18.6.2018 | 10:45
Orðuhafar
Ég er alveg fylgjandi því að fólki sé umbunað fyrir gott starf með fálkaorðu. Það er hvetjandi fyrir viðkomandi. Jafnframt öðrum hvatning til að taka orðuhafa sér til fyrirmyndar.
Núna samfagna ég nýjustu orðuhöfunum Andreu Jónsdóttur og Hilmari Erni Hilmarssyni. Bæði virkilega vel að orðu komin. Andrea hefur til næstum hálfrar aldar verið ötul við að kynna íslenska tónlist í útvarpi, á diskótekum og á prenti.
Hilmar Örn hefur sömuleiðis verið duglegur við að kynna og varðveita gömlu íslensku kvæðahefðina. Meðal annars með því að blanda henni saman við nýrri tíma rapp. Einnig hefur hann farið á kostum í eigin músíkstílum. Fyrir þá fékk hann evrópsku Felix-verðlaunin fyrir tónlistina í "Börn náttúrunnar". Einn merkasti tónlistarmaður heims.
Elsku Andrea og Hilmar Örn, innilega til hamingju með orðurnar. Þið eigið þær svo sannarlega skilið. Þó fyrr hefði verið.
Fjórtán hlutu fálkaorðuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.6.2018 | 02:56
Brjóstagjöf gegn matvendni
Því lengur sem börn eru á brjósti þeim mun síður verða þau matvönd. Þeim mun lystugri verða þau í grænmeti. Ástæðan er sú að bragðið á brjóstamjólk sveiflast til eftir mataræði móðurinnar. Brjóstmylkingurinn venst því að matur sé fjölbreyttur. Þegar mataræði sex ára barna er skoðað kemur í ljós að börn alin á brjóstamjólk sækja í tvöfalt fjölbreyttara fæði en börn alin á vatnsblandaðri þurrmjólk. Jafnframt eru brjóstmylkingarnir viljugri til að prófa framandi grænmeti.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
10.6.2018 | 21:36
Stónsari með móral yfir að hafa svindlað
Hljótt fór að fyrir síðustu áramót boðaði gítarleikari the Rolling Stones, Keith Richards, söngkonuna Marianne Fathful á sinn fund í París. Ég veit ekki af hverju í París. Kannski er annaðhvort þeirra búsett í Frakklandi. Eða kannski bæði.
Á fundinum játaði Keith fyrir henni að hann væri með bullandi móral yfir að hafa hlunnfarið hana um höfundarlaun fyrir lögin "Symphaty for the Devil", "You Can´t Always Get What You Want" og "Sister Morphine". Allt lög sem náðu miklum vinsældum í flutningi the Rolling Stones og haún átti stóran hlut í að semja með þeim Keith og Mick Jagger.
Á þessum tíma sem lögin komu út á plötum var Marianne kærasta söngvara the Rolling Stones, Mikka Jaggers. Hún var jafnframt hálf út úr heimi vegna gríðarlegrar eiturlyfjaneyslu. Fjölskylda hennar var og er vellauðug. Marianne hefur aldrei þurft að pæla í peningum. Réttskráð lög hennar og plötur hafa selst í bílförmum og skilað henni góðum tekjum.
Keith gerði sér þó lítið fyrir og endurgreiddi Marianne þau höfundarlaun sem hún hafði orðið af vegna þess að vera ekki réttilega skráð meðhöfundur áðurnefndra laga. Jafnframt lét hann leiðrétta höfundarskráningu á þessum lögum.
Marianne og Keith hafa alltaf talað hlýlega um hvort annað en ekki verið í miklu sambandi eftir að upp úr sambandi hennar og Jaggers slitnaði. Klárlega hefur Keith fengið samþykki Jaggers fyrir því að leiðrétta höfundarlaun hennar. Mick passar alltaf vel um sín fjármál.
8.6.2018 | 00:24
Íslenska leiðin
Maður sem við köllum A var fyrirtækjaráðgjafi Glitnis. Hann gaf fátækum vinum olíufyrirtækið Skeljung. Þetta var sakleysisleg sumargjöf. Hún olli þó því að A var rekinn með skömm frá Glitni. Eðlilega var hann þá ráðinn forstjóri Skeljungs. Um leið réði hann þar til starfa nokkra vini úr bankanum. Þeirra í stað rak hann nokkra reynslubolta. Hinsvegar er hjásvæfa hans ennþá í vinnu hjá Skeljungi. Það er önnur saga og rómantískari.
Skeljungur keypti Shell í Færeyjum. Nokkru síðar var starfsmaður færeyska Shell ráðinn forstjóri Skeljungs. Síðan er fyrirtækinu stýrt frá Færeyjum. Þetta þótti einkennilegt. Hefðin var sú að framkvæmdastjóri tæki við forstjórastóli.
Fyrsta verk færeyska forstjórans var að kaupa hlutabréf í Skeljungi á undirverði og selja daginn eftir á yfirverði. Lífeyrissjóðir toguðust á um að kaupa á yfirverðinu. Kauði fékk í vasann á einum degi 80 milljónir eða eitthvað. Þetta er ólíkt Færeyingum sem öllu jafna eru ekki að eltast við peninga.
Persóna A var óvænt orðin meðeigandi Skeljungs. Hann (kk) og vinirnir seldu sinn hlut í Skeljungi á 830 milljónir á kjaft.
Þetta er einfalda útgáfan á því hvernig menn verða auðmenn á Íslandi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.6.2018 | 00:04
Undarlegir flugfarþegar
Sumt fólk hagar sér einkennilega í flugvél og á flugvöllum. Íslendingar eiga frægasta flugdólg heims. Annar íslenskur flugdólgur var settur í flugbann nokkrum árum áður. Hann lét svo ófriðlega í flugvél yfir Bandaríkjunum að henni var lent á næsta flugvelli og kauða hent þar út. Hann var tannlæknir í Garðabæ. Misþyrmdi hrottalega vændiskonu sem vann í hóruhúsi systur hans á Túngötu.
Ekki þarf alltaf Íslending til. Í fyrradag trylltist erlendur gestur í flugstöðinni í Sandgerði. Hann beit lögregluþjón í fótinn.
Á East Midlands flugstöðinni í Bretlandi undrast starfsfólk hluti sem flugfarþegar gleyma. Meðal þeirra er stór súrefniskútur á hjólum ásamt súrefnisgrímu. Einnig má nefna tanngóm, stórt eldhúshnífasett og stór poki fullur af notuðum nærbuxum. Svo ekki sé minnst á fartölvu, síma og dýran hring.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
30.5.2018 | 05:14
Harðfisksúpa víðar en á Íslandi
Harðfisksúpa Baldurs Garðarssonar hefur vakið verðskuldaða athygli. Ekki síst eftir að hún sigraði með glæsibrag í hugmyndasamkeppninni Þjóðlegir réttir á okkar veg. Atti harðfisksúpan þar kappi við 106 aðra rétti.
Svo skemmtilega vill til að harðfisksúpa er elduð víðar. Heimsþekktur og margrómaður færeyskur sjávarréttakokkur, Birgir Enni, hefur til margra ára lagað harðfisksúpu. Ég hef gætt mér á henni. Hún er góð.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.5.2018 | 05:51
Klæddu frambjóðendur sig rétt?
Litir hafa sterk áhrif á fólk. Til að mynda framkallar rauður litur hungurtilfinningu. Á síðustu öld bannaði matvælaeftirlit í Danmörku litarefni í cola-drykkjum. Þeir urðu þá gráir. Líktust steypu. Salan hrundi. Bannið var snarlega afturkallað.
Þegar frambjóðendur stjórnmálaflokka koma fram í sjónvarpi skiptir klæðnaður miklu máli. Ímynd vegur þyngra en málefni. Þetta hefur verið rannsakað til áratuga í útlöndum með einróma niðurstöðu. Árangurríkasti klæðnaður karlkyns frambjóðanda í sjónvarpi er jakkaföt og hálsbindi. Köflótt bómullarskyrta og prjónavesti eru vonlaust dæmi. Heppilegasti litur á jakka er dökkblár/svartblár. Sá litur kallar fram tilfinningu fyrir trúverðugleika, ábyrgð og góðri dómgreind. Nánast allir karlkyns frambjóðendur í kosningasjónvarpi sjónvarpsstöðva í ár fóru eftir þessu.
Heppilegasti litur á skyrtu er hvítur ljósblár; nánast hvítur með bláum blæ. Eða alveg hvítur. Flestir kunnu það. Færri kunnu að velja sér bindi. Dagur B. var ekki með bindi. Ekki heldur Þorvaldur í Alþýðufylkingunni. Bindisleysi Þorvaldar og Dags virkar vel á kjósendur Alþýðufylkingarinnar. En skilar engu umfram það. Í tilfelli Dags kostar það Samfylkinguna 8. borgarfulltrúann. Pottþétt.
Flestir aðrir frambjóðendur klikkuðu á hálsbindinu. Heppilegasti litur á hálsbindi er rauður. Rautt hálsbindi kallar fram tilfinningu fyrir ástríðu og áræði. Frambjóðandi Framsóknarflokksins var með grænt bindi. Það var ekki alrangt. Litur Framsóknarflokksins er grænn. En svona "lókal" skilar ekki sæti í borgarstjórn.
Í útlandinu kunna menn þetta.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2018 | 08:22
Paul Watson leiðir mótmælastöðu gegn Tý
Fyrir sléttum mánuði skýrði ég undanbragðalaust frá því að færeyska þungarokksveitin Týr væri að leggja upp í hljómleikaferð til Bandaríkja Norður-Ameríku og Kanada. Um það má lesa með því að smella H É R .
Hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd blésu þegar í stað í herlúðra. Af fullum þunga hófu þau öfluga herferð gegn Tý. Skoruðu á almenning að sniðganga hljómleikana með öllu. Markmiðið var að hljómleikunum yrði aflýst vegna dræmrar aðsóknar.
Ef markmiðið næðist ekki þá til vara myndu samtökin standa fyrir fjölmennri mótmælastöðu við hljómleikasalina.
Svo skemmtilega vill til að mæting á hljómleikana hefur verið hin besta. Sama er ekki að segja um mótmælastöðuna. Hún er spaugilega fámenn. Auk leiðtogans; Pauls Watsons, er þetta 8 eða 9 manns. Eru hljómleikarnir þó í fjölmennustu borgunum.
Bassaleikari Týs, Gunnar Thomsen, ræddi í smástund við Paul fyrir utan hljómleikahöllina í San Diego. Þeir voru ósammála. Gunnar benti honum á að baráttan gegn hvalveiðum Færeyinga væri vonlaus og skili engum árangri. Paul sagðist samt ætla að halda baráttunni áfram svo lengi sem hann lifi.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2018 | 11:04
Hvað finnst þér?
Glyvrar er 400 manna þorp á Austurey í Færeyjum. Það tilheyrir 4000 manna sveitarfélaginu Rúnavík. Eins og almennt í Færeyjum skipar kirkjan háan sess í tilveru íbúa Glyvrar. Kirkjubyggingin er næstum aldargömul. Hún er slitin og að lotum komin. Á níunda áratugnum var púkkað upp á hana. Það dugði ekki til. Dagar hennar eru taldir.
Eftir ítarlega skoðun er niðurstaðan sú að hagkvæmasta lausn sé að byggja nýja kirkju frá grunni. Búið er að hanna hana á teikniborði og stutt í frekari framkvæmdir. Verra er að ekki eru allir á eitt sáttir við arkitektúrinn. Vægt til orða tekið. Sumum er heitt í hamsi. Lýsa honum sem ljótustu kirkjubyggingu i heimi, hneisu og svívirðu.
Öðrum þykir ánægjuleg reisn yfir ferskum arkitektúrnum. Þetta sé djörf og glæsileg hönnun. Hún verði stolt Glyvrar.
Hér eru myndir af gömlu hvítu kirkjunni og nýju svörtu. Hvað finnst þér?
Trúmál | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
17.5.2018 | 21:10
Bullað um rykmaura
Ný rannsókn leiðir í ljós að svefnbæli simpansa eru snyrtilegri en rúm mannfólks. Munar miklu þar um. Þetta hefur vakið undrun og umtal. Við hverju bjóst fólk? Að simpansar væru sóðar? Það eru fordómar. Simpansar eru snyrtipinnar. Þess vegna meðal annars skipta þeir ört um svefnbæli.
Í umræðunni hérlendis hefur mörgum orðið tíðrætt um að rúm fólks séu löðrandi í rykmaurum og rykmauraskít. Þetta er bull hvað varðar íslensk rúm. Einhverra hluta vegna er bullið lífseigara og útbreiddara en niðurstöður rannsókna sem sýna annað. Þær sýna að rykmaurar þrífast ekki á Íslandi. Hita- og rakastig kemur í veg fyrir það.
Jú, það hafa fundist rykmaurar á Íslandi. Örfáir. Allir rígfullorðnir. Engin ungviði. Það undirstrikar að einu rykmaurarnir á Íslandi séu nýinnfluttir frá útlöndum. Flækingar sem slæðast með ferðalöngum. Verða ekki langlífir og ná ekki að fjölga sér.
Hitt er annað mál að ástæðulaust er að amast við rykmaurum. Þetta eru tvær vinalegar og ástríkar tegundir. Önnur er undirlögð kynlífsfíkn á háu stigi. Báðar tegundir éta dauðar húðfrumur. Gott að einhver geri það.
Vísindi og fræði | Breytt 18.5.2018 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.5.2018 | 03:38
Skelfilegur laxadauði
Laxeldi í kvíum er í sviðsljósinu í kjölfar áhugaverðrar heimildarmyndar eftir Þorstein J. Vilhjálmsson. Hún var sýnd í sjónvarpinu í síðustu viku. Töluverður vandræðagangur virðist ríkja í laxeldinu hér. Margt er á gráu svæði sem full ástæða er til að vera á verði gagnvart.
Arnarlax fyrir vestan skilaði góðu tapi vegna dauða laxa í vetur. Ofkæling.
Í Noregi er sömuleiðis sitthvað úr skorðum í laxeldi. Þar ganga nú yfir skelfileg afföll. Laxinn drepst í hrönnum. Í janúar-mars drápust 13,6 milljón laxar. Það er 30% aukning frá sama tímabili í fyrra. Allt það ár drápust 53 milljónir úr veikindum áður náðist að slátra þeim.
Sökudólgurinn er vandræðagangur með úrgang, aflúsun og eitthvað þessháttar. Þetta er dýraníð.
Eins og með svo margt er annað og betra að frétta frá Færeyjum. Þar blómstrar laxeldið sem aldrei fyrr. Nú er svo komið að laxeldið aflar Færeyingum meira en helmingi alls gjaldeyris. Langstærsti kaupandinn er Rússland. Íslendingar geta ekki selt Rússum neitt. Þökk sé vopnasölubanninu sem Gunnar Bragi setti á þá.
Ólíkt laxeldi á Íslandi er í Færeyjum engin hætta á blöndun eldislax og villtra laxa. Ástæðan er sú að lítið er um villtan lax í Færeyjum. Um miðja síðustu öld fengu Færeyingar nokkur íslensk laxaseyði. Þeim slepptu þeir í tvö lítil vötn sem litlar lækjasprænur renna úr. Laxveiðar þar eru þolinmæðisverk. Laxarnir eru svo fáir. Þegar svo ótrúlega vill til að lax bíti á þá er skylda að sleppa honum aftur umsvifalaust.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.5.2018 | 05:35
Íslenskur kór og færeyska drottningin
God of War heitir vinsæl tölvuleikjasería. Hún hefur rakað að sér tilnefningum og verðlaunum á verðlaunahátíðum á borð við The Game Awards, Game Critics Awards og IGN´s Best of E3 Awards. Jafnframt slegið sölumet út um allan heim.
Á dögunum kom út áttundi leikurinn í seríunni. Fyrri leikir fjalla um grísku goðafræðina. Þessi gerir út á norræna goðafræði. Sögusviðið er Miðgarður, Álfheimar, Hel, Jötunheimar, Niflheimur, Ásgarður, Yggdrasil, Bifröst o.s.frv.
Söguhetjurnar eru feðgar og móðir drengsins. Hún er fallin frá. Feðgarnir leggja upp í mikið og viðburðaríkt ferðalag. Tilefnið er að uppfylla ósk móðurinnar um það hvar eigi að dreifa öskunni af henni.
Tónlistin í leiknum er samin af Bear McCreary. Hann er best þekktur fyrir að vera h0fundur tónlistar í sjónvarpsseríum, svo sem The Walking Dead og The Battlestar Galactica. Eini flytjandinn sem hvarvetna er nafngreindur er færeyska álfadrottningin Eivör. Hún syngur þemasöng móðurinnar og er hlaðin lofi fyrir frammistöðuna. Meðal annarra flytjenda er ónefndur íslenskur kór.
Allir gagnrýnendur helstu dagblaða og netmiðla gefa útkomunni 5 stjörnur af 5 eða 10 af 10 með tveimur undantekningum. Í öðru tilfellinu er einkunnin 9,5 af 10. Í hinu tilfellinu er einkunnin 9,75 af 10.
Eivör hefur átt lög og plötur í 1. sæti vinsældalista á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Færeyjum. Samanlögð sala á þeim bliknar í samanburði við söluna og spilun á God of War. Þar erum við að tala um hundruð milljónir.
Tónlist | Breytt 13.5.2018 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2018 | 04:06
Hvað er í gangi?
Ikea er fyrirmyndarfyrirtæki. Þar fæst allskonar á þokkalegu verði. Meðal annars sitthvað til að narta í. Líka ýmsir drykkir til að sötra. Í kæliskáp er úrval af ungbarnamauki. Ég er hugsi yfir viðvörunarskilti á skápnum. Þar stendur skrifað að ungbanamaukið sé einungis ætlað ungbörnum. Ekki öðrum.
Brýnt hefur þótt að koma þessum skilaboðum á framfæri að gefnu tilefni. Hvað gerðist? Var gamalt tannlaust fólk að hamstra ungbarnamaukið? Hvert er vandamálið? Ekki naga tannlausir grísarif eða kjúklingavængi.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2018 | 03:44
Gríðarmikill uppgangur í færeyskri ferðaþjónustu
Lengst af aflaði sjávarútvegur um 97-99% af gjaldeyristekjum Færeyinga. Svo bar til tíðinda að sumarið 2015 og aftur 2016 stóð 500 manna hópur hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd vakt í Færeyjum til að hindra marsvínadráp. Aðgerðir þeirra voru afar klaufalegar. Skiluðu engum árangri nema síður væri. Varð þeim til háðungar.
500 manna hópur SS-liðanna klaufaðist til að auglýsa og kynna á samfélagsmiðlum út um allan heim fagra náttúru Færeyja. Með þeim árangri að ferðamannaiðnaður tekið risakipp. Í dag aflar ferðamannaiðnaðurinn 6,4% af gjaldeyristekjum Færeyinga. Vöxturinn er svo brattur að gistirými anna ekki eftirspurn. Þegar (ekki ef) þú ferð til Færeyja er nauðsynlegt að byrja á því að bóka gistingu. Annars verða vandræði.
Inn í dæmið spilar að samtímis hafa færeyskir tónlistarmenn náð sterkri stöðu á alþjóðamarkaði. Mestu munar um álfadrottninguna Eivöru, þungarokkshljómsveitina Tý, trúbadúrana Teit, Lenu Anderssen og Högna, pönksveitina 200, kántrý-kónginn Hall Jóensen, heimstónlistarhljómsveitina (world music) Yggdrasil og marga fleiri.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.5.2018 | 00:12
Ekki skipta um röð!
Hver kannast ekki við að vera dálítið á hraðferð, skreppa í stórmarkað, kaupa eitthvað smotterí og koma að langri biðröð við alla afgreiðslukassa? Þá þarf í skyndingu að vega og meta stöðuna. Innkaupakerrur sumra í röð eru sneisafullar af óþörfu drasli. Í annarri en lengri röð eru hinsvegar flestir með fátt annað en brýnustu nauðsynjar; mjólk, brauð og smávegir af nammi frá Nóa Síríus.
Þarna þarf að velja á milli. Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt af viðskiptafræðideild Harvard háskóla. Í rannsókninni voru einnig skoðaðar biðraðir á flugstöðvum og í pósthúsum.
Niðurstaðan er sú að fólk velur rétta biðröð í fyrstu atrennu. Sá sem fær bakþanka og færir sig yfir í aðra röð endar á því að vera afgreiddir seinna en sá sem er næstur á eftir honum í röðinni sem hann yfirgefur.
-----------------------------
Fróðleiksmoli: Hvert sem bresku Bítlarnir fóru - eftir að þeir slógu í gegn - mynduðust langar biðraðir eftir að sjá þá og kaupa miða. Eftirspurn var miklu meiri en framboð. Fjöldi manns slasaðist í biðröðunum vegna troðnings og æsings í Bandaríkjunum. Hámarkið var hljómleikaferð til Ástralíu. Biðraðir töldu kvartmilljón manns (250.000) og þær teygðu sig yfir 15 kílómetra.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.4.2018 | 07:51
Á svig við lög
Lög, reglur og boðorð eru allavega. Sumt er spaugilegt. Til að mynda að bannað sé að spila bingó á föstudaginn langa. Mannanafnanefnd er botnlaus uppspretta skemmtiefnis. Verst að hún þvælist líka fyrir sumu fólki og gerir því lífið leitt. Þess á milli er hún rassskellt af erlendum dómstólum. Einnig af einstaklingum. Austurískur kvikmyndagerðarmaður, Ernst Kettler, flutti til Íslands á síðustu öld. Þegar hann fékk íslenskan ríkisborgararétt þá var hann skikkaður til að taka upp rammíslenskt nafn. Hann skoðaði lista yfir öll samþykkt íslensk nöfn og sótti um að fá að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy. Uppi varð fótur og fit. Ríkisstjórnin hafði leyft heimsfrægum píanóleikara með þessu nafni að fá íslenskan ríkisborgararétt og halda nafninu. Þar með var það viðurkennt sem íslenskt nafn.
Eftir jaml, japl og fuður varð niðurstaðan sú að Alþingi breytti mannanafnalögum. Felldi niður kröfuna um að innflytjendur þyrftu að taka upp rammíslenskt nafn. Taldi það skárri kost en að Ernst fengi að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy.
Hestanafnanefnd er líka brosleg.
Refsilaust er að strjúka úr fangelsi á Íslandi. Það er að segja ef flóttafanginn er einn á ferð.
Boðorðin 10 eru að sumu leyti til fyrirmyndar. Einkum það sem boðar: Þú skalt ekki girnast þræl náunga þíns né ambátt. Ég vona að flestir fari eftir þessu.
Í Noregi er bannað að afgreiða sterkt áfengi í stærri skammti en einföldum. Þú getur ekki farið inn á bar og beðið um tvöfaldan viskí í kók. "Það er stranglega bannað að selja tvöfaldan sjúss að viðlagðri hárri sekt og jafnvel sviptingu áfengisleyfis," upplýsir þjónninn. En til að koma til móts við viðskiptavininn segir hann í hálfum hljóðum: "Þú mátt panta tvo einfalda viskí í kók. Það er ekki mitt mál að fylgjast með því hvort að þú hellir þeim saman í eitt glas."
Spaugilegt | Breytt 4.5.2018 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.4.2018 | 21:14
Hryðjuverkasamtök í herferð gegn rokkhljómsveit
Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd eru Íslendingum að vondu kunn. Kvikindin sökktu tveimur íslenskum bátum á síðustu öld. Á undanförnum árum höfum við fylgst með klaufalegri baráttu þeirra gegn marsvínaveiðum Færeyinga 2015 og 2016. 500 SS-liðar stóðu sumarlangt sólarhringsvakt í færeyskum fjörðum.
Þegar Færeyingar ráku marsvínavöður upp í fjöru reyndu SS-liðar af spaugilegri vankunnáttu - og ranghugmyndum um hegðun hvala - að fæla vöðuna til baka. Það skipti reyndar litlu máli því að færeyska lögreglan kippti þeim jafnóðum úr umferð. Snéri þá niður, handjárnaði og flaug með þá á brott í þyrlu. Gerðu jafnframt báta þeirra og verkfæri upptæk; myndbandsupptökuvélar, tölvur, ljósmyndavélar o.þ.h. Sektuðu að auki einstaklingana um tugi þúsunda kr. svo undan sveið.
Brölt SS í Færeyjum misheppnaðist algjörlega. Varð þeim til háðungar, athlægis og að fjárhagslegu stórtjóni. Færeyingar uppskáru hinsvegar verulega góða landkynningu. Hún skilaði sér í túristasprengju sem færeysk ferðaþjónusta var ekki búin undir. Gistirými hafa ekki annað eftirspurn síðan.
Eftir hrakfarirnar hafa hnípnir SS-liðar setið á bak við stein, sleikt sárin og safnað kjarki til að leita hefnda. Stundin er runnin upp.
Forsagan er sú að fyrir nokkrum árum náði færeyska hljómsveitin Týr 1. sæti norður-ameríska CMJ vinsældalistans. Hann mælir plötuspilun í öllum útvarpsstöðvum framhaldsskóla í Bandaríkjunum og Kanada. Hérlendis er CMJ jafnan kallaður "bandaríski háskólaútvarpslistinn". Það vakti gríðarmikla athygli langt út fyrir útvarpsstöðvarnar að færeysk þungarokkshljómsveit væri sú mest spilaða í þeim.
Færeyska hljómsveitin nýtur enn vinsælda í Norður-Ameríku. Í maí heldur hún 22 hljómleika í Bandaríkjunum og Kanada. Allt frá New York til Toronto.
SS hafa hrint úr vör herferð í netheimum gegn hljómleikaferðinni. Forystusauðurinn, Paul Watson, skilgreinir hljómsveitina Tý sem hneisu í rokkdeildinni. Hún lofsyngi morð á hvölum. Forsprakkinn Heri Joensen, söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur, hafi að auki sjálfur myrt yfir 100 hvali.
SS hafa virkjað öll sín bestu sambönd og samfélagsmiðla gegn hljómleikaferð Týs. "Stöðvum Tý! Stöðvum hvaladráp!" hrópar Paul Watson og krefst sniðgöngu. Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindunni. Skipta hvalveiðar norður-ameríska þungarokksunnendur miklu máli? Kannski spurning um það hvað umræðan verður hávær og nær inn á stærstu fjölmiðla vestan hafs.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.4.2018 | 06:37
Færeyski fánadagurinn
Í dag er færeyski fánadagurinn, 25. apríl. Hann er haldinn hátíðlegur um allar Færeyjar. Eða reyndar "bara" 16 af 18 eyjunum sem eru í heilsárs byggð. Önnur eyðieyjan, Litla Dimon, er nánast bara sker. Hin, Koltur, er líka lítil en hýsti lengst af tvær fjölskyldur sem elduðu grátt silfur saman. Líf þeirra og orka snérist um að bregða fæti fyrir hvor aðra. Svo hlálega vildi til að enginn mundi né kunni skil á því hvað olli illindunum.
Þó að enginn sé skráður til heimilis á Kolti síðustu ár þá er einhver búskapur þar á sumrin.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2018 | 02:13
Bestu og verstu bílstjórarnir
Breskt tryggingafélag, 1st Central, hefur tekið saman lista yfir bestu og verstu bílstjórana, reiknað út eftir starfi þeirra. Niðurstaðan kemur á óvart, svo ekki sé meira sagt. Og þó. Sem menntaður grafískur hönnuður og skrautskriftarkennari hefði ég að óreyndu getað giskað á að myndlistamenn og hverskonar skreytingafólk væru öruggustu bílstjórarnir. Sömuleiðis mátti gefa sér að kóksniffandi verðbréfaguttar væru stórhættulegir í umferðinni, rétt eins og í vinnunni.
Bestu bílstjórarnir
1. Myndlistamenn/skreytingafólk
2. Landbúnaðarfólk
3. Fólk í byggingariðnaði
4. Vélvirkjar
5. Vörubílstjórar
Verstu bílstjórarnir
1. Verðbréfasalar/fjármálaráðgjafar
2. Læknar
3. Lyfsalar
4. Tannlæknar
5. Lögfræðingar
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.4.2018 | 04:23
Enn eitt færeyska lagið slær í gegn
Frá 2002 hefur fjöldi færeyskra tónlistarmanna notið vinsælda á Íslandi. Þar af hafa margir komið lögum sínum hátt á vinsældalista Rásar 2. Í fljótu bragði man ég eftir þessum:
Hljómsveitin TÝR
Eivör
Brandur Enni
Hljómsveitin MAKREL
Högni Lisberg
Jógvan
Boys in a Band
Eflaust er ég að gleyma einhverjum. Núna hefur enn eitt færeyska lagið stokkið upp á vinsældalista Rásar 2. Það heitir "Silvurlín". Flytjandi er Marius Ziska. Hann er Íslendingum að góðu kunnur. Hefur margoft spilað hérlendis. Jafnframt flutti hann ásamt Svavari Knúti lagið "Þokan" 2013. Það fór ofarlega á vinsældalista Rásar 2. Rétt eins og lagið "You and I" sem Kristina Bærendsen söng með Páli Rózinkrans í fyrra.
"Silfurlín" er í 12. sæti vinsældalistans þessa vikuna. Sjá HÉR
Uppfært 22.4.2018: "Silfurlín" stökk úr 12. sæti upp í 4. í gær.
Tónlist | Breytt 22.4.2018 kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)