Fékk sér sushi og missti hönd

  Suður-kóreskur gutti slapp í sushi á dögunum.  Skipti engum togum að í kjölfarið mynduðust stórar blöðrur á annarri hendi hans.  Þær voru fylltar blóði.  Læknar stungu á blöðrurnar og hleyptu blóðinu úr þeim.  Þá bættust við stór opin sár.  Þeim fjölgaði jafnt og þétt upp höndina án þess að hægt væri að stöðva sýkinguna.  Neyðarráðstöfun var að fjarlægja höndina af til að bjarga öðrum hluta líkamans.

  Hrár fiskur er varasamur.  Hrái fiskurinn í sushi inniheldur iðulega bakteríur og orma.  Það gerir heilsuhraustum ekki mein að ráði.  Í mesta lagi smávægileg magaóþægindi í einn eða tvo daga.  Verra er þegar um heilsulitla er að ræða.  Eins og í þessu tilfelli.  Maðurinn er með léleg nýru og sykursýki 2.  Þar að auki er hann á áttræðisaldri og hlustar á Bee Gees.   

bakteríusýking


Veitingaumsögn

 - Veitingastaður:  PHO Vietnam Restaurant,  Suðurlandsbraut 6,  Reykjavík

 - Réttir:  Grísakótelettur og lambakótelettur

 - Verð:  1890 - 3990 kr.

 - Einkunn: **** (af 5)

  Móðir mín á erfitt með gang eftir að hún fékk heilablóðfall.  Vinstri hluti líkamans lamaðist.  Öllum til undrunar - ekki síst læknum - hefur henni tekist að endurheimta dálítinn mátt í vinstri fót.  Nægilegan til að notast við göngugrind.  Henni tekst jafnvel að staulast afar hægt um án grindarinnar. 

  Þetta er formáli að því hvers vegna ég fór með hana á PHO Vietnam Restaurant.  Hún er búsett á Akureyri en brá sér í dagsferð til borgarinnar.  Henni þykir gaman að kynnast framandi mat.  Ég ók með hana eftir Suðurlandsbraut og skimaði eftir spennandi veitingastað með auðveldu aðgengi fyrir fatlaða.  Vietnam Restaurant virtist vera heppilegt dæmi.  Ég ók upp á gangstétt og alveg að útidyrahurðinni.  Þar hjálpaði ég mömmu út úr bílnum og sagði henni að ég yrði eldsnöggur að finna bílastæði. 

  Mamma var ekki fyrr komin út úr bílnum en ungur brosmildur þjónn staðarins spratt út á hlað, studdi hana inn og kom henni í sæti.  Aðdáunarverð þjónusta.  Þetta var á háannatíma á staðnum;  í hádegi.

  PHO Vietnam Restaurant er fínn og veislulegur staður. 

  Ég fékk mér grillaðar grísakótelettur.  Mamma pantaði sér grillaðar lambakótelettur.  Meðlæti voru hvít hrísgrjón,  ferskt salat og afar mild súrsæt sósa í sérskál.  Á borðum var sterk chili-sósa í flösku.  Við forðumst hana eins og heitan eld.  Þóttumst ekki sjá hana.  

  Réttirnir litu alveg eins út.  Þess vegna er undrunarefni að minn réttur kostaði 1890 kr. en lambakóteletturnar 3990 kr.  Vissulega er lambakjöt eilítið dýrara hráefni.  Samt.  Verðmunurinn er ekki svona mikill.

  Kóteletturnar litu ekki út eins og hefðbundnar kótelettur.  Engin fituarða var á þeim.  Fyrir bragðið voru þær dálítið þurrar.  Vegna þessa grunar mig að þær hafi verið foreldaðar.  Sem er í góðu lagi.  Ég var hinn ánægðasti með þær.  Mömmu þóttu sínar aðeins of þurrar.  Að auki fannst henni þær skorta íslenska lambakjötsbragðið;  taldi fullvíst að um víetnamskt lamb væri að ræða.  Ég hef efasemdir um að veitingastaður á Íslandi sé að flytja til Íslands lambakjöt yfir hálfan hnöttinn.  Nema það sé skýringin á verðmuninum.

  Kóteletturnar,  þrjár á mann,  voru matarmiklar.  Hvorugu okkar tókst að klára af disknum. 

  Að máltíð lokinni sagði ég mömmu að hinkra við á meðan ég sækti bílinn.  Er ég lagði aftur upp á stétt sá ég hvar brosandi þjónn studdi mömmu út.  Annar en sá sem studdi hana inn.  Til fyrirmyndar.

víetnamskar kóteletturPHO Vietnam Restaurantborð á VRyfirlit VR


Ný verslun, gamalt verð

  Í vikunni hafa stórar tveggja blaðsíðna auglýsingar birst í dagblöðum.  Þar er boðað að splunkuný verslun verði opnuð með stæl í dag (laugardaginn 1. september).  Gefin eru upp skapleg verð á skóm og fleiri vörum.  Svo skemmtilega vill til að einnig eru gefin upp önnur og hærri verð á sömu vörum.  Fyrir framan þau segir: Verð áður.  Hvernig getur búð vitnað í eldra verð sem gilti áður en hún var opnuð?  


Nýtt og öðruvísi súkkulaði

  Fátt er hollara og bragðbetra en súkkulaði.  Einkum svokallað suðusúkkulaði.  Fyrirferðarlítill orkubiti í fjallgöngur.  Jafnvel líka í eftirleit.  Verra er að á allra síðustu árum hafa verið blikur á lofti.  Kínverjar eru hægt og bítandi að uppgötva súkkulaði.  Þeir eru fimmti hluti jarðarbúa.  Þegar þeir uppgötva klósettpappír og eldhúsrúllur getum við kvatt regnskógana.

  Óttinn við að Kínverjar klári súkkulaðibirgðir heimsins byggist á smá misskilningi.  Ég ræddi þetta í gær við helsta súkkulaðifræðing Íslands.  Heimsendaspáin gengur út á óbreytta ræktun kakóbaunarinnar.  Hið rétta er að framboð á nýjum ræktarlöndum heldur í við vaxandi eftirspurn.  

  Ennþá skemmtilegra:  Tekist hefur að hanna frá grunni og rækta splunkunýja kakóbaun.  Súkkulaði unnið úr henni hefur ekkert með uppskrift á öðru súkkulaði að gera.  Þetta er alveg nýtt og sjálfstætt súkkulaði,  kallað Rúbin.  Bragðið er súkkulaðibragð en samt mjög "spes".  Til að skynja muninn er ráð að halda fyrir nefið á meðan súkkulaðinu er stungið upp í munn.  Síðan er beðið eftir því að súkkulaðið bráðni á tungunni.  Upplagt að ráða krossgátu eða Soduku á meðan.  Að því loknu er andað með nefinu á ný.  Heillandi og nýstárlegt bragð nýja súkkulaðisins kemur skemmtilega á óvart. 

  Tekið skal fram að ég sé ekki um auglýsingar fyrir Nóa, Síríus, Freyju,  Góu né neina aðra sælgætisframleiðslu.  Engin leynd er yfir því að ég vann í Freyju sumarið 1977.  1980-og-eitthvað hannaði ég einhverjar sælgætisumbúðir fyrir Freyju.  Kannski eru  umbúðirnar um rauðar lakkrísmöndlur enn í umferð?  Síðan hef ég ekki átt nein samskipti við Freyju.  Þar fyrir utan er ekkert sælgæti framleitt í Færeyjum.  Á dögunum hófst þar í fyrsta skipti í sögunni framleiðsla á ís.

chocolate

 

    


Gátan leyst um það hver samdi eitt frægasta Bítlalagið

  Hátt á þriðja hundrað lög hafa komið út á plötu með Bítlunum.  Það eru góð afköst.  Hljómsveitin starfaði á plötuútgáfumarkaði aðeins í 6 ár.  Uppistaðan af lögunum voru skráð á höfundana John Lennon og Paul McCartney. Framan af sömdu þeir flest lög í sameiningu.  Þegar á leið varð algengara að þeir semdu lögin sitt í hvoru lagi.

 Eftir upplausn Bítlanna 1969 var endi bundinn á samstarfið.  Paul lenti í hatrömmu stríði við hina Bítlana vegna uppgjörs á fjármálum.  Allir Bítla hófu sólóferil.

  Í blaðaviðtölum næstu ár voru John og Paul iðulega spurðir að því hver hefði samið hvað í hinu og þessu laginu.  Þeir voru algjörlega sammála um allt þar um að undanskildum tveimur lögum.  Merkilegt hvað þeir voru smmála í ljósi þess að hljómsveitin gekk í gegnum tímabil þar sem liðsmenn voru hálfir út úr heimi í dópþoku.  

  Lögin tvö sem þá greindi á um eru "In My Life" og "Eleanor Rigby".  Hið fyrrnefnda hefur iðulega sigrað í kosningu um besta dægurlag allra tíma.  Þess vegna skiptir þetta miklu máli.  Og þó.  Lennon og McCartney litu alltaf á sig á sjöunda áratugnum sem teymi.  Afrek annars var sjálfkrafa einnig afrek hins.

  Paul heldur því fram að hann hafi samið lagið "In My Life" en John textann.  Paul segist hafa samið lagið undir áhrifum frá lagi eftir Smokey Robinson.  John hélt því fram að hann hafi samið bæði lag og texta með smávægilegum ábendingum frá Paul.  Sterk vísbending um höfund lagsins er að John er forsöngvari þess.    

  Breskur stærðfræðiprófessor,  Jason Brown,  hefur rannsakað málið í 10 ár.  Fleiri hafa lagt honum lið við að greina og skrásetja höfundarsérkenni Johns og Pauls í 149 lögum.  Niðurstaðan er ótvíræð:  John samdi "In My Life" að uppistöðu til.  Bæði lag og texta.  Reyndar var aldrei ágreiningur um að textinn væri Lennons.  Þar fyrir utan hefði það verið á skjön við önnur vinnubrögð að texti og lag væru ekki samin samtímis.  Að vísu var texti stundum endursaminn eftirá.  Stundum var texti eftir Paul umskrifaður lítillega af John.  Aldrei samt neitt umfram vinsamlegar ábendingar.  Þó að John væri miklu betra ljóðskáld þá var Paul fínn textahöfundur líka.  John studdi hann alltaf sem textahöfund - og reyndar á öllum sviðum - og hvatti til dáða.  Paul hafði gott sjálfstraust vitandi að ef eitt besta ljóskáld rokksins,  John Lennon,  væri sátt við texta hans þá væri textinn í góðu lagi.   

  Niðurstaða Jasons Browns er ekki óvænt fyrir okkur Bítlanörda.  Ég ætla að flestir sem hlusta mikið á Bítlana hafi skynjað að um ekta Lennon-lag sé að ræða.  1989 kom út í Bandaríkjunum afar vönduð heimildarbók um Bítlalög,  "Beatlesongs".  Hún er almennt talin vera ein besta heimild um hver er hvað og hvers er hvurs í hverju einstaka Bítlalagi.  Reyndar hafa komið upp dæmi sem sýna að hún er ekki algjörlega óskeikul.  Í bókinni er höfundarhlutur Johns og Pauls í laginu skilgreindur 65% / 35%.  Miðað við að texti Lennons sé allt að 50% af dæminu þá er hlutur hans í lagi vanmetinn.  Réttari hlutur ætti að vera nær 90/10%.  Nema ef Paul á meira í textanum en halda má.  Sem er ólíklegt.   Textinn er afar Lennon-legur. 

  Þessu er öfugt farið með "Eleanor Rigby".  Enga tíu ára rannsókn þarf til að finna út að það sé höfundarverk Pauls.  Í laginu er ekkert sem ber höfundareinkenni Johns - ef frá er talin textalínan "Ah,  look at all the lonely people."  Í dag er vitað að sú lagína var samin af George Harrison.  Hans er þó ekki getið í höfundarskráningu lagsins.  Sem er ósanngjarnt.  Þessi laglína vegur þungt í heildarmynd lagsins.  Texti línunnar er blús-legur að hætti Johns.  Þó má vera að George hafi ort hana líka.  Nema að hann hafi aðeins lagt til laglínubrotið og þess vegna ekki verið skráður meðhöfundur Lennon-McCartney?

 

Lennon - McCartney 

      

 


Minningarorð um Kristínu Guðmundsdóttur

  Í dag er til moldar borin ástkær skólasystir,  Kristín Guðmundsdóttir í Grindavík.  Við vorum samferða í Héraðsskólanum á Laugarvatni á fyrri hluta áttunda áratugarins.

  Allir strákarnir í skólanum nema einn voru skotnir í Stínu.  Ekki aðeins vegna þess að hún var gullfalleg.  Líka vegna hennar geislandi persónuleika.  Hún var glaðvær,  jákvæð, hlý og afskaplega skemmtileg.

  Nemendum á Laugarvatni var mismunað gróflega eftir kynjum.  Drengjaheimavistir og stúlknaheimavistir.  Stranglega var bannað að flakka þar á milli.  Slík ósvífni kostaði brottrekstur úr skólanum.

  Stína bjó á heimavist sem hét Hlíð.  Nauðsyn braut lög.  Reglur viku fyrir ljúfum eftirmiðdögum um helgar.  Fátt var skemmtilegra en að heimsækja Stínu og vinkonur hennar síðdegis um helgar.  Bara að spjalla saman,  vel að merkja.  Ekkert annað.   Það var góð skemmtun.  Þarna varð til sterk lífstíðarvinátta.

  Fyrir nokkrum árum tókum við skólasystkini frá Laugarvatni upp á því að hittast af og til.  Meiriháttar gaman.  Skugga bar á síðasta endurfund er Stína var fjarri vegna baráttu við krabbamein.  Hennar er nú sárt saknað.  Ein skemmtilegasta og indælasta manneskja sem ég hef kynnst.  Ég er þakklátur fyrir frábær kynni.

 

KristínLaugarvatn


Afi gestrisinn

  V-íslensk frænka mín í Kanada,  Deb Ísfeld,  hefur boðað komu sína til Íslands.  Hún tilheyrir ekki rótgrónu íslensku Ísfeldsættinni.  Langafi hennar,  Guðjón Ísfeld,  tók upp Ísfeldsnafnið er hann flutti vestur um haf í byrjun síðustu aldar.  Margir gerðu það.

  Guðjón var bóndi á Hrafnhóli í Hjaltadal.  Þá bjó Stefán afi minn á Nautabúi í Hjaltadal.  Kindurnar hans fenntu í kaf og drápust.  Við það snöggreiddist afi og hafði vistaskipti við Guðjón frænda sinn. 

  Þegar ég var krakki á Hrafnhóli á sjöunda áratugnum kom Gísli sonur Guðjóns í heimsókn.  Afi var upprifinn af heimsókninni.  Gísli talaði íslensku með enskuívafi.  Er Gísli sat við eldhúsborðið heima tók afi eftir því að kaffibollinn hans tæmdist.  Afi brá við snöggt og sótti kaffikönnuna.  Hún stóð á eldavélarhellu hinumegin í eldhúsinu.

  Afi átti erfitt um gang vegna brjóskeyðingar í mjöðmum.  Utan húss studdist hann við tvo stafi.  Innan húss studdist hann við borð,  bekki og stóla.  Hann fór því hægt yfir með kaffikönnuna.  Í þann mund er hann byrjaði að hella í bolla Gísla spurði pabbi að einhverju.  Gísli svarði snöggt:  "No, no, no!".  Afi hélt að hann ætti við kaffið og væri að segja:  "Nóg, nóg, nóg!".  Afi tautaði:  "Þú ræður því."  Hann brölti með kaffikönnuna til baka.  Gísli horfði í forundran til skiptis á eftir afa og í rétt botnfullan kaffibollann. 

kaffi 

 


Örstutt smásaga um bílaverkstæði

  Stelpurnar á bílaverkstæðinu Þrjú hjól undir bílnum raða sér í kringum eldhúsborðið.  Það er kaffitími.  Sigga "litla" brestur í grát.  Hún grætur með hljóðum eins og kornabarn.  Hinar stelpurnar þykjast taka ekki eftir þessu.  Þetta gengur vonandi fljótt yfir.  Svo reynist ekki vera.  Hún gefur í.  Korteri síðar spyr Sigga "sprettur":  "Hvað er að?  Meiddir þú þig í tánni?"

  "Ég fékk uppsagnarbréf áðan,"  upplýsir Sigga "litla".  "Mér er gert að rýma skrifborðið mitt fyrir klukkan fimm."  Henni er eins og smávegis létt.  Nokkuð slær á grátinn.

  "En þú ert sú eina sem kannt á kaffivélina,"  mótmælir Sigga "stóra".  Hún fær þegar í stað kvíðakast.  Sigga "litla" róar hana:  "Þið getið notað hraðsuðuketilinn og skipt yfir í te."

  "Kakómjólk er líka góð," skýtur Sigga "sæta" að.  "Hún er sérlega góð með rjómatertu sem er skreytt með jarðaberjum og kíví.  Ég hef smakkað svoleiðis.  Ég hef líka smakkað plokkfisk."

  Kaffispjallið er truflað þegar inn þrammar stór, spikfeitur og tröllslegur maður.  Hann hefur rakað af sér vinstri augabrúnina.  Fyrir bragðið er léttara yfir þeim hluta andlitsins.  "Ég þarf að láta stilla bílinn minn," segir hann.

  "Stilla vélina?" spyr Sigga "litla" kjökrandi.

  "Nei, útvarpið.  Það er stillt á Rás 2.  Ég vil að það sé stillt á rás 1."

  "Ekkert mál.  Þú mátt sækja bílinn á föstudaginn í næstu viku."

  "Frábært!  Lánið þið manni bíl á meðan?"

  "Nei,  en við getum leigt þér reiðhjól.  Reyndar er það í barnastærð.  Á móti vegur að leigan er lág.  Aðeins 7000 kall dagurinn."

  "Ég hef prófað að setjast á reiðhjól.  Þá datt ég og fékk óó á olnbogann.  Kem ekki nálægt svoleiðis skaðræðisgrip aftur.  Ég kaupi mér frekar bíl á meðan þið dundið við að stilla á Rás 1." 

  "Þú getur líka keypt pylsuvagn.  Hérna neðar í götunni er einn til sölu."

  "Takk fyrir ábendinguna.  Þetta lýst mér vel á.  Ég skokka þangað léttfættur sem kiðlingur."  Hann kjagar umsvifalaust af stað.  Í vitlausa átt.

  Andrúmsloftið er léttara.  

  "Eigum við ekki að syngja kveðjusöng fyrir Siggu "litlu?",  stingur Sigga "sprettur" upp á.  Því er vel tekið.  Fyrr en varir hljómar fagurraddað  "Éttu úldinn hund kona,  éttu úldinn hund". 

  Þetta er svo fallegt að Siggu "litlu" vöknar enn og aftur um augu.  Hún hugsar með sér að úldið hundakjöt þurfi ekki endilega að vera síðra en þorramatur.  Kannski bara spurning um rétt meðlæti.

   Er síðustu söngraddirnar fjara út grípur Sigga "sprettur" tækifærið og biður Siggu "litlu" um að tala við sig undir fjögur augu.  Þær ganga út á mitt gólf. 

  "Hvað er málið með þennan brottrekstur?"

  "Ég fékk formlega viðvörun fyrir 3 mánuðum.  Mér var hótað brottrekstri ef ég bætti ekki mætinguna.  Þú veist að ég sef of oft yfir mig.  Vekjaraklukkan er til vandræða.  Hún gengur fyrir rafmagni.  Þegar rafmagni slær út þá fer klukkan í rugl."

  "Þú færð þér þá bara batterísklukku."

  "Ég get það ekki.  Ég á ekkert batterí."

  "Það er einhver skekkja í þessu.  Þú stofnaðir verkstæðið.  Þú ert eini eigandi þess og ræður öllu hérna.  Hvernig getur þú rekið sjálfa þig?"

  "Að sjálfsögðu hvarflar ekki að mér að mismuna fólki eftir því hvort að um eiganda eða óbreyttan launþega ræðir.  Annað væri spilling.  Svoleiðis gera Íslendingar ekki.  Hefur þú ekki lesið blöðin?  Ísland er óspilltasta land í heimi."

verkstæði 


Hverjir gætu keppt við aðsóknarmet Guns n´ Roses?

  Eins og flestir vita þá sló ensk-bandaríska rokkhljómsveitin Guns n Roses aðsóknarmet á Íslandi í síðustu viku. Mjög svo afgerandi.  Fyrra metið átti dansk-bandaríska þungarokksveitin Metallica.  19 þúsund sóttu hljómleika hennar.  26 þúsund borguðu sig inn á hljómleika Gönsaranna. 

  Bandaríski súkkulaðistrákurinn Justin Timberlake seldi vel yfir 16 þúsund miða,  Roger Watetrs 15 þúsund og þýsku þungarokkararnir Rammstein 12 þúsund.

  Aðsóknarmet Gunsara er ríflegt og eiginlega ótrúlegt.  Íbúar landsins eru 350 þúsund.  Nálægt hálft áttunda prósent mætti á hljómleika þeirra.  Ætla má að sá hópur hafi nánast einungis komið úr röðum fólks á aldrinum 20 - 50 ára.  Fá börn og ellilífeyrisþegar.  Flestir líkast til á fimmtugsaldri eða þar í grennd. 

  Gaman er að velta fyrir sér hver eða hverjir gætu jafnað aðsóknarmet Gunsara.  Eða jafnvel slegið það.  Í fljótu bragði koma aðeins tvö nöfn til greina.  Annars vegar the Rolling Stones.  Hins vegar Paul McCartney. 

 


Rokkhljómsveit er eitt æðsta form vináttu

  Flestar rokkhljómsveitir eru stofnaðar af vinahópi.  Bestu vinir með sama músíksmekk,  sömu viðhorf til flestra hluta og sama húmor taka vinskapinn á hærra stig með því að stofna hljómsveit. 

  Þegar hljómsveitin nær flugi taka hljómleikaferðir við.  Langar hljómleikaferðir.  Vinirnir sitja uppi með hvern annan dag eftir dag,  mánuð eftir mánuð.  Jafnvel árum saman.  Iðulega undir miklu álagi.  Áreitið er úr öllum áttum:  Svefnröskun vegna flakks á milli tímabelta;  flugþreyta,  hossast í rútu tímum saman...

  Er gítarleikarinn Gunni Þórðar stofnaði Hljóma - eina merkustu hljómsveit íslensku tónlistarsenunnar - þá réð hann besta vin sinn,  Rúna Júl,  á bassagítar.  Rúnar hafði fram að því aldrei snert hljóðfæri.  Vinirnir leystu það snöfurlega:  Gunni kenndi Rúna á bassagítar - með glæsilegum árangri.  

  Bresku Bítlarnir eru gott dæmi um djúpa vináttu.  Forsprakkinn,  John Lennon,  og Paul McCartney urðu fóstbræður um leið og þeir hittust 16 ára.  Þeir vörðu öllum stundum saman alla daga til fjölda ára.  Þeir sömdu saman lög á hverjum degi og stússuðu við að útsetja þau og hljóðrita.  Sólógítarleikari Bítlanna,  George Harrison,  var náinn vinur Pauls og skólabróðir.  Í áranna rás varð hann reyndar meiri vinur Johns.  

  Hvað um það.  Frá fyrstu ljósmyndum af Bítlunum á sjötta áratugnum og myndböndum fram til 1968 þá eru þeir alltaf brosandi,  hlæjandi og hamingjusamir.  Vinskapur þeirra var afar sterkur.  Þegar hljómsveitin tók frí þá fóru þeir saman í fríið.  Hvort heldur sem var til Indlands eða Bahama.   

  Þessi hugleiðing er sprottin af hljómleikum Guns ´n´ Roses í Laugardal í vikunni.  Liðsmenn hljómsveitarinnar eru ítrekað sakaðir um að stússa í hljómleikahaldi einungis vegna peninganna.  Ég hafna því ekki alfarið að liðsmenn hljómsveitarinnar kunni vel að meta að vera næst tekjuhæsta hljómleikahljómsveit rokksögunnar (á eftir the Rolling Stones).  Bendi þó á að á rösklega þriggja áratuga löngum ferli hefur hljómsveitin selt vel á annað hundrað milljón plötur.  Liðsmenn hljómsveitarinnar eru auðmenn.  Ég veit ekki til að neinn þeirra hafi dýrt áhugamál.  Ja,  ef frá er talið að framan af ferli voru allir liðsmenn stórtækir harðlínudópistar og drykkjuboltar.  

  Hljómleikaferð Gunsara lauk hérlendis eftir að hafa varað frá 2016.  Hljómleikarnir stóðu í hálfan fjórða tíma.  Það er tvöfaldur tími hefðbundinna rokkhljómleika.  Áheyrendur skynjuðu glöggt að hljómsveitin naut sín í botn. Liðsmenn hennar hefðu komist léttilega frá því að spila aðeins í tvo tíma. En þeir voru í stuði og vildu skemmta sér í góðra vina hópi.  

 

 


Ljótur, ljótari...

  Á dögunum henti það í Norður-Karólínu í Bandaríkjum Norður-Ameríku að maður nokkur lýsti öðrum sem afar ljótum.  Ummælin bárust til viðkomandi.  Hann tók þau nærri sér.  Sameiginlegir kunningjar þeirra hvöttu orðhákinn til að lægja öldur með því að biðjast afsökunar á ummælunum.  Sá svaraði:  "Ef einhver ætti að biðjast afsökunar þá er það sá ljóti fyrir að vera svona ljótur!"

ljótur


Sló Drake heimsmet Bítlanna?

  Í fréttum hefur verið sagt frá því að Drake hafi slegið met Bítlanna.  Met sem fólst í því að vorið 1964 áttu Bítlarnir fimm lög í fimm efstu sætum bandaríska vinsældalistans.  Hið rétta er að Drake hefur ekki slegið það met.  Hann hefur aldrei átt fimm lög í fimm efstu sætum bandaríska vinsældalistans. 

  Metið sem hann sló og rataði í fréttir er að í síðustu viku átti hann sjö lög í tíu efstu sætum bandaríska vinsældalistans.   Þar af voru "aðeins" þrjú í fimm efstu sætunum.  Öll drepleiðinleg.  Efstu sætin - til að mynda fimm efstu - hafa mun meira vægi en neðri sæti.  Á bak við efstu sætin liggur miklu meiri plötusala,  miklu meiri útvarpsspilun og svo framvegis.

beatles-top-5-chart-650

 

 


Fólk kann ekki handaþvott

  Bandaríska landbúnaðarráðuneytið stóð á dögunum fyrir vandaðri rannsókn á handaþvotti.  Fylgst var leynilega með 393 manns matreiða kalkúnaborgara og salat.  97% kokkanna fengu falleinkunn. Af helstu klúðrum var að þvo aðeins fremsta hluta fingra en ekki á milli þeirra.  Annað algengt klúður var að þvo ekki hendur eftir að hafa fiktað í nefi eða öðrum andlitshlutum né eftir að hafa hóstað eða hnerrað í lófa.  Þriðja algenga klúðrið var að skola puttana aðeins lauslega í alltof stutta stund.  Fjórða klúðrið er að sniðganga þumalinn.  Vegna sóðaskapar starfsmanna á veitingastöðum fá margir illt í magann eftir heimsókn þangað.

  Svona á að þvo hendur:

  - Fyrst skal bleyta hendurnar rækilega í vatni og nugga þær fram og til baka.  Klúður er að byrja á því að sápa þær.  Sápan dreifist aldrei nógu vel þannig.

  - Nugga sápu og vatni vel yfir báðar hendur.  Gæta sérlega vel að því að þvo á milli fingra.   

  -  Stóra málið er að gleyma ekki að sápa og þvo þumalinn. 

þvottur

 

 


Áhrifaríkt sönglag um barnsmorð

  Á sjötta áratugnum var 14 ára blökkudrengur laminn í klessu af tveimur fullorðnum hvítum karlmönnum.  Svo var hann skutu þeir hann og drápu.  Þetta gerðist í Mississippi.   Forsagan er sú að 21. árs kærasta annars mannsins laug því að gamni sínu að strákurinn hefði daðrað við sig.

  Morðið hafði enga eftirmála fyrir morðingjana.

  Kynþáttahatur hefur löngum verið landlægt í Mississippi.  Eins og í Alabama.  Þessi tvö ríki liggja saman.  Frá Alabama kemur ein þekktasta og merkasta söngkona og söngvaskáld Bandaríkjanna,  Emmylou Harris.  Kynþáttafordómar hafa alltaf verið eitur í hennar beinum.

  2011 sendi hún frá sér plötuna "Hard Bargain".  Á henni er að finna áhrifaríkt sönglag,  "My name is Emmett Till".  Þar syngur hún í orðastað myrta barnsins.  Hún vill ekki að saga hans og nafn gleymist.  Hugsanlega á lagið einhvern þátt í því að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur opnað málið að nýju.  


mbl.is 63 ára morðmál enduropnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitustu sígrænu rokklögin

  Fyrir sléttum tveimur árum setti ég upp Fésbókarsíðu undir heitinu "Classic Rock".  Ég hef póstað inn á hana um 200 myndböndum með jafn mörgum flytjendum.  Einungis þekktasta "classic rokklagi" viðkomandi.  Síðan er með á annað þúsund fylgjendur.  Það segir ekki alla söguna.  Síðan er öllum opin.  Hver sem er getur spilað myndböndin á henni. 

  Forvitnilegt hefur verið að fylgjast með viðbrögðum.  Að óreyndu hefði ég ekki giskað rétt á hvaða lög fengju bestar viðtökur.  Hér fyrir neðan er listi yfir lögin sem hafa oftast verið spiluð á síðunni.  Til viðbótar spilun á þeim á síðunni er vinsælustu lögunum iðulega deilt yfir á heimasíður notenda.  Þar fá lögin væntanlega fleiri spilanir.  

  Miðað við mest spiluðu lög á síðunni má ráða að gestir hennar séu komnir yfir miðjan aldur.  Lög frá sjöunda áratugnum og fyrri hluta þess áttunda eru heitust. Við blasir að fólk á heima hjá sér plötur Bítlanna,  Stóns,  Led Zeppelin og Pink Floyd.  Ástæðulaust að spila lög þeirra líka á netsíðu.  Heitustu lögin eru væntanlega þau sem fólk á ekki á plötu heima hjá sér en þykir notalegt að rifja upp.

1.  Steelers Wheel - Stuck in the Middle of You: 588 spilanir   

 

2.  Týr - Ormurin langi: 419 spilanir

 

3.  Deep Purple - Smoke on the Water:  238 spilanir 

 

4.  Fleetwood Mac - Black Magic Woman:  192 spilanir

 

5.  Tom Robinson Band - 2-4-6-8 Motorway:  186 spilanir

 

6.  Status Quo - Rockin All Over the World:  180 spilanir

7.  Tracy Chapman - Give Me One Reason:  174 spilanir

8.  Bob Marley - Stir it Up:  166 spilanir

9.  Sykurmolarnir - Motorcycle Mama:  162 spilanir

10. Creedence Clearwater Revival - I Put a Spell on You:  160 spilanir

11. Janis Joplin - Move Over:  148 spilanir

11. Shocking Blue - Venus:  148 spilanir

12. Jethro Tull - Aqualung:  145 spilanir

13. The Cult - Wild Flower:  144 spilanir

14. Bob Dylan - Subterranean Homesick Blues:  135 spilanir

15. Bruce Springsteen - Glory Days: 134 spilanir


Færeyskur húmor

  Færeyingar eru góðir húmoristar.  Þeir eiga auðvelt með að koma auga á eitthvað spaugilegt.  Þegar þeim dettur í hug eitthvað sprell þá framkvæma þeir það þrátt fyrir að stundum kalli það á mikla vinnu og fyrirhöfn.  Dæmi:

  Rétt utan við höfuðborgina,  Þórshöfn,  er risastór saltgeymsla eyjanna niður við sjó.  Þegar ekið er til eða frá Þórshöfn þá liggur þjóðvegurinn ofan við saltgeymsluna.  Þak hennar blasir við vegfarendum.  Einn mánudagsmorgun blasti við þeim að einhver eða einhverjir höfðu málað snyrtilega og fagmannlega stórum stöfum á þakið orðið PIPAR. 

  Þétt austur af Þórshöfn er Nólsey.  Hún tilheyrir sveitarfélaginu Þórshöfn.  Hún skýlir höfninni í Þórshöfn fyrir veðri og vindum.  Íbúar eru hátt í 300.  Margir þeirra vinna í Þórshöfn. 

  Í Færeyjum hefur til átta ára verið rekinn sumarskóli í kvikmyndagerð.  Í ár er hann starfræktur í Nólsey.  Af því tilefni brugðu tveir vinir á leik og settu í gær upp risastórt skilti á eyjunni með orðinu NÓLLYWOOD.  Framkvæmdin tók marga daga og var dýr.  En vinirnir segja að þetta sprell eigi að endast í mörg ár.

  Eins og glöggt má sjá á myndinni hér fyrir neðan þá er skiltið afrit af frægasta skilti í Los Angeles í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Neðst til vinstri á myndinni sést hús.  Af því má ráða hver stærð skiltisins er. 

Nólsoy

 

hollywood-sign


Verstu lönd fyrir konur

 

  548 sérfræðingar á snærum Thomson Reuters Foundation hafa tekið saman lista yfir verstu lönd heims fyrir konur að búa á.  Ekki kemur á óvart að Indland sé allra landa verst.  2016 voru 40 þúsund nauðganir kærðar þar.  Þrátt fyrir að lítið komi út úr kærunum.  Kærðar nauðganir eru aðeins lítið brot af ástandinu.  Hátt hlutfall nauðgana eru hópnauðganir.  Hátt hlutfall nauðgana er gegn barnungum stelpum.  Ennfremur er algengt að fórnarlömb séu myrt í kjölfar nauðgunar.  

  Verst er staða svokallaðra stéttlausra stelpna á Indlandi.  Nánast er almennt viðhorf að þær séu réttlausar með öllu.  Þær eiga á hættu að vera lamdar eða nauðgað á ný á lögreglustöð ef þær kæra nauðgun.  Allra síst geta þær búist við að kæra leiði til refsingar.    

  Þetta eru 10 verstu lönd fyrir konur:

1.  Indland

2.  Afganistan

3.  Sýrland

4.  Sómalía

5.  Sádi-Arabía

6.  Pakistan

7.  Kongó - Kinsasa

8.  Jemen

9.  Nígería

10. Bandaríkin

  Eflaust er óverulegur stigsmunur á milli allra efstu löndunum.  Sláandi er að af 193 löndum Sameinuðu þjóðanna sé Sádi-Arabía í flokki með 5 verstu löndum fyrir konur.  Þökk sé Bretum sem beittu sér af hörku fyrir því að skipa Sáda yfir mannréttindaráð samtakanna. 

   


Afleiðing lagastuldar

  Í annars bráðskemmtilegum og fróðlegum útvarpsþætti á dögunum barst tal að laginu "Come Together".  Það er opnulag síðustu hljóðversplötu Bítlanna,  "Abbey Road".  Flott lag þar sem Bítlarnir fara á kostum í söng og hljóðfæraleik. 

  Í umræðunni um lagið var nefnt að lagið væri stolið úr lagi Chucks Berrys "You Can´t Catch Me".  Það hafi hinsvegar ekki haft neinar afleiðingar.

  Hið rétta er að það hafði miklar afleiðingar.  John Lennon samdi lagið og textann.  Sem ákafur aðdáandi Chucks Berrys vildi hann heiðra hann með tilvísun í bæði áðurnefnt lag og texta þess.  John var svo mikill aðdáandi að rétt áður en þeir áttu að hittast í fyrsta sinn þá varð hann svo stressaður og nervus að hann ældi eins og múkki.

  Chuck var aðdáandi Bítlanna og einkum Johns.  Enda voru þeir með fjölda laga hans á hljómleikaskrá sinni.  Mörg þeirra rötuðu inn á plötur þeirra. 

  Chuck áttaði sig á heiðruninni í "Come Together" og var upp með sér.  Plötuútgefandi Chucks sá aftur á móti í hendi sér að hægt væri að gera sér mat úr þessu.  Hann kærði John fyrir lagastuld og dró hann fyrir dómstóla.  Sátt náðist í málinu.  Hún fólst í því að John myndi senda frá sér plötu með þremur lögum sem útgefandi Chucks átti útgáfurétt á.  Þetta voru Chuck Berry lögin "You Can´t Catch Me" og "Sweet Little Sixteen" ásamt laginu "Ya Ya" eftir Lee Dorsey.   

  Til að uppfylla sáttina ákvað John að senda frá sér plötu með þessum lögum í bland við önnur gömul rokk og ról uppáhaldslög.  Plötuna kallaði hann "Rock n Roll".  Þetta var á því tímabili sem John kallaði "týndu helgina".  Eiginkona hans,  Yoko Ono",  hafði hent honum út og hann var hálfur út úr heimi blindfullur samfellt í 18 mánuði.    

  Allt gekk á afturfótunum.  Upptökustjórinn snarklikkaði Phil Spector (sem nú er í fangelsi vegna morðs) týndi upptökunum af sumum laga rokk-plötunnar og skaut úr byssu kúlu sem nánast strauk eyra Johns.  Hann var með hellu fyrir eyranu það sem eftir lifði dags. Þetta varð til þess að blindfullur Lennon þjófstartaði sáttinni með því að senda frá sér plötudrusluna "Walls and Bridges" með laginu "Ya Ya".  Rokk-platan þurfti að bíða betri tíma. 

  Útgefandi Chucks skilgreindi þetta sem rof á sáttinni.  Stefndi Lennoni aftur fyrir dómstóla.  Aftur náðist sátt.  Svo kom rokk-platan út.  Hún hefur vaxið í áranna rás.  Þegar hún kom út gáfu gagnrýnendur henni 2 og hálfa stjörnu.  Nokkrum árum síðar voru það 3 stjörnur.  Síðan 3 og hálf.  Í dag fær platan 4 stjörnur á allmusic.com.

  Útgefandi Chucks gaf rokk-plötuna út undir nafninu "Roots".  Það kallaði á enn ein málaferlin. 

  Til gamans:  Ýmsar heimildir herma að Paul McCartney syngi bakröddina í "Come Together".  Meðal annars sú vandaða heimildabók "Beatlesongs".  Paul hefur þó upplýst að John raddi með sjálfum sér.  Paul hafi boðist til að radda en John svarað Því til að hann græji þetta sjálfur.  Paul sárnaði þetta en var of stoltur til að láta John vita af því.   


Dularfullt hvarf Færeyinga

  Tveir ungir Færeyingar hurfu á dularfullan hátt í Kaupmannahöfn á þriðjudaginn.  Lögreglan hefur síðan leitað þeirra.  Án árangurs.  

  Færeyingarnir áttu bókað flugfar til Færeyja.  Þeir skiluðu sér hinsvegar ekki í innritun.  Það síðasta sem vitað er um þá er að annar ræddi við vin sinn í síma nokkru fyrir flugtak.  Hann sagði þá vera á leið út á Kastrup flugvöll.  

  Annar drengjanna ætlaði að flytja aftur til Færeyja.  Hinn ætlaði aðeins að kíkja í heimsókn.

  Frá því að hvarf þeirra uppgötvaðist hefur verið slökkt á símum þeirra.  Jafnframt hafa þeir ekki farið inn á netið.

  Uppfært kl. 15.50:  Mennirnir eru fundnir.  Þeir eru í Malmö í Svíþjóð.  Málið er þó ennþá dularfullt.  Af hverju mættu þeir ekki í innritun á Kastrup?  Af hverju stungu þeir af til Malmö?  Af hverju hefur verið slökkt á símum þeirra?  Af hverju létu þeir ekki áhyggjufulla ættingja ekki vita af sér dögum saman?

Færeyingarnir


Ljúf plata

Titill:  Þúsund ár

Flytjandi:  Guðmundur R

Einkunn: ****

  Guðmundur R. Gíslason varð fyrst þekktur sem söngvari hljómsveitarinnar Sú Ellen frá Norðfirði.  "Þúsund ár" er ný sólóplata með honum.  Hún inniheldur tíu frumsamin lög 0g texta.  Lögin eru öll hin snotrustu og notalega söngræn.  Textarnir eru alþýðlegir og ljóðrænir.  Það er að segja ortir á venjulegu alþýðumáli án rembings; án stuðla og höfuðstafa en iðulega með endarím.  Yrkisefnið er samskipti fólks og smá pólitík.  Í rokkaðasta laginu,  "Best í heimi",  er deilt á íslensku spillinguna.  Fyrir minn smekk er það skemmtilegasta lag plötunnar ásamt lokalaginu,  "1974".  Þar segir frá snjóflóðinu sem féll á Neskaupstað umrætt ár.

  Guðmundur er góður,  blæbbrigðaríkur og lipur söngvari með breitt raddsvið.  Sveiflar sér léttilega á milli söngstíla.  Bregður jafnvel fyrir sig snyrtilegri falsettu til spari.  

  Allflest lögin eru á millihraða.  Heildar yfirbragð plötunnar er milt.  Áferðin er mjúk.  Allur flutningur er snyrtilegur, fágaður og að mestu án eiginlegra klisjusólókafla.  Það er kostur.      

Þúsund ár    

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband