Sparnaðarráð - spörum milljónir!

Denture 

  Margt fólk komið yfir miðjan aldur er með gervitennur,  svokallaða tanngóma.  Hjá næstu kynslóð fyrir ofan mig þóttu þannig gómar glæsilegustu fermingargjafir sem hægt var að gefa og eða fá.  Svona gervigómar eru nefnilega rándýrir.  Og einmitt vegna þess hvað þeir eru dýrir er blóðugt að vita til þess að fólk með gervitennur er jarðsungið með tennurnar þegar það fellur frá. 

  Þessu þarf að breyta.  Fólk getur gefið leyfi fyrir því að eftir dauða sinn séu líffæri þeirra grædd í lifandi fólk.  Svona leyfi þarf að ná yfir gervitennur líka.  Það verður þá hlutverk meðhjálparans í kjölfar kistulagningar að kippa gervigómum úr hinum látna og afhenda sýslumanni.

  Ef vel er haldið utan um þetta verður fljótlega til gott safn gervigóma á öllum sýsluskrifstofum landsins:  Gervigómasafn Eyjafjarðar,  Gervigómasafn Þingeyinga og svo framvegis.  Í þessi söfn koma síðan fátæklingar - ásamt vel stæðum en nískum - og máta upp í sig gervigóma þangað til þeir finna einhverja sem passa.  Þá mega þeir eiga góminn alveg ókeypis.  Mörgum munar um minna.  

---------------

Fleiri góð sparnaðarráð:

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/537968


Anna á Hesteyri - gestagangur

  anna á hesteyri

  Tveir rígfullorðnir menn heimsóttu Önnu á Hesteyri einn heitan sumardag.  Anna bauð þeim í bæinn að venju og gaf þeim kaffi.  Spjall var hinsvegar þeim annmörkum háð að Anna stillti útvarpið,  rás 1,  á botn skammt frá þeim.  Það var "sinfóníugaul" í útvarpinu,  eins og annar gestanna orðaði það er hann sagði mér söguna.  Þeim þótti þetta óþægilegt og margbáðu Önnu um að lækka í útvarpinu.  Anna sagðist vera að hlusta á útvarpið,  væri farin að tapa heyrn og yrði að hafa útvarpið á hæsta styrk.  Anna sagði þetta vera góða músík.  Enginn sem til Önnu þekkir veit til þess að hún hafi fyrr né síðar haft áhuga á klassískri músík.

  Annað þótti gestunum einkennilegt.  Heitt var í veðri og hlýtt inni í húsinu.  Um leið og gestunum var boðið í bæinn hljóp Anna á milli ofna og hækkaði hita í botn.  Áður en leið á löngu sátu þau þrjú öll í svitakófi eins og í gufubaði.  Þegar gestirnir báðu Önnu um að skrúfa fyrir ofna neitaði hún því.  Sagði að það væri kuldahrollur í sér.  Þó rann svitinn niður andlitið á henni.  Hún er venjulega kappklædd.  Í þetta sinn fækkaði hún fötum og var léttklædd á hennar mælikvarða.

  Vegna hávaðans frá útvarpinu og hitastækjunnar varð heimsóknin styttri en efni stóðu til.

  Nokkru síðar varð Anna uppvís af því að hafa falið kindur sem átti að vera búið að farga vegna riðuveiki á svæðinu.  Mennirnir áttuðu sig þá á því að útvarpið gegndi því hlutverki að jarm frá kindunum heyrðist ekki.  Hitastækjan gegndi því hlutverki að stytta heimsókn gestanna.

  Meira um földu kindurnar hennar Önnu Mörtu síðar.

  Aðrar sögur af Önnu:

- Slóst við mömmu
- Farandssali
- Sendi lögguna
- Einkennilegt aksturslag
- Meira af einkennilegu aksturslagi
- Samanbrotinn konfektkassi
- Nupo létt
- Bílprófið

11. sept

hörðurtorfa

  Í hugum margra er 11.  september ekki venjulegur dagur.   Þetta er dagur sem margir eru með hugann við og gleyma ekki.  Ástæðan er sú að 11.  september,  nánar tiltekið í kvöld,  heldur söngvaskáldið,  söngvarinn,  gítarleikarinn,  leikarinn og mannréttindafrömuðurinn Hörður Torfason sína árlegu hausttónleika í Borgarleikhúsinu.

  Svo brá við að um leið og miðasala hófst þá seldist upp á hljómleikana sem verða klukkan 20.00.  Vegna gífurlega mikillar eftirspurnar var brugðið á það ráð að bjóða upp á aukahljómleika klukkan 22.15.  Einhverjir örfáir miðar eru enn til á þá.  Miðana er hægt að kaupa á www.midi.is og einnig í Borgarleikhúsinu.

  Í næsta mánuði kemur út ævisaga Harðar.  Þar mun margt forvitnilegt koma fram og líklegt að bókin muni keppa við bókina um Önnu á Hesteyri um áhugaverðustu bækur ársins.  

  www.hordurtorfa.com


Plötuumsögn

boys in a bandboys in a band

Titill:  Black Diamond Train

Flytjandi:  Hljómsveitin Boys in a Band frá Færeyjum

Einkunn: **** (af 5)

  Fyrir örfáum árum fóru færeyskir vinir mínir að lofsyngja og hvetja mig til að kynna mér hljómsveitina Boys in a Band.  Þeir lýstu henni sem frábærri hljómsveit í anda skosku dansrokksveitarinnar Franz Ferdinand.  Ég varð ekkert spenntur.  Mér leiðist Franz Ferdinand.  En sem áhugamaður um færeyska músík varð ég að kíkja á BIAB.  Þar reyndist vera komin fram á sjónarsvið mjög öflug sviðshljómsveit,  hreinlega að springa úr spilagleði,  krafti og bara flott hljómsveit í alla staði.  Blessunarlega ekki of lík Franz Ferdinand þó músíkin sé fönkskotið dansvænt rokk.

  Það kom ekki verulega á óvart þegar BIAB sigraði í öllum þrepum alþjóðlegu hljómsveitakeppninnar Battle of the Bands og stóð að lokum uppi sem sigurvegari í lokaúrslitakvöldinu í London.  Mig minnir að verðlaunin hafi verið um 8 milljónir íslenskra króna. 

  Nú er frumburður BIAB kominn út á plötu,  Black Diamond Train.  Spilagleðin skilar sér bærilega.  Hljómurinn er skemmtilega hrár.  Lögin eru létt og grípandi.  Hljóðfæraleikurinn er laus við  sýndarmennsku og stæla.  Það er samspilið og "grúvið" sem ráða ríkjum.  Allt flott og vel gert.  Krafturinn er góður.  Músíkin er glaðvær en ágætir textar á ensku eru þunglyndari.  Eins og áberandi er í færeyskri músík eru textarnir biblíuskotnir.

  Platan er heilsteypt en ekki einhæf.  Smá kántrý-stemmning læðist með í stöku lagi og endar á rólegri og fallegri ballöðu,  Baby Blue

  BIAB heldur hljómleika á Airwaves síðar í haust.  Ég hvet fólk til að missa ekki af þeirri skemmtan.  Og einnig til að tékka á plötunni góðu.  Við erum að tala um virkilega góða plötu frábærrar sviðshljómsveitar.


Sigurjón næsti formaður Frjálslynda flokksins

  sigurjón

  Stjórn Frjálslynda flokksins í Eyjafirði hefur sent frá sér tilkynningu þar sem skorað er á Sigurjón Þórðarson að gefa kost á sér til formennsku í flokknum á landsþingi flokksins sem haldið verður eftir fjóra mánuði.  Þetta líst mér vel á og styð eindregið.  Sigurjón hefur alla burði til að sameina flokksfélaga í þeim knýjandi verkefnum sem framundan eru og rífa upp fylgi flokksins. 

  Sigurjón er vel kynntur á landsbyggðinni,  sem og á höfuðborgarsvæðinu.  Hann á auðvelt með að vinna með fólki og nýtur stuðnings grasrótarinnar. 

  Frjálslyndi flokkurinn á gott sóknarfæri og Sigurjón er best til þess fallinn að leiða flokkinn til stórsigurs í næstu kosningum. 

  Sjá www.xfakureyri.blog.is

 


mbl.is Vilja að Sigurjón gefi kost á sér sem formaður Frjálslynda flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðar árásir á lögregluna

 Sigurður Pétur ÓlafssonGazman

  Í Morgunblaðinu er haft eftir Geir Jóni Þórissyni,  yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,  að árásir á lögregluna séu alltof tíðar.  Ég hef ekki kynnt mér málið en hallast að því að Geir Jón hafi sitthvað fyrir sér hvað þetta varðar.  Til að vera ekki yfirdrifinn hefði ég þó að óreyndu látið duga að segja að árásir á lögregluna séu of tíðar.  Hinsvegar geri ég mér ekki grein fyrir því hvað árásir á lögregluna þurfa að vera tíðar til að teljist hæfilegt.  Upplýsingar um það vantar svo hægt sé að hafa þær innan skynsamlegra marka. 


Ég var klukkaður

  Meistarinn sjálfur,  Magnús Geir Guðmundsson,  klukkaði mig.  Leikurinn gengur út á að svara nokkrum spurningum.  Ég hef kíkt á svona klukk-kvitt hjá nokkrum bloggurum og þótt gaman að lesa.  Þetta er öðruvísi klukk en fór mikinn í bloggheimum í fyrra.  Það gekk út að kjafta frá leyndarmálum eða öðru sem fáir vita af.  En hér eru svörin við þessum nýja klukk-leik:

Fjögur störf sem ég hef unnið:


- Merkti kjötskrokka (1. flokkur,  2. flokkur o.s.frv.)  í Sláturhúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki,  grisjaði þá og færði inn í frystiklefa.  Þetta vann ég við frá 12 ára aldri til 15.

- Keyrði traktor í álverinu í Straumsvík frá því að ég var rekinn frá Laugavatni og þangað til ég hóf nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

- Fyllti í konfekt hjá sælgætisgerðinni Freyju á milli námsvetra í MHÍ.

- Blaðamaður hjá ýmsum tímaritum í 30 ár,  allt frá barnablaðinu Æskunni til dagblaða og ýmissa músíkblaða.

Fjórar bíómyndir sem ég hef glápt á oftar en einu sinni:

- Rokk í Reykjavík

- Sódóma Reykjavíkur

- I Kina spiser de hunde

- Djöflaeyjan 

4 staðir sem ég hef búið á:

- Hrafnhóll í Hjaltadal,  Skagafirði

- Barónsstígur í Reykjavík

- Grettisgata í Reykjavík

- Ásgarður í Reykjavík

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég held upp á:

- Silfur Egils

- Kastljós

- Fréttir í Sjónvarpinu og Stöð 2

- Ísland í dag

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt:

- Amarillo,  Texas (að heilsa upp á tengdapabba og hans fólk)

- Aasiaat,  Grænlandi (að spila á rokkhátíðinni Nipiaa Rock Festival tvö ár í röð)

- Edinborg,  Skotlandi (að spila á listahátíð)

- Ýmsir staðir á Færeyjum.  Hef sennilega kíkt um 30 sinnum á Færeyjarnar


Fjórar síður sem ég heimsæki fyrir utan bloggsíður:

- www.planet.fo

- www.portal.fo

- www.uf.fo

- www.sosialurin.fo

Fjórar bækur sem ég hef lesið oftar en einu sinni:

- Símaskráin

- Bankabókin

- Glósubók sem ég fann um daginn

- Eru ekki allir í stuði? Rokksaga Íslands eftir Dr. Gunna

Fjórir uppáhaldsréttir:

- Sjósiginn fiskur með hamsafloti

- Smjörsteiktur humar

- Selspik

- Súr hvalur

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna:

- Gata í Færeyjum

- Þórshöfn í Færeyjum

- Klakksvík í Færeyjum

- Svítan á Hótel Borg

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

- Sigurður Þórðarson

- Siggi Lee Lewis

- Jón Steinar Ragnarsson

- Steini Briem


Stórskemmtilegt afmælishóf

  sverrir_stormsker_jpg_280x800_q95

  Múgur og margmenni safnaðist á skemmtistaðinn Steik & leik (Steak and play) við Grensásveg í gær.  Tilgangurinn var að hjálpa Sverri Stormsker yfir fertugasta og fimmta aldursárið.  Þrátt fyrir sjóndepru kom ég auga á margt kunnuglegt andlitið.  Þar á meðal Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndísi Schram,  Markús Þórhallsson og Halldór Einarsson af Útvarpi Sögu,  Eirík Stefánsson,  Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamann og söngvara,  Sigga Lee Lewis og Hörpu Karls fyrrverandi tilvonandi forsetafrú.  Sverrir Stormsker var þarna líka og spilaði á píanó.  Arnar látúnsbarki söng.  Er leið á kvöld var opnað fyrir karíókí.  Þá kom í ljós að fleiri gátu tekið lagið en Arnar.

  Borð svignuðu undan kræsingum af ýmsu tagi.  Gosdrykkir,  bjór og fleiri drykkir flutu í stríðum straumum.  Allir virtust skemmta sér konunglega.  Enda var þetta afskaplega vel heppnað og skemmtilegt afmælishóf í alla staði. 

  Ég hef ekki áður kíkt á Steik & leik.  Þetta er hinn glæsilegasti staður.  Ólíklegt er að annar skemmtistaður á Íslandi sé með jafn góða reykingaraðstöðu.


Spaugileg símtöl

  snekkja

  Þegar hringt er í þjónustuver Símans eru öll samtöl hljóðrituð.  Eftirfarandi tilvitnanir eru úr raunverulegum símtölum í þjónustuverinu:

 1#  Ég er að flytja frá Akureyri til Reykjavíkur í eitt ár. Er hægt að
  flytja gsm númerið með sér til Reykjavíkur eða eða þarf ég að fá mér nýtt
  númer?

  2#  Nei, nei.  Þetta er eitthvað bilað hjá ykkur.  Ég er búinn að hafa
  þetta símtæki í 40 ár, og hann fer nú varla að bila úr þessu!


  3#  Ég er að fara til USA á morgun og ætla að taka GSM símann minn með.
  Á ég að taka hleðslutækið með mér líka?
  (Síðar í samtalinu kom í ljós að fyrirspyrjandi að velta fyrir sér hvort hann geti hlaðið
símann í USA vegna þess að þar er mun veikara rafmagn en í Evrópu en meiri
riðstraumur).

  4#  Þegar maður er staddur í útlöndum, og hringir heim, þarf maður að
  setja 354 fyrir framan, en hvað þarf maður að setja fyrir framan þegar
  maður er að senda tölvupóst erlendis frá?


  5#  Ég er með breiðvarpið, og horfi mest á spænsku stöðina.  Hún er
  svarthvít hjá mér, og ég er að horfa á matreiðsluþátt.  Geturðu sagt mér
  litinn á kökunni sem er á skjánum núna?


  6#  Hvað á þetta að þýða að loka símanum?  Ég gerði allt upp hjá ykkur
  fyrir nokkrum mánuðum síðan.


  7#  Ég var að pæla í að gefa stráknum mínum LSD.  Getið þið reddað því
  fyrir mig?  (Þegar leið á samtalið reyndist fyrirspyrjandi vera að meina ADSL)


  8#  Ég stillti GSM símann minn á þýsku, en þegar ég sendi þýskri vinkonu
  minn SMS, fær hún þau bara á íslensku!


Afmælisbarn dagsins

  sstormsker

  Í Fréttablaðinu í dag er fyrirsögn leiðarans "Maður fólksins í landinu".  Ég hef ekki ennþá gefið mér tíma til að lesa leiðarann en reikna með að hann fjalli um afmælisbarn dagsins, en í gær varpaði ég fram spurningu um hver væri afmælisbarn dagsins.  Vísbendingarnar sem ég gaf upp voru þær að viðkomandi verði 45 ára í dag og sé eitt helsta söngvaskáld landsins.  Spili á hljómborð og syngi þegar svo ber undir.  Margir vinsælustu söngvarar þjóðarinnar hafi sungið lög hans inn á plötur og ennþá fleiri hafi sungið texta eftir hann.

  Af 29 sem spreyttu sig á getrauninni höfðu ótrúlega margir rétt svar:  Sverrir Stormsker er afmælisbarn dagsins.  Til hamingju með afmælið,  strákur! 

  Eftir undrabarnið liggja meðal annars:

Plötur:

"Hitt" er annað mál, 1985.

Lífsleiðin(n), 1986.

Ör-lög, 1987.

Stormskers guðspjöll, (tvöfalt albúm), 1987.

Nú er ég klæddur og kominn á rokk og ról, (barnaplata), 1988.

Nótnaborðhald (frums. píanóverk), 1988.

Hinn nýi íslenski þjóðsöngur, 1989.

Glens er ekkert grín, 1990.

Greatest (S)hits, (úrval 1), 1991.

Ör-ævi, 1993.

Tekið stórt uppí sig, 1995.

Tekið stærra uppí sig, 1996.

Best af því besta, (úrval 2), 2000.

There is only one, 2007.

Bækur:

Kveðið í kútnum, (ljóð), 1982.

 Bókin (trébók í 7 eint.), 1983.

Vizkustykki, (ljóð), 1991.

Stormur á skeri, (frums. málshættir), 1993.

Með ósk um bjarta framtíð, (ljóð), 1997.

Orðengill, (frums. nýyrðabók), 1997.

Hrollvekjur og hugvekjur (greinasafn), 2002.

Myndlist:

Samsýning á Gallerí Borg, 1993. 


Getraun - spreytið ykkur

  Ein helsta íslenska poppstjarnan fagnar hálfníræðisafmæli (45 ára) á morgun.  Viðkomandi er í hópi fremstu söngvaskálda þjóðarinnar og hefur unnið mörg afrek á því sviði.  Maðurinn spilar líka á hljómborð og tekur lagið þegar þannig liggur á honum.  Margir af vinsælustu söngvurum landsins hafa sungið lög hans inn á plötur og ennþá fleiri hafa sungið texta eftir hann. 

  Hver er maðurinn?  Komdu með tillögu út frá þessum vísbendingum.  Svarið birti ég á morgun.   


Ókeypis bjór

  abddfgjiklmnopqrstuú

  Þrír ókunnugir menn tóku tal saman á barnum Good Fellas í Ármúla.  Einn var frá Reyðarfirði.  Annar frá Keflavík.  Sá þriðji frá Akureyri.  Þegar ölið fór að svífa á þá blossaði upp átthagametingur.  Þeir fóru að stæra sig.  Reyðfirðingurinn sagði:  "Þegar ég drekk á pöbbnum heima fæ ég fimmta hvern bjór frítt allt kvöldið."

Keflvíkingurinn sagði:  "Láttu mig kannast við þetta.  Á barnum heima fæ ég líka fimmta hvern bjór frían.  Að auki er mér boðið upp á ókeypis skot með þriðja hverjum bjór allt kvöldið."
Akureyringurinn sagði:  "Ég er reyndar aldrei á neinu pöbbarölti fyrir norðan.  Ég veit samt um bar á Akureyri þar sem maður fær frían bjór um leið og maður kemur inn.  Síðan fær maður frían bjór allt kvöldið.  Inn á milli fær maður allskonar svakalega góða kokteila alveg ókeypis.  Svo fer maður upp á aðra hæð og fær þar frían drátt í trekanti með tveimur flottum."
  Þessu trúðu hinir ekki.  Þeir kölluðu Akureyringinn ómerkilegan lygara og rugludall.  En Akureyringurinn stóð fastur á sínu,  sór og sárt við lagði að fyrr skyldi hann dauður liggja en fara með ósannindi.  Honum sárnaði virkilega að orð sín og heilindi væru dregin í efa.  
  Reyðfirðingurinn sá að Akureyringurinn virtist vera einlægur maður.  En var samt efins og spurði:  "Getur þú svarið að þú sjálfur hafir farið inn á þennan stað og fengið svona móttökur."
  Akureyringurinn svaraði af hreinskilni:  "Nei,  að vísu ekki ég sjálfur.  En litla systir mín,  sem er nýkomin með aldur til að komast inn á skemmtistaði,  er búin að fara þangað tvisvar og lenti í þessu í bæði skiptin."   

Guðleysi - nýstofnað félag

 sacred_heart_of_elvis.small

  Fyrst þegar ég heyrði af fyrirhugaðri stofnun félagsins Guðleysi hélt ég að óreyndu að þarna væru óvinir mínir að sameinast í félagsskap.  Þegar á reyndi og félagið hefur nú verið stofnað formlega og skráð liggur fyrir að félaginu er ekki beint gegn mér - að því er best verður ráðið.  Stefna og markmið félagsins er að rjúfa samþættingu trúarbragða við stjórnmál í Færeyjum. 

  Íslendingar sem ferðast til Færeyja verða fljótlega varir við að trúmál spila miklu stærri rullu í færeysku samfélagi en við eigum að venjast.  Í umræðum á færeyska lögþinginu er iðulega vitnað í bókstaf Biblíunnar.  Mörgum þótti þetta keyra um þverbak í umræðunni fyrir jól 2006 þegar lagt var fram frumvarp á lögþinginu sem bannaði ofsóknir gegn samkynhneigðum.  Eftir miklar umræður og harðvítug átök náði frumvarpið fram að ganga.  Við kirkjur eyjanna var flaggað í hálfa stöng þegar frumvarpið varð að lögum.  

  Hópur ungra Færeyinga hefur stofnað félagið Guðleysi.  Það er mikið hitamál í Færeyjum þessa dagana.  Mörgum er brugðið og viðbrögð við félaginu eru hörð.  Greinar með og á móti félaginu eru áberandi í færeysku dagblöðunum.  Sprengju hefur verið varpað inn í umræðuna með stofnun þessa félags.

  Eftir því sem mér skilst er félaginu ekki beint gegn trúarbrögðum sem slíkum heldur hefur félagið skorið upp herör gegn því að bókstafur Biblíunnar sé ráðandi í umræðu og afstöðu til samfélagsmála í Færeyjum.  Félagar í Guðleysi eru ekki einungis trúlausir heldur einnig þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni. 


Að gefnu tilefni...

  Skúbbið mitt í gærmorgun um væntanlega upprisu tímaritsins Birtu vakti mikla athygli og ekki síður taugatitring í fjölmiðlaheiminum.   Á www.visir.iswww.dv.is og útvarpsstöðvum var skúbbið hent á lofti og fréttir unnar úr því er leið á daginn.  Jafnframt fór í gang ófrægingarherferð gegn Birtu.  Því var slegið upp að nafni og "konsepti" blaðsins væri stolið frá útgáfufélaginu 365,  rétthafa þess.  Jafnframt að útgefendur Fréttablaðsins kannist ekki við að dreifingarfélag þess,  Pósthúsið,  muni sjá um dreifingu Birtu.

  Vegna fréttaflutningsins er mér ljúft og skylt að upplýsa eftirfarandi: 

  Fyrsta tölublað Birtu hefur þegar verið prentað.  Því verður dreift inn á heimili landsins samviskusamlega að morgni komandi föstudags.  Öll útgáfuréttindi Birtu hafa verið þingfest og skráð,  þar með talið nafn blaðsins.  Það eru engir óleystir endar sem eiga eftir að dúkka upp og hindra að nýstofnað útgáfufélag Birtu muni bjóða upp á sjóðandi heitt og ferskt nýtt tölublað af Birtu á hverjum föstudegi um ókomna framtíð.   

  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/631641


Snilldar aðferð!

  Núna áðan borgaði ég með glöðu geði nokkra skemmtilega reikninga í bankanum.  Ég leyfi þeim alltaf að fara aðeins yfir eindaga til að fá á sig dálítið af dráttarvöxtum.  Það er reisn yfir því.  Á spjalli við gjaldkerann rifjuðum við upp sögu af vestfirskum bónda.  Hún gerðist fyrir daga Intrum,  Skilvís,  Lögheimtunar og allra þessara nútíma innheimtufyrirtækja.  Eitthvert fyrirtæki sem maðurinn skuldaði leitaði þó til lögfræðings sem sendi honum hótunarbréf um harðar innheimtuaðgerðir.
  Bóndinn skrifaði lögfræðingnum bréf.  Þar sagði eitthvað í þessa veru:
  - Ég borga ætíð skuldir mínar.  Nú hefur árað illa og mér tekst ekki að borga á gjalddaga.  Alla reikninga sem ég fæ raða ég í bunka á borð mitt í þeirri röð sem þeir berast.  Nýjustu reikningunum sting ég undir bunkann þannig að þeir elstu eru efst.  Bunkinn hefur því miður farið stækkandi að undanförnu. 
   Í hvert sinn sem mér áskotnast peningur tek ég efstu reikningana í bunkanum og borga þá.  Þannig kemur fyrr eða síðar röðin að hverjum og einum reikningi.  
  Þegar ég fæ hótunarbréf tek ég reikning viðkomandi út úr bunkanum og set hann aftur neðst í bunkann. 

Kvikmyndaumsögn

Sveitabrudkaup

Titill:  Sveitabrúðkaup
Helstu leikarar:  Sigurður Sigurjónsson,  Þröstur Leó Gunnarsson,  Ingvar E.  Sigurðsson,  Kristbjörg Kjeld,  Árni Pétur Guðjónsson,  Ólafur Darri,  Ágústa Eva,  Herdís Þorvaldsdóttir og margir fleiri
Leikstjóri og handritshöfundur:  Valdís Óskarsdóttir
Einkunn:  **** (af 5)
.
  Fyrst eru það neikvæðu punktarnir.  Nafnið Sveitabrúðkaup er fráhrindandi.  Það laðar fram tilfinningu fyrir leiðindum en ekki skemmtun.  Auglýsingin (sjá mynd) er álíka fráhrindandi.  Teikningarnar eru góðar en uppsetningin á auglýsingunni gefur ekkert skemmtilegt til kynna.  Auglýsingin þolir heldur ekki að vera smækkuð.  Hún samanstendur af smáum atriðum sem breyta myndunum í þokukenndar klessur þegar auglýsingin er minnkuð í eins dálks dagblaðaauglýsingu.  Það er grundvallarregla í grafískri hönnun að bíóauglýsing verði að þola eins dálks stærð.   
Sveitabrudkaup
  Kynningarmyndbandið (trailer) gefur engan veginn til kynna hvað myndin er í raun skondin og skemmtileg.
  Söguþráðurinn er lítilfjörlegur.  Við fylgjumst með hópi fólks í tveimur rútum ferðast úr Reykjavík upp í Borgarfjörð.  Burðarbiti myndarinnar eru samskipti og samtöl þessa fólks. 
  Framan af er myndin bragðdauf.  Það er bara rétt á meðan helstu persónur eru kynntar til leiks.  Eftir það taka við hnyttin samtöl og atvik.  Myndin kemst á gott flug sem helst til enda.  Brosið fer ekki af manni á milli hláturgusa sem brjótast reglulega fram.
  Landsmenn eiga eftir að taka upp mörg spaugileg tilsvör úr myndinni og gera ódauðleg.  Íslenska hópsálin er þannig.  Þegar bíógestir nestuðu sig upp fyrir sýninguna og í hléi mátti heyra suma biðja um "stórasta popp í heimi" eða "stórasta kókglasið".  Það brást ekki að viðstaddir veltust um af hlátri yfir brandaranum.     
  Myndin er farsi með dramtískum undirtóni.  Sumar persónurnar eru ýktar án þess að tapa trúverðugleika.  Það er engin ástæða til að velta fyrir sér örfáum gloppum í sögunni.  Farsar þurfa ekki að standast rökhugsun.  Það sem öllu máli skiptir er að þetta er smellin mynd.  Ég mæli með henni sem hinni bestu kvöldskemmtun fyrir alla aldurshópa.
.
  Leikararnir eru einvalalið þrautreyndra.  Þeir standa sig hver öðrum betur.  Herdís Þorvaldsdóttir sem amma brúðurinnar og Kristbjörg Kjeld sem mamman eru fremstar meðal jafningja. 
  Leikstjórinn,  Valdís Óskarsdóttir,  er klippari á heimsmælikvarða.  Klippingin er markviss og ákveðin.  Þó að sumsstaðar sé klippt bratt á milli samtala ólíks fólks þá rennur myndin svo lipurlega áfram að maður tekur ekki eftir klippingum nema veita þeim sérstaklega athygli. 
.
  Um tónlistina sér enska "pönk"-kabarett tríóið The Tiger Lillies.  Fyrst var ég ósáttur við að heyra að músíkin er sungin á ensku.  Ég hefði kosið rammíslenska músík.  En The Tiger Lillies er svo flott hljómsveit að það er auðvelt að taka músíkina í sátt.  The Tiger Lillies er undir sterkum áhrifum frá þýska tvíeykinu Kurt Weill & Brecht.  Ein plata The Tiger Lillies heitir meira að segja  2 Penny Opera  og vísar þar í vinsælustu óperettu Kurts Weills og Brechts,  3 Penny Opera
.
  Ég er vanur að sofna nokkrum sekúndum eftir að ég loka augunum.  Í gærkvöldi hélt myndin fyrir mér vöku.  Hvert broslega atriðið á fætur öðru úr henni rifjaðist upp og ég hló mig í svefn seint og síðarmeir.

Svörin við þrautinni í síðustu færslu

  Hér eru upplýsingar um það hvaða ljósmyndir eru ófalsaðar og hverjar eru falsaðar í síðustu færslu.  Ef þú ert ekki þegar búin/n að spreyta þig á þrautinni skaltu fyrst tékka á myndunum áður en þú skoðar þessar upplýsingar.  Það er gaman að virða myndirnar fyrir sér og reyna að komast að niðurstöðu.

1 Ekta (stærsta brú í heimi)

2 Fölsuð (draugur)

3 Ekta (auga úti í geimi)

4 Ekta (aflagað hús)

5 Ekta (bátur)

6 Fölsuð (eðla)

7 Fölsuð (flóðbylgja)

8 Fölsuð (flugsýning)

9 Ekta (háir háhælaskór)

10 Ekta (hundur sem réðist á broddgölt)

11 Fölsuð (hákarl ræðst á þyrlu)

12 Ekta (skíðasvæði)

13 Ekta (Kólibrí-fuglar)

14 Ekta (laumufarþegi)

15 Ekta (leirgedda)

16 Ekta (ormur)

17 Fölsuð (ljósmynd á pilsi)

18 Ekta (albinóa-kálfur)

19 Fölsuð (11. sept. ´01)

20 Ekta (peningar)

21 Ekta (fiskur)

22 Fölsuð (hestur og hundur)

23 Ekta (kanína)

24 Ekta (köngulær)

25 Fölsuð (köttur)

26 Ekta (annar köttur)

27 Ekta (sandstormur)

28 Ekta (skógareldur)

29 Fölsuð (ský)

30 Fölsuð (tölva)

31 Fölsuð (sólsetur)

32 Ekta (tvíburar)


Spreyttu þig á þessu

  Myndirnar hér að neðan eiga það sameiginlegt að hafa birst í dagblöðum,  tímaritum og á netinu sem ófalsaðar og ekta.  Sú er samt ekki raunin með þær allar.  Áður en þú skoðar myndirnar skaltu skrifa á blað tölurnar frá 1 upp í 32.  Því næst skoðarðu hverja mynd fyrir sig og veltir fyrir þér hversu líklegt sé að myndin sé ekta eða fölsuð.  Þegar þú hefur komist að niðurstöðu skrifarðu E við þær myndir sem eru ekta og F við fölsuðu myndirnar.  Ath.  að skrifa ekki á tölvuskjáinn heldur á blaðið með númerunum.   

  Þessi leikur reynir á jafnvægið á milli þess að vera tortryggin/n og trúgjarn/gjörn.  Þekking á "fótósjoppi" hjálpar. 

1.  Brú

brú ö R

2.  Draugur (til vinstri á myndinni)

  Draugur (til vinstri) F

3.  Auga úti í geimi

Auga úti í geimi R

4.  Aflagað hús

Aflagað hús R

5.  Bátur

bátur R

6.  Eðla í Malasíu

 Eðla í Malaysíu F

7.  Flóðbylgja í Taílandi

flóðbylgja í Thailandi F

8.  Flugsýning 2006

Flugsýning F

9.  Háir háhælaskór

háir háhælaskór R

10. Hundur sem réðist á broddgölt

hundur sem réðist á broddgölt R

11. Hákarl reynir árás á þyrlu

Hákarl ræðst á þyrlu F

12.  Innanhúss skíðasvæði í Dubai

Inni skíðasvæði í Dubai R

13.  Kólibrí-fuglar drekka úr lófa

Kólibrífuglar drekka úr lófa R

14.  Laumufarþegi sem fannst við landamæraeftirlit

laumufarþegi R

15. Leirgedda étur gúmmíbolta

Leirgedda étur gúmmíbolta R

16. Ormabæli í auga

Lifandi ormur í auga

17. Ljósmynd á pilsi

Ljósmynd á pilsi F

18. Litlaus hjartarkálfur

litlaus hjartarkálfur

19. Mynd tekin 11. sept. 2001 í WTC

Óþekktur ferðamaður í WTC 11.sept.´01 F

20. Peningar sem lögregla fann í áhlaupi á dópsala

Peningar teknir í áhlaupi lögreglu á dópsala R

21. Fiskur

Risafiskur R

22. Smáhestur (póný) og stór hundur

risahundur F

23. Kanína

Risakanína R

24. Grimmar risaköngulær

Risaköngulær R

25. Köttur

risaköttur F

 26. Annar köttur

Risaköttur R

27.  Sandstormur

Sandstormur R 

28. Skógareldur

Skógareldur á fjalli R

29. Ský

Ský F

30. Tölva á sýningu 1954

Tölva á sýningu 1954 F

31. Sólsetur á Norðurpólnum

Sólsetur á Norðurpólnum F

32. Tvíburar

tvíburar R

Rétt svör verða birt í næstu færslu í kvöld.  Þangað til skaltu "kópera" tölurnar hérna fyrir neðan, "peista" í athugasemdir og skrifa E eða F fyrir aftan þær eftir því sem við á.

1

2

3

4

5

6

7

8

9

10

11

12

13

14

15

16

17

18

19

20

21

22

23

24

25

26

27

28

29

30

31

32


Jenný Anna kosin besti bloggarinn 2008

  Mig langar til að vekja athygli á úrslitum í skoðanakönnun um besta bloggarann.  Það var Karl Tómasson,  best þekktur sem trommari Gildrunnar og forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar,  sem stóð fyrir könnuninni á bloggsíðu sinni.  Hann hafði þann hátt á að óska fyrst eftir tilnefningum og stilla síðan þeim nöfnum sem voru tilnefnd upp í formlega skoðanakönnun.

  Þegar kosningu lauk í gær höfðu rösklega 2500 atkvæði skilað sér í hús.  Það telst vera meira en gott úrtak. 

  Ég óska Jenný Önnu til hamingju með titilinn.  Hún er vel að honum komin.  Það er ekki tilviljun að bloggið hennar er ýmist í efstu eða efsta sæti yfir vinsælustu blogg hverju sinni.  Hún orðar hlutina oft skemmtilega,  stingur á kýlum í þjóðfélaginu og er óvenju hreinskilin um einkamál sín.

  Ef þið eruð ekki ennþá búin að uppgötva besta bloggarann 2008 þá er slóðin www.jenfo.blog.is.  Kalli hefur boðað að hann muni birta viðtal við Jenný á bloggsíðu sinni,  www.ktomm.blog.is,  á næstu dögum.   

 


Veitingahús - umsögn

 steiktur

Veitingastaður:  American Style,  Skipholti 70,  Reykjavík

Réttur:  Steiktur fiskur 

Verð:  1395 kr.

Einkunn: ** (af 5)

  Íslenskur veitingastaður sem kallast American Style vísar til þess að boðið sé upp á mat og umhverfi að amerískum hætti.  Nærtækast er að ætla að staðurinn sé í grænlenskum stíl.  Grænland er það land Ameríku sem stendur Íslandi næst landfræðilega.

  Þegar inn á staðinn er komið blasa við stórar ljósmyndir af síðhærðum rokkstjörnum.  Án þess að velta því frekar fyrir mér gekk ég út frá því sem vísu að myndirnar væru af liðsmönnum grænlensku hippahljómsveitarinnar frábæru Sume.  Ég virti myndirnar betur fyrir mér á meðan beðið var eftir matnum.  Þá sá ég að þær voru af breskum og bandarískum hipparokkurum í betri kantinum:  Led Zeppelin,  Jimi Hendrix og svo framvegis. 

  American Style er skyndibitastaður í fínni flokknum.  Uppistaðan af matseðli eru samlokur,  hamborgarar,  pítur,  franskar og þess háttar.  En einnig nautasteik,  steiktur fiskur og fleira.  Sennilega er óhætt að setja AS í flokk með Pítunni og Vitaborgaranum.

  Ég pantaði mér steiktan fisk án þess að spyrjast frekar fyrir um hann.  Vonaðist til að hann væri pönnusteiktur.  Þannig fisk fékk ég mér stundum í Pítunni á árum áður.  Þar er ekki lengur boðið upp á þann rétt.

  Þegar maturinn var lagður á borð fyrir framan mig blasti við djúpsteiktur fiskur með frönskum kartöflum.  Þetta var ekki grænlenskur réttur heldur breski þjóðarrétturinn Fish & Chips.  Sem betur fer var fiskurinn þó ekki þakinn þykku hveitideigi að hætti Breta heldur þunnri og ágætri kryddblöndu.  Djúpsteiktur fiskur í Bretlandi er þorskur en í AS er það ýsa.  Því fagnaði ég með niðurbældu húrrahrópi.  Ég er meira fyrir ýsuna nema þegar um saltfisk er að ræða.   

  Franskar kartöflur þekktust ekki í Hjaltadal í Skagafirði á mínum uppvaxtarárum.  Ég smakkaði þær ekki fyrr en sem unglingur úti í Bandaríkjunum.  Þegar ég fæ að ráða kýs ég flestar aðrar útgáfur af kartöflum.  Ef ég hefði haft rænu á að hugsa út í þetta hefði ég áreiðanlega getað fengið bakaða kartöflu með fisknum í stað þeirra frönsku.  Bökuð kartafla stendur nefnilega til boða með nautasteikinni á AS.

  Með fisknum og frönskum er borin fram sítrónusneið,  kokteilsósa og ferskt salat.  Salatið er góð blanda af papriku,  agúrkusneiðum,  hráum lauki,  iceberg og hvítri grænmetissósu.  Það setur máltíðina í annan og betri flokk en breska Fish & Chips skyndibitann.  Gerir þetta meira að alvöru máltíð.  Kokteilsósa getur passað frönskum kartöflum en remúlaði passar betur með fiski.

  Þjónustan á AS var hröð og góð.  Músíkin á staðnum var truflandi.  Ég er bara með 30% heyrn og heyrði ekki betur en verið væri að spila músík úr tveimur græjum.  Ég heyrði lög með CCR en jafnframt eitthvað annað.  Ég veit ekki hvort sjónvarp var í gangi eða hvað það var annað sem truflaði CCR músíkina. 

  Hálfur lítri af bjór á AS kostar 745 kall.  Það er í dýrari kantinum en ég geri ekki athugasemd við verðið á AS að öðru leyti.           

 Önnur umsögn:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/590495


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.