Bullað um rykmaura

  Ný rannsókn leiðir í ljós að svefnbæli simpansa eru snyrtilegri en rúm mannfólks.  Munar miklu þar um.  Þetta hefur vakið undrun og umtal.  Við hverju bjóst fólk?  Að simpansar væru sóðar?  Það eru fordómar.  Simpansar eru snyrtipinnar.  Þess vegna meðal annars skipta þeir ört um svefnbæli.

  Í umræðunni hérlendis hefur mörgum orðið tíðrætt um að rúm fólks séu löðrandi í rykmaurum og rykmauraskít.  Þetta er bull hvað varðar íslensk rúm.  Einhverra hluta vegna er bullið lífseigara og útbreiddara en niðurstöður rannsókna sem sýna annað.  Þær sýna að rykmaurar þrífast ekki á Íslandi.  Hita- og rakastig kemur í veg fyrir það.

  Jú,  það hafa fundist rykmaurar á Íslandi.  Örfáir.  Allir rígfullorðnir.  Engin ungviði.  Það undirstrikar að einu rykmaurarnir á Íslandi séu nýinnfluttir frá útlöndum.  Flækingar sem slæðast með ferðalöngum.  Verða ekki langlífir og ná ekki að fjölga sér.

  Hitt er annað mál að ástæðulaust er að amast við rykmaurum.  Þetta eru tvær vinalegar og ástríkar tegundir.  Önnur er undirlögð kynlífsfíkn á háu stigi.  Báðar tegundir éta dauðar húðfrumur.  Gott að einhver geri það.  

rykmaur    

 


Skelfilegur laxadauði

  Laxeldi í kvíum er í sviðsljósinu í kjölfar áhugaverðrar heimildarmyndar eftir Þorstein J.  Vilhjálmsson.  Hún var sýnd í sjónvarpinu í síðustu viku.  Töluverður vandræðagangur virðist ríkja í laxeldinu hér.  Margt er á gráu svæði sem full ástæða er til að vera á verði gagnvart.

  Arnarlax fyrir vestan skilaði góðu tapi vegna dauða laxa í vetur.  Ofkæling.

  Í Noregi er sömuleiðis sitthvað úr skorðum í laxeldi.  Þar ganga nú yfir skelfileg afföll.  Laxinn drepst í hrönnum.  Í janúar-mars drápust 13,6 milljón laxar.  Það er 30% aukning frá sama tímabili í fyrra.  Allt það ár drápust 53 milljónir úr veikindum áður náðist að slátra þeim.

  Sökudólgurinn er vandræðagangur með úrgang,  aflúsun og eitthvað þessháttar.   Þetta er dýraníð.

  Eins og með svo margt er annað og betra að frétta frá Færeyjum.  Þar blómstrar laxeldið sem aldrei fyrr.  Nú er svo komið að laxeldið aflar Færeyingum meira en helmingi alls gjaldeyris.  Langstærsti kaupandinn er Rússland.  Íslendingar geta ekki selt Rússum neitt.  Þökk sé vopnasölubanninu sem Gunnar Bragi setti á þá.

  Ólíkt laxeldi á Íslandi er í Færeyjum engin hætta á blöndun eldislax og villtra laxa.  Ástæðan er sú að lítið er um villtan lax í Færeyjum.  Um miðja síðustu öld fengu Færeyingar nokkur íslensk laxaseyði.  Þeim slepptu þeir í tvö lítil vötn sem litlar lækjasprænur renna úr.  Laxveiðar þar eru þolinmæðisverk.  Laxarnir eru svo fáir.  Þegar svo ótrúlega vill til að lax bíti á þá er skylda að sleppa honum aftur umsvifalaust.  

lax

 

 

 

 


Íslenskur kór og færeyska drottningin

  God of War heitir vinsæl tölvuleikjasería.  Hún hefur rakað að sér tilnefningum og verðlaunum á verðlaunahátíðum á borð við The Game Awards,  Game Critics Awards og IGN´s Best of E3 Awards.  Jafnframt slegið sölumet út um allan heim.

  Á dögunum kom út áttundi leikurinn í seríunni. Fyrri leikir fjalla um grísku goðafræðina.  Þessi gerir út á norræna goðafræði.  Sögusviðið er Miðgarður, Álfheimar, Hel, Jötunheimar,  Niflheimur,  Ásgarður,  Yggdrasil,  Bifröst o.s.frv.

  Söguhetjurnar eru feðgar og móðir drengsins.  Hún er fallin frá.  Feðgarnir leggja upp í mikið og viðburðaríkt ferðalag.  Tilefnið er að uppfylla ósk móðurinnar um það hvar eigi að dreifa öskunni af henni.

  Tónlistin í leiknum er samin af Bear McCreary.  Hann er best þekktur fyrir að vera h0fundur tónlistar í sjónvarpsseríum,  svo sem The Walking Dead og The Battlestar Galactica.  Eini flytjandinn sem hvarvetna er nafngreindur er færeyska álfadrottningin Eivör.  Hún syngur þemasöng móðurinnar og er hlaðin lofi fyrir frammistöðuna.  Meðal annarra flytjenda er ónefndur íslenskur kór. 

  Allir gagnrýnendur helstu dagblaða og netmiðla gefa útkomunni 5 stjörnur af 5 eða 10 af 10 með tveimur undantekningum.  Í öðru tilfellinu er einkunnin 9,5 af 10.  Í hinu tilfellinu er einkunnin 9,75 af 10.

  Eivör hefur átt lög og plötur í 1. sæti vinsældalista á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Færeyjum.  Samanlögð sala á þeim bliknar í samanburði við söluna og spilun á God of War.  Þar erum við að tala um hundruð milljónir.

 


Hvað er í gangi?

  Ikea er fyrirmyndarfyrirtæki.  Þar fæst allskonar á þokkalegu verði.  Meðal annars sitthvað til að narta í.   Líka ýmsir drykkir til að sötra.  Í kæliskáp er úrval af ungbarnamauki.  Ég er hugsi yfir viðvörunarskilti á skápnum.  Þar stendur skrifað að ungbanamaukið sé einungis ætlað ungbörnum.  Ekki öðrum.

  Brýnt hefur þótt að koma þessum skilaboðum á framfæri að gefnu tilefni.  Hvað gerðist?  Var gamalt tannlaust fólk að hamstra ungbarnamaukið?  Hvert er vandamálið?  Ekki naga tannlausir grísarif eða kjúklingavængi.

tannlausungbarnamauk


Gríðarmikill uppgangur í færeyskri ferðaþjónustu

  Lengst af aflaði sjávarútvegur um 97-99% af gjaldeyristekjum Færeyinga.  Svo bar til tíðinda að sumarið 2015 og aftur 2016 stóð 500 manna hópur hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd vakt í Færeyjum til að hindra marsvínadráp.  Aðgerðir þeirra voru afar klaufalegar.  Skiluðu engum árangri nema síður væri.  Varð þeim til háðungar.  

  500 manna hópur SS-liðanna klaufaðist til að auglýsa og kynna á samfélagsmiðlum út um allan heim fagra náttúru Færeyja.  Með þeim árangri að ferðamannaiðnaður tekið risakipp.  Í dag aflar ferðamannaiðnaðurinn 6,4% af gjaldeyristekjum Færeyinga.  Vöxturinn er svo brattur að gistirými anna ekki eftirspurn.  Þegar (ekki ef) þú ferð til Færeyja er nauðsynlegt að byrja á því að bóka gistingu.  Annars verða vandræði.

  Inn í dæmið spilar að samtímis hafa færeyskir tónlistarmenn náð sterkri stöðu á alþjóðamarkaði.  Mestu munar um álfadrottninguna Eivöru,  þungarokkshljómsveitina Tý,  trúbadúrana Teit,  Lenu Anderssen og Högna,  pönksveitina 200,  kántrý-kónginn Hall Jóensen,  heimstónlistarhljómsveitina (world music) Yggdrasil og marga fleiri.    

 


Ekki skipta um röð!

  Hver kannast ekki við að vera dálítið á hraðferð,  skreppa í stórmarkað,  kaupa eitthvað smotterí og koma að langri biðröð við alla afgreiðslukassa?  Þá þarf í skyndingu að vega og meta stöðuna.  Innkaupakerrur sumra í röð eru sneisafullar af óþörfu drasli.  Í annarri en lengri röð eru hinsvegar flestir með fátt annað en brýnustu nauðsynjar;  mjólk, brauð og smávegir af nammi frá Nóa Síríus.  

  Þarna þarf að velja á milli.  Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt af viðskiptafræðideild Harvard háskóla.  Í rannsókninni voru einnig skoðaðar biðraðir á flugstöðvum og í pósthúsum.

   Niðurstaðan er sú að fólk velur rétta biðröð í fyrstu atrennu.  Sá sem fær bakþanka og færir sig yfir í aðra röð endar á því að vera afgreiddir seinna en sá sem er næstur á eftir honum í röðinni sem hann yfirgefur.

-----------------------------

  Fróðleiksmoli:  Hvert sem bresku Bítlarnir fóru - eftir að þeir slógu í gegn - mynduðust langar biðraðir eftir að sjá þá og kaupa miða.  Eftirspurn var miklu meiri en framboð.  Fjöldi manns slasaðist í biðröðunum vegna troðnings og æsings í Bandaríkjunum.  Hámarkið var hljómleikaferð til Ástralíu.  Biðraðir töldu kvartmilljón manns (250.000) og þær teygðu sig yfir 15 kílómetra. 


Á svig við lög

  Lög, reglur og boðorð eru allavega.  Sumt er spaugilegt.  Til að mynda að bannað sé að spila bingó á föstudaginn langa.  Mannanafnanefnd er botnlaus uppspretta skemmtiefnis.  Verst að hún þvælist líka fyrir sumu fólki og gerir því lífið leitt.  Þess á milli er hún rassskellt af erlendum dómstólum.  Einnig af einstaklingum.  Austurískur kvikmyndagerðarmaður,  Ernst Kettler,  flutti til Íslands á síðustu öld.  Þegar hann fékk íslenskan ríkisborgararétt þá var hann skikkaður til að taka upp rammíslenskt nafn.  Hann skoðaði lista yfir öll samþykkt íslensk nöfn og sótti um að fá að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy.  Uppi varð fótur og fit.  Ríkisstjórnin hafði leyft heimsfrægum píanóleikara með þessu nafni að fá íslenskan ríkisborgararétt og halda nafninu.  Þar með var það viðurkennt sem íslenskt nafn.  

  Eftir jaml, japl og fuður varð niðurstaðan sú að Alþingi breytti mannanafnalögum.  Felldi niður kröfuna um að innflytjendur þyrftu að taka upp rammíslenskt nafn.  Taldi það skárri kost en að Ernst fengi að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy.

  Hestanafnanefnd er líka brosleg.

  Refsilaust er að strjúka úr fangelsi á Íslandi.  Það er að segja ef flóttafanginn er einn á ferð.

  Boðorðin 10 eru að sumu leyti til fyrirmyndar.  Einkum það sem boðar:  Þú skalt ekki girnast þræl náunga þíns né ambátt.  Ég vona að flestir fari eftir þessu.

  Í Noregi er bannað að afgreiða sterkt áfengi í stærri skammti en einföldum.  Þú getur ekki farið inn á bar og beðið um tvöfaldan viskí í kók.  "Það er stranglega bannað að selja tvöfaldan sjúss að viðlagðri hárri sekt og jafnvel sviptingu áfengisleyfis,"  upplýsir þjónninn.  En til að koma til móts við viðskiptavininn segir hann í hálfum hljóðum:  "Þú mátt panta tvo einfalda viskí í kók.  Það er ekki mitt mál að fylgjast með því hvort að þú hellir þeim saman í eitt glas.

double-whisky


Hryðjuverkasamtök í herferð gegn rokkhljómsveit

  Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd eru Íslendingum að vondu kunn.  Kvikindin sökktu tveimur íslenskum bátum á síðustu öld.  Á undanförnum árum höfum við fylgst með klaufalegri baráttu þeirra gegn marsvínaveiðum Færeyinga 2015 og 2016.  500 SS-liðar stóðu sumarlangt sólarhringsvakt í færeyskum fjörðum.  

  Þegar Færeyingar ráku marsvínavöður upp í fjöru reyndu SS-liðar af spaugilegri vankunnáttu - og ranghugmyndum um hegðun hvala - að fæla vöðuna til baka.  Það skipti reyndar litlu máli því að færeyska lögreglan kippti þeim jafnóðum úr umferð.  Snéri þá niður, handjárnaði og flaug með þá á brott í þyrlu.  Gerðu jafnframt báta þeirra og verkfæri upptæk;  myndbandsupptökuvélar,  tölvur, ljósmyndavélar o.þ.h.  Sektuðu að auki einstaklingana um tugi þúsunda kr. svo undan sveið.  

  Brölt SS í Færeyjum misheppnaðist algjörlega.  Varð þeim til háðungar, athlægis og að fjárhagslegu stórtjóni.  Færeyingar uppskáru hinsvegar verulega góða landkynningu.  Hún skilaði sér í túristasprengju sem færeysk ferðaþjónusta var ekki búin undir.  Gistirými hafa ekki annað eftirspurn síðan.  

  Eftir hrakfarirnar hafa hnípnir SS-liðar setið á bak við stein, sleikt sárin og safnað kjarki til að leita hefnda.  Stundin er runnin upp.

  Forsagan er sú að fyrir nokkrum árum náði færeyska hljómsveitin Týr 1. sæti norður-ameríska CMJ vinsældalistans.  Hann mælir plötuspilun í öllum útvarpsstöðvum framhaldsskóla í Bandaríkjunum og Kanada.  Hérlendis er CMJ jafnan kallaður "bandaríski háskólaútvarpslistinn".  Það vakti gríðarmikla athygli langt út fyrir útvarpsstöðvarnar að færeysk þungarokkshljómsveit væri sú mest spilaða í þeim.  

  Færeyska hljómsveitin nýtur enn vinsælda í Norður-Ameríku.  Í maí heldur hún 22 hljómleika í Bandaríkjunum og Kanada.  Allt frá New York til Toronto.

  SS hafa hrint úr vör herferð í netheimum gegn hljómleikaferðinni.  Forystusauðurinn,  Paul Watson,  skilgreinir hljómsveitina Tý sem hneisu í rokkdeildinni.  Hún lofsyngi morð á hvölum.  Forsprakkinn Heri Joensen, söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur, hafi að auki sjálfur myrt yfir 100 hvali.  

  SS hafa virkjað öll sín bestu sambönd og samfélagsmiðla gegn hljómleikaferð Týs.  "Stöðvum Tý!  Stöðvum hvaladráp!" hrópar Paul Watson og krefst sniðgöngu.  Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindunni.  Skipta hvalveiðar norður-ameríska þungarokksunnendur miklu máli?  Kannski spurning um það hvað umræðan verður hávær og nær inn á stærstu fjölmiðla vestan hafs.  

  


Færeyski fánadagurinn

  Í dag er færeyski fánadagurinn, 25. apríl.  Hann er haldinn hátíðlegur um allar Færeyjar.  Eða reyndar "bara" 16 af 18 eyjunum sem eru í heilsárs byggð.  Önnur eyðieyjan,  Litla Dimon,  er nánast bara sker.  Hin,  Koltur,  er líka lítil en hýsti lengst af tvær fjölskyldur sem elduðu grátt silfur saman.  Líf þeirra og orka snérist um að bregða fæti fyrir hvor aðra.  Svo hlálega vildi til að enginn mundi né kunni skil á því hvað olli illindunum.

  Þó að enginn sé skráður til heimilis á Kolti síðustu ár þá er einhver búskapur þar á sumrin.  

færeyski fáninn


Bestu og verstu bílstjórarnir

  Breskt tryggingafélag,  1st Central,  hefur tekið saman lista yfir bestu og verstu bílstjórana,  reiknað út eftir starfi þeirra.  Niðurstaðan kemur á óvart,  svo ekki sé meira sagt.  Og þó.  Sem menntaður grafískur hönnuður og skrautskriftarkennari hefði ég að óreyndu getað giskað á að myndlistamenn og hverskonar skreytingafólk væru öruggustu bílstjórarnir.  Sömuleiðis mátti gefa sér að kóksniffandi verðbréfaguttar væru stórhættulegir í umferðinni,  rétt eins og í vinnunni.   

Bestu bílstjórarnir

1.  Myndlistamenn/skreytingafólk

2.  Landbúnaðarfólk

3.  Fólk í byggingariðnaði

4.  Vélvirkjar

5.  Vörubílstjórar

Verstu bílstjórarnir

1.  Verðbréfasalar/fjármálaráðgjafar

2.  Læknar

3.  Lyfsalar

4.  Tannlæknar

5.  Lögfræðingar 


Enn eitt færeyska lagið slær í gegn

  Frá 2002 hefur fjöldi færeyskra tónlistarmanna notið vinsælda á Íslandi.  Þar af hafa margir komið lögum sínum hátt á vinsældalista Rásar 2.  Í fljótu bragði man ég eftir þessum:

Hljómsveitin TÝR

Eivör

Brandur Enni

Hljómsveitin MAKREL

Högni Lisberg

Jógvan

Boys in a Band

  Eflaust er ég að gleyma einhverjum.  Núna hefur enn eitt færeyska lagið stokkið upp á vinsældalista Rásar 2.  Það heitir "Silvurlín".  Flytjandi er Marius Ziska.  Hann er Íslendingum að góðu kunnur.  Hefur margoft spilað hérlendis.  Jafnframt flutti hann ásamt Svavari Knúti lagið "Þokan" 2013.  Það fór ofarlega á vinsældalista Rásar 2.  Rétt eins og lagið "You and I" sem Kristina Bærendsen söng með Páli Rózinkrans í fyrra. 

"Silfurlín" er í 12. sæti vinsældalistans þessa vikuna.  Sjá HÉR  

Uppfært 22.4.2018:  "Silfurlín" stökk úr 12. sæti upp í 4. í gær.


Drekkur þú of mikið vatn?

  Vatn er gott og hollt.  Einhver besti drykkur sem til er.  Við Íslendingar erum svo lánssamir að eiga nóg af góðu drykkjarvatni úr krana.  Fæstir jarðarbúa eru svo heppnir.  Þeim mun einkennilegra er að Íslendingar skuli þamba daglega litað sykurleðjuvatn í sama mæli og Bandaríkjamenn.      

  Samkvæmt prófessor í Árhúsum í Danmörku (www.samvirke.dk) er of mikil vatnsdrykkja jafn varasöm og of lítil vatnsdrykkja.  Of mikil vatnsdrykkja getur sett svo mikið álag á nýrun að hún valdi vatnseitrun.  Þig svimar, færð krampa, verður máttlaus og í versta tilfelli deyrð.  Sjaldgæft en gerist þó árlega.

  Þumalputtareglan er sú að drekka ekki meira vatn en sem nemur 1/30 af líkamsþyngd.  60 kílóa manneskju hentar að drekka 2 lítra af vökva á dag.  90 kg manneskju hentar að drekka 3 lítra.  Við útreikninginn er brýnt að taka með í reikninginn allan vökva.  Ekki aðeins vatn.  Líka vökvarík fyrirbæri á borð við súpur, te, agúrkur, tómata og jarðarber.

  


Reykvískur skemmtistaður flytur til Benidorm

 

  Um árabil var Ob-la-di Ob-la-da einn áhugaverðasti skemmtistaður landsins.  Hann var staðsettur á Frakkastíg.  Alltaf troðfullt út úr dyrum.  Iðulega komust færri inn en vildu.  Sérstaða staðarins var að þar spiluðu þekktir tónlistarmenn lög úr smiðju Bítlanna.  Einungis Bítlalög.  Ekkert nema Bítlalög.  Sjaldnast í upprunalegum útsetningum.  Samt stundum í bland.  

  Bassaleikarinn Tómas heitinn Tómasson hélt utan um dagskrána.  Hann var jafnframt fasti punkturinn í hljómsveitunum sem komu fram,  hvort sem þær kölluðust Bítladrengirnir blíðu eða eitthvað annað.  Meðal annarra sem skipuðu húshljómsveitina ýmist fast eða lauslega voru gítarleikararnir Magnús R. Einarsson,  Eðvarð Lárusson,  Gunnar Þórðarson;  trommuleikarinn Ásgeir Óskarsson;  söngvararnir Andrea Gylfadóttir,  Egill Ólafsson og Kormákur.  

  Að degi til um helgar spilaði Andrea Jónsdóttir vel valin Bítlalög af hljómplötum.  Alltaf var rosalega gaman að kíkja á Ob-la-di.  Útlendir Bítlaaðdáendur sóttu staðinn.  Þar á meðal Mike Mills úr bandarísku hljómsveitinni R.E.M.  Hann tróð upp með húshljómsveitinni.  Mig rámar í að Yoko Ono hafi kíkt inn.  Líka gítarleikari Pauls McCartneys.  

  Svo kom reiðarslagið.  Lóðareigendur reiknuðu út að arðvænlegt yrði að farga húsinu og reisa í staðinn stórt hótel.  Ob-la-di var hent út.  Um nokkra hríð stóð til að Ob-la-di myndi flytja upp í Ármúla 5 í húsnæði sem þá hýsti frábæran skemmtistað,  Classic Rock.

  Leikar fóru þannig að kínverskt veitingahús keypti Classic Rock.  Þá var ekki um annað að ræða en kanna möguleika á Spáni.  Í morgun skrifaði eigandi Ob-la-di,  Davíð Steingrímsson, undir húsaleigusamning í Benidorm.  Innan nokkurra vikna opnar Ob-la-di á ný.  Að þessu sinni í Benidorm.  

  Ob-la-di er ekki fyrsti íslenski skemmtistaðurinn sem flytur búferlum til útlanda.  Fyrir nokkrum árum flutti heimsfrægur skemmtistaður,  Sirkus,  frá Klapparstíg til Þórshafnar í Færeyjum.

Davíð Steingríms & co      

    


Gjaldfrjáls tónlistarkennsla í Færeyjum

 

  Um síðustu aldamót urðu meiriháttar umskipti í færeyskri tónlist.  Svo afgerandi að við getum talað um byltingu.  Í stað þess að herma eftir frægum útlendum hljómsveitum komu fram á sjónarsvið hljómsveitir á borð við Ivory, Clickhaze og Yggdrasil, sóló-söngkonan Eivör og Teitur.  Þau spiluðu frumsamda músík á eigin forsendum án eftirhermu.  Já,  Eivör var reyndar söngkona Ivory, Clickhaze og Yggdrasil.  Með Ivory söng hún djass.  Með Clickhaze söng hún trip-hopp.  Með Yggdrasil söng hún spunadjasskennt heimspopp (world music).  Sem sóló söng hún vísnatónlist með djasskeim og þjóðlegum færeyskum kvæðasöng. Fram til þessa þótti ungum Færeyingum gamli kvæðasöngurinn hallærislegur.  En Eivör var svo töff að hún gerði hann töff.  Varð meðal annars þungarokkshljómsveitinni Tý innblástur til að dusta rykið af hringdanskvæðinu "Orminum langa" og þungarokksvæða það.  Með þeim árangri að það varð vinsælasta lagið í Færeyjum og á Íslandi 2002. 

  Fram að tónlistarbyltingunni um aldamótin var Færeyingum fjarlæg hugsun að hægt væri að lifa á tónlist.  Ennþá fjarlægara að hægt væri að spila utan Færeyja.  Kúvending varð á.  Fjöldi færeyskra hljómsveita og tónlistarmanna er atvinnumenn í faginu í dag.  Þeir selja mun fleiri plötur í útlöndum en í Færeyjum.  Ruðningsáhrif eru töluverð á aðrar atvinnugreinar.  Ekki síst ferðamannaiðnað.  Heimsfrægð færeyskra tónlistarmanna dregur allt upp að 7500 á árlega rokkhátíð,  G!Festival,  í Götu á Austurey.  Einnig á Ólavsvökukonsertinn á Ólavsvöku og fleiri tónlistarhátíðir.  Eivör hefur náð toppsæti á vinsældalistum í Noregi, Danmörku og Íslandi auk Færeyjum. Týr náði 1. sæti norður-ameríska vinsældalistans CMJ (mælir spilun í framahldsskólaútvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og Kanada).

  Færeyskir ráðamenn hafa áttað sig á mikilvægi færeyskrar tónlistar.  Nú hefur færeyska ríkið gert 3ja ára samning við franska nettónlistarskólann Meludia.  Allir Færeyingar fá ókeypis aðgang að honum.  Þar læra þeir að lesa tónlist, skrifa tónlist og skilja tónlist.  Jafnt leikmenn sem fagmenn.  Allt kennsluefnið verður á færeysku.  Sjá:  https://www.meludia.com/

         


Íslendingur rændur

  Það er ekki vel falið leyndarmál að norskur þrjótur stal rammíslensku lagi í aldarbyrjun.  Sá ósvífni heitir Rolf Lövland.  Höfundur lagsins heitir Jóhann Helgason.  Á íslensku heitir lagið "Söknuður".  Það kom fyrst út á hljómplötu með Villa Vill 1977.  Norski þjófurinn kallar það "You Raise Me Up".

  Stuldurinn nær yfir rösklega 97% af laginu.  Aukaatriði er að þjófurinn eignaðist snemma kassettu með laginu og dvaldi á Íslandi um hríð.

  Margir hafa sungið lagið inn á plötu með enska texta þjófsnauts þjófsins.  Þeir hafa í grandaleysi skráð lagið á þjófinn.  Hann hefur rakað inn risaupphæðum í höfundarlaun. 

  Höfundurinn, Jóhann Helgason, hefur til áratuga staðið í stappi við að fá höfundarrétt sinn á laginu viðurkenndan.  Enda lag hans harla gott. Vandamálið er að þjófurinn þráast við að viðurkenna sök.  Er að auki studdur af útgefanda sínum,  Universal stórveldinu.

  Í þessari stöðu kosta málaferli til að fá leiðréttan höfundarrétt 150 milljónir eða svo. Farsæll íslenskur lagahöfundur á ekki þá upphæð í vasanum. Leitað hefur verið til margra ára að fjárfestum.  Án árangurs.  Sú leið er eiginlega fullreynd.

  Eigum við, íslenska þjóð,  sem fámennt samfélag að leyfa útlendum þjófi að stela einni bestu lagaperlu okkar?  Njóta heiðurs fyrir gott lag og raka inn milljónum króna í höfundargreiðslum? 

  Vegna þess að einstaklingsframtakið hefur brugðist í málinu verður að skoða aðra möguleika.  Við þurfum að leggja höfuð í bleyti og finna þá möguleika.  Einn möguleikinn er að lífeyrissjóðir fjárfesti í málaferlunum.  Áhættan er lítil og minni en margar aðrar fjárfestingaleiðir sem þeir hafa valið. 

  Annar möguleiki en krítískari er að íslenska ríkið - eitthvað ráðuneytið - blandi sér snöfurlega í málið.  Bregðist af hörku við að vernda íslenska hagsmuni.  Yfirgnæfandi líkur eru á að málið vinnist.  Útlagður kostnaður verður þá greiddur af Universal þegar upp er staðið.  Risaháar höfundargreiðslur munu að auki koma á vængjum inn í íslenska hagkerfið.  

  Fleiri uppástungur óskast.

  Sem öfgamaður í músíksmekk kvitta ég undir að kammerútsetning Villa Vill á laginu sé til fyrirmyndar.  Útlendu útfærslurnar eru viðbjóður. 

       


Íslenskst fönk á vinsælustu netsíðunni

  Stærsta og vinsælasta vinylplötunetsíða heims er breska The Vinyl Factory Limited. Hún er miðpunktur heimsins í umræðu um vinylplötur.  Á dögunum brá svo við að þar birtist yfirgripsmikil umfjöllun/samantekt um sjaldgæfar íslenskar fönk-vinylplötur.  Fyrirsögnin er "Frozen soul picnic:  The hunt for Iceland´s forgotten funk records". 

  Heimildarmaður umfjöllunarinnar er fæddur á Íslandi en starfandi plötusnúður og útvarpsmaður í Bandaríkjunum.  Hann gegnir nafninu DJ Platurn.  Á síðunni er hægt að spila rösklega 43ja mínútna samantekt hans á íslensku fönki.  Skemmtilegt dæmi. Jafnframt eru 8 íslenskar plötur kynntar með ítarlegum texta.

  Skilgreining DJ Platurn á fönki er víðari en mín.  Samt.  Gaman að þessu.  Sjá HÉR      


Músíktilraunir blómstra sem aldrei fyrr

  Músíktilraunir eru eitt besta fyrirbæri í íslenskri tónlist.  Þær eru útungunarvél frjósamrar tónlistarflóru nýliða.  Að vísu hafa vinningshljómsveitir ekki alltaf verið upp á marga fiska.  Allt í lagi með það.  Aðrar hljómsveitir í Músíktilraunum hafa þá verið þeim mun áhugaverðari.

  Fyrstu Músíktilraunir voru 1982.  Þá sigraði hljómsveitin Dron.  Þunnur þrettándi.  Skemmti mér samt vel við að fylgjast með keppninni..  Sem og næstu ár.  Ég sótti öll kvöld Músíktilrauna árum saman.  Svo færðist aldurinn yfir.  Undanfarin ár hef ég látið nægja að fylgjast með úrslitakvöldi í útvarpi og sjónvarpi.  Mjög gaman.  Síðustu Músíktilraunir sem ég fylgdist með frá upphafi til enda var 2002.  Ég færði mig svo yfir til færeyska systurfyrirbærisins Sements. 

  Lengst af voru Músíktilraunir karllægar.  Mjög karllægar.  Af tugum hljómsveita sem öttu kappi var sjaldnast að finna fleiri en eina eða tvær stelpur.  Að vísu komu, sáu og sigruðu kvennasveitir 1983 (Dúkkulísur) og 1992 (dúndurflott Kolrassa krókríðandi).  2004 var röðin komin að hinni frábæru hljómsveit Mammút.  Helmingur liðsmanna var og er kvenkyns. Nú fór að færast fjör í leikinn:

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2010 var hljómsveit Nönnu Bryndísar,  Of Monsters and Men. Framhald á sólódæmi hennar, Songbird.

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2011 var tríóið Samaris,  skipað tveimur stelpum og einum gutta.   

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2013 var hljómsveitin Vök;  með í fararbroddi hljómborðsleikarann, gítarleikarann og söngkonuna Margréti Rán.

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2016 var Garðabæjar-pönkbandið Hórmónar. Meirihluti liðsmanna stelpur.

  - Sigurvegari Músíktilraun 2017 var vestfirski stelpnadúettinn Between Mountains.

  - Sigurvegari Músíktilrauna í ár er kvennasveitin Ateria.

  Mér segir svo hugur að námskeiðin "Stelpur rokka" eigi stóran þátt í stórtækri og árangursríkri þátttöku kvenna í Músíktilraunum á síðustu árum.

 


Nauðsynlegt að vita

  Íslendingar sækja í vaxandi mæli sólarstrendur út um allan heim.  Aðallega sunnar á hnettinum.  Vandamálið er að mannætuhákarlar sækja líka sumar af þessum ströndum. Mörg góð manneskjan hefur tapað fæti eða hendi í samskiptum við þá.

  Hlálegt en satt;  að hákarlinn er lítið sem ekkert fyrir mannakjöt.  Hann sér allt óskýrt.  Þegar hann kemur sínu sjódapra auga á manneskju þá heldur hann að þar sé selur.  Hann elskar selspik.  Eins og ég. 

  Hákarl er lélegur í feluleik.  Hann fattar ekki að þegar hann syndir nærri yfirborði sjávar þá stendur uggi upp úr.  Þetta skiptir ekki máli gagnvart selum sem synda neðansjávar.  Manneskja sem kemur auga á hákarlsugga tekur hinsvegar eftir ógninni.  Verstu viðbrögð eru að taka hræðslukast og sprikla í átt að landi.  Það vekur aðeins athygli hákarlsins og espar hann upp.  Hann heldur að þar sé selur að reyna undankomu. Stekkur á bráðina og fær sér bita.

  Í þessum kringumstæðum hefur manneskjan tvo betri kosti en flótta.  Önnur er að grípa um sporð ókindarinnar og hlaupa með hana snaröfuga upp í strönd.  Hún kemur engum vörnum við.  Sveigjanleiki skrokksins er svo takmarkaður.

  Hin aðferðin er að ríghalda kvikindinu kjurru.  Hákarl drukknar umsvifalaust ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu.


Óhlýðinn Færeyingur

 

  Færeyingar eru löghlýðnasta þjóð í heiminum. Engu að síður eru til undantekningar.  Rétt eins og í öllu og allsstaðar.  Svo bar til í síðustu viku að 22ja ára Færeyingur var handtekinn í Nuuk,  höfuðborg Grænlands, og færður á lögreglustöðina.  Hann er grunaður um íkveikju.  Ekki gott.  Lögreglan sagði honum að hann yrði í varðhaldi á meðan málið væri rannsakað.  Þess vegna mætti hann ekki yfirgefa fangelsið.   Nokkru síðar var kallað á hann í kaffi.  Engin viðbrögð.  Við athugun kom í ljós að hann hafði óhlýðnast fyrirmælum.  Hafði yfirgefið lögreglustöðina.  

  Í fyrradag var hann handtekinn á ný og færður aftur í varðhald.  Til að fyrirbyggja að tungumálaörðugleikar eða óskýr fyrirmæli spili inn í var hann núna spurður að því hvort að honum sé ljóst að hann megi ekki yfirgefa stöðina.  Hann játaði því og er þarna enn í dag.

     


Enn stendur slagur á milli Bítla og Stóns

 Á sjöunda áratugnum sló breska hljómsveitin Bítlarnir (The Beatles) í gegn á heimsmarkaði.  Rækilega.  Svo rækilega að hvert met var slegið af öðru.  Met sem mörg standa enn hálfri öld síðar.  Met sem aldrei verða jöfnuð.

  Dæmi:  Ef undan er skilin fyrsta smáskífa Bítlanna,  "Love me do",  fóru allar aðrar smáskífur þeirra og stórar plötur í 1. sæti breska vinsældalistans og síðar þess bandaríska.

  Vorið 1964 áttu Bítlarnir 5 söluhæstu lög á bandaríska vinsældalistanum.  Í árslok reyndust 6 af hverjum 10 seldum plötum það ár í Bandaríkjunum vera Bítlaplötur.

  Þegar Bítlarnir héldu í hljómleikaferð til Bandaríkjanna urðu uppþot fastur liður.  Hljómleikasalurinn tók kannski 5000 eða 7000 manns.  En allt upp í 50 þúsund reyndu að kaupa miða.  Þeir sem ekki náðu miðum gengu berserksgang.  Grenjuðu eins og kornabörn,  brutu rúður og unnu önnur eignaspjöll.  Allt upp að 240 manns á dag voru fluttir stórslasaðir á slysavarðstofu. Í það minnsta tífalt fleiri voru lemstraðir án þess að leita á náðir sjúkrahúsa.

  Lögreglan réði ekki við ástandið. Þetta var neyðarástand. Lausn fólst í því að færa hljómleika Bítlanna úr hljómleikahöllum yfir í íþróttaleikvangi. Þeir rúma marga tugi þúsunda gesti.  Jafnvel uppfyrir 50 þúsund.  Allsstaðar uppselt.

  Þetta var nýtt:   Að hljómleikar væru haldnir á íþróttaleikvangi.  Hljóðkerfi íþróttaleikvanganna var ömurlegt og ekki hannað fyrir tónlist.  Skipti engu. Áheyrendur voru mættir til að sjá Bítlana og öskra.  

  Hvar sem Bítlana bar niður mættu þúsundir á flugvöllinn til að berja þá augum.  Í Ástralíu spannaði hópurinn 15 kílómetra svæði.  Kvartmilljón manns! 

  Ein hljómsveit komst með tær þar sem Bítlarnir höfðu hæla.  Það var the Rolling Stones.   Fjölmiðlar stilltu almenningi upp við vegg og spurðu:  "Hvort ertu Bítill eða Stónsari?"  Í uppstillingunni voru Bítlarnir snotrir, snyrtilegir og settlegir sætabrauðspopparar en Stónsarar ófríðir, ruddalegir og hættulegir blús-rokkarar.

  Almenningur vissi ekki að um snjalla sviðssetningu var að ræða.  Í raunveruleika voru það Bítlarnir sem uppgötvuðu the Rolling Stones;  komu þeim á plötusamning,  sömdu fyrir þá fyrsta smellinn og kenndu þeim að semja lög.  Togstreita á milli hljómsveitanna var tilbúningur.  Þær störfuðu náið saman.  Sendu aldrei frá sér lög eða plötur á sama tíma.  Þess var gætt að þær felldu ekki lag eða plötu hvorrar annarrar úr 1. sæti.

  Bítlahljómsveitin leystist upp 1969.  Stóns er hinsvegar enn í fullu fjöri.  Ein lífseigasta hljómsveit sögunnar. Í fyrra var hún söluhæsta hljómleikahljómsveit heims - eins og svo oft áður.  Númer 2 var bítillinn Paul McCartney.  Samanburðurinn er ekki alveg sanngjarn.  Einn sólóbítill á móti rótgróinni hljómsveit.  Langt þar á eftir var í 3ja sæti nýstirnið drepleiðinlega Ed Sheeran.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband