Þvottur á höndum léttir lund

  Vísindaleg rannsókn,  framkvæmd í Háskólanum í Cologne,  hefur nú staðfest niðurstöðu sem kom út úr hliðstæðri vísindalegri rannsókn,  framkvæmdri í Háskólanum í Michigan fyrir tveimur árum.  Báðar rannsóknirnar snérust um þvott á höndum;  hvaða áhrif hann hefur á andlega líðan fólks. 

  Niðurstaðan var afgerandi og óvænt:  Þvottur á höndum léttir lund svo um munar.  Því betur og rækilegar sem fólk þvær hendur sínar þeim mun glaðværara og hamingjusamara verður það.  Þegar hendurnar eru skrúbbaðar í bak og fyrir með bursta svífur fólk á bleiku hamingjuskýi lengi á eftir.  

  Sálfræðilega skýringin á þessu er sú að á meðan hendurnar eru þvegnar þá notar undirmeðvitundin tækifærið og losar sig við sektarkennd,  minnimáttarkennd,  neikvæðni og aðrar niðurbrjótandi hugsanir.  Eftir stendur manneskjan með tandurhreinar hendur,  sjálfsöryggi og jákvæðar hugsanir.

  Næst þegar þú sérð reiða,  bitra og neikvæða manneskju þá veistu um leið að hún hefur ekki þvegið sér um hendur.  Við höfum séð þetta í umræðuþáttum í sjónvarpi.  Þangað hafa einstaklingar mætt úr jafnvægi,  kófsveittir og æstir.  Ef þeir bara hefðu haft rænu á að þvo sér um hendur eftir klósettferðir þá væru þeir ljúfir sem lömb;  ósveittir og sáttir í sínu skinni.     

   Gott dæmi um mann sem þvær sér aldrei um hendurnar.   


Þjófar stela músík

  Á sjötta áratug síðustu aldar áttu fáir plötuspilara.  Samt alltaf einhver í hverri sveit.  Í sumum sveitum jafnvel tveir.  Plötueign var af skornum skammti.  Framboð var rýrt og platan dýr.  75 snúninga plasthnullungur.  Þó að hún innihéldi aðeins tvö lög þá þótti fyrirbærið göldrum líkast.  Nágrannarnir fjölmenntu í heimsókn til eiganda plötuspilarans og fengu að hlusta.  

  Í hvert sinn sem þeir hlustuðu þá fengu höfundar söngvanna engan pening.  Ekki flytjandinn heldur.  Hlustendur hlustuðu ókeypis.  Þetta var þjófnaður á höfundarvörðu efni.  Ég hafði áhyggjur af þessu.  Það var ekki gripið í taumana og ennþá eru Soffía og Anna Sigga rændar.  Ég man ekki hvers vegna ég braut plötuna með Soffíu og Önnu Siggu.  Mig minnir að ég hafi notað hana eins og frisby disk.  

  Í sveitum þar sem plötuspilari var á tveimur bæjum var gengið enn frekar á höfundarréttinn.  Plötueigendur skiptust á að lána hver öðrum plötur.  Þeir hlustuðu dögum saman á plötur sem þeir áttu ekki sjálfir.  Alveg ókeypis.  Tónlistarmennirnir á plötunum fengu ekki krónu í sinn vasa þegar menn hlustuðu á lánsplötur.  Þetta var þjófnaður.

  Hægt og bítandi fjölgaði plötuspilurum.  Plötuúrval batnaði.  Til viðbótar við 75 snúninga hnullunginn komu á markað þunnar,  léttar og mjúkar vinylplötur.  Minni gerðin var 45 snúninga.  Stærri gerðin var 33ja snúninga og gat geymt marga söngva.  Jafnframt fjölgaði þjófunum sem hlustuðu ókeypis á plötur sem þeir höfðu ekki sjálfir keypt.

  Ástandið súrnaði þegar menn komust yfir segulbandstæki.  Þau voru kölluð Real-to-Real.  Stór og klunnaleg tæki með stórum spólum.  Segulbönd voru notuð til að afrita músík af plötum.  Segulbandseigendur borguðu tónlistarmönnunum aldrei neitt.  Þetta var þjófnaður.  

  Þegar leið á sjöunda áratuginn flæddu lítil og nett ferðasegulbönd yfir markaðinn.  Þau voru með litlum kassettum.  Kassettutæki voru nánast á hverju heimili.  Flestir notuðu tækin til að hljóðrita lög úr útvarpinu.  Svo voru þessi lög spiluð í tíma og ótíma.  Þetta var þjófnaður á höfundarvörðu efni.  Gríðarmikill og grófur þjófnaður.   

  Á níunda áratugnum kom geisladiskurinn á markað.  Nokkru síðar var hægt að kaupa svokallaða skrifara.  Það var tæki sem gat afritað tónlist af plötum og diskum yfir á "tóma" diska.  Fáir fjárfestu í skrifara.  Kúvending varð þegar tölvan flæddi inn á öll heimili.  Tölvan var með skrifara.  Næstum því allir eiga skrifara í dag.  Upp til hópa er það fólk ósvífnir þjófar.  Þeir afrita heilu plöturnar og skrifa þær á diska.  Þeir ósvífnustu gefa öðrum skrifaða diska.  Tónlistarmennirnir fá ekkert fyrir sinn snúð þegar höfundarvörðu efni er rænt á þennan hátt.

  Á ensku heitir þetta "burn".  Plötubrennur eins og tíðkuðust með Bítlaplötur í Bandaríkjunum fengu nýja merkingu.  

  Nú er internetið helsti vettvangur glæps.  Fólk getur flett upp á allskonar tónlist á netinu og hlustað á hana ókeypis.  Það er hægt að hala tónlist niður og geyma hana.  Það gerir fólk sér til hagræðis.  Þá þarf ekki að leita aftur að laginu.  Eftir situr tónlistarmaðurinn slippur og snauður með grátstaf í kverkunum.  Hann fær ekki aur.  Hann er svangur.   Hann er svekktur og sár,  fúllyndur spældur.  Í hvert sinn sem hlustað er á lag hans þá er hann rændur.  Líka þó að hann hafi áður stolið laginu frá öðrum höfundi.  

  Heiðarlegast er að hlusta á tónlist í útvarpinu.  Því lengur og ákafar sem hlustað er þeim mun heiðarlegra.    

  Næst besti kostur tónlistarmannsins er að helga líf sitt baráttu við að verja bankaræningja.  Brauðmolarnir sem hrökkva af borði bankaræningja geta vegið upp á móti aurunum sem tapast þegar hlustað er ólöglega á stolin lög.  


Ótrúlega hraðvirk aðferð til að læra tungumál

  Það eru til ýmsar aðferðir til að læra enn eitt tungumálið.  Flestar eru aðferðirnar seinvirkar og kalla á mikla og tímafreka yfirlegu.  Það er líka til aðferð sem kallast ofurminnistækni (super learning memory).  Gallinn við hana er að fyrst þarf að læra ofurminnistæknina.  Það kostar margra daga námskeið.  Kosturinn er að ofurminnistæknin er öflugt hjálpartæki við margt annað en tungumálanám.

  Hraðvirkasta aðferðin við að læra tungumál er jafnframt sú einfaldasta.  Aðferðin felst í því að læra orðin sögð með texta úr móðurmáli viðkomandi.  Tökum dæmi af enskumælandi manneskju sem vill læra íslensku:

sömuleiðis = same old ladies

góða helgi = go to hell key

gerðu svo vel = go there so well

þökk fyrir = duck fairy    


Tónlist skiptir sköpum

  Tónlist er manninum nauðsynleg.  Tónlist kemur næst á eftir þörfinni fyrir mat og svefn.  Tónlistin deilir röðinni með þörfinni fyrir að ávaxta kyn sitt.  Tónlistin sefar,  linar þjáningar,  léttir geð,  lyftir andanum,  nærir sálina,  veitir ómælda gleði,  styttir stundir og það sem skiptir mestu máli:  Er gott hjálpartæki þegar löngun til að dansa kviknar.  

  Allar manneskjur hafa unun af tónlist.  Margir eru tónlistarfíklar.  Tilvera þeirra snýst að meira eða minna leyti um tónlist.  Margir iðka tónlist.  Spila á hljóðfæri og syngja.  

  Tónlistariðkun er bráðholl.  Hún eflir hæfileika viðkomandi á mörgum sviðum:  Ýtir undir skapandi hugsun,  samvinnu,  hæfni til að hlusta á aðra,  taka nýjum hugmyndum fagnandi,  deila upplifun með öðrum,  taka tillit til annarra,  skerpir skilning á gildi fortíðarinnar,  njóta augnabliksins og horfa til framtíðar.

  Vegna þessa hafa tónlistariðkendur forskot á aðra þegar kemur að öðrum hlutum.  Gott dæmi um það er framboð Besta flokksins.  Þetta var framboð vinahóps tónlistarmanna.  Hann tók önnur framboð í nefið.  Kosningabaráttan var snilldin ein.  Kosningalag Besta flokksins gerði kosningalög allra annarra framboða - í gegnum söguna - að hallærislegu prumpi.  Frambjóðendur Besta flokksins voru á heimavelli og tóku slaginn með óverjandi trompi.

  Fremstur í flokki fór bassaleikarinn úr pönksveitinni Nefrennsli,  Jón Gnarr.  Þegar ég hlustaði á Nefrennsli spila á pönkhljómleikum Útideildar fyrir röskum þremur áratugum þá vissi ég strax að þarna væri á sviði borgarstjóraefni Reykjavíkur.  Nei,  reyndar ekki.  Það blasti ekki við.  Ég hugsaði ekkert út í það.  Ekki frekar en þegar ég hlustaði á hljómsveitina Ske og þar var hljómborðsleikari,  Guðmundur Steingrímsson,  sem í dag leiðir Bjarta framtíð.  Þingflokk sem nú tekur við kefli Besta flokksins í Reykjavík.  

  Farsæll miðborgarstjóri Reykjavíkur er stuðmaðurinn,  hljómborðsleikarinn og djassgeggjarinn Jakob Magnússon.  Forstjóri Höfuðborgarstofu,  Einar Bárðarson,  er gamalreyndur gítarleikari og  lagahöfundur.  

  Jón Gnarr er ekki eini tónlistarmaðurinn sem hefur orðið borgarstjóri Reykjavíkur.  Ólafur F. Magnússon er gítarleikari og söngvari.  Birgir Ísleifur er djassgeggjari og píanóleikari.  Árni Sigfússon er gítarleikari,  lagahöfundur og söngvari.  Ingibjörg Sólrún hefur sungið inn á plötu.  Davíð Oddsson samdi dægurlagatexta og söng á hljómleikum með Gunnari Þórðarsyni.  

  Það voru svo tíð borgarstjóraskipti í Reykjavík um tíma að ég man í fljótu bragði ekki hverjir komu þar við sögu.  Borgarstjórnarfulltrúinn Oddný Sturludóttir var hljómborðsleikari hinnar ágætu rokksveitar Enzími.  

  Tónlistarmenn eru í forystu í hinum ýmsu sveitastjórnum um allt land.  Söngvari og selló-leikari Todmobile,  Eyþór Arnalds,  er í Árborg.  Matti Matt var í Dalvíkurbyggð.  Guðmundur í Sé Ellen og söngvari (ég man ekki nafn hans) sem var í hljómsveit á Laugarvatni og síðar í hljómsveitinni Bumbunum eru í Fjarðarbyggð.  

  Gott ef Magnús Stefánsson í Upplyftingu og fyrrverandi þingmaður er ekki sveitastjóri í Garði.  

  Geir Haaarde söng inn á plötu með South River Band.  

  Menntamálaráðherrann,  Illugi Gunnarsson,  er píanóleikari og hefur sent frá sér plötu. 

  Bill Clinton,  fyrrverandi forseti Bandaríkja Norður-Ameríku,  er saxafónleikari.  George eldri Bush er blúsgeggjari og gítarleikari.  Tony Blair,  fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands,  er rokkgítarleikari.  

  Upptalningin er endalaus.

  Fæstir tónlistarmenn eru "bara" tónlistarmenn.  Flestir koma víðar við.  Margir eru í leiklist.  Margir eru listmálarar.  Margir fást við ritstörf.  Um síðustu aldamót gerðu margir fjölmiðlar upp við tuttugustu öldina.  Völdu mann aldarinnar.  Eða tónlistarmann aldarinnar.  Flestir helstu fjölmiðlar heims enduðu á því að velja á milli Johns Lennons og Bobs Dylans.  Jafnan með þeirri niðurstöðu að Lennon hefði vinning.  Hljómsveit hans,  Bítlarnir,  vóg það þungt.  Lennon og Dylan voru ekki aðeins tónlistarmenn heldur einni myndlistamenn og rithöfundar.  


mbl.is Jón Gnarr hættir í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkennileg vinnubrögð

  Ég fór á pósthús.  Við innpökkunarborðið var háaldraður maður að loka stóru bólstruðu umslagi.  Hann var auðsjáanlega afar máttlaus og hreyfingar voru hægar.  Hann teygði sig í breiðu glæru límbandsrúlluna og límdi þvers og kruss yfir framhlið umslagsins.  Hugsanlega var ætlunin að styrkja umslagið.  Samt eru þessi bólstruðu umslög níðsterk. 

  Ég þurfti að nota límbandið og fylgdist þolinmóður með vinnubrögðum gamla mannsins.  Þau voru eins og kvikmynd í "slow motion".  Ég beið og ég beið.  Og beið og beið.  Eftir óralangan tíma var maðurinn búinn að þekja framhlið umslagsins með glæra límbandinu.  Hann ætlaði að taka umslagið upp.  Þá kom í ljós að límbandsrenningarnir stóðu vel út fyrir umslagið.  Það var límt fast á stóra og þunna skjalatösku sem lá undir umslaginu.  

  Gamli maðurinn reyndi ítrekað að rykkja umslaginu af töskunni.  Án árangurs.  Það var pikkfast.  Hann reyndi að toga umslagið af töskunni.  Það gekk ekki heldur.  Eftir töluvert streð náði kallinn í skæri og klippti umslagið laust.  Eftir sat ferhyrndur límbandsrammi á töskunni.  

  Maðurinn snéri umslaginu við og ýtti töskunni til hliðar.  Svo hófst hann handa við að þekja bakhlið umslagsins með límbandi.  Að því loknu ætlaði maðurinn að taka umslagið upp.  Þá var það kyrfilega límt við borðið og að hluta við töskuna.  Nú var sá gamli kominn í æfingu við að leysa svona vandamál.  Hann klippti umslagið laust.  Á meðan notaði ég límbandsrúlluna í fljótheitum.  

   Áður - þegar ég sá að bið mín eftir límbandinu styttist - náði ég mér í afgreiðslunúmer.  Útreikningurinn stóðst.  Skömmu eftir að ég hafði límt minn pakka kom afgreiðslunúmer mitt upp á skjáinn.  Um það bil sem ég snéri mér að afgreiðsludömunni ruddist sá gamli fram fyrir mig og rétti henni númerið sitt.  Það var 15 númerum á undan mínu.  Daman fór að hlæja og sagði eitthvað á þá leið að það væri ekkert mál að afgreiða okkur báða í einu.  Sem hún gerði og var eldsnögg að afgreiða mig.

  Á leiðinni út velti ég því fyrir mér hvernig gamli maðurinn haldi að númerakerfi póstsins virki.   Ég komst ekki að niðurstöðu.    


Færeyskir brandarar

  Færeyskur húmor er snilld.  Brandararnir eru yfirleitt stuttir og hnitmiðaðir.  Þeir geta líka verið langir þegar það á við.  Lengdin þjónar þá þeim tilgangi að gera "lokahnykkinn" (pönslæn) áhrifameiri.  Gott dæmi um færeyskan húmor er þegar eina helgi merktu hrekkjusvín saltgeymslu eyjanna rækilega með afar vel máluðum risastöfum sem mynduðu orðið PIPAR.

  Hér eru nokkrir færeyskir brandarar:  

  -  Þjónn!  Það liggja tvær augnlinsur ofan á súpunni minni!

  -  Hvar?  Hvar?

 ----------------------------------------------

  Dani kom inn í Vesturkirkjuna.

  -  Prestur,  ég vil skipta um nafn.  Þú getur umskírt mig.

  -  Svo, hvað heitir þú?

  -  Hans Hommi

  -  Guð minn góður.  Ég skil,  ég skil.  Hvaða nafn viltu taka upp?

  -  Karl Hommi

----------------------------------------------

  Húsbóndinn mætir óvenju snemma heim og kemur að konunni allsnakinni. 


  -  Hvað er í gangi?

  -  Ég er að fara í bæinn að mótmæla?

  -  Er það jafnréttisbarátta?

  -  Nei,  ég ætla bara að láta alla í bænum vita að maðurinn minn sé svo nískur að hann bannar mér að kaupa ný föt?

  -  Og hvað?  Ætlar þú að ganga ber niður í bæ?

  -  Já,  alla leið niður að Vagli!

  -  Og framhjá Eikar-bankanum og allt?

  -  Já!

  -  Heppilegt.  Taktu þetta umslag með þér og renndu því inn um bréfalúguna hjá Eik.      

eik_yvs.jpg

Ljótt fólk og fallegt

  Á næstum sex áratuga langri ævi hef ég kynnst mörgu fólki.  Sumt er fallegt.  Sumt ekki.  Fallegt fólk fær forskot við fyrstu kynni.  Það er staðreynd.  Við nánari kynni fjara út áhrif útlits.  Fallegur persónuleiki eða neikvæður persónuleiki taka yfir.  Fögur manneskja getur jafnframt verið með fallegan persónuleika.  Ekki eins falleg manneskja getur líka verið með svo fallegan persónuleika að við nánari kynni yfirtekur jákvætt viðhorf til persónuleikans álit á manneskjunni.

  Útlitsdýrkun sækir ört á.  Mörg tímarit,  íslensk sem erlend,  "fótósjoppa" ljósmyndir út í öfgar.  Fólkið á myndunum virðist vera fullkomið.  Engar hrukkur, engir baugar,  engar misfellur.  Í hverjum sjónvarpsþættinum á fætur öðrum er áherslan á útlit.  Kappsmálið er fullkomið útlit.

  before-and-after-photoshop_1220047.jpg 

   Fallegt andlit er ofmetið.  Illilega ofmetið.  Það eru aðrir eiginleikar manneskjunnar sem skipta öllu máli.  Gott dæmi um þetta eru liðsmenn bresku hljómsveitarinnar The Rolling Stones. 

rollingstonestour-10_16_2012_1220045.jpg

   Þeir eru ekki snoppufríðir.  En þeir eru dáðir og elskaðir af milljónum manna fyrir tónlist sína.  Gítarleikarinn Keith er sérstaklega í hávegum fyrir skemmtilegan persónuleika.  

  Útlitsdýrkun er af hinu vonda.  Flest annað skiptir meira máli.  Það er ömurlegt að lesa um börn sem verða fyrir aðkasti vegna skarðs í vör eða að þau stami eða eitthvað annað sem skiptir nákvæmlega engu máli.  

  Einelti af hvaða ástæðu sem er á að vera refsivert.  Einelti er ofbeldi og á að vera skilgreint sem glæpur.   Ég stamaði sem barn og var með drómasýki.  Það er afbrigði af flogaveiki.  Reyndar varð ég ekki fyrir neinu einelti né stríðni vegna þess.  Kannski vegna þess að ég var uppvöðslusamur (bully).  Kannski vegna þess að eldri bróðir minn í skólanum var ennþá uppvöðslusamari.  Kannski tók ég aldrei eftir stríðni vegna stams eða drómasýki.   Kannski kom aldrei upp neitt tilvik varðandi það.  

  Selma Björk sem hefur opinberað sína sögu um einelti vegna skarðs í vör á skilið hrós.  Mikið hrós.  Út af fyrir sig skiptir ekki máli að hún er gullfalleg.  Öllu máli skiptir að hún er gáfuð,  klár og tæklar eineltið af einstakri yfirvegun,  jákvæðni og snilld.  Afstaða hennar til allra þátta sem snúa að dæminu er til mikillar fyrirmyndar.  Skömm þeirra sem ráðast hafa að henni er mikil.  Mjög mikil.  Þar eru vondar manneskjur að verki.      

 


mbl.is „Þú gleymdir að fæðast með venjulegt andlit“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er svo undarlegt með unga menn í bakgrunni

  Það er ekki alltaf nægilegt að "pósa",  stilla sér upp fyrir ljósmyndatöku.  Það þarf að hyggja að fleiru.  Til að mynda öðru fólki.  Fólkinu í bakgrunni sem veit ekki af fyrirhugaðri myndatöku.  Það er sérlega skætt.  En það er jafnframt það sem gerir marga ljósmyndina bráðskemmtilega þegar betur er að gáð. 

fur_umynd5.png   Manninum í bakgrunninum er greinilega illa brugðið við að sjá tvær huggulegar dömur kyssast innilega.  Hann gapir af undrun og augun standa á stiklum. 

fur_umynd4.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Hvað er maðurinn í bakgrunni að gera?  Miðað við hvernig skyrtubolurinn lyftist og hvernig lúkurnar snúa virðist sem gaurinn sé í frjálsu falli.  Ég hef séð mann drepast áfengisdauða á nákvæmlega þennan hátt.

 

   Drengurinn neðst til vinstri á myndinni virðist vera að leita að einhverju sem hann hefur týnt.

fur_umynd3.png   

 

 

 

 

 

 

   Maðurinn montar sig af upphandleggsvöðvunum.  Stelpan tekur ekki eftir því.  Enda upptekin við að kasta upp.

 furðumynd2

  Hvað ergir drenginn?  Varla er bjórinn svona vondur.

fur_umynd1.png


Það er draumur að vera með réttar tölur

  Fyrir hálfum fjórða áratug sat kona í kyrrstæðum bíl á Austurstræti.  Út um opinn glugga seldi hún happdrættismiða fyrir Hjartavernd.  Bíllinn var vinningurinn.  Meirihluti þeirra sem keyptu miða hafði dreymt fyrir vinningi.  Aðra hafði dreymt tiltekna tölu eða númer.  Þá þurfti að fletta í gegnum óselda miða til að finna miða með draumanúmerinu.  Ég veit ekki hver varð heppni vinningshafinn.  En töluverðar líkur eru á að með vinningnum hafi draumur ræst.  Berdreyminn vinningshafi.  

  Fyrir nokkrum vikum langaði mig í Malt.  Ég vatt mér inn í sjoppu.  Þar var á undan mér kona sem keypti Lottó-miða fyrir meira en 30 þúsund kall.  Fyrir minn smekk voru þetta stórtæk innkaup.  Mér varð á að nefna það við konuna.  Hún svaraði því til að hana hafi um nóttina dreymt Lottó-vinning.  Ég benti henni á að ef hún væri berdreymin þá ætti 1 Lottó-röð að gilda jafn vel og margar raðir.  Svar hennar var:  "Ég ætla ekki að sitja uppi með það að hafa ekki gert allt sem ég gat til að láta drauminn rætast!"

  Stóri vinningurinn gekk ekki út vikuna sem konan fjárfesti í vinningsmiða.  Kannski var draumurinn ekki nógu skýr.  Kannski átti hún að kaupa miða í öðru happdrætti.  

  Hvað er annars berdreymi?  Hver stýrir draumum fólks og hunda?  Eru það guðirnir?  Eða sprelligosar að gera grín?  Hvað á að taka drauma hátíðlega?  

      

   


mbl.is Dreymdi fyrir vinningsröð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð markaðssetning

  Góð markaðssetning er gulls ígildi.  Markviss og vel hönnuð auglýsingaherferð skiptir sköpum.  Dæmi um slíkt er auglýsingaherferðin "Taktu Pepsi áskorun".  Herferðin gekk út á það að þvers og kruss um heiminn var viðskiptavinum matvöruverslana boðið að smakka Pepsi kóla og Kóka kóla blindandi.  Síðan átti smakkarinn að gefa upp hvor drykkurinn væri bragðbetri og hvor væri Pepsi og hvor væri Kók. 

  Þessi herferð stóð í nokkur ár.  Afleiðingarnar urðu þær að sala á Pepsi kóla margfaldaðist og raunar líka á Kóka kóla.  Síðan hafa kóladrykkir annarra framleiðanda ekki átt möguleika á markaðnum.  Fólk er ennþá forritað fyrir því að velja á milli Pepsi og Kóla.

  Sælgætisgerðin Góa er ekki þekkt af merkilegri markaðssetningu né vel hönnuðum auglýsingaherferðum.  Undan er skilið að forstjórinn,  Helgi í Góu,  hefur verið duglegur að halda sér í sviðsljósinu og taka þátt í umræðu um lífeyrissjóði og íbúðir aldraðra.  

  Nú hefur Góa skyndilega og óvænt spilað út stóru trompi fyrir súkkulaðibita sem kallast Hraun.  Stofnaður hefur verið hópur sem samanstendur af aðdáendum Hraunbita.  Hann kallast Hraunavinir.  Fyrir hópnum fara margir landsþekktir menn.  Þeir hafa verið duglegir við að vekja athygli á Hrauni.  Fara mikinn.  Svo mikinn að lögreglan hefur ekki svigrúm til að eltast við skipulagða glæpastarfsemi og kveða hana niður.  Lögregluflotinn er upptekinn við að vakta Hraunavini og bera þá á höndum sér fram og til baka um holt og hæðir.

hraun.jpg   Það gefst alltaf vel að stilla upp í auglýsingaherferð frægum andlitum.  Almenningur treystir fræga fólkinu betur en sjálfum sér til að vita hvaða súkkulaði er gott á bragðið.   

  Þessa dagana er togast á um hvern kassa af Hrauni í sjoppum og matvöruverslunum landsins.  Samt er Hraun ekkert gott.  Nóa Kropp er miklu betra.  Nóa hlýtur að koma með mótleik í stöðunni.  Stofna hóp Nóa-Kroppsvina og valta yfir Hraun.  Hvaða frægir ætli verði í forsvari fyrir Nóa Kropp?  Forsetinn?  Björk?  John Lennon?  Þetta eru spennandi tímar.     

   


mbl.is Engar landbætur vegna Álftanesvegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkamlegt ofbeldi er af hinu vonda

  Líkamlegt ofbeldi,  líkamlegar refsingar,  eru af hinu vonda.  Þetta hafa bandarískar rannsóknir leitt í ljós.  Reyndar er þetta svo augljóst að það á varla að þurfa að ræða það.  Hvað þá rannasaka það.   Samt eru alltaf einhverjir sem réttlæta líkamlegar refsingar á börnum.  Í lok síðustu aldar refsuðu 70 % bandarískra foreldra börnum sínum með flengingum.  Í dag er talan komin niður í 57% mæðra og þriðjungur feðra.

  Börn, sem er refsað líkamlega,  eru 70% líklegri til að þróa með sér þunglyndi á fullorðins árum.  Það er svakalega há tala.  

  Columbia háskólinn í New York var að ljúka við 15 ára rannsókn á flengingum.  Í Bandaríkjunum eru líkamlegar refsingar algengari en í Evrópu.   Algengasta ofbeldi gagnvart börnum í Bandaríkjunum er flenging.  Niðurstaða rannsóknar Columbia háskólans er sú að flengingar draga úr hæfileika barna til að tjá sig með orðum.  Þau verða ofbeldisfyllri.  Þau eru líklegri til að leysa ágreiningsmál með ofbeldi. Þau skortir hæfileika til að leysa ágreining með orðum og rökum.  

  Raunar er undarlegt að nokkurt foreldri geti fengið sig til að beita barn ofbeldi.  Ofbeldi gagnvart börnum ætti að vera refsivert eins og annað ofbeldi.  


Grallararnir í N-Kóreu gefa í

   Norður-Kórea er lokaðasta ríki heims.  Að vísu er ekkert mál að ferðast til landsins.  Ferðamenn fá meira að segja innfæddan leiðsögumann.  Jafnvel leiðsögumenn.  Þeir fylgja ferðamanninum eins og skugginn, vaka yfir honum dag og nótt og reyna að uppfylla óskir hans.  Langi ferðamanninn að kíkja á pöbb;  ekkert mál.  Langi hann að kíkja á karókí-bar;  ekkert mál.  Það skrítna er að á þessum stöðum er einungis starfsfólk.  Engir gestir aðrir en ferðamaðurinn og leiðsögumaður hans.  

  Það er fleira skrítið í N-Kóreu.  Eiginlega flest.  Innfæddir fá ekki að fara úr landi.  Hvorki sem ferðamenn til annarra landa né til brottflutnings.  Þeir sem reyna að laumast úr landi eru í vondum málum ef þeir eru staðnir að verki.  Þá tekur við vist í þrælkunarbúðum við hryllilegar aðstæður. 

  Þjóðin býr við mikla fátækt og hungur.  Dæmi um vandræðaganginn er að landið er meira og minna rafmagnslaust.  Það sést glöggt á gervihnattamyndum.

nk_ljosanotkun.jpg  N-Kórea er merkt inn með útlínu.  Sunnan við sést ljósadýrðin í S-Kórea og ennþá sunnar í Japan.  Norðan við er Kína.  

  Þrátt fyrir fátæktina býr elítan við lúxus og allsnægtir.  Pabbastrákarnir sem fæddust með silfurskeið í munni og hafa engan skilning á vondum kjörum almúgans. 

NK gamli forsetinn viðrar sig      Eilífðarforseti landsins er afi núverandi leiðtoga og faðir næsta leiðtoga þar á undan.  Sá dó fyrir aldur fram eftir margra ára fyllerí.  Hans stíll var að sitja allsnakinn og þamba fínasta koníak.  Þess á milli samdi hann öll helstu klassísku tónverk sögunnar og fann upp hamborgarann.  Núverandi leiðtogi,  Kim Jong-un,  er meira fyrir að leika sér í vatnsrennibrautum.  Í síðustu viku vígði hann stærsta vatnsrennibrautargarð í heimi.  Engu er til sparað svo elítan geti leikið sér.

NK sundlaug m vatnsrennibrautumNK sundlaugNK sundlaug ANK sundlaug vatnsrennibrautNK sundlaug B  Það er margt einkennilegt ef rýnt er í myndirnar.  Lengst til hægri á næst neðstu myndinni endar vatnsrennibraut óvænt upp úr þurru í góðri hæð og fjarri sundlaug.  Á neðstu myndinni er krökkt af fólki,  stappað,  en ekki einn einasti bíll á rúmgóðu bílaplani.  Illar tungur hvísla að einhver í N-Kóreu sé búinn að læra á fótósjopp.  Rennibrautagarðurinn sé til í raunveruleikanum en ekki eins glæsilegur og myndirnar sýna.

  Annars er aldrei að vita.  Það er svo margt undarlegt í austri.  Vegir eru breiðir og rúmgóðir.  Hinsvegar er hending ef á þeim sést bíll.  Það eru tíðindi til næsta bæjar ef 2 eða 3 bílar sjást samtímis á götu.  Menn smella ljósmynd af svo sjaldgæfri sjón.  Engin eru götuljósin.  Rafmagnsleysinu um að kenna.  Lögregluþjónar stýra umferðinni.  Þeim er iðulega kalt vegna aðgerðarleysis.

NK þung umferð við gatnamót - engin umferðarljós - sparnaður á rafmagniNK breiðar götur 3 bílarNK þjóðvegur

  Til að spara bensín skiptast börn á að ýta skólarútunni.   

NK skólabörn spara bensín

  Ólíkt föður sínum lætur Kim Jong-un ekki sjá sig með gleraugu.  Samt er hann mjög nærsýnn.  Í stað gleraugna notar hann kíki.  Honum þykir meiri reisn yfir því.

NK Kim m kíkirnk_kikir_c.jpgnk_kikir_d.jpg   

 

  

nk_kikir_e_1219393.jpgnk_kikir_f.jpgnk_kikir_j.jpgnk_kikir_k.jpgnk_kikir_l_1219403.jpgnk_kikir_m.jpgnk_kikirinn_enn.jpg     


mbl.is Sjö stjörnu lífsstíll Kim Jong-un
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynlíf í eða utan hjónabands

  Í helgarblaði DV er fróðlegt og áhugavert viðtal við nokkrar íslenskar konur sem eru múslímar.  Þær eru giftar og eiginmenn þeirra eru einnig múslímar.  Það er allt hið besta mál.  Það er gott framtak hjá DV að kynna okkur sem erum ekki múslímar viðhorf þessa fólks á sem flestum sviðum. 

  Í viðtalinu kemur fram að konurnar voru hreinar meyjar þegar þær gengu í hjónaband.  Þær eru ánægðar með það og fullyrða að kynlíf í hjónabandi sé betra (en utan þess).  Hvernig vita þær það?  Hvernig fá þær samanburð?  

 


mbl.is Loksins gift eftir fjögurra ára trúlofun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Broslega heimskir þjófar

  Í grófum dráttum skiptast þjófar í tvo flokka.  Í öðrum flokknum eru heimskingjar.  Þeir sem falla í þann flokk eru þjófar vegna heimsku.  Í hinum flokknum eru menn með meðalgreind eða rúmlega það.  Þeir eru siðblindir.  Þeir hasla sér helst völl á sviði banka eða stjórnmála.

  Heimsku þjófarnir eru skemmtilegri.  Þeir eru að auki ekki eins stórtækir.  

  Einn þjófurinn birtist í búðarlúgu á aktu-taktu skyndibitastað í Halifax.  Hann krafðist peninganna úr kassanum.  Afgreiðslumaðurinn svaraði því til að staðurinn opnaði ekki fyrr en eftir 10 mín.  Með þeim orðum taldi afgreiðslumaðurinn sig vera að upplýsa þjófinn um að það væru engir peningar komnir í kassann.  Þjófurinn misskildi þetta og sagði:  "Ég hinkra þá bara!"   Afgreiðslumaðurinn hringdi þegar í stað í lögguna.  Hún kom að vörmu spori og handtók þjófinn þar sem hann sat úti á vegarkanti og beið eftir því að skyndibitastaðurinn opnaði.    

  Annar þjófur ruddist inn í banka í Edinborg og krafðist 5000 punda (um milljón ísl. kr.).  Gjaldkerinn þóttist ekki heyra hvað hann sagði,  bað hann um að taka af sér grímuna og tala skýrar.  Við það komst styggð að þjófnum.  Hann hljóp út úr bankanum og inn í að næsta banka skammt frá.  Þar var biðröð við gjaldkerastúkuna.  Þjófurinn stillti sér upp í röðina sem styttist hægt.  Glöggur starfsmaður bankans hringdi á meðan í lögregluna og tilkynnti um mann með grímu.  Löggan mætti í skyndi og handtók þjófinn í þann mund sem röðin kom að honum.  

  Í Sussex á Englandi rölti öldruð veikburða kona með plastpoka.  Þjófur hljóp að henni,  hrifsaði af henni pokann og hljóp í burtu.  Í pokanum var nokkurra daga safn af hundaskít.  Gamla konan hefur þann hátt á að hirða samviskusamlega upp eftir hundinn sinn og safna í poka.  Þegar pokinn er fullur röltir kella með hann í grenndargám.   

  Í London lenti bankagjaldkeri í þrefi við vopnaðan þjóf með grímu.  Þjófurinn hafði rétt gjaldkeranum plastpoka og miða.  Á miðanum voru afskaplega illa skrifuð fyrirmæli sem áttu að vera:  "Put the money in the bag" (Settu peningana í pokann).  Gjaldkeranum sýndist sem stæði á miðanum "Put the honey in the bog" (Settu hunangið í mýrarfenið).  Gjaldkerinn,  hrekklaus og hjálpleg eldri kona,  benti þeim grímuklædda á að það væri heilsubúð í næsta húsi.  Þar gæti hann fengið hunang.  Við það "sprakk" ræninginn úr stressi og öskraði:  "Hvers vegna ætti ég að vilja hunang?"  Við hrópin rumskuðu aðrir starfsmenn bankans og hringdu í lögregluna.  Þegar lögreglan sveif inn í bankann með handjárn á lofti voru gjaldkerinn og ræninginn ennþá að þrefa.  Gjaldkerinn var í miðju kafi að upplýsa ráðvilltan ræningjann um mýkjandi eiginleika hunangs við hálsbólgu.  


mbl.is Stálu í stað þess að bjarga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðilegar niðurstöður um ökumenn

  Almennt eru Bretar betri,  þægilegri,  kurteisari og tillitssamari bílstjórar en Íslendingar.  Bretarnir þekkja bílinn sinn betur og vita til hvers hin ýmsu tæki og takkar í honum eru.  Þar munar mestu um stefnuljósið.  Flestir Bretar vita af því og meirihlutinn kann að nota það.  Rannsókn á hegðun breskra ökumanna er tæplega hægt að yfirfæra á íslenska ökumenn.  Samt er fróðlegt og merkilegt að skoða niðurstöðuna.  Rannsóknin náði til 2000 breskra ökumanna:

   Fjórðungur skilgreinir sig lélegan bílstjóra.  Algengasta klúðrið er að nota ekki stefnuljós,  hvorki á hringtorgum né þegar beygt er við gatnamót.    

  60% telja að þeir myndu ekki standast ökupróf ef þeim væri skellt í það í dag.

  70% viðurkenna að aka reglulega yfir leyfilegum ökuhraða.  Jafnvel stunda hraðakstur.

  Fjórðungur játar á sig ölvunarakstur.    

  Jafn margir hafa dottað undir stýri.  Kannski er samhengi þar á milli.

  Þriðjungur hefur keyrt utan í aðra bíla við að leggja í stæði eða aka úr stæði.  

  Það tók þennan bílstjóra innan við fimm mínútur að aka út úr bílastæði og út af bílaplaninu.  Það sem skipti mestu máli:  Hann rakst ekki utan í neinn bíl.   


Kvikmyndarumsögn

metal-blakk.jpg

 

 

 

 

 

 

 - Titill:  Málmhaus

 - Höfundur og leikstjóri:  Ragnar Bragason

 - Leikarar:  Þorbjörg Helga Dýrfjörð,  Ingvar E. Sigurðsson,  Halldóra Geirharðsdóttir,  Sveinn Ólafur Gunnarsson

 - Einkunn: **** (af 5)

  Myndin er ólík því sem ég hélt.  Ljósmyndir af aðalpersónunni,  Heru Karlsdóttur (Þorbjörg Helga Dýrfjörð),  með andlitsfarða að hætti norskra svartmálmshausa og nafn myndarinnar gáfu vonir um að svartmálmi væri gert hátt undir höfði.  Sú er ekki raunin.  Rokkmúsík er sparlega notuð.  Uppistaðan af henni er laufléttur popp-metall.  Það er ekki fyrr en undir lok myndarinnar sem Hera syngur og spilar svartmálmsslagara.  Sá er frábær!  Ég hlakka til að kaupa hann á plötu og hlusta oftar á hann.  Þó ekki sé nema fyrir þetta eina lag er góð ástæða til að skreppa í kvikmyndahús.  En það kemur fleira til.  Hera syngur og spilar annað lag,  ljúfa ballöðu,  í lok myndar.

  Myndin gerist í sveit.  Bóndasonurinn á bænum,  Baldur,   er þungarokkari og spilar á gítar í hljómsveit.  Við fáum ekki að heyra í hljómsveitinni;  sjáum aðeins ljósmynd af henni.  Einn sólléttan sumardag ekur hann á dráttarvél um tún.  Aftan á vélinni er heyþyrla.  Drifskaftið er bert og óvarið.  Það er bannað.  Á sjöunda áratugnum þegar síða hippahárið var málið ollu hlífðarlaus drifsköft dauðsföllum.  Þegar drifskaft nær hárlokki er það fljótt að rífa höfuðleðrið af viðkomandi.  Þetta er einmitt það sem hendir Baldur.  Hann ekur yfir ójöfnu á túninu og hárið flækist í drifskaftinu.

  Hera systir hans verður vitni að slysinu.  Hún er 12 ára.  Hún og foreldrar þeirra ná ekki að vinna úr sorginni.  Þau festast í sorginni,  döpur,  þögul og sinnulaus.  Þetta er drama.  Árin líða.  Hera leitar huggunnar í að hlusta á plötusafn Baldurs og spila á gítarinn hans.  Sorgin fléttast saman við "gelgjuna":  Mótþróa,  uppreisn og stjórnleysi.  

  Hera fær áhuga á norskum svartmálmshausum þegar Bogi Ágústsson les frétt um þá í Sjónvarpinu.  Fréttin sagði frá dómum sem þeir fengu fyrir kirkjubrennur og morð.   

  Dramað í myndinni er létt upp með einstaka brandara og broslegu atviki.  Margt ber til tíðinda.  Sagan er trúverðug.  Þökk sé góðum og sannfærandi leik.  Mest mæðir á Þorbjörgu Helgu.  Hún vinnur feitan leiksigur og hlýtur að fá Edduna.  Hlutverkið er margbrotið og krefst margs umfram leikræna hlutann.  Gítarleikur hennar er fínn,  söngurinn snilld,  "slammið" flott...  Það er sama hvar borið er niður:  Hún neglir þetta allt niður.  Hún er jafn trúverðug sem illa áttuð unglingsstelpa og málmhaus sem gefur skít í allt og alla.  Áhorfandinn hefur samúð með henni og sýnir öfgafullum uppátækjunum skilning.  Þorbjörg Helga er stórkostlegur leikari.  

  Persónan sem Sveinn Ólafur leikur er sterkt útspil í framvindu sögunnar.  Sá, ja, klunnalegi og grunni karakter leggur til grínið og dregur fram ennþá fleiri hliðar á Heru.  Hliðar sem hlaða undir skilning á persónunni og trúverðugleika hennar.   

  Það er ekki gott að staðsetja sögusviðið í tíma.  Og kannski óþörf smámunasemi að reyna það.  Upphaf myndarinnar gæti gerst snemma á níunda áratugnum eða fyrr.  Þetta er á dögum vinylplötunnar og kassettutækisins.  Fréttir af norskum svartmálmshausum hafa varla ratað í íslenska fréttatíma fyrr en um miðjan tíunda áratuginn. 

  Í kynningartexta um myndina er gefið upp að sögusviðið í byrjun sé 1970.  Það passar ekki.  Þá voru hljómsveitir eins og Iron Maiden og Ac/Dc ekki til, né heldur ýmsar aðrar sem koma við sögu.  Þetta skiptir engu máli.  Þetta er áhugaverð bíómynd en ekki sagnfræði.         

  Myndataka er alveg ljómandi góð og klipping Valdísar Óskarsdóttur afbragð.  Þegar andlegt svartnætti persónanna liggur í þunglyndi er áferðin grá og drungaleg.  Reyndar lengst af.   

  Það segir eitthvað um kvikmyndina að frá því að ég sá hana þá hefur hún sest að í hausnum á mér.  Ég rifja upp senur úr myndinni og langar ákaflega mikið til að heyra aftur rokklagið með Heru/Þorbjörgu.  Það er svo meiriháttar flott.      

metalhead-595x850.jpg      

     


mbl.is Hræddi börn í Húsdýragarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veitingahússumsögn

salatogbraudsalatbarinn 

  - Veitingastaður:  Salatbarinn,  Faxafeni 9 í Reykjavík

  - Réttur:  Hlaðborð

  - Verð:  1800 kr.

  - Einkunn:  **** (af 5)

  Hlaðborð margra veitingastaða er góður kostur.  Mörg asísk veitingahús bjóða upp á hlaðborð á ágætu verði (1400 - 1600 kr.).  Sjávarbarinn á Grandagarði býður upp á glæsilegt sjávarréttahlaðborð á 1600 kr.  Salatbarinn á Hótel Cabin er einnig góður kostur. 

  Salatbarinn í Faxafeni er örlítið dýrari en hinir.  Í samanburði við salatbarinn á Hótel Cabin er verðmunurinn réttlátur.  Á Hótel Cabin kostar hádegishlaðborðið 1490 kr. (kvöldverður 1850 kr.).  Hér fyrir neðan má lesa um salatbarinn á Hótel Cabin.  Af öllum hlaðborðum er samanburður á Salatbarnum í Faxafeni og salatbarnum á Hótel Cabin eðlilegastur.  Þeir eru líkastir.  

  Salatbarinn í Faxafeni býður upp á fleiri heita rétti.  Salatbarinn á Hótel Cabin er aðeins með einn heitan rétt (oftast kjúklingavængi eða kjötbollur í brúnsósu).  Salatbarinn í Faxafeni er með marga heita rétti:  Steiktan fisk,  kjötbollur í brúnósu,  rjómapasta með skinku eða grænmeti,  kjúklingabita,  kjúkling í sósu (seasame eða tikka masala eða mango eða teriyaki...),  soðnar skrældar kartöflur,  sætar kartöflur,  grænmetisblöndu,  steiktan lauk,  brokkoli gratín,  lasagna með kjöthakki eða grænmeti,  núðlur með kjöti,  kartöfluklatta,  fylltar kartöflurúllur...

  Heitu réttirnir eru mismunandi eftir dögum.   Suma daga er lambalæri,  bearnaise sósa og brúnaðar kartöflur.  Steiktu fiskréttirnir eru jafnan spennandi:  Karfi eða langa eða steinbítur eða smjörsteiktur þorskur...

  Hægt er að velja á milli tveggja tegunda af súpu.  Oftast er önnur mexíkönsk kjúklingasúpa.  Hin getur verið sveppasúpa eða aspassúpa eða brokkolísúpa eða blómkálssúpa.  Nýbakað grófkorna brauð fylgir.

  Sjálfur salatbarinn er eins og best verður á kosið.  Gott úrval af grænmeti,  baunum,  túnfiski,  sólþurrkuðum tómötum,  niðursoðnum ávöxtum,  ferskum ávöxtum,  soðnum eggjum...  Og gott úrval af köldum sósum.

  Salatbarinn er snyrtilegur staður í milliklassa.  

salatbarinn-b-a2.jpg 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Síðustu 10 umsagnir:

 Hótel Cabin:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1309370/

Grillmarkaðurinn:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1298062


Einelti er glæpur

  Það er fyrir löngu síðan tímabært að einelti verði tekið föstum tökum sem glæpsamleg hegðun.  Einelti á að skilgreina sem glæpsamlegt ofbeldi og gerendur gerðir ábyrgir.  Líka þegar um börn á skólaaldri er að ræða.  Það þarf að gera kennara og aðra skólastjórnendur ábyrga fyrir því að einelti sé meðhöndlað sem glæpsamlegt athæfi og enginn afsláttur veittur frá því.

  Það er óþolandi að eineltismál séu leyst með því að fórnarlambi eineltis sé gert að skipta um skóla.  Það er skólaskylda og ÖLLUM á að líða vel í skólanum sínum.  Það á að vera gaman að vera í skóla.  Það á að vera tilhlökkun alla morgna að mæta í skólann.  Grunnskólaár eiga að vera samfelld skemmtun.      

  Með samstilltu átaki er hægt að útrýma einelti út úr öllum skólum.  Það gerist með því meðhöndla einelti eins og hvert annað glæpsamlegt ofbeldi. 

  Ég held og vona að í flestum skólum sé einelti ekki vandamál.  Engu að síður er óþægileg staðreynd að í sumum skólum er einelti viðvarandi árum og áratugum saman.  Jafnvel eru dæmi þess að kennari sé forsprakki eineltis.  

  Sú staða sem meðfylgjandi myndband sýnir á ekki að þurfa að koma upp.  Pattaralegi strákurinn sem lagður er í einelti bregst seint og síðar meir til varnar og tekur í hnappadrambið á hrekkjusvíninu.  Ofbeldisseggurinn hafði níðst á honum árum saman.  Pattinn lét það yfir sig ganga þangað til hann "snappaði" eins og myndbandið sýnir.  Jú, jú,  gott á hrekkjusvínið.   En breytir engu um að þessi staða á ekki að þurfa að koma upp. 

 


mbl.is „Drekktu klór og dreptu þig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugbíll á göturnar og í loftið eftir rúmt ár

flugbill_1218174.jpg  Þú ferð út í bíl að morgni.  Bíllinn reynist vera innikróaður.  Öðrum bílum hefur verið lagt of nálægt framan við og aftan við.  Jafnframt hefur snjóruðningstæki rammað bílinn inn með myndarlegum snjógarði.  Þarna kæmi sér vel að geta hafið bílinn á loft eins og þyrlu og flogið á áfangastað.  Þetta er ekki neitt sem þarf að bíða eftir fram á næstu öld.

  Eftir aðeins rúmt ár kemur svona flugbíll á almennan markað.  

  Til að byrja með verður hægt að velja á milli tveggja tegunda.  Minni tegundin sem almenningur kemur til með að kaupa heitir TF-X.  Hún er tveggja manna,  kostar svipað og er álíka rúmfrek í bílskúr og algengustu jeppar.

  Þegar bíllinn hefur sig lóðrétt á loft þá liggja vængirnir þétt með hliðum hans.  Alveg eins og þegar fugl hefur slíðrað vængi sína.  Yst á vængjum bílsins eru súlur með svörtum spöðum (sjá mynd).  Súlurnar fara í lóðrétta stöðu,  snúast á ógnarhraða, spaðarnir spennast út og mynda hreyfil (eins og þyrluspaðar).  

  Eftir að bíllinn er kominn í æskilega flughæð eru vængirnir réttir af og súlurnar á endunum leggjast láréttar niður.  Bíllinn svífur eins og fugl.  Aftan á bílnum er hreyfill sem hjálpar til við flugið.  

  Bílnum er lagt á sama hátt og við flugtak.  Reyndar er líka hægt að taka hann á loft og lenda honum á sama hátt og flugvél.  En það kallar á gott rými fyrir útspennta vængina. 

  Bílarnir verða með sjálfstýringu eins og flugvélar.  

  Ætla má að ýmsar spurningar kvikni þegar bíllinn kemur á markað 2015.  Dugir hefðbundið ökuskírteini til að stjórna flugbíl?  Kallar þetta á einhverskonar blöndu af flug- og ökuskírteini?

  Þegar bíllinn er á lofti eiga þá umferðarreglur ökutækja að gilda eða þarf nýjar reglur?  Á lofti eru bílarnir ekki einskorðaðir við vinstri og hægri heldur þarf einnig að taka tillit til bíla fyrir ofan og neðan.

  Samfélagslegir ávinningar af flugbílavæðingu eru margir.  Mestu munar um að flugbílar létta á umferðarþunga og draga stórlega úr sliti á malbiki.

  Það verður heldur betur gaman hjá nefndarfíknum embættismönnum að sitja fundi um breyttar reglur vegna flugbílanna.     

flugbill_1218176.jpg


mbl.is Naut ásta með þúsund bifreiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er auðvelt að stýra aldrinum

skuringar.jpg

  Aldur er teygjanlegra hugtak en orðið strax.  Strax þýðir + eða - 4 til 5 ár.  Hjá þokkalega fullorðnu fólki getur aldur verið + eða - 10 til 15 ár borinn saman við aldur sem afmælisdagar telja.  Tvær sjötugar manneskjur geta verið á mjög ólíkum aldri andlega og líkamlega.  Sumir eru ungir í anda.  Jafnvel barnalegir.  Fjörmiklir stuðboltar og alltaf til í sprell.  Þetta fólk finnur engan mun á hugsun sinni og viðhorfum frá því 10 - 15 árum áður. 

  Oft fer það saman að þetta fólk er unglegt í útliti og hreyfingum.  Það setur ekki fyrir sig aldur þegar löngun kviknar til að flandra um útlönd eða skokka upp á fjöll.  Það hugsar einfaldlega ekkert út í aldur.  Það tekur heldur ekkert eftir því að samferðamenn eru iðulega miklu yngri.

  Svo eru það hinir.  Þessir sem fæðast gamlir.  Strax á unglingsárum tala þeir eins og gamalt fólk;  hlusta á sömu músík og gamalt fólk;  klæðast eins og gamalt fólk og hegðar sér eins og gamalt fólk.  Sálin gránar á undan hárunum. 

  Upp úr miðjum aldri sest þetta fólk á helgan stein.  Það dregur sig í hlé.  Hættir að sækja skemmtanir.  Fussar og sveiar og hneykslast á ungdómnum.  Þetta fólk kveikir alltof snemma á lendingarljósunum.  Það býr sig undir aðflug mörgum áratugum of snemma.

  Hugurinn ber menn hálfa leið.  Í hvora áttina sem er.  En það er líka hægt að hafa líffræðileg áhrif á líkamsklukkuna.  Til að mynda með því að borða beikon í öll mál.  Það sýnir ný rannsókn.  Beikon færir klukkuna aftur um 10% í það minnsta.  Það sem meira er:  Efnið í beikoni sem hefur þessi áhrif er níasín.  Einnig kallað B13.  Það merkilega er að fram til þessa hefur níasín verið talið hraða öldrun.  En í tilfelli beikons eru áhrifin þveröfug.  

  Kostirnir við beikon eru fleiri.  Það er hægt að steikja heilan vikuskammt af beikoni á einu bretti.  Beikon er ekkert verra snætt kalt.  Þetta sparar uppvask.  Morgunmatur,  hádegismatur,  kvöldmatur,  millimálasnarl.  Bara grípa nokkrar vænar beikonsneiðar hvenær sem er.  Þetta er fingramatur sem kallar ekki á hnífapör eða diska.  

  Önnur öflug yngingaraðferð er að skúra gólf.  Hún er vel þekkt.  Kiddi Vídíófluga á Egilsstöðum byrjaði nýverið að skúra reglulega gólf í bensínsjoppu.  Hann vottar að hann hafi yngst um mörg ár við það.  

  Skúringar og beikon eru lykill að langlífi.  Skemmtun og bragðgóður biti á einu bretti. 

bacon-1024x754.jpg

 

 

 


mbl.is Óttist ekki aldurinn!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband