13.12.2018 | 14:54
Keith Richards hættur að drekka
Enski gítarleikarinn Keith Richards hefur sett tappann í flöskuna. Hann er best þekktur fyrir að spila í the Rolling Stones. Áratugum saman neytti hann eiturlyfja af öllu tagi ásamt því að vera meira og minna blindfullur í bland.
Keith verður 75 ára núna 18. desember. Fyrir nokkrum árum lagði hann eiturlyfin á hilluna. Ástæðan var sú að þau veittu honum ekki sömu vímu og áður. Hann vildi meina að eiturlyfin í dag séu ómerkileg og blönduð fylliefnum. Áður hafi þau verið hrein og góð og gefið snarpa vímu.
Nú hefur Keith staðfest við bandaríska tímaritið Rolling Stone að hann sé hættur að drekka áfengi. Reyndar sé hann búinn að vera edrú í heilt ár. Hann segir þessa ákvörðun ekki hafa breytt neinu.
Hinn gítarleikari Stóns, Ronny Wood, er á öðru máli. Keith sé miklu ljúfari í dag og jákvæðari gagnvart nýjum hugmyndum. Áður gnísti hann tönnum. Núna tekur hann uppástungum opnum örmum með orðinu: "kúl!"
Keith viðurkennir að þrátt fyrir að hann sé hættur að drekka þá sötri hann bjór og fái sér léttvín.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
10.12.2018 | 00:10
Flottar augabrúnir - eða þannig
Fagurlega mótaðar augabrúnir eru höfuðprýði. Þetta vita konur - umfram karlmenn (þeir taka yfirleitt ekki eftir augabrúnum). Á síðustu árum hefur færst í vöxt að konur skerpi á lit augabrúnanna. Jafnvel með því að láta húðflúra þær á sig. Sumar nota tækifærið og breyta lögun þeirra og/eða færa þær úr stað.
Hér eru nokkur skemmtileg dæmi:
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.12.2018 | 00:03
Stam
Í síðustu viku var ég í viðtali á Útvarpi Sögu, hjá Pétri Gunnlaugssyni. Nokkru síðar hringdi í mig kunningi. Hann var þá búinn að hlusta á spjallið í tvígang og hafði gaman af. Hinsvegar sagðist hann taka eftir því að stundum komi eins og hik á mig í miðri setningu, líkt og ég finni ekki rétta orðið.
Ég upplýsti hann um að ég stami. Af og til neita talfærin að koma strax frá sér tilteknum orðum. Á barnsaldri reyndi ég samt að koma orðinu frá mér. Þá hjakkaði ég á upphafi orðsins, eins og spólandi bíll. Með aldrinum lærðist mér að heppilegri viðbrögð væru að þagna uns ég skynja að orðið sé laust. Tekur aldrei lengri tíma en örfáar sekúndur.
Þetta hefur aldrei truflað mig. Ég hugsa aldrei um þetta og tek yfirleitt ekki eftir þessu.
Útvarp | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
25.11.2018 | 00:15
Kinnasleikir
Lengi er von á einum. Nú hefur Óli kinnasleikir bæst við í skrautlega flóru íslenskra jólasveina. Störfum hlaðin kynferðisbrotadeild ríkiskirkjunnar rannsakaði málið: Komst hægt og bítandi að niðurstöðu; um að háttsemi jólasveinsins falli undir eitt af mörgum fjölskrúðugum kynferðislegum áreitum og ofbeldi kirkjunnar þjóna. Kinnasleikir vill frekar telja þetta til almennra þrifa. Svona sé algengt. Einkum meðal katta.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
19.11.2018 | 23:04
Þegar Birgitta snéri mig niður
Nú standa öll spjót úti. Þau beinast að rithöfundinum og tónlistarkonunni Birgittu Haukdal. Hún hefur skrifað barnabækur um Láru. Hún leggur sig fram um að breyta eða leiðrétta staðalímynd telpna. Sem er gott mál. Ég ætla að gefa mínum barnabörnum þessar bækur. Nema hvað að í nýjustu bókinni kemur fyrir úrelt orð, hjúkrunarkona. Um það snýst fjaðrafokið. Hjúkrunarfræðingum þykir gróflega að sér vegið. Þeir eru miður sín.
Birgittu er eðlilega brugðið við hin hörðu viðbrögð. Hún harmar mistökin og lofar að þetta verði lagað í næstu prentun.
Ég þekki ekki Birgittu. Hef aldrei talað við hana né hitt hana. Hinsvegar varð mér á að blogga um hana skömmu fyrir jólin 2007, fyrir 11 árum. Hún kom fram í sjónvarpsþætti. Með vanþroskuðum galgopahætti reyndi ég að vera fyndinn á hennar kostnað; bullaði eitthvað um sjálfbrúnkukrem hennar.
Tveimur dögum síðar barst mér í hendur jólakort frá henni. Þar afvopnaði hún mig til lífstíðar. Steinrotaði mig með óvæntum viðbrögðum. Síðan hef ég ekki og mun aldrei segja né skrifa neitt neikvætt um hana. Það er mikið varið í manneskju sem tæklar ókurteisi í sinn garð svona glæsilega. Í kortinu stóð:
Bækur | Breytt 20.11.2018 kl. 03:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.11.2018 | 00:01
Uppfinningar sem breyta lífi þínu
Japanir eru allra manna iðnastir við að finna upp gagnlega hluti. Það er eins og þeir geri ekkert annað allan daginn. Hugmyndaflugið er ótakmarkað. Hér eru nokkur snjöll sýnishorn af vörum sem hafa ekki borist til Evrópu. Bara tímaspursmál um daga fremur en ár.
Sólarorkukveikjarinn sparar bensín og fé. Margnota líftíðareign. Fer vel í stóra vasa.
Augndropar eru til stöðugra vandræða. Þeir hitta ekki á augað. Lenda upp á enni eða niður á kinn. Þar fer dýr dropi til spillist. Augndropatrektin leysir málið. Snilldin felst í því að trektinni er haldið stöðugri með því að vera föst við gleraugu. Gleraugun tryggja að dropinn lendi á mitt augað.
Banani er hollastur þegar hann er vel þroskaður; orðinn mjúkur og alsettur svörtum deplum. Í því ástandi fer hann illa í vasa. Klessist og atar vasann. Bananaboxið er lausnin. Það er úr þunnu og léttu plasti og varðveitir lögun ávaxtarins. Algengt er að fólki með mikið dót í öllum vösum rugli öllu saman; man ekki stundinni lengur hvað er hvað. Bananaboxið lítur út eins og banani. Enginn ruglast á því.
Vatnsmelónur eru plássfrekar í verslunum og í flutningum. Þær staflast illa; kringlóttar og af öllum stærðum. Japanir hafa komist upp á lag með að rækta þær ferkantaðar. Þær eru ræktaðar í kassa. Þannig eru þær jafnframt allar jafn stórar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.11.2018 | 00:45
Smásaga um hjón
Jón og Gunna höfðu verið gift í átta ár. Þau voru barnlaus. Sem var í góðu lagi. Þau söfnuðu peningum í staðinn. Það kostar ekkert að vera barnlaus. Að því kom að þau langaði til að gera eitthvað skemmtilegt. Formlegur fjölskyldufundur var settur og farið yfir málið. Eða öllu heldur hjónafundur.
Gunna hafði lært fundarsköp á námskeiði. Hún var því sjálfkrafa ritari fundarins. Jón var einróma kjörinn formaður.
Svo vildi til að Jón og Gunna höfðu fyrir sið að borða á veitingastað fyrsta sunnudag hvers mánaðar. Eftir að skauta á milli fjölbreyttra veitingastaða varð að sið að snæða á asískum stað. Jón uppgötvaði að asískur matur var og er hans uppáhald. Í lok hverrar máltíðar á asískum veitingastað byrjaði hann að hlakka til næstu heimsóknar á asískan veitingastað. Var friðlaus. Nagaði eldspýtur og tannstöngla til að slá á tilhlökkunina. Eitt sinn nagaði hann skóreim.
Hjónafundurinn skilaði niðurstöðu. Hálfsmánaðarlangri ferð til Peking í Kína. Jón kumraði við hverja máltíð þar. Hótelið sem þau bjuggu á var vel staðsett. Sitt hvoru megin við það voru veitingastaðir og fjöldi verslana af öllu tagi. Þarna uppgötvaðist að Gunna hefur lítið áttaskyn. Ítrekað villtist hún þegar hún skrapp í næstu búð eftir gosdrykk eða súkkulaði. Týndist jafnvel klukkutímum saman. Alveg áttavillt.
Svo skemmtilega vildi til að skömmu eftir heimkomu til Íslands uppgötvaðist að Gunna var ólétt. Hún fæddi barn sléttum 9 mánuðum síðar.
Jóni var verulega brugðið er hann sá barnið. Það bar sterk útlitseinkenni kínversks barns. Fyrstu viðbrögð voru að snöggreiðsast. Hann hrópaði hamslaus af reiði á Gunnu: "Hvað er í gangi? Af hverju er barnið kínverskt?" Hann hefði lagt hendur á Gunnu ef hann hefði ekki í æsingnum runnið til á gólfmottu og skollið flatur á bakið á gólfið.
Ókurteisin lagðist illa í Gunnu. Hún sló til Jóns með inniskó - frekar ljótum - og svaraði: "Við hverju bjóst þú eiginlega? Étandi kínverskan mat í öll mál? Vitaskuld ber barn okkar einkenni þess!"
Jón áttaði sig þegar í stað á því að þetta var rétt. Hann varð skömmustulegur, niðurlútur og sagði - skríðandi á fjórum fótum: "Gunna mín, ég biðst innilega fyrirgefningar á framkomu minni. Þetta er rétt hjá þér. Ég mun refsa mér fyrir ruddaskapinn með því að klæða mig úr öllum fötum og velta mér nakinn upp úr snjóskafli." Það gerði hann. Nágrönnum til töluverðrar undrunar.
Tónlist | Breytt 13.11.2018 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.11.2018 | 00:09
Fóstureyðingar í Færeyjum
Um þessar mundir eru fóstureyðingar fyrirferðamiklar í umræðunni hér - eða þungunarrof eins og fyrirbærið er einnig kallað. Ástæða umræðunnar er sú að verið er að breyta lögum; rýmka og lengja heimild til verknaðarins fram að 23. viku meðgöngu.
Forvitnilegt er að bera saman á milli landa fjölda fóstureyðinga á ári. Færeyingar skera sig rækilega frá öðrum norrænum löndum. Í fyrra voru 19 fóstureyðingar þar.
Berum saman hve margar fóstureyðingar eru á móti hverjum 1000 börnum sem fæðast. Listinn er þannig:
Grænland 1030
Svíþjóð 325
Danmörk 264
Ísland 253
Noregur 224
Finnland 177
Færeyjar 29
Þessi samanburður undirstrikar að Færeyjar eru mesta velsældarríki heims. Annar listi sem styður það er hversu mörg börn hver kona eignast að meðaltali:
Finnland 1,5
Noregur 1,6
Ísland 1,7
Danmörk 1,75
Svíþjóð 1,8
Grænland 2,0
Færeyjar 2,5
Heilbrigðismál | Breytt 9.11.2018 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
2.11.2018 | 07:27
Hvers vegna þessi feluleikur?
Á níunda áratugnum vann ég á auglýsingastofu. Einn daginn kom Ingvar Helgason á stofuna. Hann rak samnefnda bílasölu. Hann sagðist vera að gera eitthvað vitlaust. Hann væri búinn að kaupa fjölda heilsíðuauglýsinga í dagblöðunum um tiltekinn bíl án viðbragða.
Þegar ég skoðaði auglýsingarnar blasti vandamálið við. Í þeim var bíllinn lofsunginn í bak og fyrir. Hinsvegar vantaði í auglýsingarnar hver væri að auglýsa; hver væri að selja bílinn. Lesandinn gat ekki sýnt nein viðbrögð.
Ég á fleiri sögur af fyrirtækjum sem auglýsa hitt og þetta án upplýsinga um það hver er að auglýsa og hvar hægt er að kaupa auglýstu vöruna.
Í vikunni birtist í Fréttablaðinu heilsíðuauglýsing undir fyrirsögninni "Combo-tilboð". Þar voru myndir af mat og drykk, brauðmeti og allskonar á tilboðsverði. Það er að segja lækkuðu verði - að því er má skiljast.
Undir auglýsinguna er kvittað "netgíró Kvikk". Ekkert heimilisfang. Engin vísbending um hvort um er að ræða sjoppu á Reyðarfirði eða í Keflavík, Stokkseyri eða Hofsósi.
Ég sló inn netgíró.is. Fyrirbærið reyndist vera einhverskonar peningaplottsdæmi. Lánar pening, gefur út greiðslukort og hengir fólk eða eitthvað.
Ég sló inn "kvikk.is". Þar reyndist vera bifreiðaverkstæði. Eftir stendur að ég hef ekki hugmynd um hver er að selja pylsu og gos á 549 kall. Þangað til ég kemst að því kaupi ég pylsu og gos í Ikea á 245 kall. Spara 304 krónur í leiðinni.
Viðskipti og fjármál | Breytt 3.11.2018 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.10.2018 | 10:55
Magnaðar styttur
Á áttunda áratugnum söng hljómsveitin Spilverk þjóðanna um "styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á." Hitti þar naglann á höfuðið eins og oft fyrr og síðar. Íslenskar styttur eru svo ljótar og óspennandi að fólk nennir ekki að horfa á þær.
Í útlöndum er að finna styttur sem gleðja augað. Hér eru nokkur dæmi. Ef þú smellir á myndirnar þá stækka þær og staðsetning birtist.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.10.2018 | 07:05
Hugljúf jólasaga
- Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.
- Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.
- Ertu ekki með lykil að útidyrunum?
Bækur | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.10.2018 | 09:58
Hvað segir músíksmekkurinn um þig?
Margt mótar tónlistarsmekk. Þar á meðal menningarheimurinn sem manneskjan elst upp í, kunningjahópurinn og aldur. Líkamsstarfsemin spilar stórt hlutverk. Einkum hormón á borð við testósteron og estrógen. Þetta hefur verið rannsakað í bak og fyrir. Niðurstaðan er ekki algild fyrir alla. Margir laðast að mörgum ólíkum músíkstílum. Grófa samspilið er þannig:
- Ef þú laðast að meginstraums vinsældalistapoppi (Rihanna, Justin Bieber...) er líklegt að þú sért félagslynd manneskja, einlæg og ósköp venjuleg í flesta staði. Dugleg til vinnu og með ágætt sjálfsálit. En dálítið eirðarlaus og lítið fyrir skapandi greinar.
- Rappheimurinn hefur ímynd ofbeldis og árásarhneigðar. Engu að síður leiða rannsóknir í ljós að rappunnendur eru ekki ofbeldisfyllri eða ruddalegri en annað fólk. Hinsvegar hafa þeir mikið sjálfsálit og eru opinskáir.
- Kántrýboltar eru dugnaðarforkar, íhaldssamir, félagslyndir og í góðu tilfinningalegu jafnvægi.
- Þungarokksunnendur eru blíðir, friðsamir, skapandi, lokaðir og með frekar lítið sjálfsálit.
- Þeir sem sækja í nýskapandi og framsækna tónlist (alternative, indie...) eru að sjálfsögðu leitandi og opnir fyrir nýsköpun, klárir, dálítið latir, kuldalegir og með lítið sjálfsálit.
- Unnendur harðrar dansmúsíkur eru félagslyndir og áreiðanlegir.
- Unnendum klassískrar tónlistar líður vel í eigin skinni og eru sáttir við heiminn, íhaldssamir, skapandi og með gott sjálfsálit.
- Djassgeggjarar, blúsarar og sálarunnendur (soul) eiga það sameiginlegt að vera íhaldssamir, klárir, mjög skapandi með mikið sjálfstraust og sáttir við guði og menn.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
14.10.2018 | 05:48
Færeyska velferðarríkið blómstrar
Færeyjar eru mesta velferðarríki heims. Færeyingar mælast hamingjusamasta þjóð heims. Atvinnuþátttaka kvenna er hvergi meiri í Evrópu, 82%. Þar af flestar í hlutastarfi. Þær vilja vera fjárhagslega sjálfsstæðar. Til samanburðar er atvinnuþátttaka Dana, karla og kvenna, 75%.
Færeyskar konur eru þær frjósömustu í Evrópu. Færeysk kona eignast 2,5 börn. Íslensk kona eignast 1,7 barn.
Til áratuga voru Færeyingar um 48 þúsund. Í ársbyrjun urðu þeir 50 þúsund. Á Ólavsvöku 29. júlí urðu þeir 51 þúsund. Ætla má að í eða um næstu áramót verði þeir 52 þúsund.
Aldrei áður hafa jafn fáir Færeyingar flutt frá Færeyjum og nú. Aldrei áður hafa jafn margir brottfluttir Færeyingar flutt aftur til Færeyja. Ástæðan er sú að hvergi er betra að búa.
Framan af öldinni heimsóttu 40 - 80 þúsund erlendir ferðamenn Færeyjar á ári. 2015 og 2016 brá svo við að sitthvort sumarið stóðu 500 Sea Shepherd-liðar misheppnaða vakt í Færeyjum. Reyndu - án árangurs - að afstýra hvalveiðum. Þess í stað auglýstu þeir í ógáti Færeyjar sem ævintýralega fagrar eyjar og óvenju gott og kærleiksríkt samfélag.
Áróður SS-liða gegn færeyskum hvalveiðum snérist í andhverfu. Færeyjar urðu spennandi. Í fyrra komu 160.000 ferðamenn til Færeyja. Miðað við bókanir næstu ára má ætla að erlendir ferðamenn í Færeyjum verði 200 þúsund 1920.
Vandamálið er að gistirými í Færeyjum svarar ekki eftirspurn. Í Færeyjum er ekki til neitt sem heitir eignaskattur. Þess vegna er algengt að Færeyingar eigi 2 - 3 hús til að lána vinum og vandamönnum í heimsókn. 38,9% gistinátta í fyrra voru í Airb&b. Í skoðanakönnun Gallup upplýstu gestir að ekki hafi verið um aðra gistimöguleika að ræða. Allt uppbókað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
10.10.2018 | 04:55
Ennþá fleiri gullmolar úr "Ekki misskilja mig vitlaust!"
"Þrír skór á verði tveggja." Útvarpsauglýsing frá íþróttavöruversluninni Under Armour vorið 2018.
"Komið þið sæl - ég verð því miður að afboða forföll á sambandsþingið - óska ykkur góðs gengis. Kv. Vigdís." Vigdís Hauksdóttir.
"Það er hver höndin upp á móti annarri við að hjálpa hinni." Þórarinn Kristjánsson frá Hólum í Geiradal að lýsa hjálpsemi sveitunga sinna.
"Hann var frændi minn til fjölda ára, flutti svo háaldraður til Reykjavíkur og lést þar á besta aldri." Langi-Sveinn (Sveinn Sveinsson) vörubílstjóri á Selfossi.
"Ég er í vandræðum með að fá föt á stelpuna því hún er svo ermalöng." Ína frá Víðidalsá í Steingrímsfirði (Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir) að kaupa peysu á dóttur sína.
"Þetta voru ekki góð mistök hjá Herði." Bjarnólfur Lárusson í knattspyrnulýsingu á Stöð 2.
Bækur | Breytt s.d. kl. 05:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.10.2018 | 06:19
Fleiri sýnishorn úr bókinni "Ekki misskilja mig vitlaust!"
Í síðustu færslu sagði ég frá nýútkominni bók, "Ekki misskilja mig vitlaust!". Hér eru nokkur sýnishorn úr henni:
"Í Kína eru mannréttindi brotin daglega á hverjum degi." Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fréttakona hjá RÚV.
"Það dregur úr vexti lambanna að slátra þeim of ungum." Páll Zóphóníasson.
"Hann hefur verið með meðfæddan galla frá fæðingu." Hörður Magnússon , íþróttafréttamaður Stöðvar 2.
"Aðalverðlaunin eru ferð á páskamót sem Disney-garðurinn í París heldur í lok árs." Karl Garðarsson, fréttamaður á Stöð 2.
"Ég get bara alveg sagt ykkur að hérna úti við vegamótin fórum við Reynir framhjá að minnsta kosti 100 manna hreindýrahópi." Gugga Reynis á Vopnafirði.
"Jæja, þá erum við allir dánir, bræðurnir, nema ég og Gulla systir." Árni á Brúnastöðum í Fljótum eftir jarðarför bróður síns á Siglufirði.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2018 | 08:38
Bráðskemmtileg bók
Í vikunni kom út bókin "Ekki misskilja mig vitlaust!". Hún inniheldur samantekt á spaugilegum mismælum og ambögum þjóðþekktra manna. Einkum þeirra sem hafa mismælt sig í beinni útsendingu í ljósvakamiðlum. Líka er vitnað til annarra. Til að mynda er titill bókarinnar sóttur í ummæli Guðbjarts Jónssonar. Hann var löngum kenndur við veitinga- og skemmtistaðinn Vagninn á Flateyri.
Allar tilvitnanir eru feðraðar. Þær eru ekki uppdiktaður útúrsnúningur. Það gefur textanum aukið vægi. Fjölbreytni er meiri en halda mætti að óreyndu. Margar tilvitnanir eru einnar línu setning. Aðrar slaga upp í smásögur.
Þrátt fyrir að bókin sé aðeins um 80 blaðsíður þá er textinn það þéttur - án mynda - að lestur tekur töluverðan tíma. Best er að lesa hana í áföngum. Japla á textanum í smáum skömmtum. Sum broslegustu mismælin eru þannig að maður áttar sig ekki á þeim við fyrsta lestur. Önnur er gaman að endurlesa og jafnvel brúka til gamans.
Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson. Í formála segir hann meðal annars: "Mismæli og ambögur ... og oft er útkoman algjör snilld! Merkir jafnvel eitthvað allt annað en upp var lagt með og kitlar þá stundum hláturtaugarnar. Tengist oft misheyrn og misskilningi og auðvitað öllu þar á milli."
Sýnishorn:
"Heilbrigðisráðherra tók ákvörðunina að höfðu samræði við lækna." Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2.
"Bíllinn er hálfur á hliðinni." Telma Tómasson, fréttakona á Stöð 2.
"Nú eru allir forsetar þingsins konur í fyrsta sinn." Páll Magnússon í fréttalestri í Ríkisútvarpinu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
27.9.2018 | 10:01
Vilt þú syngja á jólatónleikum?
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.9.2018 | 04:00
Auglýst eftir konu
Eftirfarandi frásögn svipar til brandara sem fór eins og eldur í sinu á níunda áratug síðustu aldar.
Færeyskur piltur, Klakksvíkingurinn John Petersen, fékk sér far með Dúgvuni, farþegabáti sem siglir á milli Klakksvíkur og Leirvíkur. Um borð keypti hann lakkrís og súkkulaðistykki. Sætaskipan er þannig að allir sitja til borðs með öllum. Ókunnug stúlka settist við sama borð og John. Skyndilega tekur hún sig til og brýtur vænan bita af súkkulaðinu. Honum þótti þetta "ódönnuð" framkoma. Lét samt eins og ekkert væri og fékk sér sjálfur vænan súkkulaðibita. Hún braut sér annan bita. Þá fór að síga í John. Til að tapa ekki restinni upp í stúlkuna gerði hann sér lítið fyrir og sporðrenndi henni með látum eins og langsoltinn hundur.
Kominn á land í Leirvík varð John á að fálma í úlpuvasa sinn. Þar fann hann súkkulaðið ósnert. Rann þá upp fyrir honum að hann væri dóninn. Ekki stúlkan. Hann hafði étið súkkulaði hennar. Hún var horfin úr sjónmáli. Þess vegna hefur hann nú tekið til bragðs að auglýsa eftir henni. Honum er í mun að biðjast afsökunar og útskýra hvað fór úrskeiðis.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
21.9.2018 | 08:11
Bruðlsinnar leiðréttir
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur varpað ljósi á einn anga bruðls með fé skattborgara. Hann var sendur til Grænlands við tíunda mann á fund Norðurlandaráðs. Þar voru samþykktar eldri ályktanir. Snúnara hefði verið að samþykkja þær rafrænt. Óvisst er að allir kunni á tölvu.
Guðmundi var stefnt til Nuuk tveimur dögum fyrir ráðstefnuna. Þar dvaldi hann í góðu yfirlæti á dýrasta hóteli sem hann hefur kynnst; 144 þúsund kall fyrir vikudvöl. Rösklega 20 þúsund kall nóttin.
Bruðlsinnar vísa til þess að einungis sé flogið til Nuuk frá Íslandi einu sinni í viku. Þess vegna hafi íslenskir ráðstefnugestir neyðst til að væflast í reiðuleysi í einhverja daga umfram ráðstefnudaga.
Vandamálið með dýra hótelgistingu sé að einungis eitt hótel finnist í Nuuk.
Hið rétta er að flogið er til og frá Nuuk og Reykjavík þrisvar í viku. Að auki er ágætt úrval af gistingu í Nuuk. Ekki allt 5 stjörnu glæsihótel; en alveg flott gistiheimili á borð við Greenland Escape Acommodation. Nóttin þar er á 11 þúsund kall.
Skoða má úrvalið HÉR.
Góðu fréttirnar - sem allir eru sammála um - eru að ráðstefnugestir fengu í hendur bækling prentaðan á glanspappír með litmyndum. Þar sparaðist póstburðargjald.
Viðskipti og fjármál | Breytt 22.9.2018 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.9.2018 | 04:16
Talnaglögg kona
Ég var að glugga í héraðsfréttablaðið Feyki. Það er - eins og margt fleira - í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Samt skemmtilegt og fróðlegt blað sem segir frá Skagfirðingum og Húnvetningum. Þar á meðal Unu. Ég skemmti mér vel við lestur á eftirfarandi. Ekki kom annað til greina en leyfa fleirum að skemmta sér.
Já, góðan daginn, hvar sagðirðu að þetta væri?
Hjá Feyki. Get ég eitthvað gert fyrir þig?
Já, sæll. Ég ætlaði einmitt að hringja í Feyki.
Ég heiti nú Sigurveig Una Sólmundardóttir, fyrrum bókhaldari hjá...
Una segirðu... já, og kennitalan?
Já, hérna... kannski er best að fá bara hjá þér Visa-númerið. Ertu ekki annars með kreditkort Una?
Takk, takk, Una. Við finnum þig á ja.is. Hún Sigga hringir í þig. Blessuð.
Spaugilegt | Breytt 19.9.2018 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)