16.8.2008 | 23:11
Madonna er forljót - og ég get sannað það!
Ég er kannski ekki rétti maðurinn til að skrifa um Madonnu. Mér þykir músík hennar óþolandi leiðinleg. En ég ætla svo sem ekki að tjá mig neitt um músíkina hennar. Þess í stað ætla ég að setja spurningamerki við það lof sem hlaðið er á Madonnu fyrir meinta fegurð. Sannleikurinn er sá að Madonna er ófríð, svo sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Sú mynd er ekki "fótósjoppuð", öfugt við margar aðrar myndir af henni.
Raunveruleikinn er sá að áður en Madonna fer út á meðal fólks þá lætur hún heilan her af förðunarfræðingum breyta sér í þokkalega útlítandi manneskju. Svona er skemmtiiðnaðurinn. Tómt fals.
![]() |
Madonna fimmtug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (92)
14.8.2008 | 23:10
Hlustið á splunkunýtt lag
Kúrekahljómsveitin Blues Willis hefur hljóðritað 12 lög fyrir plötuna "Hang ´Em High" sem kemur út í næsta mánuði við mikinn fögnuð landsmanna og fleiri. Eitt lag af plötunni er að laumast í umferð þessa dagana. Það heitir "Ballad of Dallas" og er eina lag plötunnar sungið á móðurmáli drengjanna. Hin lögin eru sungin á þýsku. Eða ensku? Ég man það ekki. En hlustið á lagið "Ballad of Dallas" í tónspilaranum hjá www.siggileelewis.is og látið álit ykkar í ljós. Ekki endilega á laginu. Bara hverju sem er. Orðið er laust.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.8.2008 | 23:13
Algjör snilld! Ótrúlegt en satt!
Larry Walters hét bandarískur vörubílstjóri, fæddur 1949 og dáinn 1993. 11 árum áður en hann svipti sig lífi setti hann saman heimalagað loftfar úr hægindastól og 45 helium-fylltum veðurathugunarblöðrum. Í þessum stól skaust Larry 16.000 fet (næstum 5 kílómetra) upp í loftið og setti úr skorðum flugumferð yfir Long Beach flugvelli.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.8.2008 | 21:03
Mistök í popplögum
Rokkmúsík á að vera lifandi. Þannig er hún ekta. Rokkmúsík er betri þegar örlítil mistök fá að fljóta með í stað þess að allt sé sótthreinsað og allir hnökrar fjarlægðir. Hér eru örfá dæmi - og gaman væri að fá fleiri dæmi í púkkið frá ykkur:
- Satisfaction með The Rolling Stones: Í lok hvers vers, rétt áður en gítar"riffið" skellur á, má heyra pínulítinn smell þegar Keith Richards stígur á "effekta" fótstig gítarsins.
- Life on Mars með David Bowie: Ef hækkað er vel í græjunum þegar píanóið fjarar út í lok lagsins má heyra símhringingu. Einhver gleymdi að loka dyrunum á hljóðversklefanum.
- Blue Suede Shoes með Carl Perkins: Bilið (hikið) á milli fyrstu línu ("Well, it´s one for the money") og annarrar ("Two for the Show") átti ekki að vera þarna. Þetta voru mistök. Carl var hinsvegar búinn með upptökutímann sinn og allan pening. Þess vegna gat hann ekki endurhljóðritað lagið og leiðrétt mistökin.
- Draumaprinsinn með Ragnhildi Gísla: Í þessu lagi úr kvikmyndinni Í hita og þunga dagsins syngur Ragga um draumaprinsinn Benedikt á einum stað og draumaprinsinn Benjamín á öðrum stað. Hún ruglaðist einfaldlega á nafninu án þess að taka eftir því.
- Minning um mann með Logum: Þarna er sungið um mann sem drakk brennivín úr "stæk". Orðið stækur stendur með eitthverju sem lyktar illa (stæk fýla) eða einhver sé þvermóðskufullur (stækur gegn e-h) eða duglegur og röskur. Sá sem fer offari er ofstækisfullur. Sönglagið Minning um mann er eftir Gylfa Ægisson. Hann orti um mann sem drakk brennivín úr sæ. Söngvari Loga misheyrðist þegar hann lærði textann af segulbandsupptöku.
- Brass in Pockets með Suede: Vegna misheyrnar syngur Brett Anderson "been driving, detour leaning". Í frumútgáfu lagsins með The Pretenders er sungið "been driving, DETROIT leaning".
- Down at the Doctors með Dr. Feelgood: Í lok gítarsólósins má heyra söngvarann segja: "Eight bars of piano". Hann var að gefa upptökumanni fyrirmæli um að bæta píanói síðar við upptökuna. Fyrirmælin fóru forgörðum hjá upptökumanninum. Hann bætti aldrei píanói ofan á og fjarlægði ekki fyrirmæli Lees Brilleaux.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
11.8.2008 | 23:29
Ólík sjónarmið leiða til árekstra
Tveir vinir mínir hafa mjög ólík sjónarmið til margra hluta. Eitt sinn voru þeir vinir. Núna eru þeir óvinir. Vegna ólíkra sjónarmiða. Ég breyti nöfnum þeirra í þessari frásögn. Ég veit ekki hvers vegna.
Gulli starfaði lengi sem sendibílstjóri í forföllum leyfishafans sem átti bílinn. Þegar leyfishafinn kom aftur til starfa hóf Gulli sjálfstæðan rekstur af allt öðru tagi.
Eins og algengt er með nýhafinn rekstur fór öll innkoma í útgjöld. Gulli var því ansi blankur. Hann tapaði íbúð sem hann leigði en fékk inni hjá Pétri vini sínum. Pétur rekur fyrirtæki á Selfossi og er þar meira og minna. Íbúð hans er mannlaus flesta daga.
Um það samdist að Gulli tæki íbúð Péturs á leigu en Pétur fengi þó að gista þar í þau fáu skipti sem hann væri í Reykjavík.
Þegar Gulli ætlaði að flytja inn í íbúðina bað hann Pétur um að fá sendibíl hans lánaðan í nokkra daga. Pétur sá engin vandkvæði á því. Gulli yrði þó að skutla sér á Selfoss morguninn eftir. Hann myndi hinsvegar sjálfur redda sér fari í bæinn þegar þar að kæmi. Gulli gæti verið með bílinn þangað til.
Þetta gekk eftir. Gulli settist undir stýri "til að venjast bílnum" sem var nokkuð stærri en bíllinn sem hann hafði ekið á sendibílastöðinni. Það hentaði Pétri líka að Gulli keyrði því það þurfti að afgreiða nokkur símtöl á leiðinni austur fyrir fjall.
Er þeir renna í hlaðið fyrir utan fyrirtæki Péturs segir Gulli ákveðinn: "Þetta eru 7000 krónur."
Pétur skildi ekki hvað hann var að meina og hváði. Gulli endurtók: "Skutlið hingað kostar 7000 kall."
Pétur varð alveg ringlaður og sagði: "Bíddu við, þetta er minn bíll sem ég er að lána þér..."
Þegar hér var komið sögu snöggfauk í Gulla og hann hrópaði: "Það skiptir engu máli hver á bílinn. Hellingur af leigubílstjórum og sendibílstjórum á ekki bílinn sem þeir aka. Og það skiptir engu andskotans máli. Taxtinn fyrir skutl til Selfoss er 7000 kall og vertu ekki að búa til eitthvað vesen. Komdu með 7000 kallinn og ekkert rugl."
Pétur var ennþá ringlaður og honum var brugðið við æsinginn í Gulla. Eiginlega ósjálfrátt kippti hann 7000 kalli upp úr vasa sínum, þeytti honum í Gulla, stökk um leið út úr bílnum og sagði: "Verði þér kærlega að góðu!"
Pétur var afar ósáttur þegar hann sagði mér söguna. Ég spurði Gulla út í málið. Hann svaraði með þunga og mjög hneykslaður: "Pétur er svo heimskur að hann fattar ekki að sendibílstjóri undir stýri er að vinna. Það kemur málinu ekkert við hver á bílinn. Ég eyddi næstum 2 tímum í að skutlast með manninn austur. Ég stóð í flutningum og hafði nóg annað við þennan tíma að gera."
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
11.8.2008 | 14:19
Sparaðu! - Tvöfalt sparnaðarráð
Nú þegar við erum að svífa inn í kreppu af fullum þunga er nauðsynlegt að landsmenn standi saman og deili sparnaðarráðum sem aldrei fyrr. Forsætisráðherrann hefur gengið á undan með góðu fordæmi. Hann leggur til að fólk spari í stað þess að eyða. Ég læt ekki mitt eftir liggja og kem hér með tvöfalt sparnaðarráð:
- Nota frídaga til að drífa sig á sólarstrendur þar sem bjór og annað áfengi er ódýrt. Það er með ólíkindum hvað hægt er að spara mikið með því að taka á honum stóra sínum á sólarströndum. Oftast dugir að vera á sundskýlunni einni fata. Við það sparast slit á jakkafötum. Eða dragt.
- Á mörgum sólarströndum er hvítur sandur. Í lok sólarferðarinnar er upplagt að fylla nokkra plastpoka af sandinum. Heima á Íslandi má drýgja sykurinn í sykurkarinu á eldhúsborðinu og saltið í saltstauknum með því að blanda sandinum saman við. Það er óhætt að blanda sandinum allt upp í 10%, sem þýðir að tíunda hvert sykurkar og saltstaukur sparast.
Á sumum sólarströndum er sandurinn með brúnleitum blæ (beisaður). Það er hentugra að blanda honum saman við kanilsykurinn út á hrísgrjónagraut.
Hér eru fleiri og ekki síður góð sparnaðarráð:
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/501251
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/530712
Bætið endilega í púkkið. Þau eru aldrei of mörg sparnaðarráðin.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
8.8.2008 | 22:50
Fersk og spennandi plata
Ég var að fá í hendur splunkunýja og virkilega spennandi plötu. Hún heitir "Black Diamond Train" og er frumburður færeysku hljómsveitarinnar Boys in a Band. Mörgum hér á landi er hljómsveitin vel kunn fyrir frábæra frammistöðu á Iceland Airwaves í fyrra og hljómleika víðsvegar um s-vestur horn landsins um verslunarmannahelgina.
Í umsögnum margra blaðamanna um Airwaves voru hljómleikar Boys in a Band nefndir sem einn af hápunktum hátíðarinnar. Í kjölfar vel heppnaðrar frammistöðu á Airwaves var hljómsveitin hvött til að taka þátt í alþjóðakeppni unglingahljómsveita, Global Battle of the Bands. Hljómsveitin gerði sér lítið fyrir og sigraði með glæsibrag á úrslitakvöldi GBOTB í London í desember.
Sigurinn opnaði Boys in a Band dyr inn á ýmsar hljómleikahátíðir víðsvegar um heim, meðal annars Hróarskeldu. Jafnframt færði sigursætið hljómsveitinni 8 milljón krónur í verðlaun. Sá peningur var notaður í hljóðritun og útgáfu á plötunni "Black Diamond Train" sem kom út núna um mánaðarmótin.
Ég hef ekki hlustað nægilega oft á plötuna til að skrifa dóm um hana. Það geri ég þó á næstu dögum. Músík Boys in a Band er dansvænt rokk. Við getum kallað það léttfönkað rokk og líkt því við Franz Ferdinant. Það er ónákvæm lýsing en samt sú nærtækasta. Þú getur heyrt sýnishorn af músíkinni á www.myspace.com/boysinaband.
Platan á að fást í helstu plötubúðum hérlendis.
Það segir sitt um Boys in a Band að af umsóknum 700 hljómsveita hefur þessi spræka hljómsveit verið valin til að koma aftur fram á Airwaves í ár.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.8.2008 | 23:22
Tímamót í rokksögu Íslands - nú er allt að gerast!
http://www.myspace.com/momentumtheband
http://www.myspace.com/celestinemusic
Tónlist | Breytt 8.8.2008 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.8.2008 | 14:11
Hver er leiðinlegasta íslenska hljómsveitin? Tillögur óskast
Í kjölfar fjörlegrar umræðu um Ingó og Veðurguðina á blogginu hjá Kobba Magg (www.jakobsmagg.blog.is) vaknaði hjá mér forvitni um það hvaða hljómsveit eða hljómsveitir mönnum þykja leiðinlegastar. Hvaða hljómsveit pirrar mest þegar þú heyrir lag með henni í útvarpinu?
Þegar ég hef fengið vænan bunka af nöfnum stilli ég þeim sem flestar tillögur fá upp í formlega skoðanakönnun. Til að halda fjölda nafnanna í skefjum skulum við miða við að hljómsveitin hafi starfað á þessari öld. Hljómsveitir sem hættu á síðustu öld eru ekki gjaldgengar. Gaman væri að heyra rökin eða hvað það er við viðkomandi hljómsveit sem pirrar.
4.8.2008 | 23:32
Örstutt og snaggaralegt leikrit
Bækur | Breytt 5.8.2008 kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
3.8.2008 | 23:01
Anna á Hesteyri - frumlega sjálfbjarga farandsali
Önnu frænku minni á Hesteyri í Mjóafirði er margt betur gefið en rata í þéttbýli. Í fyrsta skipti sem hún keyrði á Skódanum sínum upp á Egilsstaði týndi hún bílnum með það sama. Hún lagði honum við fyrstu verslun sem hún sá. Fór þangað inn til að skoða sig um og sá þar margt spennandi. Þegar hún fór út úr versluninni fann hún bílinn hvergi. Að vísu hætti hún sér ekki langt frá versluninni til að týna hvorki sjálfri sér né versluninni. En bílinn fann hún ekki. Að lokum hringdi hún í lögregluna sem fann bílinn undir eins. Hann var þarna í grennd. Bara ekki á þeim bletti sem Anna leitaði vandlega á.
Anna er heimavanari á Norðfirði. Þangað hefur hún oftar farið. Eitt sinn fór hún þangað til að selja barnabækur til styrktar Aðventístum. Anna er aðventísti og heldur laugardaginn sem hvíldardag.
Kona nokkur á Norðfirði sá út um gluggann hjá sér hvar Anna kom kjagandi í átt til hennar. Anna átti erfitt með gang, var eins og hálf sliguð, skjögraði óstöðug til og frá. Anna er reyndar mikil um sig. Þarna var hún þó ekki nema hálf sjötug (hún verður áttræð á næsta ári) og við ágæta heilsu. En hún var með þunga pinkla meðferðis.
Anna bankaði upp hjá konunni og bar upp erindið. Konan keypti af henni nokkrar bækur. Þegar Anna kvaddi dró hún upp úr pinklum sínum rösklega lófastóran stein og sagði:
"Ég ætla að biðja þig um að leyfa þessum steini að vera hér við útidyrnar hjá þér í dag. Þá geri ég þér ekki aftur ónæði."
Konan tók vel í það og horfði í forundran á eftir Önnu kjaga burt með bækur og grjóthnullunga. Það undraði konuna enn meira að Anna gekk ekki kerfisbundið úr húsi í hús inn eftir götunni heldur rölti hún - að því er virtist - tilviljunarkennt þvers og kruss um kaupstaðinn. Er leið að kvöldi hafði húsum fjölgað verulega sem skörtuðu grjóthnullungi við útidyrnar. Engu að síður voru þau fleiri inn á milli sem höfðu enga heimsókn fengið.
Fleiri færslur um Önnu á Hesteyri má finna á
- Bók á leiðinni
www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/592177
- Hringdi á lögguna
www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/463661
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
31.7.2008 | 23:56
Kvikmyndaumfjöllun
Kvikmyndir | Breytt 1.8.2008 kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.7.2008 | 18:33
Guðni Ágústsson flýr úr útvarpsþætti
Ég var að hlusta á þáttinn Miðjuna á Útvarpi Sögu. Þátt sem ómögulegt er að láta framhjá sér fara. Umsjónarmenn þáttarins, þeir Sverrir Stormsker og Halldór Einarsson, fara jafnan á kostum. Eru galsafengnir og fyndnir. Viðmælendur þeirra gíra sig flestir inn í galsann og útkoman verður ætíð hin besta skemmtun.
Í þættinum núna áðan var Guðni Ágústsson viðmælandi Sverris. Guðni náði engan veginn að átta sig á gríninu. Hann pirraðist, fór úr jafnvægi, vissi ekkert hvernig hann átti að höndla spurningar Sverris, móðgaðist og endaði með því að hlaupa út í miðjum þætti.
Lítið lagðist fyrir kappann, eins og hann var sperrtur og drjúgur með sig í upphafi viðtalsins. Flóttinn úr þættinum verður Guðna til háðungar um aldur og ævi.
Í viðtali við dv.is viðurkennir Guðni að hann hafi lent áttavilltur úti á túni í þættinum. Hann segist aldrei hafa lent í slíkum aðstæðum áður. "Þetta voru einhver allt önnur efnistök en ég hef þekkt fyrr og síðar," segir Guðni ringlaður en búin að ná stjórn á skapinu aftur.
Til gamans má geta að Hannes Hólmsteinn, Jónína Ben, Þorsteinn Eggertsson, Gunnar Þórðarson, Rúni Júl, Jakob Magnússon og fleiri réðu betur við aðstæður sem gestir í þættinum.
Þættina Miðjuna má heyra á www.stormsker.net.
Spil og leikir | Breytt 31.7.2008 kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
29.7.2008 | 17:58
Svívirðilegir viðskiptahættir
Lágvöruverslanir Krónunnar hafa veitt Bónus verslunarkeðjunni raunhæfa samkeppni. Vörurnar í Krónunni kosta krónu meira en sömu vörur í Bónus. Þess vegna heitir Krónan Króna. Ef vörurnar væru 5 krónum dýrari myndi Krónan heita Fimmkall. Bónusbændur eru ekki sáttir við harða samkeppni Krónunnar. Þeir hafa brugðið á það lágkúrulega ráð að virkja Baugsmiðlana í að níða skóinn af Krónunni. Dag eftir dag má heyra upphrópanir í fréttatímum ljósvakamiðla og lesa forsíðufyrirsagnir á dagblöðum sem fullyrða:
"Krónan er sveitarfélögunum óþægur ljár í þúfu"
"Krónan áfram veik út árið"
"Krónan ber listina ofurliði"
"Krónan veldur vandræðum"
"VEIKING KRÓNUNNAR VEGUR ÞUNGT"
"Krónan er ónýt"
"TREYSTIR EKKI KRÓNUNNI"
27.7.2008 | 23:25
Styttur af Þrándi í Götu og Eivöru
Færeyingar eru blessunarlega lausari við persónudýrkun en Íslendingar. Fyrir bragðið eru fá málverk og styttur í Færeyjum af gengnum stjórnmálamönnum. Á dögunum var þó afhjúpuð í þorpinu Götu í Færeyjum glæsileg stytta af Þrándi þeim sem í rösk 1000 ár hefur verið frægastur Færeyinga.
Styttan er þannig hönnuð að Þrándur er látinn standa bísperrtur þversum út í loftið. Þetta er skemmtilega djörf túlkun á því að Þrándur í Götu stóð ætíð þver og fastur fyrir þegar honum þótti að Færeyingum sótt. Hann hlýddi hvorki kóngi né presti - í bókstaflegri merkingu - þegar hagur heimamanna var í húfi.
Þrándur í Götu var stórhuga og áhugasamur um að Færeyingar menntuðust. Hann var í raun fyrsti menntamálaráðherra Færeyja. Enn í dag stendur menntun og menning í meiri blóma í Götu en víðast annarsstaðar í og utan Færeyja - miðað við höfðatölu.
Gata í Færeyjum er 1000 manna þorp sem samanstendur af þremur, ja, eiginlega fjórum götum. Styttan af Þrándi er í Norðurgötu og vekur mikla athygli og ánægju heimamanna og gesta. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt að áhugi hafi kviknað fyrir því að einnig verði reist stytta af frægasta afkomanda Þrándar og íbúa Suðurgötu, álfadrottningunni Eivöru.
Þarna er ég (tólfti frá hægri) á hljómleikum hjá víkingarokkurunum Tý í fjörunni í Götu.
Menning og listir | Breytt 29.7.2008 kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
27.7.2008 | 02:42
Bangsar eru krútt - skemmtilegar myndir
Litlir sætir ísbirnir eru krútt. Stundum er leikur í þeim. Þessi sem hér um ræðir sá tjald og fann fyrir löngun til að leika sér við tjaldbúa. Hann þekkti eðlilega ekki hvernig opna á tjald. Í stað þess að renna upp fortjaldinu brá hann á það ráð að rjúfa tjaldið bakdyramegin og heilsa upp á tjaldbúa. Fyrst datt honum í hug að gaman væri að klóra einum vinalega á bakinu.
Næst langaði hann til að klóra öðrum í hársvörðinn. Það er oftast notalegt. Kannski var hann samt óþarflega harðhentur.
Því næst datt honum í hug að gaman væri að narta kumpánlega smá í fætur. Eiginlega til að kitla þessa nýju leikfélaga.
Vanþakklátir tjaldbúar kunnu ekki að meta vinahót bangsa og brugðust ókvæða við. Í stað þess að leika við litla sæta bangsa þá beittu þeir hann grófu ofbeldi sem fór úr böndunum og lauk með því að krúttið dó. Skamm, skamm.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
25.7.2008 | 23:27
Bráðfyndin mistök
Þessar bráðskemmtilegu ljósmyndir fékk ég sendar fyrir mistök. Þær sýna sitthvað sem passar illa eða ekki; klaufaskap og mistök af ýmsu tagi. Ég hló þegar ég sá þetta og datt í hug að leyfa ykkur að brosa líka. Eða hrökkva við þegar kemur að myndinni af drengnum sem hefur fengið gaffal í gegnum nefið. Æ, æ, æ!
25.7.2008 | 20:23
Niðurstaða í skoðanakönnun um flottustu íslensku söngkonuna
Í byrjun júní leitaði ég eftir tillögum ykkar og viðhorfi til flottustu íslensku söngkonunnar. Valið var bundið við núlifandi dægurlagasöngkonur í rokkgeiranum. Vísnasöngkonur, óperusöngkonur og djasssöngkonur voru ekki gjaldgengar nema þær hafi einnig sungið popprokk.
Með orðinu flottust er ekki átt við útlit heldur söngstíl og það sem söngkonan stendur fyrir í músík. Einhverjir sakna einhverra söngkvenna á þessum lista. Listinn samanstendur af öllum þeim söngkonum sem fengu flestar tilnefningar og nokkurra til viðbótar sem fóru inn fyrir þrýsting. Eftir sem áður er útkoman svipuð því sem forkönnunin gaf til kynna. Kannski var þeim í neðstu sætunum ekki gerður greiði með því að stilla þeim upp í keppni þar sem möguleikar þeirra voru litlir. Fyrst og fremst vegna þess að þær eru nýliðar og eru ekki búnar að kynna sig nógu rækilega til leiks - þó hæfileikana skorti ekki.
Fyrst og fremst ber samt að taka þessu sem léttum samkvæmisleik. Gaman væri að heyra viðhorf ykkar til útkomunnar.
Upphaflega ætlaði ég að láta 500 atkvæði ráða niðurstöðunni. Þegar til kom voru úrslit ekki nógu afgerandi þannig að ég framlengdi til 1000 atkvæða. Núna hafa 1224 atkvæði skilað sér í hús og niðurstaða liggur fyrir:
1 Emilíana Torrini 15,7%
2 Andrea Gylfadóttir 15%
3 Ragnheiður Gröndal 14,3%
4 Björk 10%
5 Ellen Kristjánsdóttir 9,8%
6 Ragnhildur Gísladóttir 9,2%
7 Heiða "í Unun" 6,3%
8 Diddú 6%
9 Lay Low 4,9%
10 Sigga Beinteinsdóttir 4,7%
11 Hrund Ósk Árnadóttir 2,3%
12 Dísa 1,7%
Spil og leikir | Breytt 26.7.2008 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
23.7.2008 | 23:26
Rasismi á Hressingarskálanum
Maðurinn er ættaður frá Filippseyjum en uppalinn á Íslandi. Hann talar óaðfinnanlega íslensku. Dyravörðurinn útskýrði ekki hvað hann ætti við með "þitt fólk". Ætla má að hann hafi átt við fólk af asískum uppruna eða allt fólk sem auðsjáanlega er ekki af norrænu bergi brotið.
Maðurinn hefur margoft verið í góðra vina hópi á Hressingarskálanum. Hann hefur aldrei orðið var við leiðindi eða vesen á Hressingarskálanum. Sjálfur er hann kurteis og þægilegur í umgengni.
Svo virðist sem rasísk dyravarsla hafi verið tekin upp á Hressingarskálanum. Sveiattan. Á meðan sú stefna ríkir verður hann kallaður Rasistaskálinn.
Í síðdegisþætti Útvarps Sögu á laugardaginn verður viðtal við manninn sem fær ekki að fara inn í Hressingarskálann.
Spil og leikir | Breytt 24.7.2008 kl. 01:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (69)
21.7.2008 | 23:47
Amy Winehouse - þetta er hryllingur - Hvað er í gangi?
Ég hef gífurlega miklar áhyggjur af ungri enskri söngkonu sem heitir því fagra nafni Vínhús. Nafni sem maður skimar ósjálfrátt eftir á ferðalögum erlendis. Eins og sést á efri myndinni þá var þetta fögur stelpa fyrir 2 - 3 árum og bar utan á sér barnslegt sakleysi. Á neðri myndinni virðist hún vera mun eldri en hún í raun er. Þetta virðist vera útlifuð fertug kona á "speed-flippi".
Mig minnir að hún sé 23ja eða 24ra ára. Þrátt fyrir stöðuga andlitsförðun á snyrtistofum brjótast graftarkýli og sár í andlitinu fram í gegnum farðann í tíma og ótíma. Hvað er í gangi? Borðar hún bara óhollan mat? Hefur hún lent í vondum félagsskap? Það þarf að kanna þetta mál og taka það föstum tökum. Þetta gengur ekki.
Vísindi og fræði | Breytt 22.7.2008 kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)