleik.

  Af Bítlunum áttu John og Paul mest saman að sælda.  Þeir sömdu og sungu söngvana,  útsettu tónlistina og réðu ferðinni.  Paul er stjórnsamur, ofvirkur og óþolinmóður.  Það pirraði George og Ringo er á leið og stjórnsemi Pauls óx.  Hann vildi semja gítarsóló George og átti til að spila sjálfur á trommurnar.  1968 gekk Ringo á fund Johns og tilkynnti uppsögn.  Hann upplifði sig utanveltu.  Það tók John tvær vikur að dekstra hann aftur í bandið.  

  Vinátta getur birst í örfínum smáatriðum.  Á myndum standa Bítlarnir jafnan þétt saman.  Iðulega snertast þeir með höndunum.  Þeir eru svo miklir og nánir vinir að þeir gefa hver öðrum ekki persónulegt rými.  Persónulega rýmið nær aðeins yfir hljómsveitina í heild.  Algengast er að John og George séu hlið við hlið.  Svo sem undantekningar þar á.  En við bætist að þegar Bítlarnir ferðuðust þá sátu John og George alltaf saman,  hvort sem var í flugvél, lest eða bíl.  Er Bítlarnir gistu í 2ja manna hótelherbergjum þá deildu John og George alltaf saman herbergi.  Eftir að Bítlarnir hættu voru John og George í mestum samskiptum.  Meðal annars spilaði George á plötu Lennons Imagine.  Hann lýsti yfir löngun til að þeir John myndu stofna nýja hljómsveit og svo framvegis.

bítlarnir please please mebítlarnir hey judeBítlarnir Rubber soulBítlarnir Ticket to rideBítlarnir helpmeet-the-beatlesbeatles for saleBítlarnir VIbeatles-1962-1966-red-albumBítlar - japanBítlarnir Clus Terfuckthe-beatles. ABítlarnir BBítlarnir cBítlarnir d


Dauðateygjur sekkjapípunnar

  Hljóðfærið sekkjapípa á sér langa og flókna sögu.  Hún nær aftur um aldir.  Í dag er hún einskonar þjóðarhljóðfæri Skota.  Skotar eru um hálf sjötta milljón.  Aðeins sex þúsund þeirra kann að spila á sekkjapípu.  Þeim fækkar hratt.  Svo hratt að reiknað hefur verið út að eftir örfáa áratugi heyri sekkjapípan sögunni til.  Til að viðhalda þekkingu á sekkjapípuspili þurfi 350 þúsund manns að kunna á hljóðfærið og kenna komandi kynslóðum á það.  

  Skotar geta tekið Grænlendinga sér til fyrirmyndar.  Fyrir nokkrum áratugum kunni aðeins einn Grænlendingur grænlenska trommudansinn.  Hann var sendur þvers og kruss um Grænland til að endurvekja trommudansinn.  Með einstaklega góðum árangri.  Áhugi grænlenskra barna var til staðar.  Í dag blómstrar grænlenski trommudansinn.   


EazyJet um Ísland og Íslendinga

  Á dögunum fór ég á flandur með ensku flugfélagi, EazyJet.  Skrapp til Edinborgar í Skotlandi.  Skömmu síðar aftur til Íslands.

  Í sætisvasa fyrir framan mig í flugvélinni fann ég bækling prentaðan í lit á pappír.  Yfirskrift hans er EazyJet Traveller. Þar má finna fróðleik um þjónustu flugfélagsins.  Líka auglýsingu um gott verð á skóm í tiltekinni verslun.  

  Skemmtilegasta lesefnið er tveggja blaðsíðna viðtal við íslenskan uppistandara. Ara Eldjárn.  Af framsetningu þess má ráða að Ari sé vinsæll og virtur uppistandari í Bretlandi.  Reyndar veit ég að svo er.

  Í viðtalinu dregur hann upp spaugilega - en góðlátlega - mynd af Íslendingum.  Hárfín og bráðfyndin kímnigáfan hittir glæsilega í mark. Stöngin inn með látum! 

  Gaman var að sjá hundruð flugfarþega frá öllum heimshornum lesa um Ara - og vita að mörgum sinnum fleiri eigi eftir að gera það.

  Í sama bæklingi er grein sem ber (á ensku) yfirskriftina "3 topp húðflúrstofur í Reykjavík".  Þar eru taldar upp nokkrar stofur og lýsing á þeim.  Þessar stofur eru: 

1.  Black kross

2.  Apollo ink

3.  Reykjavik ink

  Blaðamaður EasyJet hlýtur að hafa reynslu af þessum stofum.  Einnig fleiri reykvískum stofum fyrst að hann getur raðað upp í toppsæti. 

  Íslenskir húðflúrarar eru þeir bestu í heimi.  Ég skrifa af reynslu til margra ára.  Minn frábæri húðflúrari er Svanur Guðrúnarson í Lifandi List tattoo studio.  Hann er ekki á listanum yfir bestu reykvísku stofur vegna þess að stofan hans er í Hafnarfirði.  

 


Breskar sígarettur

  Í nýlegri dvöl minni í Skotlandi vakti athygli að allt þarlent reykingafólk virtist reykja sömu sígarettutegund.  Og það tegund sem ég kannaðist ekki við.  Eðlislæg forvitni var vakin.  Ég gerðist svo djarfur að spyrja reykingamann út í málið.  Þá var ég upplýstur um að í Bretlandi séu allir sígarettupakkar alveg eins.  Það eru lög.  Furðulög.  Rökin eru þau að ef að fólk veit ekki hvort að það er að reykja Camel eða Salem þá hættir það að reykja og maular gulrætur í staðinn. 

sígarettur


Frásögn bresks blaðs af íslenskum jólum

  Hátíð ljóss og friðar,  jólunum,  varði ég í Skotlandi.  Í góðu yfirlæti.  Í Bretlandseyjum er gefið út götublað að nafni Daily Mirror.  Það er frekar lélegt blað.  En prentað á ágætan pappír.  Þannig lagað.

  Á aðfangadegi birti það grein undir fyrirsögninni "Jólasveinasnakk"  (Santa´s snack).  Þar segir: 

  "Jólin á Íslandi spanna 26 daga.  Þar af telja 13 jólasveinar, svo og tröll sem ofan koma úr fjöllunum og gefa gjafir.  Í þakklætisskini færa börnin þeim laufabrauð.  Það smakkast eins og stökkar vöfflur."


Ósvífin börn gerðu hróp að gömlum manni

  Ég fagnaði jólunum í Edinborg í Skotlandi.  Tók hvorki með mér tölvu né síma.  Var bara í algjörri hvíld.  Þannig hleður maður batteríin.  Verra var að illa uppalin börn gerðu hróp að mér með uppnefnum.  Og það í tvígang.  Í bæði skiptin var um að ræða á að giska fimm ára stelpur.  Í fyrra tilfellinu var ég á gangi í tívolí-garði.  Skimaði þar eftir indverskum mat.  Þá vatt sér að mér frekjuleg stelpa sem togaði í ermina á mér og sagði á ensku:

  "Jólasveinn,  komdu í heimsókn til okkar!"

  Það lá við að ég gæfi barninu "fuck you" merki.  En stillti mig.  Veifaði bara í staðinn.

  Næst var ég staddur á matsölustað.  Fékk mér djúpsteiktan þorsk.  Á næsta borði sat karl ásamt börnum.  Hann var með bendingar á eitt barnið og hló dátt.  Ég vissi ekki hvað það átti að þýða.  Svo yfirgaf hópurinn staðinn.  Þá snéri sér að mér stelpa sem hrópaði upp í opið geð á mér hátt og snjallt á ensku:  "Hóhóhó!  Gleðileg jól,  jólasveinn!"

 


Gleðilegar vetrarsólstöður, jól og áramót!

  Kannski fæ ég kökusneið;

komin eru jólin!

  Nú er allt á niðurleið

nema blessuð sólin.

  Heims um ból höldumn við jól;

heiðingjar, kristnir og Tjallar.

  Uppi á stól stendur í kjól

stuttklipptur prestur og trallar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.