Álit ferðamanns

  Oft er gaman að heyra eða lesa hvernig útlendir ferðamenn upplifa Ísland.  Á netmiðlinum quora.com spyr ung kona frá Singapore í fyrirsögn:  "Hve dýrt er Ísland?"  Hún svarar sér:  "Stutta svarið er mjög."

  Hún fór í 8 daga hringferð um Ísland.  Kíkti á Vestfirði í leiðinni.  Hún var í 5 manna hópi sem tók jeppa á leigu.  Leigan var 134.200 kall.  Hún hvetur aðra túrhesta á Íslandi til að ferðast saman í hópi til að halda kostnaði niðri.  Jafnframt hvetur hún til þess að keypt sé bílatrygging.  Framrúðan í bílnum sprakk vegna steinkasts.

  Bensínkostnaður var 48.800 kr.  Á veitingastöðum kostar aðalréttur um 3660 kr. Á móti vegur að bensínsjoppur selja heitt ruslfæði á borð við pylsur, hamborgara og franskar.  Kostnaður er á bilinu 976 til 1220 kall.  Mín athugasemd:  Hið rétta er að pylsa kostar víðast á bilinu 400 - 450 kall. Kannski þarf 2 pylsur til að teljast vera máltíð?

  Daman bendir á að hægt að kaupa samlokur í Bónus-verslunum.  Sumar álíka verslanir selji líka heitan mat.  Sennilega er hún að vísa til Krónunnar sem selur heitan kjúkling, sviðakjamma og þurusteik.

  Gistikostnaður hverja nótt á mann var 9760 kall á mann. Notið greiðslukort,  segir hún.  Íslenskar krónur eru verðlausar utan Íslands.    

  Niðurstaða hennar:  Já, Ísland er dýrt.  En hverrar krónu virði!  

kerry teo        

  

   


Vönduð og metnaðarfull plata

 - Titill:  Oddaflug

 - Flytjandi:  Kalli Tomm

 - Einkunn:  ****

  Lengst af var Karl Tómasson þekktur sem trommuleikari Gildrunnar.  Fyrir fjórum árum eða svo hóf hann farsælan sólóferil;  sendi frá sér plötuna Örlagagaldur.  Þar kom hann fram sem hörkugóður söngvari og prýðilegt söngvaskáld.  Örlagagaldur varð ein söluhæsta plata þess árs.   Nokkuð óvænt vegna þess að ekkert einstakst lag af henni varð stórsmellur.  Þess í stað var það platan í heild sem hlaut svona vænar viðtökur.

  Oddaflug er önnur sólóplata Kalla.  Eðlilega sver hún sig í ætt við Örlagagaldur.  Tónlistin er í humátt að norrænum vísnasöng í bland við rokkaða spretti.  Þetta fléttast skarpast saman í opnulaginu,  Kyrrþeyrinn andar.  Fyrri hlutinn er ljúfur og áferðarfagur óður til náttúrunnar.  Um miðbik skellur óvænt á kröftugur rokkkafli.  Í niðurlagi taka rólegheitin aftur við.  Útkoman er hið ágætasta prog. 

  Þrátt fyrir rafmagnaða rokktakta er heildarsvipur plötunnar lágstemmdur,  yfirvegaður og hátíðlegur.  Sjö lög af tíu eru frumsamin.  Þar af eitt samið með Tryggva Hubner og annað með Guðmundi Jónssyni.  Hann á að auki annað lag og texta.  Tvö eru eftir Jóhann Helgason. 

  Textarnir hafa innihald og geta staðið sjálfstæðir sem ljóð.  Fjórir eru ortir af Bjarka Bjarnasyni - einn ásamt Guðmundi Jónssyni.  Hjördís Kvaran Einarsdóttir er höfundur tveggja.  Jón úr Vör,  Jón Óskar og Líney Ólafsdóttir eiga sinn textann hvert.  Margir þeirra bera sameiginlegan trega og söknuð,  kasta fram spurningum um óvissa framtíð en boða þó von og trú á ástina.  

  Jóhann Helgason, Íris Hólm og Ingibjörg Hólm Einarsdóttir syngja á móti Kalla í sitthverju laginu.  Þau eru einnig í bakröddum ásamt Kalla sjálfum og fleirum.

  Gítarleikur er í höndum Kalla, Tryggva Hubner,  Guðmundar Jónssonar,  Þráins Árna Baldvinssonar og Sigurgeirs Sigmundssonar.  Hljómborðsleik afgreiða Kjartan Valdimarsson, Jón Ólafsson og Jakob Frímann Magnússon.  Bassa plokka Jóhann Ásmundsson,  Jón Ólafsson og Þórður Högnason.  Ásmundur Jóhannsson trommar og Sigurður Flosason blær í sax.  Þetta er skothelt lið.

  Umslagshönnun Péturs Baldvinssonar setur punktinn yfir i-ið;  glæsilegt listaverk.

  Vert er að taka fram að platan er frekar seintekin.  Þó hún hljómi vel við fyrstu spilun þá þarf hún að rúlla í gegn nokkrum sinnum áður en fegurð tónlistarinnar skilar sér í fullum skrúða.

oddaflug


Fátæklegt jólaskraut

  Gistiheimili sem ég dvaldi á í Toronto yfir jólin er staðsett í 2ja kílómetra fjarlægð frá miðborginni.  Engu að síður gat ég ekki þverfótað fyrir spennandi veitingastöðum og óspennandi verslunum af öllu tagi.  Ég tel mig lánsaman að hafa engan áhuga á verslunum - ef frá eru taldar matvöruverslanir sem selja vatn og dagblöð,  svo og búðir sem selja bjór.  

  Í Toronto er bjór seldur í the Beer Store.  Viðskiptavinurinn fær ekki að sjá neinn bjór þegar mætt er á svæðið.  Hann gengur að afgreiðsluborði og tilkynnir afgreiðslumanneskju hátt og skýrt hvaða bjór hann vill kaupa.  Afgreiðslumanneskjan bregður sér þá bak við luktar dyr.  Nokkru síðar birtist hún aftur með bjórkippur í gráum plastpoka. 

  Mér skilst að aðrar verslanir selji annarsvegar léttvín og hinsvegar sterkt vín.  Ég átti ekki erindi í þær.  Sannreyndi ekki dæmið.

  Í miðbæ Toronto var mikill og stórfenglegur jólamarkaður.  Yfirgengilegar jólaskreytingar í ýktasta stíl.  Þeim mun merkilegra er að þar fyrir utan fór lítið fyrir jólaskreytingum.  Á gistiheimilinu sem ég dvaldi á var í setustofu plastjólatré.  Um 1,5 metri á hæð.  Um 30 cm þar sem það var breiðast.  Ekkert skraut.   

  Á rölti mínu um nágrennið sá ég inn um glugga að sami stíll var í öðrum gistiheimilum og hótelum.  Óskreytt jólatré og engar aðrar jólaskreytingar.  Gengt gistiheimili mínu er vegleg verslunarmiðstöð (mall) með tilheyrandi matsölustöðum og verslunum.  Hvergi örlaði á jólaskreytingum.   

  Í Toronto máttu íbúar henda jólatrénu út á stétt 7. janúar.  Um leið máttu þeir henda út á stétt allskonar húsgögnum og tölvum.  Sorphirðan er til fyrirmyndar.

jólatré


Frétta- og fróðleiksþyrstir Kanadabúar

  Í Toronto er gefið út alvörugefið dagblað sem heitir Toronto Star.  Prentútgáfan selst í 319 þúsund eintökum að meðaltali.  Á laugardögum hoppar salan upp í 420 þús.  Merkilega góð sala í 6 milljón manna borg.  Að vísu reikna ég með að sala blaðsins nái út fyrir staðbundna borgina.  Þannig er það í Bandaríkjunum.  Dagblöð eins og New York Times og Washington Post eru seld víða um Bandaríkin.  Jafnvel utan Bandaríkjanna.  Til að mynda hefur verið hægt að kaupa þau í íslenskum ritfangaverslunum.

  Íbúar Bandaríkjanna eru 326 milljónir.  3ja fjölmennasta þjóð heims.  Til samanburðar er Kanada smáþjóð.  Íbúar 37 milljónir.  Þeim mun athyglisverðara er að söluhæsta bandaríska dagblaðið,  USA Today, selst "aðeins" í 957 þúsund eintökum.  

  Annað söluhæsta bandaríska dagblaðið,  New York Times,  selst í 572 þúsund eintökum aðra daga en sunnudaga.  Þá er salan 1,088 millj. 

  Söluhæsta dagblað Kanada heitir The Globe and Mail.  Salan á því er 337 þúsund eintök að meðaltali.  Þar af er laugardagsblaðið í 355 eintökum.  Rösklega fimmtungur kanadísku þjóðarinnar talar frönsku að móðurmáli.  Munar mestu um að í 8 milljón manna kanadíska fylkinu Quebec er franska ráðandi.  Dagblöð með frönskum texta seljast eins og heitar lummur.  Le Journal de Montreol selst í 233 þúsund eintökum að meðaltali.  Á laugardögum er salan 242 þús. 

  Eflaust segja sölutölur á kanadískum og bandarískum dagblöðum heilmikið um þjóðirnar.  Rétt er þó að undirstrika að hér er lagt út af prentmiðlum.  Öll dagblöðin eru einnig á netinu.  Þar eru þau seld í áskrift.  Einnig fá netsíður þeirra heimsóknir frá öðrum.  Útreikningar eru snúnir.  Talað er um þumalputtareglu:  Fyrir vestan haf megi margfalda heimsóknir á netsíður daglaða með 2,5 á prentað upplag til að fá út heildarneyslu dagblaðsins.. 

  Þetta er samt flóknara.  Við getum borið saman visir.is og mbl.is.  Þessar síður fá álíka mörg innlit.  Munurinn er sá að ýmist efni á mbl.is er aðeins aðgengilegt áskrifendum.  Þar fyrir utan er mikill munur á útbreiðslu prentmiðlanna.  Fréttablaðið nær til meira en tvöfalt fleiri en Morgunblaðið.

   Pappírsbrot kanadísku dagblaðanna er þannig að þau eru álíka breið og íslensk dagblöð.  En um þriðjungi hærri.  Efnisval er aðgreint í lausum "kálfum".  Það er þægilegt.  Þá er hægt að byrja á því að henda kálfunum "Sport" og "Business".   

 


Gleðilegt nýtt ár!

  Ég var í útlandinu.  Eins og jafnan áður þá fagna ég sigri ljóssins yfir myrkrinu í útlöndum.  Að þessu sinni hélt ég upp á hátíð ljóss og friðar í Toronto í Kanada.  Toronto er alvöru stórborg,  sú fjórða fjölmennasta í Norður-Ameríku.  Telur 6 milljónir íbúa.  Nokkuð vænn hópur.  Íbúar Kanada eru 37 milljónir.

  Toronto er friðsamasta og öruggasta borg í Ameríku.  Sem er merkilegt vegna þess að hún liggur upp við New York.  Þar kalla menn ekki allt ömmu sína þegar kemur að glæpatíðni.

  Þetta var mín fyrsta heimsókn til Kanada.  Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað bresk áhrif eru mikil þarna.  Munar þar einhverju um að æðsti þjóðhöfðingi Kanada er breska drottningin.  Mynd af henni "prýðir" 20 dollara seðilinn.  Fleiri Breta má finna á öðrum dollaraseðlum.  

  26 desember er stór dagur í Bretlandi.  Hann heitir "Boxing Day".  Þá ganga Bretar af göflunum.  Breskar verslanir losa sig við afgangslager;  kýla niður verð til að geta byrjað með hreint borð á nýju ári.  Viðskiptavinir slást um girnilegustu kaup.  Þaðan dregur dagurinn nafn sitt.  

  Í Kanada heitir 26. desember líka "Boxing Day".  Í Toronto er hamagangurinn ekki eins svakalegur og í Bretlandi.  Í og með vegna þess að fjöldi kanadískra verslana auglýsir og eru merktar stórum stöfum "Boxing Week".  Lagerhreinsunin varir til og með 1. janúar.

 Margir veitingastaðir bjóða upp á enskan morgunverð.  Það er svo sem ekki bundið við Kanada.  Hérlendis og víða erlendis má finna veitingastaði sem bjóða upp á enskan morgunverð.  En það er bresk stemmning að snæða í Kanada enskan morgunverð og fletta í leiðinni dagblaðinu Toronto Sun.  Það er ómerkilegt dagblað sem tekur mið af ennþá ómerkilegra dagblaði,  breska The Sun.  Þetta eru óvönduð falsfrétta slúðurblöð.  Kanadíska Sun reynir pínulítið að fela stælinguna á breska Sun.  Breska Sun er þekkt fyrir "blaðsíðu 3".  Þar er ljósmynd og kynning á léttklæddum stelpum.  Oft bara á G-streng einum fata.  Í Toronto Sun er léttklædda stelpan kynnt í öftustu opnu.     

  Meira og mjög áhugavert varðandi kanadísk dagblöð í bloggi helgarinnar.    


Gleðileg jól!

Heims um ból

halda menn jól;

heiðingjar, kristnir og Tjallar.

Uppi á stól

stendur í kjól

stuttklipptur prestur og trallar.


Veitingaumsögn

 - Staður:  Sægreifinn

 - Staðsetning:  Geirsgata 8 í Reykjavík

 - Réttur:  Kæst skata

 - Verð:  2350 kr.

 - Einkunn: ****

  Sægreifinn er skemmtilega hrár veitingastaður með sterkan persónuleika (karakter).  Hann er í senn "heimilislegur" og heillandi.  Andi stofnandans,  Kjartans Halldórssonar,  svífur yfir og allt um kring.  Hann var bráðskemmtilegur og magnaður náungi sem gustaði af.  Féll frá 2015.  Í hans tíð var ánægjuleg ábót við góða máltíð að ræða sjávarútvegsmál við hann.  Alltaf var stutt í húmorinn.  Hann sá broslegu hliðarnar í bland við annað.

  Eitt af sérkennum Sægreifans hefur verið og er að bjóða upp á kæsta skötu og siginn fisk.  Skata er svipuð frá einum veitingastað til annars.  Hjá Sægreifanum er hún frekar mild.  Með á disknum eru saltfisksbitar,  kartöflur,  hamsar og tvær rúgbrauðssneiðar með smjöri.  Í eftirrétt er hrísgrjónagrautur með rjóma og kanil,  kenndur við Steingrím Hermannsson,  fyrrverandi forsætisráðherra.  

  Einn af mörgum kostum Sægreifans er hófleg verðlagning.  Enginn veitingastaður á höfuðborgarsvæðinu býður upp á hagstæðara verð á skötumáltíð í ár. 

  Ég geri tvær athugasemdir við skötu Sægreifans:  Annarsvegar er skammturinn alltof ríflegur.  Það er ekki möguleiki að torga nema helmingi hans.  Þrátt fyrir að troða í sig löngu eftir að maður er orðinn saddur.  Hinsvegar sakna ég þess að fá ekki rófubita með.  Í sælli minningu á ég kæsta skötu á Sægreifanum með rófubita. 

skatasægreifinnsægreifinn b


Veitingaumsögn

 - Veitingastaður:  Rakang

 - Staðsetning:  Hraunbær 102A í Reykjavík

 - Réttur:  Tælenskt hlaðborð

 - Verð:  2000 / 2800 kr. 

 - Einkunn:  ****

  Rakang er tælenskur veitingastaður,  staðsettur í sama húsnæði og áður hýsti veitingastaðinn Blástein.  Hann rak Ásgeir heitinn Hannes Eiríksson.  Þetta er rúmgóður staður sem skiptist upp í nokkra sali.  Á góðum helgardegi var boðið upp á dansleiki.  

  Fyrir ókunnuga er erfitt að finna staðinn.  Hraunbær 102 teygir sig yfir nokkur hús í grennd við Orku bensínsölu.  Til að finna 102a þarf að keyra niður fyrir eitt húsið. 

  Asísk hlaðborð eru hvert öðru lík.  Enda eru þau iðulega blanda af tælenskum mat, víetnömskum og kínverskum.  Hlaðborðið á Rakang samanstendur af kjúklingabitum í sósu,  þunnt skornu nautakjöti í sósu,  djúpsteiktum svínakjötstrimlum,  djúpsteiktum fiski,  djúpsteiktum vængjum og tveimur núðluréttum með grænmeti.  Meðlæti eru hvít hrísgrjón,  græn karrýsósa,  rauð karrýsósa og súrsæt sósa. 

  Maturinn er bragðmikill og góður.  Á borðum eru flöskur til að skerpa enn frekar á bragði.  Þær innihalda soyja sósu,  sterka chilli sósu og sterka mayones sósu.

  Enginn laukur er í matnum,  ólíkt því sem algengt er í asískum mat.  Þeim mun meira er af grænmeti á borð við gulrætur, papriku og blómkáli. 

  Í hádegi er hlaðborðið á 2000 kr.  Á kvöldin er það 2800 kall.  Innifalið er kaffi og gosdrykkir.

  Ljósmyndirnar njóta sín betur ef smellt er á þær.

rakang hlaðborð Grakang hlaðborð IRakangtai


Keith Richards hættur að drekka

  Enski gítarleikarinn Keith Richards hefur sett tappann í flöskuna.  Hann er best þekktur fyrir að spila í the Rolling Stones.  Áratugum saman neytti hann eiturlyfja af öllu tagi ásamt því að vera meira og minna blindfullur í bland.

  Keith verður 75 ára núna 18. desember.  Fyrir nokkrum árum lagði hann eiturlyfin á hilluna.  Ástæðan var sú að þau veittu honum ekki sömu vímu og áður.  Hann vildi meina að eiturlyfin í dag séu ómerkileg og blönduð fylliefnum.  Áður hafi þau verið hrein og góð og gefið snarpa vímu.

  Nú hefur Keith staðfest við bandaríska tímaritið Rolling Stone að hann sé hættur að drekka áfengi.  Reyndar sé hann búinn að vera edrú í heilt ár.  Hann segir þessa ákvörðun ekki hafa breytt neinu.

  Hinn gítarleikari Stóns,  Ronny Wood, er á öðru máli.  Keith sé miklu ljúfari í dag og jákvæðari gagnvart nýjum hugmyndum.  Áður gnísti hann tönnum.  Núna tekur hann uppástungum opnum örmum með orðinu:  "kúl!"  

  Keith viðurkennir að þrátt fyrir að hann sé hættur að drekka þá sötri hann bjór og fái sér léttvín. 

keith 


Flottar augabrúnir - eða þannig

  Fagurlega mótaðar augabrúnir eru höfuðprýði.  Þetta vita konur - umfram karlmenn (þeir taka yfirleitt ekki eftir augabrúnum).  Á síðustu árum hefur færst í vöxt að konur skerpi á lit augabrúnanna.  Jafnvel með því að láta húðflúra þær á sig.  Sumar nota tækifærið og breyta lögun þeirra og/eða færa þær úr stað.  

  Hér eru nokkur skemmtileg dæmi:

augabrúnir haugabrúnir gaugabrúnir faugabrúnir e    


Stam

  Í síðustu viku var ég í viðtali á Útvarpi Sögu,  hjá Pétri Gunnlaugssyni.  Nokkru síðar hringdi í mig kunningi.  Hann var þá búinn að hlusta á spjallið í tvígang og hafði gaman af.  Hinsvegar sagðist hann taka eftir því að stundum komi eins og hik á mig í miðri setningu,  líkt og ég finni ekki rétta orðið.

  Ég upplýsti hann um að ég stami.  Af og til neita talfærin að koma strax frá sér tilteknum orðum.  Á barnsaldri reyndi ég samt að koma orðinu frá mér.  Þá hjakkaði ég á upphafi orðsins,  eins og spólandi bíll.  Með aldrinum lærðist mér að heppilegri viðbrögð væru að þagna uns ég skynja að orðið sé laust.  Tekur aldrei lengri tíma en örfáar sekúndur. 

  Þetta hefur aldrei truflað mig.  Ég hugsa aldrei um þetta og tek yfirleitt ekki eftir þessu.


Kinnasleikir

  Lengi er von á einum.  Nú hefur Óli kinnasleikir bæst við í skrautlega flóru íslenskra jólasveina.  Störfum hlaðin kynferðisbrotadeild ríkiskirkjunnar rannsakaði málið:  Komst hægt og bítandi að niðurstöðu;  um að háttsemi jólasveinsins falli undir eitt af mörgum fjölskrúðugum kynferðislegum áreitum og ofbeldi kirkjunnar þjóna.  Kinnasleikir vill frekar telja þetta til almennra þrifa.  Svona sé algengt.  Einkum meðal katta. 

 

 


Þegar Birgitta snéri mig niður

  Nú standa öll spjót úti.  Þau beinast að rithöfundinum og tónlistarkonunni Birgittu Haukdal.  Hún hefur skrifað barnabækur um Láru.  Hún leggur sig fram um að breyta eða leiðrétta staðalímynd telpna.  Sem er gott mál. Ég ætla að gefa mínum barnabörnum þessar bækur. Nema hvað að í nýjustu bókinni kemur fyrir úrelt orð, hjúkrunarkona.  Um það snýst fjaðrafokið.  Hjúkrunarfræðingum þykir gróflega að sér vegið.  Þeir eru miður sín.

  Birgittu er eðlilega brugðið við hin hörðu viðbrögð.  Hún harmar mistökin og lofar að þetta verði lagað í næstu prentun. 

  Ég þekki ekki Birgittu.  Hef aldrei talað við hana né hitt hana.  Hinsvegar varð mér á að blogga um hana skömmu fyrir jólin 2007, fyrir 11 árum.  Hún kom fram í sjónvarpsþætti.  Með vanþroskuðum galgopahætti reyndi ég að vera fyndinn á hennar kostnað;  bullaði eitthvað um sjálfbrúnkukrem hennar. 

  Tveimur dögum síðar barst mér í hendur jólakort frá henni.  Þar afvopnaði hún mig til lífstíðar.  Steinrotaði mig með óvæntum viðbrögðum.  Síðan hef ég ekki og mun aldrei segja né skrifa neitt neikvætt um hana.  Það er mikið varið í manneskju sem tæklar ókurteisi í sinn garð svona glæsilega.  Í kortinu stóð: 

  "Elsku Jens Guð (teikning af hjarta). Ég óska þér gleðilegra jóla og vona að þú hafir það yndislegt. Þín Birgitta H.  P.s. Töfrakremið heitir Beautiful 4 ever (brosmerki)."

birgitta Haukdal

 

 

 


Uppfinningar sem breyta lífi þínu

  Japanir eru allra manna iðnastir við að finna upp gagnlega hluti.  Það er eins og þeir geri ekkert annað allan daginn.  Hugmyndaflugið er ótakmarkað.  Hér eru nokkur snjöll sýnishorn af vörum sem hafa ekki borist til Evrópu.  Bara tímaspursmál um daga fremur en ár. 

sólarorkukveikjari

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sólarorkukveikjarinn sparar bensín og fé.  Margnota líftíðareign.  Fer vel í stóra vasa.

augndropatrekt

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Augndropar eru til stöðugra vandræða.  Þeir hitta ekki á augað.  Lenda upp á enni eða niður á kinn.  Þar fer dýr dropi til spillist.  Augndropatrektin leysir málið.  Snilldin felst í því að trektinni er haldið stöðugri með því að vera föst við gleraugu.  Gleraugun tryggja að dropinn lendi á mitt augað. 

bananabox

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Banani er hollastur þegar hann er vel þroskaður;  orðinn mjúkur og alsettur svörtum deplum.  Í því ástandi fer hann illa í vasa.  Klessist og atar vasann.  Bananaboxið er lausnin.  Það er úr þunnu og léttu plasti og varðveitir lögun ávaxtarins.  Algengt er að fólki með mikið dót í öllum vösum rugli öllu saman;  man ekki stundinni lengur hvað er hvað.  Bananaboxið lítur út eins og banani.  Enginn ruglast á því.  

melónur sem staflast vel

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Vatnsmelónur eru plássfrekar í verslunum og í flutningum.  Þær staflast illa;  kringlóttar og af öllum stærðum.  Japanir hafa komist upp á lag með að rækta þær ferkantaðar.  Þær eru ræktaðar í kassa.  Þannig eru þær jafnframt allar jafn stórar.  

vatnsmelóna 


Smásaga um hjón

  Jón og Gunna höfðu verið gift í átta ár.  Þau voru barnlaus.  Sem var í góðu lagi.  Þau söfnuðu peningum í staðinn.  Það kostar ekkert að vera barnlaus.  Að því kom að þau langaði til að gera eitthvað skemmtilegt.  Formlegur fjölskyldufundur var settur og farið yfir málið.  Eða öllu heldur hjónafundur. 

  Gunna hafði lært fundarsköp á námskeiði.  Hún var því sjálfkrafa ritari fundarins.  Jón var einróma kjörinn formaður. 

  Svo vildi til að Jón og Gunna höfðu fyrir sið að borða á veitingastað fyrsta sunnudag hvers mánaðar.  Eftir að skauta á milli fjölbreyttra veitingastaða varð að sið að snæða á asískum stað.  Jón uppgötvaði að asískur matur var og er hans uppáhald.  Í lok hverrar máltíðar á asískum veitingastað byrjaði hann að hlakka til næstu heimsóknar á asískan veitingastað.  Var friðlaus.  Nagaði eldspýtur og tannstöngla til að slá á tilhlökkunina.  Eitt sinn nagaði hann skóreim. 

  Hjónafundurinn skilaði niðurstöðu.  Hálfsmánaðarlangri ferð til Peking í Kína.  Jón kumraði við hverja máltíð þar.  Hótelið sem þau bjuggu á var vel staðsett.  Sitt hvoru megin við það voru veitingastaðir og fjöldi verslana af öllu tagi.  Þarna uppgötvaðist að Gunna hefur lítið áttaskyn.  Ítrekað villtist hún þegar hún skrapp í næstu búð eftir gosdrykk eða súkkulaði.  Týndist jafnvel klukkutímum saman.  Alveg áttavillt.   

  Svo skemmtilega vildi til að skömmu eftir heimkomu til Íslands uppgötvaðist að Gunna var ólétt.  Hún fæddi barn sléttum 9 mánuðum síðar.  

  Jóni var verulega brugðið er hann sá barnið.  Það bar sterk útlitseinkenni kínversks barns.  Fyrstu viðbrögð voru að snöggreiðsast.  Hann hrópaði hamslaus af reiði á Gunnu:  "Hvað er í gangi?  Af hverju er barnið kínverskt?"  Hann hefði lagt hendur á Gunnu ef hann hefði ekki í æsingnum runnið til á gólfmottu og skollið flatur á bakið á gólfið. 

  Ókurteisin lagðist illa í Gunnu.  Hún sló til Jóns með inniskó - frekar ljótum - og svaraði:  "Við hverju bjóst þú eiginlega?  Étandi kínverskan mat í öll mál?  Vitaskuld ber barn okkar einkenni þess!

  Jón áttaði sig þegar í stað á því að þetta var rétt.  Hann varð skömmustulegur,  niðurlútur og sagði - skríðandi á fjórum fótum:  "Gunna mín,  ég biðst innilega fyrirgefningar á framkomu minni.  Þetta er rétt hjá þér.  Ég mun refsa mér fyrir ruddaskapinn með því að klæða mig úr öllum fötum og velta mér nakinn upp úr snjóskafli."  Það gerði hann.  Nágrönnum til töluverðrar undrunar.

kínverska barnið

           

 

   


Fóstureyðingar í Færeyjum

 

 

  Um þessar mundir eru fóstureyðingar fyrirferðamiklar í umræðunni hér - eða þungunarrof eins og fyrirbærið er einnig kallað.  Ástæða umræðunnar er sú að verið er að breyta lögum;  rýmka og lengja heimild til verknaðarins fram að 23. viku meðgöngu.

  Forvitnilegt er að bera saman á milli landa fjölda fóstureyðinga á ári.  Færeyingar skera sig rækilega frá öðrum norrænum löndum.  Í fyrra voru 19 fóstureyðingar þar.

  Berum saman hve margar fóstureyðingar eru á móti hverjum 1000 börnum sem fæðast.  Listinn er þannig:

Grænland 1030

Svíþjóð 325

Danmörk 264

Ísland 253

Noregur 224

Finnland 177

Færeyjar 29

  Þessi samanburður undirstrikar að Færeyjar eru mesta velsældarríki heims.  Annar listi sem styður það er hversu mörg börn hver kona eignast að meðaltali:

Finnland 1,5

Noregur 1,6

Ísland 1,7

Danmörk 1,75

Svíþjóð 1,8

Grænland 2,0

Færeyjar 2,5

 


Hvers vegna þessi feluleikur?

  Á níunda áratugnum vann ég á auglýsingastofu.  Einn daginn kom Ingvar Helgason á stofuna.  Hann rak samnefnda bílasölu.  Hann sagðist vera að gera eitthvað vitlaust.  Hann væri búinn að kaupa fjölda heilsíðuauglýsinga í dagblöðunum um tiltekinn bíl án viðbragða.  

  Þegar ég skoðaði auglýsingarnar blasti vandamálið við.  Í þeim var bíllinn lofsunginn í bak og fyrir.  Hinsvegar vantaði í auglýsingarnar hver væri að auglýsa;  hver væri að selja bílinn.  Lesandinn gat ekki sýnt nein viðbrögð.

  Ég á fleiri sögur af fyrirtækjum sem auglýsa hitt og þetta án upplýsinga um það hver er að auglýsa og hvar hægt er að kaupa auglýstu vöruna.  

  Í vikunni birtist í Fréttablaðinu heilsíðuauglýsing undir fyrirsögninni "Combo-tilboð".  Þar voru myndir af mat og drykk,  brauðmeti og allskonar á tilboðsverði.  Það er að segja lækkuðu verði - að því er má skiljast.

  Undir auglýsinguna er kvittað "netgíró Kvikk".  Ekkert heimilisfang.  Engin vísbending um hvort um er að ræða sjoppu á Reyðarfirði eða í Keflavík,  Stokkseyri eða Hofsósi.

Ég sló inn netgíró.is. Fyrirbærið reyndist vera einhverskonar peningaplottsdæmi.  Lánar pening,  gefur út greiðslukort og hengir fólk eða eitthvað.

  Ég sló inn "kvikk.is".  Þar reyndist vera bifreiðaverkstæði.  Eftir stendur að ég hef ekki hugmynd um hver er að selja pylsu og gos á 549 kall.  Þangað til ég kemst að því kaupi ég pylsu og gos í Ikea á 245 kall.  Spara 304 krónur í leiðinni.    

pylsa og gos

    


Magnaðar styttur

  Á áttunda áratugnum söng hljómsveitin Spilverk þjóðanna um "styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á."  Hitti þar naglann á höfuðið eins og oft fyrr og síðar.  Íslenskar styttur eru svo ljótar og óspennandi að fólk nennir ekki að horfa á þær. 

  Í útlöndum er að finna styttur sem gleðja augað.  Hér eru nokkur dæmi.  Ef þú smellir á myndirnar þá stækka þær og staðsetning birtist.

Stytta SkotlandiStytta Nýja-Sjálandi

 

Stytta  BrooklynStytta BrusselStytta ChileStytta DallasStytta DúbaiStytta EnglandiStytta Írlandi


Hugljúf jólasaga

  Sveinn hét maður. Hann var stórskorinn, brúnaþungur en hokinn í herðum;  nefið breitt og eyru útstæð.  Hann var náfrændi fjarskylds ættingja síns vestur á fjörðum. Þeir þekktust ekkert og eru nú báðir úr sögunni.

  Víkur þá sögu að vinnufélögunum Kolla og Tóta. Að löngum vinnudegi loknum plataði Kolli Tóta til að skutla sér heim. Gulrótin sem hann notaði var að lofa Tóta að bjóða honum upp á kaffi og döðlu. Sem hann sveik þegar á reyndi. Hann átti ekki einu sinni döðlu. Komnir heim að hrörlegum tveggja hæða kofa Kolla sótti hann stiga sem lá við húshliðina og reisti hann upp við framhliðina.

  - Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.

  - Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.

  Kolli brá við skjótt og sparkaði í gegnum rúðu í kjallaraglugga. Hún mölbrotnaði. Hann gerði sig líklegan til að skríða inn um opið. Tóti kallaði:

  - Ertu ekki með lykil að útidyrunum?

  - Jú, en mér þykir skemmtilegra að fara svona inn í húsið. Reyndar eru útidyrnar ólæstar. Nú fæ ég nóg að gera við að setja nýja rúðu í kjallaragluggann. Alltaf gott að hafa eitthvað fyrir stafni. Vinna göfgar.

  - En hvað með stigann?

  - Það er ekkert með hann. Bara reisn yfir því að sjá myndarlegan mann styðja við stiga sem enginn er að nota.

  Í þeim töluðu orðum stakk Kolli sér inn um gluggann. Hann veinaði skrækum rómi er glerbrotin skáru í útlimi. Svo hlunkaðist hann blóðrisa á gólfið. Samstundis spratt hann upp eins og stálfjöður; stangaði vegg, rotaðist í tæpar tvær mínútur og stakk síðan ringluðu höfðinu út um gluggann. Þeir félagarnir brustu þegar í stað í kröftugan söng svo undir tók í fjöllunum: "Bráðum koma blessuð jólin..."

jólatré


Hvað segir músíksmekkurinn um þig?

  Margt mótar tónlistarsmekk.  Þar á meðal menningarheimurinn sem manneskjan elst upp í,   kunningjahópurinn og aldur.  Líkamsstarfsemin spilar stórt hlutverk.  Einkum hormón á borð við testósteron og estrógen.  Þetta hefur verið rannsakað í bak og fyrir.  Niðurstaðan er ekki algild fyrir alla.  Margir laðast að mörgum ólíkum músíkstílum.  Grófa samspilið er þannig:

  - Ef þú laðast að meginstraums vinsældalistapoppi (Rihanna, Justin Bieber...) er líklegt að þú sért félagslynd manneskja, einlæg og ósköp venjuleg í flesta staði.  Dugleg til vinnu og með ágætt sjálfsálit.  En dálítið eirðarlaus og lítið fyrir skapandi greinar. 

  - Rappheimurinn hefur ímynd ofbeldis og árásarhneigðar.  Engu að síður leiða rannsóknir í ljós að rappunnendur eru ekki ofbeldisfyllri eða ruddalegri en annað fólk.  Hinsvegar hafa þeir mikið sjálfsálit og eru opinskáir. 

  - Kántrýboltar eru dugnaðarforkar,  íhaldssamir,  félagslyndir og í góðu tilfinningalegu jafnvægi. 

  - Þungarokksunnendur eru blíðir,  friðsamir,  skapandi,  lokaðir og með frekar lítið sjálfsálit. 

  - Þeir sem sækja í nýskapandi og framsækna tónlist (alternative, indie...) eru að sjálfsögðu leitandi og opnir fyrir nýsköpun,  klárir,  dálítið latir,  kuldalegir og með lítið sjálfsálit.   

  -  Unnendur harðrar dansmúsíkur eru félagslyndir og áreiðanlegir.

  -  Unnendum klassískrar tónlistar líður vel í eigin skinni og eru sáttir við heiminn,  íhaldssamir,  skapandi og með gott sjálfsálit. 

  -  Djassgeggjarar,  blúsarar og sálarunnendur (soul) eiga það sameiginlegt að vera íhaldssamir,  klárir,  mjög skapandi með mikið sjálfstraust og sáttir við guði og menn.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband