Drekkur þú of mikið vatn?

  Vatn er gott og hollt.  Einhver besti drykkur sem til er.  Við Íslendingar erum svo lánssamir að eiga nóg af góðu drykkjarvatni úr krana.  Fæstir jarðarbúa eru svo heppnir.  Þeim mun einkennilegra er að Íslendingar skuli þamba daglega litað sykurleðjuvatn í sama mæli og Bandaríkjamenn.      

  Samkvæmt prófessor í Árhúsum í Danmörku (www.samvirke.dk) er of mikil vatnsdrykkja jafn varasöm og of lítil vatnsdrykkja.  Of mikil vatnsdrykkja getur sett svo mikið álag á nýrun að hún valdi vatnseitrun.  Þig svimar, færð krampa, verður máttlaus og í versta tilfelli deyrð.  Sjaldgæft en gerist þó árlega.

  Þumalputtareglan er sú að drekka ekki meira vatn en sem nemur 1/30 af líkamsþyngd.  60 kílóa manneskju hentar að drekka 2 lítra af vökva á dag.  90 kg manneskju hentar að drekka 3 lítra.  Við útreikninginn er brýnt að taka með í reikninginn allan vökva.  Ekki aðeins vatn.  Líka vökvarík fyrirbæri á borð við súpur, te, agúrkur, tómata og jarðarber.

  


Reykvískur skemmtistaður flytur til Benidorm

 

  Um árabil var Ob-la-di Ob-la-da einn áhugaverðasti skemmtistaður landsins.  Hann var staðsettur á Frakkastíg.  Alltaf troðfullt út úr dyrum.  Iðulega komust færri inn en vildu.  Sérstaða staðarins var að þar spiluðu þekktir tónlistarmenn lög úr smiðju Bítlanna.  Einungis Bítlalög.  Ekkert nema Bítlalög.  Sjaldnast í upprunalegum útsetningum.  Samt stundum í bland.  

  Bassaleikarinn Tómas heitinn Tómasson hélt utan um dagskrána.  Hann var jafnframt fasti punkturinn í hljómsveitunum sem komu fram,  hvort sem þær kölluðust Bítladrengirnir blíðu eða eitthvað annað.  Meðal annarra sem skipuðu húshljómsveitina ýmist fast eða lauslega voru gítarleikararnir Magnús R. Einarsson,  Eðvarð Lárusson,  Gunnar Þórðarson;  trommuleikarinn Ásgeir Óskarsson;  söngvararnir Andrea Gylfadóttir,  Egill Ólafsson og Kormákur.  

  Að degi til um helgar spilaði Andrea Jónsdóttir vel valin Bítlalög af hljómplötum.  Alltaf var rosalega gaman að kíkja á Ob-la-di.  Útlendir Bítlaaðdáendur sóttu staðinn.  Þar á meðal Mike Mills úr bandarísku hljómsveitinni R.E.M.  Hann tróð upp með húshljómsveitinni.  Mig rámar í að Yoko Ono hafi kíkt inn.  Líka gítarleikari Pauls McCartneys.  

  Svo kom reiðarslagið.  Lóðareigendur reiknuðu út að arðvænlegt yrði að farga húsinu og reisa í staðinn stórt hótel.  Ob-la-di var hent út.  Um nokkra hríð stóð til að Ob-la-di myndi flytja upp í Ármúla 5 í húsnæði sem þá hýsti frábæran skemmtistað,  Classic Rock.

  Leikar fóru þannig að kínverskt veitingahús keypti Classic Rock.  Þá var ekki um annað að ræða en kanna möguleika á Spáni.  Í morgun skrifaði eigandi Ob-la-di,  Davíð Steingrímsson, undir húsaleigusamning í Benidorm.  Innan nokkurra vikna opnar Ob-la-di á ný.  Að þessu sinni í Benidorm.  

  Ob-la-di er ekki fyrsti íslenski skemmtistaðurinn sem flytur búferlum til útlanda.  Fyrir nokkrum árum flutti heimsfrægur skemmtistaður,  Sirkus,  frá Klapparstíg til Þórshafnar í Færeyjum.

Davíð Steingríms & co      

    


Gjaldfrjáls tónlistarkennsla í Færeyjum

 

  Um síðustu aldamót urðu meiriháttar umskipti í færeyskri tónlist.  Svo afgerandi að við getum talað um byltingu.  Í stað þess að herma eftir frægum útlendum hljómsveitum komu fram á sjónarsvið hljómsveitir á borð við Ivory, Clickhaze og Yggdrasil, sóló-söngkonan Eivör og Teitur.  Þau spiluðu frumsamda músík á eigin forsendum án eftirhermu.  Já,  Eivör var reyndar söngkona Ivory, Clickhaze og Yggdrasil.  Með Ivory söng hún djass.  Með Clickhaze söng hún trip-hopp.  Með Yggdrasil söng hún spunadjasskennt heimspopp (world music).  Sem sóló söng hún vísnatónlist með djasskeim og þjóðlegum færeyskum kvæðasöng. Fram til þessa þótti ungum Færeyingum gamli kvæðasöngurinn hallærislegur.  En Eivör var svo töff að hún gerði hann töff.  Varð meðal annars þungarokkshljómsveitinni Tý innblástur til að dusta rykið af hringdanskvæðinu "Orminum langa" og þungarokksvæða það.  Með þeim árangri að það varð vinsælasta lagið í Færeyjum og á Íslandi 2002. 

  Fram að tónlistarbyltingunni um aldamótin var Færeyingum fjarlæg hugsun að hægt væri að lifa á tónlist.  Ennþá fjarlægara að hægt væri að spila utan Færeyja.  Kúvending varð á.  Fjöldi færeyskra hljómsveita og tónlistarmanna er atvinnumenn í faginu í dag.  Þeir selja mun fleiri plötur í útlöndum en í Færeyjum.  Ruðningsáhrif eru töluverð á aðrar atvinnugreinar.  Ekki síst ferðamannaiðnað.  Heimsfrægð færeyskra tónlistarmanna dregur allt upp að 7500 á árlega rokkhátíð,  G!Festival,  í Götu á Austurey.  Einnig á Ólavsvökukonsertinn á Ólavsvöku og fleiri tónlistarhátíðir.  Eivör hefur náð toppsæti á vinsældalistum í Noregi, Danmörku og Íslandi auk Færeyjum. Týr náði 1. sæti norður-ameríska vinsældalistans CMJ (mælir spilun í framahldsskólaútvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og Kanada).

  Færeyskir ráðamenn hafa áttað sig á mikilvægi færeyskrar tónlistar.  Nú hefur færeyska ríkið gert 3ja ára samning við franska nettónlistarskólann Meludia.  Allir Færeyingar fá ókeypis aðgang að honum.  Þar læra þeir að lesa tónlist, skrifa tónlist og skilja tónlist.  Jafnt leikmenn sem fagmenn.  Allt kennsluefnið verður á færeysku.  Sjá:  https://www.meludia.com/

         


Íslendingur rændur

  Það er ekki vel falið leyndarmál að norskur þrjótur stal rammíslensku lagi í aldarbyrjun.  Sá ósvífni heitir Rolf Lövland.  Höfundur lagsins heitir Jóhann Helgason.  Á íslensku heitir lagið "Söknuður".  Það kom fyrst út á hljómplötu með Villa Vill 1977.  Norski þjófurinn kallar það "You Raise Me Up".

  Stuldurinn nær yfir rösklega 97% af laginu.  Aukaatriði er að þjófurinn eignaðist snemma kassettu með laginu og dvaldi á Íslandi um hríð.

  Margir hafa sungið lagið inn á plötu með enska texta þjófsnauts þjófsins.  Þeir hafa í grandaleysi skráð lagið á þjófinn.  Hann hefur rakað inn risaupphæðum í höfundarlaun. 

  Höfundurinn, Jóhann Helgason, hefur til áratuga staðið í stappi við að fá höfundarrétt sinn á laginu viðurkenndan.  Enda lag hans harla gott. Vandamálið er að þjófurinn þráast við að viðurkenna sök.  Er að auki studdur af útgefanda sínum,  Universal stórveldinu.

  Í þessari stöðu kosta málaferli til að fá leiðréttan höfundarrétt 150 milljónir eða svo. Farsæll íslenskur lagahöfundur á ekki þá upphæð í vasanum. Leitað hefur verið til margra ára að fjárfestum.  Án árangurs.  Sú leið er eiginlega fullreynd.

  Eigum við, íslenska þjóð,  sem fámennt samfélag að leyfa útlendum þjófi að stela einni bestu lagaperlu okkar?  Njóta heiðurs fyrir gott lag og raka inn milljónum króna í höfundargreiðslum? 

  Vegna þess að einstaklingsframtakið hefur brugðist í málinu verður að skoða aðra möguleika.  Við þurfum að leggja höfuð í bleyti og finna þá möguleika.  Einn möguleikinn er að lífeyrissjóðir fjárfesti í málaferlunum.  Áhættan er lítil og minni en margar aðrar fjárfestingaleiðir sem þeir hafa valið. 

  Annar möguleiki en krítískari er að íslenska ríkið - eitthvað ráðuneytið - blandi sér snöfurlega í málið.  Bregðist af hörku við að vernda íslenska hagsmuni.  Yfirgnæfandi líkur eru á að málið vinnist.  Útlagður kostnaður verður þá greiddur af Universal þegar upp er staðið.  Risaháar höfundargreiðslur munu að auki koma á vængjum inn í íslenska hagkerfið.  

  Fleiri uppástungur óskast.

  Sem öfgamaður í músíksmekk kvitta ég undir að kammerútsetning Villa Vill á laginu sé til fyrirmyndar.  Útlendu útfærslurnar eru viðbjóður. 

       


Íslenskst fönk á vinsælustu netsíðunni

  Stærsta og vinsælasta vinylplötunetsíða heims er breska The Vinyl Factory Limited. Hún er miðpunktur heimsins í umræðu um vinylplötur.  Á dögunum brá svo við að þar birtist yfirgripsmikil umfjöllun/samantekt um sjaldgæfar íslenskar fönk-vinylplötur.  Fyrirsögnin er "Frozen soul picnic:  The hunt for Iceland´s forgotten funk records". 

  Heimildarmaður umfjöllunarinnar er fæddur á Íslandi en starfandi plötusnúður og útvarpsmaður í Bandaríkjunum.  Hann gegnir nafninu DJ Platurn.  Á síðunni er hægt að spila rösklega 43ja mínútna samantekt hans á íslensku fönki.  Skemmtilegt dæmi. Jafnframt eru 8 íslenskar plötur kynntar með ítarlegum texta.

  Skilgreining DJ Platurn á fönki er víðari en mín.  Samt.  Gaman að þessu.  Sjá HÉR      


Músíktilraunir blómstra sem aldrei fyrr

  Músíktilraunir eru eitt besta fyrirbæri í íslenskri tónlist.  Þær eru útungunarvél frjósamrar tónlistarflóru nýliða.  Að vísu hafa vinningshljómsveitir ekki alltaf verið upp á marga fiska.  Allt í lagi með það.  Aðrar hljómsveitir í Músíktilraunum hafa þá verið þeim mun áhugaverðari.

  Fyrstu Músíktilraunir voru 1982.  Þá sigraði hljómsveitin Dron.  Þunnur þrettándi.  Skemmti mér samt vel við að fylgjast með keppninni..  Sem og næstu ár.  Ég sótti öll kvöld Músíktilrauna árum saman.  Svo færðist aldurinn yfir.  Undanfarin ár hef ég látið nægja að fylgjast með úrslitakvöldi í útvarpi og sjónvarpi.  Mjög gaman.  Síðustu Músíktilraunir sem ég fylgdist með frá upphafi til enda var 2002.  Ég færði mig svo yfir til færeyska systurfyrirbærisins Sements. 

  Lengst af voru Músíktilraunir karllægar.  Mjög karllægar.  Af tugum hljómsveita sem öttu kappi var sjaldnast að finna fleiri en eina eða tvær stelpur.  Að vísu komu, sáu og sigruðu kvennasveitir 1983 (Dúkkulísur) og 1992 (dúndurflott Kolrassa krókríðandi).  2004 var röðin komin að hinni frábæru hljómsveit Mammút.  Helmingur liðsmanna var og er kvenkyns. Nú fór að færast fjör í leikinn:

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2010 var hljómsveit Nönnu Bryndísar,  Of Monsters and Men. Framhald á sólódæmi hennar, Songbird.

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2011 var tríóið Samaris,  skipað tveimur stelpum og einum gutta.   

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2013 var hljómsveitin Vök;  með í fararbroddi hljómborðsleikarann, gítarleikarann og söngkonuna Margréti Rán.

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2016 var Garðabæjar-pönkbandið Hórmónar. Meirihluti liðsmanna stelpur.

  - Sigurvegari Músíktilraun 2017 var vestfirski stelpnadúettinn Between Mountains.

  - Sigurvegari Músíktilrauna í ár er kvennasveitin Ateria.

  Mér segir svo hugur að námskeiðin "Stelpur rokka" eigi stóran þátt í stórtækri og árangursríkri þátttöku kvenna í Músíktilraunum á síðustu árum.

 


Nauðsynlegt að vita

  Íslendingar sækja í vaxandi mæli sólarstrendur út um allan heim.  Aðallega sunnar á hnettinum.  Vandamálið er að mannætuhákarlar sækja líka sumar af þessum ströndum. Mörg góð manneskjan hefur tapað fæti eða hendi í samskiptum við þá.

  Hlálegt en satt;  að hákarlinn er lítið sem ekkert fyrir mannakjöt.  Hann sér allt óskýrt.  Þegar hann kemur sínu sjódapra auga á manneskju þá heldur hann að þar sé selur.  Hann elskar selspik.  Eins og ég. 

  Hákarl er lélegur í feluleik.  Hann fattar ekki að þegar hann syndir nærri yfirborði sjávar þá stendur uggi upp úr.  Þetta skiptir ekki máli gagnvart selum sem synda neðansjávar.  Manneskja sem kemur auga á hákarlsugga tekur hinsvegar eftir ógninni.  Verstu viðbrögð eru að taka hræðslukast og sprikla í átt að landi.  Það vekur aðeins athygli hákarlsins og espar hann upp.  Hann heldur að þar sé selur að reyna undankomu. Stekkur á bráðina og fær sér bita.

  Í þessum kringumstæðum hefur manneskjan tvo betri kosti en flótta.  Önnur er að grípa um sporð ókindarinnar og hlaupa með hana snaröfuga upp í strönd.  Hún kemur engum vörnum við.  Sveigjanleiki skrokksins er svo takmarkaður.

  Hin aðferðin er að ríghalda kvikindinu kjurru.  Hákarl drukknar umsvifalaust ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu.


Óhlýðinn Færeyingur

 

  Færeyingar eru löghlýðnasta þjóð í heiminum. Engu að síður eru til undantekningar.  Rétt eins og í öllu og allsstaðar.  Svo bar til í síðustu viku að 22ja ára Færeyingur var handtekinn í Nuuk,  höfuðborg Grænlands, og færður á lögreglustöðina.  Hann er grunaður um íkveikju.  Ekki gott.  Lögreglan sagði honum að hann yrði í varðhaldi á meðan málið væri rannsakað.  Þess vegna mætti hann ekki yfirgefa fangelsið.   Nokkru síðar var kallað á hann í kaffi.  Engin viðbrögð.  Við athugun kom í ljós að hann hafði óhlýðnast fyrirmælum.  Hafði yfirgefið lögreglustöðina.  

  Í fyrradag var hann handtekinn á ný og færður aftur í varðhald.  Til að fyrirbyggja að tungumálaörðugleikar eða óskýr fyrirmæli spili inn í var hann núna spurður að því hvort að honum sé ljóst að hann megi ekki yfirgefa stöðina.  Hann játaði því og er þarna enn í dag.

     


Enn stendur slagur á milli Bítla og Stóns

 Á sjöunda áratugnum sló breska hljómsveitin Bítlarnir (The Beatles) í gegn á heimsmarkaði.  Rækilega.  Svo rækilega að hvert met var slegið af öðru.  Met sem mörg standa enn hálfri öld síðar.  Met sem aldrei verða jöfnuð.

  Dæmi:  Ef undan er skilin fyrsta smáskífa Bítlanna,  "Love me do",  fóru allar aðrar smáskífur þeirra og stórar plötur í 1. sæti breska vinsældalistans og síðar þess bandaríska.

  Vorið 1964 áttu Bítlarnir 5 söluhæstu lög á bandaríska vinsældalistanum.  Í árslok reyndust 6 af hverjum 10 seldum plötum það ár í Bandaríkjunum vera Bítlaplötur.

  Þegar Bítlarnir héldu í hljómleikaferð til Bandaríkjanna urðu uppþot fastur liður.  Hljómleikasalurinn tók kannski 5000 eða 7000 manns.  En allt upp í 50 þúsund reyndu að kaupa miða.  Þeir sem ekki náðu miðum gengu berserksgang.  Grenjuðu eins og kornabörn,  brutu rúður og unnu önnur eignaspjöll.  Allt upp að 240 manns á dag voru fluttir stórslasaðir á slysavarðstofu. Í það minnsta tífalt fleiri voru lemstraðir án þess að leita á náðir sjúkrahúsa.

  Lögreglan réði ekki við ástandið. Þetta var neyðarástand. Lausn fólst í því að færa hljómleika Bítlanna úr hljómleikahöllum yfir í íþróttaleikvangi. Þeir rúma marga tugi þúsunda gesti.  Jafnvel uppfyrir 50 þúsund.  Allsstaðar uppselt.

  Þetta var nýtt:   Að hljómleikar væru haldnir á íþróttaleikvangi.  Hljóðkerfi íþróttaleikvanganna var ömurlegt og ekki hannað fyrir tónlist.  Skipti engu. Áheyrendur voru mættir til að sjá Bítlana og öskra.  

  Hvar sem Bítlana bar niður mættu þúsundir á flugvöllinn til að berja þá augum.  Í Ástralíu spannaði hópurinn 15 kílómetra svæði.  Kvartmilljón manns! 

  Ein hljómsveit komst með tær þar sem Bítlarnir höfðu hæla.  Það var the Rolling Stones.   Fjölmiðlar stilltu almenningi upp við vegg og spurðu:  "Hvort ertu Bítill eða Stónsari?"  Í uppstillingunni voru Bítlarnir snotrir, snyrtilegir og settlegir sætabrauðspopparar en Stónsarar ófríðir, ruddalegir og hættulegir blús-rokkarar.

  Almenningur vissi ekki að um snjalla sviðssetningu var að ræða.  Í raunveruleika voru það Bítlarnir sem uppgötvuðu the Rolling Stones;  komu þeim á plötusamning,  sömdu fyrir þá fyrsta smellinn og kenndu þeim að semja lög.  Togstreita á milli hljómsveitanna var tilbúningur.  Þær störfuðu náið saman.  Sendu aldrei frá sér lög eða plötur á sama tíma.  Þess var gætt að þær felldu ekki lag eða plötu hvorrar annarrar úr 1. sæti.

  Bítlahljómsveitin leystist upp 1969.  Stóns er hinsvegar enn í fullu fjöri.  Ein lífseigasta hljómsveit sögunnar. Í fyrra var hún söluhæsta hljómleikahljómsveit heims - eins og svo oft áður.  Númer 2 var bítillinn Paul McCartney.  Samanburðurinn er ekki alveg sanngjarn.  Einn sólóbítill á móti rótgróinni hljómsveit.  Langt þar á eftir var í 3ja sæti nýstirnið drepleiðinlega Ed Sheeran.


Það er svo undarlegt með augabrúnir

  Augabrúnir eru til prýðis.  Þær hjálpa til við að ramma andlitið inn.  Jafnframt gegna þær því göfuga hlutverki að hindra að sviti bogi niður enni og ofan í augu.  

  Konur hafa löngum skerpt á lit augabrúnna.  Á síðustu árum er algengt að þær láti húðflúra augabrúnastæðið.  Það er flott.  Í sunnanverðum Bandaríkjunum eru konur kærulausari með þetta.  Þær eru ekkert að eltast við augabrúnastæðin af nákvæmni.  Iðulega raka þær af sér augabrúnirnar og láta húðflúra augabrúnir uppi á miðju enni.  Eða stílisera lögun augabrúnna á annan hátt.  Fögnum fjölbreytni!

augnbrúnir aaugnbrúnir baugnbrúnir caugnbrúnir daugnbrúnir eaugnbrúnir faugnbrúnir g


Hvenær er sumarfrí SUMARfrí?

  Á eða í Smáratorgi eru tveir ljómandi góðir matsölustaðir.  Annar er asískur.  Þar er hægt að blanda saman allt að þremur réttum.  Einhverra hluta vegna er það 100 krónum dýrara en að blanda saman tveimur réttum.  Ódýrast er að kaupa aðeins einn rétt.  Engu að síður er eins réttar skammturinn alveg jafn stór og þriggja rétta máltíðin.  Verðið ætti þess vegna að vera hið sama.

  Hinn veitingastaðurinn heitir Food Station.  Margir rugla honum saman við Matstöðina vestast í Kópavogi.  Nöfnin eru vissulega lík.  Annað þó þjóðlegra.  Þessa dagana er Food Station lokuð.  Á auglýsingatrönu fyrirtækisins stendur: "Lokað vegna sumarleyfa frá 15. mars til 4. apríl". Í mínum huga er ekkert sumarlegt við mars.  Sumardagurinn fyrsti er ekki fyrr en 19. apríl.  Hann er meira að segja of snemma.  Myndi heita vordagurinn fyrsti ef ekki væri nokkru áður frjósemishátíð vorsins,  kennd við frjósemisgyðjuna Easter (páskar).    

food station

   


Samgleðjumst og fögnum!

  Aldrei er hægt að gera Íslendingum til hæfis.  Stöðugt er kvartað undan lágum launum, lélegri sjónvarpsdagskrá og öðru sem skiptir máli.  Nú beinist ólund að Neinum fyrir það eitt að forstjórinn náði að hækka laun sín um 20,6% á milli ára.   

  Að óreyndu mátti ætla að landsmenn samfögnuðu forstjóranum.  Það væri gleðifrétt að eigendur Neins - lífeyrissjóðirnir og lífeyrissjóðsfélagar - hefðu efni á að borga honum næstum 6 milljónir á mánuði (þrátt fyrir hratt minnkandi hagnað olífélagsins undir stjórn ódýra forstjórans).  En ónei.  Í samfélagsmiðlum og heitum pottum sundlauga hvetja menn hvern annan til að sniðgöngu.  Með þeim árangri að um þessar mundir sjást fáir á ferli við bensínstöðvar fyrirtækisins.  Eiginlega bara hálaunamenn, svo sem stjórnarmenn lífeyrissjóðanna.  

  Svo verður þetta gleymt eftir helgi.

 

  


mbl.is Allir fái sömu hækkun og forstjórinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða áhrif hefur tónlist?

  Nútímatækni heilaskanna og allskonar græja hafa staðfest að tónlist hefur gríðarmikil áhrif á okkur.  Það var svo sem vitað fyrir.  Bara ekki mælt með myndum af starfsemi heilans.

  Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að sérútfærð músík spiluð í stórmörkuðum getur aukið sölu um fjórðung.  Það er rosalega mikið. 

  Hver og einn einstaklingur þekkir að músík hefur áhrif.  Sum lög koma okkur í gott stuð.  Önnur framkalla angurværð.  Enn önnur framkalla minningar.  

  Þegar hlustað er á músík verður virkni heilans mikil.  Þar á meðal heilastöðvar sem hafa að gera með athyglisgáfu,  námsgetu,  minni og framtíðaráform.  

  Tónlist kemur umsvifalaust af stað öflugri framleiðslu á vellíðunarboðefninu dópamín.  Það og fleiri boðefni heilans eru á við öflug verkjalyf og kvíðastillandi.  Eru að auki örvandi gleðigjafar og efla varnarkerfi líkamans svo um munar.  Til viðbótar bætist við framleiðsla á hormónum sem einnig efla varnarkerfi líkamans.  

  Sjúklingar sem hlusta á sína uppáhaldsmúsík áður en þeir gangast undir uppskurð framleiða hormónið cortisol.  Það eyðir áhyggjum og streitu.  

  Þegar hlustað er á uppáhaldstónlist þá verða viðhorf gagnvart öðrum jákvæðari.  Fólk verður félagslyndara.  Finnur jafnvel fyrir sterkri löngun til að bjóða upp í dans.  

  Börn sem læra á hljóðfæri stækka þann hluta heilans sem hefur að gera með sköpunargáfu í víðtækustu merkingu.  Sú er ástæðan fyrir því að flestir tónlistarmenn eru jafnframt áhugasamir um aðrar listgreinar.  Bítlarnir eru gott dæmi.  John Lennon var myndlistamaður og rithöfundur.  Paul McCartney var áhugateiknari og sendi frá sér teiknimyndabók.  George Harrison var með leiklistadellu og gaf út kvikmyndir Monthy Pyton.  Ringo Starr var einnig með leiklistadellu.  Hann lék í fleiri kvikmyndum en Bítlamyndum.  John Lennon sagði að ef liðsmenn Bítlanna hefðu ekki náð saman á réttu augnabliki og á réttum forsendum þá hefði aðeins Ringo náð að spjara sig.  Hann væri það hæfileikaríkur leikari.

  Hægur taktur tónlistar lækkar blóðþrýsting.  Hún er einnig besta meðal gegn mígreni og höfuðverk.  Meira en það:  Hlustun á uppáhaldstónlist dregur mjög svo verulega úr flogaköstum veikra.  Músíkástríða mín sem barns kvað niður flogaveikiköst (þau voru af gerð sem kallast drómasýki).  

          

     


Vikublað kvatt

 

  Bretar eiga allra þjóða mestri velsæld að fagna í tónlist.  Miðað við höfðatölu selja breskir tónlistarmenn mest allra á heimsmarkaði.  Þessi litla 60 milljón manna þjóð telur langt innan við 1% af jarðarbúum en á stóran hluta af söluhæstu tónlistarmönnum heims og söluhæstu plötum heims.  Þar af er skammlífa hljómsveitin Bítlarnir söluhæst allra flytjenda heims.  Hafa selt á annan milljarð eintaka platna.  Neðar á lista en í sæti 5, 6 og 7 eru í þessari röð Bretarnir Elton John, Led Zeppelin og Pink Floyd.

  Um síðustu aldamót útnefndu helstu fjölmiðlar heims Bretann John Lennon sem merkasta tónlistarmann síðustu aldar.  Munaði þar mestu um að hljómsveit hans,  Bítlarnir,  stal senunni á fyrri hluta sjöunda áratugnum og stýrði tónlistarheimi alþjóðar fram yfir virkan feril sem lauk haustið 1969.  Fjöldi breskra hljómsveita flæddi í kjölfar Bítlanna yfir heimsbyggðina.  Flóðið gekk undir nafninu "Breska innrásin". 

  Heimsvinsældir breskrar tónlistar urðu til þess að bresk tónlistartímarit fóru á flug.  Þau höfðu ekki undan að svala þorsta tónlistarunnenda í umfjöllun,  fréttir og viðtöl við breskar poppstjörnur.  Lengi voru gefin út fjögur hnausþykk tónlistarvikublöð í dagblaðabroti:  Melody Maker, New Musical Express, Sound og Record Mirror - ásamt fjölda hálfsmánaðar- og mánaðarritum á glanspappír.  

  Þegar pönkið og nýbylgjan tóku yfir á seinni hluta áttunda áratugarins og frameftir þeim níunda gekk blöðunum misvel að fóta sig í breyttum heimi.  Sérstaða Record Mirror lá í léttpoppslagsíðu.  Sérstaða Sound lá í þungarokkslagsíðu.  Hvorugt skoraði hátt hjá pönkkynslóðinni.  Þessi blöð náðu þó að tóra löskuð fram á tíunda áratug.  Melody Maker var íhaldsamt.  Var upphaflega djasstímarit en náði að skipta um gír þegar Bítlaæðið skall á.  Þorði ekki að skipta jafn afgerandi um gír í pönkbyltingunni.  Tók skrefið til hálfs.  Náði að halda haus fram til ársins 2000.  NME var hinsvegar í essinu sínu.  Blaðið var fyrst til að gera rækilega úttekt á pönkinu.  Á meira að segja heiðurinn af því að gefa - haustið 1976 - nýju bresku rokkhreyfingunni nafnið pönk.  Fram að því voru nýju hljómsveitirnar (Sex Pistols, The Clash, The Damned, The Buzzcocks...) með vandræðagangi ýmist skilgreindar sem "einhverskonar" pöbbarokkarar eða glamrokkarar.  Sem þær voru hvorugt.  

  Fyrir pönkbyltinguna var NME opnast allra poppblaða fyrir nýjum hljómsveitum og nýjum straumum.  Naut sín í botn í umróti nýbylgjunnar.  Varð söluhæsta breska tónlistartímaritið.  Náði að selja á fjórða hundrað þúsund eintaka af hverju tölublaði.  

  Nú hafa útgefendur NME tilkynnt að prentútgáfunni verði hætt.  Ástæðan er "of hár" prentkostnaður, samdráttur í auglýsingum í prentmiðlum og að framtíðin liggi í netmiðlum.  Já,  NME blómstrar sem netmiðillinn www.nme.com.  En það er eftirsjá af prentmiðlinum.  Ég var áskrifandi til kannski 20 ára eða svo.  Utan áskriftar keypti ég blaðið oft í lausasölu.  Þó að fátt sé um ferskar nýjungar í tónlist á þessari öld þá er nýtt að fylgjast með NME aðeins á netinu.  Það var spes stemmning að lesa pappírinn. 


Einkennilegt mál skekur Færeyjar

  Glæpir eru fátíðir í Færeyjum.  Helst að Íslendingar og aðrir útlendingar séu til vandræða þar.  Sömuleiðis eru Færeyingar óspilltasta þjóð Evrópu.  Að auki fer lítið fyrir eiturlyfjaneyslu.  Í einhverjum tilfellum laumast ungir Færeyingar til að heimsækja Kristjaníu í Kaupmannahafnarferð og fikta við kannabis.  Einstaka maður.   

  Í ljósi þessa er stórundarlegt mál komið upp í Færeyjum.  Það snýr að virtum þingmanni, sveitarstjórnarmanni í Tvöreyri og lögregluþjóni.  Sá heitir Bjarni Hammer.  Hann hefur nú sagt af sér embættum.  Ástæðan er sú að hann reyndi að selja ungum stúlkum hass.

  Bjarni var lögþingsmaður Jafnaðarmannaflokksins.  Önnur stúlkan er formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins.  Hin i Framsóknarflokknum.  Þær geymdu upptöku af samskiptunum.

  Í Færeyjum er gefið út eitt dagblað.  Það heitir Sósialurin.  Ritstjóri er hin ofurfagra Barbara Hólm.  Hún er gift forsprakka pönksveitarinnar 200, sem á fjölmarga aðdáendur á Íslandi og hefur margoft spilað hér.  Barbara er fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins.  Hún frétti af málinu frá fyrstu hendi.  Stormaði umsvifalaust með upptökuna til lögreglunnar og upplýsti málið í Sósíalnum.

  Almenningur fékk áfall.  Viðbrögð flokkssystkina Bjarna eru þau að fullyrða að málið sé pólitískt.  Ósvífnir pólitískir andstæðingar Jafnaðarmanna hafi með slóttugheitum gómað hrekklaust góðmenni í gildru.  Misnotað rómaðan velvilja manns sem leggur sig fram um að hjálpa og greiða götu allra.  

  Vinur Bjarna hefur stigið fram og lýst því yfir að hann hafi komið í heimsókn til sín 2014.  Þar var fleira fólk.  Vinurinn kallar á konu sína til vitnis um að í það skiptið hafi Bjarni hvorki gefið né selt vímuefni.

  Annað þessu skylt; um væntanlega útgáfu ríkisins á vest-norrænni söngbók.  Smella HÉR   

Bjarni Hammer  


Fólk er fíklar

  Allir eru að fá sér.  Allir eru fíklar.  Munurinn liggur í því hver fíknin er.  Sumir eru nikótínfíklar.  Aðrir eru matarfíklar,  spilafíklar,  alkar,  athyglissjúkir,  ástarfíklar,  dansfífl eða eitthvað allt annað.  

  Séra Óli sleikur er kattþrifinn sleikifíkill.  Hann má ekki sjá ósleikta konukinn án þess að stökkva á hana og sleikja.  Vegna jafnaðarhugsjónar er honum óstætt á að sleikja aðeins aðra kinn.  Hann finnur sig knúinn til að sleikja báðar kinnar.  Líka eyru og háls ef tími gefst til.

  Samkvæmt úrskurðarhópi og úrskurðarnefnd fagaðila og amatöra ríkiskirkjunnar er sleikiþörf embættismannsins eðlilegt embættisverk.  Óhreinar kinnar skulu sleiktar uns þær verða hreinar.  Þetta er eins og að skírast upp úr heilögu kranavatni.

  Fundið hefur verið að því að séra Óli sleikur ríghaldi konum föstum á meðan hann sleikir á þeim báðar kinnar, eyru og háls. Þessu ber að sýna skilning.  Ef konurnar væru að hlaupa út um allt á meðan séra Óli sleikur sleikir á þeim kinnar þá er næsta víst að sleikur myndi misfarast að hluta.  Jafnvel lenda aftan á hálsi eða baki.  Ekki vill ríkiskirkjan það.  Því síður mælir hún með því af sama krafti og umskurði.  

 


Danir fjárfesta í Íslendingi

  Í fyrrakvöld horfði ég á dönsku sjónvarpsstöðina DR1.  Á dagskrá var þáttur sem heitir Lövens Hule.  Í þættinum eru ný fyrirtæki sett undir smásjá.  Forsvarsmenn þeirra eru yfirheyrðir og farið yfir áætlanir.  Fjárfestum gefst færi á að kaupa fyrir lítinn pening smáan hlut í vænlegum hugmyndum.  Ég man eftir íslenskri útgáfu af þessum þætti í - að mig minnir - Rúv.

  Í þættinum í DR1 kynnti Íslendingur,  Guðmundur Örn Ísfeld,  vinylplötufyrirtæki sitt RPM Records.  Hann flutti til Danmerkur fyrir nokkrum árum.  Fyrir jól bloggaði ég um þetta fyrirtæki.  Sjá HÉR

  RPM Records hefur ekki ennþá hafið starfsemi.  Það er verið að setja upp flókinn tækjabúnaðinn og innrétta aðstöðuna.  Engu að síður sló uppskriftin í gegn í sjónvarpsþættinum.  Tveir fjárfestar keyptu sitthvorn hlutinn á 8.350.000 ísl kr.  (500.000 danskar krónur).  Samtals 16,7 milljónir.  

  Í sögu Lövens Hule hafa viðbrögð ekki verið jafn jákvæð og skilað þetta hárri upphæð.  Íslendingurinn Guðmundur Örn Ísfeld er að gera verulega gott mót í Danaveldi.

Gudmundur Orn Isfeld  


Kántrý-skotnir vísnasöngvar

 Ljóðin í sálinni er fjórða plata Góla - Guðmundar Óla Scheving.  Hún inniheldur 21 lag.  Spilunartíminn er klukkustund.  Það er þriðjungi lengri spilunartími en venja er.  Öll lögin eru frumsamin.  Á fyrri plötum hafa textar verið eftir Góla í bland við eftir helstu ljóðskáld síðustu aldar, svo sem Stein Steinarr, Örn Arnarson og fleiri, ásamt snjöllum hagyrðingum þessarar aldar á borð við hinn margverðlaunaða Guðmund djákna Brynjólfsson.  Að þessu sinni eru öll kvæðin eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Þau eru bragðsterkir og fjölbreyttir konfektmolar.  Samúð liggur með vinnandi stéttum og málleysingjum.  Hæðst er að borgarastéttinni.

  Lögin klæða ljóðin prýðisvel.  Gæða þau lífi.  Galsafengin ljóð fá fjörleg lög;  tregafull ljóð fá angurvær lög og svo framvegis.  Öll eru þau grípandi,  söngræn og einföld; flæða lipurlega.  Hægt er að syngja með þeim strax við fyrstu hlustun.  Mörg eru seyðandi fögur.  Sterkust í þeim stíl eru Fasteignasalinn, Léttúðin og Sporin þín.  Mörg önnur gefa þeim lítið eftir.  Þeirra á meðal Auðnin þegir.

  Ljóðin bjóða ekki upp á afgerandi viðlög.  Það er snyrtilega leyst í útsetningum sem jafnframt gefa lögunum sérkenni.  Gott dæmi er skemmtilega einföld en áleitin gítarlína í glaðlega kántrý-laginu Dönsku skónum.  Annað dæmi er lagið Þú.  Það hefst á söng við mildar kassagítarstrokur (strömm), rís síðan upp við fullan hljómsveitarflutning með rafgítar og bakraddasöng. Í kántrý-laginu Einn kemur, þá annar fer er einskonar viðlagsbútur trallaður.

  Ofar er nefnt lagið magnaða Sporin þín.  Framan af einkennir það sérlega skemmtilegur trommuleikur. Er á líður verður orgelspil áberandi.  Útsetningin staðsetur lagið bæði í flokkinn heimspopp (world music) og framsækna jaðarmúsík (alternative).  Aðrir músíkstílar á plötunni falla undir víða skilgreiningu á þjóðlagakenndum vísnasöng (folk music) ásamt kántrý-sveiflu.  Hljóðfæraleikur er sparlegur.  Víða aðeins kassagítar.  

  Góli er ágætur og blæbrigðaríkur söngvari.  Stundum syngur hann lágstemmt og blítt.  Stundum þenur hann sig.  Allt eftir yrkisefni ljóðsins.  Auðheyranlega kann hann kvæðin utanað og túlkar innihald þeirra af innlifun og einlægni.

  Ljóðin í sálinni er góð og eiguleg plata.  Og skemmtileg.  Hljóðheimurinn (sánd) er tær og hreinn.  Þökk sé www.studionorn.is.                       

Ljóðin í sálinni       


Fréttablaðið er að standa sig

  Ég var að hlusta á útvarp.  Þar var nýr framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík skilgreindur sem rauðsokkulisti.  Ég veit ekkert um réttmæti þess.  Vel liðnum núverandi borgarfulltrúum er sparkað út í hafsauga.  Þakkað góð störf með því að vera hent í ruslið.

  Í stað þeirra er raðað á framboðslistann konum sem fáir vita deili á.  Þeirri sem stillt er upp í 2. sæti er sögð vera frambjóðandi Jóns Ásgeirs/Baugs/365 miðla.  Dóttir eða tengdadóttir ritstjóra Fréttablaðsins.

  Kannski er það sterkur leikur að bjóða fram í 1. sæti frambjóðanda Morgunblaðsins og í 2. sæti frambjóðanda Baugsmiðla.  Það er skotheld uppskrift á góðri fjölmiðlaumfjöllun stærstu fjölmiðla landsins.  Munar um minna.  

  Fréttablaðið er komið á flug.  Nýverið hleypti það af stokkum nýrri og ferskri netsíðu.  Hún mætir sterk til leiks.  Birtir allt aðra áhugaverða punkta en rata í prentútgáfu Fréttablaðsins.  Þar á meðal HÉR

   

    


Grænlendingum fækkar

  Íslendingum fjölgar sem aldrei fyrr.  Veitir ekki af.  Einhverjir þurfa að standa undir klaufalegum fjárfestingum lífeyrissjóða.  Líka ofurlaunum stjórnarmanna lífeyrissjóða og fyrirtækja sem þeir fjárfesta í.  Tröllvaxinn ferðamannaiðnaður kallar á vinnandi hendur.  Rótgrónir Íslendingar vilja ekki vinna í fiski, við þrif eða við ummönnun.  Þá koma útlendingar til góða sem gerast íslenskir ríkisborgarar.

  Á síðasta áratug - 2007-2017 - fjölgaði Íslendingum svo um munar.  Ekki vegna frjósemi heldur vegna innflytjenda.  2007 voru Íslendingar 307 þús.  Í dag erum við nálægt 350 þús.     

  Færeyingar eru frjósamastir norrænna þjóða.  Þeir eru iðnir við kolann.  Enda fegurstir og kynþokkafyllstir.  2007 voru þeir 48 þús.  Í dag eru þeir yfir 50 þús.

  Norðmönnum fjölgaði um 12,3%.  Þökk sé innflytjendum.  Meðal annars Íslendingum í þúsundatali.  Flestir með meirapróf.  Íbúar Noregs, Finnlands og Danmörku eru hver um sig vel á sjöttu milljón.  Svíar eru 10 milljónir.  Samanlagt erum við norrænu þjóðirnar um 30 milljónir.  Fjölgar árlega.

  Verra er að Grænlendingum fækkar.  Undanfarin ár hafa þeir ýmist staðið í stað eða fækkað.  2007 voru þeir næstum 57 þúsund.  Í fyrra voru þeir innan við 56 þúsund.  Ekki gott.  Á móti vegur að íslenskt fyrirtæki hefur tryggt sér rétt til gullgrafar á Grænlandi.  

 

    

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.