Klámmynd Önnu frænku á Hesteyri

  Anna frænka á Hesteyri var viðkvæm fyrir nekt.  Svo mjög að hún svaf kappklædd.   Hún var stór og mikil um sig.  Stundum fór hún í megrun.  Það breytti litlu.

  Einu sinni sem oftar hringdi hún í apótekið á Neskaupstað.  Að þessu sinni falaðist hún eftir megrunardufti,  Nupo-létt.  Henni var illa brugðið er duftið barst með póstinum.  Á umbúðunum blasti við mynd af frægu málverki af nakinni konu. 

  Anna hringdi í geðshræringu í apótekarann.  Hún krafðist þess að sölu á duftinu yrði þegar í stað hætt.  Ella neyddist hún til að kæra apótekið fyrir dreifingu á klámi.

  Apótekarinn tók erindinu vel.  Hann þekkti frúna.  Hann þakkaði kærlega fyrir ábendinguna.  Hann myndi sjá til þess að myndinni yrði umsvifalaust breytt. 

  Nokkrum vikum síðar hringdi Anna.  Hún spurði hvort búið væri að fjarlægja klámmyndina.  Apótekarinn játti því.  Anna pantaði meira duft.  Tússpenni var dreginn fram og svartur síðkjóll teiknaður á nöktu konuna. 

  Anna var hin ánægðasta með útkomuna.  Hún hældi sér af því að hafa forðað apótekinu á Neskaupstað frá dreifingu á klámmynd.  

anna frænka

 


Jólagjöfin í ár!

  Út er komin meiriháttar svakaleg bók,  Born to Run - Sjálfsævisaga.  Í henni segir rokkgoðsögnin Bruce Springsteen sögu sína og hljómsveitarinnar E Street Band.  Ég er kominn með bókina í hendur og byrjaður að lesa.  Það er ekkert áhlaupaverk.  Hún er hnausþykkur doðrantur,  hátt í 700 blaðsíður.  Þær eru þétt skrifaðar með frekar smáu letri.  Þýðandi er Magnús Þór Hafsteinsson,  þekktur fyrir góðar og vandaðar þýðingar.

  Ég sé í hendi mér að bókin er ekki lesin á einu kvöldi.  Þetta er margra daga lestur;  margra daga skemmtun.  Ég geri betur grein fyrir henni að lestri loknum. 

bruce

 


Slegist í Húnaveri

  Um og upp úr miðri síðustu öld var landlægur rígur á milli næstu byggðarlaga.  Hann birtist meðal annars í því að í lok dansleikja tókust menn á.  Ólsarar slógust við Grundfirðinga,  Reyðfirðingar slógust við Eskifirðinga,  Skagfirðingar slógust við Húnvetninga og svo framvegis.  Þetta voru ekki hrottaleg átök.  Lítið var um alvarleg beinbrot eða blóð.  Liggjandi maður fékk aldrei spark í höfuðið.  Þetta var meira tusk.  Í mesta lagi með smávægilegu hnjaski.  

  Skagfirðingur einn lét sig sjaldan vanta í tuskið.  Hann var jafnan drjúgur með sig.  Mundi framgöngu sína hetjulegri en aðrir.  Eitt sinn tuskaðist hann við Húnvetning fyrir aftan Húnaver.  Sá felldi hann í jörðina og hélt honum niðri.  Sama hvað okkar maður ólmaðist þá var hann í skrúfstykki.  Hann kallaði á félaga sína:  "Strákar, rífið mannhelvítið af mér áður en ég reiðist!" 

tusk

 

 


Viðbjóðsmatur

  Ég átti erindi í matvöruverslun.  Fyrir framan mig í langri röð við afgreiðslukassann var hávaxinn grannur eldri maður.  Hann hélt á litlu laxaflaki á frauðplastsbakka.  Um hann var vafin glær plastfilma.

  Maðurinn sló takt með bakkanum;  bankaði honum í læri sér.  Við ásláttinn losnaði um plastfilmuna.  Að því kom að laxaflakið hrökk út úr bakkanum og veltist um skítugt gólfið og endaði með roðið upp.  Úti var snjór og slabb.  Fólk bar óhreinan snjó inn með sér.  Á blautu gólfinu flaut blanda af ryki,  sandi og mold.  

  Til að tapa ekki stöðu sinni í röðinni stóð gamlinginn áfram á sínum stað en teygði fót að flakinu.  Honum tókst að krækja skítugu stígvéli fyrir flakið og draga eftir drullunni til sín.  Hann reyndi að strjúka óhreinindin af því.  Kjötið var laust í sér.  Óhreinindin ýttust ofan í það.

  Mér þótti þetta ólystugt og sagði:  "Ég skal passa fyrir þig plássið í röðinni á meðan þú sækir annað flak."

  Það hnussaði í honum:  "Maður hefur látið annað eins ofan í sig án þess að verða meint af.  Maginn á togarajaxlinum er eins og grjótmulningsvél.  Tekur við öllu án þess að slá feilpúst!"  

  Maðurinn náði að troða laxinum á bakkann, leggja plastfilmuna yfir og sagði hróðugur:  "Ég smjörsteiki kvikindið heima.  Bakteríurnar þola ekki hita og drepast!" 

lax 


Bílpróf Önnu frænku á Hesteyri

  Anna frænka á Hesteyri í Mjóafirði var komin yfir miðjan aldur er hún tók bílpróf.  Góður höfðinglegur frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf í Reykjavík.  Ökuréttindin og bíllinn veittu einbúanum mikla gleði. 

  Anna hringdi til Akureyrar í mömmu og færði henni tíðindin.  Þær voru bræðradætur.  Mamma samgladdist og hvatti hana til að bruna norður í heimsókn.

  - Er hringtorg á Akureyri?  spurði Anna.

  Jú.  Mömmu taldist til að þau væru fimm.

  - Þá get ég ekki komið til Akureyrar,  svaraði Anna döpur í bragði.  Ástæðan var heiðursmannasamkomulag sem hún gerði við prófdómarann.  Í prófinu festist hún inni í innri hring á hringtorgi.  Hann tilkynnti henni að ökumaður sem kæmist ekki út úr hringtorgi fyrr en eftir sjö hringi væri óhæfur í umferðinni. 

  Anna upplýsti hann um að í Mjóafirði væri ekkert hringtorg.  Líkast til ekki á öllum Austfjörðum ef út í það væri farið.  Bauðst hún til að gera við hann heiðursmannasamkomulag um að aka aldrei til neinna staða með hringtorg.  Hún rétti honum hönd sína upp á það.  Hann tók boði hennar.  Hún stóð við sitt alla ævi. 

anna

    

         


Smásaga um einbúa

  Lengst vestur á Vestfjörðum býr Jósafat.  Hann er fjárbóndi og einbúi.  Hann er heimakær.  Fer ekki af bæ nema nauðsyn kalli á.  Einsetan hefur ágerst með árunum.  Á unglingsárum kunni hann að skemmta sér.  Hann eignaðist son eftir einnar nætur gaman.  Samband við barnsmóðurina er ekkert.  Samband feðgana er stopult.  Sonurinn er í Reykjavík og hringir einstaka sinnum í pabba sinn.  Eiginlega bara þegar eitthvað fréttnæmt,  svo sem eins og þegar hann trúlofaðist og gerði kallinn að afa.  

  Verra er að sjónin er farin að daprast.  Jósafat ber það undir héraðslækninn.  Sá pantar fyrir hann tíma hjá augnlæknastöð í Reykjavík.  Í þetta sinn hringir hann í soninn.  Beiðist gistingar í tvær nætur.  Það er velkomið.  Kominn tími til að hann hitti tengdadótturina og 5 ára afastrákinn.

  Yfir kvöldmat fær tengdadóttirin hugmynd:  Krakkinn verður búinn á leikskólanum klukkan fjögur daginn eftir.  Þá er kallinn laus.  Spurning hvort hann geti sótt strákinn.  Hann tekur vel í það.  Minnsta mál!

  Hann mætir í skólann á réttum tíma.  Gleðstur að sjá strákinn kominn í úlpuna sína og stígvél.   Hann þrífur í drenginn og arkar af stað.  Kauði berst um á hæl og hnakka.  Jósafat er vanur að draga ólm lömb og þetta er ekkert öðruvísi.  Greinilega er strokárátta í gutta.  Til að hindra strok skellir afinn honum flötum á gólfið og sest ofan á hann.

  Skömmu síðar koma foreldrarnir æstir og óðamála.  Spyrja hvað sé í gangi.  Leikskólastjórinn hafði hringt í þau.  Sagt að maður hafi komið og rænt einum pabba sem var að sækja barn sitt.  Barnið væri enn í skólanum ásamt barni hjónanna.  

  "Hvernig tókst þér að ruglast á skeggjuðum þrítugum manni og fimm ára barni?"  hrópar sonurinn.

  "Þetta skýrir margt,"  tautar afi skömmustulegur.  "Það var ekki einleikið hvað barnið var tregt í taumi"    

 

langdreginn


Fallegt fólk sem kýs að vera ljótt

  Fólki er ekki sjálfrátt.  Hjarðeðli er manneskjunni tamt.  Gott dæmi er "Bítlahárið" á sjöunda áratugnum.  Einn í hljómsveitinni Bítlunum tók upp á því að greiða hárið niður á enni.  Fljótlega tóku hinir Bítlarnir einnig upp á því.  Jafnframt leyfðu þeir hárinu að vaxa yfir eyrun.  Svo sló hljómsveitin í gegn.  Út um allan heim hermdu ungir menn eftir hárgreiðslu Bítlanna.

  Margir eiga erfitt með að vera fallegri en fólkið í kringum það.  Algengustu viðbrögð eru að leita á náðir lýtalækna.  Helst ófaglærðra.  Þá er fylliefninu botox sprautað í varir,  kinnar og víðar.  Sumir fylla í með steypu eða öðru sem hendi er næst.  Algengt er að farið sé varlega af stað.  Síðan verður þetta árátta,  einskonar kækur.

  Myndirnar sýna fyrir og eftir lýti.  

lýti alýti blýti clýti dlýti elýti kattakonanlýti mj


Frábært ráð gegn matasrsóun

  Fátt er skemmtilegra en hlusta á útvarp.  Enda er eins og útvarpið sé hannað til þess.  Ef maður er iðinn við kolann;  er duglegur við að hlusta á útvarp þá slæðist að hlustandanum margskonar fróðleikur.  Stundum til gagns og gamans.  Oft hvorutveggja.

  Um helgina voru sagðar útvarpsfréttir af matarsóun.  Talin voru upp fjölmörg ráð til að sporna gegn matarsóun.  Til að mynda að fara í matvörubúð með innkaupalista og láta ekki glepjast af tilboðum;  velja smærri pakkningar.  Einnig að sulta mat,  frysta hann og borða afganga.  Helst að lifa bara á afgöngum - skildist mér. 

  Kröftugasta ráðið var:  Að gera við gömul föt.  Ég fatta ekki hvernig það spornar gegn matarsóun.  Enda hef ég ekki lært matreiðslu.   

maturbuxur

  


Fjölskylduvænt framhjáhald

  Frönsk kona,  tveggja barna móðir,  vann lengst af sem einkaspæjari.  Meðal algengra og vinsælla verkefna var að njósna um fólk sem lá undir grun um að halda framhjá maka sínum.  Í vinnunni lærði hún hægt og bítandi hver eru helstu mistök fólks sem heldur framhjá og hvers vegna upp um það kemst.

  Hún tók æ oftar nærri sér hverjar urðu afleiðingar starfsins.  Iðulega kom til harðvítugs uppgjörs,  hjónaskilnaðar, upplausnar fjölskyldu og heimilis.  Sárast þótti henni að horfa upp á grátandi niðurbrotin börn í áfallastreituröskun. 

  Að því kom að hún þoldi þetta ekki.  Hún ákvað að snúa við blaðinu.  Hún lokaði á njósnir og stofnaði fyrirtæki sem býður upp á sérhæfða framhjáhaldsþjónustu.  Það skipuleggur framhjáhaldskvöld,  nætur eða helgarpakka.  Hún afgreiðir platsímtöl,  plat-sms,  útbýr og sendir út platboðskort eða fundarboð,  sviðsetur hverskonar atburði,  falsar hótelreikninga,  kvittanir frá veitingastöðum,  leigubílum; falsar ljósmyndir og önnur "sönnunargögn".

  Starfsemin gengur vel.  Nú leggst hún til svefns án samviskubits.  Ekki hefur komist upp um framhjáhald svo mikið sem eins kúnna.  Þetta eru fjölskylduvæn framhjáhöld.   

framhjáhald        


Ósvífið Nigeríusvindl

  Unga manninn,  Nígeríudrenginn,  dreymdi um að eignast tölvu.  Æðsta óskin var að eignast Apple tölvu.  Í Nígeríu er - einhverra hluta vegna - ævintýraljómi yfir Apple tölvum.  Kannski spilar inn í að plötufyrirtæki Bítlanna heitir Apple.  

  Á hverjum degi rölti drengurinn niður á sölutorg í von um að finna Apple tölvu á góðu verði.  Hann viðraði þetta við sölumann.  Sá selur síma af ýmsu tagi og fylgihluti.  Hann taldi sig geta útvegað Apple tölvu á góðu verði.  Hann bauð stráksa að koma á torgið daginn eftir.  Sem hann gerði.  Þar beið hans þessi fallega rauða tölva með upphleyptu gulu Apple merki.  Hann er að springa úr stolti yfir glæsitækinu. 

  Eina vandamálið er að tækið var dýrara en vonir stóðu til.  Hinir krakkarnir í þorpinu halda því fram að kauði sé fórnarlamb ósvífins Nígeríusvindls.  Hann veit að leiðindin stafa einungis af öfund.  Hann hlær að þeim. 

tölva 


Smá smásaga

  Í vor fæddist stór og myndarlegur drengur.  Honum var gefið nafnið Jónas.  Hann var 1,90 á hæð og þrekvaxinn eftir því.  Stærðin er ekki hið eina einkennilega við strákinn.  Aldur hans vekur undrun.  Hann fæddist 27 ára.

  Fæðingar eru svo sem af ýmsu tagi.  Kona nokkur fæddi frosk.  Önnur eignaðist eingetið barn.  Sumir eiga erfitt með að trúa þessu.  Jónas fæddisst 2023.  Samt er kennitala hans 080596.  Hann er jafn gamall og Janis Joplin, Jim Morrison,  Jimi Hendrix og Brian Jones voru er þau féllu frá.  Öll með J sem upphafsstaf í fornafni eða eftirnafni.  Eða hvorutveggja.  Kurt Cobain er undantekning af því að hann féll fyrir eigin hendi.  Upphafsstafur hans er næsti stafur á eftir J.

  Jónas hefur lokið námi í lögfræði.  Prófskírteini hans vottar það.  Einkunnirnar eru frekar lélegar. 

  Þrátt fyrir stærðina hefur hann engan skugga.  Sama hvort ljós,  sól eða önnur birta fellur á hann.  Kannski er hann bara skugginn af sjálfum sér. 

shadow


Það getur bjargað lífi ykkar og limum að vita þetta

  Við lifum á spennandi tímum.  Því miður í neikvæðri merkingu.  Við vitum ekkert hvernig mál eru að þróast.  Er Úkraínuher að rúlla rússneska hernum upp?  Eða eru Rússar með yfirhöndina?  Vopnaframleiðsla heimsbyggðarinnar er á flugi.  Vopnasala hefur sjaldan blómstrað meir.  Eru klasasprengjur komnar í gagnið?  Verður kjarnorkuvopnum beitt?  Í hafinu umhverfis Ísland er að verða krökkt af kafbátum.  

  Hvað með loftlagsvána?  Skógarelda?  hryðjuverk?  Flóð?  Hnífaburð ungmenna? 

  Hvar er öruggur staður til að vera á?  Ég veit það.  Hann er á Bíldshöfða 6.  Þar er bílasala.  Í auglýsingu frá henni segir:  "Brimborg,  öruggur staður til að vera á".

 

her     


Furðuvísa

  Í kjölfar Hamraborgarhátíðar,  Menningarnætur Reykjavíkur og Danskra daga í Stykkishólmi rann á mig ósjálfráð skáldagyðja.  Áður en ég vissi af hrökk upp úr mér furðuleg vísa.  Ég botna hvorki upp né niður í henni.  Inn í bullið blandaðist óvænt nafn á 56 ára Bítlalagi af plötunni "Sgt. Peppers...".  Ég kannast ekki við bragfræðina.  Kannski er hún útlend.  Fyrsta orð í annarri línu í báðum hendingum er það sama.  Líka fyrsta orð í þriðju línu.   

  Málhaltir hundar sátu á grindverki.

Þeir sleiktu í sig sólskinið af frímerki.

  Forstjórinn stóð þar hjá og glotti við fót.

Hann heimtaði að fá að fara á þorrablót

í maí

eins og Lucy in the Sky.

 

  Hundarnir þorðu ekki að segja neitt.  

Þeir fóru út í hött eins og yfirleitt.

  Forstjórinn vissi vel að hann fengi sitt.

Jafnvel þó hann þyrfti að gera hitt

í maí

eins og Lucy in the Sky.  

 


Hvað gerðist?

  Grandvar virðulegur maður keypti sér rándýra spariskó sem voru í tísku.  Örfáum dögum síðar voru skórnir bókstaflega búnir:  Sólarnir götóttir,  saumar farnir að gefa sig,  hælarnir uppurnir og skórnir að öðru leyti verulega sjúskaðir.

  Maðurinn fór með skóna í skóbúðina og krafðist endurgreiðslu.  Þar reif fólk kjaft.  Sakaði hann um óvenju bíræfna kröfu.  Honum ofbauð dónaleg framkoman.  Hann snéri sér til Neytendasamtakanna.  Þar mætti hann sömu framkomu og í skóbúðinni.  Vandamál var að engin kvittun var til staðar.  Hann froðufelldi af reiði yfir óréttlæti heimsins. 

  Víkur þá sögunni að öðrum manni.  Sá var að flytja til útlanda.  Hann setti íbúð sína í sölu.  Á tilteknum degi hafði hann opið hús.  Hann átti samskonar tískuskó.  Nema að þeir voru gamlir og gjörsamlega búnir.  Hann lét þá þó duga framyfir flutninginn til útlanda.  Þar eru skór miklu ódýrari. 

  Er opnu húsi lauk uppgötvaði hann að gömlu skórnir voru horfnir.  Í staðinn voru komnir splunkunýir skór af sama tagi.    

skór


Maður sem hatar landsbyggðina

  Kunningi minn er um áttrætt.  Hann hefur andúð á landsbyggðinni;  öllu utan höfuðborgarsvæðisins.  Hann er fæddur og uppalinn í miðbæ Reykjavíkur.  Foreldrar hans ráku þar litla matvöruverslun.  Það var hokur. Ungur byrjaði hann að hjálpa til.  Honum þótti það skemmtilegt.  

  Fjölskyldan tók aldrei sumarfrí.  Stráksi stækkaði og tók bílpróf þegar aldurinn leyfði.  1974 var hringvegurinn opnaður.  Yfir því ríkti mikill ævintýraljómi.  Þá keypti hann ódýran bíl og fékk samþykki foreldranna til að taka stutt frí og aka hringinn.

  Hringvegurinn var einbreiður malarvegur,  alsettur holum og "þvottabrettum".  Ökuþórinn fékk hræðslukast af áhyggjum yfir heilsu bílsins.  Auk þess fylltist óþéttur bíllinn af ryki.  Ekki bætti úr skák að framboð á gistirými var lítið en rándýrt.  Sama var með veitingasölu.

  Okkar maður kom hvergi auga á hið rómaða landslag sem hann hafði heyrt af.  Fjöll voru hvert öðru líkt og ekki samkeppnishæf við Esjuna.  Út um allt mátti sjó óspennandi tún, beljur og annað. 

  Á leið frá Skagafirði til Akureyrar hvellsprakk dekk undir bílnum.  Varadekk og önnur dekk voru í bágu ásigkomulagi.  Þetta var um helgi.  Ökuþórinn leitaði uppi eigendur dekkjaverkstæða.  Enginn var til í að opna verkstæði fyrr en á mánudeginum.  Hann sannfærðist um að óliðlegheitin væru vegna þess að hann var utanbæjarmaður. 

  Til að spara pening svaf hann í rykugum bílnum.  Eftir að gert var við dekk hætti hann við við hringferð.  Hann brunaði aftur til Reykjavíkur og sór þess eið að fara aldrei aftur út á land.  Í kjölfar óx andúðin á "sveitavarginum".  Hann liggur ekki á skoðun sinni um að landsbyggðin sé afæta á samfélaginu.  Hann snöggreiðist undir fréttum af fyrirhugaðri gangagerð eða öðrum samgönguúrbótum.

  Eitt sinn var Hagkaupum synjað um innflutning á hollenskum kartöflum.  Kallinn hætti alfarið að borða kartöflur.  Þannig mótmælti hann "ofríki bændamafíunnar".  Síðan borðar hann bara hrísgrjón,  spagettí eða brauð með mat.

  Hann hætti líka að borða mjólkurvörur.  Smyr sitt brauð með smjörlíki og setur útlent mjólkurduft út á kaffið.

reiður      


Smásaga um borð

  Skemmtiferðaskipið vaggar mjúklega.  Mikið er að gera á barnum.  Fastagestirnir mættir.  Mörg ný andlit líka.  Þétt setið við hvert borð.  Margir standa við barinn.  Músíkin er lágt stillt.  Barþjónarnir skynja að fólkið vill masa.  Masið hljómar eins og niður aldanna.  Jafn og þéttur kliður sem er brotinn upp með einstaka hlátrarsköllum. 

  Skyndilega rjúfa þrjú hvell bjölluslög stemmninguna.  Það er síðasta útkall á barinn.  Gestirnir þekkja þetta.  Örtröðin við barinn þéttist.

  Hálftíma síðar eru öll ljós tendruð.  Samtímis er slökkt á músíkinni.  Raddsterkur barþjónn kallar:  "Góðir gestir,  takk fyrir komuna.  Góða nótt!"

  Barþjónarnir hefja tiltekt á meðan gestirnir tínast út og halda til kauju.  Svo slökkva þeir ljós og loka á eftir sér.

  Allt er hljótt.  Að nokkrum tíma liðnum hvíslar borð næst útidyrunum:  "Psss,  psss.  Hey,  þið borð.  Ég þarf að ræða við ykkur."  Engin viðbrögð.  Þá áttar borðið sig á að borð hafa ekki eyru;  engan munn og talfæri.  Þau hafa ekki heila;  ekkert taugakerfi.  Þau geta ekki einu sinni sýnt ósjálfráð viðbrögð.  Við þessa hugsun roðnar borðið af skömm.  Svo fyllist það yfirlæti.  Það hnussar og tautar hæðnislega:  "Þetta mættu fleiri vita um borð!"  

bar  


Vandræðalegt hlutverk götulistamanns

  Böskarar er það fólk kallað sem spilar, syngur og skemmtir almenningi að öðru leyti á götum úti.  Áhorfendur/áheyrendur kunna vel að meta.  Skemmtikraftarnir hafa fyrir framan sig hatt eða opna tösku.  Þangað kasta vegfarendur smápeningum.  Þetta er vinsælt í erlendum stórborgum.  Hérlendis má stundum rekast á útlendinga spila á harmóniku fyrir utan stórmarkaði.

  Í Brighton á Englandi starfar böskari að nafni Shane Dyer.  Hann kann að syngja og spila á gítar eitt lag.  Aðeins eitt lag.  Það er "Streets of London".  Sívinsælt lag eftir Ralf McTell.  Best þekkt í flutningi Rogers Withakers og Anti-Nowhere Leaque.  Orri Harðarson hefur sungið það með íslenskum texta eftir Ómar Ragnarsson.

  Ég hef séð náungann standa með gítarinn sinn úti á götu.  Hann hvorki syngur né spilar.  Að honum streymir þó fólk og kastar peningi í töskuna hans.  Um leið tilkynnir það honum að þetta sé greiðsla fyrir að hann flytji ekki lagið næsta hálftímann á meðan viðkomandi sinnir sínum erindum í nálægum verslunum.

  Shane játar að honum þyki þetta vandræðalegt og niðurlægjandi.  Hann telur flutning sinn á laginu vera frambærilegan.  Hinsvegar grunar hann að fólk sé með óþol gagnvart laginu.  Kostur er að hann þénar meira fyrir að spila ekki heldur en á meðan hann spilaði.

  Kannski ætti hann að læra annað lag.  Hann gæti fengið fé fyrir að spila það ekki.  Gæti tvöfaldað innkomuna. 

     


Bestu vísnasöngvarnir

  Singersroom er bandarískt málgagn R&B og sálartónlistar (soul).  Þar á bæ er þó líka fjallað um aðra tónlistarstíla.  Til að mynda birtist þar á dögunum áhugaverður listi yfir bestu vísnasöngva sögunnar (folk songs).  Listinn ber þess merki að vera tekinn saman af Bandaríkjamönnum.  Þó slæðast þarna með lög með sænsk-enska Cat Stevens og enska Nick Drake. 

  Hvað svo sem segja má um listann þá eiga öll lögin heima á honum.

 

1.  This Land Is Your Land - Woody Guthrie

2.  Irene - Leadbelly (líka þekkt sem Goodnight Irene)

3.  Little Boxes - Melvina Reynolds (Þekkt hérlendis sem Litlir kasssar í flutningi Þokkabótar)

4.  If I Were A Carpinter - Tim Hardin

5.  500 Miles - Hedy West

6.  The Big Rock Candy Mountain - Harry McClintock

7.  Blues Run The Game - Jackson C, Frank

8.  Wild World - Cat Stevens

9.  If I Had A Hammer (Hammer Song) - Pete Seeger

10. Freight Train - Elizabeth Cotten

11. The Times They Are A-Changin´ - Bob Dylan

12. Blue Moon Of Kentucky - Bill Monroe

13. Candy Man - Mississippy John Hurt

14. Deep River Blues - Doc Watson

15. Pink Moon - Nick Drake


Skipti um andlit og fann ástina

  2018 sat Joe DiMeo í bíl í New Jersey í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Þetta var ungur og hraustur drengur,  24 ára.  Þá lenti hann í hroðalegu bílslysi.  Á augabragði breyttist bíllinn í skíðlogandi eldhaf.  Joe brenndist illa.  80% líkamans hlaut 3ja stigs bruna.  Andlitið varð ein klessa og læknar þurftu að fjarlægja nokkra fingur.

  Læknar reyndu hvað þeir gátu að lagfæra andlitið.  Þeir sóttu húð, bandvefi og fleira en varð lítið ágengt í 20 tíma aðgerð.  Nokkrum árum síðar var afráðið að taka andlit af nýdánum manni og græða á Joe.  140 manns tóku þátt í 23ja tíma aðgerð.  Þetta voru skurðlæknar,  hjúkrunarfræðingar og allskonar. 

  Aðgerðin tókst eins og bjartsýnustu menn þorðu að vona.  Að vísu er nýja andlitið of stórt og af 48 ára manni.  Joe þykir þetta skrýtið.  En það venst.  Mestu skiptir að vera kominn með andlit.  

  32 ára hjúkrunarfræðingur í Kaliforniu,  Jessy Koby, frétti af aðgerðinni.  Starfandi á sjúkrahúsi heillaðist hún af uppátækinu.  Til að fá nánari vitneskju af þessu setti hún sig í samband við Joe.  Eftir því sem þau kynntust betur kviknuð tilfinningar í garð hvors annars.   

  Nú er hún flutt inn til hans og ástin blómstrar.         

nýtt andlitný ásjóna


Aldraðir glæpamenn

  Ég átti erindi í bókasafn.  Þar sátu tveir aldraðir karlar og ein gömul kona.  Ég giska á að þau hafi verið um eða yfir áttrætt.  Spjall þeirra barst að forréttindum aldraðra.  Þau könnuðust við að komast upp með eitt og annað vegna þess að almenningur standi í þeirri trú að gamalt fólk sé heiðarlegt.  Þau flissuðu og karlarnir nefndu dæmi.

  Annar sagðist ekki lengur aka bíl.  Þess í stað taki hann strætó - án þess að borga.  Hann tekur upp símann,  leggur hann á lesarann en borgar ekki.  Bílstjórarnir fatta ekki neitt.

  Hinn hafði unnið hjá stóru fyrirtæki.  Starfsmenn fengu skírteini sem veitir afslátt á ýmsum vörum og þjónustu.  Skírteinið er löngu útrunnið.  Hann notar það samt stöðugt og enginn fattar.    

  Þeir komust upp með að hnupla smáhlutum í verslunum.  Öryggisverðir og afgreiðslufólk vaktar bara ungt fólk.  Þeir eiga líka til að fara á matsölustaði sem rukka eftir á.  Þeir stinga af þegar komið er að borgun.  Trixið er að fara út í rólegheitum.  Ef þeir eru nappaðir þá leika þeir sig ringlaða.  Þykjast ekki skilja upp né niður.  Allir sýna því skilning. 

  "Ég myndi alddrei þora neinu svona,"  sagði konan og staulaðist út.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband