Íslensk hjarðhegðun

  Íslendingar eru hópsál.  Auðteymd í allar áttir.  Hjarðhegðun einkennir þjóðarsálina.  Þegar ný verslun er opnuð þarf ekki mikið til að smala hjörðinni í hús.  Ókeypis kleinuhringur eða 5% afsláttur á fimm stykkjum af skrúfjárni dugir.  Biðröð myndast degi fyrir opnun.  Hjörðin bíður ofan í svefnpoka eftir opnun búðarinnar.  Þeir fremstu í röðinni upplifa sig sem hetjur.  Ekki ætla ég að kalla þá eitthvað annað.  

 Þegar ekki er um opnun á nýrri verslun að ræða þá dugir til að mynda bílaumboði að auglýsa ókeypis kaffisopa.  Þá myndast örtröð.  Ef auglýstar eru ókeypis kleinur með þá bruna menn frá Keflavík,  Borgarnesi og Selfossi til Reykjavíkur.      

  Ég rakst á kunningja frá Hveragerði sem gerði sér ferð í bæinn.  Ástæðan var sú að IKEA auglýsti smakk á smákökum.  Smakkið átti að hefjast klukkan 13.00.  Vinurinn náði ekki að mæta fyrr en 13.30.  Þá var ekki byrjað að gefa smakk.  Einhver bið var í það.  Hvergerðingurinn var gráti nær yfir þessum "svikum".

  Ég benti honum á að aksturinn til og frá Hveragerði kostaði hann sennilega á annað þúsund kr.  Fyrir þann pening gæti hann keypt í næstu matvörubúð 100 eða 200 smákökur í stað þessarar einu smáköku sem hann ætlaði að smakka í IKEA.

  Hann horfði ringlaður á mig í nokkrar sek.  Svo muldraði hann um leið og hann settist upp í jeppann og ók á brott:  "Þær eru náttúrulega ekki nýbakaðar."

smákaka

   


mbl.is Fyrstu mættu í röðina í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúaskítur til framleiðslu á rjómaís

mackies_1

 

 

 

 

 

 

 

  Einn besti og vinsælasti ís í heimi er skoski Mackie´s.  Til að framleiða þennan ís þarf mjólk og rjóma.  Einnig vanillu,  súkkulaði,  hunang,  mintu,  jarðaber,  rifsber,  karamellu og sitthvað fleira.  En uppistaðan er mjólk.  Hún er fengin úr 400 beljum í eigu Mackie´s.

  Beljur gefa af sér fleira en mjólk.  Af þeim gengur óhemju mikið magn af ágætis túnáburði.  En það má nýta kúadelluna sem orku.  Það vita stjórnendur Mackie´s.  Skíturinn býr til orkuríkt gas,  mugas.  Þetta gas virkjar Mackie´s til að knýja ísverksmiðjuna.  Fyrir bragðið er framleiðslukostnaður Mackie´s lægri en keppinautanna.  

  Englendingar hafa af gamalkunnri illgirni búið til hefðbundna Skotabrandara um þetta.  Þeir ganga út á meinta nísku Skota.  Skotar eru miklu útsjónasamari en Englendingar.  Gott dæmi um það er að Englendingar skjóta úr fallbyssum kastalabygginga 12 skotum klukkan 12 á hádegi til heiðurs drottningunni.  Skotar skjóta af sama tilefni úr Edinborgarkastala einu skoti klukkan eitt.  

belja  

   


Magnaðar ljósmyndir

  Fátt er skemmtilegra að skoða en magnaðar ljósmyndir.  Hér eru nokkur sláandi dæmi:

magnaðar myndir - 140 ára skjaldbaka með 5 daga unga

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ef vel er að gáð má sjá 5 daga unga - eins og húfu - á höfði 140 ára skjaldböku.

magnaðar myndir - flogið yfir Íslandi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flogið yfir Ísland.

magnaðar myndir - new york

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  New York í þoku.

magnaðar myndir - endinn á Kínamúrnum

 

 

 

 

 

 

 

 

 Þarna endar Kínamúrinn.

magnaðar myndir - hótelherbergi í útlöndum

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hótelherbergi í útlöndum.

magnaðar myndir - röngen af 450 kílóa konu

 

 

 

 

 

 

 

  Röntgen-mynd af 450 kílóa dömu.

magnaðar myndir - sandstormur í Phoinx

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sandstormur augnabliki áður en hann leggur undir sig Phoenix.

 


Hvergi sér fyrir enda á flóttamannastraumnum

flóttafólk

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ört vaxandi straumur flóttafólks flæðir yfir alla Evrópu.  Jafnvel fleiri heimsálfur ef vel er að gáð.  Þessi þróun hefur þegar skapað ótal vandamál af öllu tagi.  Sífellt bætast fleiri vandamál í hópinn.  Bara á þessu ári - á fyrstu níu mánuðum þess - hafa hátt á fjórða þúsund Íslendingar flutt til útlanda.  Flúið skuldabagga,  vaxtaokur,  húsnæðisvandræði,  spillingu,  brostnar vonir og hringlandahátt.  Meðal annars með reisupassa.

  Uppistaðan af íslenska flóttamannastraumnum er ungt fólk.  Kraftmikið, atorkusamt og vel menntað.  Það er gríðarlegt tjón fyrir þjóðfélagið að missa flóttafólkið út úr íslenska atvinnumarkaðnum.  Þetta hefur þegar skapað illvígan skort á iðnaðarmönnum.  Þetta er vinnandi fólk sem á í heilbrigðu þjóðfélagsástandi að standa undir ellilífeyrisgreiðslum, rekstri hjúkrunarheimila og allskonar.

  Eina ráðið til að stoppa upp í götin er að lokka með einhverjum ráðum til Íslands fólk frá öðrum löndum.  

 


mbl.is Fjöldi Íslendinga flytur úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snöfurleg vinnubrögð lögreglu til fyrirmyndar

  Stórhættulegur útlendur glæpamaður reyndi í vetrarbyrjun að kaupa flugmiða hérlendis handa aldraðri móður sinni.  Við fyrstu atrennu reyndi hann að greiða fyrir miðann með stolnu greiðslukorti.  Það gekk ekki.  Þá var þrautalending að borga með reiðufé (Johnny Cash).  

  Lögreglan hafði snör handtök og færði glæpamanninn í járn.  Það lá ljóst fyrir að hann var allt að því raðflugmiðakaupandi með illa fengið fé í höndum.  Til að hindra frekari kaup á flugmiðum var hann umsvifalaust færður í gæsluvarðhald.  Héraðsdómur og hæstiréttur höfðu fullan skilning á alvarleika málsins.

  Við leit í hýbýlum glæpamannsins kom í ljós að hann hafði stolið skyrtubolum.  Greinilegt var að hann hafði undirbúið glæpinn. Það sást á því að hann hafði keypt herðatré.  Sömuleiðis blasti við einbeittur brotavilji því að skyrtubolum var stolið frá fleiri en einni fataverslun.  Þetta er raðskyrtubolaþjófur.

 Í gæsluvarðhaldi hefur glæpamaðurinn ekki möguleika á að brjóta á fleirum.  Öllu máli skiptir að engum stafi hætta af honum. Þegar og ef hann losnar úr gæsluvarðhaldi tekur við farbann.  Það má aldrei gerast að skyrtubolaþjófur geti montað sig af bjórsötri á leið til útlanda í flugstöð í Sandgerði - á meðan glæpaferill hans er til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum.  

----------------------------------------------------

krútt dagsins  

  


mbl.is Handtekinn er hann keypti flugmiða handa móður sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Þorleifs og arfur

  Hér fyrir neðan má finna hlekk á fyrri bloggfærslur mínar um Jón Þorleifsson,  rithöfund og verkamann.  Þar er tíundað ósætti Jóns við ættingja sína.  Það var einhliða af hálfu hans.  Á síðustu æviárum sniðgekk hann ættingja sína með öllu.

  Svo gerðist það að bróðir hans féll frá.  Jón taldi það ekki koma sér við.  Það olli vandræðum varðandi dánarbúið.  Bróðirinn var einhleypur og barnlaus.  Jón var einn af hans nánustu ættingjum og erfingjum.  Jón vildi ekkert af dánarbúinu vita.  Það var sama hvort að ættingjar eða skiptastjóri dánarbúsins hringdu í Jón.  Hann skellti tólinu á þá um leið og þeir kynntu sig.

  Þetta tafði um margar vikur að hægt væri að ganga frá dánarbúinu.  Að lokum bankaði upp hjá Jóni ungur maður giftur frænku Jóns.  Hann var með lausnir á vandamálinu sem Jón sættist á.  Tilbúna pappíra um að Jón afsalaði sér sínum hluta af arfinum.  Gott ef ekki var framsali til einhvers tiltekins góðgerðarfélags.  

  Þegar Jón sagði mér frá þessu - alvarlegur á svip - orðaði hann það þannig:  "Ég gat ekki annað en tekið vel í erindi þessa unga manns.  Hann virtist vera nokkurn veginn í lagi.  Enda er hann ekkert skyldur mér."

------------------------------------------------------------------------------

  Tekið skal fram að ég þekki til margra ættingja Jóns.  Þeir eru mikið úrvals fólk í alla staði.

  Fleiri sögur af Jóni HÉR

jón þorleifs 2  

 


Varasamar vídeóleigur

  Allir eru utan við sig af og til.  Kannski er einhver stigsmundur á milli einstaklinga á því sviði.  Kannski kippir fólk sér mismikið upp við það að vera utan við sig.  Sumir taka varla eftir því þó að þeir séu meira og minna utan við sig alla daga.  Aðrir taka það mjög nærri sér.  Þeim hættir til að velta sér upp úr því með áhyggjusvip.

  Rannsóknir hafa leit í ljós að unglingar eru alveg jafn oft utan við sig og eldra fólk.  Þá erum við ekki að taka með í dæmið alvarleg elliglöp á borð við alzæmer.

  Fyrir mörgum árum tilkynnti vinur minn - eldsnemma að morgni - lögreglu að bíl hans hafi verið stolið um nóttina.  Hann hringdi jafnframt í mig og sagði tíðindin.  Alla næstu hálftíma fram að hádegi hringdi hann í mig með kenningar um bílstuldinn.  Hann var sannfærður um að bíllinn yrði seldur í varahluti.  Næst var hann sannfærður um að bíllinn hafi verið fluttur til Vestmannaeyja.  Og svo framvegis.  

  Síðasta símtalið þennan dag kom um hádegisbil.  Lögreglan fann bílinn.  Hann stóð fyrir utan myndbandaleigu í göngufæri frá heimili mannsins.  Gátan var ekki flóknari en það að hann hafði tekið sér þar myndbandsspólu á leigu kvöldið áður.    

 


mbl.is Gleymdi barninu á vídeóleigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmyndir af börnum sem urðu síðar heimsfræg

  Sumir halda því fram að það sé hægt að sjá af ljósmyndum af börnum hver verði "stjarna" (fræg afreksmanneskja) á fullorðinsárum.  Kannski er það óskhyggja einhverra.  Kannski er það eitthvað sem miðlar draga fram og benda á í tæka tíð (fremur en löngu síðar)

  Hér eru nokkur dæmi:

Björk

Bjork1

 

 

 

 

 

 

 

 

  John Lennon 

JOhn-Lennon

  David Bowie

David-Bowie

 James Hetfield (Metalica)

James-Hetfield

 Zack De La Rocha (Rage Against the Machine)

Zach-de-la-Rocha

 Boy George

Boy-George

 

 

 

 

 

 

 

 

 Jim Morrison (Doors)

Jim-Morrison

 

Kurt Cobain (Nirvana)

Kurt-Cobain

 Nína Simone

Nina-Simone

 Marilyn Manson

Marilyn-Manson

Janis Joplin

Janis-Joplin (1)

 Patti Smith

Patti-Smith (1)


Hvaða þjóðir hafa það best?

  Hvaða þjóðir búa við besta heilsu?  Eða njóta mest fjárhagslegs öryggis?  Eða eru hamingjusamastar?  Eða þurfa síst að óttast glæpi?  Breska tímaritið Business Insider hefur svarið.  Það ber fyrir sig rannsókn og niðurstöðu The Legatum Institute.  

  Niðurstaðan kemur ekki á óvart.  Sú þjóð sem toppar listann er Norðmenn.  Ekki í fyrsta skipti.  Niðurstaðan er samhljóða hliðstæðum rannsóknum margra annarra stofnana og fjölmiðla síðustu ár. Svo eru þeir sprækir í rokkinu.  

  Toppsæti Norðmanna er svo sjálfgefið að það er ekki fréttnæmt.  Eiginlega ekki heldur annað sætið.  Það fellur í skaut Svisslendinga.  Þjóðarinnar sem beitir þjóðaratkvæðagreiðslum oftar en allir aðrir. Með þessum árangri.  Það er ekki tilviljun að svissneskir karlar lifa lengst allra í heiminum.

  Í 3ja sæti eru Danir.  Þar munar nokkru um að þeir eru almennt betur menntaðir en aðrar þjóðir.  Svo eru þeir "ligeglad" og hafa það assgoti gott.  

  Í 4ða sæti eru Nýsjálendingar.  Toppa allar þjóðir utan Evrópu.  Þar býr tónlistarkonan flotta Hera.

  Í 5. sæti eru Svíar.  Þeir gefa Norðmönnum lítið sem ekkert eftir í rokkinu. Það telur.

  Í sjötta sæti eru Kanadabúar.  "Land of the free".  

  Í sjöunda sæti eru Ástralir.  Þökk sé háu menntunarstigi.

  Í áttunda sæti eru Hollendingar.  Þeir búa við gott heilbrigðiskerfi,  persónufrelsi og góða menntun.

  Í níunda sæti eru Finnar.  Þeir hafa náð sér bærilega á strik eftir vonda kreppu fyrir nokkrum árum.

  Í 10. sæti eru Írar.  Þeir hafa þó glímt við efnahagslegar þrengingar.  En eru að standa sig.

  Það er ekki ástæða til að fara yfir öll sæti sem spanna hátt í tvöhundruð.  Látum nægja að tiltaka Íslendinga í 12. sæti.  Við búum við persónufrelsi og friðsæld.    

  


Íslenskur miðill fær 130 milljónir

  Margur góður maðurinn og mörg góð konan hafa í áranna rás reddað sér fyrir horn fjárhagslega með því að bjóða upp á miðilsfund.  50 eða 100 eða 150 manns borga glaðir í bragði 3000 kall eða 4000 þúsund kall eða 5000 kall fyrir að fá hlýja kveðju frá draugum fortíðar.

  Þetta er góður bisness.  Ennþá betra er að fólk sem syrgir nýlátna ástvini gleðjist yfir kveðju frá þeim.  Þó ekki sé nema með þeim orðum að viðkomandi fylgist með,  sé með syrgjanda í vöku og draumi og hafi það gott.  Verra væri ef einhver kvartaði undan því að hafa það djöfull skítt í draugaheimi.  Það er ekki í boði.  Það væri vondur bisness.

  Bestu fréttirnar eru þær að til er mun arðbærari leið fyrir sjáendur drauga en að tína seðla upp úr peningaveski fátækra syrgjenda nýlátinna ástvina.  Það eina sem þarf að gera er að halda miðilsfund fyrir framan mann að nafni James Randi.  Hann borgar miðlinum 130 milljón krónur fyrir frambærilegan miðilsfund.  Það er gott tímakaup.

  Að þessum fróðleik uppgefnum er næsta víst að miðillinn og leikkonan Anna Birta komist aftur i fréttir.  Að þessu sinni undir fyrirsögninni "Íslenskur miðill fær 130 milljónir!"  Þá býður hún Frosta Logasyni og frú út að borða á Draugabarnum á Stokkseyri.    

james randiAnna birta 

  


Lætur rannsaka hvort að hann sé blökkumaður

  Frá því að Tom Jones skreið upp úr kolanámu í Wales á sjöunda áratugnum og tók lagið hefur hann legið undir grun um að vera blökkumaður.  Hann hefur eðlilega ekkert verið ósáttur við það. Samt án þess að finna því stað í ættarskrá sinni.  

  Sterk söngrödd hans hefur ætíð þótt vera mjög svört.  Hann hefur jafnframt sótt í blökkumannatónlist allt frá sálarpoppi til blús.  Hann upplifir sig eins og heimagang í söngvum blökkumanna á borð við Prince og Leadbelly.  Hörundslitur hans er dökkur á breskan mælikvarða.  Hárið krullað.  Andlitsfallið líkt Doddssyni.

  Eftir að hafa náð miklum vinsældum í Bretlandi og Evrópu náði Tom inn á bandaríska markaðinn. Í þarlendum fjölmiðlum var iðulega gengið út frá því sem vísu að hann væri blökkumaður.  

  Nú hefur hann sjálfur afráðið að komast að sannleikanum um uppruna sinn.  Hann hefur farið fram á DNA rannsókn til að fá þetta á hreint.  Blökkumenn hafa verið fágætir gestir í Wales. Vitað er að þeir fáu sem áttu leið um nutu kvenhylli.  Það var engu að siður í leynum.  

  Tom býður spenntur eftir niðurstöðu DNA rannsóknar.  Vonast - frekar en hitt - eftir því að hún staðfesti að hann sé blökkumaður.  

   


Friðsælustu og ófriðsömustu lönd heims

  Forvitið fólk hjá stofnun sem heitir Institute for Economics and Peace hefur fundið upp reikningsaðferð til að komast að því hvaða lönd heims eru friðsælust og hvar ófriður er mestur. Niðurstaðan er áhugaverð.  Ekki síst fyrir okkur hér á landinu kalda.  Þannig líta efstu sætin út:

friðsömust

 

 

 

 

 

 

 

 

  Svo eru það ófriðarseggirnir sem geta aldrei látið neinn í friði.  Guðunum sé þökk fyrir að við erum ekki eins og þeir:  

ófriðsömust


Eru óheiðarlegir glæpamenn á meðal vor?

  Á mínum uppvaxtarárum í Skagafirði fyrir hálfri öld og rúmlega það stóðu menn við orð sín.  Peningar og fleira var lánað.  Það þurfti ekki að útbúa neina pappíra þar um.  Orð stóðu.  Metnaður fólks lá í því að vera orðheldið.

  Nú er öldin önnur er Sveinbjörn stökk á stöng.  Viðskiptafélagar saka hvern annan um óheilindi.  Það er nýlunda.  Róbert Wessman gefur lítið fyrir viðskiptasiðferði Björgúlfs Thors. Vænir hann um að standa ekki skil á megni af sínum skuldum. Kennir honum um að hafa valdið bankahruni með tilheyrandi tjóni fyrir land og þjóð.  Það næstum því jaðrar við að hann vísi til hryðjuverkalaga sem Bretar settu á Íslendinga.

  Róbert ráðleggur Björgúlfi að skammast sín.  Það er til heldur mikils mælst.

  Björgúlfur sakar Róbert um að vera ljósfælinn hrægamm.  Það er dáldið gróft.  Silfurskottur eru ljósfælnar.  Og fleiri dýr.  Það er ekkert til að skammast sín fyrir.  Ljósið er ekki allra.

  Bjórgúlfur segist hafa verið nauðbeygður til að sparka Róberti út í hafsauga eftir að hann setti allt á hausinn sem hægt var að setja á hausinn.  Er það þó afrek út af fyrir sig. Hann hafi stungið undan digrum sjóðum sem hann nú geymi á földum stað og sæki í þegar í harðbakka slær.  Ég giska á Tortólaeyjar.  Veit samt ekkert hvar best er að geyma stolið góss þessa dagana.

  Fleiri eru sakaðir um afglöp og hugsanlega fáfræði.  Til að mynda Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður og meint "óþverraviðskipti hans",  svo og lífeyrissjóðir.  Þeir eru sagðir meta siðferði sitt á 5 - 10 milljónir króna.  Það er spottprís í stóra samhenginu.  Útsöluverð á siðferði.  

  Af hverju er allt í einu orðið svona erfitt að vera heiðarlegur?  Eitt sinn urðu menn af aurum apar.  Núna,  eða, þannig...

   

   


mbl.is „Björgólfur ætti að skammast sín“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænmeti misþyrmt á hrottalegan hátt

  Út um allan heim er dýrum misþyrmt áður en þau eru snædd.  Jafnvel líka á meðan þau eru snædd.  Meira að segja hérlendis er svínum búið sársaukafullt ævikvöld í alltof þröngri stíu. Hænur búa við mun þrengri kost.  Fætur saurbrunnar og allt í klessu.

  Grænmetisætur (vegeterians) eru ólatar við að vísa til vondrar meðferðar á dýrum.  Vandamálið er að grænmeti hefur líka tilfinningar.  Það heyrir einnig.  

  Þegar grænmeti heyrir að bitið er í annað grænmeti þá fyllist það skelfingu og ofsafengnum ótta.  Það setur þegar í stað framleiðslu á efnum sem hafa fælandi áhrif á fiðrildalirfur og önnur skordýr sem éta lifandi grænmeti.

  Hvað gengur kaldlyndum grænmetisætum til að hrella grænmeti?  Æra það af hræðslu;  meiða og éta eins og villimannslegar mannætur?  Siðferðið er engu betra en og hjá mannætum.

 

 

 

 


Gróf og saknæm aðför að lýðræðislegri umræðu

  Útvarp Saga er þjóðarútvarp.  Í þrjá klukkutíma á dag fær almenningur að hringja inn í beina útsendingu og tjá sig.  Það er engin ritskoðun.  Þjóðin tjáir sig og þjóðin hlustar.  Ýmsum hliðum á ólíkum málum er velt upp.  Það er tekist á um fjölbreytt álitamál.  Þetta er lýðræði.  Opin og frjáls skoðanaskipti.

  Stundum er velt upp og haldið fram skoðunum sem eru ekki allra.  Þá er þeim mótmælt á sama vettvangi.  Oft er umræðan fjörleg.  Oft fróðleg og áhugaverð.  

  Þetta er ekki öllum að skapi.  Sumir þola ekki lýðræðislega umræðu.  Þeir þola ekki skoðanir annarra. Þola ekki að sitja undir frjálsum og opnum skoðanaskiptum.  Þeir öfgafyllstu grípa til fasískra aðferða:  Ráðast á útvarpsstöðina með lögbrotum til að þagga niður í umræðunni.  Ganga svo langt að brjótast inn í tölvukerfi Útvarps Sögu,  stela þar aðgangsorðum og yfirtaka heimasíðu hennar.  Falsa niðurstöðu skoðanakannana og búa jafnvel til nýja skoðanakönnun. Í þeim eina tilgangi að niðra með svívirðingum eiganda og útvarpsstjóra Útvarps Sögu.  

  Spurning hvort að annað fjölmiðlafyrirtæki sé þátttakandi í aðförinni.  

  Málstaður skemmdarverkamanna þessara er jafn aumkunarverður og glæpir þeirra. Þetta eru fasísk vinnubrögð glæpamanna. Fasískt ofbeldi gegn opinni og lýðræðislegri umræðu.  

  


mbl.is Brotist inn á vef Útvarps Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhættulegur matur

  Af og til má heyra eða lesa fullyrðingar um að áfengir drykkir séu ekki eins hollir og margur heldur.  Þeir geti jafnvel verið óhollir - drukknir daglega í verulega miklu magni utan hefðbundins vökutíma.  Eitthvað álíka hefur heyrst um reykingar,  hvort heldur sem er um vindla að ræða,  pípu eða sígarettu.

  Flökkusögur af þessu tagi eru fyrst og fremst sagðar til gamans;  börnum og unglingum til hrellingar. 

  Nær væri að segja þeim og öðrum frá alvöru hættum.  Til að mynda þeim að snæða beikon,  pylsur af flestu tagi,  skinku og annan áþekkan óþverra.  Þessar kjötvörur eru krabbameinsvaldandi.  Sé þeirra neytt daglega aukast líkur á krabbameini um 18%.  

  Þetta hef ég eftir stofnun sem heitir IARC (International Agency for Research on Canser).  Hún heyrir undir alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO (ekki rugla henni saman við hljómsveitina Who).  Sér til stuðnings hefur IARC mörg hundruð rannsóknir.  Að mig minnir um 800. 

  Hvers vegna liggja upplýsingar um þetta í þagnargildi?  Ástæðan er sú að svínabændur eru mafía.  Öflugur þrýstihópur sem enginn þorir að blása á.  Flettið dagblaði og teljið í hvað mörgum auglýsingum svínakjöt bregður fyrir. 

svínakjöt

beikon  


mbl.is Þetta er ofurfæðan sem þú borðar ekki nóg af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svitalyktareyðir er óþverri

  Í handakrikanum er ein af helstu hreinsunarleiðum líkamans.  Út um hann losar líkaminn sig við óæskileg efni á borð við ýmis eiturefni. Þess vegna svitnar fólk undir höndum.  Það er kostur sem ber að fagna með tilheyrandi fagnaðarlátum.  Ekki ókostur.

  Hefðbundnir svitalyktareyðar eru vondir.  Þeir gera ógagn.  Sumir innihalda spíra sem þurrka upp svitakirtlana og gera óvirka.  Aðrir mynda lakkefni sem loka svitaholunum.  Enn aðrir bæta við sterkum ilmefnum sem kæfa svitalykt.

  Ein dellan til er að raka hár undir höndunum.  Hárvöxtur þar hefur hreinsunarhlutverk.   Þokkalega heilsugóð manneskja sem fer í sturtu á morgnana þarf ekkert að skipta sér sérstaklega af handakrikanum.  Það er ágætt að strjúka hann með vatnsblandaðri slettu af hreinu Aloe Vera geli.    

  Svo er til fyrirbæri sem kallast svitalyktarhindrandi kristall.  Þar er um að ræða saltkristal.  Hann er alnáttúrulegur.  Höggvinn úr kristalnámum í Asíu.  Sé steininum strokið um blautan handakrika þá leysist upp steinefnablanda sem hindrar 100% að svitalykt myndist.  Viðkomandi svitnar undir höndum eftir sem áður.  Það er kosturinn.  En engar lyktarbakteríur kvikna.  Engin lykt.

  Mikilvægt er að þessir kristallar séu merktir "alumium free".  

  Ef þú finnur lykt af svitalyktareyði af manneskju þá veistu að hún er í ruglinu.  Það er hætta á brjóstakrabbameini og allskonar veseni.

  

 deo   


mbl.is Kannt þú að bera á þig svitalyktareyði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Þorleifs um Rússlandsforseta

jón þorleifs 3 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ég hef af og til rifjað upp sögur af Jóni heitnum Þorleifssyni,  rithöfundi og verkamanni.  Hann átti auðvelt með að setja saman vísur af hvaða tilefni sem var.  Oft sátum við og fylgdumst með sjónvarpsfréttum eða öðru sjónvarpsefni.  Þá hrökk eldsnöggt upp úr Jóni vísa um eitthvað sem þar kom fram.

  Jón skráði þær ekki niður hjá sér á staðnum.  Mörgum gleymdi hann.  Sumar mundi hann áfram og hélt þeim þá til haga.

  Ef mér þótti vísa fyndin þá átti ég til að punkta hana niður - ef penni og blað voru í seilingarfjarlægð.

  Í dag rakst ég á gamlan miða með vísu. Mér hefur láðst að skrá höfund. En dagsetning er skráð 6. nóv. 1996.  Ég er handviss um að höfundur sé Jón Þorleifs.  Vísan er í hans stíl.  Mér er ljúft og skylt að varðveita hana með því að birta hana hér:

 

  Af fáu vaknar fögnuður

sem forsjón okkur gefur.

  Boris Jeltsin bölvaður

batalíkur hefur.  

 

 

  Sögur af Jóni má finna með því að smella hér 


Sea Shepherd sökkti glæsibáti

Earthrace-2 

 

 

 

 

 

 

 

  Í gær kvað bandarískur dómstóll upp dóm yfir hryðjuverkasamtökunum Sea Shepherd.  Hann komst að þeirri niðurstöðu að samtökin hafi viljandi sökkt glæsibátnum Ady Gill.  Það voru eigendur glæsibátsins sem sökuðu Sea Shepherd um þetta og kærðu málið.

  Atvikið átti sér stað á Suðurhöfum.  Ady Gill var í slagtogi með Sea Sheperd við að trufla hvalveiðar Japan.  Í atinu lenti báturinn í samstuði við japanskan hvalveiðibát.  Hvorugan bátinn sakaði að ráði.  Maður um borð í Ady Gill meiddist.

  Daginn eftir brá svo við að Ady Gill var sokkinn. 

  Forsprakki og talsmaður SS,  Paul Watson, kenndi japanska bátnum umsvifalaust um að hafa siglt Ady Gill niður,  stórslasað áhöfn og sökkt bátnum.  Óskaði Paul samtímis eftir myndarlegu fjárframlögum frá ríkum stuðningsmönnum til að hægt yrði að bæta tjónið.  Enn frekar til að SS yrði kleift að herða baráttu gegn hvalveiðum ofbeldisfullra og yfirgangssamra Japana.  

  Við vitnaleiðslur varð Paul Watson tvísaga og þrísaga;  hann talaði í mótsögnum og bullaði.  Til viðbótar voru frásagnir hans á skjön við ýmis opinber skrif hans um atvikið.  Frásagnir tveggja vitna voru ósamhljóða vitnisburði Pauls.  

  Niðurstaða dómsins var sú að SS hafi viljandi sökkt glæsibátnum til þess eins að afla sér samúðar og fjárframlaga.

  SS er gert að greiða eigendum Ady Gill 500 þúsund dollara (65 millj. ísl. kr.).  Einnig 27 þúsund dollara í sakakostnað (3,5 millj. ísl. kr.).  Hafi SS skít og skömm fyrir.  

csm_Sea_Shepherd


Kynferðisofbeldi í heimavistarskóla

  Ég var í heimavist í Steinstaðaskóla og á Laugarvatni.  Það var rosalega gaman.  Mikið fjör.  Allt að því stanslaust partý.  Þarna eignaðist ég marga góða og kæra lífstíðarvini.  Því miður veit ég til þess að sum skólasystkini upplifðu vonda vist í þessum skólum.

  Víkur þá sögu að heimavistarskólanum á Núpi í Dýrafirði. Jón Gnarr segir í nýrri bók frá hópnauðgun og kynferðislegu níði kennara á nemanda.  Hann nafngreinir ekki kennarann.  Fyrir bragðið er því haldið fram að allir 8 kennarar skólans liggi undir grun.  Það er skrýtið.  Án þess að ég þekki til málsins þá tiltekur Jón að gerandinn hafi verið nýr og ungur kennari á staðnum,  búsettur á Núpi og hlustað á pönk.  

  Getur verið að allir 8 kennarar staðarins hafi verið ungir nýir kennarar á þessum tímapunkti?  Og allir hlustað á pönk?  Einn af kennurum var skólastjórinn.  Varla var hann skilgreindur sem nýr og ungur kennari.  Þrír af 8 kennurum bjuggu ekki á staðnum.  Einhverjir til viðbótar voru eldri en svo að þeir væru að hlusta á pönkrokk.  Til viðbótar hafa einhverjir kennarar upplýst að nemandi hafi aldrei komið inn fyrir þeirra dyr.

  Hringurinn þrengist.  Það passar ekki að 8 kennarar liggi allir undir grun.  Líkast til varla fleiri en 2 eða 3.  Það er vont fyrir þá saklausu.  Jafnvel verra en að vera í hópi 8 grunaðra.

     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband