25.1.2010 | 11:42
Kolbrenglaðar mælingar á útvarpshlustun
Mér hefur borist til eyrna að á morgun muni Samkeppniseftirlitið halda fund. Helsta fundarefni verður hvernig Capacent Gallup stendur að mælingu á hlustun á útvarpsstöðvar og gón á sjónvarp. Vandamálið er að núna eru þessar mælingar rafrænar. Þrír aðilar eiga rafrænu græjurnar. Það eru RÚV, 365 miðlar og Skjár 1.
Útvarps- og sjónvarpsstöðvar í eigu annarra geta verið með. En það kostar 4 milljónir fyrir hverja þeirra. Útvarp Saga, Kaninn, Flash, Lindin, alkastöðin og hvað hún heitir útvarpsstöðin á Selfossi hafa ekki fjárhagslegt svigrúm né vilja til að afhenda keppinautunum 4 milljónir. Áreiðanlega er sama staða uppi hjá ÍNN, Omega og N4.
Fyrir bragðið mælir Capacent Gallup ekki gón á litlu sjónvarpsstöðvarnar eða hlustun á fjölda útvarpsstöðva. Þar með er niðurstaða hlustunar á útvarpsstöðvar skökk. Auglýsingastofur og aðrir stórir auglýsendur sitja uppi með villandi upplýsingar þegar verið er að reikna út snertiverð auglýsinga í útvarpi. Þessum aðilum vantar inn í reikningsgögnin rétta mynd af útvarpshlustun landsmanna.
Skortur á heildarmyndinni veldur því að auglýsendur sniðganga útvarpsstöðvar sem hvergi er minnst á í gögnum Capacent Gallup. Þetta þýðir að RÚV og 365 miðlar halda keppinautunum úti í kuldanum. Beita fjárhagslegu svigrúmi sínu til þess að halda keppinautunum frá auglýsingamarkaðnum.
Samkeppniseftirlitið hlýtur að taka þetta föstum tökum.
.
.
![]() |
Samruni sendur aftur til Samkeppniseftirlitsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.1.2010 | 21:40
Skemmtilegar og broslegar myndir af þreyttum köttum
Kettir hugsa fyrst og síðast um að láta sér líða vel. Þeir nota hvert færi sem gefst til skreppa inn í draumalönd - á milli þess sem þeir gera strangar kröfur um að fá gott að borða og drekka hjá "eiganda" sínum. Reyndar viðurkenna kettir ekki að neinn eigi þá. Fólk má snúast í kringum þá, klappa þeim og klóra, en kötturinn fer sínar eigin leiðir, frjáls og óháður.
23.1.2010 | 23:40
Samanburður á prófkjörsúrslitum frá 2006
Það er alltaf gaman að skoða úrslit í prófkjöri hvaða flokks sem er. Einhver skilaboð hljóta að felast í því hverjir færast upp og hverjir færast niður listann. Ég hef sett hér innan sviga í hvaða sæti frambjóðendurnir voru í síðustu kosningum:
1. ( 2 ) Hanna Birna Kristjánsdóttir
2. ( 5 ) Júlíus Vífill Ingvarsson
3. ( 4 ) Kjartan Magnússon
4. ( 6 ) Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
5. ( 3 ) Gísli Marteinn Baldursson
6. ( - ) Geir Sveinsson
7. (14) Áslaug María Friðriksdóttir
8. ( 7 ) Jórunn Frímannsdóttir
9. ( - ) Hildur Sverrisdóttir
10. (10) Marta Guðjónsdóttir
Til að auðvelda samanburðinn hef ég rauðlitað nöfn þeirra frambjóðenda sem eru heitir (á uppleið) en blálitað þá sem færast niður eftir listanum.
Hanna Birna og Júlíus Vífill hljóta að teljast sigurvegarar prófkjörsins í ár. Sigur Hönnu Birnu var kannski fyrirsjáanlegur. Sá sem var í 1. sæti 2006, gamli góði Villi, gaf ekki kost á sér í ár. Hanna Birna ein bauð sig fram í 1. sætið. Það væri skrýtið ef hún hefði ekki verið svo gott sem sjálfkjörin í það sæti; sitjandi borgarstjóri að auki.
Hástökkvarar prófkjörsins eru tengdasonur gamla góða Villa, Geir Sveinsson; Áslaug María og Hildur Sverrisdóttir. Áslaug hefur verið áberandi á kjörtímabilinu. Hefur látið til sín taka í nefndum borgarinnar og verið dugleg að tjá sig í blaðagreinum og bloggheimi. Á þeim fundum sem ég hef setið með henni er hún vel inni í málum, áhugasöm og samviskusöm. Ég spái henni frekar frama á sviði stjórnmála.
Framan af kjörtímabilinu litu margir á Gísla Martein sem keppinaut Hönnu Birnu sem framtíðarleiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Heldur hefur dregið í sundur með þeim. Einhvernveginn skynjaði maður á síðustu misserum að svona gæti farið. Þó var ég nokkuð viss um að Gísli Marteinn myndi ekki falla neðar en í 4. sæti. Það kemur mér á óvart að Þorbjörg Helga færist upp fyrir hann.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur 7 borgarfulltrúa eins og undanfarin kjörtímabil. Samkvæmt því er Jórunn dottin út úr borgarstjórn. Nema flokkurinn bæti við sig borgarfulltrúa. Jórunn óskaði eftir stuðningi í 3ja sæti.
Hvað er í gangi? Af hverju er Hanna Birna á djamminu með Ömma?
![]() |
Hanna Birna fékk 84% atkvæða í 1. sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.1.2010 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.1.2010 | 01:47
Samtal fyrir brúðkaup og löngu síðar
![]() |
Farið heim og fjölgið ykkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
22.1.2010 | 22:56
Þorraþræll
Nú á bóndadag, fyrsta degi þorramánaðar, er ástæða til að syngja kvæðið góða eftir Kristján Jónsson fjallaskáld, Þorraþræl. Það má finna skrýtinn flutning á þessu kvæði í tónspilaranum mínum hérna efst til vinstri á bloggsíðunni. Þannig var fyrir 12 árum að yngri sonur minn átti að læra þetta kvæði í grunnskóla. Honum þótti það tyrfið og leiðinlegt. Á þeim tíma var hann að hlusta á rapp. Ég prófaði að auðvelda námið með því að setja hipp-hopp takt undir þuluna. Svo datt ég niður á skemmtilega bassalínu með. Þá þótti mér allt í einu gaman að gera þetta dálítið kjánalegt með því að bæta við viðlagi í anda "Gangsta´ Paradise" sem þá var vinsælt og flétta saman við "Í sól og sumaryl" eftir Gylfa Ægisson.
Ég prófaði að hljóðrita þessa útfærslu og senda á rás 2. Ekki undir mínu nafni heldur Gleðisveitarinnar Alsælu (til að enginn myndi fatta hvað var í gangi). Lagið fékk góða spilun á rás 2 og ég fékk góð STEF gjöld fyrir. Færeyskur tónlistarmaður, Kristian Blak, heyrði þetta hjá mér og taldi það eiga erindi á plötu. Við settum saman vest-norræna safnplötu sem heitir "Rock from the Cold Seas" og höfðum þetta lag með.
Það fékk góða spilun í færeyska útvarpinu og fór í 6. sæti grænlenska vinsældalistans. Í kjölfarið var mér boðið í sögulegar hljómleikaferðir til Grænlands tvö ár í röð. Þar spilaði dauðapönksveitin Gyllinæð með mér (smellið á lög Gyllinæðar í tónspilaranum. Sonur minn, þá 14 ára er á gítar. Með honum voru í hljómsveitinni trommusnillingurinn Magnús Magnússon (Eiríkssonar) og Gústi söngvari). Einnig fékk lagið spilun í Skotlandi og mér var boðið að spila á popphátíð í Edinborg. Þar spilaði einnig sonur söngvarans í Nazareth og náungi sem varð síðar frægur poppari. Okkur varð öllum vel til vina. Ég man bara í augnablikinu ekki undir hvaða nafni popparinn spilaði. Á þeim tíma var sá flottur en leiðinlegur í poppinu síðar.
Núna í upphafi þorra auglýsir Kjarnafæði í útvarpinu súrmat með flutningi á Þorraþrælnum sem byggir á hrynjanda lags míns. Til gamans má geta að á degi íslenskrar tungu sóttist Kastljós sjónvarpsins eftir því að Gleðisveitin Alsæla myndi flytja Þorraþrælinn. En illa gekk að finna leynifyrirbærið Alsælu. Leitað var til Erps "Blaz Rocka" og Sesar A. um að finna Alsælu. Þeir eru vinir mínir og vissu að ég var ekki tilbúinn að afhjúpa fyrirbærið. Þeir fluttu því Þorraþrælinn í minni útfærslu í Kastljósi. Daginn eftir flutti Spaugstofan sína útfærslu á Þorraþrælnum mínum. Síðan hef ég aldrei verið neikvæður í garð Spaugstofunnar.
Nú er frost á Fróni, frýs í æðum blóð, kveður kuldaljóð Kári í jötunmóð. Yfir laxalóni liggur klakaþil, hlær við hríðarbyl hamragil. Mararbára blá brotnar þung og há unnarsteinum á, yggld og grett á brá. Yfir aflatjóni æðrast skipstjórinn, harmar hlutinn sinn hásetinn. Horfir á heyjaforðann hryggur búandinn: ,,Minnkar stabbinn minn, magnast harðindin. - Nú er hann enn á norðan, næðir kuldaél, yfir móa og mel myrkt sem hel. Bóndans býli á björtum þeytir snjá, hjúin döpur hjá honum sitja þá. Hvítleit hringaskorðan huggar manninn trautt; Brátt er búrið autt, búið snautt. Þögull Þorri heyrir þetta harmakvein gefur grið ei nein, glíkur hörðum stein, engri skepnu eirir, alla fjær og nær kuldaklónum slær og kalt við hlær: ,,Bóndi minn, þitt bú betur stunda þú. Hugarhrelling sú, er hart þér þjakar nú, þá mun hverfa, en fleiri höpp þér falla í skaut. Senn er sigruð þraut, ég svíf á braut. |
Ljóð | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.1.2010 | 16:08
Ólafur F. á fljúgandi siglingu
Magnað frumsamið kvæði Ólafs F. Magnússonar, fyrrverandi borgarstjóra, um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, núverandi borgarstjóra, hefur heldur betur slegið í gegn. Kvæðið flutti Ólafur F. á borgarstjórnarfundi Reykjavíkur í fyrradag og lesa má það hér á bloggi mínu fyrir neðan: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1007820/
Nú hefur verið verið stofnuð á Fésbók síða Ólafi F. til heiðurs. Kíkið á hana og skráið ykkur. Slóðin er: http://www.facebook.com/group.php?gid=259477901537&v=info#/group.php?v=wall&gid=259477901537
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.1.2010 | 23:09
Frábært lag
Ég veit ekkert um boltaleiki. Þykir þeir allir hundleiðir áhorfs og er alltaf slétt sama um hverjir böðlast í þessum krakkaleikjum óháð því hverjir eru að sprikla hverju sinni. Hinsvegar dúkka stundum upp flott lög þegar boltaleikir í sjónvarpinu eru auglýstir. Sérstaklega er gaman þegar þar eru spiluð lög með The Sex Pistols eða The Clash. Núna keyrir Sjónvarpið boltaauglýsingu með "intrói" lagsins I Fought the Law með The Clash. Eitthvað EM sem ég veit ekki hvað er. Kannski Evrópumót boltaleikja óþroskaðra drengja sem hafa ekkert betra við tímann að gera en elta uppblásna tuðru? Skiptir ekki máli af minni hálfu. Hún gefur upp boltann fyrir að rifja upp þetta ágæta lag sem tvívegis hefur farið hátt á vinsældalista víðsvegar um heim. Takið eftir skemmtilegum áherslum trommuleiks Toppers Headons sem keyrir glæsilega upp hrynjanda lagsins.
Er þetta norski fáninn sem trónir í bakgrunni?
![]() |
"Fingur" Nevilles til rannsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 21.1.2010 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.1.2010 | 20:53
Jólasaga
Klukkan slær 6 á aðfangadag. Klukkurnar í Hallgrímskirkju, við hliðina á litla kotinu, hringja inn jólin. Jón og Gunna fálma snöggt í vasa sína, draga upp tappa og setja í eyrun á sér. Þegar hávaðinn er liðinn hjá taka þau tappana úr eyrunum og setjast við matarborðið. Jólamaturinn er girnilegur á að líta: Kalt hangikjöt, kartöflur og uppstúf. Betri gerist hann ekki maturinn í litla kotinu. Reyndar er hangikjötið ekki raunverulegt hangikjöt. Jón og Gunna eiga ekki til pening fyrir hangikjöti. Þess í stað klippti Gunna út úr dagblöðunum ljósmyndir af hangikjöti. Það kemur eiginlega í sama stað niður. Myndirnar eru skýrar og snyrtilega útklipptar. Þar fyrir utan er nóg til af kartöflum og uppstúf.
Bækur | Breytt 10.2.2010 kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
19.1.2010 | 17:34
Frumsamið kvæði Ólafs F. um Hönnu Birnu
Hér er kvæðið góða sem Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, orti í morgun um Hönnu Birnu, núverandi borgarstjóra. Kvæðið flutti Ólafur F. núna klukkan rúmlega 17. Við flutning kvæðisins spilaði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson undir á bjöllu og fléttaði inn í stuttan rapp-kafla. Ólafur F. þótti lítið til klukkuspils Vilhjálms og rapp-innslags koma. Þess vegna tvílas hann kvæðið. Í seinna skiptið án undirleiks Vilhjálms.
Gírug í ferðir, gráðug í fé
Grandvör hvorki er hún né
Gætir hófs í gerðum sínum
Gjafir fær frá banka fínum
Auðmjúk er við auðvalds fætur
Ávallt að þess vilja lætur
Velferð viljug niður sker
Víða hnífinn fína ber
Sjaldnast nálægt sjálfri sér
Sárt í annars bakið fer
Laugaveg, flugvöll láttu kjurrt
lata Hanna farðu burt
í Valhöll heim að vefja þráð
með vinum þínum í síð og bráð.
.
![]() |
Ólafur víttur á borgarstjórnarfundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Breytt 20.1.2010 kl. 03:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (71)
19.1.2010 | 12:48
Hanna Birna tekur "Árna Johnsen" á þetta
Fyrir nokkrum árum spurði fréttamaður RÚV háttvirtan alþingismann, Árna Johnsen, um kantsteina sem Þjóðleikhúsið hafði greitt fyrir en ekki skilað sér þangað. Árni sagði steinana vera á brettum úti í bæ. Þegar fastar var gengið á Árna viðurkenndi hann hægt og bítandi að steinarnir væru niðurkomnir í kartöflugörðunum heima hjá honum sjálfum. Fréttamaðurinn sakaði Árna um að hafa skrökvað að sér í upphafi viðtalsins. Þá hrökk þetta gullkorn upp úr Árna:
"Ég sagði ekki beinlínis ósatt heldur sagði ég ekki allan sannleikann."
Hanna Birna, nýjasti borgarstjóri Reykjavíkur, viðhefur sömu vinnubrögð. Fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Ólafur F. Magnússon, óskaði eftir upplýsingum um utanlandsflandur Hönnu Birnu á kostnað borgarbúa. Hanna Birna lagði fram upplýsingar um 6 ferðir upp á 800 þúsund króna heildarkostnað.
Ólafur taldi sig þekkja vinnubrögð Hönnu Birnu og hafði grun um að hún væri ekki að segja allan sannleikann. Hún hefði farið í fleiri utanlandsferðir. Nú hefur Ólafi tekist að grafa upp eina af þeim ferðum. Það var ferð sem Hanna Birna fór til Feneyja. Sú ferð kostaði borgarbúa 340 þúsund.
Til gamans má geta að í borgarstjóratíð sinni fór Ólafur F. aðeins í eina utanlandsferð. Það var ódýr boðsferð til Færeyja.
Á borgarstjórnarfundi kl. 14 í dag flytur Ólafur F. vantraust á Hönnu Birnu. Fundinum verður útvarpað á fm 98,3 og á www.reykjavik.is. Sjá ennfremur heilsíðuauglýsingu á bls. 7 í Fréttablaðinu í dag.
Á ljósmyndinni efst er Hanna Birna þessi til hægri. Hin manneskjan heitir Óskar Bergsson. Sá fékk háðuglega útreið í prófkjöri framsóknarmanna á dögunum. Var hafnað svo glæsilega að lengi verður í minnum haft.
Næsta víst er að fundurinn verði fjörlegur og í anda myndbandsins sem þessi færsla er tengd við.
![]() |
Slagsmálaþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.1.2010 | 00:52
Jenka - og allt verður vitlaust! Þvílíkt stuð!
Í þriðja þætti Færibands Bubba á rás 2 í kvöld með Ragga Bjarna sem viðmælanda fóru þeir félagar enn og aftur á kostum. Aldeilis frábært útvarpsefni. Raggi er snilldar sögumaður og þeir Bubbi ná einstaklega vel saman á þann hátt að spjall þeirra fer á gott flug. Fyrir þá sem misstu af þættinum eða vilja heyra hann aftur er hægt að slá honum - og fyrri þáttunum - upp á www.ruv.is.
Þeir félagar komu inn á fyrirbærið jenka. En játuðu vanþekkingu á þessu fyrirbæri. Jenka er finnskur dans. Hvar sem tveir Finnar eða fleiri koma saman brestur á með jenka. Finnar verða jafn friðlausir að dansa jenka og Færeyingar að stökkva í hringdans þegar þeir hittast. Mestu töffarar Finna bregða á jenka hvenær sem færi gefst. Jenka er málið í Finnlandi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.1.2010 | 20:49
Nokkrir laufléttir
Þessa brandara fékk ég senda. Og ég skemmti mér konuglega við að skoða þá. Mér er ljúft að leyfa þeim að létta ykkur lundina líka. Fyrir þá sem ekki þekkja til skal upplýst að flugvélin sem er nær á ljósmyndinni fyrir ofan er í eigu Ríkharðs Branssonar og fyrirtækis hans, Virgin. Enska orðið virgin þýðir jómfrú. Hin flugvélin er belgísk. Enska orðið slut þýðir drusla.
"Ekki éta harða hlutinn á bakinu á honum. Hann veldur viðrekstri!"
"Skolið kúlurnar hér"
Bókin hans: "101 stelling". Bókin hennar: "102 afsakanir".
"Ég er ekki að selja kynlífsþjónustu! Ég sel smokka með prufukeyrslu."
16.1.2010 | 20:12
Kvikmyndarumsögn
- Titill: Vertu þín eigin hetja (Whip It)
Kvikmyndir | Breytt 17.1.2010 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.1.2010 | 22:24
Stórfurðuleg hráefnasamsetning
Íslenskt sómafyrirtæki nokkurt heitir Sómi. Það er til sóma. Sómafyrirtækið framleiðir meðal annars Sóma samlokur og flatbökur sem kallast Sómapizzur. Ýmislegt fleira framleiðir sómafyrirtækið Sómi. Ég þekki ekkert til sómafyrirtækisins og veit því ekki hvort Sómasalöt séu ný í vörulínu Sóma. Hitt veit ég að mér varð á að skoða dollu með Sóma eggjasalati. Mér varð verulega brugðið er ég las innihaldslýsinguna. Þar stendur að 65% innhaldsins sé majónes og 62% innihaldsins sé egg.
Mér varð svo um við þennan lestur að ég man ekki hvernig hráefnasamsetningin er að öðru leyti. Þó er áreiðanlega krydd og eitthvað fleira í salatinu. Þegar ég er búinn að ná andlegu jafnvægi eftir þessi ósköp ætla ég að skoða stórfurðulegu hráefnasamsetninguna betur.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
15.1.2010 | 15:21
Frétt vikunnar
Nýverið tók hver stórmarkaðurinn á fætur öðrum upp á því að hækka verð á innkaupapokum úr 15 krónum í 20. Í Morgunblaðinu var þetta afgreitt sem stórfrétt. Enda um verulega mikla verðhækkun að ræða í % talið. Það er góð fréttamennska að "fókusera" frá hinu almenna yfir á tiltekið dæmi. Vond fréttamennska er þegar sagt er frá því að 13 íssalar í Reykjavík hafi orðið uppvísir af því að selja óhreinan (gerlamengaðan) ís án þess að fram komi neitt um það hvaða íssalar eru sekir og hverjir saklausir..
![]() |
Fjármálakreppa yfirvofandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
15.1.2010 | 00:33
Færeyskt dagblað í eigu Íslendinga
Það er pínulítið gaman að færeyska dagblaðið Dimmalætting sé komið í eigu Íslendinga. Og þó. Lengi vel var Dimmalætting aðal dagblaðið í Færeyjum. Alvarlegt, íhaldsamt og virðulegt dagblað sem studdi og styður að Færeyjar séu hluti af danska sambandsveldinu. Svokallað sambandsblað. Að mörgu leyti færeyski Mogginn. Haus blaðsins er meira að segja skrifaður með líkri gotneskri skrautskriftarleturgerð og haus Morgunblaðsins. Dimmalætting hefur komið út síðan 1800-og-eitthvað.
Lengst af var Dimmalætting í broti sem er tvöfalt stærra en íslensku dagblöðin. Svipaði þannig til margra evrópskra stórblaða. Nafnið Dimmalætting þýðir = dimmu léttir = árblik/morgunskíma.
Annað dagblað í Færeyjum, Sósíalurin, hefur sótt í sig veðrið og er nú vinsælasta blaðið í Færeyjum. Nafn þess má túlka sem Alþýðublaðið eða Almenningur. Það er "óháð". Það er að segja í eigu starfsmanna og ótengt pólitískri hreyfingu. Blaðamenn eru samt flestir sjálfstæðissinnar. Hallast að aðskilnaði frá danska sambandsríkinu. En gera blaðið ekki út á harða pólitík í þá átt. Er meira upptekið af léttum fréttaflutningi og sinnir vel dægurmálum. Umfjöllun um músík, leiklist, íþróttum og þess háttar.
Sósíalurin sér meðal annars um netmiðilana www.portal.fo og www.planet.fo og rekur poppmúsíkurstöðina Rás 2. Aðrar útvarpsstöðvar í Færeyjum eru ríkisútvarpið og kristilega stöðin Lindin. Rás 2 er nokkurs konar Effemm957. Mig minnir að www.portal.fo sé í eigu færeyska símafélagsins fremur en færeyska útvarpsins þó fréttirnar séu skrifaðar af blaðamönnum Sísíalsins. Er samt ekki alveg viss.
Ég les alltaf Dimmalætting og hef sérlega gaman að teiknimyndaskrýtlum Ferdinands. Þær eru svo ófyndnar að undrun vekur.
![]() |
Dimmalætting í íslenska eigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
12.1.2010 | 22:39
X-factor og Idol stórskaðlegir samfélaginu
Flestir halda að sjónvarpsþættir á borð við X-factor og Idol séu meinlausir. Þeir séu saklausir samkvæmisleikir. Þeir hafi jafnframt þann kost að óþekktum söngvurum er gefið tækifæri á skjótfenginni frægð og frama. Sálfræðingurinn Anna D. Hentze er heldur betur á annarri skoðun. Hún fullyrðir að þessir sjónvarpsþættir upphefji einkenni eineltis og hafi þannig skaðleg áhrif samfélagið.
Það gerist þannig: Áhorfendur skilgreina ósjálfrátt dómarana sem fyrirmyndir. Gallinn sé sá að dómararnir hiki ekki við að gera lítið úr keppendum. Hæða þá með niðrandi athugasemdum og slá sér upp á meinfýsnum bröndurum á kostnað keppendanna. Verstu útreið fá þeir keppendur sem standa sig ekki vel. Vinsældir þáttanna snúast að verulegu leyti um að niðurlægja þá. Fórnarlambið er í erfiðri stöðu. Þó það reyni að bera hönd fyrir höfuð sér eru hlutföllin 3 dómarar á móti einum keppanda. Til viðbótar leika framleiðendur sér að því að klippa þættina þannig að fórnarlambið líti sem kjánalegast út í sjónvarpinu. Það selur.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.1.2010 | 23:07
Bráðnauðsynlegt að leiðrétta
Ég er að hlusta á Færibandið með Bubba á rás 2. Hann er að spjalla við Ragnar Bjarnason. Þetta er framhald af síðasta þætti. Þeir félagar fara á kostum sem fyrr. Enda Raggi Bjarna bæði skemmtilegur og einstaklega skemmtilegur sögumaður. Það fær allt ævintýraljóma í frásögn hans. Þar fyrir utan hefur hann átt langan og farsælan feril sem tónlistarmaður. Það er gleðiefni að Bubbi boðar þriðja þátt Færibandsins með Ragga.
Eitt af því skemmtilega við frásagnir Ragga af sjálfum sér er að fer frjálslega með staðreyndir. Misminnir margt og ruglar saman ártölum og persónum. Þegar Eðvarð Ingólfsson skráði ævisögu Ragga fyrir margt löngu fór mikil vinna í að leiðrétta þessar sögur með því að bera þær undir sögupersónur.
Rétt í þessu var Raggi að nefna lagið Hvert er farið blómið blátt? Hann sagði það vera eftir Bob Dylan. Ég veit ekki til að Bob Dylan hafi sungið þetta lag. Það er eftir Pete Seeger og er þekktast í flutningi Kingston tríó. Einnig með Mosa frænda. Líka með Savanna tríói undir nafninu Veistu um blóm sem voru hér? Hér er það Marlene Dietrich sem syngur lagið, Sag mir wo die blumen sind?
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.1.2010 | 18:35
Glæsileg listaverk sem birst hafa í kaffibolla
Hver kannast ekki við að fá sér kaffi í bolla, hella út á það flóaðri mjólk og tala í símann um leið? Ósjálfrátt og án þess að taka eiginlega eftir því er hrært með teskeið ofurhægt í kaffinu. Þegar símtalinu lýkur er skyndilega fyrir framan mann í bollanum nett og fallegt myndlistaverk.
Það hefur ekkert verið átt við þessar myndir í tölvu (fótósjopp).
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.1.2010 | 00:59
Mikilvægt að leiðrétta
Ég sat límdur yfir undanúrslitakvöldi Söngvakeppni evrópskra sjónvarpstöðva í kvöld. Eins og allir landsmenn. Nei, þetta er reyndar ekki rétt. Mér varð á að snæða á veitingahúsi þar sem þessi viðbjóður djöfulsins var í gangi. Ókey, þetta er kannski yfirdrifin lýsing. Júrivisjón er bara ekki mín bjórdós. Mér heyrðist samt vera þolanlegt að hlusta á Dalvíkinginn Matta Matt kráka (cover song) Paradise City Guns N´Roses. Svona einu sinni að minnsta kosti. Ég er jákvæður gagnvart Dalvíkingum og Guns N´Roses. Einkum eftir að ég var staddur í Stokkhólmi í Svíþjóð er söngvari GNR, Axl Rose, beit þar hótelþjón í fótinn. Við það missti Axl út úr sér gervigóminn sem hélt áfram að hanga samanbitinn í buxum þjónsins eftir að lögreglan stakk Axl í steininn. Það er að segja gómurinn hékk í buxunum en ekki þjónninn.
Í því broti af Söngvakeppninni sem ég sá mér til leiðinda á matsölustað fluttu Ingó "veðurguð" og Jóhanna (nei, ekki Sigurðardóttir) Guðrún lagið It Ain´t Me, Babe. það var kynnt sem Johnny Cash lag. Hið rétta er að þetta er Bob Dylan lag. Vissulega hefur Jón Reiðufé raulað lagið af sinni alkunnu snilld inn á plötu. Eins og margir aðrir. En þetta er eitt þekktasta lag Dylans. Sívinsælt í hans flutningi og Joan Baez, Bryans Ferrys, Duane Eddy, Jan & Dean, Peter Paul & Mary, Earls Scruggs, Nancy Sinatra, The Turtles og fjölda annarra. Flott lag. 1000 sinnum flottara en allt Júróvisjón prump til samans.
Takið eftir hvernig söngurinn hjá Dylan flýgur óvænt háflug á 48. sek.
![]() |
Lögin tvö sem komust áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)