Íslenskar vörur ódýrari í útlendum búðum

  Íslensk skip hafa löngum siglt til Færeyja.  Erindið er iðulega fyrst og fremst að kaupa þar olíu og vistir.  Þannig sparast peningur.  Olían er töluvert ódýrari í Færeyjum en á Íslandi.  Meira að segja íslenska landhelgisgæslan siglir út fyrir íslenska landhelgi til að kaupa olíu í Færeyjum.  

  Vöruverð er hæst á Íslandi.  Svo einkennilegt sem það er þá eru vörur framleiddar á Íslandi oft seldar á lægra verði í verslunum erlendis en á Íslandi.  Það á við um íslenskt lambakjöt.  Líka íslenskt lýsi.  Hér fyrir neðan er ljósmynd sem Ásmundur Valur Sveinsson tók í Frakklandi.  Hún sýnir íslenskt skyr, eitt kíló, í þarlendri verslun.  Verðið er 3,39 evrur (417 ísl kr.).

  Hátt vöruverð á Íslandi er stundum réttlætt með því að Ísland sé fámenn eyja.  Þess vegna sé flutningskostnaður hár og markaðurinn örsmár.  Gott og vel.  Færeyjar eru líka eyjar.  Færeyski markaðurinn er aðeins 1/7 af þeim íslenska.  Samt spara Íslendingar með því að gera innkaup í Færeyjum.

  Hvernig má það vera að skyr framleitt á Íslandi sé ódýrara í búð í Frakklandi en á Íslandi - þrátt fyrir háan flutningskostnað?  Er Mjólkursamsalan að okra á Íslendingum í krafti einokunar?  Eða niðurgreiðir ríkissjóður skyr ofan í Frakka?   

isl_skyr_i_frakklandi.jpg


Hvenær er íslensk tónlist íslensk?

  Nýafstaðinn dagur íslenskrar tónlistar setti margan góðan manninn í bobba.  Allir vildu Lilju kveðið hafa.  Vandamálið er að það hefur ekki verið skilgreint svo öllum líki hvenær íslensk tónlist er íslensk.

  Frekar lítill ágreiningur er um að tónlist samin af Íslendingi og flutt af Íslendingi sé íslensk.  Og þó.  Sumir hafna því að hún sé íslensk ef söngtexti er á öðru tungumáli en íslensku.  Gott og vel.  Hvers lensk er hún þá?  Ensk ef textinn er á ensku, segja sumir.  Eða fer það eftir framburði söngvarans?  Er "Lifun" með Trúbroti bandarísk plata?  Eða kanadísk?

  Samkvæmt þessu eru plötur Bjarkar, Kaleo og Of Monsters and Men ekki íslenskar.  Ein plata Sigur Rósar er sungin á bullmáli.  Hún er ekki íslensk.  Það er ekki hægt að staðsetja þjóðerni hennar.   

  Þegar Eivör flutti til Íslands þá stofnaði hún hljómsveit, Krákuna,  með íslenskum hljóðfæraleikurum.  Íslenska plötufyrirtækið 12 Tónar gaf út plötu með henni.  Hún seldist fyrst og fremst á Íslandi.  Enda spilaði hljómsveitin aðallega á Íslandi.  Textarnir eru á færeysku.  Þar með er þetta færeysk tónlist en ekki íslensk.  Eða hvað?

  12 Tónar gáfu út aðra plötu með Eivöru.  Þar eru gömul rammíslensk lög sungin á íslensku.  Líka lög sungin á færeysku, ensku og sænsku.  Platan hlaut dönsku tónlistarverðlaunin sem besta danska vísnaplatan það árið.  Þetta er snúið.

  Lengi tíðkaðist að íslenskar hljómsveitir sungu íslenska texta við erlend lög.  Er það íslensk tónlist?  Íslenskari tónlist en þegar Íslendingur syngur íslenskt lag með frumsömdum texta á ensku?

  Hvernig er þetta í öðrum greinum?  Gunnar Gunnarsson skrifaði sínar bækur á dönsku.  Eru þær ekki íslenskar bókmenntir?  William Heinesen skrifaði sínar bækur á dönsku.  Samt eru þær skilgreindar sem perlur færeyskra bókmennta.

     


Styttur af Björk

  Hérlendis vantar fleiri styttur af körlum.  Undan því hefur verið kvartað áratugum saman.  Einnig hefur verið brugðist vel við því af og til.  Enda enginn skortur á uppástungum.  Kröfur eru háværar um styttu af Gvendi Jaka (helst tvær til að túlka tungur tvær),  steraboltanum Jóni Páli,  Hemma Gunn og svo framvegis. 

  "Styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á," söng Spilverk þjóðanna á sínum tíma.

  Nú er komið annað hljóð í strokkinn.  Í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur er komin fram tillaga um styttu af konu.  Einkum er sjónum beint að styttu af Björk.  Hugmyndin er frumleg og djörf.  En ekki alveg út í hött.

  Enginn Íslendingur hefur borið hróður Íslands víðar og betur en Björk.  Án hennar væri ferðamannaiðnaðurinn ekki stærsta tekjulind Íslands.  Spurning hvernig henni sjálfri lýst á uppátækið.  Upplagt er að reisa eina styttu af henni við Hörpu.  Aðra við Leifsstöð.  Í leiðinni má breyta nafni flugstöðvarinnar.  Að kenna hana við Leif the Lucky (Lukku-Láka) er hallærislegt.  Í Liverpool er flugstöðin kennd við John Lennon.  Í Varsjá er flugstöðin kennd við Chopin.  Flustöðin í Sandgerði ætti að vera kennd við Björk.

 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður ársins

  Jafnan er beðið með spenningi eftir vali bandaríska fréttablaðsins Time á manni ársins.  Niðurstaðan er stundum umdeild.  Jafnvel mjög svo.  Til að mynda þegar Hitler var útnefndur maður ársins 1938.  Líka þegar Richard Nixon var maður ársins 1971 og aftur 1972. 

  Ástæðan fyrir gagnrýni á valið er sú að það snýst ekki um merkasta mann ársins - öfugt við val annarra fjölmiðla á manni ársins.  Time horfir til þess manns sem sett hefur sterkastan svip á árið.  Skiptir þar engu hvort að það hefur verið til góðs eða tjóns.

  Í ár stendur valið á milli eftirfarandi:

- Colin Kaepernick (bandarískur fótboltakall)

- Dóni Trump

- Jeff Bezos (forstjóri Amazon)

- Kim Jong-un (leiðtogi N-Kóreu)

- #meetoo átakið

- Mohamed bin Salam (krúnprins Saudi-Arabíu)

- Patty Jenkins (leikstjóri "Wonder Woman")

- The Dreamers (samtök innflytjenda í Bandaríkjunum)

- Xi Jinping (forseti Kína)

  Mér segir svo hugur að valið standi í raun aðeins á milli #metoo og þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna, Kína og Norður-Kóreu.


Söngvari Sex Pistols í Júrovisjón 2018

  Enski söngvarinn Johnny Rotten er Íslendingum að góðu kunnur.  Ekki aðeins sem söngvari Sex Pistols og að hafa túrað um Bandaríkin með Sykurmolunum - þá í hljómsveitinni PIL (Public Image Limited).  Líka fyrir að opna Pönksafnið í Lækjargötu.  Hann skemmti sér vel hérna.  Heimferð dróst.

  Nú upplýsir írska dagblaðið Irish Sun að hinn írskættaði Johnny muni keppa fyrir hönd Íra í Júrovisjón í vor.  Laginu sem hann syngur er lýst sem cow-pönki.  Ekki ósvipuðu og "Rise" með PIL.  Höfundurinn er Niall Mooney.  Sá er kunnugt nafn í söngvakeppninni.  Átti lagið "Et Cetera" í Júrovisjón 2009 og "It´s for you" 2010.

  Einhver smávægileg andstaða er gegn Johnny Rotten innan írsku Júrovisjón-nefndarinnar.  Nefndarmenn eru mismiklir aðdáendur hans. Uppátækið er vissulega bratt og óvænt.  þegar (eða ef) hún gefur grænt ljós mun hann syngja lagið við undirleik PIL.

 

    


Nýræð í 14 mánaða fengelsi

  Í Þýskalandi er bannað að afneita helför gyðinga á fyrri hluta síðustu aldar.  Því er haldið fram að sex milljónir gyðinga hafi verið myrtir af nasistum.  Sumir telja töluna vera ónákvæma.  Hvað sem til er í því þá liggur í Þýskalandi allt að fimm ára fangelsisrefsing við því að þvertaka fyrir morðin.  Slíkt er skilgreint sem hvatning til kynþáttahaturs. 

  Öldruð þýsk nasistafrú,  Ursula Haverbeck,  lætur það ekki á sig fá.  Í fyrra var hún dæmd til 8 mánaða fangelsunar er hún reyndi að sannfæra borgarstjórann í Detmold um að það væri haugalygi að í Auschawitz hafi verið starfrækt útrýmingarstöð.  Sú gamla forhertist.  Hún reyndi að sannfæra dómara, saksóknara og alla sem heyra vildu að allt tal um útrýmingarbúðir væri viðurstyggileg lygi og áróður.  Var henni þá gerð aukarefsing.  Nú er hún 89 ára á leið á bak við lás og slá í 14 mánuði.  Hún lýkur afplánun 2019 og heldur þá upp á 91 árs afmælið.

thysk_nasistakona.jpg 

 


Nauðsynlegt að vita

  Af og til hafa heyrst raddir um að ekki sé allt í lagi með vinnubrögð hjá Sorpu.  Fyrr á árinu gengu manna á milli á Fésbók fullyrðingar um að bækur sem færu þangað skiluðu sér ekki í Góða hirðinn.  Þær væru urðaðar.  Ástæðan væri sú að nóg af bókum væru í nytjamarkaðnum.  Einhverjir sögðu að þetta gerðist endrum og sinnum.  Öðrum sárnaði.  Einkum bókaunnendum.  Einnig hafa heyrst sögur af fleiri hlutum sem virðast ekki skila sér úr Sorpu til búðarinnar.

  Útvarpsmaðurinn snjalli,  Óli Palli,  lýsir nýlegum samskiptum sínum við Sorpu.  Frásögnin á erindi til flestra:

  "Ég er frekar PISSED! Ég er búinn að vera að flokka dót í marga daga - RUSL og annað nýtilegt - t.d. músík - DVD og allskonar dót sem fór saman í kassa fyrir Góða Hirðinn að skoða og gera sér mat úr. Vinur minn fór með helling af þessu "nýtilega" dóti fyrir mig í Sorpu í morgun og fékk ekki að setja það í nytjagáminn - en hann fékk að skilja þar eftir nokkra gamla og ljóta myndaramma... Bækur - CD - DVD - vinylplötur - geislaspilarar og allt mögulegt sem ég VEIT að sumir amk. kunna að meta verður pressað og urðað einhverstaðar. Er þetta öll umhverfisverndarstefnan? Flokkum og skilum my ass! Hér eftir fer ALLT í rusl. Þetta er bara tímaeyðsla og rugl - það er verið að fíflast með fólk. Sorpa fær falleinkunn. Mér er algjörlega misboðið. Ég er búinn að flokka rusl í næstum 20 ár og þetta er staðan í dag."

oli_palli.jpg


Skemmtilegt tvist

  Ég hlustaði á útvarpið.  Hef svo sem gert það áður.  Þess vegna ber það ekki til tíðinda.  Hitt sem mér þótti umhugsunarverðara var að útvarpsmaðurinn hneykslaðist á og fordæmdi að fyrirtæki væru að auglýsa "Black Friday".  Þótti honum þar illa vegið að íslenskri tungu.

  Þessu næst bauð hann hlustendum til þátttöku í spurningaleiknum "pizza & shake". 


Bestu, undarlegustu og klikkuðustu jólalögin

  Hver eru bestu jólalögin?  En furðulegustu?  Tískublaðið Elle hefur svör við þessum spurningum.  Lögunum er ekki raðað upp í númeraðri röð.  Hinsvegar má ráða af upptalningunni að um nokkurskonar sætaröðun sé að ræða; þeim er ekki stillt upp eftir stafrófi né aldri eða öðru.  Fyrstu 5 lögin sem tslin eru upp eru fastagestir í efstu sætum í kosningum/skoðanakönnunum um bestu jólalögin.  Nema "At the Christmas Ball".  Ég hef ekki áður séð það svona framarlega. Samt inn á Topp 10. 

"Have Yourself a Merry Little Christmas" með Judy Garland (einnig þekkt með Frank Sinatra, Sam Smith og Christina Aguilera)

"At the Christmas Ball" með Bessie Smith

"Happy Xmas (War is Over)" með John Lennon, Yoko Ono og the Plastic Ono Band

"Fairytale of New York" með Kirsty Mcoll og the Pouges.  Á síðustu árum hefur þetta lag oftast verið í 1. sæti í kosningum um besta jólalagið.

"White Christmas" með Bing Crosby (einnig þekkt í flutningi Frank Sinatra, Kelly Clarkson,  Jim Carrey og Michael Bublé)

"Christmas in Hollis" með Run MDC

"Last Christmas" með Wham!  Í rökstuðningi segir að þrátt fyrir að "Do They Know It´s Christmas" sé söluhærra lag þá hafi það ekki roð í þetta hjá ástarsyrgjendum.

"Christmas Card from a Hooker in Minneapolis" með Tom Waits

"Jesus Christ" með Big Star

"Little Drummer Boy (Peace on Earth)" með David Bowie og Bing Crosby.

Af einkennilegum jólalögum er fyrst upp talið "Christmas Unicorn".  Þar syngur Sufjan Stevens í hálfa þrettándu mínútu um skeggjaðan jólaeinhyrning með ásatrúartré.

Klikkaðasta jólalagið er "Christmas with Satan" með James White.

Skiljanlega veit tískublaðið Elle ekkert um íslensk jólalög.  Þó er full ástæða til að hafa með í samantektinni eitt besta íslenska jólalag þessarar aldar,  "Biðin eftir aðfangadegi" með Foringjunum.  

 


Illmenni

  Varasamt er að lesa spádóma út úr dægurlagatextum.  Einkum og sér í lagi spádóma um framtíðina.  Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson féll í þessa gryfju.  Hann las skilaboð út úr textum Bítlanna.  Reyndar er pínulítið ónákvæmt að kalla Manson fjöldamorðingja.  Hann drap enga.  Hinsvegar hvatti hann áhangendur sína til að myrða tiltekna einstaklinga.

  Út úr Bítlalögunum "Blackbird" og "Helter Skelter" las kallinn spádóm um að blökkumenn væru að taka yfir í Bandaríkjunum.  Ofsahræðsla greip hann.  Viðbrögðin urðu þau að grípa til forvarna.  Hrinda af stað uppreisn gegn blökkumönnum.  Til þess þyrfti að drepa hvítt fólk og varpa sökinni á blökkumenn. 

  Áhangendur Mansons meðtóku boðskap hans gagnrýnislaust.  Þeir hófust þegar handa.  Drápu fólk og skrifuðu - með blóði fórnarlambanna - rasísk skilaboð á veggi.  Skilaboð sem hljómuðu eins og skrifuð af blökkumönnum.  Áður en yfir lauk lágu 9 manns í valnum. 

  Samhliða þessu tók Manson-klíkan að safna vopnum og fela út í eyðimörk.  Stríðið var að skella á.

  Spádómarnir sem Manson fór eftir rættust ekki.  Það eina sem gerðist var að klíkunni var stungið í fangelsi.

  Hið rétta er að Paul var með meiningar í "Blackbird";  hvatningarorð til bandarísku mannréttindahreyfingarinnar sem stóið sem hæst þarna á sjöunda áratugnum.

  Charles Manson var tónlistarmaður.  Ekkert merkilegur.  Þó voru the Beach Boys búnir að taka upp á sína arma lag eftir hann og gefa út á plötu - áður en upp um illan hug hans komst. 

 


mbl.is Charles Manson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ármúli þagnar

  Framan af þessari öld voru Ármúli 5, 7 og 9 heitasta svæði landsins.  Þar var fjörið.  Í Ármúla 5 (sama húsi og Múlakaffi) var Classic Rock Sportbar.  Einn stærsti og skemmtilegasti skemmtistaður landsins.  Hundruð manna góndu á boltaleiki á stórum tjöldum.  Tugir pílukastara kepptu í leik.  Danshljómsveitir spiluðu um helgar.  Þess á milli voru hljómleikar með allt frá hörðustu metal-böndum til settlegri dæma.  Málverkasýningar og fleira áhugavert slæddist með.  Inn á milli voru róleg kvöld.  Þá spjallaði fólk saman við undirleik ljúfra blústóna.  Það var alltaf notalegt að kíkja í Classic Rock Sportbar.

  Í næsta húsi,  á annarri hæð í Ármúla 7 var rekinn hverfisbar sem gekk undir ýmsum nöfnum:  Jensen,  Wall Street,  Pentagon (Pentó, Rússneska kafbátaskýlið),  Elvis (Costello),  Bar 108,  Chrystal...  Hverfispöbb með karókí og allskonar.  Mikið fjör.  Mikið gaman.  

  Á neðri hæðinni var Vitabarinn með sveittan Gleym-mér-ei hamborgara og bjór.  Síðan breyttist staðurinn í Joe´s Diner og loks í ljómandi góðan filippseyskan stað, Filipino.

  Í sama húsi en húsnúmeri 9 var Broadway (Breiðvangur).  Stærsti skemmtistaður Evrópu.  Þar var allt að gerast:  Stórsýningar í nafni Queen, Abba og allskonar.  Hljómleikar með Yardbirds, the Byrds, Slade, Marianne Faithful og dansleikir með Geirmundi.  

  Þó að enn sé sama öld þá er hún önnur.  Classic Rock Sportbar hefur breyst í asískan veislusal.  Ég kíkti þangað inn.  Salurinn stóri hefur verið stúkaður niður í margar minni einingar.  Enginn viðskiptavinur sjáanlegur.   Aðeins ungur þjónn í móttöku.  Hann kunni ekki ensku né íslensku.  Við ræddum saman í góða stund án þess að skilja hvorn annan.  Hann sýndi mér bjórdælu.  Það gerði lítið fyrir mig.  Ég hef oft áður séð bjórdælu.  Ég svaraði honum með hendingum úr "Fjallgöngu" Tómasar Guðmundssonar (Urð og grjót upp í mót) og "Þorraþræl" Kristjáns Fjallaskálds (Nú er frost á fróni).

  Ég rölti yfir í næsta hús.  Allt lokað.  Filipino horfinn.  Gott ef löggan lokaði ekki Chrystal fyrir meintan nektardans eða vændi eða hvorutveggja.  Broadway hefur breyst í sjúkrahús,  Klínik.  Allt hljótt.  Ármúli hefur þagnað;  þessi hluti hans.

classic rock sportbarármúli nr 5broadway

         

      


Nauðsynlegt að vita um hænur

  -  Ef allar hænur heims eru taldar saman þá eru þær yfir 25 milljarðar.

  -  Ef öllum hænum heims er skipt jafnt á meðal manna þá gerir það 3,5 á hvern.

  -  Gainesville í Georgíu í Bandaríkjum Norður-Ameríku er alifuglahöfuðborg heims.  Þar er bannað með lögum að nota hnífapör við át á djúpsteiktum kjúklingi.  Hann er og skal vera fingramatur.

  -  Hæna verpir að meðaltali 255 eggjum á ári.

  -  Rannsókn leiddi í ljós að hæna getur léttilega þekkt yfir 100 andlit.  

  -  Lagið "Fugladansinn" - einnig þekkt sem "Hænsnadansinn" - var samið af Swisslendingnum Weren Thomas um 1960.

  -  1980 náði "Fugladansinn" vinsældum í Hollandi.

  -  1981 var lagið einkennislag fyrir Októberfest í Oklahoma undir heitinu "Hænsnadansinn".

 

 

 


Flugbílar að detta inn á markað

  Lengst af hafa bílar þróast hægt og breyst lítið í áranna rás.  Það er að segja grunngerðin er alltaf sú sama.  Þessa dagana er hinsvegar sitthvað að gerast.  Sjálfvirkni eykst hröðum skrefum.  Í gær var viðtal í útvarpinu við ökumann vörubíls.  Hann varð fyrir því að bíll svínaði gróflega á honum á Sæbraut.  Skynjarar vörubílsins tóku samstundis við sér: Bíllinn snarhemlaði á punktinum, flautaði og blikkaði ljósum.  Forðuðu þar með árekstri.

  Sífellt heyrast fréttir af sjálfkeyrandi bílum.  Þeir eru að hellast yfir markaðinn.  Nú hefur leigubílafyrirtækið Uber tilkynnt um komu flugbíla.  Fyrirtækið hefur þróað uppskriftina í samvinnu við geimferðastofnunina Nasa.  Það setur flugbílana í umferð 2020.  Pældu í því.  Eftir aðeins 3 ár.  Við lifum á spennandi tímum.

   


Fésbókin er ólíkindatól - kemur skemmtilega á óvart

  Herskari hakkara er í fullri vinnu hjá Fésbók.  Hún gengur út á að þróa bókina stöðugt lengra í þá átt að notandinn verði fíkill.  Verði háður henni.  Verði eins og uppvakningur sem gerir sér ekki grein fyrir ósjálfráðri hegðun sinni.

  Þetta er gert með allskonar "fítusum", hljóðum, lit, leikjum og ýmsum fleiri möguleikum,  svo sem "læk-takka" og tilfinningatáknum.  Með þessu er hrært í efnaboðum heilans.  Ástæða er til að vera á varðbergi.  Vera meðvitaður um þetta og verjast.  Til að mynda með því að stýra því sjálfur hvað löngum tíma er eytt í bókina á dag eða á viku.  Láta hana ekki teyma sig á asnaeyrum fram og til baka allan sólarhringinn.  

  Þess eru mörg dæmi að fólk vakni upp á nóttunni til að kíkja á Fésbók.  Einnig að það fresti því að fara í háttinn.  Svo og að matast sé fyrir framan skjáinn.

  Fésbókin hefur skemmtilegar hliðar.  Margar.  Hún getur til að mynda komið glettilega á óvart.  Flestir hafa einhver hundruð Fb-vina og upp í 5000 (hámark).  Notandinn fær ekki að sjá innlegg þeirra í réttri tímaröð.  Þess í stað eru þau skömmtuð eftir kúnstarinnar reglum.  Þær ráðast meðal annars af því hjá hverjum þú hefur "lækað" oftast og skrifað flestar athugasemdir hjá.  Bókin safnar stöðugt upplýsingum um þig.  Greinir og kortleggur.  

  Póstarnir sem bókin sýnir manni fyrst falla hlutfallslega betur og betur að þínum smekk.  Áhugamálum, viðhorfum til stjórnmála og allskonar.  Sýnilegasti Fb-vinahópurinn þróast í fjölmennan já-hóp.

  Vegna þess að manni eru ekki sýnd innlegg í réttri tímaröð getur útkoman orðið skondin og ruglingsleg.  Oftast kíki ég á Fb á morgnana fyrir vinnu og aftur að kvöldi eftir vinnu.  Á morgnana blasa iðulega við kveðjur með ósk um góða nótt og ljúfar drauma.  Á kvöldin blasa við kveðjur þar sem boðið er góðan og blessaðan dag.  Síðasta mánudag birtist mér innlegg með textanum:  "Jibbý!  það er kominn föstudagur!"  

  Ég sá að þessari hressilegu upphrópun var póstað á föstudeginum.  Fb sá hinsvegar ekki ástæðu til að skila henni til mín fyrr en eftir helgi.  


mbl.is Fyrrverandi lykilstarfsmaður hjólar í Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingur vínylvæðir Dani

  Á seinni hluta níunda áratugarins blasti við að vinylplatan væri að hverfa af markaðnum.  Þetta gerðist hratt.  Geisladiskurinn tók yfir.  Þremur áratugum síðar snéri vínyllinn aftur tvíefldur.  Nú hefur hann rutt geisladisknum af stalli.  

  Ástæðan er margþætt.  Mestu munar um hljómgæðin.  Hljómur vinylsins er hlýrri, dýpri,  þéttari,  blæbrigðaríkari og notalegri.  Að auki er uppröðun laga betri og markvissari á vinylnum að öllu jöfnu.  Báðar plötuhliðar þurfa að hefjast á öflugum grípandi lögum.  Báðar þurfa að enda á sterkum og eftirminnilegum lögum.  

  Spilunarlengd hvorrar hliðar er rösklega 20 mín.  Hún heldur athyglinni á tónlistinni vakandi.  Þar með tengist hlustandinn henni betur.  Hann meðtekur hana í hæfilegum skömmtum.

  Geisladiskurinn - með sinn harða, kantaða og grunna hljóm - var farinn að innihalda of mikla langloku.  Allt upp í 80 mín eða meir.  Athygli er ekki vakandi í svo langan tíma.  Hugurinn fer að reika eftir um það bil 40 mín að meðaltali.  Hugsun beinist í aðra átt og músíkin verður bakgrunnshljóð.  Auk þessa vilja flæða með of mörg óspennandi uppfyllingarlög þegar meira en nægilegt pláss er á disknum.    

  Stærð vinylsins og umbúðir eru notendavænni.  Letur og myndefni fjórfalt stærra.  Ólíkt glæsilegri pakki.  Fyrstu kynni af plötu er jafnan við að handleika og horfa á umslagið.  Sú skynjun hefur áhrif á væntingar til innihaldsins og hvernig það er meðtekið.  Setur hlustandann í stellingr.  Þetta spilar saman.

  Í bandaríska netmiðlinum Discogs.com er stórt og áhugavert viðtal við vinylkóng Danmerkur,  Guðmund Örn Ísfeld.  Eins og nafnið gefur til kynna er hann Íslendingur í húð og hár.  Fæddur og uppalinn á Íslandi af skagfirskum foreldrum.  Sprenglærður kvikmyndagerðarmaður og grafískur hönnuður.  Hefur framleitt fjölda músíkmyndbanda og hannað plötuumslög.  

  Með puttann á púlsinum varð hann var við bratt vaxandi þörf á vinylpressu.  Hann keypti í snatri eina slíka.  Stofnaði - ásamt 2 vinum - fyrirtækið Vinyltryk.  Eftirspurn varð slík að afgreiðsla tók allt upp í 6 mánuði.  Það er ekki ásættanlegt í hröðum tónlistarheimi.

  Nú hefur alvara hlaupið í dæmið.  1000 fm húsnæði verið tekið í gagnið og innréttað fyrir fyrstu alvöru risastóru vinylpressu í Danmörku í 60 ár.  Nafni fyrirtækisins er jafnframt breytt í hið alþjóðlega RPM Records.  

  Nýja pressan er alsjálfvirk, afkastamikil en orkunett.  Hún spýtir út úr sér plötum 24 tíma á sólarhring í hæstu gæðum.  Afreiðslutíminn er kominn niður í 10 daga.  

  Netsíðan er ennþá www.vinyltryk.dk (en mun væntanlega breytast til samræmis við nafnabreytinguna, ætla ég).  Verð eru góð.  Ekki síst fyrir Íslendinga - á meðan gengi íslensku krónunnar er svona sterkt.  

gudm örn ísfeldguðmundur örn ísfeldplötupressan   

    


Íslandsvinur í skjölunum

  Nöfn íslenskra auðmanna eru fyrirferðamikil í Paradísarskjölunum;  þessum sem láku út frá lögmannsstofunni Appleby á Bermúda.  Ef ég þekki íslenskan metnað rétt er næsta víst nöfn Íslendinga séu hlutfallslega flest miðað við höfðatölu.  Sem eru góðar fréttir.  Þjóð sem er rík af auðmönnum er vel sett.  Verra samt að svo flókið sé að eiga peninga á Íslandi að nauðsyn þyki að fela þá í skattaskjóli.

  Ekki einungis íslenskir auðmenn nota skattaskjól heldur líka Íslandsvinir.  Þekktastur er hugsjónamaðurinn Bono í hljómsveitinni U2.

 


mbl.is Tugir Íslendinga í skjölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með 639 nagla í maganum

  Mataræði fólks er allavega.  Sumir eru matvandir.  Setja sér strangar reglur um það hvað má láta inn fyrir varirnar.  Sneiða hjá kjöti.  Sneiða hjá öllum dýraafurðum.  Sumir snæða einungis hráfæði sem hefur ekki verið hitað yfir 40 gráðum.  Sumir sneiða hjá sykri og hveiti.  Aðrir lifa á sætindum og deyja.  Enn aðrir borða allt sem á borð er borið.  Jafnvel skordýr.

  Fáir borða nagla.  Hvorki stálnagla né járngaura.  Nema 48 ára Indverji.  Honum var illt í maganum og fór til læknis.  Við gegnumlýsingu sást fjöldi nagla í maga og þörmum.  Er hann var skorinn upp með hraði reyndust naglarnir vera 639.  Flestir 5 - 6 cm langir.  

  Maðurinn hafði verið blóðlítill.  Hann kannaðist ráðið um að taka inn járn við því.  Naglar virtust hentugri en annað járn.  Það var auðvelt að kyngja þeim með vatni.  Til tilbreytingar át hann dálítið af járnauðugri mold af og til.  

  Þetta virtist virka vel.  Þangað til að honum varð illt í mallakútnum.

  Eigandi litlu byggingarvöruverslunarinnar í hverfinu óttast að kallinn hætti að kaupa nagla af sér.  Það var einmitt hann sem fræddi kauða um nauðsyn þess að taka inn járn við blóðleysi.

með nagla í maganaglar

.


Óstundvísir eru í góðum málum

  Það er eins og sumt fólk kunni ekki á klukku.  Það mætir alltaf of seint.  Stundvísum til ama.  Þeir sem bölva óstundvísi mest og ákafast telja hana vera vondan löst.

  Nú hefur þetta verið rannsakað.  Niðurstaðan er sú að óstundvísir séu farsælli í lífinu og lifi lengur.  Þeir eru bjartsýnni og afslappaðri.  Eiga auðveldara með að hugsa út fyrir boxið og sjá hlutina í stærra samhengi.  Eru ævintýragjarnari og eiga fleiri áhugamál.  5 mínútur til eða frá skipta engu máli.  Þeir þurfa ekki langtímaplan til að bóka flug, hótelgistingu, rútu eða lest.  Taka bara næsta flug.  Ef það er uppbókað þá hlýtur að vera laust sæti í þarnæsta flugi.  Ekki málið.  Engin ástæða til að "gúgla" veitingahús á væntanlegum áfangastað.  Því síður að bóka borð.  Eðlilegra er að skima aðeins í kringum sig kominn á staðinn.  Láta ókunnugt veitingahús koma sér á óvart.  Skyndibiti í næstu sölulúgu kemur líka til greina.  Þannig hlutir skipta litlu máli.  Peningar líka.  

  Önnur rannsókn hefur leitt í ljós að sölumenn sem skora hæst í bjartsýnimælingu selja 88% meira en svartsýnir.  Samanburður á A fólki (ákaft, óþolinmótt) og B fólki (afslappað, skapandi hugsun, óstundvísi) sýnir ólíkt tímaskyn.  A fólk upplifir mínútu sem 58 sek.  B fólkið upplifir hana sem 77 sek.  A fólk er mun líklegra til að fá kransæða- og hjartasjúkdóma.


Allt er þá þrennt er

  Útlendir ferðamenn á Íslandi hafa stundum á orði að Ísland sé mjög ameríkanserað.  Hvert sem litið er blasi við bandarískar keðjur á borð við KFC,  Subway,  Dominos og svo framvegis.  Í matvöruverslunum svigni hillur undir stæðum af bandarísku morgunkorni, bandarísku sælgæti og ropvatni á borð við Coca-Cola, Pepsi og Sprite.  Ekkert nema gott um það að segja.

  Á skjön við þetta gerðust um árið þau undur að flaggskip bandarísks ruslfæðis,  McDonalds,  kafsigldi á Íslandi.  Var það í fyrsta skipti í sögunni sem McDonalds hrökklaðist úr landi vegna dræmra viðskipta.  

  Nokkru síðar hvarf keppinauturinn Burger King á braut af sömu ástæðu.  Nú er röðin komin að Dunkin Donuts á kveðja.  Krummi í Mínus og frú voru forspá er þau köstuðu kveðju á kleinuhringjastaðinn við opnun.  Svo skemmtilega vill til að þau eru að opna spennandi veitingastað í Tryggvagötu,  Veganæs.  Bæ, bæ Dunkin Donuts.  Helló Veganæs!

krummi mótmælir DD


mbl.is Loka Dunkin' Donuts á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegt klúður lífeyrissjóðanna

 

  Fyrir nokkru tóku lífeyrissjóðir upp á því að fjárfesta í Skeljungi.  Svo virðist sem það hafi verið gert í blindni;  án forskoðunar.  Einhverskonar trú á að svo gömul og rótgróin bensínsala hljóti að vera gullnáma.  Á sama tíma hefur rekstur Skeljungs hinsvegar verið afar fálmkenndur og klaufalegur - með tilheyrandi samdrætti á öllum sviðum.

  Starfsmannavelta er hröð.  Reynslulitlum stjórnendum er í mun um að reka reynslubolta.  Þeir fá einn eða tvo klukkutíma til að taka saman eigur sínar og pilla sig á brott.  Engu að síður eru þeir á biðlaunum næstu mánuðina án vinnuframlags.  Í mörgum tilfellum taka þeir með sér dýrmæta þekkingu og viðskiptasambönd.

  Fyrr á árinu kynnti Skeljungur væntanlega yfirtöku á 10-11 matvörukeðjunni.  Þar var um plat að ræða.  Til þess eins ætlað að fráfarandi eigendur gætu selt lífeyrissjóðum hlutabréf sín á yfirverði.

  Í vetrarbyrjun var nýr forstjóri ráðinn.  Þar var brotin hefð og gengið framhjá fjórum framkvæmdastjórum fyrirtækisins á Íslandi.  Þess í stað var það sett undir framkvæmdastjóra færeyska dótturfélagsins,  P/F Magn.  Frá 1. okt hefur Skeljungi verið fjarstýrt frá Færeyjum.

  Nýjustu viðbrögð við stöðugum samdrætti eru að sparka 29 starfsmönnum á einu bretti:  9 á aðalskrifstofu og öllum á plani.  Héðan í frá verða allar bensínstöðvar Skeljungs án þjónustu.  Það þýðir enn frekari samdrátt.  Fólk með skerta hreyfigetu vegna fötlunar eða öldrunar hverfur eins og dögg fyrir sólu af bensínstöðvum Skeljungs.  

  Í gær sá ég einhentan mann leita ásjár hjá stafsmanni 10-11 við að dæla bensíni á bílinn.  Sá má ekki vinna á plani.  Meðal annars vegna þess að þar er hann ótryggður fyrir slysum eða öðrum óhöppum.  

  Liggur nærri að brottrekstur 29 starfsmanna sé um þriðjungs samdráttur.  Eftir sitja um 30 á aðalskrifstofu og um 30 aðrir á launaskrá.  Hinir brottreknu eru svo sem líka á launaskrá eitthvað fram á næsta ár.  Til viðbótar er mér kunnugt um að einhverjir af þeim sem eftir sitja hyggi á uppsögn út af öllu ruglinu.  Afar klaufalega var að öllu staðið.  Til að mynda var sölustjóra efnavara sparkað.  Hann var eini starfsmaður fyrirtækisins með haldgóða þekkingu á efnavörunum.  Það sýndi sig í hvert sinn sem hann fór í frí.  Þá lamaðist efnavörusalan á meðan.  Nú lamast hún til frambúðar.

  Einhver kann að segja að Skeljungur hafi skorað stig með því að ná bensínsölu til Costco.  Hið rétta er að skorið skilar ekki fjárhagslegum ávinningi.  Þar er um fórnarkostnað að ræða til að halda hinum olíufélögunum frá Costco.  Nú fá þau olíufélög fyrirhafnarlaust í fangið alla bílstjóra með skerta hreyfigetu.  Spurning hve eigendum lífeyrissjóðanna þykir það vera góð ávöxtun á þeirra peningum.  

caution


mbl.is „Ekki bara hægt að benda á Costco“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.