Fréttablaðið er að standa sig

  Ég var að hlusta á útvarp.  Þar var nýr framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík skilgreindur sem rauðsokkulisti.  Ég veit ekkert um réttmæti þess.  Vel liðnum núverandi borgarfulltrúum er sparkað út í hafsauga.  Þakkað góð störf með því að vera hent í ruslið.

  Í stað þeirra er raðað á framboðslistann konum sem fáir vita deili á.  Þeirri sem stillt er upp í 2. sæti er sögð vera frambjóðandi Jóns Ásgeirs/Baugs/365 miðla.  Dóttir eða tengdadóttir ritstjóra Fréttablaðsins.

  Kannski er það sterkur leikur að bjóða fram í 1. sæti frambjóðanda Morgunblaðsins og í 2. sæti frambjóðanda Baugsmiðla.  Það er skotheld uppskrift á góðri fjölmiðlaumfjöllun stærstu fjölmiðla landsins.  Munar um minna.  

  Fréttablaðið er komið á flug.  Nýverið hleypti það af stokkum nýrri og ferskri netsíðu.  Hún mætir sterk til leiks.  Birtir allt aðra áhugaverða punkta en rata í prentútgáfu Fréttablaðsins.  Þar á meðal HÉR

   

    


Grænlendingum fækkar

  Íslendingum fjölgar sem aldrei fyrr.  Veitir ekki af.  Einhverjir þurfa að standa undir klaufalegum fjárfestingum lífeyrissjóða.  Líka ofurlaunum stjórnarmanna lífeyrissjóða og fyrirtækja sem þeir fjárfesta í.  Tröllvaxinn ferðamannaiðnaður kallar á vinnandi hendur.  Rótgrónir Íslendingar vilja ekki vinna í fiski, við þrif eða við ummönnun.  Þá koma útlendingar til góða sem gerast íslenskir ríkisborgarar.

  Á síðasta áratug - 2007-2017 - fjölgaði Íslendingum svo um munar.  Ekki vegna frjósemi heldur vegna innflytjenda.  2007 voru Íslendingar 307 þús.  Í dag erum við nálægt 350 þús.     

  Færeyingar eru frjósamastir norrænna þjóða.  Þeir eru iðnir við kolann.  Enda fegurstir og kynþokkafyllstir.  2007 voru þeir 48 þús.  Í dag eru þeir yfir 50 þús.

  Norðmönnum fjölgaði um 12,3%.  Þökk sé innflytjendum.  Meðal annars Íslendingum í þúsundatali.  Flestir með meirapróf.  Íbúar Noregs, Finnlands og Danmörku eru hver um sig vel á sjöttu milljón.  Svíar eru 10 milljónir.  Samanlagt erum við norrænu þjóðirnar um 30 milljónir.  Fjölgar árlega.

  Verra er að Grænlendingum fækkar.  Undanfarin ár hafa þeir ýmist staðið í stað eða fækkað.  2007 voru þeir næstum 57 þúsund.  Í fyrra voru þeir innan við 56 þúsund.  Ekki gott.  Á móti vegur að íslenskt fyrirtæki hefur tryggt sér rétt til gullgrafar á Grænlandi.  

 

    

 


Kvartað undan píkupoppi

  Írska hljómsveitin U2 er stöðugt undir smásjá.  Ekki skrýtið.  Þetta er og hefur verið eitt allra stærsta hljómsveitarnafn heims til hátt í fjögurra áratuga.  Fékk meira að segja að fara í hljómleikaferð um Bandaríkin með Sykurmolunum á níunda áratugnum.  Að auki hefur söngvari hljómsveitarinnar,  Bono,  verið duglegur við að tjá sig um ýmis hitamál.  Til að mynda barist gegn fátækt og skuldum í 3ja heiminum,  tekið virkan þátt í forsetakosningum í Bandaríkjunum og verið upptekinn af trúmálum.

  U2 hefur verið mörgum hljómsveitum víða um heim fyrirmynd í tónlist.  Hérlendis heyrist það einna best í tónlist Gildrunnar.

  Nú liggur Bono undir þungum ásökunum um karlrembu og kvenfyrirlitningu.  Í viðtali við bandaríska tímaritið Rolling Stone kvartar hann undan því að músíkiðnaðurinn í dag sé ofurseldur píkupoppi (very girly music).  Hann segist áhyggjufullur yfir því að lítið svigrúm sé fyrir unga rokkara til að fá útrás fyrir reiði.  Hipp-hopp sé eini vettvangur ungra reiðra drengja.  Það sé ekki nógu gott.  

  "Hvað er rokk?" spyr hann og svarar sjálfur:  "Reiði er hjarta rokksins."  Ýmsir hafa komið Bono til varnar.  Bent m.a. á að vinsælustu karlpoppararnir í dag spili kvenlæga músík,  svo sem Ed Sheeran og Sam Smith.  Aðrir eru ósáttir.  Sumir fordæma að þessi nú meinta karlremba hafi verið tilnefnd "Maður ársins 2016" af glanstímaritinu Glamour.   


Færeyingar innleiða þorrablót

  Þorrablót er gamall og góður íslenskur siður.  Ungt fólk fær tækifæri til að kynnast fjölbreyttum og bragðgóðum mat fyrri alda.  Það uppgötvar að fleira er matur en Cocoapuffs,  Cheerios,  pizzur,  hamborgarar,  djúpsteiktir kjúklingabitar og franskar kartöflur.  Flestir  taka ástfóstri við þorramat.  Þannig berst þorramatarhefðin frá kynslóð til kynslóðar.

  Víða um heim halda Íslendingafélög myndarleg þorrablót.  Í einhverjum tilfellum hefur fámennur hópur Íslendinga í Færeyjum haldið þorrablót.  Nú bregður svo við að Færeyingar halda þorrablót næsta laugardag.  

  Skemmtistaðurinn Sirkus í Þórshöfn,  kráin Bjórkovin (á neðri hæð Sirkuss) og Borg brugghús á Íslandi taka höndum saman og bjóða Færeyingum og Íslendingum á þorrablót.  Allar veitingar ókeypis (þorrablót á Íslandi mættu taka upp þann sið).  Boðið er upp á hefðbundinn íslenskan þorramat, bjórinn Surt, snafs og færeyskt skerpukjöt.

  Gaman er að Færeyingar taki þorrablót upp á sína arma.  Hugsanlega spilar inn í að eigandi Sirkus og Bjórkovans,  Sunneva Háberg Eysturstein,  vann sem dyravörður á íslenska skemmtistaðnum Sirkus við Klapparstíg um aldarmótin.  Hér kynntist hún þorrablótum.

þorramatur 

    


Eggjandi Norðmenn

  Ólympíuleikar voru að hefjast áðan í Seúl í Suður-Kóreu.  Meðal þátttakenda eru Norðmenn.  Með þeim í fylgd eru þrír kokkar.  Þeir pöntuðu 1500 egg.  Íbúar Kóreu eru um 100 milljónir eða eitthvað álíka.  Nágrannar eru 1400 milljónir Kínverjar og skammt frá 1100 milljónir Indverjar.  Til samanburðar eru 5 milljónir Norðmanna eins og smáþorp.  Þess vegna klúðruðu kóresku gestgjafarnir pöntun norsku kokkanna.  Í stað 1500 eggja fengu Norsararnir 15.000 egg.  Mataræði norskra keppenda á Ólympíuleikunum verður gróflega eggjandi.

  Hvað fá þeir í morgunmat?  Væntanlega egg og beikon.  En með tíukaffinu?  Smurbrauð með eggjum og kavíar.  Í hádeginu ommelettu með skinkubitum.  Í síðdegiskaffinu smurbrauð með eggjasalati.  Í kvöldmat ofnbakaða eggjaböku með parmaskinku.  Með kvöldkaffinu eggjamúffu með papriku.  Millimálasnakk getur verið linsoðin egg.     

egg_1.pngegg_2.jpgegg_3.jpgegg_4.jpgegg_5.jpgegg_6.jpgegg_7.jpgegg_8.jpgegg_9.jpgegg_10.jpgegg_11.jpgegg_13.jpgegg_14.jpgegg_16.jpgegg_17.jpg


Alþjóðlegi Clash dagurinn

  5. febrúar 2013 brá bandaríska útvarpsstöðin KEXP á leik;  Hún spilaði einungis lög með bresku hljómsveitinni the Clash þann daginn.  Þetta varð the Clash dagurinn.  Dagskráin vakti mikla athygli og gríðarmikla hrifningu hlustenda.  Hlustun á þessa vinsælu útvarpsstöð margfaldaðist.  Fyrr en varði endurtóku aðrar útvarpsstöðvar leikinn.  5. febrúar varð formlegi Clash dagurinn.  Í fyrra og í ár er hann reyndar 7. febrúar.  Það hefur eitthvað með það að gera að hann beri ekki upp á frídag.  Meðal annars vegna þess að 15 ríki og stórborgir halda í dag Clash daginn hátíðlegan sem frídag.  

  Bandaríska Seattle-borg var fyrst til að gera Clash daginn að opinberum hátíðisdegi.  Svo bættist við Washington ríki sem hýsir Seattle-borg. Einnig Washington DC ríki.  Toronto-borg í Kanada er komin með í leikinn.

  Á annað hundrað útvarpsstöðvar víða um heim halda Clash-daginn hátíðlegan; spila einungis the Clash lög.  Þær eru ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur einnig í Póllandi, Argentínu,  Kanada,  Írlandi,  Spáni og Japan. 

  Fyrir nokkrum árum hitti ég poppskríbent frá Seattle.  Hann sagði mér að ímynd útlensks rokks þar á borg sé fyrst og fremst Bítlarnir og the Clash.

   The Clash var önnur tveggja hljómsveita sem leiddi bresku (og alþjóðlegu) pönkbyltinguna 1976/77 (hin var Sex Pistols)  Hún varð eina breska pönksveitin sem náði ofurvinsældum í Amiríku.  Ekki síst í Bandarkjum Norður-Ameríku - þrátt fyrir að útgáfufyrirtæki hennar, CBS,  hafi þráskallast við að selja jómfrúarplötu hennar þar.  Enn í dag á fyrsta plata the Clash met í sölu á plötu í póstkröfu til Bandaríkjanna:  Hátt í hálfa milljón eintaka.  CBS hélt áfram að bregða fæti fyrir the Clash fram á síðasta dag.  Til að mynda gaf CBS út á smáskífu lagið "Remote control" - gegn áköfum mótmælum liðsmanna the Clash sem skilgreindu lagið sem lélegasta uppfyllingarlag jómfrúarplötunnar.  Síðar harðneitaði móðurfyrirtæki CBS í Bretlandi að gefa út lagið "Bankrobber".  Eftir illvígar deilur náðist lending um að útibú CBS í Þýskalandi gæfi lagið út án afskipta breska móðurfyrirtækisins (sem sá ekki einu sinni um heildsöludreifingu á því í Bretlandi).  Ljóst er að the Clash hefði orðið mun stærra nafn á ferlinum ef hljómsveitin hefði notið myndarlegs stuðnings CBS í stað ítrekaðra leiðinda í bland við afskiptaleysi.       

  Að Bítlunum frátöldum hefur engin hljómsveit þróað sína tónlist jafn hratt og í allar áttir frá fyrstu plötum og the Clash. Eftir að hljómsveitin brotlenti illa um miðjan níunda áratuginn og leystist upp hefur vegur hennar vaxið jafnt og þétt.  Til að mynda kraumaði lagið "Should I Stay or Should I Go" á vinsældalistum til margra ára uns það náði 1. sæti breska vinsældalistans 1991. Stærsta tónlistartímarit heims,  bandaríska Rolling Stone, útnefndi "London Calling" sem bestu plötu níunda áratugarins.  Í Bandaríkjunum varð the Clash risa "statium" band.  Spilaði fyrir allt að 140.000 manns á stökum hljómleikum.     

  Vinsældir the Clash eru ofurmiklar í spænskumælandi löndum.  Þar gera ótal hljómsveitir út á lög the Clash.  Ýmsir fleiri hafa gert það gott út á tónlist hljómsveitarinnar.  Til að mynda er margverðlaunað lag M.I.A. "Paper Planes" í kvikmyndinni "Slumdog Millionar" byggt á lagi the Clash "Straight to Hell".  Aðrir hafa gert það gott út á the Clash lagið "Guns of Brixton".  Lengi mætti áfram telja.  

               


Önnur plata fyrrverandi borgarstjóra

 

  Það er skammt stórra högga á milli.  Haustið 2016 spratt fram á völl nýr en fullskapaður tónlistarmaður á sjötugsaldri.  Þar var kominn heimilislæknirinn,  fjallgöngugarpurinn,  umhverfisverndarkappinn og besti borgarstjóri Reykjavíkur,  Ólafur F.  Magnússon,  með hljómplötuna "Ég elska lífið".  Bættust þá við á hann titlarnir lagahöfundur, ljóðskáld og söngvari.

  Í lok liðins árs hristi Ólafur fram úr erminni aðra plötu.  Sú heitir "Vinátta" eftir opnulaginu.  Ljóðið er heilræðisvísa; eins og fleiri á plötunni.  Önnur yrkisefni eru m.a. Tyrkjaránið sem svo er kallað (Við Ræningjatanga) og þjóðhátíðarljóð Vestmannaeyja 1932 (Heimaey).  Höfundur þess síðarnefnda er Magnús Jónsson, langafi Ólafs.  Aðrir textar eru eftir ÓLaf.  Hann er sömuleiðis höfundur allra laga.  Meðhöfundur tveggja er Vilhjálmur Guðjónsson.  Sá snillingur sér jafnframt um útsetningar og hljóðfæraleik.  Í tveimur lögum í samvinnu við Gunnar Þórðarson.  Gunni afgreiðir einn útsetningu og kassagítarplokk í laginu "Við Ræningjatanga".

  "Vinátta" er jafnbetri/heilsteyptari plata en "Ég elska lífið".  Er "Ég elska lífið" þó ljómandi góð.  Þar syngur Ólafur aðeins helming laga.  Á nýju plötunni syngur hann öll lög nema eitt.  Í lokalaginu, "Lítið vögguljóð",  syngur Guðlaug Dröfn Ólafsdóttur á móti honum.  Hún hefur afar fagra, hljómþýða og agaða söngrödd sem fellur einstaklega vel að söngrödd Ólafs.  Hann er prýðilegur dægurlagasöngvari.  Syngur af einlægni og innlifun með notalegri söngrödd.

  Lög hans eru söngræn, snotur og hlýleg.  Ljóðin eru haganlega ort og innihaldsrík með stuðlum og höfuðstöfum.  Standa keik hvort heldur sem er án eða með tónlistinni.           

  Tónlistin ber þess merki að Ólafur lifir og hrærist í klassískri tónlist.  Útsetningar eru hátíðlegar,  lágstemmdar og sálmakenndar.  Eitt lagið heitir meira að segja "Skírnarsálmur".  Annað er barokk (Þú landið kæra vernda vilt).  Hið þriðja er nettur vals (Ísafold).  Þannig má áfram telja.

  Eitt lag sker sig frá öðrum hvað varðar útsetningu, flutning og áferð.  Það er "Bláhvíti fáninn".  Þar syngur óperusöngvarinn Elmar Gilbertsson um gamla íslenska fánann.  Hann er rosalega góður og þróttmikill söngvari.  Þenur sig kröftuglega.  Kannski þekktastur fyrir hlutverk Daða í óperunni um Ragnheiði Brynjólfsdóttur.   "Bláhvíti fáninn" er sterkur og hástemmdur ættjarðaróður sem leysir "Öxar við ána" af með glæsibrag.  

  Ég óska Ólafi til hamingju með virkilega góða plötu,  "Vináttu". Hún fæst í verslun 12 Tóna á Skólavörðustíg. 

 


Uppreisn gegn karllægu tungumáli

  Íslenskan er mjög karllægt tungumál.  Jón Gnarr hefur tekið eftir því.  Hann stýrir skemmtilegum síðdegisþætti á Rás 2 á laugardögum (Sirkus Jóns Gnarr).  Þar sker hann meðvitað upp herör gegn þessum kynjahalla tungumálsins.  Heyrist þá glöggt hvað hallinn er yfirþyrmandi og allt í kring.  Þannig til að mynda ávarpar hann hlustendur með orðunum:  "Komið þið sælar hlustendur góðar."

  Svo einkennilega vill til að einstök erlend tungumál eru líka karllæg.  Eitt þeirra er enska.  Yfirstjórn breskra hermála gerir nú gangskör í að leiðrétta þetta.  Hún hefur tekið saman lista upp á tvær blaðsíður yfir orð sem má ekki nota í hernum og hvaða orð skuli nota í staðinn.  Dæmi (rauðu orðin eru bannorð.  Hin eiga að koma í þeirra stað):

Maður = fólk, persóna

Heiðursmannasamkomulag = óskráð samkomulag

Húsmóðir = heimavinnandi

Drenglyndi = sanngirni

  Önnur dæmi er erfitt að þýða yfir á íslensku öðruvísi en lenda á eintómum karllægum orðum.  Þar á meðal þessi:

Manpower = human resources

Forefathers = ancestors, forebears

Delivery man = delivery clerk, courier

Mankind = humanity, humankind, human race, people

  Margir breskir hermenn hafa brugðist ókvæða við.  Þeim finnst að herinn eigi að sinna hagnýtari hlutum en að endurskrifa tungumálið.  Talsmenn hersins segja á móti að þetta sé hagnýtt skref inn í framtíðina.  Það muni auðvelda yfirmönnum að ávinna sér virðingu og traust á meðal kvenna, samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, kynskiptinga og svo framvegis.  Herinn þarf á því að halda.

   


Ósvífinn þjófnaður H&M

  Færeyskir fatahönnuðir eru bestir í heimi.  Enda togast frægar fyrirsætur, fegurðardrottningar, tónlistarfólk og fleiri á um færeyska fatahönnun. 

  Fyrir tveimur árum kynnti færeyski fatahönnuðurinn Sonja Davidsen til sögunnar glæsilegan og smart kvennærfatnað.  Hún kynnir hann undir merkinu OW Intimates.  Heimsfræg módel hafa sést spranga um í honum.  Þ.á.m. Kylie Jenner. 

  Nú hefur fatakeðjan H&M stolið hönnuninni með húð og hári.  Sonju er eðlilega illa brugðið.  Þetta er svo ósvífið.  Hún veit ekki hvernig best er að snúa sér í málinu.  Fatahönnun er ekki varin í lögum um höfundarrétt.  Eitthvað hlýtur samt að vera hægt að gera þegar stuldurinn er svona algjör.   Þetta er spurning um höfundarheiður og peninga.

  Á skjáskotinu hér fyrir neðan má sjá til vinstri auglýsingu frá Sonju og til hægri auglýsingu frá H&M.  Steluþjófahyski. 

 

faereysk_naerfot.jpg

 


Íslandsvinur hannar neyðarhjálpardróna

  Á fyrri hluta aldarinnar var breski olympíuskylmingameistarinn og rokksöngvarinn Bruce Dickinson með annan fótinn á Íslandi.  Hann var flugmaður hjá Iceland Express og söng - og syngur enn - með þungarokkshljómsveitinni Iron Maiden.

  Heimsathygli vakti um árið þegar Iron Maiden var aðalnúmer á Hróarskeldurokkhátíðinni í Danmörku.  Aðdáendur Iron Maiden frá Ameríku og víðar tóku framhaldsflug frá Keflavík.  Andlitið datt af þeim við flugtak þegar flugmaðurinn kynnti sig í hátalarakerfi:  Bruce Dickinson.   

  Brúsi er um margt ólíkur rokkstjörnuímyndinni.  Hann hefur aldrei notað vímuefni.  Þess í stað lærði hann sagnfræði; hefur skrifað sagnfræðibækur.  Söngtextar hans bera merki áhuga hans á sögunni.  A sviði er hann engu að síður rokkstjarnan sem gefur allt í botn.  Hann segist vera rosalega ofvirkur.  Sú er ástæðan fyrir því að hann sniðgengur vímuefni - vitandi að annað hvort er í ökkla eða eyra.  Aldrei neitt þar á milli.

  Að undanförnu hefur Brúsi unnið að hönnun neyðarhjálpardróna;  flygildis sem getur borið hjálpargögn til fólks á hamfarasvæðum þar sem öðrum leiðum verður illa við komið.  Uppskrift hans gengur út á að koma hjálpargögnum til 50 manns á einu bretti.  Þar á meðal vatni, mat og sjúkravörum.  

  Útgangspunkturinn og sérstaða í hönnun Brúsa er að flygildið sé kolefnafrítt.  Jafnframt svo ódýrt í innkaupum og ódýrt í rekstri að hjálparsveitum muni ekki um að bæta því í búnað sinn.  

  Brúsi er 60 ára og hefur selt yfir 100 milljónir platna. 

   


Sápuóperan endalausa

  Þessa dagana auglýsir Skeljungur grimmt eftir starfsfólki:  Sölumönnum í Reykjavík og einnig umboðsmanni á Austurlandi.  Þetta er athyglisvert.  Ekki síst í ljósi þess að fyrir jól sagði fyrirtækið upp 29 manns (um það bil þriðjungur starfsliðs).  Sennilega eru hinir brottræku enn á launaskrá en var gert að yfirgefa vinnustaðinn samdægurs.

  Hröð starfsmannavelta og óreiða einkenna reksturinn.  Líka tíð eigendaskipti.  Nýir eigendur hafa komið,  ryksugað fyrirtækið innanfrá og farið.  Hver á fætur öðrum.  Einn hirti meira að segja - í skjóli nætur - öll málverk ofan af veggjum.  

  Nýr forstjóri tók til starfa í vetrarbyrjun.  Hann er búsettur í Færeyjum og fjarstýrir Skeljungi þaðan.  Hans fyrsta verk í forstjórastóli var að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á undirverði og selja þau daginn eftir á fullu verði.  Mismunur/hagnaður skilaði honum yfir 80 milljónum króna í vasa á þessum eina degi.  

  Lífeyrissjóðirnir eru alltaf reiðubúnir að kaupa hlutabréfin á hæsta verði.  Jafnvel á yfirverði - eins og eftir að fyrirtækið sendi út falsfrétt um að það væri að yfirtaka verslunarkeðjuna 10-11.  Það var bara plat til að snuða lífeyrissjóði. 

  Þetta er sápuóperan endalausa.  

  magn.jpg


Oasis-bræður

  Dagblöðin í Manchester á Englandi skrifa um sína frægustu syni,  Oasis-bræður,  Liam og Noel Gallgher,  á hverjum einasta degi.  Líka önnur bresk dagblöð.  Að vísu er ég ekki alveg með það á hreinu hvort að alltaf sé á landsvísu að ræða vegna þess að sum bresk dagblöð eru með sér-Manchester útgáfur.  En Oasis-bræður eru yfirlýsingaglaðir og gott fréttaefni.  Einkum Liam.  Tísta (twitter) daglega.  Gefa Dóna Trump ekkert eftir.

  Gítarleikarinn Noel Gallagher gerir út á Oasis-lög á hljómleikum. Liam tístir að það sé sama hvað Noel rembist á hljómleikum þá muni hann,  Liam, alltaf vera tíu sinnum betri söngvari.  Sem reyndar er allt að því rétt.

  Þrátt fyrir stöðugar pillur á milli bræðranna vakti athygli að Liam sendi Noel hlýjar jólakveðjur.  Sem sá endurgalt ekki. 

  Noel lýsti því yfir um jólin að um leið og Brexit taki gildi (útganga úr Evrópusambandinu) þá flytji hann frá Manchester til Írlands.  Brexit muni - að hans sögn - kosta enska tónlistarmenn meiriháttar vandamál og einangrun.  Vegabréfavandræði,  atvinnuleyfavandræði og þess háttar. 

  Þetta var borið undir Liam.  Hann svaraði því til að bróðir sinn sé heimskur að taka mark á landamærum.  Landamæri séu uppfinning djöfulsins. 

 


Bestu plötur ársins 2017

lorde-lp-cover-ss.png

 

 

 

 

 

 

 

 

  Þegar ég fer til útlanda þá kúpla ég mig algjörlega frá Íslandi.  Tek hvorki með mér tölvu né síma.  Það er góð hvíld í því.  Staddur í Manchester á Englandi yfir jól og áramót veit ég ekkert hvernig íslenskir fjölmiðlar afgreiddu uppgjör á bestu plötum ársins 2017.  

  Ég fylgdist grannt með uppgjöri bresku dagblaðanna.  Hér fyrir neðan er niðurstaða götublaðsins the Sun.  Ég er einna sáttastur við þeirra uppgjör.  Í fremri sviga er staða sömu plötu hjá the Independet.  Það setti plötu Loyle Carner "Yesterday´s Gone" í 1. sætið.  Sú plata átti ekki upp á pallborðið hjá öðrum fjölmiðlum.  Í seinni sviga er staða sömu plötu hjá the Gardian.  

  Á árum áður voru áramótauppgjör fjölmiðla mun samstilltari en nú.  Það er einhver losarabragur á þessu öllu.  Kannski vegna þess að aldursbil plötugagnrýnenda er breiðara en á síðustu öld.  Kannski vegna þess að músíkstílum fjölgar stöðugt.  Kannski vegna þess að músíkmötun kemur úr fleiri áttum en áður með tilkomu netsins og fjölgun útvarps- og sjónvarpsstöðva.

1 (2)(4) LORDE - Melodrama (einnig í 1. sæti hjá tónlistarblaðinu NME)

2 (-)(-) LIAM GALLAGHER - As You Were

3 (-)(14) THE HORRORS - V

4 (-)(-) ROBERT PLANT - Carry Fire

5 (-)(-) MARGO PRICE - All American Made

6 (17)(-) QUEENS OF THE STONE AGE - Vilains

7 (-)(-) U2 - Songs of Experience

8 (21)(-) LANA DEL REY - Lust for Life

9 (-)(16) FATHER JOHN MISTY - Pure Comedy (gaurinn úr Fleet Foxes)

10 (-)(2) KENDRICK LAMAR - Damn

11 (-)(6) LCD SOUNDSYSTEM - American Dream

12 (28)(7) THE WAR ON DRUGS - A Deeper Understanding

13 (13)(18) STORMZY - Gong Sign & Prayer

14 (-)(36) RHIANNON GIDDENS - Freedom Highway

15 (-)(-) GORILLAZ - Humanz

16 (-)(-) FOO FIGHTERS - Concrete & Gold

17 ((-)(-) BECK - Colors

18 (-)(-) ED SHEERAN - Divide

19 (-)(12) WOLF ALICE - Visions of Life

20 (-)(-) THE FLAMING LIPS - Oczy Mlody

21 (4)(5) PERFUME GENIUS - No Shape

22 (14)(1) ST VINCENT - Masseduction

23 (-)(-) ELBOW - Little Fiction

24 (12)(-) KING KRULE - The Oaz

25 (-)(-) BJÖRK - Utopia

  Plata Bjarkar kom út "of seint" á árinu (í nóvemberlok).  Plötugagnrýnendur voru flestir að skila inn sínum lista þegar hún kom út - og áttu þar með eftir að hlusta á hana. Þumalputtareglan er sú að plata þurfi að koma út í síðasta lagi í fyrri hluta október til að komast inn í áramótauppgjör.

VERSTU PLÖTUR ÁRSINS

  Tímaritið Entertainment Weekly valdi verstu plöturnar.  Auðvelt er að vera sammála niðurstöðunni:

1.  CHRIS BROWN - Heartbreak on a Full Moon

2.  KID ROCK - Sweat Southern Sugar

3.  THE CHAINSMOKERS - Memories...Do Not Open

  Annað úr annarri átt:  Í sjónvarpsþættinum Útsvari var tiltekið lag sagt vera eftir the Hollies.  Hið rétta er að lagið er eftir Albert Hammond.   


Ísland í ensku pressunni

 

  Á fyrri hluta níunda áratugarins vissi almenningur í heiminum ekkert um Ísland.  Erlendir ferðamenn voru sjaldgæf sjón á Íslandi.  50-60 þúsund á ári og sáust bara yfir hásumrið.

  Svo slógu Sykurmolarnir og Björk í gegn.

  Á þessu ári verða erlendir ferðamenn á Íslandi hátt í 3 milljónir.  Ísland er í tísku.  Íslenskar poppstjörnur hljóma í útvarpstækjum um allan heim.  Íslenskar kvikmyndir njóta vinsælda á heimsmakaði.  Íslenskar bækur mokseljast í útlöndum.

  Ég skrapp til Manchester á Englandi um jólin.  Fyrsta götublaðið sem ég keypti var Daily Express.  Þar gargaði á mig blaðagrein sem spannaði vel á aðra blaðsíðu.  Fyrirsögnin var:  "Iceland is totally chilled" (Ísland er alsvalt).  Greinin var skreytt ljósmyndum af Goðafossi í klakaböndum, norðurljósum,  Akureyri og Hótel KEA.  

  Greinarhöfundur segir frá heimsókn sinni til Akueyrar og nágrennis - yfir sig hamingjusamur með ævintýralega upplifun.  Greinin er á við milljóna króna auglýsingu.

  Næst varð mér á að glugga í fríblaðið Loud and Quiet.  Það er hliðstæða við íslenska tímaritið Grapevine.  Þar glennti sig grein um Iceland Airwaves. Hrósi hlaðið á íslensk tónlistarnöfn:  Þar á meðal Ólaf Arnalds, Reykjavíkurdætur, Ham, Kríu, Aron Can, Godchilla og Rökkva. 

  Í stórmarkaði heyrði ég lag með Gus Gus.  Í útvarpinu hljómaði um hálftímalöng dagskrá með John Grant.  Ég heyrði ekki upphaf dagskrárinnar en það sem ég heyrði var án kynningar.  

  Á heimleið frá Manchester gluggaði ég í bækling EasyJets í sætisvasa.  Þar var grein undir fyrirsögnini "Icelanders break balls, not bread".  Hún sagði frá Þorra og íslenskum þorramat.  Á öðrum stað í bæklingnum er næstum því heilsíðugrein undir fyrirsögninni "4 places for free yoga in Reykjavik".

go_afoss.jpg


Verðlag

vegan_samloka_aktu_taktu_a_1599_kr.jpg

  Á Aktu-Taktu í Garðabæ var seld samloka á 1599 kr.  Á milli brauðsneiðanna var smávegis kál,  lítil ostsneið og sósa.  Þetta var kallað vegan (án dýraafurða).  Osturinn var að vísu úr kúamjólk.  Í sósunni voru einhverjar dýraafurðir líka.  Sennilega eggjarauða og eitthvað svoleiðis.

  Vissulega var samlokan ekki upp á marga fiska.  Ég set stærra spurningamerki við það að einhver sé reiðubúinn til að borga 1599 kr. fyrir samloku.  Að vísu...já, Garðabæ.

  Til samanburðar:  Í Manchester á Englandi bjóða matvöruverslanir - nánast allar - upp á svokallað "3ja rétta tilboð" (3 meals deal).  Það samanstendur af samlokuhorni, langloku eða vefju að eigin vali (áleggið er ekki skorið við nögl - ólíkt íslenska stílnum) + drykk að eigin vali + snakkpoka að eigin vali (kartöfluflögur, popkorn eða eitthvað álíka).

  Þessi pakki kostar 3 pund sem jafngildir 429 ísl. kr.  Ég valdi mér oftast samlokuhorn með beikoni og eggjum (um það bil tvöfaldur skammtur á við íslenskt samlokuhorn), ásamt hálfum lítra af ávaxtaþykkni (smoothies) og bara eitthvað snakk.

  Á Íslandi kostar samlokuhorn um 600 kall.  Kvartlítri af smoothies kostar um 300 kall.  Þannig að hálfu lítri er á um 600 kall.  Ætli snakkpoki á Íslandi sé ekki á um 300 kall eða meir. 

  Þetta þýðir að íslenskur 3ja rétta pakki er að minnsta kosti þrisvar sinnum dýrari en pakkinn í Manchester. 

  Í Manchester selja veitingahús enskan morgunverð.  Að sjálfsögðu.  Hann samanstendur oftast af tveimur saugagest pylsum (veit ekki hvað þær heita á íslensku), tveimur vænum beikonsneiðum (hvor um sig rösklega tvöföld að stærð í samanburði við íslenskar. Og með aðeina örlítilli fiturönd), grilluðum tómat,  bökuðum baunum, ýmist einu eða tveimur spældum eggjum, tveimur hasskökum (hash browns = djúpsteiktri kartöflustöppu mótaðri í teygðum þríhyrning),  ristuðum brauðsneiðum með smjöri;  ýmist einum stórum pönnusteiktum sveppi eða mörgum litlum.

  Enski morgunverðurinn kostar frá 3,75 pundum (537 ísl. kr.).  Þetta er saðsöm máltíð.  Maður er pakksaddur fram eftir degi.  Nokkrir veitingastaðir á Íslandi selja enskan morgunverð - á 2000 kall. 

  4ra dósa kippa af 5% 440 ml dósum kostar 4 pund (572 ísl kr. = 143 kr.dósin).  Ódýrasta bjórdósin á Íslandi kostar 249 kall (Euroshopper 4,6%).  

 samlokur_e.jpgsmoothie.jpgsnakk.jpgfull-english-breakfast035.jpg

 

 


Íslendingar mættu taka sér Manchester til fyrirmyndar

  Nýkominn heim frá Manchester bloggaði ég á þessum vettvangi um blómlegt tónlistarlíf þar í borg.  Um það má lesa hér fyrir neðan.  Heimamenn gera sér grein fyrir þessu.  Og gera sér mat úr því.  Veggir stigagangs gistiheimilis er hýsti mig eru skreyttir stórum ljósmyndum af heimsþekktum poppstjörnum frá Manchester. 

  Ég álpaðist inn í plötubúð, Fopp.  Ég hef víðar séð plötubúðir undir þessu nafni.  Nema að þarna í miðborg Manchester blasa við á miðju gólfi tveir veglegir plöturekkar.  Þeir eru pakkaðir af plötum með Manchester-tónlist.  Einungis Manchester-tónlist.  Við hlið rekkanna eru jafnframt staflar af bókum um Manchester-poppara, sem og stórar veggmyndir af þeim. 

  Þetta er til fyrirmyndar.  Ég hef löngum gagnrýnt sinnuleysi Íslendinga gagnvart heimsfrægð íslenskra tónlistarmanna.  Ef vel væri að verki staðið væri flugstöðin í Sandgerði undirlögð risastórum veggmyndum af Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men, Kaleo,  Emilíönu Torríni,  Hilmari Erni Hilmarssyni og svo framvegis.  Götur og torg væru jafnframt kennd við þessar sömu poppstjörnur.  Framsóknarflokkurinn hefur viðrað hugmynd um að reisa styttu af Björk fyrir utan Hörpu.  Gott innlegg í umræðuna - þó ég setji spurnarmerki við styttur bæjarins (sem enginn nennir að horfa á).  


Frægir í Manchester

  Fyrr á þessari öld vandi ég mig á að fagna jólum og áramótum í útlöndum.  Einhver verður að gera það.  Þetta hentar mér vel.  Einkum að taka frí frá snjó og frosti.  Líka að komast að því hvernig útlendingar fagna vetrarsólstöðum og nýju ári.  Að þessu sinni varð Manchester á Englandi fyrir valinu.  Notaleg borg.  Hlýtt alla daga á þessum árstíma.  Smá rigning á næstum því hverjum degi.  Samt ekki svo að þurft hafi að spenna upp regnhlíf.

  Ég veit ekkert um boltaleiki.  Öfugt við Manchesterbúa.  Ég komst ekki hjá því að heyra í útvarpinu þeirra eitthvað um velgengi í boltabrölti.  Hitt veit ég að Manchester er stórveldi á heimsmælikvarða í tónlist.  Eiga það sameiginlegt með Íslendingum.  Okkar 340 þúsund manna þjóð státar af ótrúlega mörgum heimsfrægum tónlistarnöfnum.  Hæst bera Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men og Kaleo.  Fleiri Íslendingar hafa náð góðri stöðu á heimsmarkaði - en á afmarkaðri markaði og teljast því ekki beinlínis heimsfrægir.  Sólstafir hafa tröllriðið vinsældalistum í Finnlandi og Þýskalandi.  Skálmöld er þekkt í evrópsku þungarokkssenunni.  Jóhann Jóhannsson er þekktur í kvikmyndatónlist.  Líka Hilmar Örn Hilmarsson og fleiri.  Til viðbótar eru með ágæta stöðu á í tilteknum löndum nöfn eins og Emilíana Torrini,  FM Belfast, Múm, Steed lord...

  Ánægjulegur árangur íslenskra tónlistarmanna á heimsmarkaði hefur vakið undrun heimspressunnar. Hefur sömuleiðis skilað drjúgum skerf í ábatasaman ferðamannaiðnað hérlendis.  Takk fyrir það.  Hátt í 600 þúsund milljónir á síðasta ári.

  Til samanburðar hefur Manchester mun sterkari stöðu í tónlist.  Líka þó að miðað sé við höfðatölu.  Íbúar Manchester eru rösklega 540 þúsund.  59% fleiri en Íslendingar.  Heimsfræg tónlistarnöfn Manchester eru um margir tugir.  Þar af mörg af þeim stærstu.  Í fljótu bragði man ég eftir þessum Manchester-guttum:  

    Oasis, Noel Gallaghers High Flying Birds, The Smiths, Morrissey, Joy Division, New Order, Buzzcocks, The Stone Roses, The Fall, 10cc, Godley & Creme, The Verve, Elbow, Doves, The Hollies, The Charlatans, M People, Simply Red, The 1975, Take That, Everything Everything, Bee Gees, The Outfield, Happy Mondays, Ren Harvieu, Inspiral Carpets, James, The Chemical Brothers, The Courteeners, Hermans Hermits og Davy Jones söngvari Monkees.


Hátíð ljóss og friðar

  Heims um ból halda menn jól;

heiðingjar, kristnir og Tjallar.

  Uppi í stól stendur í kjól

stuttklipptur prestur og trallar.

 


Hlý og notaleg plata

   - Titill:  White Lotus

  - Flytjandi:  Hilmar Garðarsson

  - Höfundur laga og texta:  Hilmar Garðarsson

  - Einkunn: ****

  Að því er ég best veit er "White Lotus" önnur plata Hilmars Garðarssonr.  Hún er lágstemmdari og fábrotnari en "Pleased to Leave You" sem kom út 2004.  Núna er kassagítar eina hljóðfærið.  Ýmist lipurlega plokkaður eða nett "strömmaður".  Engir stælar.  Allt eins og beint af kúnni.  Það er líkast því að maður sé staddur á ljúfum tónleikum heima í stofu hjá Hilmari.  Söngröddin er dökk og þægileg; afslöppuð, vögguvísuleg (í jákvæðustu merkingu) og þíð.

  Við fyrstu spilanir runnu lögin dálítið saman.  Öll hæg og vinaleg; söngur og undirleikur í svipuðum gír.  Ég hugsaði:  "Gott væri að lauma lágværu orgeli undir eitt lag og snyrtilegum munnhörpuleik undir annað".  Við frekari hlustun féll ég frá þessari hugleiðingu.  Eftir því sem ég kynntist lögunum betur og sérkennum þeirra þá vil ég hafa þau eins og þau eru.  Platan er heilsteypt eins og hún er; alúðleg og ljúf.  Sterkasta lagið er hið gullfallega "Miss You".  Fast á hæla þess er lokalagið, "Nótt".

  

hilmar_gardarsson.jpg         


Málshættir

  Málshættir eru upplýsandi og fræðandi.  Nauðsynlegt er að halda þeim til haga.  Þeir geyma fyrir komandi kynslóðir gömul rammíslensk orð sem gott er að kunna.  Þeir geyma líka gömul orðatiltæki yfir vinnubrögð sem tilheyra fortíðinni en gott er að kunna skil á.  

  Íslenskir páskaeggjaframleiðendur hafa blessunarlega haldið málsháttum á góðu lífi á frjósemishátíðinni kenndri við frjósemisgyðjuna Easter.  Ástæða er til að rifja þá einnig upp á vetrarsólstöðuhátíð ljóss og friðar,  kenndri við Jólnir (Óðinn).

Feginn verður óbarinn biskup

Sjaldan fellur eggið langt frá hænunni

Allir hafa eitthvað gott til hunds að bera

Seint koma jólin en koma þó

Margt er til í mömmu

Þeir skvetta úr klaufunum sem eiga

Glöggt er gests eyrað

Ekki sést í skóinn fyrir hnjánum

Eigi geym þú ost í frysti

Allt er best í óhófi

Ekki er hún betri lúsin sem læðist

Enginn er verri þó hann vakni

Neyðin kennir nöktum manni að synda

Sjaldan er allt sem týnist

Betur sjá augu en eyru


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband