Oasis-bræður

  Dagblöðin í Manchester á Englandi skrifa um sína frægustu syni,  Oasis-bræður,  Liam og Noel Gallgher,  á hverjum einasta degi.  Líka önnur bresk dagblöð.  Að vísu er ég ekki alveg með það á hreinu hvort að alltaf sé á landsvísu að ræða vegna þess að sum bresk dagblöð eru með sér-Manchester útgáfur.  En Oasis-bræður eru yfirlýsingaglaðir og gott fréttaefni.  Einkum Liam.  Tísta (twitter) daglega.  Gefa Dóna Trump ekkert eftir.

  Gítarleikarinn Noel Gallagher gerir út á Oasis-lög á hljómleikum. Liam tístir að það sé sama hvað Noel rembist á hljómleikum þá muni hann,  Liam, alltaf vera tíu sinnum betri söngvari.  Sem reyndar er allt að því rétt.

  Þrátt fyrir stöðugar pillur á milli bræðranna vakti athygli að Liam sendi Noel hlýjar jólakveðjur.  Sem sá endurgalt ekki. 

  Noel lýsti því yfir um jólin að um leið og Brexit taki gildi (útganga úr Evrópusambandinu) þá flytji hann frá Manchester til Írlands.  Brexit muni - að hans sögn - kosta enska tónlistarmenn meiriháttar vandamál og einangrun.  Vegabréfavandræði,  atvinnuleyfavandræði og þess háttar. 

  Þetta var borið undir Liam.  Hann svaraði því til að bróðir sinn sé heimskur að taka mark á landamærum.  Landamæri séu uppfinning djöfulsins. 

 


Bestu plötur ársins 2017

lorde-lp-cover-ss.png

 

 

 

 

 

 

 

 

  Þegar ég fer til útlanda þá kúpla ég mig algjörlega frá Íslandi.  Tek hvorki með mér tölvu né síma.  Það er góð hvíld í því.  Staddur í Manchester á Englandi yfir jól og áramót veit ég ekkert hvernig íslenskir fjölmiðlar afgreiddu uppgjör á bestu plötum ársins 2017.  

  Ég fylgdist grannt með uppgjöri bresku dagblaðanna.  Hér fyrir neðan er niðurstaða götublaðsins the Sun.  Ég er einna sáttastur við þeirra uppgjör.  Í fremri sviga er staða sömu plötu hjá the Independet.  Það setti plötu Loyle Carner "Yesterday´s Gone" í 1. sætið.  Sú plata átti ekki upp á pallborðið hjá öðrum fjölmiðlum.  Í seinni sviga er staða sömu plötu hjá the Gardian.  

  Á árum áður voru áramótauppgjör fjölmiðla mun samstilltari en nú.  Það er einhver losarabragur á þessu öllu.  Kannski vegna þess að aldursbil plötugagnrýnenda er breiðara en á síðustu öld.  Kannski vegna þess að músíkstílum fjölgar stöðugt.  Kannski vegna þess að músíkmötun kemur úr fleiri áttum en áður með tilkomu netsins og fjölgun útvarps- og sjónvarpsstöðva.

1 (2)(4) LORDE - Melodrama (einnig í 1. sæti hjá tónlistarblaðinu NME)

2 (-)(-) LIAM GALLAGHER - As You Were

3 (-)(14) THE HORRORS - V

4 (-)(-) ROBERT PLANT - Carry Fire

5 (-)(-) MARGO PRICE - All American Made

6 (17)(-) QUEENS OF THE STONE AGE - Vilains

7 (-)(-) U2 - Songs of Experience

8 (21)(-) LANA DEL REY - Lust for Life

9 (-)(16) FATHER JOHN MISTY - Pure Comedy (gaurinn úr Fleet Foxes)

10 (-)(2) KENDRICK LAMAR - Damn

11 (-)(6) LCD SOUNDSYSTEM - American Dream

12 (28)(7) THE WAR ON DRUGS - A Deeper Understanding

13 (13)(18) STORMZY - Gong Sign & Prayer

14 (-)(36) RHIANNON GIDDENS - Freedom Highway

15 (-)(-) GORILLAZ - Humanz

16 (-)(-) FOO FIGHTERS - Concrete & Gold

17 ((-)(-) BECK - Colors

18 (-)(-) ED SHEERAN - Divide

19 (-)(12) WOLF ALICE - Visions of Life

20 (-)(-) THE FLAMING LIPS - Oczy Mlody

21 (4)(5) PERFUME GENIUS - No Shape

22 (14)(1) ST VINCENT - Masseduction

23 (-)(-) ELBOW - Little Fiction

24 (12)(-) KING KRULE - The Oaz

25 (-)(-) BJÖRK - Utopia

  Plata Bjarkar kom út "of seint" á árinu (í nóvemberlok).  Plötugagnrýnendur voru flestir að skila inn sínum lista þegar hún kom út - og áttu þar með eftir að hlusta á hana. Þumalputtareglan er sú að plata þurfi að koma út í síðasta lagi í fyrri hluta október til að komast inn í áramótauppgjör.

VERSTU PLÖTUR ÁRSINS

  Tímaritið Entertainment Weekly valdi verstu plöturnar.  Auðvelt er að vera sammála niðurstöðunni:

1.  CHRIS BROWN - Heartbreak on a Full Moon

2.  KID ROCK - Sweat Southern Sugar

3.  THE CHAINSMOKERS - Memories...Do Not Open

  Annað úr annarri átt:  Í sjónvarpsþættinum Útsvari var tiltekið lag sagt vera eftir the Hollies.  Hið rétta er að lagið er eftir Albert Hammond.   


Ísland í ensku pressunni

 

  Á fyrri hluta níunda áratugarins vissi almenningur í heiminum ekkert um Ísland.  Erlendir ferðamenn voru sjaldgæf sjón á Íslandi.  50-60 þúsund á ári og sáust bara yfir hásumrið.

  Svo slógu Sykurmolarnir og Björk í gegn.

  Á þessu ári verða erlendir ferðamenn á Íslandi hátt í 3 milljónir.  Ísland er í tísku.  Íslenskar poppstjörnur hljóma í útvarpstækjum um allan heim.  Íslenskar kvikmyndir njóta vinsælda á heimsmakaði.  Íslenskar bækur mokseljast í útlöndum.

  Ég skrapp til Manchester á Englandi um jólin.  Fyrsta götublaðið sem ég keypti var Daily Express.  Þar gargaði á mig blaðagrein sem spannaði vel á aðra blaðsíðu.  Fyrirsögnin var:  "Iceland is totally chilled" (Ísland er alsvalt).  Greinin var skreytt ljósmyndum af Goðafossi í klakaböndum, norðurljósum,  Akureyri og Hótel KEA.  

  Greinarhöfundur segir frá heimsókn sinni til Akueyrar og nágrennis - yfir sig hamingjusamur með ævintýralega upplifun.  Greinin er á við milljóna króna auglýsingu.

  Næst varð mér á að glugga í fríblaðið Loud and Quiet.  Það er hliðstæða við íslenska tímaritið Grapevine.  Þar glennti sig grein um Iceland Airwaves. Hrósi hlaðið á íslensk tónlistarnöfn:  Þar á meðal Ólaf Arnalds, Reykjavíkurdætur, Ham, Kríu, Aron Can, Godchilla og Rökkva. 

  Í stórmarkaði heyrði ég lag með Gus Gus.  Í útvarpinu hljómaði um hálftímalöng dagskrá með John Grant.  Ég heyrði ekki upphaf dagskrárinnar en það sem ég heyrði var án kynningar.  

  Á heimleið frá Manchester gluggaði ég í bækling EasyJets í sætisvasa.  Þar var grein undir fyrirsögnini "Icelanders break balls, not bread".  Hún sagði frá Þorra og íslenskum þorramat.  Á öðrum stað í bæklingnum er næstum því heilsíðugrein undir fyrirsögninni "4 places for free yoga in Reykjavik".

go_afoss.jpg


Verðlag

vegan_samloka_aktu_taktu_a_1599_kr.jpg

  Á Aktu-Taktu í Garðabæ var seld samloka á 1599 kr.  Á milli brauðsneiðanna var smávegis kál,  lítil ostsneið og sósa.  Þetta var kallað vegan (án dýraafurða).  Osturinn var að vísu úr kúamjólk.  Í sósunni voru einhverjar dýraafurðir líka.  Sennilega eggjarauða og eitthvað svoleiðis.

  Vissulega var samlokan ekki upp á marga fiska.  Ég set stærra spurningamerki við það að einhver sé reiðubúinn til að borga 1599 kr. fyrir samloku.  Að vísu...já, Garðabæ.

  Til samanburðar:  Í Manchester á Englandi bjóða matvöruverslanir - nánast allar - upp á svokallað "3ja rétta tilboð" (3 meals deal).  Það samanstendur af samlokuhorni, langloku eða vefju að eigin vali (áleggið er ekki skorið við nögl - ólíkt íslenska stílnum) + drykk að eigin vali + snakkpoka að eigin vali (kartöfluflögur, popkorn eða eitthvað álíka).

  Þessi pakki kostar 3 pund sem jafngildir 429 ísl. kr.  Ég valdi mér oftast samlokuhorn með beikoni og eggjum (um það bil tvöfaldur skammtur á við íslenskt samlokuhorn), ásamt hálfum lítra af ávaxtaþykkni (smoothies) og bara eitthvað snakk.

  Á Íslandi kostar samlokuhorn um 600 kall.  Kvartlítri af smoothies kostar um 300 kall.  Þannig að hálfu lítri er á um 600 kall.  Ætli snakkpoki á Íslandi sé ekki á um 300 kall eða meir. 

  Þetta þýðir að íslenskur 3ja rétta pakki er að minnsta kosti þrisvar sinnum dýrari en pakkinn í Manchester. 

  Í Manchester selja veitingahús enskan morgunverð.  Að sjálfsögðu.  Hann samanstendur oftast af tveimur saugagest pylsum (veit ekki hvað þær heita á íslensku), tveimur vænum beikonsneiðum (hvor um sig rösklega tvöföld að stærð í samanburði við íslenskar. Og með aðeina örlítilli fiturönd), grilluðum tómat,  bökuðum baunum, ýmist einu eða tveimur spældum eggjum, tveimur hasskökum (hash browns = djúpsteiktri kartöflustöppu mótaðri í teygðum þríhyrning),  ristuðum brauðsneiðum með smjöri;  ýmist einum stórum pönnusteiktum sveppi eða mörgum litlum.

  Enski morgunverðurinn kostar frá 3,75 pundum (537 ísl. kr.).  Þetta er saðsöm máltíð.  Maður er pakksaddur fram eftir degi.  Nokkrir veitingastaðir á Íslandi selja enskan morgunverð - á 2000 kall. 

  4ra dósa kippa af 5% 440 ml dósum kostar 4 pund (572 ísl kr. = 143 kr.dósin).  Ódýrasta bjórdósin á Íslandi kostar 249 kall (Euroshopper 4,6%).  

 samlokur_e.jpgsmoothie.jpgsnakk.jpgfull-english-breakfast035.jpg

 

 


Íslendingar mættu taka sér Manchester til fyrirmyndar

  Nýkominn heim frá Manchester bloggaði ég á þessum vettvangi um blómlegt tónlistarlíf þar í borg.  Um það má lesa hér fyrir neðan.  Heimamenn gera sér grein fyrir þessu.  Og gera sér mat úr því.  Veggir stigagangs gistiheimilis er hýsti mig eru skreyttir stórum ljósmyndum af heimsþekktum poppstjörnum frá Manchester. 

  Ég álpaðist inn í plötubúð, Fopp.  Ég hef víðar séð plötubúðir undir þessu nafni.  Nema að þarna í miðborg Manchester blasa við á miðju gólfi tveir veglegir plöturekkar.  Þeir eru pakkaðir af plötum með Manchester-tónlist.  Einungis Manchester-tónlist.  Við hlið rekkanna eru jafnframt staflar af bókum um Manchester-poppara, sem og stórar veggmyndir af þeim. 

  Þetta er til fyrirmyndar.  Ég hef löngum gagnrýnt sinnuleysi Íslendinga gagnvart heimsfrægð íslenskra tónlistarmanna.  Ef vel væri að verki staðið væri flugstöðin í Sandgerði undirlögð risastórum veggmyndum af Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men, Kaleo,  Emilíönu Torríni,  Hilmari Erni Hilmarssyni og svo framvegis.  Götur og torg væru jafnframt kennd við þessar sömu poppstjörnur.  Framsóknarflokkurinn hefur viðrað hugmynd um að reisa styttu af Björk fyrir utan Hörpu.  Gott innlegg í umræðuna - þó ég setji spurnarmerki við styttur bæjarins (sem enginn nennir að horfa á).  


Frægir í Manchester

  Fyrr á þessari öld vandi ég mig á að fagna jólum og áramótum í útlöndum.  Einhver verður að gera það.  Þetta hentar mér vel.  Einkum að taka frí frá snjó og frosti.  Líka að komast að því hvernig útlendingar fagna vetrarsólstöðum og nýju ári.  Að þessu sinni varð Manchester á Englandi fyrir valinu.  Notaleg borg.  Hlýtt alla daga á þessum árstíma.  Smá rigning á næstum því hverjum degi.  Samt ekki svo að þurft hafi að spenna upp regnhlíf.

  Ég veit ekkert um boltaleiki.  Öfugt við Manchesterbúa.  Ég komst ekki hjá því að heyra í útvarpinu þeirra eitthvað um velgengi í boltabrölti.  Hitt veit ég að Manchester er stórveldi á heimsmælikvarða í tónlist.  Eiga það sameiginlegt með Íslendingum.  Okkar 340 þúsund manna þjóð státar af ótrúlega mörgum heimsfrægum tónlistarnöfnum.  Hæst bera Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men og Kaleo.  Fleiri Íslendingar hafa náð góðri stöðu á heimsmarkaði - en á afmarkaðri markaði og teljast því ekki beinlínis heimsfrægir.  Sólstafir hafa tröllriðið vinsældalistum í Finnlandi og Þýskalandi.  Skálmöld er þekkt í evrópsku þungarokkssenunni.  Jóhann Jóhannsson er þekktur í kvikmyndatónlist.  Líka Hilmar Örn Hilmarsson og fleiri.  Til viðbótar eru með ágæta stöðu á í tilteknum löndum nöfn eins og Emilíana Torrini,  FM Belfast, Múm, Steed lord...

  Ánægjulegur árangur íslenskra tónlistarmanna á heimsmarkaði hefur vakið undrun heimspressunnar. Hefur sömuleiðis skilað drjúgum skerf í ábatasaman ferðamannaiðnað hérlendis.  Takk fyrir það.  Hátt í 600 þúsund milljónir á síðasta ári.

  Til samanburðar hefur Manchester mun sterkari stöðu í tónlist.  Líka þó að miðað sé við höfðatölu.  Íbúar Manchester eru rösklega 540 þúsund.  59% fleiri en Íslendingar.  Heimsfræg tónlistarnöfn Manchester eru um margir tugir.  Þar af mörg af þeim stærstu.  Í fljótu bragði man ég eftir þessum Manchester-guttum:  

    Oasis, Noel Gallaghers High Flying Birds, The Smiths, Morrissey, Joy Division, New Order, Buzzcocks, The Stone Roses, The Fall, 10cc, Godley & Creme, The Verve, Elbow, Doves, The Hollies, The Charlatans, M People, Simply Red, The 1975, Take That, Everything Everything, Bee Gees, The Outfield, Happy Mondays, Ren Harvieu, Inspiral Carpets, James, The Chemical Brothers, The Courteeners, Hermans Hermits og Davy Jones söngvari Monkees.


Hátíð ljóss og friðar

  Heims um ból halda menn jól;

heiðingjar, kristnir og Tjallar.

  Uppi í stól stendur í kjól

stuttklipptur prestur og trallar.

 


Hlý og notaleg plata

   - Titill:  White Lotus

  - Flytjandi:  Hilmar Garðarsson

  - Höfundur laga og texta:  Hilmar Garðarsson

  - Einkunn: ****

  Að því er ég best veit er "White Lotus" önnur plata Hilmars Garðarssonr.  Hún er lágstemmdari og fábrotnari en "Pleased to Leave You" sem kom út 2004.  Núna er kassagítar eina hljóðfærið.  Ýmist lipurlega plokkaður eða nett "strömmaður".  Engir stælar.  Allt eins og beint af kúnni.  Það er líkast því að maður sé staddur á ljúfum tónleikum heima í stofu hjá Hilmari.  Söngröddin er dökk og þægileg; afslöppuð, vögguvísuleg (í jákvæðustu merkingu) og þíð.

  Við fyrstu spilanir runnu lögin dálítið saman.  Öll hæg og vinaleg; söngur og undirleikur í svipuðum gír.  Ég hugsaði:  "Gott væri að lauma lágværu orgeli undir eitt lag og snyrtilegum munnhörpuleik undir annað".  Við frekari hlustun féll ég frá þessari hugleiðingu.  Eftir því sem ég kynntist lögunum betur og sérkennum þeirra þá vil ég hafa þau eins og þau eru.  Platan er heilsteypt eins og hún er; alúðleg og ljúf.  Sterkasta lagið er hið gullfallega "Miss You".  Fast á hæla þess er lokalagið, "Nótt".

  

hilmar_gardarsson.jpg         


Málshættir

  Málshættir eru upplýsandi og fræðandi.  Nauðsynlegt er að halda þeim til haga.  Þeir geyma fyrir komandi kynslóðir gömul rammíslensk orð sem gott er að kunna.  Þeir geyma líka gömul orðatiltæki yfir vinnubrögð sem tilheyra fortíðinni en gott er að kunna skil á.  

  Íslenskir páskaeggjaframleiðendur hafa blessunarlega haldið málsháttum á góðu lífi á frjósemishátíðinni kenndri við frjósemisgyðjuna Easter.  Ástæða er til að rifja þá einnig upp á vetrarsólstöðuhátíð ljóss og friðar,  kenndri við Jólnir (Óðinn).

Feginn verður óbarinn biskup

Sjaldan fellur eggið langt frá hænunni

Allir hafa eitthvað gott til hunds að bera

Seint koma jólin en koma þó

Margt er til í mömmu

Þeir skvetta úr klaufunum sem eiga

Glöggt er gests eyrað

Ekki sést í skóinn fyrir hnjánum

Eigi geym þú ost í frysti

Allt er best í óhófi

Ekki er hún betri lúsin sem læðist

Enginn er verri þó hann vakni

Neyðin kennir nöktum manni að synda

Sjaldan er allt sem týnist

Betur sjá augu en eyru


Íslenskar vörur ódýrari í útlendum búðum

  Íslensk skip hafa löngum siglt til Færeyja.  Erindið er iðulega fyrst og fremst að kaupa þar olíu og vistir.  Þannig sparast peningur.  Olían er töluvert ódýrari í Færeyjum en á Íslandi.  Meira að segja íslenska landhelgisgæslan siglir út fyrir íslenska landhelgi til að kaupa olíu í Færeyjum.  

  Vöruverð er hæst á Íslandi.  Svo einkennilegt sem það er þá eru vörur framleiddar á Íslandi oft seldar á lægra verði í verslunum erlendis en á Íslandi.  Það á við um íslenskt lambakjöt.  Líka íslenskt lýsi.  Hér fyrir neðan er ljósmynd sem Ásmundur Valur Sveinsson tók í Frakklandi.  Hún sýnir íslenskt skyr, eitt kíló, í þarlendri verslun.  Verðið er 3,39 evrur (417 ísl kr.).

  Hátt vöruverð á Íslandi er stundum réttlætt með því að Ísland sé fámenn eyja.  Þess vegna sé flutningskostnaður hár og markaðurinn örsmár.  Gott og vel.  Færeyjar eru líka eyjar.  Færeyski markaðurinn er aðeins 1/7 af þeim íslenska.  Samt spara Íslendingar með því að gera innkaup í Færeyjum.

  Hvernig má það vera að skyr framleitt á Íslandi sé ódýrara í búð í Frakklandi en á Íslandi - þrátt fyrir háan flutningskostnað?  Er Mjólkursamsalan að okra á Íslendingum í krafti einokunar?  Eða niðurgreiðir ríkissjóður skyr ofan í Frakka?   

isl_skyr_i_frakklandi.jpg


Hvenær er íslensk tónlist íslensk?

  Nýafstaðinn dagur íslenskrar tónlistar setti margan góðan manninn í bobba.  Allir vildu Lilju kveðið hafa.  Vandamálið er að það hefur ekki verið skilgreint svo öllum líki hvenær íslensk tónlist er íslensk.

  Frekar lítill ágreiningur er um að tónlist samin af Íslendingi og flutt af Íslendingi sé íslensk.  Og þó.  Sumir hafna því að hún sé íslensk ef söngtexti er á öðru tungumáli en íslensku.  Gott og vel.  Hvers lensk er hún þá?  Ensk ef textinn er á ensku, segja sumir.  Eða fer það eftir framburði söngvarans?  Er "Lifun" með Trúbroti bandarísk plata?  Eða kanadísk?

  Samkvæmt þessu eru plötur Bjarkar, Kaleo og Of Monsters and Men ekki íslenskar.  Ein plata Sigur Rósar er sungin á bullmáli.  Hún er ekki íslensk.  Það er ekki hægt að staðsetja þjóðerni hennar.   

  Þegar Eivör flutti til Íslands þá stofnaði hún hljómsveit, Krákuna,  með íslenskum hljóðfæraleikurum.  Íslenska plötufyrirtækið 12 Tónar gaf út plötu með henni.  Hún seldist fyrst og fremst á Íslandi.  Enda spilaði hljómsveitin aðallega á Íslandi.  Textarnir eru á færeysku.  Þar með er þetta færeysk tónlist en ekki íslensk.  Eða hvað?

  12 Tónar gáfu út aðra plötu með Eivöru.  Þar eru gömul rammíslensk lög sungin á íslensku.  Líka lög sungin á færeysku, ensku og sænsku.  Platan hlaut dönsku tónlistarverðlaunin sem besta danska vísnaplatan það árið.  Þetta er snúið.

  Lengi tíðkaðist að íslenskar hljómsveitir sungu íslenska texta við erlend lög.  Er það íslensk tónlist?  Íslenskari tónlist en þegar Íslendingur syngur íslenskt lag með frumsömdum texta á ensku?

  Hvernig er þetta í öðrum greinum?  Gunnar Gunnarsson skrifaði sínar bækur á dönsku.  Eru þær ekki íslenskar bókmenntir?  William Heinesen skrifaði sínar bækur á dönsku.  Samt eru þær skilgreindar sem perlur færeyskra bókmennta.

     


Styttur af Björk

  Hérlendis vantar fleiri styttur af körlum.  Undan því hefur verið kvartað áratugum saman.  Einnig hefur verið brugðist vel við því af og til.  Enda enginn skortur á uppástungum.  Kröfur eru háværar um styttu af Gvendi Jaka (helst tvær til að túlka tungur tvær),  steraboltanum Jóni Páli,  Hemma Gunn og svo framvegis. 

  "Styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á," söng Spilverk þjóðanna á sínum tíma.

  Nú er komið annað hljóð í strokkinn.  Í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur er komin fram tillaga um styttu af konu.  Einkum er sjónum beint að styttu af Björk.  Hugmyndin er frumleg og djörf.  En ekki alveg út í hött.

  Enginn Íslendingur hefur borið hróður Íslands víðar og betur en Björk.  Án hennar væri ferðamannaiðnaðurinn ekki stærsta tekjulind Íslands.  Spurning hvernig henni sjálfri lýst á uppátækið.  Upplagt er að reisa eina styttu af henni við Hörpu.  Aðra við Leifsstöð.  Í leiðinni má breyta nafni flugstöðvarinnar.  Að kenna hana við Leif the Lucky (Lukku-Láka) er hallærislegt.  Í Liverpool er flugstöðin kennd við John Lennon.  Í Varsjá er flugstöðin kennd við Chopin.  Flustöðin í Sandgerði ætti að vera kennd við Björk.

 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður ársins

  Jafnan er beðið með spenningi eftir vali bandaríska fréttablaðsins Time á manni ársins.  Niðurstaðan er stundum umdeild.  Jafnvel mjög svo.  Til að mynda þegar Hitler var útnefndur maður ársins 1938.  Líka þegar Richard Nixon var maður ársins 1971 og aftur 1972. 

  Ástæðan fyrir gagnrýni á valið er sú að það snýst ekki um merkasta mann ársins - öfugt við val annarra fjölmiðla á manni ársins.  Time horfir til þess manns sem sett hefur sterkastan svip á árið.  Skiptir þar engu hvort að það hefur verið til góðs eða tjóns.

  Í ár stendur valið á milli eftirfarandi:

- Colin Kaepernick (bandarískur fótboltakall)

- Dóni Trump

- Jeff Bezos (forstjóri Amazon)

- Kim Jong-un (leiðtogi N-Kóreu)

- #meetoo átakið

- Mohamed bin Salam (krúnprins Saudi-Arabíu)

- Patty Jenkins (leikstjóri "Wonder Woman")

- The Dreamers (samtök innflytjenda í Bandaríkjunum)

- Xi Jinping (forseti Kína)

  Mér segir svo hugur að valið standi í raun aðeins á milli #metoo og þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna, Kína og Norður-Kóreu.


Söngvari Sex Pistols í Júrovisjón 2018

  Enski söngvarinn Johnny Rotten er Íslendingum að góðu kunnur.  Ekki aðeins sem söngvari Sex Pistols og að hafa túrað um Bandaríkin með Sykurmolunum - þá í hljómsveitinni PIL (Public Image Limited).  Líka fyrir að opna Pönksafnið í Lækjargötu.  Hann skemmti sér vel hérna.  Heimferð dróst.

  Nú upplýsir írska dagblaðið Irish Sun að hinn írskættaði Johnny muni keppa fyrir hönd Íra í Júrovisjón í vor.  Laginu sem hann syngur er lýst sem cow-pönki.  Ekki ósvipuðu og "Rise" með PIL.  Höfundurinn er Niall Mooney.  Sá er kunnugt nafn í söngvakeppninni.  Átti lagið "Et Cetera" í Júrovisjón 2009 og "It´s for you" 2010.

  Einhver smávægileg andstaða er gegn Johnny Rotten innan írsku Júrovisjón-nefndarinnar.  Nefndarmenn eru mismiklir aðdáendur hans. Uppátækið er vissulega bratt og óvænt.  þegar (eða ef) hún gefur grænt ljós mun hann syngja lagið við undirleik PIL.

 

    


Nýræð í 14 mánaða fengelsi

  Í Þýskalandi er bannað að afneita helför gyðinga á fyrri hluta síðustu aldar.  Því er haldið fram að sex milljónir gyðinga hafi verið myrtir af nasistum.  Sumir telja töluna vera ónákvæma.  Hvað sem til er í því þá liggur í Þýskalandi allt að fimm ára fangelsisrefsing við því að þvertaka fyrir morðin.  Slíkt er skilgreint sem hvatning til kynþáttahaturs. 

  Öldruð þýsk nasistafrú,  Ursula Haverbeck,  lætur það ekki á sig fá.  Í fyrra var hún dæmd til 8 mánaða fangelsunar er hún reyndi að sannfæra borgarstjórann í Detmold um að það væri haugalygi að í Auschawitz hafi verið starfrækt útrýmingarstöð.  Sú gamla forhertist.  Hún reyndi að sannfæra dómara, saksóknara og alla sem heyra vildu að allt tal um útrýmingarbúðir væri viðurstyggileg lygi og áróður.  Var henni þá gerð aukarefsing.  Nú er hún 89 ára á leið á bak við lás og slá í 14 mánuði.  Hún lýkur afplánun 2019 og heldur þá upp á 91 árs afmælið.

thysk_nasistakona.jpg 

 


Nauðsynlegt að vita

  Af og til hafa heyrst raddir um að ekki sé allt í lagi með vinnubrögð hjá Sorpu.  Fyrr á árinu gengu manna á milli á Fésbók fullyrðingar um að bækur sem færu þangað skiluðu sér ekki í Góða hirðinn.  Þær væru urðaðar.  Ástæðan væri sú að nóg af bókum væru í nytjamarkaðnum.  Einhverjir sögðu að þetta gerðist endrum og sinnum.  Öðrum sárnaði.  Einkum bókaunnendum.  Einnig hafa heyrst sögur af fleiri hlutum sem virðast ekki skila sér úr Sorpu til búðarinnar.

  Útvarpsmaðurinn snjalli,  Óli Palli,  lýsir nýlegum samskiptum sínum við Sorpu.  Frásögnin á erindi til flestra:

  "Ég er frekar PISSED! Ég er búinn að vera að flokka dót í marga daga - RUSL og annað nýtilegt - t.d. músík - DVD og allskonar dót sem fór saman í kassa fyrir Góða Hirðinn að skoða og gera sér mat úr. Vinur minn fór með helling af þessu "nýtilega" dóti fyrir mig í Sorpu í morgun og fékk ekki að setja það í nytjagáminn - en hann fékk að skilja þar eftir nokkra gamla og ljóta myndaramma... Bækur - CD - DVD - vinylplötur - geislaspilarar og allt mögulegt sem ég VEIT að sumir amk. kunna að meta verður pressað og urðað einhverstaðar. Er þetta öll umhverfisverndarstefnan? Flokkum og skilum my ass! Hér eftir fer ALLT í rusl. Þetta er bara tímaeyðsla og rugl - það er verið að fíflast með fólk. Sorpa fær falleinkunn. Mér er algjörlega misboðið. Ég er búinn að flokka rusl í næstum 20 ár og þetta er staðan í dag."

oli_palli.jpg


Skemmtilegt tvist

  Ég hlustaði á útvarpið.  Hef svo sem gert það áður.  Þess vegna ber það ekki til tíðinda.  Hitt sem mér þótti umhugsunarverðara var að útvarpsmaðurinn hneykslaðist á og fordæmdi að fyrirtæki væru að auglýsa "Black Friday".  Þótti honum þar illa vegið að íslenskri tungu.

  Þessu næst bauð hann hlustendum til þátttöku í spurningaleiknum "pizza & shake". 


Bestu, undarlegustu og klikkuðustu jólalögin

  Hver eru bestu jólalögin?  En furðulegustu?  Tískublaðið Elle hefur svör við þessum spurningum.  Lögunum er ekki raðað upp í númeraðri röð.  Hinsvegar má ráða af upptalningunni að um nokkurskonar sætaröðun sé að ræða; þeim er ekki stillt upp eftir stafrófi né aldri eða öðru.  Fyrstu 5 lögin sem tslin eru upp eru fastagestir í efstu sætum í kosningum/skoðanakönnunum um bestu jólalögin.  Nema "At the Christmas Ball".  Ég hef ekki áður séð það svona framarlega. Samt inn á Topp 10. 

"Have Yourself a Merry Little Christmas" með Judy Garland (einnig þekkt með Frank Sinatra, Sam Smith og Christina Aguilera)

"At the Christmas Ball" með Bessie Smith

"Happy Xmas (War is Over)" með John Lennon, Yoko Ono og the Plastic Ono Band

"Fairytale of New York" með Kirsty Mcoll og the Pouges.  Á síðustu árum hefur þetta lag oftast verið í 1. sæti í kosningum um besta jólalagið.

"White Christmas" með Bing Crosby (einnig þekkt í flutningi Frank Sinatra, Kelly Clarkson,  Jim Carrey og Michael Bublé)

"Christmas in Hollis" með Run MDC

"Last Christmas" með Wham!  Í rökstuðningi segir að þrátt fyrir að "Do They Know It´s Christmas" sé söluhærra lag þá hafi það ekki roð í þetta hjá ástarsyrgjendum.

"Christmas Card from a Hooker in Minneapolis" með Tom Waits

"Jesus Christ" með Big Star

"Little Drummer Boy (Peace on Earth)" með David Bowie og Bing Crosby.

Af einkennilegum jólalögum er fyrst upp talið "Christmas Unicorn".  Þar syngur Sufjan Stevens í hálfa þrettándu mínútu um skeggjaðan jólaeinhyrning með ásatrúartré.

Klikkaðasta jólalagið er "Christmas with Satan" með James White.

Skiljanlega veit tískublaðið Elle ekkert um íslensk jólalög.  Þó er full ástæða til að hafa með í samantektinni eitt besta íslenska jólalag þessarar aldar,  "Biðin eftir aðfangadegi" með Foringjunum.  

 


Illmenni

  Varasamt er að lesa spádóma út úr dægurlagatextum.  Einkum og sér í lagi spádóma um framtíðina.  Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson féll í þessa gryfju.  Hann las skilaboð út úr textum Bítlanna.  Reyndar er pínulítið ónákvæmt að kalla Manson fjöldamorðingja.  Hann drap enga.  Hinsvegar hvatti hann áhangendur sína til að myrða tiltekna einstaklinga.

  Út úr Bítlalögunum "Blackbird" og "Helter Skelter" las kallinn spádóm um að blökkumenn væru að taka yfir í Bandaríkjunum.  Ofsahræðsla greip hann.  Viðbrögðin urðu þau að grípa til forvarna.  Hrinda af stað uppreisn gegn blökkumönnum.  Til þess þyrfti að drepa hvítt fólk og varpa sökinni á blökkumenn. 

  Áhangendur Mansons meðtóku boðskap hans gagnrýnislaust.  Þeir hófust þegar handa.  Drápu fólk og skrifuðu - með blóði fórnarlambanna - rasísk skilaboð á veggi.  Skilaboð sem hljómuðu eins og skrifuð af blökkumönnum.  Áður en yfir lauk lágu 9 manns í valnum. 

  Samhliða þessu tók Manson-klíkan að safna vopnum og fela út í eyðimörk.  Stríðið var að skella á.

  Spádómarnir sem Manson fór eftir rættust ekki.  Það eina sem gerðist var að klíkunni var stungið í fangelsi.

  Hið rétta er að Paul var með meiningar í "Blackbird";  hvatningarorð til bandarísku mannréttindahreyfingarinnar sem stóið sem hæst þarna á sjöunda áratugnum.

  Charles Manson var tónlistarmaður.  Ekkert merkilegur.  Þó voru the Beach Boys búnir að taka upp á sína arma lag eftir hann og gefa út á plötu - áður en upp um illan hug hans komst. 

 


mbl.is Charles Manson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ármúli þagnar

  Framan af þessari öld voru Ármúli 5, 7 og 9 heitasta svæði landsins.  Þar var fjörið.  Í Ármúla 5 (sama húsi og Múlakaffi) var Classic Rock Sportbar.  Einn stærsti og skemmtilegasti skemmtistaður landsins.  Hundruð manna góndu á boltaleiki á stórum tjöldum.  Tugir pílukastara kepptu í leik.  Danshljómsveitir spiluðu um helgar.  Þess á milli voru hljómleikar með allt frá hörðustu metal-böndum til settlegri dæma.  Málverkasýningar og fleira áhugavert slæddist með.  Inn á milli voru róleg kvöld.  Þá spjallaði fólk saman við undirleik ljúfra blústóna.  Það var alltaf notalegt að kíkja í Classic Rock Sportbar.

  Í næsta húsi,  á annarri hæð í Ármúla 7 var rekinn hverfisbar sem gekk undir ýmsum nöfnum:  Jensen,  Wall Street,  Pentagon (Pentó, Rússneska kafbátaskýlið),  Elvis (Costello),  Bar 108,  Chrystal...  Hverfispöbb með karókí og allskonar.  Mikið fjör.  Mikið gaman.  

  Á neðri hæðinni var Vitabarinn með sveittan Gleym-mér-ei hamborgara og bjór.  Síðan breyttist staðurinn í Joe´s Diner og loks í ljómandi góðan filippseyskan stað, Filipino.

  Í sama húsi en húsnúmeri 9 var Broadway (Breiðvangur).  Stærsti skemmtistaður Evrópu.  Þar var allt að gerast:  Stórsýningar í nafni Queen, Abba og allskonar.  Hljómleikar með Yardbirds, the Byrds, Slade, Marianne Faithful og dansleikir með Geirmundi.  

  Þó að enn sé sama öld þá er hún önnur.  Classic Rock Sportbar hefur breyst í asískan veislusal.  Ég kíkti þangað inn.  Salurinn stóri hefur verið stúkaður niður í margar minni einingar.  Enginn viðskiptavinur sjáanlegur.   Aðeins ungur þjónn í móttöku.  Hann kunni ekki ensku né íslensku.  Við ræddum saman í góða stund án þess að skilja hvorn annan.  Hann sýndi mér bjórdælu.  Það gerði lítið fyrir mig.  Ég hef oft áður séð bjórdælu.  Ég svaraði honum með hendingum úr "Fjallgöngu" Tómasar Guðmundssonar (Urð og grjót upp í mót) og "Þorraþræl" Kristjáns Fjallaskálds (Nú er frost á fróni).

  Ég rölti yfir í næsta hús.  Allt lokað.  Filipino horfinn.  Gott ef löggan lokaði ekki Chrystal fyrir meintan nektardans eða vændi eða hvorutveggja.  Broadway hefur breyst í sjúkrahús,  Klínik.  Allt hljótt.  Ármúli hefur þagnað;  þessi hluti hans.

classic rock sportbarármúli nr 5broadway

         

      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband