14.5.2023 | 13:36
Naflaskraut
Við höfum heyrt út undan okkur að töluvert sé um að ungar konur fái sér naflaskraut. Þetta er svo gott sem tískufyrirbæri. Jafnan eru það nettir "eyrnalokkar" sem fá að prýða naflann. Þeir passa samt ekki öllum. Þá er þetta ráðið.
Lífstíll | Breytt 18.5.2023 kl. 01:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.5.2023 | 14:07
Dvergur étinn í ógáti
Þetta gerðist í Norður-Taílandi. Dvergur var með skemmtiatriði í sirkuss. Hann sýndi magnaðar listir sínar á trampólíni. Eitt sinn lenti hann skakkt á trampólíninu úr mikilli hæð. Hann þeyttist langt út í vatn. Næsta atriði á dagskrá var að flóðhestur í vatninu átti að kokgleypa melónu sem var kastað til hans úr töluverðri fjarlægð. Við skvampið frá dvergnum ruglaðist flóðhesturinn í ríminu. Hann gleypti dverginn undir dynjandi lófaklappi 2000 áhorfenda. Þeir héldu að þetta væri hápunktur skemmtunarinnar.
30.4.2023 | 16:33
Fólkið sem reddar sér
Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola. Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af. Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af. Til að spara sér puð brá hann á ráð: Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í. Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu. Líka húsið og nálæg hús.
Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt. Hún hófst þegar handa við að grafa grunn. Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.
Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum. Fingurinn var pikkfastur. En hann var svo sem ekki að fara neitt. Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús. Það tók aðeins 8 klukkutíma. Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.
Spaugilegt | Breytt 3.5.2023 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.4.2023 | 13:18
Smásaga um trekant sem endaði með ósköpum
Jonni átti sér draum. Hann var um trekant með tveimur konum. Þegar hann fékk sér í glas impraði hann á draumnum við konu sína. Hún tók því illa.
Árin liðu. Kunninginn færði þetta æ sjaldnar í tal. Börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman. Hjónin minnkuðu við sig. Keyptu snotra íbúð í tvíbýlishúsi. Í hinni íbúðinni bjuggu hjón á svipuðum aldri. Góður vinskapur tókst með þeim. Samgangur varð mikill. Hópurinn eldaði saman um helgar, horfði saman á sjónvarp, fór saman í leikhús, á dansleiki og til Tenerife.
Einn daginn veiktist hinn maðurinn. Hann lagðist inn á sjúkrahús. Á laugardagskvöldi grillaði Jonni fyrir þau sem heima sátu. Grillmatnum var skolað niður með rauðvíni. Eftir matinn var skipt yfir í sterkara áfengi. Er leið á kvöldið urðu tök á drykkjunni losaralegri. Fólkið varð blindfullt.
Þegar svefndrungi færðist yfir bankaði gamli draumurinn upp hjá Jonna. Leikar fóru þannig að draumurinn rættist loks. Morguninn eftir vaknaði kappinn illa timbraður. Konurnar var hvergi að sjá. Sunnudagurinn leið án þess að málið skýrðist. Á mánudeginum hringdi frúin loks í mann sinn. Tjáði honum að þær vinkonurnar hefðu uppgötvað nýja hlið á sér. Þær ætluðu að taka saman. Sem þær gerðu. Eftir situr aleinn og niðurbrotinn maður. Hann bölvar því að draumurinn hafi ræst.
Matur og drykkur | Breytt 24.4.2023 kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.4.2023 | 12:42
Best í Færeyjum
Flestallt er best í Færeyjum. Ekki aðeins í samanburði við Ísland. Líka í samanburði við önnur norræn lönd sem og þau helstu önnur lönd sem við erum duglegust að bera okkur saman við. Nægir að nefna að meðalævilengd er hæst í Færeyjum; atvinnuleysi minnst; atvinnuþátttaka mest; hjónaskilnaðir fæstir; fátækt minnst og jöfnuður mestur; sjálfsvíg fæst; krabbameinstilfelli fæst; glæpir fæstir; barneignir flestar; fóstureyðingar fæstar; hamingja mest; heilbrigði mest og pönkrokkið flottast. Bara svo örfá atriði séu tiltekin.
Ekki nóg með það heldur eru færeyskar kindur frjósamastar. Hérlendis og víðast eignast kindur aðallega eitt til tvö lömb í einu. Færeyskar kindur eru meira í því að bera þremur lömbum og allt upp í sjö! Það er heimsmet.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
9.4.2023 | 12:38
Keypti karl á eBay
Staurblankur enskur vörubílstjóri, Darren Benjamin, sat að sumbli. Hann vorkenndi sér mjög. Bæði yfir blankheitunum og ennfremur yfir að vera alltaf einn. Það er einmanalegt. Eftir margar og miklar vangaveltur yfir stöðunni fékk hann hugmynd. Hún var sú að auglýsa sig til sölu á uppboðsvefnum eBay. Hann hrinti henni þegar í framkvæmd. Hann lýsti söluvörunni þannig: "Kynþokkafullur en blankur vörubílstjóri til sölu."
Viðbrögð voru engin fyrstu dagana. Síðan fór Denise Smith að vafra um eBay. Hún rakst á auglýsinguna. Henni leist vel á ljósmyndina af kallinum. Hún bjó í Milton Keynes eins og hann. Henni rann blóðið til skyldunnar. Yfir hana helltist vorkunn vegna aðstæðna hans. Jafnframt blossaði upp í henni löngun til að veita ummönnun.
Denise bauð 700 kr. í kauða. Hún var viss um gagntilboð. Það kom ekki. Tilboðinu var tekið. Hann flutti þegar í stað inn til hennar. Enda lá það í loftinnu. Hann var orðinn eign hennar. Þar með gat Darren sagt leiguíbúð sinni upp. Það sparaði pening.
Umsvifalaust var blásið til formlegs brúðkaups. Eða eiginlega brúðgumakaups.
Viðskipti og fjármál | Breytt 10.4.2023 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.4.2023 | 13:14
Smásaga um flugferð
Haukur var háaldraður þegar hann flaug í fyrsta skipti með flugvél. Tilhugsunin olli honum kvíða og áhyggjum. Hann áttaði sig á að þetta var flughræðsla á háu stigi. Til að slá á kvíðakastið leitaði hann sér upplýsinga um helstu ástæður fyrir flugslysum. Það gerði illt verra. Jók aðeins kvíðakastið.
Áður en Haukur skjögraði um borð deyfði hann sig með koníaki sem hann þambaði af stút. Það kom niður á veiklulegu göngulagi fúinna fóta. Hann fékk aðstoð við að staulast upp landganginn. Allt gekk vel.
Nokkru eftir flugtak tók hann af sér öryggisbeltið og stóð upp. Hann mjakaði sér hálfhrasandi að útihurð vélarinnar. Í sama mund og hann greip um handfangið stökk flugfreyja fram fyrir hann og kallaði höstuglega: "Hvað heldurðu að þú sért að gera?"
"Ég þarf að skreppa á klósett," útskýrði hann.
"Ef þú opnar dyrnar hrapar flugvélin og ferst!" gargaði flugfreyjan æstum rómi.
Kalli var illa brugðið. Hann snérist eldsnöggt á hæl og stikaði óvenju styrkum fótum inn eftir flugvélinni. Um leið hrópaði hann upp yfir sig í geðshræringu: "Hvur þremillinn! Ég verð að skorða mig aftast í vélinni. Þar er öruggast þegar vélin hrapar!"
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.3.2023 | 12:31
Varasamt að lesa fyrir háttinn
Fátt gleður meira en góð bók. Margur bókaormurinn laumast til að taka bók með sér inn í svefnherbergi á kvöldin. Þar skríður hann undir sæng og les sér sitthvað til gamans og til gagns. Þetta hefur löngum verið aðferð til að vinda ofan af erli dagsins í lok dags. Svífa síðan á bleiku skýi inn í draumaheim.
Þetta getur verið varasamt á tækniöld. Bækur eru óðum að færast af pappír yfir í rafrænt form. Vandamálið er að á skjánum glampar blátt ljós svo lítið ber á. Það ruglar líkamsklukkuna. Þetta hefur verið rannsakað. Sá sem les af skjá er lengur að falla í svefn en þeir sem lesa á pappír. Svefn þeirra er grynnri og að morgni vakna þeir síður úthvíldir.
.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.3.2023 | 11:00
Með 19 skordýrategundir í hári og hársverði
Um nokkurt skeið hefur tíðindum af líki reggí-konungsins, Bobs Marleys, verið póstað fram og til baka á samfélagsmiðlum. Þar er fullyrt að við líkskoðun hafi fundist í hári hans og hársverði 19 tegundir af skordýrum. Aðallega lús en einnig köngulóm og fleira. Samtals töldust dýrin vera 70.
Litlu skiptir þó að vísað sé til þess að um falsfrétt sé að ræða. Ekkert lát er á dreifingu fréttarinnar. Þannig er það almennt með falsfréttir. Miklu meiri áhugi er á þeim en leiðréttingum.
Bob Marley dó 1981 eftir erfiða baráttu við krabbamein í heila, lungum og lifur. Í krabbameinsmeðferðinni missti hann hárið, sína fögru og löngu "dredlokka". Hann lést með beran skalla. Þess vegna voru engin skordýr á honum. Síst af öllu lús. Þar fyrir utan hafði hann árum saman þvegið hár og hársvörð reglulega upp úr olíu. Bæði til að mýkja "dreddana" og til að verjast lús. Hún lifir ekki í olíubornu hári.
Til gamans má geta að Bob Marley var ekki aðeins frábær tónlistarmaður. Hann var líka góðmenni. Þegar hann samdi lagið "No Woman, No Cry" þá vissi hann að það myndi slá í gegn og lifa sígrænt til frambúðar. Hann skráði fótalausan jamaískan kryppling, Vincent Ford, fyrir laginu. Sá hafði hvergi komið að gerð þess. Uppátækið var einungis til þess að krypplingurinn fengi árlega ríflegar höfundargreiðslur. Bob skráði einnig konu sína, Ritu Marley, fyrir nokkrum lögum af sömu ástæðu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.3.2023 | 11:39
Smásaga um viðskipti
Þegar skólasystkinin byrjuðu í unglingavinnunni hannaði Nonni barmnælur með myndum af lunda og kind. Nælurnar lét hann fjöldaframleiða í Kína. Sumarið fór í að koma vörunni í túristasjoppur. Einnig í sjoppur í fámennari þorpum þar sem fátt var um minjagripi.
Er haustaði var salan orðin hálf sjálfvirk. Pantanir bárust í tölvupósti og voru sendar með Póstinum. Ágæt innkoma, lítil vinna en einmanaleg. Tíminn leið hægt. Nonni saknaði þess að hitta fólk og spjalla.
Svo rakst hann á auglýsingu. Heildverslun með ritföng óskaði eftir lagermanni í hálft starf. Hann hringdi og var boðaður í viðtal. Reksturinn var í höndum ungs manns og 17 ára systur hans.
Nonni sagði vinnuna henta sér vel til hliðar við nælurnar. Maðurinn sýndi þeim áhuga. Spurði mikils og hrósaði framtakinu. Hann fékk hugmynd: Hvernig væri að sameina þessi tvö fyrirtæki í eina öfluga ritfanga- og næluheildsölu? Hann kallaði á systurina og bar þetta undir hana. Hún fagnaði. Nonni líka. Ekki sakaði að hann var þegar skotinn í henni. Hún var fögur og hláturmild.
"Drífum í þessu," skipaði bróðirinn. "Þið tvö skottist eftir nælulagernum á meðan ég geri uppkast að samningi." Þau ruku af stað. Stelpan ók á rúmgóðum sendibíl. Eins gott því Nonni var nýkominn með stóra sendingu. Nú var gaman. Fegurðardísin daðraði við hann. Þau ferjuðu lagerinn inn í vöruhús heildsölunnar. Bróðirinn kom með skjal til undirritunar. Mikill og torskilinn texti á flóknu lagamáli.
"Ég get ekki kvittað undir þetta," kvartaði Nonni. "Ég skil ekki helminginn af þessu. Þetta hljómar eins og ég sé að afsala mér nælunum til ykkar."
"Já, það er rétt," viðurkenndi maðurinn. "Við þurfum að umorða textann. Þetta er bráðabirgðauppkast. Á morgun semjum við í sameiningu nýtt skjal og fáum lögfræðing að þínu vali til að yfirfara það. En við skulum öll krota undir uppkastið svo þetta sé komið í ferli."
"Ég á erfitt með að skrifa undir þetta," mótmælti Nonni.
"Kanntu ekki að skrifa nafnið þitt?" flissaði stelpan og ýtti skjalinu að honum. Fallegt bros hennar sló hann út af laginu. Eins og ósjálfrátt undirritaði hann en sá um leið eftir því. Stelpan dró blaðið snöggt til sín og hallaði hlæjandi höfði á öxl hans: "Ég var að stríða þér!"
"Sofum á þessu í nótt og innsiglum samrunann með handabandi," stakk bróðirinn upp á og rétti fram hönd.
"Eða með knúsi," bætti stelpan við um leið og hún faðmaði Nonna þéttingsfast.
Morguninn eftir mættu Nonni og daman á slaginu klukkan 9. Hún heilsaði honum með knúsi og sagði "Gaman að sjá þig! Bróðir minn er lasinn. Hann var með ælupest í nótt. Við getum dólað okkur á meðan við að uppfæra viðskiptamannalistann. Slá inn símanúmer, netföng og það allt. Eða hvort við byrjum á að senda þinum viðskiptavinum póst um að héðan í frá sendi þeir pantanir á netfang ritfangasölunnar. Já, gerum það fyrst."
Dagurinn leið hratt. Stelpan var stríðin. Það var mikið hlegið. Nonni sveif um á bleiku skýi.
Bróðirinn var frá vinnu í 2 daga. Svo kom helgi. Á mánudeginum mætti hann strangur á svip. "Ég hef legið undir feldi," sagði hann. "Þú gagnast ekki nógu vel í vinnu hér. Þú ert ekki með aldur til að fá bílpróf. Plan okkar gengur ekki upp."
Þetta var reiðarslag. Nonni reyndi að bera sig vel. Lán í óláni var að kynnast stelpunni. Þau gætu áfram verið í sambandi ef hann tæki tíðindunum án leiðinda. "Hún skutlar þá lagernum til mín á eftir," lagði hann til.
"Nei, höldum honum hérna!" mótmælti bróðirinn höstuglega. "Þú afsalaðir þér honum til mín. Ég þinglýsti skjalinu. Þetta eru einföld viðskipti. Ekki illa meint. Sumir eru lúserar. Aðrir sigurvegarar. Þeir hæfustu lifa!"
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.3.2023 | 12:33
Metnaðarfullar verðhækkanir
Um þessar mundir geisar kapphlaup í verðhækkunum. Daglega verðum við vör við ný og hærri verð. Ríkið fer á undan með góðu fordæmi og hærri álögum. Landinn fjölmennir til Tenerife Allt leggst á eitt og verðbólgan er komin í 2ja stafa tölu. Hún étur upp kjarabætur jafnóðum og þær taka gildi. Laun hálaunaðra hækka á hraða ljóssins. Arðgreiðslur sömuleiðis. Einkum hjá fyrirtækjum sem nutu rausnarlegra styrkja úr ríkissjóði í kjölfar Covid.
Túristar og íslenskur almúgi standa í röðum fyrir framan Bæjarins bestu. Þar borga þeir 650 kall fyrir pulluna. Það er metnaðarfyllra en borga 495 kall fyrir hana í bensínsjoppum.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
26.2.2023 | 13:30
Poppstjörnur á góðum aldri
18. febrúar komst japanska myndlista- og tónlistarkonan Yoko Ono á tíræðisaldur. Þá var kveikt á friðarsúlunni í Viðey til að samfagna með henni. 43 ár eru síðan hún varð ekkja Johns Lennons er hann var myrtur úti á götu í New York. Svona er lífið.
Árlega höfum við ástæðu til að fagna hverju ári sem gæfan færir okkur. Um leið gleðst ég yfir yfir hækkandi aldri poppstjarna barns- og unglingsára minna.
Kántrý-útlaginn Willie Nelson kemst á tírðisaldur í apríl. Þessi eiga líka afmæli í ár (aldurinn innan sviga):
Tína Turner, Grace Slick (Jefferson Airplane) og Ian Hunter (Mott the Hoople) (84)
Ringo Starr og Smokey Robinson (83)
Bob Dylan, Joan Baez, Eric Burdon (Animals), Paul Simon og Neil Diamond (82)
Paul McCartney, Roger McGuinn (Byrds) og Brian Wilson (Beach Boys) (81)
Mick Jagger, Keith Richards, Roger Waters (Pink Floyd) og Steve Miller (80)
Rod Stewart, Ray Davies (Kinks), Roger Daltrey (Who) og Carly Simoon (79)
John Fogerty (Creedence Clearwater Revival), Debbie Harry (Blondie), Robert Wyatt, Neil Young, Pete Townshend (Who) og Eric Clapton (78)
Patti Smith, Linda Ronstadt, Donovan og Dolly Parton (77)
Arlo Guthrie, Elton John, Carlos Santana, Emmylou Harris, Joe Walsh og Iggy Pop (76)
Rober Plant (Led Zeppelin), Stevie Nicks (Fleedwood Mac) og Alice Cooper (75)
Bruce Springsteen og Hugh Cornwell (Stranglers) (74)
Peter Gabriel, Stevie Wonder og Billy Joel (73)
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.2.2023 | 12:03
Kossaráð
Kærustupör lenda iðulega í hremmingum þegar kossaárátta blossar upp hjá þeim. Vandamálið er nefið. Það er illa staðsett á miðju andlitinu. Þar skagar það út í loftið eins og Snæfellsnes. Við kossaflangsið rekast nefin venjulega harkalega saman. Oft svo illa að á eftir liggur parið afvelta á bakinu með fossandi blóðnasir. Við það hverfur öll rómantík eins og dögg fyrir sólu.
Þetta þarf ekki að vera svona. Til er pottþétt kossaaðferð sem setur nefin ekki í neina hættu. Hún er svona (smella á mynd til að stækka):
12.2.2023 | 11:35
Hvernig litu rokkstjörnurnar út í dag?
Í hvaða átt hefði tónlist Jimi Hendrix þróast ef hann væri á lífi í dag? En Janis Joplin? Eða Kurt Cobain? Þessum spurningum hefur áhugafólk um tónlist spurt sig í áraraðir. Það hefur borið hugmyndir sínar saman við hugmyndir annarra. Þetta er vinsælt umræðuefni á spjallsíðum netsins.
Önnur áhugaverð spurning: Hvernig liti þetta fólk út ef það væri sprelllifandi í dag? Tyrkneskur listamaður telur sig geta svarað því. Til þess notar hann gervigreind. Útkoman er eftirfarandi. Þarna má þekkja John Lennon, Janis Joplin, Jimi Hendrix, Kurt Cobain, Tupac, Freddie Mercury og Elvis Presley.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.2.2023 | 10:31
Hefur eignast lög sín eftir hálfrar aldar illindi og málaferli
Forsagan er þessi: Á sjöunda áratugnum haslaði bandarískur drengur, Tom Fogerty, sér völl sem söngvari. Til undirleiks fékk hann "instrúmental" tríó yngri bróður síns, Johns. Samstarfið gekk svo vel að Tom og tríóið sameinuðust í nýrri hljómsveit sem hlaut nafnið Creedence Clearwater Revival.
Framan af spilaði hún gamla blússlagara í bland við frumsamin lög bræðranna. Í ljós kom að John var betri lagahöfundur en stóri bróðir, betri söngvari og gítarleikari. Að auki var hann með sterkar skoðanir á útsetningum og stjórnsamur. Frábær söngvari og gítarleikari. Frábær lagahöfundur. Spilaði líka á hljómborð og saxafón.
Tom hrökklaðist úr því að vera aðalkall í að vera "aðeins" rythma gítarleikari á kantinum. Ekki leið á löngu uns hann hætti í hljómsveitinni og hóf lítilfjörlegan sólóferil. Á meðan dældi CCR út ofursmellum. Að því kom að hryn-par (bassi, trommur) hennar bar sig aumlega undan ofurríki Johns og var með ólund.
Hann bauð hryn-parinu að afgreiða sín eigin lög á næstu plötu CCR, "Mardi Grass". Það varð þeim til háðungar.
Í framhaldinu vildi John hefja sólóferil. En hann var samningsbundinn plötufyrirtæki sem liðsmaður CCR. Hann reyndi allra leiða til að rifta samningnum. Án árangurs. Hryn-parið og Tom stóðu þétt við bak plötufyrirtækisins. Seint og síðar meir tókst John að öðlast frelsi með því að framselja til plötufyrirtækisins höfundarrétt vegna CCR katalógsins. Þar með átti hann ekki lengur sín vinsælustu lög. Allar götur síðan hefur hann barist fyrir því að eignast lögin sín. Á dögunum upplýsti hann að loksins væri hann orðinn eigandi allra sinna laga eftir langar og strangar lagaflækjur.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
29.1.2023 | 08:38
Drottning sveitasöngvanna hellir sér í rokkið
Dolly Parton er stærsta nafn kántrý-kvenna. Hún hefur sungið og samið fjölda sívinsælla laga. Nægir að nefna "Jolene", "9 to 5" og "I will always love you". Síðast nefnda lagið er þekktara í flutningi Whitney Houston. Fyrir bragðið vita ekki allir að höfundurinn er Dolly.
Á dögunum fagnaði hún 77 ára fæðingardegi. Að því tilefni datt henni í hug að söðla óvænt um og hella sér í rokkið. Ekki seinna vænna. Hún ætlar að vanda sig við umskiptin. Gæta þess að verða ekki að athlægi eins og Pat Boone. Sá sætabrauðskall reyndi um árið að endurheimta fyrri vinsældir með því að skella sér í þungarokk. Útkoman varð hamfarapopp.
Rokkplata Dollyar verður ekkert þungarokk. Hún verður léttara rokk í bland við kraftballöður. Þetta verða lög á borð við "Satisfaction" (Rolling Stones), "Purple Rain" (Prince), "Stairway to heaven" (Led Zeppelin) og "Free Bird" (Lynyrd Skynyrd).
Dolly dreifir ábyrgð yfir á gestasöngvara. Þeir eru: Paul McCartney, John Fogerty (Creedence Clearwater Revival), Steven Tyler (Aerosmith), Pink, Steve Perry (Journey), Stevie Nicks (Fleetwood Mac), Cher og Brandi Carlili.
Vinnuheiti plötunnar er "Rock star".
Tónlist | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.1.2023 | 00:37
Lisa Marie Presley
Fyrir nokkrum árum var ég á flandri austur í Englandi. Að mig minnir í Brighton. Á sama gistiheimili bar að tvo unga menn. Gott ef þeir voru ekki sænskir. þeir voru að flakka þvers og kruss um England. Á einni sveitakrá blasti við þeim kunnugleg bardama. Þeir tóku hana tali og komust að því að hún væri Lisa Marie Presley, dóttir Elvis Presley.
Mér þótti sagan ótrúverðug. Í fyrsta lagi var Lisa Marie bandarísk. Allar slúðursögur af henni fjölluðu um hana í Bandaríkjunum með bandarísku fólki.
Í öðru lagi var hún moldríkur erfingi föður síns. Hún var auðmaður sem þurfti ekki að dýfa hendi í vatn. Hvorki kalt né heitt. Hvers vegna ætti hún að strita á kvöldin við að afgreiða bjór á enskri krá? Þetta passaði ekki.
Drengirnir bökkuðu ekki með sína sögu. Þeir sýndu mér ljósmyndir af sér með henni. Ljósmyndir eru ekki pottþétt sönnunargagn. Ég leitaði á náðir google. Í ljós kom að dóttir rokkkóngsins var stödd á þessari sveitakrá. Ensk vinhjón hennar ráku krána. Lisu Marie þótti einfaldlega gaman að afgreiða á barnum.
Svo féll hún frá, núna 12. jan, aðeins 54 ára.
-----------------------
Allt annað: Í tilefni af Þorra:
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
14.1.2023 | 13:10
Ást í háloftunum
Ég brá mér á pöbb. Þar var ung kona. Við erum málkunnug. Við tókum spjall saman. Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir. Hún var með bullandi prófskrekk. Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar. Hún var að slá á skrekkinn.
Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur. Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur. Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum. Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál. Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir. Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út. Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.
Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum. Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar. Þau höfðu að vísu átt góða nótt. En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig. Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll. Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.
Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan. "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi. "En hvað með flugprófið?" spurði hún. "Það var spaug," svaraði hann. "Ég veit ekkert um flugvélar. Ég er strætóbílstjóri!"
Spaugilegt | Breytt 15.1.2023 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.1.2023 | 11:33
Sjaldan launar kálfur ofeldi.
Ég þekki konu eina. Við erum málkunnug. Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman. Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns. Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni. Hann er dekurbarn. Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót. Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu. Það er eiginlega í neyð. Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa. Hún kemst ekki í búð án bílsins.
Núna um helgina varð hún á vegi mínum. Hún sagði farir sínar ekki sléttar. Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan. Honum var boðið í partý. Konan tók vel í það. Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ. Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.
Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.
- Ekki séns, svaraði kauði.
- Hvað átt þú við? Ég þarf að komast heim, útskýrði konan.
- Ég er að fara í partý. Það verður nóg að drekka. En það verður enginn ölvunarakstur.
- Ég er að lána þér bílinn minn. Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.
- Þú verður að redda þér sjálf.
- Hvernig á ég að redda mér fari? Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.
- Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa? hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.
Spaugilegt | Breytt 14.1.2023 kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.12.2022 | 18:35
Hvað ef?
Oft er fullyrt að Bítlarnir hafi verið réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Það skýri ofurvinsældir þeirra. Velgengni sem á sér ekki hliðstæðu í tónlistarsögunni. Enn í dag eru þeir ráðandi stórveldi og fyrirmynd 60 árum eftir að þeir slógu í gegn og 52 árum eftir að hljómsveitin snéri upp tánum.
Bítlarnir voru EKKI á réttum stað þegar þeir hösluðu sér völl. Þeir voru staðsettir í Liverpool sem á þeim tíma þótti hallærislegasta krummaskuð. Þetta var hafnar- og iðnaðarborg; karlar sóttu pöbbinn á kvöldin, rifust, slógust og konur voru lamdar heimafyrir. Enskuframburður þeirra var hlægilegur. Það voru ekki forsendur fyrir því að Liverpool guttar ættu möguleika á frægð og frama. John Lennon sagði að það hafi verið risapólitík þegar Bítlarnir ákváðu í árdaga að halda Liverpool-framburðinum.
Spurning um tímasetninguna. Hún var Bítlunum í hag. Það var ládeyða í rokkinu 1963. Hinsvegar hefðu Bítlarnir sómt sér vel á hátindi rokksins 1955-1958, innan um Presley, Chuck Berry, Little Richard, Jerry Lee Lewis, Fats Domino og Buddy Holly.
Bítlarnir hefðu líka spjarað sig vel 1965 eða síðar með Beach Boys og The Byrds.
Það sem skipti ÖLLU máli var að Bítlarnir voru réttir menn. Og rúmlega það. Þeir hefðu komið, séð og sigrað hvar og hvenær sem er.
Tónlist | Breytt 14.1.2023 kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)